Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

,,Gjafakvótinn"

Umræða í skötulíki

Umræðan um stjórn fiskveiða hefur verið í skötulíki undanfarin ár. Flestir þeirra sem hæst láta virðast gera sér litla eða enga grein fyrir því að kvótakerfinu var komið á fyrir 25 árum til þess að auka arðsemi í íslenskum sjávarútvegi og beita skynsamlegri nýtingu til að vernda ofveidda fiskistofna. Það vill gleymast, að fæstir útvegsmenn voru hlynntir kvótakerfinu á sínum tíma. Með þessum hugmyndum þótti þeim vegið að frelsi sínu til fiskveiða. Í dag deilir hins vegar enginn ábyrgur útgerðarmaður um ágæti þessa fyrirkomulags sem notað er við stjórn fiskveiða hér á landi.

 

Hvað lá að baki?

En hvernig var tilurð kvótakerfisins og hvað lá þar að baki? Upphaf umræðunnar má tengja við útkomu hinnar svokölluðu ,,svörtu skýrslu" Hafrannsóknarstofnunar árið 1975. Þar sagði að útlit væri fyrir verulegan viðkomubrest ef ekki yrði gripið til nauðsynlegra ráðstafana. Í framhaldi var ,,skrapdagakerfinu" komið á 1977. Þar mátti hlutfall þorsks hjá togurum ekki fara upp fyrir ákveðið hlutfall af afla tiltekna daga á ári.

Að öðru leyti voru veiðar frjálsar og þrátt fyrir tillögu Hafró um 275 þúsund tonn þetta ár var veiðin 340 þúsund tonn. Sóknarþungi jókst stórum og náði þorskveiðin hámarki árið 1981 þegar veidd voru tæp 470 þúsund tonn. Þrátt fyrir þessa miklu veiði fór afkoma útgerðar stöðugt versandi. Á annað hundrað skuttogarar bættust við flotann á þessu tímabili sem hluti af stefnu stjórnvalda í atvinnu- og byggðamálum.

Hugmyndinni illa tekið í fyrstu

Augljóst var að frjáls aðgangur að auðlindinni skilaði ekki þeim markmiðum sem stjórnvöld settu sér við nýtingu hennar. Þannig benti Jakob Jakobsson fiskifræðingur t.d. á gríðarlega sóun við síldveiðar árið 1979, þar sem 170 skip veiddu 35 þúsund tonna ársafla. Tíundi hluti þess flota hefði staðið undir veiðunum.

Austfirðingar hreyfðu fyrst við hugmyndum um kvótakerfi á Fiskiþingi árið 1978. Þeim var illa tekið af útvegsmönnum, sérstaklega Vestfirðingum, sem töldu frjálsar veiðar sér í hag vegna nálægðar við fiskimiðin. Austfirðingar reyndu á ný árið eftir en allt fór á sama veg. Á Fiskiþingi 1981 mátti hins vegar greina vaxandi áhuga á kvótasetningu á þorski. Umræðan var orðin upplýstari og menn gerðu sér grein fyrir að stjórnlaus veiði á endurnýjanlegri auðlind ógnaði jafnt fiskistofnum sem afkomu útgerðarinnar.

Kvótakerfið verður að lögum

Fram að þessum tíma hafði svokölluð millifærsluleið verið farin í stjórnun sjávarútvegs. Flókið sjóðakerfi var notað sem tæki til að taka fjármuni af heildinni og færa öðrum. Heildarfjármunir voru teknir frá þjóðinni með launalækkun í gegnum gengisfellingar. En til að gera langa sögu stutta fór svo að mælt var fyrir frumvarpi um kvóta í desember 1983 og það varð að lögum árið 1984.

Kvótakerfið var samþykkt til eins árs í senn þar til 1988 þegar það var fest í sessi. Fljótlega kom í ljós að án framsalsréttar á aflaheimildum væri takmarkaður ávinningur af kvótakerfinu. Framsal var lögfest 1988. Ljóst var að nauðsynlegt var að fækka skipum og draga úr sóknarþunga til að auka arðsemi veiða og án framsalsheimilda væri það borin von.

Einkaframtak í stað ríkisafskipta

Stjórnmálaflokkar voru klofnir í afstöðu sinni til málsins en margir álitsgjafar voru atkvæðamiklir í umræðunni. Í henni kristölluðust meginstraumar í hugmyndum um kvótakerfi; hvort ríkið ætti að útdeila fiskveiðiheimildum eða hvort nýtingarréttur yrði færður til útgerðarinnar og hún látin bera ábyrgð á eigin afkomu. Sú leið sem farin var - að nota reiknireglur til að skipta aflaheimildum niður á skip - var því í anda einkaframtaks í stað ríkisafskipta.

Kvótanum þröngvað upp á útvegsmenn

Það er nokkuð ljóst að kvótanum var þröngvað upp á útvegsmenn á sínum tíma þar sem frjáls veiði án afskipta ríkisins hugnaðist þeim betur. Sú aðferð að færa nýtingarréttinn til útgerða, byggðan á aflareynslu, getur varla talist vafasöm aðgerð. Í ljósi fjárhagsstöðu útgerðarinnar á þessum tíma var ekki var borð fyrir báru til að greiða háar upphæðir fyrir aflaheimildir til ríkisins. Einnig verður að líta til þess að aflakvóti var einskis virði á þessum tíma enda tapið botnlaust hjá útgerðinni og kvótasetningin því forsenda arðsemi.

Ríkisafskipti með pólitískri útdeilingu gæða eins og aflaheimilda er ekki líkleg til að skila hámarks arðsemi af fiskveiðum sem hlýtur að vera meginkrafa íslensku þjóðarinnar. Skipting þess fiskveiðiarðs með réttlátum hætti er hinsvegar pólitískt viðfangsefni hverju sinni.

Höfundur er viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum

 


Skuldir útgerðarinnar

Ólína Þorvarðardóttir ritar grein í B.B. 20. janúar undir fyrirsögninni ,,Gjöfin dýra - skuldabagginn" Höfundur hefur nokkuð til sín máls að þeim sem treyst er fyrir nýtingu auðlindarinnar, fari vel með það traust. Réttilega er bent á að ábyrgðarleysi með gengdarlausum erlendum lántökum hafa áhrif á fiskveiðiarð og koma þjóðinni því við. Þjóðin á kröfurétt á þá sem hún treystir fyrir nýtingu mikilvægustu auðlind sinnar, sjávarútvegnum, að þeir gæti hagsmuna hennar í hvívetna.

Gott dæmi um ábyrgðaleysi útgerðarmanna er stöðutaka með krónunni síðsumar 2008 fyrir tugi miljarða króna. Þetta var útskýrt sem áhættustýring fyrir útgerð og fiskvinnslu, en flestir sem til þekkja sjá að þau rök standast illa og nær að kalla gjörninginn hreinlega brask. Þessi mál eru ekki uppgerð ennþá en gæti haft veruleg áhrif á skuldastöðu útgerðarinnar í heild sinni. Rétt er að taka fram að lífeyrissjóðirnir voru enn kræfari í þessu braski og viðbúið að skellur þeirra verði á annað hundrað milljarða króna í uppgjöri við bankana.

Það er nú þannig að rónarnir koma óorði á brennivínið og auðvitað er ekki hægt að setja alla útgerðarmenn undir sama hatt. Ekki hafa nöfn útgerða hér í Ísafjarðarbæ verið nefnd í þessu samhengi og vonandi er staða þeirra því sterkari en hinna sem eiga hlut að máli.

Ekki er þó ástæða til að breyta hagkvæmu fiskveiðistjórnunarkerfi á þeim forsendum að einstakir útgerðarmenn fari fram úr sér og sökkvi sér í skuldafen. Þau fyrirtæki fara einfaldlega í þrot, líkt og önnur fyrirtæki í þeirri stöðu, hvort sem um bílaumboð eða bóksala er að ræða. Nýir menn taka þá við og erlendir lánadrottnar tapa kröfum sínum. Við yfirtöku nýju bankana af þeim gömlu hefur þetta allt verið skoðað og ráð fyrir því gert.

Margir andstæðinga kvótakerfisins tala um að menn veðsetji kvótann, sem sé siðlaust þar sem þjóðin eigi auðlindina. Þetta er í besta falli einföldun, en verra ef það er notað til að blekkja fólk. Málið er að menn veðsetja fjárstreymi í útgerð eins og öðrum rekstri. Reiknað er út hversu miklum skuldum fyrirtæki geti staðið undir miðað við fjárstreymið. Það liggur hinsvegar fyrir að útgerð sem rekin er með eigin kvóta hefur jákvæðara fjárstreymi en önnur sem þarf að leigja hann til sín.

Íslendingar verða að reka sinn sjávarútveg á hagkvæman hátt með arðsemi í huga. Við höfum einfaldlega ekki efni á öðru. Stjórnvöld eiga ekki að skipta sér af rekstri einstakra fyrirtækja, heldur setja almennar leikreglur. Það er ekki í verkahring stjórnmálamanna að reikna út hvort eitt útgerðarform sé hagkvæmara en annað né hver hagkvæmasta skuldastaðan er, heldur hvers fyrirtækis fyrir sig.

Miðað við árangur íslenskra stjórnmálamanna undanfarið virðast þeir hafa fangið fullt án þess að gerast ráðgjafar í rekstri fyrirtækja.

 


Hin kalda krumla einangrunnar Íslands

Nokkurra vikna ritstífla bloggara losnar við það reiðarslag sem ákvörðun Bessastaðabóndans hefur valdið honum. Óttinn við einangrun Íslands frá nágrannaþjóðum og orðspori í ruslflokk er nístandi kaldur. Heimóttaskapur umræðunnar vekur frekari ugg í brjósti og lítilli trú á að þjóðin vinni sig út úr þessum alvarlega vanda. Nú berja menn sér á brjóst og beita fyrir sig þjóðernishyggju!

 

Ef horft er á stöðuna í dag er málið nokkuð einfalt. Setja aftur fyrir sig það sem er búið og gert, í bili a.m.k., meðan við náum skipinu á réttan kjöl. Það er lítill tími til að velta fyrir sér hver gerði hvað og hvenær þegar brotsjór hefur riðið yfir og skipið og því er að hvolfa. Átök milli manna hafa þá enga tilgang, enda berjast menn við náttúruöflin.  Þá er nauðynlegt að leggja niður kytrur og þvarg og leggjast saman á plóginn.

 

Íslendingar eru að berjast við nokkurs konar náttúruöfl, alþjóðasamfélagið, sem lætur sér í léttu rúmi liggja hvað Íslendingum þyki sanngjarnt og réttlátt. Rétt skal vera rétt og reglurnar nokkuð skýra. Með neyðarlögunum var ákveðið að tryggja innistæður íslenskra banka á Íslandi en ekki í Bretlandi og Hollandi. Slíkt brýtur gegn reglum ESB og þar með gegn samningi um EES. Ekki má mismuna íbúum svæðisins efir þjóðerni!

 

Þetta hefur nefnilega ekkert með reglur um innistæðutryggingar að gera. Málið er að ef Íslendingar hefðu ekki ákveðið að tryggja innstæður hérlendis, hefðu menn ekki þurft að greiða innistæður í Bretlandi og Hollandi. Þá hefðu allir bankarnir farið á hliðina á einum eftirmiðdegi og máttlítill tryggingasjóður greitt þeim sem ekki höfðu náð að taka peningana sína út.  Þetta hefur því með regluverk EES að gera og því myndu dómstólar EFTA eða ESB úrskurðarvald í málinu.  Afstaða þar lggur fyrir!

 

Ef þjóðir EES létu Íslendinga komast upp með að brjóta á meginstoðum samningsins um að ekki megi mismuna íbúum eftir þjóðerni, gætu aðrar aðildarþjóðir fylgt í kjölfarið og gert slíkt hið sama. Allt í nafni ,,réttlætis" og ,,sanngirni" séð með augum íbúa þess ríkis sem gripi til slíks óyndisúrræðis.

 

Nú liggur fyrir að Fitch hefur lækkað lánhæfismat landsins niður í ruslflokk með neikvæðum horfum og það sem hér og nú hefur borist frá nágranalöndum varðandi synjun forsetans á lögum um ríkisábyrgð á IceSave er ekki uppörvandi. Engin stendur með Íslendingum!

 

Er þetta ekki bara ótrúlegur heimóttaskapur Íslendinga? Það er talað á þann hátt að meiri sáttartón þurfi á Alþingi? Málið verður ekki leyst á Alþingi eins og lögin síðan í haust sína. Það dugar ekki að annar aðili samnings ákveði einhverjar breytingar á honum, löngu eftir undirskrift. Íslendingar skrifuðu undir samning um IceSave í júní ásamt Bretum og Hollendingum. Viðsemjendur Íslendinga samþykktu svo einfaldlega ekki þá fyrirvara sem settir höfðu verið einhliða af Alþingi. Bretar og Hollendingar, sem samkvæmt samkomulaginu lána þjóðinni fyrir greiðslum á innistæðu í þessum löndum, hafa það í hendi sér á hvaða kjörum þeir lána. Þeir þurfa einfaldlega ekki að samþykkja fyrirvara sem settir eru eftir undirskrift samkomulagsins.

 

Bloggari vonar að flokksmenn hans hafi einhver spil upp í erminni eftir ,,sigur" sinn í þessu máli. Hann óttast hinsvegar að svo sé ekki og hér sé einfaldlega um venjulegan íslenskan skotgrafahernað í pólitík að ræða. Þetta mál er bara allt of stórt fyrir slíkan hernað.

 

 


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 283917

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband