Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Ákvörðun sjávarútvegsráðherra

  þorskur

Það eru slæmar fréttir sem berast af fiskveiðiauðlind Íslendinga þessa dagana. En þær eru ekki óvæntar. Hafrannsóknarstofnun hefur lengi haldið því fram að of mikið sé gengið á þorskstofninn og lagt til að veiðiregla, sem nú er 25%, verði lækkuð umtalsvert. Undanfarin ár hafa Íslendingar veitt 31% af veiðistofni og dánarstuðull verið 63% en viðmið verið 42%.

Í þessari stöðu er nauðsynlegt að umræðan verði rökræn og tilfinningum ýtt til hliðar meðan skynsamleg ákvarðanir eru teknar. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að draga línu á milli fiskveiðikerfis og ákvörðun um heildarafla. Kvótakerfið er hagfræðilegt tæki til hámarka arðsemi í sjávarútvegi en engum skyldi detta í hug að kerfið eitt og sér geti tryggt viðgang þorskstofnsins. Íslendingar hafa veitt umtalsvert umfram ráðleggingar Hafró og um það snýst málið.

Árið 1976 var þorskafli 120 þúsund tonn umfram ráðgjöf og 135 þúsund árið 1980. Síðan þá hefur veiði umfram ráðgjöf sveiflast frá 20 þúsund tonnum og upp í 120 þúsund tonn. Hvers vegna fór veiði svona langt fram úr ráðleggingum sérfræðinga?

Í fyrsta lagi voru það aðgerðir sem kenndar eru við réttlæti og áttu að bæta hag landsbyggðarinnar sem skekktu myndina. Menn notfærðu sér glufur í kerfinu og síafeldar kröfur misvitra stjórnmálamanna um fríspil í kerfinu komu í veg fyrir skynsamlega veiðistjórn. Smábátakerfið, línutvöföldun, línuívilnun, krókaaflamark svo helstu meinsemdirnar séu nefndar.

Forystumenn í sjávarútvegi, með ráðherra í broddi fylkingar, þurfa að spyrja sig þeirrar spurningar hvort taka eigi mark á vísindamönnum eða ekki. Ef niðurstaðan er neikvæð þá er rétt að draga stórkostlega úr fiskveiðirannsóknum, enda til lítils að stunda þær ef ekkert mark er á þeim takandi. Ef svarið er jákvætt þá þurfa menn að axla þá ábyrgð sem fylgir ákvörðun um niðurskurð á aflaheimildum.

Miðað við niðurstöður Hafró þarf að færa veiðireglu niður í 20%. Slíkt mun valda miklu róti í íslensku samfélagi fyrir hagsmunaaðila og þjóðina alla. En þó ekki eins miklum og ef þorskstofninn hrynur. Ef ráðgjöf fiskifræðinga er rétt mun lækkun veiðireglu skila þjóðinni miklu til lengri tíma litið. Ekkert er öruggt í þessu en tölfræðilega eru yfirgnæfandi líkur fyrir því.

Ef þjóðin á fisveiðiauðlindina á ráðherra að taka ákvörðun sem hámarkar hag hennar til langs tíma litið og tryggir viðgang fiskistofna við Íslandsstrendur. Ákvörðun hans á ekki að byggja á skammtímahagsmunum undir þrýsting frá hagsmunaaðilum. Margir útgerðarmenn og sjómenn virðast horfa til skamms tíma ef marka má viðbrögð þeirra við slíkum ákvörðunum í gegnum tíðina. Slík ákvörðun ráðherra mun valda miklum sársauka og erfiðleikum, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem megin hluti aflaheimilda er. Landsbyggðin og öll íslenska þjóðin þurfa ákvörðun sem tryggir hagsmuni sína til langs tíma litið.


Nýfundnaland og einstaklingsframtakið

nýfundnaland 

Malthus

Á átjándu og nítjándu öld var presturinn og hagfræðingurinn Malthus uppi. Hann var reyndar góðvinur Ricardo sem áður hefur verið nefndur í þessu bloggi.

Malthus trúði því að almúginn væri latur og hyskinn að eðlisfari og þyrfti að svelta hann til hlýðni og vinnu. Ekki verður tekið undir þessa skoðun prestsins en það sem hann skildi eftir fyrir hagfræðina og komandi kynslóðir var skilgreining á einstaklingshyggju. Eitthvað sem ekki hafði verið gert fyrr.

Á átjándu öld var hefðarhyggja við líði, almúginn treysti á höfðingjanna sem sáu þeim fyrir sárustu nauðþurftum eins og mat og húsaskjóli, en sýndu í staðin fullkomna tryggð og undirgefni. Þetta átti allt eftir að breytast með einstaklingshyggjunni og höfðingjarnir, sem tóku vald sitt frá guði, áttu eftir að missa það. Inn í þetta allt spilaði breyting í trúarbrögðum svo sem Kalvinisminn sem ruddi brautina fyrir auðhyggju (kapítalismi) og einstaklingsframtaki. Það áttu eftir að leika frelsisvindar um vesturlönd og byggjast upp lífsgæði almennings sem aldrei höfðu þekkst fyrr í sögu mannkyns.

Nýfundnaland

Þetta kom allt upp í huga bloggara þegar hann horfði á sjónvarpsþátt á annan í hvítasunnu um Nýfundnaland og Ísland. Bloggari sem eytt hefur mest af æfi sinni á Íslandi bjó á Nýfundnalandi í tæp tvö ár, og þekkir því nokkuð vel til mála.

Nýfundnalandsbúar skaffa aðeins helming af þeim fjármunum sem kostar að reka samfélagið. Restin kemur frá alríkisstjórninni í Ottawa. Allir sem vettlingi geta valdið hafa komið sér í burtu til að byggja upp betra líf annars staðar í Kanada. Stór hluti þeirra sem eftir sitja leggja áherslu á að fá vinnu í 8 vikur (var áður 12 vikur) til að geta verið á atvinnuleysisbótum restina á árinu. Menntunarstig og ólæsi er samanburðarhæft við lönd i Afríku og sjálfsbjargarviðleitnin er í lágmarki. Eitt eiga íbúar þessarar eyju í Atlandshafinu sameiginlegt, að þeir kenna alríkisstjórninni um allar sínar ófarir. Sama hvað hefur farið illa þá er á hreinu hver sökudólgurinn er.

Vestfirðir

Bloggari bjó þarna frá 1991 til 1993 og var oft andvaka af áhyggjum yfir því að Vestfirðir yrðu einn daginn að Nýfundnalandi Íslands. Að sjálfsbjargarviðleitnin og einstaklingsframtakið næði þeim lægðum að treyst yrði á ríkið til að bjarga öllum málum. Vestfirðingar hafa fundið sinn blóraböggul þar sem kvótakerfið er. Þeir eru firrtir þeim möguleika að hægt sé að standast samkeppni við aðra landshluta í útgerð og fiskvinnslu og kalla því á ríkið til ábyrgðar og hjálpar. Þar er samlíkingin komin við Nýfundnaland, og áfram er haldið þegar heimtaðar eru niðurgreiddir skipaflutningar og byggðakvóti og aðrar sérreglur í stjórnun fiskveiða til að skekkja samkeppnisstöðu annarra.

Það sem Íslendingar hafa fram yfir Nýfundnalandsbúa eru kröftugir einstaklingar og frjálsræði til athafna. Það er efni í langa ritgerð að lýsa allri skriffinnskunni með boðum og bönnum sem ríkja á Nýfundnalandi. Engum dettur í hug að hætta eigin fjármunum í neinskonar rekstur, allt skal koma í formi styrkja frá Ottawa.

Sjónvarpsþátturinn

Það var annars merkilegt að sjá viðtöl við þjóðþekkta Íslendinga í fyrrnefndum þætti. Þátturinn er sjálfsagt tekin upp sumarið 2005 og þar kemur fram í viðtali við formann Samfylkingarinnar að jöfnuður sé innbyggður í menningu Íslendinga og annað yrði aldrei liðið. Það stingur svolítið skökku við miðað við umræðu fyrrum stjórnarandstöðu um fátækt og ójöfnuð á Íslandi. Íslensku sósíalistarnir sem spurðir voru út í þessum sjónvarpsþætti gátu ekki leynt þjóðerniskendinni og stoltinu yfir velgengni þjóðarinnar. Sennilega hafa Íslendingar fetað rétta braut undanfarin 16 ár. Með auknu frelsi einstaklinga og minni völdum stjórnmálamanna hefur grunnur verið lagður að einstöku þjóðfélagi þar sem mikill jöfnuður ríkir. Það er jöfnuður að allir eigi sama möguleika til að njóta sín. Fái menntun og heilsugæslu innan skynsamlegs regluverks, til að geta blómstrað og náð árangri, sjálfum sér og þjóðinni til heilla.


« Fyrri síða

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband