22.9.2011 | 09:11
Laugardagur í Austurdal
Það var fríður hópur hraustra manna sem reis úr rekkju að Hildarseli á laugardagsmorgun, tilbúnir í fjársöfnun í Austurdal. Morgunsólin vermdi vanga og hár bærðist ekki á höfði. Það var komið rennsli á féð vestan við Jökulsá og greinilegt að smölun var í gangi þar og ekki annað að gera en leggja á hesta og koma sér af stað fram Austurdal og smala austurbakkann. Við ætluðum að smala fremsta hluta Dalsins í dag og reka það fé sem fyndist í réttina að Hildarseli.
Ég fékk frískan klár undir mig þennan morgun og sennilega voru það meðmæli með hestamennsku minni. Til að skerpa á reiðmennskunni fékk ég gúlsopa af Kakala og eftir það fann ég taktinn við hestinn. Þegar ég reið í morgunsólinni fram Austurdal varð mér hugsað til þess að oft væri talað um sveitamann og heimsborgara sem andstæður. Það vantaði eitthvað inn í þá mynd þar sem ég taldi mig til hvorugs hópsins. Ég er svona fjörufúsi sem er sjávarútgáfan af sveitamanni. Alinn upp í sjávarþorpi og fengist við sjávarútveg nánast alla mína tíð. Veit lítið um sveitastörf og þarf því stöðugt að passa mig í þeim félagskap sem ég deildi þessa dagana og leyna fákunnáttu í sveitamennskunni. Til dæmis varð mér á við Ábæjarréttina að tala um skjöldóttann hest. Slíkt lætur bara fjörufúsi út úr sér enda veit sveitamaðurinn að hestar eru skjóttir en kýrnar skjöldóttar. Einar vinur minn dró mig afsíðis við þennan atburð og útskýrði málin fyrir mér í rólegheitunum, við hlátrarsköll félaganna.
En það þarf ekki fjöruilm til að kitla sálu fjörufúsa og jafnvel hann hrífst með í Austurdal þegar riðin er Fögruhlíðin á fögrum morgni. Upp í hugann kom síðasta versið í kvæði dalaskáldsins Í öræfadal":
Gefðu þér tíma og fangaðu frið
sem fýkur með morgunsins svala
er heyrir þú svanina hefja sin klið
af heiðarbrún öræfadala
S.H.
Það er aldrei riðið í gegnum skógin í Fögruhlíð án þess að ægja og segja sögur. Gangnamenn voru óvenju opinskáir og söguglaðir þennan morgun í fallegu rjóðri birkiskógarins. Sennilega voru þeir ölvaðir af fegurð Dalsins og örlæti almættisins á aðstæður þennan laugardagsmorgun. Hér verða sögurnar ekki tíundaðar, enda ríkir trúnaður milli smalamanna hvað sagt er á slíkum stundum. Þar skiptir ekki máli hvort það er biskup (jafnvel eineygður) eða tukthúslimur sem á í hlut. Á svona stundu geta sögur orðið djarfar og meira sagt en menn vildu þegar móðurinn rennur af þeim, og yfirleitt eru sögurnar meiri og merkilegri en þeir atburðir sem þær byggja á. En jafnvel fjörufúsi veit að góða sögu má ekki skemma með sannleikanum og eftir kennslustund í að stíga í hnakk er haldið á fram dalinn. Söngur fyllti nú Austurdal meðan hestarnir töltu upp með Jökulsá og náði ritari niðurlagi lagsins:
..........ég öðru betra
elsku besta Susana
er ríða nokkra millimetra
milli viskísjússana
Við mynni Hvítárdals er eru höggvin skilaboð í klettasyllu, skrifuð af sauðfjárvarnarstarfsmanni 1938. Ekki er víst að hún endist betur en það sem höggið er í Googlesteininn en óneitanlega vekur hún meiri athygli en flest af því sem þar stendur enda nokkuð fátíðari tegund.
Riðið var áfram viðstöðulaust þar til komið var upp að Fossá. Eitt af erindum ferðarinnar var að kynna staðinn fyrir Útivistar Skúla og fá félagsskap hans með í byggingu og reksturs skála við ána. Austurdalur er frábær gönguleið og getur bloggari vitnað um það, enda gekk hann með Hallgrími Bláskóg frá Skatastöðum upp á hálendið að Laugafelli. Nokkuð langur og strangur gangur er frá Hildarseli í Grána og myndi skáli við Fossá vera tilvalin áningastaður þarna í milli. Vestfiskir meðlimir Gagnamannafélags Austurdals munu ekki láta sitt eftir liggja þegar kemur að skálabyggingu en aðdrættir eru mjög erfiðir í Dalnum þar sem Tröllaskaginn hlífir honum fyrir norð-austan áttum og snjó setur aldrei niður.
Það var einhverju sinni í ferð Skagfirðinga til Egyptalands að menn stóðu gapandi yfir því þrekvirki að koma tuga tonna björgum um langan veg og það yfir Nílarfljót. Einn úr hópnum kom þá með þá skynsamlegu skýringu að steinarnir hefðu verið dregnir á snjó um vetur, en ekki voru allir sammála þessari tilgátu enda þekkt í Austurdal að sleðadráttur að vetri gengur ekki vegna snjóleysis.
Fossá er fegurst áa, hvítfyssandi og gróin mosa í botninn, þannig að engu líkara er en gengið sé á teppi yfir hana. Þetta er lindá og því rennsli hennar stöðugt og hitastig jafnt. Það er eitthvað undursamlegt við hvernig hún frussast niður allan dal og hvergi sést í lygnan hyl. Fossá er faratálmi gangandi manna og rifjast upp ferð Hallgríminga yfir straumþungan í fyrra, bundnir með snæri um mittið og vatnið braut upp undir hendur. Betra er að missa ekki fótfestuna, enda stutt í ármótin við Jökulsá, sem er að öllu leiti ófrýnilegri og ofsafengnari en Fossá og ekki gott að berast í boðaföll hennar. En á hestum er þetta létt verk og löðurmannslegt, enda finna hrossin ekki fyrir straumþunganum og feta þetta af miklu öryggi.
Á suðurbakka Fossár tók smalinn fram malinn og þar var ólíku saman að jafna frá fyrri smalaferð í Austurdal. Ilmandi sviðasulta með rófustöppu og skolað niður með heimsins besta lindarvatni. Kakalinn var á þrotum en maður kemur í manns stað þegar kemur að Sturlungu og nú hét mjöðurinn Brandur. En hér var ekki til setunnar boðið og áfram skyldi haldið við smalamennskuna. Hér var skipt liði og bloggari ásamt Þórólfi og Gísla riðu upp á Hölknármúla sem heldur um Hölknárdal í suðri. Þegar upp var komið var hélt Sigurður norður fjallið ofan í dalinn en við Þórólfur riðum áfram suðvestur yfir heiðina. Hér var útsýnið stórkostlegt, með Hofsjökul í suðri og Tungnafellsjökull blasti við austar. Austurdalur skartaði sínu fegursta en hæðin var um 700 metrar yfir sjávarmáli þar sem hæst var riðið.
Nú var komið að því að stíga af baki og leggja í Lönguhlíðina fótgangandi. Landslag er þar of bratt fyrir hesta og því ekki annað að gera en nota tvo jafnfljóta. Þórólfur tók við taumnum og við mæltum okkur mót við Hölkná.
Langahlíð er erfið yfirferðar en hægt er að ganga hana að mestu leiti eftir áraurum og bökkum Jökulsár. Einstaka sinnum þarf þó að klífa bakkann og ganga bratta hlíðina þar sem þverhnípt er niður í ána. En ferðin gekk að óskum en engin kind fannst á þessari leið, frekar en á öðrum leitarstöðum þessa smaladags.
Við riðum í Hildarsel í rökkri og hittum þar fyrir félaga okkar frá öðrum leitarsvæðum. Við áttum von á fleiri smalamönnum þetta kvöld, Bjarna Marons frá Ásgeirsbrekku ásamt tveimur félögum hans, Sigurgísla og Gunnari Valgarðsyni.
Það var komið að því að bjóða sveitarmönnum upp á lostæti hafsins og við Einar skárum niður hákarlsbeitu, frá Reimari Vilmundarsyni, og bárum fram ásamt ýsu og smjöri. Smá Svartidauði spillir ekki bragðinu af þessu hnossgæti og ljóst að það átti fullt erindi upp í óbyggðir Austurdals. Kræsingunum var gerð góð skil og varla eftir skán eða roð fyrir smalahundana. Í framhaldi var borin fram kjötsúpa, framleidd úr sérvöldu feitu lambakjöti úr Dalnum. Yfir borðum var margt skrafað og margar sögur sagaðar. Þórólfur sagði okkur ferðasögu Karlakórsins Heimis til Ísafjarðar um árið þar sem meðal annars var komið við á knæpu bæjarins, þar sem þessi vísa varð til:
Krókar hanga laust við vang
losta svangir hanga
Yndi í fangi eykur gang
inn á Langa Manga
S.H.
Hér var komið að stóru stundinni þar sem aukafundur Gangnamannafélags Austurdals skyldi haldin. Venja er að halda fund á laugardagskvöldi í smalaferð, en aðalfundir eru haldnir fyrsta föstudag í mars á hverju ári. Ákveðið var að bíða með fundinn þar til liðsafli smalamanna bærist heim í bæ en þeir komu um tíuleitið, í kolniða myrkri.
Svona fundir geta tekið tíma enda margt að ræða. Skúli Skúlason frá Útivist var formlega tekinn inn i félagið og vonandi mætir hann á aðalfundinn í mars. Vangaveltur um væntanlega skálabyggingu við Fossá tók sinn tíma en innlegg Gísla á Frostastöðum yfirskyggði aðra umræðu fundarins. Gísli hafði náð GSM sambandi við Gísla Rúnar af fjallinu um daginn, sem nú er fjarri góðu gamni og býr út í Manchester á Englandi. Gísli Rúnar hafði reiknað út að meðalaldur Gangnamannafélagsins væri orðið 58,2 ár og stefndi í að meirihluti gildra lima væru orðin löggilt gamalmenni. Huga þyrfti að handföngum og sliskjum fyrir hjólastóla í Austurdal, enda væru menn dettandi fram úr kojum og guð má vita hvernig hægðir ganga á ófullnægjandi kamri á hverjum morgni. Tvennt væri í stöðunni að áliti Gísla; að yngja upp í félaginu eða fara út í gagngerar lagfæriáningar á húsakostum og búnaði. Nokkrir töldu að félagið þyldi ekki of mikið af ungu fólki, og bentu á síbylju Rásar 2 og Bylgjunnar því til sönnunar. Kannski menn færu að spila Michael Jackson eða Bubba Morteins á kvöldvökum smalamanna? Myndi félagskapurinn bera sitt barr eftir það?
Ljóst má vera að hér er hápólitískt mál á ferðinni sem erfitt verður úrlausnar. Hinsvegar eru helstu forkólfar félagsins engir aukvisar og ljóst að málinu verður lent með einum eða öðrum hætti. Undir ljúfum tónum skagfirskra söngmanna klöngraðist undirritaður upp á loft til að halda á vit drauma sinna, úrvinda eftir átök dagsins og hvíldinni feginn eftir góðan dag í frábærum félagsskap.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.10.2011 kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2011 | 11:50
Smalað í Austurdal - föstudagur
Föstudagur:
Það var komið að því að standa við skyldur sínar sem félagi í Gangnamannafélagi Austurdals, og smala fé úr efstu dölum Skagafjarðar. Vestfiski armur félagsins, undirritaður og vinur hans Einar Kristinn, vorum sem aldrei fyrr undirbúnir fyrir átökin. Nú yrði ekki skilið við fé og menn að Merkigili, heldur myndum við klára fjárreksturinn heim í hlað á Keldulandi. Fjögurra daga ferð var framundan og við búnir með nesti og nýja skó. Ekkert tros í malnum í þetta skiptið en búið að útbúa sviðasultu, bjúgu og skötustöppu til að tryggja okkur orkuforða við smölunina. Einnig tókum við með okkur hákarl og harðfisk til að bjóða smalafélögum okkar uppá ásamt ofur litlu brennivínstári til að skola því hnossgætinu niður. Fjárfest var í nýjum reiðbuxum og allt til að sýna Skagfirðingum fram á að fagmennska Vestfirðinga riði ekki við einteyming. Við þurftum að bæta upp tapaðan orðstír frá því í fyrra hvað það varðaði.
Ferðin átti að standa frá föstudegi fram á mánudagskvöld og bloggari átti pantað með morgunvélinni suður og ákveðið að við vinirnir ækjum saman frá Reykjavík. En smá sunnan andvari kom í veg fyrir flug og ekki annað að gera en aka í Staðarskála þar sem öðrum bílnum var lagt og haldið á hinum í Skagafjörð.
Það var því komið fram á eftirmiðdag þegar við renndum í hlaðið í Keldulandi og hittum smalafélaga okkar, dalaskáldið Sigga Hansen, Þórólf frá Hjaltastöðum, Sigurð frá Réttarholti, Sigurð frá Tyrfingstöðum, Gísla Frostason frá Varmahlíð, Magnús frá Íbisahóli og foringjann sjálfan, Stebba á Keldulandi. Framkvæmdastjóri ferðafélagsins Útivistar, Skúli Skúlason var gestur í þessari ferð til að kíkja á aðstæður fyrir skálabyggingu við Fossá í Austurdal.
Kelduland liggur skammt ofan við ármót Austari- og Vestari Jökulsáa, þar sem Héraðsvötn myndast og renna síðasta spölinn til sjávar. Okkar leið lá upp með Austri Jökulsá sem á upptök sín í Hofsjökli og safnar í sig fjölda vatnsfalla á leið sinni niður næstum 50 km langan Austurdalinn. Dalurinn er þröngur og vel gróinn með háa hamraveggi á báða bóga og liggur nokkurn veginn í norður frá jöklinum. Grös eru gjöful í Austurdal enda koma sauðir feitir af fjöllum eftir sumarbeit í Dalnum.
Veðrið lék við reiðmenn þennan eftirmiðdag, hlýtt og þurrt með hægum sunnan andvara. Áður en komið var í Merkigil þótti rétt að teygja úr sér og vökva örlítið lífsblómið og fara með nokkrar vísur og smá aftansöng. Síðan var stigið á bak hrossunum og fljótlega eftir að gilið var að baki komum við heim að Merkigili.
Það er alltaf tekið vel á móti gagnamönnum úr Austurdal að Merkigili, þar sem systur Helga Jónssonar, síðasta ábúanda á Merkigili, reka sumargistingu. Þær systur taka enga greiðslu fyrir greiðann en bjóða upp á kjötsúpu á leið fram dalinn og síðan lambasteik og gistingu þegar komið er til baka með safnið, tveimur dögum seinna.
Greiðinn að Merkigili stóðst allar væntingar og galsi í mönnum og hrossum áður en lagt var á fyrir ferðina í Ábæ. Það var farið að bregða birtu þegar smalamenn komu að Ábæjarrétt þar sem síðasta hvíld var tekin fyrir lokaáfangann að Hildarseli. Dalurinn skartaði sínu fegursta í ljósaskiptunum og angan gróðurs barst okkur með hlýjum sunnan blænum og niður jökulsárinnar lék undir með þungu nuði sínu.
Að Hildarseli hittum við Stebba foringja ásamt Skúla Útivistarmanni sem komu akandi með trússið frá Keldulandi. Það gafst ágæt tóm til að innbyrða Kakala og taka nokkur lög áður en Smalafélag Austurlands lagðist til hvíldar og safnaði kröftum fyrir átök morgundagsins.
Við eigum ból í Austurdal
við iðjagrænan mó
Við fögnum kyrrð í fjallasal
og fyllum hugann ró
Við lyftum gjarnan ljúfri skál
er ljósin dofna fer
Við hugsum ekki um heimsins mál
vor heimur á fjöllum er
Því hvað er lífsins keppnismál
og hvað er andi þinn?
Og hvað er þessi söngvasál
er syngur drauminn sinn?
17.8.2011 | 11:09
Bláfell
Lengi höfðum við Ívar vinur minn velt fyrir okkur göngu á Bláfell sem blasir við ferðamanni mikilúðugt og tignalegt, frá Kjalvegi. Bláfell er tiltölulega auðvelt uppgöngu og skilar rækilegu útsýni miðað við fyrirhöfn. Hægt er að aka jeppa áleiðis upp slóða sem liggur upp Illagil, en þar er uppganga auðveldust.
Það leit ekkert sérstaklega vel út með veður þennan ágústmorgun þegar við lögðum af stað ásamt eiginkonum frá bústað við Apavatn. Lágský og mistur og ekki bjart yfir til fjalla. En við létum slag standa og héldum af stað norður Kjalveg. Við stoppuðum við Gullfoss og þaðan sást vel til Bláfells, þó að mestu hulið skýjum. Við veltum fyrir okkur að að söðla um og stefna á Jarlhettur, en þar var bjart yfir og mikil fjallasýn. Við ákváðum hinsvegar að halda okkur við Bláfell með von um að fjallið myndi sópa af og verðlauna göngumóða ferðamenn þegar á toppinn kæmi.
Það var hlýtt í veðri en ennþá skýjahula í austri og ekki sást á tind Bláfells í upphafi göngu. Mikill skafl liggur undir klettabrún Illagils og stefndum við á stað sem virtist vera snjólaus og auðveldur uppgöngu upp á brúnina. Þrátt fyrir lausar skriður og bratta gekk uppgangan vel og við tók aflíðandi halli í stórgrýti, en þó föstu undir fæti, áleiðis upp á toppinn. Það lyftist brúnin á göngumönnum því nú birti til og himinn sópaði af sér skýjahulunni og sólin vermdi líkama og sál. Það styttist í toppinn og ljóst að Bláfell myndi ekki svíkja okkur með útsýni og göngumenn fengju afrakastur erfiði síns. Upp í hugann kom tröllið Bergþór sem átti bólstað í Bláfelli:
Í Bláfelli bjó Bergþór tröll. Hann var forspár og margvís en átti gott samband við menn er ekki gerðu á hlut hans. Eitt sinn er Bergþór var á leið úr byggð í helli sinn sótti að honum þorsti. Hann áði við Bergstaði og beiddist þess af húsfreyju að hún gæfi sér vatn. Á meðan húsfreyja sótti vatnið klappaði Bergþór ker mikið í klöpp sem bærinn er kenndur við og lagði á að í því myndi aldrei frjósa eða þrotna sýran ... og hefur það ekki gerst enn svo vitað sé.(Heimild: Árbók Ferðafélags Íslands 1998, Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Útsýni er mikið af þessu 1200 metra háa fjalli sem stendur skammt austan Langjökuls. Hlöðufell í austri og handan þess er Skjaldbreiður. Þórisjökull skammt undan Geitlandsjökli og nær grillti í Hagavatn undir Hagafelli. Þar taka við Jarlhettur sem virðast vera óárennilegar og raða sér upp eins og varðhundar suð- austan Langjökuls. Eiríksjökull teygir sig yfir megin jökulinn og nánast rennur saman við hann. Hvítárvatn, upptök Hvítár, með norður- og suðurjökull sem keipa í því birtist í norðri. Lengra er Hrútfell með hvítan koll en austar breiðir Hofsjökull úr sér. Kerlingafjöll skera sig alls staðar úr en héðan frá eru þau einhvernvegin ólík sjálfum sér. Í suðri má sjá Hvítá og Grjótá þar sem þær sameinast áður en þær hlykkjast suður Hrunamannaafrétt. Greinilega má sjá úðann frá Gullfossi sem glampar á í sólskininu.
Það er gaman að taka upp malinn og njóta úrsýnisins í góðra vina hópi á slíkum stað. Sólin vermdi og hægur norðan andvari lék um göngumóða ferðalanga sem hvíldu lúin bein yfir góðu nesti.
Ferðin niður gekk vel en þegar hópurinn var hálfnaður gerði skúrir og áður en varði var komin helli rigning og síðar haglél. Ekki sást í toppinn á Bláfelli og engu líkara en tröllinu Bergþóri þætti við búin að njóta bústaðar hans nóg og hér skyldi tjaldið dregið fyrir. Það kom ekki að sök, enda göngumenn vel útbúnir og laun erfiðisins þegar greidd að fullu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2011 | 10:10
Háskerðingur
Í júlíbyrjun gengum við hjónin Laugaveginn með félögum okkar í Hallgrími bláskó, í rigningu og roki mest allan tíman. Það var svona eins og konan sagði, það sá ekki á milli augna" þar til síðasta daginn á leiðinni úr Emstrum í Þórsmörk. Um miðjan ágúst hinsvegar vorum við hjónin stödd í bústað við Apavatn og veðurspáin fyrir Fjallabak með allra besta móti. Það var því ekkert annað að gera en rífa sig upp fyrir allar aldir, kl. sex, og drífa sig af stað upp á hálendið í leit að góðu útsýnisfjalli.
Ísland skartaði sínu fegursta þennan morgun og leiðin lá norður upp með vesturbakka Þjórsá. Síðan í austur að Hrauneyjum áður en við héldum inn á Landmannaleið. Þetta er lengri leið en vegurinn malbikaður og ferðamenn lausir við rykið sem fylgir heitum og þurrum sumardögum. Fljótlega eftir að komið er framhjá Landmannahelli liggur afleggjari í suður upp að Hrafntinnuskeri, en þangað var ferðinni heitið.
Það er bara gaman að aka þessa leið á jeppa, allavega á þurrum vegi, en hann getur orðið ansi slæmur í bleytu. Pokahryggir eru víða brattir og þegar ofar er komið þarf að aka yfir ís, en útsýnið er strax orðið áhugavert.
Við lögðum bílnum undir fyrsta jökulsporði Hrafntinnuskers þó skotfæri virtist vera alla leið að Höskuldarskála. Ísinn var sléttur eins og malbik og gjóskan í honum gerir hann stamann og auðveldan til aksturs. En við vorum komin til að ganga og njóta fegurðar sem Hallgrímingar misstu af fyrr um sumarið. Það er fljótgengið yfir skerið og í skálann en þar tók á móti okkur sami skálavörður og í júlí. Hann sagði okkur að þetta væri þriðji blíðviðrisdagur sumarsins, upplagður göngudagur en hann ætti ekki heimangengt. Nota þyrfti slíkan dag til að mála og undirbúa skálann fyrir háfjallaveturinn, en hann stendur í um þúsund metra hæð og er hæsti ferðaskáli landsins.
Við höfðu ætlað að gista en skálinn var full bókaður og því ekki pláss fyrir okkur. En veðrið var með allra besta móti, ekki skýhnoðri á himni, tuttugu stiga hiti og norðan gola. Háskerðingur blasir við í suðri og virtist fullkomið fjall til að sigra þennan daginn. Skálarvörðurinn ráðlagði okkur að ganga vestan megin við Nafnlausa fjallið, suður dalverpi milli fjallana og stefna síðan upp á Háskerðing.
Það er drjúg en gleðirík ganga frá Höskuldarskála að rótum Háskerðings. Ólíkt göngunni fyrr í sumar sem virtist vera endalaus upp og niður gil, mikinn hluta á snjó, var vegurinn þurr og þægilegur en það sem mestu máli skipti var útsýnið sem alls staðar blasti við. Fyrir Laugavegsgönguna Hallgríms var höfundur óþreytandi að lýsa allri þeirri fegurð sem biði okkar og þegar gengið var í sudda og fimmtíu metra skyggni hraut oft af vörum hans þið ættuð bara að vita hvað er fallegt hérna í góðu veðri" Þetta var eins og gamall frasi og því hætti maður fljótlega og gafst upp fyrir aðstæðum, arkaði forarvilpur í rigningu og roki þar sem ímyndunaraflið réði ekki lengur við að rifja upp fegurð svæðisins.
En hér var annað uppi á teningnum. Hvert sem litið var blasti augnkonfektið við og þegar brekkan upp Háskerðing var klifin bættist við útsýnið í hverju spori. Jökultungur og Hofsjökull birtust eins og fjólubláir draumar, óraunveruleg fegurðin sem opnaðist fyrir göngumönnum var eins og úr öðrum heimi. En guð hjálpi manni þegar upp er komið á slíkum degi! Nú var komið logn og nú tók veislan við fyrir alvöru. Fyrst ber að nefna fyrri sigra en þeir eru margir sýnilegir frá þessu 1.278 metra fjalli.
Í suðri blasir Rjúpnafell við yfir Þórsmörk. Eitt af bröttum en skemmtilegum fjöllum að klífa. Hekla í vestri, hattlaus eins og árið 2007 þegar við Stína gengum á hana. Kerlingafjöll í norðri með Snækoll hæstan, en þessi ljósu og sérkennilegu líparítfjöll eru miðja Íslands. Hlöðufellið er stórt og mikið fjall og rís sunnan Langjökuls. Fjallið er eitt besta útsýnisfjall sem höfundur hefur klifið og er áberandi kennileit á Langjökulssvæðinu. Háalda rís í norðri og austar má sjá Brennisteinsöldu og í toppinn á Bláhnjúk sem lúrir yfir Landmannalaugum. í austri er Vatnajökull og þar minnir Örævajökull og tvær ferðir á Hvannadalshnjúk. Sveinstindur ber við jökulinn þar sem hann trónir yfir Langasjó. Nokkur móða var yfir austrinu og því erfitt að greina Kristínartinda yfir Morsárjökli. Það virðist örstutt á Löðmundur en hann höfum við hjónin gengið tvisvar sinnum. Löðmundur er all sérstakt fjall, myndaður úr móbergi með nokkra strýtulagaða toppa. Eyjafjallajökull er í vestri en hann hefur ummyndast síðan bloggari gekk á hann fyrir nokkrum árum á skíðum. Þegar gengið er smá spöl að suðurbrún Háskerðings blasir Mælifell við yfir Mælifellssandi.
Útsýnið er ótrúlegt og bloggara varð hugsað til þess að þetta yrði aldrei toppað! Allar fjallgöngur yrðu hjóm eftir þá sjónarveislu sem hér blasti við ferðamanni. Allir meginjöklar landsins liggja að fótum fjallamanns, hvítir og fallegir og hafa jafnað sig eftir ósköpin sem dundu yfir í eldsumbrotum Eyjafjallajökuls og í Grímsvötnum, og spúðu gjóskulagi yfir þá. Í fyrra voru þessi jöklar svartir! Hér mátti sjá Langjökul, Hofsjökul, Vatnajökul, Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul og að sjálfsögðu Torfajökul sem lúrir upp af Jökulgili við Fjallabak. Það er ekki gott að segja hvort var tilkomumeira, að horfa í austur yfir líparítfjöllin að Fjallabaki, með alla sína regnbogaliti, eða Jökultungur í vestri. Jökultungur eru eins og af öðrum heimi en þar liggur Laugavegurinn niður í Þórsmörk. Hér og þar rísa upp keilulaga gróin móbersfjöll sem eru einkennandi fyrir svæðið. Mest áberandi er Hattfell sem er áberandi kennileiti þegar Laugavegur er genginn. Álftavatn virðist vera innan seilingar og enn neðar má sjá grilla í Markafljótsgljúfur. Hofsjökull með Arnarfell hið mikla og -litla sem halda um Þjórsárver í norðri og jökulskerin Hásteina nálægt toppi. Mýrdalsjökull liggur við fætur fjallamanns, friðsæll með þolinmóða Kötlu í toppi. Fjallið sem heldur öllum á tánum en stórgos úr því fjalli gæti sett heiminn á annan endann. Upp af Eyjafjallajökli trónir Goðasteinn og minnir á fyrri kynni. Jökullinn hefur algerlega umbreyst þar sem Gígjökull er nánast horfin og er ekki svipur hjá sjón miðað við fyrir gos.
Góðir vinir mínir fóru til Ástralíu til að sjá einn rauðan klett. Þau hafa aldrei séð það sem reynt er að lýsa hér að framan. Það er erfitt að skilja slíkar áherslur en þetta svæði er einstakt í veröldinni. Hvergi á jarðkringlunni eru til staðir sem jafnast á við líparítfjöllin að Fjallabaki, né leiðina niður Jökultungur niður í Þórsmörk. Málið er bara að hitta á rétta veðrið til að njóta þess. Á þessum slóðum þarf svolitla heppni til þess. Ferðalangur sem hittir á slíkan dag á þessum slóðum mun aldrei gleyma því sem fyrir augu ber og verður ekki samur á eftir.
Við kvöddum skálavörðinn áður en við héldum yfir Hrafntinnusker áleiðis í bílinn sem beið okkar neðan við jökulsporðinn. Gönguferðin tók um sjö tíma, enda staldrað við á toppi Háskerðings. Þessi ótrúlegi dagur kallaði upp í hugann gamalt Bítlalag enda hafði þetta allt verið svo óraunverulega fallegt; Lucy in the sky with dimonds"
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2011 | 10:40
Ok
Það er gott að vera í tjaldi í Húsafelli, þar sem reglur svæðisins tryggja næði fyrir góðan nætursvefn og skrílslátum er algerlega úthýst. Okkur hjónunum var því ekkert að vanbúnaði að taka daginn snemma og arka upp á Okið, sem teygir sig í tæplega tólf hundruð metra yfir sjávarmál og nærri þúsund metra yfir Húsafelli.
Það eru tvær megin leiðir til að ganga á Okið. Annarsvegar í norður upp úr Kaldadal, sem er auðveldari leiðin, og hinsvegar í suður upp frá Húsafelli. Sú leið tekur um sex til sjö tíma og eftir staðgóðan morgunverð var lagt af stað frá tjaldinum og gengið upp öxl Bæjarfells austan Bæjargils. Við hverja hundrað metra hækkun eykst útsýnið og mest áberandi er Eiríksjökull sem blasir við í norð-austri. Hvítársíðan norðan Hvítár þar sem fallegustu bæjarstæði landsins lúra niður eftir ánni er þess virði að skoða í góðum kíki.
Þegar komið er upp mesta brattan tekur við mosavaxnir melar sem eru þó ótrúlega þægilegir undir fót og ferðin gengur greiðlega upp aflíðandi hlíðar öskjunnar. Okið er systurfjall Skjaldbreiðar og hefur myndast á svipaðan hátt, þar sem tiltölulega heitt hraun rennur upp úr gígöskju í toppnum og rennur síðan niður hlíðarnar í hrauntaumum sem storkna síðan og mynda dyngju. Í gömlum sögnum er talað um fjöllin tvö sem tröllkonubrjóst.
Við gengum fram á rjúpu með unga, sem var ótrúlega smár miðað við árstíma. Ég hafði nærri stigið ofan á ungann í ógáti, en fuglarnir voru ótrúlega samlitir umhverfinu og felubúningur þeirra nánast fullkominn. Hér er óvinurinn aðallega fálkinn sem þrátt fyrir haukfrá sjón missir af bráð sinni og rjúpan kemur unganum á legg.
Þegar komið er upp í um níuhundruð metra hæð taka við jökulís sem eru leifar af jökli sem áður prýddi Okið. Efsta lagið var reyndar snjór síðan í vor, en undir því glittir í gjósku, sennilega úr Eyjafjallajökulsgosinu. Á yfirborðinu runnu lækir og höfðu markað sér farveg niður í ísinn, en hann er ósprunginn á þessum slóðum. En göngufærið var afbragð, fast undir fót en stammt vegna gjósku og ískristalla. Maður markaði varla í ísinn og brakaði í hverju spori.
Undirlagið var þó erfiðara þar sem ísinn þraut en þar tók við stórgrýti og skriður. Síðasti spölurinn á toppinn var ósköp þreytandi en þeim mun betra þegar vörðunni á brún öskjunnar var náð. Þar var sest niður í glampandi sól, norðan golu og endalausu skyggni. Það er alltaf gaman að virða fyrir sér tinda sem hafa verið sigraðir í fyrri fjallgöngum. Í norðri blasti Baula við og minnti á sínar skriðurunnu hlíðar. Í norð-austri var það Eiríksjökull með sína hvelfdu ísbungu, enda þurfti GPS tæki til að finna há-toppinn. Í norð-vestri skartaði Snæfellsjökull sýnu fegursta og fjallgarður Ljósufjalla austur af honum. Yfir Þórisjökli mátti rétt grilla í höfðann á Hlöðufelli sem sigrað var 2007 og er eftirminnilegt sem eitt stórkostlegasta útsýnisfjall landsins. Í suðri mátti sjá blika á blátt Þingvallavatnið og gufubólstrar Nesjavalla teigðu sig til himins í góðviðrinu.
Útsýnið var stórkostlegt og Langjökull teygði sig endalaust í norður, drifhvítur baðaður sólargeislum. Undir fótum okkar var askjan í Okinu þar sem undanfarið hlýskeið hefur brætt jökulinn og stöðuvatn er byrjað að myndast. Brúnin ofan öskjunnar er á annað hundrað metra há og nokkur hundruð metrar í þvermál. Þetta var góður staður til að taka upp nestið og njóta þess með stórkostlegu útsýni vestan Kaldadals.
Leiðin til baka í Húsfell gekk vel en nú var haldið niður vestan megin Bæjargils, sem er bæði styttri og fallegri leið. Gilið er úr líparíthrauni og skartar öllum regnbogans litum enda vinsæl gönguleið upp vesturbrúnina upp að vörð sem geymir gestabók fyrir þá sem þangað halda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.8.2011 kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2011 | 08:24
Sóknarfæri í sjávarútveg
Vonandi hafa andstæðingar íslensks sjávarútvegs farið það rækilega fram úr sér með framlögðum lagafrumvörpum á vorþingi, að umræðan geti færst yfir á skynsamlegar nótur í framtíðinni. Umræður um það hvernig við sem þjóð getum hámarkað arðsemi sjávarútvegs og hvernig sá arður geti nýst þjóðinni allri sem best.
Það liggja mikil tækifæri í sjávarútvegi og sóknarfærin eru mörg. Við höfum séð hvernig vinnsla á uppsjávarfiski hefur blómstrað og skilað gríðarlegum verðmætum fyrir þjóðarbúið. Mikil samþjöppun hefur átt sér stað þar sem útgerð og vinnsla hefur sameinast til að ná sem mestum verðmætum úr veiddum afla. Því miður hefur þróun botnfiskvinnslu ekki verið á sömu lund, en mikil pólitísk óvissa ásamt fjárhagslegum erfiðleikum sjávarútvegsfyrirtækja hafa hamlað fjárfestingu og þróun.
Fersk flök á erlendan markað
Sú afurð sem skilað hefur mestri arðsemi í botnfiskvinnslu eru ferskar (ófrosnar) afurðir úr þorski og ýsu. Sá markaður er erfiður og að mörgu leyti flókinn, enda líftími afurða stuttur. Ólíkt frystum fiski sem afhentur er eftir hendinni úr frystiklefa, hafa menn aðeins einhverja daga til að veiða, framleiða, flytja og selja afurðina. Til þess að það sé mögulegt þarf náið samstarf í gegnum alla virðiskeðjuna. Kaupendur þessara afurða eru veitingahús og stórverslanir, sem eru tilbúnir að greiða hátt verð fyrir góða vöru, en gera mikla kröfu um afhendingaröryggi. En hvernig er hægt að tryggja réttu gæðin, innan þröngs tímaramma og um leið tryggja kaupendum afhendingu allt árið um kring?
Stjórn virðiskeðjunnar
Í fyrsta lagi þarf að tryggja gæði afla við veiðar. Fiskinn þarf að blóðga strax, þvo og kæla síðan með ískrapa niður í ca -1°C. Ef fiskur er blóðgaður strax og kældur síðan hratt er hægt að tefja feril dauðastirðnunnar um nærri tvo sólarhringa og rannsóknir hafa sýnt að engir skemmdarferlar hefjast fyrr en dauðstirðnun er afstaðin. Ný tækni býður upp á að vinna fiskinn á sama hitastigi, -1°C þar til honum er pakkað í einangraðar umbúðir sem tryggja rétt hitastig mun betur en eldri gerðir. Munurinn er slíkur að hægt er að tala um líftíma frá veiðum í allt að 15 daga. Slíkt gefur erlendum viðskiptavinum svigrúm upp á allt að 10 daga til að koma vörunni á borð neytanda.
Í viðtali við Fiskifréttir sagði Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja (14. Júlí 2011) að 70 prósent af ,,flugfiski" sem framleiddur er á Dalvík væri fluttur út með skipum. Fiskinum er þá ekið landleiðina til Reykjavíkur, eða Seyðisfjarðar þar sem honum er skipað út til flutnings á markaði í Evrópu. Í þessu felst veruleg hagræðing þar sem flutningur með flugi kostar um 250 kr/kg en aðeins 83 kr/með skipinu. Framleiðandinn sparar því 166 kr/kg sem á endanum skilar sér til vinnslu og veiða, og þar af leiðandi til hagkerfisins og þjóðarinnar.
Frystihúsið á Dalvík er talið vera það fullkomnasta í heimi í vinnslu botnfiskafla. Það ásamt góðri stjórn virðiskeðjunnar frá veiðum til markaðar gerir þeim kleift að hámarka virði þess afla sem þeir framleiða. Rétt er að geta þess að þúsundir tonna af hráefni Dalvíkinga kemur sem ferskur fiskur erlendis frá, úr Barentshafi og frá Grænlandsmiðum.
Ljóst er að mikið vantar upp á að meginþorri frystihúsa á Íslandi hafi þá tækni, þekkingu og skipulag sem Samherji virðist búa yfir í dag. En þar er rétt að taka á málum og gera bragabót á. Íslensku þjóðinni, sem eiganda auðlindarinnar, kemur það við hvernig staðið er að framleiðslu og markaðssetningu á íslenskum fiski.
Stjórn fiskveiða
En mikilvægast af öllu er að stjórnvöld geri það sem þarf til að hámarka verðmætasköpun í sjávarútvegi. Stefnumótun stjórnvalda í nýtingu sjávarauðlindarinnar þarf að snúast um að hámarka verðmætasköpun. Ólíkt því sem lagafrumvörpin síðan í vor endurspegluðu, þarf að setja lög og reglur sem hámarka arðsemi, þjóðinni allri til heilla. Lagasetning í sjávarútvegi á ekki að þóknast þröngum hugmyndafræðilegum markmiðum stjórnmálamanna. Verst er þó þegar ráðamenn láta stjórnast af tilfinningum einum saman, firrtir allri skynsemi og framtíðarsýn. Slíkum vinnubrögðum þarf að linna svo hægt sé að þróa íslenskan sjávarútveg áfram til góðs fyrir þjóðina. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir sjávarbyggðir eins og Vestfirði.
8.7.2011 | 09:09
Ekki í anda sáttar
Það var ótrúlegt að hlusta á viðtal við Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra í Kastljósinu 24. júní s.l. þar sem meðal annars var komið inn á sjávarútvegsumræðuna og frumvörpin tvö sem lögð voru fram með afbrigðum á Alþingi í sumarbyrjun. Ráðherrann hélt því blákalt fram að frumvörpin hefðu verið í anda samningaleiðar, og taldi þau vera góða leið til sátta í erfiðu deilumáli þjóðarinnar.
Frumvörpin ekki í anda sáttar
Því fer víðs fjarri að frumvörpin endurspegli niðurstöðu skýrslu starfshóps um endurskoðun
á lögum um stjórn fiskveiða (sáttanefndar), sem skilaði skýrslu sinni í september s.l. Það ber himin og haf á milli niðurstöðu skýrslunnar og þess sem frumvörp sjávarútvegsráðherra endurspegla og má vera öllum ljóst sem hafa kynnt sér málin að fjármálaráðherra talaði gegn betri vitund. Samningaleiðin var niðurstaða hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fulltrúa þingflokka, eftir að hafa farið vandlega í gegnum stöðu mála og hverja afleiðingar, t.d. fyrningarleiðar í sjávarútvegi væru á þjóðarhag. Markmið tillagna sáttanefndarinnar voru m.a. að sjávarútvegur væri rekinn á eins hagkvæman máta og við eins stöðug rekstrarskilyrði og unnt væri til lengri tíma litið. Að þjóðin fengi arð af auðlindinni og gæta þyrfti að eðlilegri nýliðun í greininni. Einnig að verðmyndun afnotaréttar væri með eðlilegum hætti.
Um þetta þarf í rauninni ekki að deila. Nánast hver einasti fulltrúi í sáttanefndinni hefur fullyrt að frumvörp ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum séu í ósamræmi við niðurstöðu nefndarinnar. Þar tala þeir sem þann texta sömdu og þarf því varla að fara í neinar hártoganir á því hvað meint var.
Hugmyndafræði í sjávarútveg
Stóra frumvarp Jóns Bjarnasonar er hinsvegar byggt á hugmyndafræði þar sem færa á sjávarútveg í átt að ráðstjórn, þar sem stjórnmálamenn (ráðherrann) tekur ákvarðanir á kostnað markaðslausna. Skipulag og ákvarðanir stjórnvalda eru talin best til þess fallin að reka sjávarútveg og markaðslausnum og hagkvæmnissjónarmiðum er hafnað. Það vakti því ekki mikla furðu að keyra átti óskapnaðinn í gegn um Alþingi áður en hagfræðilegt mat á breytingunum lægi fyrir, enda skipti það engu máli.
Framsal valds til ráðherra
Hvergi má lesa úr markmiðum sáttanefndar ósk um það framsal valds til ráðherra sem frumvarpið gerir ráð fyrir í 3. gr. Sú grein gefur ráðherra nánast alræðisvald til að breyta og sveigja til fiskveiðikerfið með sitt gildismat eitt að vopni. Enda hafa sérfræðingar á þessu sviði allir sagt að hér sé um fáheyrt valdaframsal að ræða frá löggjafarsamkomunni til framkvæmdavaldsins.
Ráðgjöf sérfræðinganna
Ráðherra fékk sex sérfræðinga til að meta þjóðhagsleg áhrif þeirra breytinga sem frumvörpin gerðu ráð fyrir, en eins og áður segir skyldi álit þeirra ligga fyrir eftir gildistöku nýrra laga. Það er engu líkara en Jón Bjarnason hafi vitað fyrirfram að niðurstaða skýrslunar yrði honum ekki hagfelld, en reyndin var að hún er alvarlegur áfellisdómur yfir vinnubrögðum hans og raunar ríkisstjórnarinnar allrar . Í áliti sérfræðinganna er gefið undir fótinn með hóflega hækkun auðlindagjalds, en sterklega varað við öllum öðrum breytingum sem lagðar eru til í frumvörpunum.
Pólitískir markaðsbrestir
Sérfræðingarnir sýna fram á með rökstuðningi að þær breytingar sem lagðar eru til, gangi gegn þjóðarhagsmunum. Ein setning er sérlega sláandi í skýrslunni þar sem varað er við þeirri ráðstjórn sem frumvörpin leggja til;
Innan hagfræðinnar er fræðigrein oft kölluð almannavalsfræði. Þessi fræðigrein fjallar um hinn pólitíska markað og ákvarðanatöku á vettvangi stjórnmálanna. Samkvæmt kenningum þessarar fræðigreinar eru stjórnmálamenn ekki ólíkir öðru fólki, þeir taka ákvarðanir sem taka mið af eigin hag líkt og aðrir. Þannig verða til pólitískir markaðsbrestir vegna umbjóðendavanda"
Í þessu kristallast þau hugmyndafræðilegu átök um hvort notast eigi við markaðshagkerfi þar sem samkeppni ríkir með hagkvæmni og verðmætasköpun að leiðarljósi, eða hvort menn vilja treysta á ráðstjórn stjórnmálamanna sem reyna að taka ákvarðanir um þætti sem þeir hafa ekki þekkingu né upplýsingar um. Hvort almenningur vill treysta á hið allt-um-lykjandi ríkisvald sem taki heiðarlegar og réttlátar ákvarðanir, eða markaðinum sem þó eru settar nauðsynlegar leikreglur.
Gengið gegn verðmætasköpun
Í stjórnarsáttmála Samfylkingar og V.G. er talað um að stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlindar sjávar. Treysta atvinnu og efla byggð ásamt því að skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlindar. Síðan er talað um innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 árum eða svokallaða fyrningarleið.
Frumvarp sjávarútvegsráðherra gengur gegn meginmarkmiðunum stjórnarsáttmálans fyrir utan fyrningarleiðina, þeirri leið var hinsvegar hafnað í vandlegri yfirferð sáttarnefndar. Hvernig getur Samfylkingin sætt sig við hugmyndir þjóðnýtingar og ráðstjórnar? Eru kratar orðnir afhuga markaðsbúskap og samkeppni? Hvað vilja þeir þá til ESB sem byggir stoðir sínar á þeim hugtökum?
Vonandi er komið að vatnaskilum í umræðu um fiskveiðiauðlindina og að hér eftir muni valdhafar leggja sig fram um að ná sáttum í þessu erfiða deilumáli. Það liggja mikil tækifæri í sjávarútveg sem ekki verða nýtt með þeirri óvissu sem ríkt hefur undanfarið í greininni. Byggja þarf á sáttaleiðinni í þeirri vegferð.
18.5.2011 | 15:38
Markaðshagkerfi eða skipulag
Hugmyndafræði liðins" tíma
Það virðist hafa komið mörgum í opna skjöldu að frumvörp um breytingu á lögum um fiskveiðastjórnunarmál hafi verið sett fram mánuði áður en hagfræðilegt mat á tillögunum liggur fyrir. Hér er einhver reginmisskilningur á ferð þar sem tillögur sjávarútvegsráðherra hafa ekkert með hagfræði að gera, heldur snýst málið eingöngu um hugmyndafræði.
Undirritaður hefur áður bent á að andstæðingar núverandi fiskveiðastjórnunarkerfis og þeir sem helst hafa sig í frammi um að umbreyta stjórn fiskveiða, eru í raun að berjast gegn markaðsbúskap og vilja innleiða ríkisforsjá. Þeir trúa þvi að landsmenn séu betur settir með skipulag þar sem stjórnmálamenn taka ákvarðanir um hver skuli veiða hvað, hvernig, hvar og fyrir hvern. Markaðurinn sé vondur og þóknist eingöngu gráðugum auðvaldsinnum. Það er ekki nema von að umræðan sé úti á túni þegar umræðuefnið er á reiki.
Stefna Vinstri grænna
Vinstri grænir hafa það beinlínis á stefnuskrá sinni að umbreyta samfélaginu, frá markaðsbúskap til skipulags, þar sem hinn allt-um-umlykjandi faðmur ríkisins gætir hagsmuna almennings. Taki ákvarðanir sem eru sanngjarnar og réttlátar og tryggja að allir séu jafnir og engin skari eld að sinni köku. Með óskeikulli visku sinni munu stjórnmálamenn taka allar ákvarðanir, landsmönnum til heilla. Þetta sést vel á skattastefnu flokksins sem er langt frá því sett til að hámarka verðmætasköpun og efnahagslega velsæld þjóðarinnar. Þetta blasir líka við í afstöðu þeirra til atvinnumála og ekki síður peningamálastefnu og gjaldeyrishafta.
Varðandi hina nýju sjávarútvegsstefnu þá skiptir arðsemi skiptir engu máli og markmiðið er að fjölga sjómönnum og leyfa sem flestum að spreyta sig á að veiða fisk. Það skiptir engu máli þó það verði til þess að auka sóknargetu og valdi sóun á fjármunum og mannauði. Tilgangurinn helgar meðalið og þrátt fyrir að að sporin hræði í þessum efnum er allri hagfræðilegri þekkingu hent fyrir róða fyrir hugmyndafræðina. Þetta fólk lítur þannig á málin að peningarnir séu til og aðeins þurfi að skipta þeim réttlátt" milli þegnanna. Enginn skilningur á verðmætasköpun eða skilvirkni framleiðsluþátta.
Hvar eru kratarnir?
En hvað vakir fyrir krötum í Samfylkingunni sem ættu einmitt að verja markaðsbúskap og viðskiptafrelsi? Helsta markmiðið með stofnun Evrópusambandsins er einmitt að koma á markaðsbúskap og verja lýð- og atvinnufrelsi. Hvernig er hægt að berjast fyrir inngöngu í ESB og á sama tíma þjóðnýta atvinnulífið á Íslandi. Getur það verið að stór hópur innan Samfylkingarinnar hafi tapað öllum tengslum við atvinnulífið og skilji ekki hvað verðmætasköpun er? Fólk sem notar meðal annars ræðustól Alþingis til að úthrópa heilu atvinnugreinarnar með uppnefnum og stóryrðum. Eru kratar heillum horfnir og hafvilla í ólgusjó skipbrota hugmyndafræði? Er engin von til að þeir spyrni við fótum og knýi fram stefnubreytingu á þjóðarskútunni? Allir þeir sem trúa á frjáls hagkerfi þar sem framtak einstaklinga fær að njóta sín þurfa nú að taka höndum saman til að stöðva þá öfugþróun sem á sér stað í íslenskir pólitík. Þróun sem mun leiða til atgerfisflótta og verri lífskjara fyrir þjóðina.
25.3.2011 | 08:09
Grein í Fiskifréttum
Draumsýn sósíalistans
Í umræðunni um sjávarútvegsstefnuna hefur ekki verið skortur á sérfræðingum og sitt sýnist hverjum. Meðal annars hefur sjö manna hópur látið til sín taka undanfarið, og meðal annars átt fund með sjávarútvegsráðherra til að kynna hugmyndir sínar sem þau kalla; Sátt um atvinnufrelsi er sátt um byggðir. Hugmyndir sjömenningana byggja á því að RÍKIÐ sé algott, allt umlykjandi og einstaklingurinn sé bara hluti af heildinni og eigi að fela sig í hlýjum faðmi hins alvitra ríkisvalds. Margir áhrifamenn í stjórnmálum hafa tilhneigingu til að halla sér að sósíalisma og telja nauðsynlegt að skipuleggja" atvinnulífið til að reka þjóðfélagið samkvæmt sanngjarnri áætlun. Til þess þurfa þeir vald sem oft er notað miskunnarlaust í þágu fjöldans" og þá skiptir einstaklingurinn engu máli og nauðsynlegt að fórna lýðræði með frelsisskerðingu til að ná fram skipulaginu. Sósíalistar trúa því að með því að stifta einstaklingin frumkvæði og valdi og láta ríkisvaldið taka ákvarðanir sé valdið úr sögunni. Slíkt er mikill misskilningur þar sem hið miðstýrða vald er miklu hættulegra en vald sem dreifist á fjöldan. Þar sem ríkið hefur náð nauðsynlegum" yfirráðum verður vesæll skriffinni í skjóli yfirvalda valdameiri en milljónamæringurinn og reynslan kennir okkur að hann mun ekki hika við að nota það.
Frelsi eða fjötrar
Skoðanir sjömenningana byggja ekki á rannsóknum, vísindum, viðmiðunum né reynslu annarra þjóða. Þetta eru svona hægindastólahagfræði, en fyrst og fremst snýst þetta um að þjóðnýta sjávarútvegin, færa tekjur og völd frá einstaklingum til ríkisins. Fidel Castro og Hugo Chaves gætu verið stoltir af kenningum sjömenninganna. Castro sagði bændum á Kúbu að rækta kaffi, en sást það yfir að jarðvegur og loftslag hentaði ekki til þess. Þetta kostaði hungursneyð hjá landsmönnum og hugmyndin minnir á framsetningu sjömennúningana um að ríkið eigi að taka ákvarðanir um hvað sé hagkvæmt að veiða, hvenær, af hverjum og hvernig. Sjömenningarnir vita betur en atvinnugreinin hvernig er hagkvæmt að veiða fisk og vilja því að ríkið hafi vit fyrir útgerðarmönnum.
Takmörkuð endurnýjanleg auðlind
Ef við viðurkennum að takmarka þurfi aðganginn að auðlindinni þá er spurningin hvort við viljum nota samkeppni eða sósíalisma (ríkisforsjá) til að útdeila gæðum. Samkeppni þar sem þeir sem best standa sig og skila mestri arðsemi veiða, eða hvort stjórnmálamenn ákveði hverjir fá að veiða og hverjir ekki. Án takmörkunar á aðgengi verður auðlindin einfaldlega ofveidd, engum til góðs. Við þekkjum það úr sögunni að í byrjun níunda áratugarins veiddu Íslendingar meira en nokkru sinni, um 460 þúsund tonn af þorski, þrátt fyrir það var tapið á útgerðinni að sliga samfélagið og fiskstofnar að hruni komnir. Efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga var í hættu þar sem óðaverðbólga geisaði eftir endalausar gengisfellingar til bjargar sjávarútveginum. Við slíkt varð ekki unað og kvótakerfinu troðið upp á útgerðina, sem þar með tók við þeim kaleik að skera niður sóknargetu, en aðgengi að auðlindinni yrði takmarkað í staðin.
Um þetta geta allir lesið sig til um og þurfa því ekki að vera með vangaveltur um að gefa veiðar frjálsar aftur. Við vitum hvað það þýðir af biturri reynslu.
Arðsemi sjávarútvegs
En sjömenningarnir, eins og Castro og Chaves, skilja ekki út á hvað þetta gengur. Stjórn fiskveiða snýst ekki um að fjölga störfum heldur að hámarka arðsemi. En sjömenningarnir tala hinsvegar um framleiðslumagn í stað verðmætasköpunar. Að framleiðsluaukning í veiðum frá 1991 til 2007 hafi ekki aukist og það sé stjórnkerfi fiskveiða að kenna. Aflamarkskerfi byggir ekki upp fiskistofna en tryggir arðsemi af þeim takmörkuðu veiðum sem ábyrgar þjóðir stunda. Það er verðmætasköpunin sem mestu máli skiptir og hún hefur tífaldast frá 1991 til 2009, frá því að vera 2.2% í 22%, Þrátt fyrir gríðarlegan niðurskurð í veiðiheimildum. En slíkt þvælist fyrir sósíalistum sem skilja illa arðsemi en eru hinsvegar mjög uppteknir af ,,réttlætinu"
Staðan er einfaldlega þessi; Íslendingar þurfa sem aldrei fyrr að treysta á sjávarútveg og að hann skili áfram þeirri arðsemi sem hann gerir í dag. Lífakkeri Vestfirðinga er sjávarútvegur og að hann skili arðsemi sem dreifist á nærsamfélagið. Auðlindagjald sem rennur til ríkisins er skattur á sjávarbyggðir og gengur því þvert á hagsmuni fiskveiðisamfélaga. Öflugur sjávarútvegur sem rekin er á viðskipalegum forsendum og á samkeppnisgrunni er mikilvægasta hagsmunamál Vestfirðinga.
23.3.2011 | 13:12
Eru Vestfirðingar ekki samkeppnishæfir í framleiðslu til útflutnings?
Það hefur nánast allt breyst í íslenskum sjávarútveg undanfarna áratugi, nema umræðan. Margir Vestfirðingar leita blórabögguls fyrir hnignun byggðar í sínum heimabæ og finna hann í fiskveiðikerfinu og umræðan ber dám af því. Ljóst er að norðanverðir Vestfirðir hafa tapað aflaheimildum og Vestfirðingum hefur fækkað sem hlutfall af íbúum landsins og skiljanlegt að sökudólgsins sé leitað og þeir vilji ná vopnum sínum aftur.
Í þessu samhengi er rétt að benda á að af 20 þúsund tonna afla sem landað er á norðanverðum Vestfjörðum er helmingurinn boðinn upp á fiskmörkuðum, öðru er landað til vinnslu í eigu útgerðar eða með samningi milli veiðiskips og vinnslu. Sá helmingur sem fer á fiskmarkaði er nánast öllu ekið í burtu af svæðinu til vinnslu annars staðar. Hvernig skyldi standa á því og hvers vegna kaupa vinnslur hér ekki fisk á fiskmörkuðum?
Samkeppni við Faxaflóasvæði
Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að þær séu ekki samkeppnisfærar við vinnslur t.d. á Faxaflóasvæðinu. Hver er ástæðan fyrir því og hvers vegna njóta vinnslur á svæðinu ekki nálægðarinnar við gjöful fiskimið? Hér er um mikilvægt mál að ræða þar sem lítill virðisauki verður af veiðunum einum saman og nauðsynlegt fyrir sjávarbyggðir að taka þátt í frekari vinnslu aflans. Það hlýtur því að vera forgangsmál að finna ástæðu fyrir því að fiskur sem seldur er á uppboðsmörkuðum er nánast undantekningalaust keyrður í burtu til vinnslu annars staðar. Hvað er það sem fyrirtæki á Faxaflóasvæðinu hafa fram yfir vinnslur hér sem gefur þeim samkeppnisyfirburði til að yfirbjóða verð á fiskmörkuðum?
Flutningskostnaður sökudólgurinn?
Það fyrsta sem kemur upp í hugann er flutningskostnaður en framleiðsla á Vestfjörðum þarf að standa undir dýrum flutningi í skip eða flug til útflutnings. Nú er það svo að það er einfaldlega hagkvæmt að safna allri framleiðslu Íslendinga á einn stað til útflutnings. En þarf ekki að jafna aðstöðu framleiðanda hvar sem þeir eru staddir á landinu? Þarf ekki að deila þeirri hagræðingu og tryggja samkeppnishæfi fyrirtækja út í hinum dreifðu byggðum landsins?
Flutningskostnaður skekkir samkeppnisstöðu útflutningsgreina á Vestfjörðum. Fórnmunarkostnaður útflutningsfyrirtækis hér á svæðinu getur numið tugum milljóna á ári, fyrir það eitt að vera staðsett langt frá útskipunarhöfn og vegna flutningskostnaðar á rekstrarvörum frá Reykjavík. Fyrirtæki þurfa að greiða verulegar upphæðir í flutninga innanlands, sem sambærileg fyrirtæki á suðvestur horninu sleppa að mestu við. Hægt væri að flutningsjafna útflutning en erfitt gæti verið með aðdrætti, þar sem slíkt myndi hjálpa þeim sem keppa um hráefni á fiskmörkuðum. Sýnt hefur verið fram á að flutningagjöld af fersk-fiskflutningum er undir kostnaðarverði og því þurfa þeir sem flytja afurðir, aðdrætti og aðrar vörur til og frá landsbyggðinni að niðurgreiða þann flutning. Það virðist ekki vera skynsamlegt ef halda á uppi atvinnu við sjávarsíðuna.
Hangir fleira á spýtunni?
En er ástæðan eingöngu flutningskostnaður? Liggja aðrar ástæður að baki því að fiskvinnslur á Vestfjörðum eru ekki samkeppnisfærar við vinnslur við Faxaflóa? Það er fargansmál að fá svör við slíkum spurningum og gera bragabót ef þörf er á.
Flutningsjöfnun á útflutning mun kosta samfélagið sem heild einhverja fjármuni. En það mun ekki skekkja samkeppni sem neinu nemur, heldur jafna möguleika þeirra sem framleiða langt frá útskipunar höfn eða flugvelli. Við eigum ekki að þrefa um hvaða flutningstæki er notað en gera kröfum um að jafna samkeppnisstöðu framleiðenda til útflutnings óháð fjarlægð frá útflutnings höfn eða flugvelli.
28.2.2011 | 11:40
Draumsýn sósíalistanna sjö
Draumsýn sósíalistanna sjö
Undirritaður er hugsi eftir lestur greinar í BB undir nafninu Sátt um atvinnufrelsi er sátt um byggðir." Greinin er skrifuð af sjö sérfræðingum" um sjávarútvegsmál. Hugmyndir sjömenningana byggja á því að RÍKIÐ sé alltumlykjandi og einstaklingurinn aðeins hluti af heildinni og eigi að fela sig í hlýjum faðmi hins alvitra ríkisvalds. Margir áhrifamenn í stjórnmálum hafa tilhneigingu til að halla sér að sósíalisma og telja nauðsynlegt að skipuleggja" atvinnulífið til að reka þjóðfélagið samkvæmt sanngjarnri áætlun. Til þess þurfa þeir vald sem oft er notað miskunarlaust í þágu fjöldans." Einstaklingurinn skiptir þá engu máli og nauðsynlegt að fórna lýðræði með frelsisskerðingu til að ná fram skipulaginu. Sósíalistar trúa því að með því að svipta einstaklinginn frumkvæði og valdi og láta ríkisvaldið taka ákvarðanir sé valdið úr sögunni. Slíkt er mikill misskilningur þar sem hið miðstýrða vald er miklu hættulegra en vald sem dreifist á fjöldann. Þar sem ríkið hefur náð nauðsynlegum" yfirráðum verður vesæll skriffinni í skjóli yfirvalda valdameiri en stór-atvinnurekandi og reynslan kennir okkur að hann mun ekki hika við að nota það.
Frelsi eða fjötrar
Þessar hugrenningar, sem sóttar eru til Friedrich von Hayek, sækja að mér við yfirlestur hugmynda sjömenningana. Skoðanir þeirra byggja ekki á rannsóknum, vísindum, viðmiðunum né reynslu annarra. Þetta eru svona hægindastólahagfræði, en fyrst og fremst snýst þetta um að þjóðnýta sjávarútveginn, færa tekjur og völd frá einstaklingum til ríkisins. Fidel Castro og Hugo Chaves gætu verið stoltir af kenningum sjömenninganna. Castro sagði bændum á Kúbu að rækta kaffi, en sást það yfir að jarðvegur og loftslag hentaði ekki til þess. Þetta kostaði hungursneyð hjá landsmönnum og hugmyndin minnir á framsetningu sjömennúningana um að ríkið eigi að taka ákvarðanir um hvað sé hagkvæmt að veiða, hvenær, af hverjum og hvernig. Þeir vita að smábátar eru hagkvæmir og stærri bátar óhagkvæmir.
Castro og Chaves gætu líka verið stoltir af frösum sjömenningana. Atvinnufrelsi í sjávarútvegi er lífakkeri sjávarþorpanna allt í kringum landið og þegar fyrir það er tekið verða afleiðingarnar eins og sjá má í hnignandi byggð í öllum landsfjórðungum, fjötruð í böndum einokunar, ánauðar og arðráns." Þó svo að hugmyndir þeirra gangi þvert gegn atvinnufrelsi eru slagorðin notuð til að villa mönnum sýn og málstaðnum til framdráttar.
Takmörkuð endurnýjanleg auðlind
Ef við viðurkennum að takmarka þurfi aðganginn að auðlindinni þá er spurningin hvort við viljum nota samkeppni eða sósíalisma (ríkisforsjá). Samkeppni þar sem þeir sem best standa sig og skila mestri arðsemi veiða, eða hvort stjórnmálamenn ákveði hverjir fá að veiða og hverjir ekki. Án takmörkunar á aðgengi verður auðlindin einfaldlega ofveidd, engum til góðs.
Við þekkjum það úr sögunni að í byrjun níunda áratugarins veiddu Íslendingar meira en nokkru sinni, um 460 þúsund tonn af þorski, þrátt fyrir það var tapið á útgerðinni að sliga samfélagið og fiskstofnar að hruni komnir. Efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga var í hættu þar sem óðaverðbólga geisaði eftir endalausar gengisfellingar til bjargar sjávarútveginum. Við slíkt varð ekki unað og kvótakerfinu troðið upp á útgerðina, sem þar með tók við þeim kaleik að skera niður sóknargetu, en aðgengi að auðlindinni yrði takmarkað í staðinn.
Um þetta geta allir lesið sig til um og þurfa því ekki að vera með vangaveltur um að gefa veiðar frjálsar aftur. Við vitum hvað það þýðir af biturri reynslu.
Arðsemi eða magn
En sjömenningarnir, eins og Castro og Chaves, skilja ekki út á hvað þetta gengur. Stjórn fiskveða snýst ekki um að fjölga störfum! Við viljum hafa eins fáa sjómenn og starfsmenn í vinnsluhúsum eins og mögulegt er, til að hámarka arðsemi. Sjömenningarnir tala hinsvegar um framleiðslumagn en ekki verðmæti. Að framleiðsluaukning í veiðum frá 1991 til 2007 hafi ekki aukist og það sé stjórnkerfi fiskveiða að kenna. Engin tengsl eru á milli aflahlutdeildarkerfis og veiðimagns og kerfið ekki sett á til að byggja upp fiskistofna, enda slíkt ómögulegt. Hafró gerir mælingu á stofnstærðum og ákvörðun um veiðimagn er samkvæmt veiðireglu, nú 20% af veiðistofni. Kvótakerfið hefur ekkert með þessa ákvörðun að gera.
Það sem mestu máli skiptir er hinsvegar að verðmætasköpun hefur tífaldast frá árinu 1991 til 2009, frá því að vera 2.2% í 22%. Þetta þvælist fyrir sósíalistum enda segir sagan að naglaverksmiðja í gamla Sovét hafi átt að framleiða 10 tonn af nöglum á dag, samkvæmt ákvörðun ríkisstofnunar í Moskvu. Þeir framleiddu því einn tíu tonna nagla á dag, enda mun þægilegra og ekki þurfti að hugsa um hégóma eins og markaðinn.
Megin málið
Höfundar tala mikið um jafnræði og atvinnufrelsi máli sínu til stuðnings og skrauts, en í raun og veru leggja þeir til skipulag ríkisins. Ákvarðanir verða teknar í ráðuneyti í Reykjavík og arðurinn af auðlindinni rennur í ríkissjóð. Í raun snýst þetta um þrennt:
- 1. Viljum við nota samkeppni við útdeilingu aflaheimilda eða skipulag ríkisins?
- 2. Viljum við viðskiptalegar forsendur fyrir rekstri sjávarútveg eða ríkisforsjá?
- 3. Viljum við að tekjur af auðlindinni renni til sjávarbyggða eða til ríkisins í formi skattheimtu?
Hnignun byggða hefur ekkert með kvótakerfið að gera og rétt að skoða hvernig aflaheimildir dreifast um landið í dag. Rannsóknir sýna að engin tengsl eru milli kvótakerfis og brottflutnings íbúa Ísafjarðar suður á mölina. Flutningur fólks úr dreifbýli í þéttbýli er alþjóðlegt vandamál og varla geta Kínverjar kennt kvótakerfinu um þróunina hjá sér. Vestfirðingar eiga hinsvegar þann eina kost í stöðunni til að snúa vörn í sókn, að byggja á öflugum sjávarútveg í framtíðinni. Mikil sóknafæri liggja þar ef greinin fær frið til að vaxa og eflast. Það snýst ekki bara um að veiða fleiri tonn heldur að auka verðmætasköpun. Auðlindagjald af sjávarútvegi er ekki til þess fallið að efla sjávarbyggðir og hugnast íbúum 101 betur.
Aðskilja veiðar og vinnslu
Sjömenningarnir tala um að aðskilja vinnslu og veiðar, og er rétt að drepa á því máli aðeins nánar. Verðmyndun á fiski er mikilvægt mál þar sem hætta er á, að fiskvinnslur í eigu útgerða verðleggi hráefni of ódýrt til sín sem kallar á sóun. Verðmunur á fiskmörkuðum og Verðlagsstofu skiptaverðs hefur reyndar aldrei verið minni en í dag, og hefur jafnt og þétt dregið þar á milli. Þetta skiptir miklu máli þar sem almennt er viðurkennt að náið samstarf í virðiskeðju, eða full stjórnun frá veiðum, vinnslu og markaðssetningu, er nauðsynleg þegar kemur að vel heppnaðri markaðssetningu á flókinni afurð eins og ferskum fiskflökum. Fersk fiskflök hafa aldrei verið mikilvægari fyrir íslenskan sjávarútveg, enda skila þau lang hæstu markaðsverði og þar af leiðandi mestum tekjum í þjóðarbúið. Vilja sjömenningarnir koma í veg fyrir þessa jákvæðu þróun í sjávarútveg, sem með bættum samgöngum hefur blómstrað hér við norðanverða Vestfirði? Hafa þeir kynnt sér þessi mál og lesið um reynslu annarra þjóða, ein og t.d. Norðmanna þar sem aðskilnaður veiða og vinnslu hefur skaðað þá mikið í samkeppni við íslenskan sjávarútveg og sölu á ferskum fiski?
Samanburður við ESB
Staðan er einfaldlega þessi: Íslendingar þurfa sem aldrei fyrr að treysta á sjávarútveg og að hann skili áfram þeirri arðsemi sem hann gerir í dag. Eina sóknarfæri Vestfirðinga er í sjávarútvegi enda er hann ráðandi í hagkerfi fjórðungsins.
Ágæti lesendi, ég skora á þig að kynna þér þessi mál og greina á milli tálsýnar og raunveruleika. Frjáls veiði er ekki raunhæfur kostur, heppilegri eru skynsamlegar leikreglur um fiskveiðiauðlindina sem hámarka arðsemi og jafnframt stuðla að því að fiskveiðiarður dreifist með réttlátum hætti til samfélagsins. Við höfum raunhæfan samanburð á því að nota viðskipta- og samkeppnisumhverfi í fiskveiðistjórnun, við ESB þar sem skipulags og ríkisforsjá er beitt. Þrátt fyrir að báðir aðilar hafi nánast sömu markmið með fiskveiðistjórnun, hafa Íslendingar náð sínum en ESB alls ekki.
- - Að tryggja sjálfbærar veiðar, sem í raun felur í sér að miða þær við s.k. Maximum Sustainable Yield (hámarka nýtingu stofna)
- - Sá grunnur muni skila hámarks framleiðni í greininni og þar með hámarka tekjur þeirra sem byggja lífsafkomu sína á sjávarútvegi, tryggja réttláta skiptingu fiskveiðiarðsins ásamt því að gæta hagsmuna íbúa strandsvæða og neytenda
Við eigum ekki að kasta spanna í tannhjól öflugs sjávarútvegs til þess þóknast kerfiskörlum sem vilja í raun þjóðnýta auðlindina í þágu 101. Að færa hlutlægar reglur aflamarkskerfisins í huglægar reglur stjórnmálamannsins lofar ekki góðu. Reglur sem koma í veg fyrir hagkvæmni og arðsemi, útiloka sjávarbyggðir frá því að nýta auðlindina sér í hag. Öflugur sjávarútvegur sem rekin er á viðskipalegum forsendum og á samkeppnisgrunni er mikilvægasta hagsmunamál Vestfirðinga.
16.2.2011 | 08:16
Réttarríkið mun sigra í málinu
Bloggari er sannfærður um að réttarríkið muni hafa sigur í þessu máli. Engin vafi er á að glæpur var framin við Alþingishúsið þetta kvöld. Glæpur sem er óþolandi í ríki sem kennir sig við lög og reglu og og telur sig geta verndað borgara og ekki síður löggjafasamkomu sína.
Hvort þessi tiltekni hópur níumenninga verður dæmdur treystir bloggari fullkomlega dómstólum til að skera úr um. Hafi lögregla klúðrað rannsókn málsins og ekki sé hægt að sanna, svo óyggjandi sé, að þetta fólk hafi framið glæpinn, þá mun dómari sýkna þá. Svo einfalt er þetta í mínum huga.
Glæpahyski með grímur fyrir andlitinu á ekki að komast upp með ofbeldisverk. En sönnunarbyrðin verður alltaf að ráða niðurstöðu. Engin skyldi sóttur til saka nema hægt sé að sanna sekt hans.
En skilaboðin eru líka mikilvæg að hópur ofbeldisfólks geti ekki gert það sem þeim sýnist, í krafti fjölda þar sem enginn ber ábyrgð. Afskipti ýmissa þingmanna og ráðherra í þessu máli öllu eru ljúggjafarsamkomunni og framkvæmdavaldinu til skammar, þar sem hlutast er til um málefni dómstóla, úr ráðuneytum og ræðustól Alþingis.
Dæmt í máli níumenninga í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.2.2011 | 15:02
Að slá ryki í augu fólks
Bloggari greiddi atkvæði gegn síðasta Icesave frumvarpi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki vegna þess að okkur bæri ekki að borga, heldur vegna þess að hann hafði enga trú á samningunum né því fólki sem stóð á bak við þá fyrir Íslands hönd. Það var þyngra en tárum tekur að rifja þær hörmunar upp, aðkomu Svavars Gestssonar að málinu og hvernig fjármálaráðherra höndlaði þetta mál.
Íslendingar eru hinsvegar dauðsekir í þessu máli. Það hefur aldrei snúist um að borga skuldir óreiðu manna eins og Styrmir og co halda fram. Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðu slíkt hið sama til að fanga vinsældir þjóðernissinna sem hafa aldri fengist til að líta þetta mál raunsæjum augum.
Ríkið skipti Landsbankanum upp í góðan og vondan, nýja og gamla. Allar innistæður, sem voru varðar hvor eða er af ríkinu, voru tekna inn sem skuldir nýja bankans. Þá þurfti að taka eignir á móti og það var gert með yfirtöku útlána, eftir að búið var að verðleggja þau raunhæft. Búið að slá af 20, 30, 40, 50% af áður en þau voru tekin yfir, og reikningurinn sendur kröfuhöfum, eða erlendum lánastofnunum. Allar aðrar skuldir voru skildar eftir í gamla bankanum. Þá tóku Bretar og Hollendingar upp á því að greiða þarlendum sparifjáreigendum sinn hlut og vildu að Íslendingar greiddu lágmarkskröfuna, enda ekki heimilt að mismuna þegnum EES svæðisins með þeim hætti sem Íslendingar gerðu. Það liggur fyrir og þetta hefur aldrei haft neitt með tryggingarkerfi innlána að gera. Ríkið setti síðan eigið fé inn í Landsbankann og tók hann yfir og á hann í dag að mestu leiti. Síðan ákvað ríkið að gusa inn á peningamarkaðsjóði Landsbankans tuga miljörðum króna, og senda kröfuhöfum gamla bankans. Það er nú ekki mikið réttlæti í því eða hvað? Þeir sem tapa, á óreiðumönnunum, eru lánadrottnar. Það er nú kannski allt í lagi þar sem þeir bera ábyrgð á að lána þeim.
En Icesave hefur ekki gengið út á að borga skuldir óreiðumanna. Ef Íslendingar hefðu ekki tryggt innlendum sparifjáreigendum endurgreiðslu, hefði Icesave aldrei orðið til Basta.
Meiriháttar pólitísk mistök | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.2.2011 | 11:20
Gordon Brown veit hvað hann syngur í þessum efnum
Kínverjar eyða í lúxus | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.1.2011 | 12:31
Sólarkaffi í Reykjavík
Maður þarf eiginlega áfallahjálp eftir að hafa farið á Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins og maður áttar sig á því hvernig elli-kerling nagar í hælana á manni. Sumir breytast reyndar lítið en aðrir eldast og að sjálfsögðu maður sjálfur með.
En það er huggun harmi gegn, ef elli er yfir höfuð einhver harmur, að hitta skólafélagana af 54 árgangi og sjá að þeir breytast ekki neitt. Stelpurnar allar jafn sætar, geislandi af fjöri og galsa eins og tíminn standi í stað. Strákarnir sömu prakkararnir og sem púkar í skóla og fjall-myndarlegir. Ég hitti reyndar Sigga blóma þarna og grunar að hann sé að gefa þeim Grænu Þrumuna sem hann framleiðir úr grösum tíndum undir Skarði á Snæfjallaströnd. Best að heimsækja hann í sumar og komast í áskrift hjá honum. Svo ég falli betur inn í 54 hópinn ásamt því að bæta þrekið á ákveðnum sviðum.
Sirra Gríms fór á kostum en þetta var eins og mannsævi á jarðfræðilegum tíma. Örlítil sekúnda af lífi Grímsara, en tók samt klukkutíma. Hún gæti haldið á vikum saman án þess að manni færi að leiðast.
Ég velti því fyrir mér með 54 árganginn hvernig allir þessir grallarar komust fyrir? Sennilega þess vegna sem maður hafði sig lítið frammi og draup ekki af manni í skólanum. Kannski eins gott því varla hefðu kennararnir þolað meir en þeir fengu. Þó ég hefði nú ekki verið óþekkur líka!
Árið 2011 eru fjörutíu ár síðan þessi fríði útskrifuðust sem gagnfræðingar. Ég var reyndar skilin eftir með Nonna Gríms með 55 mótelinu, en aldurlega áttum við að útskrifast líka árið 1971.
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
- astromix
- ekg
- stefanbjarnason
- golli
- vikari
- gunnarpetur
- vestfirdir
- gudni-is
- ea
- ladyelin
- gp
- altice
- hjolaferd
- kaffi
- komediuleikhusid
- rabelai
- ziggi
- huldumenn
- helgi-sigmunds
- sigrunzanz
- hordurhalldorsson
- baldher
- hjaltisig
- lotta
- kjarri
- bjarnimax
- jovinsson
- smjattpatti
- eirmor
- vefritid
- saemi7
- siggisig
- maggij
- lehamzdr
- contact
- gauisig
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 28
- Frá upphafi: 285873
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar