Laugardagur í Austurdal

 

Lagt á hrossinStebbi komin á fæturÞað var fríður hópur hraustra manna sem reis úr rekkju að Hildarseli á laugardagsmorgun, tilbúnir í fjársöfnun í Austurdal.  Morgunsólin vermdi vanga og hár bærðist ekki á höfði.  Það var komið rennsli á féð vestan við Jökulsá og greinilegt að smölun var í gangi þar og ekki annað að gera en leggja á hesta og koma sér af stað fram Austurdal og smala austurbakkann.  Við ætluðum að smala fremsta hluta Dalsins í dag og reka það fé sem fyndist í réttina að Hildarseli.

Ég fékk frískan klár undir mig þennan morgun og sennilega voru það meðmæli með hestamennsku minni.  Til að skerpa á reiðmennskunni fékk ég gúlsopa af Kakala og eftir það fann ég taktinn við Smá Kakalihestinn.  Þegar ég reið í morgunsólinni fram Austurdal varð mér hugsað til þess að oft væri talað um sveitamann og heimsborgara sem andstæður.  Það vantaði eitthvað inn í þá mynd þar sem ég taldi mig til hvorugs hópsins.  Ég er svona fjörufúsi sem er sjávarútgáfan af sveitamanni.  Alinn upp í sjávarþorpi og fengist við sjávarútveg nánast alla mína tíð.  Veit lítið um Skúli Skúlasveitastörf og þarf því stöðugt að passa mig í þeim félagskap sem ég deildi þessa dagana og leyna fákunnáttu í sveitamennskunni.  Til dæmis varð mér á við Ábæjarréttina að tala um skjöldóttann hest.  Slíkt lætur bara fjörufúsi út úr sér enda veit sveitamaðurinn að hestar eru skjóttir en kýrnar skjöldóttar.  Einar vinur minn dró mig afsíðis við þennan atburð og útskýrði málin fyrir mér í rólegheitunum, við hlátrarsköll félaganna.

En það þarf ekki fjöruilm til að kitla sálu fjörufúsa og jafnvel hann hrífst með í Austurdal þegar riðin er Fögruhlíðin á fögrum morgni.  Upp í hugann kom síðasta versið í kvæði dalaskáldsins „Í öræfadal":

Gefðu þér tíma og fangaðu frið

sem fýkur með morgunsins svala

er heyrir þú svanina hefja sin klið

af heiðarbrún öræfadala

S.H.

Sögustund í FörguhliðÞað er aldrei riðið í gegnum skógin í Fögruhlíð án þess að ægja og segja sögur.  Gangnamenn voru óvenju opinskáir og söguglaðir þennan morgun í fallegu rjóðri birkiskógarins.  Sennilega voru þeir ölvaðir af fegurð Dalsins og örlæti almættisins á aðstæður þennan laugardagsmorgun.  Hér verða sögurnar ekki tíundaðar, enda ríkir trúnaður milli smalamanna hvað sagt er á slíkum stundum.  Þar skiptir ekki máli hvort það er biskup (jafnvel eineygður) eða tukthúslimur sem á í hlut.  Á svona stundu geta sögur orðið djarfar og meira sagt en menn vildu þegar móðurinn rennur af þeim, og yfirleitt eru sögurnar meiri og merkilegri en þeir atburðir sem þær byggja á.  En jafnvel fjörufúsi veit að góða sögu má ekki skemma með sannleikanum og eftir kennslustund í að stíga í hnakk er haldið á fram dalinn.  Söngur fyllti nú Austurdal meðan hestarnir töltu upp með Jökulsá og náði ritari niðurlagi lagsins:

..........ég öðru betra

elsku besta Susana

er ríða nokkra millimetra

milli viskísjússana

GooglesteinninnVið mynni Hvítárdals er eru höggvin skilaboð í klettasyllu, skrifuð af sauðfjárvarnarstarfsmanni 1938.  Ekki er víst að hún endist betur en það sem höggið er í Googlesteininn en óneitanlega vekur hún meiri athygli en flest af því sem þar stendur enda nokkuð fátíðari tegund.

Riðið var áfram viðstöðulaust þar til komið var upp að Fossá.  Eitt af erindum ferðarinnar var að kynna staðinn fyrir Útivistar Skúla og fá félagsskap hans með í byggingu og reksturs skála við ána.  Austurdalur er frábær gönguleið og getur bloggari vitnað um það, enda gekk hann með Hallgrími Bláskóg frá Skatastöðum upp á hálendið að Laugafelli.  Nokkuð langur og strangur gangur er frá Hildarseli í Grána og myndi skáli við Fossá vera tilvalin áningastaður þarna í milli.  Vestfiskir meðlimir Gagnamannafélags Austurdals munu ekki láta sitt eftir liggja þegar kemur að skálabyggingu en aðdrættir eru mjög erfiðir í Dalnum þar sem Tröllaskaginn hlífir honum fyrir norð-austan áttum og snjó setur aldrei niður. 

Hross við FossáÞað var einhverju sinni í ferð Skagfirðinga til Egyptalands að menn stóðu gapandi yfir því þrekvirki að koma tuga tonna björgum um langan veg og það yfir Nílarfljót.  Einn úr hópnum kom þá með þá skynsamlegu skýringu að steinarnir hefðu verið dregnir á snjó um vetur, en ekki voru allir sammála þessari tilgátu enda þekkt í Austurdal að sleðadráttur að vetri gengur ekki vegna snjóleysis.

Fossá er fegurst áa, hvítfyssandi og gróin moRéttin við Fossása í botninn, þannig að engu líkara er en gengið sé á teppi yfir hana.  Þetta er lindá og því rennsli hennar stöðugt og hitastig jafnt.  Það er eitthvað undursamlegt við hvernig hún frussast niður allan dal og hvergi sést í lygnan hyl.  Fossá er faratálmi gangandi manna og rifjast upp ferð Hallgríminga yfir straumþungan í fyrra, bundnir með snæri um mittið og vatnið braut upp undir hendur.  Betra er að missa ekki fótfestuna, enda stutt í ármótin við Jökulsá, sem er að öllu leiti ófrýnilegri og ofsafengnari en Fossá og ekki gott að berast í boðaföll hennar.  En á hestum er þetta létt verk og löðurmannslegt, enda finna hrossin ekki fyrir straumþunganum og feta þetta af miklu öryggi.

Áð við FossáÁ suðurbakka Fossár tók smalinn fram malinn og þar var ólíku saman að jafna frá fyrri smalaferð í Austurdal.  Ilmandi sviðasulta með rófustöppu og skolað niður með heimsins besta lindarvatni.  Kakalinn var á þrotum en maður kemur í manns stað þegar kemur að Sturlungu og nú hét mjöðurinn Brandur.  En hér var ekki til setunnar boðið og áfram skyldi haldið við smalamennskuna.  Hér var skipt liði og bloggari ásamt Þórólfi og Gísla riðu upp á Hölknármúla sem heldur um Hölknárdal í suðri.  Þegar upp var komið var hélt Sigurður norður fjallið ofan í dalinn en við Þórólfur riðum áfram suðvestur yfir heiðina.  Hér var útsýnið stórkostlegt, með Hofsjökul í suðri og Tungnafellsjökull blasti við austar.  Austurdalur skartaði sínu fegursta en hæðin var um 700 metrar yfir sjávarmáli þar sem hæst var riðið.Fossá

Nú var komið að því að stíga af baki og leggja í Lönguhlíðina fótgangandi.  Landslag er þar of bratt fyrir hesta og því ekki annað að gera en nota tvo jafnfljóta.  Þórólfur tók við taumnum og við mæltum okkur mót við Hölkná.

Langahlíð er erfið yfirferðar en hægt er að ganga hana að mestu leiti eftir áraurum og bökkum Jökulsár.  Einstaka sinnum þarf þó að klífa bakkann og ganga bratta hlíðina þar sem þverhnípt er niður í ána.  En ferðin gekk að óskum en engin kind fannst á þessari leið, frekar en á öðrum leitarstöðum þessa smaladags.

Kjötsúpa að HildarseliVið riðum í Hildarsel í rökkri og hittum þar fyrir félaga okkar frá öðrum leitarsvæðum.  Við áttum von á fleiri smalamönnum þetta kvöld, Bjarna Marons frá Ásgeirsbrekku ásamt tveimur félögum hans, Sigurgísla og Gunnari Valgarðsyni.

Það var komið að því að bjóða sveitarmönnum upp á lostæti hafsins og við Einar skárum niður hákarlsbeitu, frá Reimari Vilmundarsyni, og bárum fram ásamt ýsu og smjöri.  Smá Svartidauði spillir ekki bragðinu af þessu hnossgæti og ljóst að það átti fullt erindi upp í óbyggðir Austurdals.  Kræsingunum var gerð góð skil og varla eftir skán eða roð fyrir smalahundana.  Í framhaldi var borin fram kjötsúpa, framleidd úr sérvöldu feitu lambakjöti úr Dalnum.  Yfir borðum var margt skrafað og margar sögur sagaðar.  Þórólfur sagði okkur ferðasögu Karlakórsins Heimis til Ísafjarðar um árið þar sem meðal annars var komið við á knæpu bæjarins, þar sem þessi vísa varð til:

Krókar hanga laust við vang

losta svangir hanga

Yndi í fangi eykur gang

inn á Langa Manga

S.H.

Hér var komið að stóru stundinni þar sem aukafundur Gangnamannafélags Austurdals skyldi haldin.  Venja er að halda fund á laugardagskvöldi í smalaferð, en aðalfundir eru haldnir fyrsta föstudag í mars á hverju ári.  Ákveðið var að bíða með fundinn þar til liðsafli smalamanna bærist heim í bæ en þeir komu um tíuleitið, í kolniða myrkri.

Aukafundur GangnamannafélagsinsSvona fundir geta tekið tíma enda margt að ræða.  Skúli Skúlason frá Útivist var formlega tekinn inn i félagið og vonandi mætir hann á aðalfundinn í mars.  Vangaveltur um væntanlega skálabyggingu við Fossá tók sinn tíma en innlegg Gísla á Frostastöðum yfirskyggði aðra umræðu fundarins.  Gísli hafði náð GSM sambandi við Gísla Rúnar af fjallinu um daginn, sem nú er fjarri góðu gamni og býr út í Manchester á Englandi.  Gísli Rúnar hafði reiknað út að meðalaldur Gangnamannafélagsins væri orðið 58,2 ár og stefndi í að meirihluti gildra lima væru orðin löggilt gamalmenni.  Huga þyrfti að handföngum og sliskjum fyrir hjólastóla í Austurdal, enda væru menn dettandi fram úr kojum og guð má vita hvernig hægðir ganga á ófullnægjandi kamri á hverjum morgni.  Tvennt væri í stöðunni að áliti Gísla; að yngja upp í félaginu eða fara út í gagngerar lagfæriáningar á húsakostum og búnaði.  Nokkrir töldu að félagið þyldi ekki of mikið af ungu fólki, og bentu á síbylju Rásar 2 og Bylgjunnar því til sönnunar.  Kannski menn færu að spila Michael Jackson eða Bubba Morteins á kvöldvökum smalamanna?  Myndi félagskapurinn bera sitt barr eftir það? 

Ávallt reiðubúinnLjóst má vera að hér er hápólitískt mál á ferðinni sem erfitt verður úrlausnar.  Hinsvegar eru helstu forkólfar félagsins engir aukvisar og ljóst að málinu verður lent með einum eða öðrum hætti.  Undir ljúfum tónum skagfirskra söngmanna klöngraðist undirritaður upp á loft  til að halda á vit drauma sinna, úrvinda eftir átök dagsins og hvíldinni feginn eftir góðan dag í frábærum félagsskap.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband