,,Nýfrjálshyggja" ?

 

Ekki er allt vandað sem sett er fram í netheimum.  Ég rakst á úrklippu úr bloggi Guðumundar Gunnarssonar verkalýðsforkólfs í Viðskiptablaðinu á föstudaginn var, of fannst mér stóryrði, upphrópanir og lítil þekking á þeim málum sem um er fjallað einkenna málflutning hans.  Orðræðan minnti óneitanlega á umræðuna um fiskveiðastjórnunina undanfarna áratugi.

Við skulum byrja á þar sem Guðmundur lýkur máli sínu með spádómi um endalok ,,nýfrjálshyggjunnar"  Maður verður að gera þá lágmarkskröfu til þeirra sem vilja gera sig gildandi í umræðu um t.d. efnahagsmál, að þeir skilgreini ný hugtök sem ekki eru þekkt eða viðurkennd fyrir.  Ekki þekki ég neina skilgreiningu á ,,nýfrjálshyggju" og hef ekki hugmynd um hvað það hugtak stendur fyrir.  En þetta er einhver óskilgreindur hópur manna sem hefur með bíræfnum hætti hefur höndlað með fyrirtæki og sjóði í almenningseigu sem hinn vinnandi maður hefur komið upp með brauðstriti sínu.  Guðmundur nefnir þarna lífeyrissjóði, Eimskip, Orkuveituna og Flugleiðir.  Ég verð nú að viðurkenna að ég skil ekkert hvað hann er að fara.

Ég sem frjálshyggjumaður er svolítið órólegur yfir skyldleika hugtaka eins og ,,frjálshyggja" og ,,Nýfrjálshyggja" og velti því fyrir mér hvort þau tengist á einhvern hátt og ég sé kannski ábyrgur fyrir öllum þeim ósköpum sem Guðmundur nefnir.  Frjálshyggja er skilgreind þannig að það séu viðhorf einstaklinga sem trúi á frelsi og réttlæti.  Yfirvöld hafi eins lítil afskipti af einstaklingum og mögulegt sé til að halda uppi lögum og reglu og engum sé mismunað.  Það þíðir að þjóðfélag sem virðir ekki jafnrétti kynjanna, sem dæmi, er ekki frjálshyggjumönnum að skapi.

En hvað er þessi ,,Nýfrjálshyggja"  Einhverjir hafa verið að tala um stjórnarfarið í Kína í því sambandi, en þá hefur það ekkert við klassíska frjálshyggju að gera.  Ekkert í stjórnarfari Kínverja tengist frelsi og jafnrétti.

Guðmundur nefnir skattalækkanir sem hin miklu hagstjórnarmistök þar sem yfirvöld hefðu átt að skattleggja almenning meira, leggja í sjóði til að greiða niður kreppuna sem nú er skollinn á.  Þarna greinir á milli vinstri og hægri í stjórnmálum.  Það kemur ekki á óvart að kommúnistar og sjósíalistar vilji hafa skatta háa, og hafi ofurtrú á visku stjórnmálamanna í að ráðstafa fjármunum.  En þarna verður Guðmundi tvísaga, því að á sama tíma og hann treystir stjórnmálamönnum best til að stýra fjármálum almennings, þá treystir hann ráðamönnum á Íslandi alls ekki.  Reyndar er greininn að mestu orðskrúð og upphrópanir sem gerir hana óskiljanlega, að öðru leiti en því að höfundur er mjög pirraður, pólitískt séð.  Hinsvegar nær hann ekki að skilja viðfangsefnið né tjá sig um efnahagsmálin.  Ef hann heldur að marg-umrætt erlent lán ríkisins sé tekið vegna bágrar stöðu ríkissjóðs, þá veður hann í villu og svima. 

Ég er sjálfur sannfærður um að staða Íslendinga sé sterk.  Tiltölulega ung og vel menntuð þjóð, með miklar eignir og rík af auðlindum, hefur alla möguleika á að koma ár sinni vel fyrir borð í samkeppni þjóðanna.  Við þurfum að draga úr þenslu ríkisins, sem hefur verið gríðarlegt á síðustu góðæristímum.  Umræðan nú um að ríkið þurfi að auka umsvif sín, að Kenískum hætti, til að auka hagvöxt, veldur mér miklum áhyggjum.  Ríkið á ekki að blása sig út þó vel gangi og alls ekki þegar illa gengur.  Einu áhrifin af slíku er að með aukinni þátttöku ríkisins í hagkerfinu munu vextir haldast háir, sem dregur úr getu fyrirtækja og almennings til athafna.  Eftir stendur samfélag sem er engu ríkara, en ríkið er stærri þátttakandi en áður og einkaframtakið minna.


Tíðindalítið af norðurslóðum

Það virðist vera tíðindalítið af norðurslóðum.  Enn stendur Íslenskt efnahagslíf af sér ólgusjói afþjóðlegrar fjármálakreppu.  Ekki er annað að sjá en bankarnir séu traustir og almennt sé staðan nokkuð góð hjá örþjóðinni í norðri.

Það er helst að Geimskipafélagið valdi manni ugg í brjósti.  Miðað við hvað menn hafa flogið hátt mætti halda að þetta væri Mír endurfædd.  Góustaðastrákurinn virðist hafa tapað öllu jarðsambandi og farið á flug.  Ekki virðast öll kurl komin til grafar og næstu vikur gætu skorið úr um hvort flaggskip íslenskra fyrirtækja nái ekki að reisa sig við  í næstu brotsjóum. 

Íslendingar eiga hinsvegar mikla möguleika.  Ung þjóð, vel menntuð og almennt góð eignastaða þó skuldir séu vissulega háar.  Vonandi lærir þjóðin af glannaskapnum og sýnir meiri fyrirhyggju í framtíðinni. 

Forseti Úganda er í heimsókn á Íslandi.  Er að kynna sér það sem við gerum best, nýtingu sjálfbærra náttúruauðlinda eins og fiskveiðar og virkjanir.  Ég er viss um að Úgandamenn geta lært mikið af örþjóðinni í norðri.  Alla vega var umfjöllun um land og þjóð í blöðum hér í morgun til að fylla mann stolti sem Íslendingur.


Golf og aftur golf

UGCÞað er létt yfir bloggara þessa daganna.  Enda full ástæða til þess þar sem golfsveiflan er loksins að koma til með bætum árangri á golfvellinum.  Það var komið of mikið af akademísku námi við golfið, og búið að lesa of mikið af aðferðarfræði.  Markmiðið í sumar var að ná það góðum tökum á golfinu þá tvo mánuði sem dvalið var á Srí Lanka, áður en haldið yrði heim í sumarfrí, að vinirnir myndu fyllast aðdáun á þessum snjalla kylfing.  Ekkert var til sparað og tímar sóttir til besta golfkennarans í Colombo og æft á hverjum degi. 

Golfkennarinn fékk tæpa tvo mánuði til að fullkomna sveifluna, en þrautavörn yrði sú að mæta með handlegg í fatla.  Ekki var talin ástæða til að brjóta höndina, nægilegt væri að láta setja á hana gips.

Það er skammt frá því að segja að hvorugt gerðist, hvorki góð sveifla né handleggur í gipsi.  Reyndar var frammistaðan á golfvellinum svo hroðalega að venjulegur golfari hefði misst kjarkinn og fleygt kylfunum.  Sennilega er bloggari bara gervi-golfari, svona eins og menn eru gervi-Vestfirðingar, að geta tekið svona miklum áföllum án varanlegs tjóns.

Lán í óláni var að lenda með miklum heiðursmanni á golfvellinum í Tungudal, þau tvö skipti sem ég lagði í slaginn.  Gísl Jón vinur minn er vandaður maður og meðhöndlaði mig af mikilli varfærni og nærgætni.  Á slíkri ögurstundu hefði ein léttvæg athugasemd brotið niður allt sjálfstraust og útilokað framtíðaráform um golfíþróttina.

En nú er bóklega hliðin að baki og unnið í því sem til staðar er.  Þetta er reyndar ótrúlega einfalt en hugarró og afslöppun eru lykil atriði.  Það sem maður þarf að skilja með sveifluna er að koma sér upp konstannt snúningi upp á hryggjarsúluna, halda höfðinu stöðugu og gera allar sveiflur eins.  Vinstri höndin þarf að vera bein og hægri olnbogi þétt við síðuna í uppsveiflu og sá vinstri þétt við síðu í framsveiflu.  Síðan snýst þetta allt um korkið á úlnliðinum.  Svona eins og þegar Davíð drap Golíat.  Með réttri sveiflu, á hárréttum tíma, á úlnliðnum eykst hraðinn á slönguvaði margfalt.  Fyrst er að ná góðum hraða með snúning á vaðnum og svo hnykkur á úlnliðnum sem gerir galdurinn.  Steinninn er allt í einu komin á miklu meiri ferð en vaðurinn og skýst í rétta stefnu fram úr vaðnum, ef hnykkurinn kemur á réttu augnabliki.

Sama er í golfinu.  Þegar sveiflan er orðin konstannt þar sem rétt er úr úlnliðnum á hárréttu augnabliki.  Kylfuhausinn margfaldar þannig hraðann og getur náð nærri 300 km. hraða hjá bestu golfurum heims.

Við golffélagarnir tókum sitt hvorn völlinn um helgina.  Uganda Golf Course á laugardeginum og síðan Entebbe Golf Course á sunnudeginum.  Semsagt allt á uppleið í golfinu, þvert á efnahagslíf heimsins.


Í miðri kreppunni

 

 Hér kemur smá umfjöllun um hin merka hagfræðing, Scumpheter, sem hugarró fyrir fólk í miðri efahangskreppu.  Ef til vill eru kreppur nauðsynlegar til að taka til, svona eins og veghefill sem fer yfir holóttan veg og sléttir hann.

Scumpheterismi

,,Full atvinna" og ,,hagvöxtur" eru þau orð sem einkum hafa verið notuð síðustu áratugina til réttlætingar auknum ríkisafskiptum þar sem því er haldið fram að skipulag einkaframtaksins sé í eðli sínu óstöðugt þar sem takist á þensla og samdráttur.  Ríkið verði því að láta til sín taka og stilla hagkerfið af með stjórnun ríkisfjármála.

Fram að tíma kreppunnar hafði skort á skýringar klassískra hagfræðinga á hagsveiflum en Karl Marx hafði sett fram sínar kenningar á þeim með spádómum um að auðvaldskerfið myndi tortíma sér með sífellt stækkandi kreppum.  Þær kenningar skorti hinsvegar algerlega fræðilega rökfærslu og byggðu alls ekki á sögulegum staðreyndum eða tölfræði.

Árið 1912 setti austurríski hagfræðingurinn Joseph A. Scumpheter (1883-1950) fram rit sitt Theroy of Economic Development, þar sem settar voru fram kenningar um hagsveiflur.  Hann var Austurríkismaður og lærisveinn Carl Menger, aðhylltist almennu jafnvægiskenningu Walras en taldi hana þó ekki skýra nema hluta af þeim drifkröftum sem verkuðu á hagkerfið.  Hann setti fram kenningar um hagsveiflur sem stjórnuðust af drifkröftum eins og frumkvöðlum og nýjum uppgötvunum.  Hann taldi hagsveiflur ekki aðeins vera óumflýjanlegar heldur nauðsynlegar til að hreinsahagkerfið.  Nýir frumkvöðlar kæmu fram með nýjungar þar sem bankar lána peninga, nýjar uppgötvanir eru gerðar sem auka hagkvæmni og framleiðni og hafa mikil áhrif á hagkerfið (t.d. Microsoft -innskot höfundar) og koma af stað hagvexti.  Í framhaldi kemur eyða þar sem nýjar hugmyndir skortir og við stjórnvölum fyrirtækja taka við stjórnendur sem ekki hafa þá leiðtoga- og frumkvöðlahæfileika sem frumherjarnir höfðu.  Þetta komi af stað niðursveiflu og jafnvel efnahagskreppu sem síðan hreinsi til fyrir nýjum mönnum og nýjum hugmyndum.

Scumpeter var hugmyndaríkur íhaldssamur hagfræðingur með rómantískar skoðanir á framtíð hagvaxtar og kapítalismans.  Hann taldi reyndar að kapítalisminn myndi líða undir lok, en ólíkt skoðunum Karl Marx, að það yrði vegna eigin velgengni og kosta sem fjármagnshyggjan hafði og frjálshyggjan myndi líða undir lok vegna þess.  Afskipti ríkisstjórna yrðu meiri og meiri og áhrif stjórnmálamanna aukast sem myndi koma í veg fyrir að frumkvöðlar fengu þrifist til að viðhalda drifkrafti atvinnulífsins.

Kenningar Scumpeter geta því útskýrt hvers vegna vesturlönd náðu sér út úr efnahagskreppunni 1936 en önnur kreppa tók við upp úr 1970.  Mjög mikil undirliggjandi tækifæri voru í hagkerfinu um 1930 þar sem Tailorismi, færibandatækni með möguleika á fjöldaframleiðslu voru fyrir hendi en stöðnun og hugmyndaleysi einkenndi 1970 ásamt olíuverðhækkunum.  Upp úr 1980 kom tölvutækni, internet og fleira. til og kom á stað nýju hagvaxtarskoti.

 


Gervi vísindi

 

stjörnumerkiGervivísindi hafa nokkuð komið upp í huga bloggara undanfarnar vikur.  Gott dæmi um slíkt er stjörnuspeki.  Engin vísindi liggja að baki stjörnuspeki en einhvernvegin hefur þetta orðið til og margir trúa því afstaða stjörnumerkja hafi áhrif á fólk og fénað.  Ekkert fer fyrir rökræðum eða vísindalegri umræðu um málefnið, enda tel ég að slíkt fari ekki saman við eðli málsins.

Ekki er minnst á að í raun eru stjörnumerkin 13, en aðeins tólf notuð til að aðlaga kerfið júlianska tímatalinu.  Það er heldur ekki talað um að núverandi stjörnumerki litu allt öðruvísi út fyrir 10.000 árum og munu verða óþekkjanleg eftir önnur 10.000 ár.  Það er vegna þess að í hverju stjörnumerki eru stjörnur sem eru mislangt frá jörðu, og munurinn er gríðarlegur.  Í mörgum tilfellum eru skærustu stjörnunnar í merkjunum samsettar af mörgum stjörnum, sem renna saman í eina, séð frá jörðu þar sem hún er stödd í augnablikinu.  Sólkerfi okkar er á fleygiferð miðað við þær stjörnur sem eru í fyrrnefndum merkjum og mun nægilega langur tími valda því að afstaðan breytist og útlit stjörnumerkjanna með.

En þetta er allt í góðu þar sem um dægradvöl er að ræða, og þó margir trúi á áhrifamátt stjörnumerkja, gerir það ekkert til.  Sem dæmi eru buddatrúar mjög trúaðir á stjörnuspeki og tímasetja atburði í samræmi við stöðu stjarnanna, t.d. hjónabönd.

Það er öllu verra þegar slík bábilja er notuð í hagnýtum fræðum eins og hagfræði og lífræði.  Menn halla sér afturábak og komast að allskyns niðurstöðum, án þess að þurfa til þess rannsóknir eða gögn.  Menn fullyrða t.d. um að Íslandsmið séu full af þorski og óhætt sé að veiða mun meira en sjávarútvegsráðherra hefur heimilað án þess að setja stofninn i hættu.  Ekkert mark sé takandi á Hafró enda sé allt tómt bull sem gert sé á þeim bænum. 

Þessir menn skilja ekki eðli vísinda og skilja ekki mun á vísindum og gervivísindum.  Það að einhver sjómaður reki í góða veiði og telji þar með að allt sé fullt af þorski, á ekkert skylt við vísindi.  Lítil umræða fer síðan fram með röklegum hætti, eins og með stjörnuspekina, enda eru þessir aðilar áfærir til þess.  Ekki veit ég hvort þessir menn eru pólitískir loddarar og nota þessi mikilvægu málefni til að vekja athygli á sér, eða hvort þér séu í raunveruleikanum svona illa að sér.  Það verður að gera þá kröfu til þeirra sem gefa kost á sér í pólitík að þeir vinni heimavinnuna sína og setji sig inn í málin og skilji um hvað þau snúast.

Annað dæmi um gervivísindi er fyrirhuguð jarðgangnagerð í Arnarfjörð.  Menn sneiða alveg frá faglegri umræðu um málið og slá um sig rómatík.  Stjörnumerki eru svolítið rómantísk líka.  Aldrei minnst á hvað þessi göng muni raunverulega gera fyrir íbúa svæðisins, miðað við aðra möguleika sem við stöndum frammi fyrir, eins og gangnagerð milli Engidals og Álftafjarðar.  Setja fram ávinninginn á hlutlægan hátt og taka tilfinningarnar útfyrir rétt á meðan.

Það er grátbroslegt að sjá sömu mennina tala fyrir háskóla á Vestfjörðum.  Til hvers viljum við háskóla?  Til að auka þekkingu eða vantar okkur bara atvinnutækifæri?  Getum við ekki bara notað stjörnuspeki við þetta allt saman?  Sennilega dygði það betur þegar spáð er í hagkerfið og gengi krónunnar?


Umferðin í Kampala

 

IMG_0102Það er gott að vera í Úganda.  Loftslagið eins og best verður á kosið.  Það er svona eins og að hafa fjarstýringu og maður réði þessu sjálfur.  Þá myndi maður hafa veðrið eins og það er í Kampala.

Hér eru almenningssamgöngur nokkuð merkilegar.  Strætó eru Hi Ace bílar sem eru gefnir upp fyrir 14 farþega, en oft er vel troðið í þá.  Þeir eru ekki á neinni sérstakri áætlun, né er gefið út verð á fargjöldum.  En einhver skikkan er á allri óreiðunni hjá þessum bílum, og verðið fer eftir framboði og eftirspurn.  Það er dýrara að fara með þeim á morgnana og seinni partinn þegar allir þurfa að komast til og frá vinnu.  Verðið hrynur svo niður um miðjan daginn.  Áfangastaður ræðst af þeim farþegum sem koma í bílinn.  Ef t.d. þrír koma í hann og ferðinni heitið á tiltekin stað í úthverfi Kampala, byrjar aðstoðarmaður bílstjórans að gefa merki út um gluggann með fingrunum.  Úr þessu lesa heimamenn og skilja hvert ferðinni er heitið, og ef þeir eru á sömu leið, stoppa þeir strætóinn.  Það er dásamleg regla á allri þessari óreiðu og hámörkun á nýtingu bílsins aðal málið.

Síðan eru það boda-boda.  Það eru mótorhjól sem koma í staðin fyrir leigubíla annarsstaðar.  Eða þríhjólin sem notuð eru í S-Asíu.  Sagan segir að á tímum Idi Amin hafi fólk oft þurft að flýja harðæðið og fengið einhvern á mótorhjóli til að skutla sér til landamæra Kenía eða Tansaníu.  Nafnið sé dregið af ,,border - border" og hafi styst í boda-boda.

Boda-boda eru eins of flugur í umferðinni, krökkt af þeim og ökumenn þeirra taka lítið tillit til umferðareglna.  Þessir ,,leigubílar" þekkjast á hnakknum fyrir farþegann sem er með bólstruðum púða fyrir mjóhrygginn.  Hjálmar eru nánast óþekktir á boda-boda, allavega fyrir farþegann.  Ég sá í blöðunum í morgun að 60% dauðsfalla í umferðinni tengist þessum ferðamáta.

Boda-boda er ekki bara notað fyrir farþegaflutninga, heldur alls kyns vöruflutninga.  Algengt er að sjá slíkt hjól hlaðið varning, og fyrir helgina sá ég tvö boda-boda með sitt hvora líkkistuna, þversum á hnakknum á fullu á þjóðveginum til Entebbe.

Síðan eru það reiðhjólin, sem eru ódýrari ,,leigubíll" en boda-boda.  Þau eru mikið notuð til farþegaflutninga, og þekkjast á bólstruðum hnakki fyrir farþegann.  Þau eru einnig notuð til vöruflutninga og má sjá þau oft á tíðum hlaðin varningi.  Nokkrum sinnum hef ég séð reiðhjól sem eru að flytja lifandi kjúklinga.  Ekki sést í þau fyrir hænum sem bundnar eru saman á fótunum og hengdar utan á reiðhjólið.  Einnig er algengt að sjá hjól reiða 50 ltr. mjólkurbrúsa til að dreifa mjólk um hverfi borgarinnar.

Ég kann bara vel við þetta og verð að segja eins og er að mikið er gott að vera laus við Leyland strætóana á Srí Lanka.  Hávaðinn og lætin í þeim er hrikalegur, bæði vélargnýrinn og eins loftflauturnar sem þandar eru til hins ýtrasta.  Þetta er svona rólegra hérna og lítið um flaut og læti.


Back to normal

 

Nú er lífið farið að falla í fastar skorður hér í Úganda eftir ótrúlega skemmtilegt frí á Íslandi í ágúst.  Frí sem að mestu var tekið í sumarbústað í Tunguskógi í faðmi fjölskyldu og vina.  Það er notalegt að finna að bæði fjölskylda og vinir fyrirgefa manni flakkið og fjarveruna og þráðurinn er tekinn upp þar sem frá var horfið eins og maður hafi aldrei farið neitt. 

Hér í Kampala er lífið töluvert öðruvísi en á Srí Lanka og menningin allt önnur.

Það sem uppúr stendur úr fríinu er ferð til Fljótavíkur með fjölskyldunni.  Við flugum með lítilli flugvél og lentum á túninu á Atlastöðum þar sem við höfðum sumarhús fjölskyldunnar útaf fyrir okkur þá daga sem valið var.

Með í för var afabarnið, Jón Gunnar, sem er rétt orðin tveggja ára.  Á þeim þremur dögum sem við áttum í Fljótavíkinni tók sá litli út mikinn þroska.  Ég er ekki frá því að andi langa-langa afa hans, Júlíusar Geirmundssonar, hafi svifið yfir vötnum.  Sá tveggja ára kom í Fljót sem barn en fór með þroska fimm ára snáða í burtu.  Hann fór margar ferðir út á Langanes til að veiða silung á þessum dögum og síðan niður í Grundarenda til að horfa á Atlantshafið berja á sandströndinni.  Hlaupa undan briminu þegar það skall í fjörunni með öllum sínum þunga.  Eins og sönnum fljótvíking sæmir stóð hann sig vel og naut verunnar í víkinni fögru. 

Ég bauð vinkonu minni Boggu Venna í heimsókn á Atlastaði, sem hún þáði og eyddi kvöldstund með okkur fjölskyldunni.  Bogga hjálpaði mér á sínum tíma að skrá hundruð örnefna í Fljótavík og setja á heilmikið kort, loftmynd af Fljótavík, sem nú hangir veggnum í vesturálmu óðalsins.  Við vitum af tveimur eða þremur villum í kortinu en höfum rætt um að laga þetta í ein fimm ár.  Framkvæmdin kemst aldrei af umræðustigi, og þessi heimsókn var engin undantekning frá því.  Þetta endar með að villurnar okkar Boggu festast í sessi og verða notuð sem ,,rétt" örnefni í framtíðinni.

Í Birkilaut, sumarhúsinu í Tungudal, var stöðugur gestagangur fjölskyldu og vina.  Hver veislan af annarri töfruð fram og sú ánægjulega staðreynd blasti við að bústaðurinn væri ekki nógu stór.  Það þarf að stækka hann verulega sem kemur sér vel fyrir Íslenskt efnahagslíf sem þarf á smá innspýtingu að halda á næsta ári.  Framkvæmdir munu því ýta undir viðreisn efnahagslífsins á Íslandi á þessum erfiðu tímum.

Það eru margir hissa á sumarbústaðabyggðinni í Tunguskógi sem samanstendur af fimmta tug bústaða sem eru nánast horfinn í trjágróður.  Aðeins í stein snar frá heimilum flestra eiganda, sem flestir dvelja þarna langdvölum á sumrin.  Ég náði ekki einni nóttu heima á Silfurtorgi og bjó í skóginum allt fríið, fyrir  utan stutt ferðalag um Ísland.

Verslunarmannahelgin stendur upp úr dvölinni í skóginum þar sem góðra vina fundur er haldin á hverju ári.  Í fyrra var í Asíu og missti af öllu saman.  Nú var þetta hinsvegar tekið rækilega út.  Grillið hjá okkur Stínu fyrir brennu og hádegisveðarhlaðborðið hjá Flosa og Brynju.

Íslandsferðinni var svo slúttuð með góðum vinum í Reykjavík áður en þrjátíu tíma ferðalag til Afríku hófst.    


Club Med og Colombo

 

Bloggari hefur haft gaman af að fylgjast með franskir pólitík og sérstaklega hinum litríka forseta Nicolas Sarkozy.  Nýjasta útspilið hjá honum vekur bæði aðdáun og efasemdir.  Stofnun Club Med með öllum þjóðhöfðingjum landa sem liggja að Miðjajarðarhafi, nema Qaddafi. Líbýuforseta.

Löndin sem liggja að Miðjarðarhafinu hafa mótað mankynsöguna síðastliðin 2000 árin og eru vagga þeirra tveggja menningarheima sem mest takast á í dag, kristinna manna og múslima.  Reyndar er þetta ótrúlega sniðug hugmynd hjá Sarkozy, hann útilokar ríki eins Afganistan, Írak, Saudi Arabíu og Íran, sem ekkert er hægt að eiga samskipti við hvort eða er.  Tvö ríkjanna eru lömuð af borgarstyrjöld en hinum er stjórnað af öfgafullum afturhaldsinnum.  Þrátt fyrir mikinn auð þeirra síðarnefndu verða litlar sem engar framfarir hjá almenningi enda virðing fyrir mannréttindum er engin.

En Þjóðverjar eru æfir yfir uppátækinu enda eiga þeir enga sneið af Miðjarðarhafinu og því ekki boðið í klúbbinn.  Þeir óttast að Frakkar, sem munu leiða nýja bandalagið, muni skara eld að sinni köku og þeir, Þjóðverjar, verða útundan.  Sama er sennilega upp á pallborðinu hjá Bretum sem varla eru hressir með skyndilegt mikilvægi Frakka í alþjóðamálum, enda lengi verið stirt á milli þeirra.

Hinsvegar var hersýningin og allt sjóið svolítið til að draga úr aðdáun. Það sem meira er að ekki er vitað hvernig Frakkar ætla að bregðast við timburmönnunum eftir partíið.  Það hlýtur að kalla á mikla ábyrgð og fé að reka Club Med.  Ekki geta þeir sent reikninginn til Evrópusambandsins?

En engu að síður verður maður að viðurkenna að sjá forseta Sýrlands í hópnum og þá félaga Abbas og Olmert í faðmlögum vekur vonir um að hægt verði að stöðva ófriðarbálið fyrir botni Miðjarðarhafs.  Ófriðarbál sem ógnar öllum heiminum og kyndir undir íslamsisma sem er að eta Evrópu innanfrá.

 

En frá Colombo er það helst að frétta að fiskilyktin liggur í loftinu.  Ég fór í nótt á St. Johns markaðinn í borginni til að hitta heild- og smásala.  Ég hafði með mér föt til skiptanna og fór í sturtu þegar ég kom í vinnuna í morgun.  Gallinn í plastpokun liggur út á svölum og er ekki í húsum hæfur.


Hafnarrölt

 

Félagi minn Amaralal hefur verið að hjálpa mér við rannsóknarþátt meistararitgerðarinnar.  Við fórum á höfnina í Negombo s.l. nótt til að fylgjast með löndun báta, uppboði á afla og afla upplýsinga um virðiskeðju gul-ugga á Sri Lanka.  Negomgbo er ein mikilvægasta höfnin fyrir gul-ugga, en vegna nálægðar við alþjóðaflugvöllinn við Colombo eru flestar verksmiðjur sem flytja út túnfisk í Negomgbo.

Amaralal er með meistaragráðu frá Tromsö í Noregi og lokaritgerðin hans var einmitt um virðiskeðju sjávarútvegs á Sri Lanka.  Hann hefur aðstoðað mig við rannsóknir og viðtöl við milliliði hér í landi.  Enn er töluvert eftir af þessari vinnu en þetta er ótrúlega skemmtilegt.

Negomgbo er norður af Colombo og undirstöðu atvinnugreinin er sjávarútvegur en ferðamannaþjónusta er einnig mikilvæg.  Á markaðinum í morgun benti Amaralal mér á hversu margar konur væru að vinna við uppboð og sölu á fiski, og útskýrði málið þannig að hér væri mikið um kaþólikka og meðal þeirra væri eðlilegt að konan ynni úti og hjálpaði til við að afla tekna fyrir heimilið.  Hjá búddistum, eins og honum sjálfum, væri það nánast óþekkt, enda hlutverk konunnar að sjá um heimilið.  Það er reyndar áhugavert að velta fyrir sér mismunandi menningu og áhrif hennar á hagkerfið og framleiðni.  En það er ekki viðfangsefni minnar rannsóknar.

Markaðurinn i NegomboHinsvegar að sjá tuttugu daga gamlan gul-ugga og þrefa við kaupanda fyrir útflutningsfyrirtæki um gæðin, og efast um að neytandi í Evrópu myndi sætta sig við fiskinn á matardiskinn, er hinsvegar viðfangsefnið.  Hann sagði mér að metverð hefði fengist fyrir gul-ugga í gær, enda væri þetta fyrir utan vertíð og mikil vöntun á markaði.  Sem að sjálfsögðu breytir skyni John & Mary í Bretlandi á hvað séu gæði og þau skilja mjög vel að monsoon sé í algeymi í Indlandshafi og bragðið því örlítið öðruvísi.

Negomgbo er við árósa og við dagrenningu mátti sjá rækjuflotann sigla út, í orðsins fyllstu merkingu.  Á Sri Lanka eru togveiðar bannaðar nema á seglbátum.  Stór floti dregur trollin úti fyrir árósnum með seglum þöndum og nota kröftugan monsoon vindinn sem aflgjafa. 

AmaralalVið hittum marga á markaðinum og síðar fórum við í heimsókn í verksmiðju Tropical Frozen sem eru leiðandi framleiðendur og útflytjendur á túnfiski frá Sri Lanka.  Síðan var komið við á smásölumarkaðinum í Negombo þar sem smásalar voru teknir tali og formlegir spurningalistar notaðir til að afla ganga fyrir rannsóknina.


Gul-uggi

  Mission_02_07_BE 024

Ég hef gaman af að skreppa á bryggjuna hér á Sri Lanka og fylgjast með þegar bátarnir landa og virða fyrir mér samkomustað seljanda og kaupanda, þar sem markaðurinn ræður ríkjum.  Að vísu þarf maður að fara á nóttinni þar sem þessi viðskipti eru búinn snemm morguns.  Það kemur sér reyndar vel, enda fyrir utan venjulegan vinnutíma og umferð með minnsta móti.

Það eru merkilegir hlutir að gerast hér á landi í fiskimálum, sérlega áhugaverðir fyrir mig, sem er að skrifa meistararitgerð um virðiskeðju gul-ugga (yellow-fin) túnfisks á Sri Lanka.  Hingað til hefur heimamarkaður ráðið verðinu en alþjóðavæðingin bankar á og kallar á breytingar.  Ekki eru allir ánægðir með þær breytingar en flestir hagfræðingar vilja þó meina að þær bæti hag þjóðarinnar, almennt séð.

Þetta er svona svolítið eins og að vera staddur á Þingvöllum og velta fyrir sér jarðfræði.  Þar sem Ameríku- og Evrópu flekarnir reka í sundur og hafa á síðastu sekúndum jarðsögunnar myndað ægifagurt form þjóðgarðsins.  Þetta blasir allt við einhvern vegin, hvert sem litið er.

Hér sér maður hinsvegar alþjóðavæðinguna þrengja sér inn þar sem heimamarkaður hefur ráðið hingað til, en frekar fátækir neytendur halda verði á fiski lágu.  En þróuð ríki geta boðið betra verð en neytendur þróunarlands, þannig að um leið og útflutningur byrjar, breytist verð úr heima-verði (local price) í heimsmarkaðsverð.  A gul-ugga túnfisk, sem hefur verið mjög vinsæll matur hjá almenningi á Sri Lanka, er heimsmarkaðsverð a.m.k. þrefallt hærra en heimaverðið.  Sjómaðurinn er alsæll en neytandinn er ekki eins ánægður. 

Það liggur fyrir að hægt væri að selja miklu meira magn af gul-ugga til hátt borgandi markaða í Japan, Evrópu og BNA.  Vandamálið liggur í gæðum aflans, en heimabátar eru úti í allt að sex vikur, og það með takmarkaðan ís.  Fiskurinn er því ekki allur kræsilegur fyrir vesturlandabúann sem er vanur ferskleika með sjávarilm.  Og það er ekki auðvelt að breyta því þar sem heimamaðurinn skilur ekki þessar þarfir útlendinganna.

Hæst borgar shasimi markaðurinn í Japan, en þar er fiskurinn etin hrár.  Til þess þarf mikinn ferskleika og ekki hægt að baða hann upp úr örverum á leiðinni í gegnum virðiskeðju frá veiðum á borð neytandans.  Næst eftirsóttasti markaðurinn er ,,steik" markaðurinn í Evrópu og BNA.  Þar vill neytandinn bregða fiskinum á pönnuna augnablik og hafa roða inn í miðju.  Þá bráðnar hver biti upp í manni og gæði túnfisksins koma vel í ljós.   

Heimamenn eru hinsvegar vanir að elda fiskinn í a.m.k. hálftíma og fela hann í karrý og chilli pipar. 

Eitt af þeim gæðavandamálum sem kemur upp við hefðbundna meðhöndlun fiskimanna er histamine myndun í vöðvum fisksins.  Slíkt kemur ekki að sök við eldamennsku heimamanna þar sem við mikla eldun rýkur histaminið úr, en getur verið mun verra fyrir léttsteikingu evrópubúans.  Histamine veldur útbrotum og kláða, fyrir svo utan að bragðið af gömlum fiski.  Sérstaklega þráabragð af feitum fiski eins og túnfiski, sem hverfur í kryddblöndu heimamansins en væri yfirþyrmandi fyrir vesturlandabúann, hvað þá Japanann.

En sjómenn á Sri Lanka munu læra að meðhöndla fiskinn, enda kemur þetta við budduna og til mikils að vinna.  Hægt og sígandi mun heimsmarkaðsverð taka við og heimamarkaðurinn getur ekki keppt við það.  Heimamenn munu verða án gul-ugga og verða að sætta sig við aðrar ódýrari tegundir.  Efnahagur landsins mun hinsvegar njóta góðs af og flestir vera betur settir eftir breytinguna.

En það fylgir böggull skammrifi þar sem hækkandi verð mun hvetja fiskimenn til að sækja meira og fleiri til að koma inn í greinina, en aðgangur er galopinn að auðlindinni.  Svona rómatík eins og navíistar heima telja eftirsóknaverða.  En án stjórnunar og takmörkunar í aðgangi að auðlindinni mun hærra verð aðeins kalla á ofveiði og hrun til lengri tíma litið.  Þetta er þekkt fyrirbæri í þróunarlöndum og er einmitt að gerast hér um þessar mundir.  Það er spennandi tími fyrir rannsóknir við slíkar aðstæður.


Ísland í dag

 

Uganda í júní 2008Ég horfði á þáttinn á CCN sem fjallaði um nýtingu Íslendinga á endurnýjanlegum orkugjöfum og var meðal annars viðtal við forseta vorn, Ólaf Ragnar Grímsson.

Ég hef aldrei verið aðdáandi Ólafs né pólitískur stuðningsmaður.  Og þar sem hann hefur verið duglegur við að pílitískvæða forsetaembættið hef ég heldur ekki geta stutt hann né kosið, í öll þau skipti sem hann hefur verið í framboði.

En ég verð að viðurkenna að hann stóð sig vel og lýsti Íslandi sem útópíu í nýtingu endurnýjanlegrar orku og dró upp mynd fyrir alheim af þessari vistvænu og umhverfisvænu þjóð.  Ég verð að viðurkenna að ég var bara rígmontinn og þjóðarstoltið ólgaði í æðum mínum yfir þættinum, og ekki síst framlagi ORG til hans.  Ég var reyndar búinn að sjá hluta af þessu í síðustu viku í Úganda, en þar birtist þetta frá Suður Afrískri stöð sem auglýsing frá Shell.  Reyndar kom það einnig fram hjá CNN að Shell er sponsor fyrir þessum þætti.  Mér skilst að hann verði sýndur af og til í allan dag og á morgun, sunnudag.

Það er óhætt að segja að sjónarhóllinn hafi verið annar en þegar önnur fræg íslensk persóna, Björk, tjáir sig um þessi mál.  Það er með ólíkindum hvernig hún fær sig til að skrumskæla þessa hluti til að láta þá líta verr út en ástæða er til.

Ég spái því reyndar að hagur Strumpu, íslensku þjóðarinnar, eigi eftir að vænkast mikið á næstu misserum.  Við erum orkuútflytjendur og eigum mikla möguleika á að stórauka orkuframleiðslu á ókomnum árum.  Það er gott mál þegar orkuverð hefur margfaldast og allt útlit fyrir að ekkert lát verði af því.

Í BNA er 750 bílar á hverja þúsund íbúa, og sennilega fleiri á Íslandi.  Á Indlandi eru þeir 10 en Indverjar telja að þeir þurfi að vera 100 á hverja þúsund íbúa, til að geta búið þjóðinni ásættanleg kjör og minka þá gríðarlegu fátækt sem þar ríkir.  Ástandið er ef til vill skárra í Kína en margt er þó líkt með þessum ofurríkjum hvað mannfjölda varðar.  Það eru einmitt þessi tvö ríki sem leiða eftirspurn sem er langt umfram framboð og keyrt hefur olíuverðið upp. 

En það eru Bandaríkjamenn sem eru orkusóðar heimsins.  Á meðan Japanir hafa dregið markvisst úr olíunotkun sinni, um 15% á síðustu 10 árum, hafa Bandaríkjamenn enn aukið sína notkun, sem hefur verið um 40% af heimsnotkun.  Keyrandi um á stórum eyðslufrekum bílum enda haldið verði á eldsneyti í lágmarki miðað við aðrar þjóðir.  Fyrrverandi forseti, Jimmy Carter setti allskyns reglur til að minka olíunotkun, meðal annars um lágmarksnýtingu bílvéla.  Hann lét setja sólarrafhlöður á þak Hvíta hússins til að ganga á undan þjóðinni með góðu fordæmi.  Þetta var eftir eina olíukreppuna en þegar henni lauk og verðið lækkaði hafði Ronald Regan tekið við sem forseti.  Hans fyrsta verk var að afnema hluta af lögum og reglum Carters og lét rífa draslið af þakinu.  En Japanir héldu sínu skriði þó verðið lækkaði og eru rækilega að uppskera ávöxt erfiðisins í dag.

Talandi um orkuverð og notkun þá get ég ekki stillt mig um að segja frá umferðinni hér á Sri Lanka og Úganda, þaðan sem ég er nýkominn.  Flestir bílar hér eru innfluttir notaðir frá t.d. Japan, þar sem þar er ekki talið hagkvæmt að keyra um á gömlum slitnum skrjóðum.  Enda reykir annar hver bíll þannig að allt hverfur í þykkan mökk.  Bæði er eldsneytisnýtin léleg og mengun mikil.  Japanir flytja út þessi vandamál sem er ágætt fyrir þá.

En héðan frá Colombo er það helst að frétta að þær fáu götur í miðborginni þar sem tvístefnuakstur var leyfður, var breytt í einstefnu um síðustu helgi.  Þetta setur umferðina algjörlega í hnút en ástæðan eru öryggismál.  Þegar þú átt von á hryðjuverkum upp á hvern dag í höfuðborginni, er eldsneytisnýting og mengun ekki neitt til að hafa áhyggjur af.  Það er semsagt talið erfiðara að sprengja tiltekna menn ef ekki er hægt að mæta þeim í umferðinni.


Afrikaninn

 

Gunnar í golfiTíminn líður hratt í Úganda.  Styttist óðum í ferð mína aftur til Sri Lanka þar sem ég verð út júlí.

Eins og áður segir er loftslagið gott hér í landi.  En mengunin er verri.  Það liggur mengunarský yfir borginni í eftirmiðdaginn, enda umferðin mikil og bílarnir gamlir og slitnir og reykja eins og kolaverksmiðjur. 

Þess vegna nota ég tímann á morgnana til að skokka en þá er reyndar niðarmyrkur.  Ég fékk reyndar dótið mitt frá Colombo í gær, og þar á meðal var hellkönnunarbúnaður (ennisljós) sem Jón sonur minn skildi eftir í Colombo um jólin.  Nú nota ég hann og þau fáu farartæki sem leið eiga um Bugalobi sjá þó bleikskinnan þar sem hann klýfur dimman morguninn.  Ég hef verið að rekast á hjólreiðarmenn sem koma út úr myrkrinu án nokkurs fyrirvara.  Nú sjá þeir mig en umferðin er mjög róleg á þessum tíma og götur breiðar og plássmiklar.

En það er golfið sem hugann á allan fyrir utan vinnuna.  Við tókum þátt í norrænu golfmóti, Nordic Competition, á sunnudaginn var og var skipulagt af Karli, starfsmanni sænska sendiráðsins.  Mótið var nú ekki fjölmennt en mjög skemmtilegt en það var haldið á golfvelli í eigu sykurplantekru.  Völlurinn heitir Mehtagolf Course og einstaklega fallegur og skemmtilegur.  Mjög hæðóttur og spennandi brautir þar sem mikið reynir á hæfileikana.

Gofl á sykurekruEn sjálfur er í hálfgerðri klípu í golfinu.  Það gengur reyndar mjög vel, enda mikið æft og spilað alla daga.  En ég óttast mest af öllu að ég hafi byggt upp slíkar væntingar meðal vina minna heima á Íslandi, að annað hvort verði ég að ná raunverulegum árangri á velli, ekki bara fræðilegum árangri, eða mæta með hendi í fatla þegar ég kem heim í ágúst.  Ég er búinn að taka svo stórt upp í mig varðandi árangurinn í golfinu að erfitt getur að standa undir væntingum þegar spilamennskan hefst í Tungudalnum.

Þessa dagana er ég að rembast við að læra inna á Kampala og rata um borgina.  Hér verður maður að keyra sjálfur og engin elsku mamma með það.  Ég er orðin nokkuð vanur vinstri umferðinni frá Colombo, en málið er að þekkja leiðirnar.

Mehtagolf Course


Við miðbaug

 

Það er ótrúlega notalegt í Úganda.  Ef æðri máttarvöld hefðu fengið manni  hitastillir myndi maður stilla á hitastigið hér í Kampala.  Það er nákvæmlega eins og maður vill hafa það.  Ólíkt Sri Lanka getur maður opnað gluggann á skrifstofunni og látið notalegan blæinn leika um sig.  Lofkælingar eru óþarfar þar sem hitastigið á nóttinni er ákjósanlegt til að liggja undir þunnri sæng.  Það er að sjálfsögðu hæðin yfir sjávarmáli sem veldur þessum notalegheitum á þessu slóðum, nærri  1.200 metrar.

Ef þessi guðlega fjarstýring gæfi fleiri möguleika myndi maður draga nokkra skýjabólstra upp á himinn til að draga úr sólinni, sem reyndar er óþarfi hér því þannig er þetta einmitt alla daga.  Síðan drissar niður regni reglulega en stutt í senn, til að halda öllu iðagrænu.

Eitt er það sem ég myndi breyta ef ég gæti stillt klukkuna.  Ég myndi seinka henni aðeins hér í Úganda.  Það birtir of seint á morgnana.  Ég fer út að skokka rétt fyrir sex á morgnana en dagrenning er rétt fyrir komu mína heim í hús aftur.  Ég þarf því að hlaupa megin tíma leiðarinnar i myrkri.

Það nálgast reyndar skammdegi hér, sem við miðbaug er tvisvar á ári.  Í mars og september er sólin hæst á lofti, en lægst um jónsmessu og jól.  Þetta er svolítið öðruvísi en við eigum að venjast heima á Íslandi, þar sem við náum sólarljósi norður yfir heimskautið.

Golfvöllurinn er í nágrenni við vinnustaðinn og ekkert sem kemur í veg fyrir hálfan hring eftir vinnu þegar sá gállinn er á manni.  Enda bjart til að verða sjö á kvöldin.  Ég er að ganga frá inngöngu í golfklúbbinn og þá mun ég geta látið eins og ég sé heima hjá mér á vellinum.


When I am fifty four

 

Við húsið í KampalaÉg er búinn að vera á ferð og flugi undanfarið.  Kominn aftur til Kampala frá Colombo og bíð eftir dótinu mínu sem fylgir mér um hæl.  Ég rek nú þrjú heimili, eitt í Colombo, annað í Kampala og það þriðja á Íslandi.  Ég er með tvær vinnukonur á launaskrá í tveimur heimsálfum og verður svo þar til ég fer heim í sumarfrí.  Þá hættir Pam sem hugsað hefur um mig á Sri Lanka en hún mun eiga rólega daga fram í lok júní, þangað til ég sný aftur til Colombo til að leysa af þar út júlí.

Um næstu helgi verð ég fjarri góðu gamni þar sem haldið verður upp á fjörutíu ára fermingarafmæli 54 mótelsins.  Reyndar missa jafnaldrar mínir af miklu þar sem hin heimsfræga hljómsveit Tigers, mun ekki geta haldið upp fjöri þessa helgi á Ísafirði vegna minnar fjarrveru.  Hinir tveir meðlimirnir, Dóri Ebba og Pimmi, munu hinsvegar aka saman til þessa fagnaðar á föstudags morguninn.

Ég sé að gömul vinkona mín, frá sjötta áratugnum, Friðlín ætlar að mæta í fyrsta skiptið til leiks, en 54 árgangurinn hittist allt að tvisvar á ári í gegnum tíðina.  Við Friðlín gengum iðulega saman í skólann, enda bjuggum við bæði við Stakkanes sem er um hálfan annan kílómeters leið.  Hún bjó á Litlabýli en ég á Vinaminni. 

Reyndar hitti ég Friðlínu fyrir nokkrum árum sem voru fagnaðarfundir.  Við fórum meðal annars í heimsókn upp í Hlíð II, þar sem Kitti Gauj og Jóhanna Jakobs bjuggu.  Þar var okkur tekið með kostum og kynjum með kaffi og kökum.  Hlíð II var leikvangur okkar í gamla daga en Kitti rak þar fjárbúskap með meiru.  Við unnum öll sumur í heyskap og minnst ég þess að eitt sinn fengum við greitt í bita af suðusúkkulaði eftir úthaldið, og í annað skiptið með blóðappelsínu.  Þetta þótti okkur góð kjör og undum við félagarnir sælir við launin.

Aðeins nokkrum árum eftir heimsókn okkar Friðlínar var bærinn horfin og íbúarnir báðir farnir á vit forfeðrana.  Það er ekkert þarna núna sem minnir á leikvang æskuáranna.  Tjörnin sem okkur þótti risastór er horfin ásamt uppsprettunni og laxakofanum.  Ekkert sem minnir á fjárhúsin, hænsnakofann, hlöðuna né dúfnakofann hans Kobba, sem var leikfélagi okkar og æskufélagi.

Að hitta gamla skólafélaga er alltaf jafn skemmtilegt.  Eins og einn vinur minn orðaði það þá hittir maður þau við ákveða stemmingu.  Eins og maður líti á jákvæðar hliðar lífsins og upplifi nánast þessi skemmtilegu ár barns og unglings.  Maður veltir fyrri sér hvernig einum og öðrum hefur gengið í lífinu en flestir hafa bæði reynt súrt og sætt þessi fjörutíu ár síðan við staðfestum skírnina.

Mér hugnaðist hugmynd Mæju Kristjáns um að hvetja til þess að jafnaldrarnir rifjuðu upp skemmtilegar sögur af óþekkt og uppákomum í skólanum.  Ekki að ég gæti gert það sjálfur, enda alger engill sem hvorki datt né draup af þessi árin.  En svona gamanlaust þar sem hún minntist á Halldóru Magnúsdóttir kennara þá sat ég fyrir nokkrum árum í kaffi hjá vini mínum Þresti Massa í Pétursborg.  Halldóra, eiginkona hans, kom þá og settist hjá okkur til að spjalla.  Ég gat ekki stillt mig um að biðja hana afsökunar á því hversu illa ég hafði komið fram við hana í gaggó.  Hún var einhvernvegin svo auðveld bráð fyrir miskunnlausan unglinginn.  Hún horfði á mig stórum augum og sagði:  "Gunnar minn þú varst nú alltaf svo stilltur,,  Ég hef aldrei fengið betri sakaruppgjöf á ævinni.

En sökin bítur engu að síður og ég minnist þess með trega og skömm hvernig við komum fram við tvær skólasystur okkar.  Aðra þeirra bað ég fyrirgefningar fyrir allmörgum árum síðan, sem hún tók vel.  Vildi þó ekki mæta til árgangsveislu sem þá var haldin og sagðist ekkert vilja með okkar hóp að gera.  Þar er kannski verk að vinna fyrir 54 mótelið í framtíðinni.

En þær stöllur Bjarndís og Rósa hafa verið eins og guðmæður okkar í gegnum tíðina og haldið þessum hópi saman.  Hópurinn hefur meðal annars framleitt kvikmynd og ég minnist þess að hafa skrifað upp logna lýsingu á ferðalagi hópsins með rútu til Bolungarvíkur.  Við veittum gullpálmann fyrir bestu kvikmynd og leikstjórn á miklu hátíðarkvöldi í Krúsinni.  Ef ég man rétt var 57 mótelið að skemmta sér með okkur og komust aldrei að fyrir hressu liði 54 árgangsins.

Ég er sannfærður um að 54 skemmtir sér vel um sjómannadagshelgin á Ísafirði.  Bestu kveðjur frá Afríku.

 


Á ferð og flugi

IMG_2264Ég kom heilu og höldnu úr helreið um suður Sri Lanka.  Umferðin hér er ægileg og sífellt verið að aka frammúr og mæta bílum á öfugum vegarhelmingi.  En ferðin gekk vel og skemmtilegt að ferðast með heimamönnum um land þeirra.

Ég set hér inn myndir sem teknar voru í virkinu í Galle í dag sem byggt var af hollendingum á átjándu öld.  

Ég fékk þau gleðilegu tíðindi að flugið mitt til Afríku í nótt væri í gengum Dubai en ekki Bankok.  Það voru smá mistök hjá ferðaskrifstofunni sem búið er að leiðrétta.

 

 

IMG_2265


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband