Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Kafli 4 - Captain Thordarson

Lagt af stað

SundiðVið vorum færir í flestan sjó þegar siglingin hófst vestur Ermasundið.  Sjókort fyrir næstu 100 mílurnar voru keypt í London og svo var bara að koma við næstu Bókaverslun Jónasar Tómassonar og kaupa fleiri fyrir næstu áfanga.  Sumarið 1976 er í minnum haft í Bretlandi fyrir einstaka veðurblíðu og þó það hafi ekki verið vitað fyrirfram, mótar það frásögnina sem á eftir kemur.  Það var reyndar logn stóran hluta af tímanum og því reyndi ekki mikið á nýfengna reynslu og þekkingu á meðhöndlun segla, en mótorbáta þekktum við eins og handabakið á okkur.

 

Við vorum að á keyrslu mílu undan landi þegar systurskip okkar birtist við hliðina á okkur.  Blár Westerly bátur, ketch eins og okkar sem þýðir að báturinn hefur tvö möstur og heldur minna stórsegl í staðinn.  Það var stafa logn og ferð bátanna sóttist jafnt undir Volvo vélunum og allt í einu fara skipverjar að veifa okkur og benda á masturstoppinn hjá okkur.  Þeir vildu spjalla við okkur og bentu á VHS loftnetið fyrir talstöðina.  Við létum Bárð taka við stýrinu og fórum niður í kortaklefann til að finna út úr talstöðinni.  Hvaða ansans rás ætli þeir vilji spjalla á?  16 eða 25?  Við vorum í djúpum samræðum um þessi tæknilegu mál þegar við heyrðum neyðaróp að ofan.  Við stukkum upp í kokkpit þar sem undarleg sjón blasti við.  Bárður hafði stýrt Bonny inn í miðjan samferðabátinn og þrír úr áhöfninni héldu um rekkverkið á okkar bát til að koma í veg fyrir árekstur.  Við fleygðum unglingnum frá stýrinu og sveigðum frá þar til fjarlægðin var orðin rúmir tvö hundruð metrar.  Eftir nokkur vel valin högg frá stóra bróður var Bárður aftur settur undir stýri og sagt að halda sig frá bátnum meðan við héldum á að ná talstöðvarsambandi niður í kortaklefa. 

Westerly 33 fetVið vorum varla sestir yfir talstöðina þegar ógurleg öskur glumdu við ofanþilja.  Þegar upp var komið blasti sama sjónin við.  Bárður hafði stýrt inn í miðja skútuna og áhöfn hennar hékk öll á rekverkinu okkar framan á Bonny til að koma í veg fyrir árekstur.  Þegar við höfðum sveigt frá þeim aftur gerðu þeir okkur  alveg ljóst að enginn áhugi væri fyrir frekari samskiptum.  Þeir reyndar sigldu lengi í suður þar til bátur þeirra var orðin lítill depill á haffletinum áður en stefnan var aftur tekin í vestur.

En nú nálguðumst við hafnarbæinn þar sem næstu sjókort yrðu keypt í Bókhlöðu staðarins.  Bærinn var reyndar aðeins vestan við síðasta sjókort en okkur yrði nú ekki skotaskuld úr því að sigla nokkrar mílur út úr kortinu.  Þegar nær dró kom í ljós að bærinn var sveitaþorp í um tvær mílur frá ströndinni.  Engin höfn var þarna og sjálfsagt einhverjar jarðfræðilegar ástæður fyrir því.  Við urðum því að sigla áfram í austur utan sjókorta, en lánið á mér sem skipstjóra var að hafa vegarkort af öllum Bretlandseyjum.

Stefnan var semsagt tekin út á vegakorti og einhverja hluta vegna eru engar upplýsingar um vita og aðrar nauðsynlega hluti til siglinga á vegakortum.  Við urðum því að halda okkur langt frá landi og stýra í austur þar til við fyndum hafnarborg.  Ég mun aldrei gleyma svipnum á vini mínu Jóni þegar hann horfði á mig munda asimot hringinn á vegakortinu, með sambland af skelfingu og hneykslan í svipnum.

St. Ives Í St. Ives

Við fórum þannig alla leið fyrir Lands End við Cornwall að bæ sem heitir St. Ives við suð-austur horn Bretlands og tilheyrir Wales.  þetta var notalegur hafnarbær en höfnin var að vísu á þurru landi þegar okkur bar að.  Við vörpuðum því akkerum út af hafnarmynninu og biðum tækifæris til að komast í land til að kaupa sjókort.  Við vorum nefnilega ekki með neinn almennilegan léttabát, en vorum með mígleka útblásna plasttuðru sem varla flaut með tvo menn.  Það varð úr að Bárður yrði eftir um borð og gætti skútunnar á meðan við Nonni færum að kaupa kortin.  Jón ákvað að synda en ég myndi róa tuðrunni í land.

 Við vorum rétt lagðir af stað þegar Nonni öskrar upp að það sé hákarl í sjónum og syndir síðan á fingurgómunum og táberginu að tuðrunni og nærri velti henni við að troða sér um borð.  Stór fiskur hafði synt að Jóni og hnibbað í hann í síðuna sem gerði hann dauð-skelkaðan.  Við nánari athugun reyndist skepnan vera höfrungur og mikill ærslagangur og leikur í honum.  Hann djöflaðist í okkur alla leið í land og vorum við heldur betur ánægðir að ná fjöruborðinu og hafa fast land undir fótum.  En við hugsuðum með kvíða fyrir ferðinni til baka um borð í Bonný.

St. Ives2Í St. Ives voru engin sjókort seld og okkur bent á að taka lestina til Falmouth, sem er hafnarbær í rúmlega klukkutíma fjarlægð.  Það var ekki annað að gera og þegar við komum til baka til St. Ives var ákveðið að fá sér einn bjór á kránni áður en haldið yrði um borð í Bonny.  Það fyrsta sem blasti við á púbbnum var messaguttinn okkar sitjandi hnípinn yfir ölkrús sem virtist vera stærri en hann sjálfur.  Þrátt fyrir loforðin hafði hann brotið gegn fyrirmælum og ákveðið að synda í land.  Hann var skelfingin uppmáluð þegar hann sagði okkur frá þeirri sundferð.  Eftir nokkur sundtök hafði eitthvað skrímsli byrjað að ýta við honum og hann bókstaflega flogið í land.  Eftir þessa lífsreynslu virtist hann algerlega ónæmur fyrir ótta við okkur Jón eða hvað við gætum hugsanlega gert við hann.  Lífsreynsla hans síðustu klukkutímana var allt sem skipti hann máli.  Hann var orðin vel ölmóður eftir setuna á kránni, og hótanir okkar um að senda hann heim hrein af honum eins og vatn af gæs.


Kafli 3 - Lagt af stað í siglinguna miklu

hóteliðÍ Chishester

Chishester er lítill og notalegur bær og þar sem þetta var laugardagur var ákveðið að kíkja aðeins út á lífið um kvöldið.  Kannski væri bærinn svolítið viðráðanlegra en stórborgin London, en sjálfstraust okkar sem heimsborgara hafði látið á sjá.

Það var komið undir miðnætti þegar við komum heim á hótelið en þá var allt læst.  Ekki var svarað í dyrasíma og nú voru góð ráð dýr.  Herbergið okkar var á annarri hæð og að teknu tilliti til ævintýrsins í London, þar sem Jón klifraði upp á níundu hæð, væri þetta nú lítið mál.  Með vísindalegri yfirvegun fundum við út hvar okkar herbergi væri og þakrennan lá einmitt upp með herbergisglugganum.  Undir honum var steypt sylla og því væri þetta leikur einn.  Það var ákveðið að senda einn inn sem myndi síðan opna útidyrnar fyrir hinum.  Ég var sjálfkjörinn til verksins enda Jón búinn með sína hetjudáð og ekki var slíkt hættuspil leggjandi á unglinginn.

Ég klifraði fimlega upp þakrennuna, steig á gluggasylluna og náði taki á opnanlegu fagi efst í glugganum.  Það var alveg nógu stórt til að smeygja sér inn um og þegar stormjárninu hafði verið lyft up var ekkert annað að gera en sveifla sér inn fyrir.

Þegar ég lenti á mjúkri dýnu varð mér ljóst að ég hafði gert mistök.  Í okkar herbergi var ekki rúm undir glugganum og nú byrjuðu lætin.  Það var kona í rúminu og hún öskraði af lífs og sálar kröftum.  Ég varð skelfingu lostinn, greip í gluggafagið aftur og sveiflaði mér út fyrir.  Ég lenti einhvernvegin á götunni fyrir neðan og þar var engan að sjá.  Félagar mínir höfðu flúið í skjól og skilið mig eftir í greipum mistakanna.

Ég fann þá reyndar fljótlega, hímandi undir húsvegg nokkrum húsaröðum í burtu.  Við fundum seinna leið inn á hótelið í gegnum þvottaherbergið og náðum upp í herbergi, uppgefnir eftir ævintýrið.  Um morguninn á leið í morgunverð rakst ég á konuna úr næsta herbergi.  Hún stoppaði mig og spurði hvort það hefði verið ég sem kom upp í rúmið hennar um nóttina.  Ég roðnaði af skömm en játaði glæpinn umsvifalaust.  Hún var alveg eyðilögð yfir því hvernig hún hefði tekið á móti mér en afsakaði sig með því hversu mikið henni hefði brugðið við óvænta heimsóknina. 

Meistaramót í bjórdrykkju

En við vorum ekki bara að kaupa skútu heldur höfðum við uppeldislegar skyldur gagnvart Bárði og vildum ekki bregðast því trausti sem Jóhanna móðir þeirra bræðra hafði lagt á herðar okkar.  Þennan sunnudag var því ákveðið að mæla hversu mikinn bjór maður gæti drukkið á þess að fara á klósett.  Við höfðum keypt bjór í gallon dósum og nú var byrjað að þamba og notuð skeiðklukka til að mæla tímann.  Að sjálfsögðu var þetta keppni milli okkar Nonna en Bárður var allt of ungur til að taka þátt í svona leik.  Ekki man ég hver vann, en þegar maður mældi tóma gallon brúsana við magann á sér var óskiljanlegt hvernig við gátum komið þessu magni fyrir.  Það er margt sem lagt er á sig þegar maður hefur ábyrgð sem leiðbeinandi yfir villiráfandi sauði eins og við vinirnir höfðum komist í.

ErmasundiðBonný

En bátinn fundum við og samdist um verð.  Þetta var 32 feta tvímastra Westerly bátur, engin lúxus fleyta en virtist geta ráðið við viðsjál veður norður Atlandshafsins.  Við skýrðum hana Bonny og ákváðum strax að halda úr höfn í prufusiglingu.  Vélin var 12 hestafla Volvo Penta og notuðum við skrúfuaflið til að koma okkur út í hafnarmynnið.  Þar voru seglin dregin upp enda snarpur vindur og bestu aðstæður til siglinga.  Eitthvað basl var á okkur með fokkuna en við höfðum dregið hana upp á hvolfi.  Seglið barðist um í vindinum og vakti mikla athygli annarra ,,reyndra" siglingamanna.  Síðan var siglt um fyrir utan höfnina en eins og áður segir höfum við aldrei meðhöndlað segl á ævinni.  Eitthvað vafðist fyrir okkur að venda og mikið var um hróp og köll með hálfgerðu stjórnleysi um borð.  Ekki alveg búið að ákveða hver væri skipstóri og ætti skipa fyrir verkum.  Þetta var því hálfgert basl og við vorum dauð-lúnir þegar við komum til baka í höfnina.  Við höfðum þó komist að einni  niðurstöðu eftir þessa frumraun að við þyrftum nauðsynlega belgsegl, spinneker, til að ná meiri hraða áður en haldið yrði heim til Íslands.

BelgseglVið gengum því hnarreistir upp bryggjuna að skútubúðinni til að athuga með kaup á slíku segli.  Það var mannmargt í versluninni og helsta umræðuefnið voru einmitt þessir fræknu sjóarar sem sýnt höfðu listir sínar utan við hafnarmynnið fyrr um daginn.  Afgreiðslumaðurinn spurði okkur hvert förinni væri heitið og fölnaði upp þegar við sögðumst vera á leið til Íslands.  Sjálfsagt enginn af þeim köppum sem eyddum helgum í siglingar hér í Chishester höfðu látið sig dreyma um slíka fífldirfsku, enda höfðu þeir hvorki reynslu né kjark til þess.  Karlarnir í búðinni störðu á þessa glópa og þegar við spurðum um belgseglið fullvissaði afgreiðslumaðurinn okkur um að við hefðum ekkert með slíkt segl að gera.  Það væri aðeins fyrir reynda siglara að meðhöndla slíkt og við skyldum láta það bíða betri tíma.  Við félagarnir þrír lögðum því af stað um kvöldið, án belgseglsins,  í siglinguna miklu.  Fyrst var stefnan sett vestur Ermasundið áður en kúrsinn yrði tekin í norður áleiðis til Íslands.


Kafli 2 - England

Í London

pubOkkar fyrsta verk þegar komið var í stórborgina London, var að sýna unglingnum hvernig heimsborgarar höguðu  sér í öngstrætum næturlífsins og notuðu yfirvegun og fagmennsku í viðskiptum við breyskleika mansins.  Um þennan kafla ferðarinnar, og hvernig við vinirnir stóðum undir væntingum Jóhönnu að betrumbæta Bárð, er ekki margt að segja.  Ég held að leiðarljós okkar hafi verið álíka gott og hlusta á páfann halda fyrirlestur um ágæti getnaðarvarna.  Þekkingin og reynslan hafi verið með þeim hætti að við réðum alls ekki við hlutverkið.  Seint um kvöldið týndum við Jóni en við Bárður komum upp á hótel undir morgun.  Við sátum á hótelherberginu og spjölluðum saman áhyggjufullir vegna stóra bróður sem ekki skilaði sér heim úr sollinum.  Við bjuggum á níundu hæð á hótelinu og gardínurnar blöktu í hlýjum andvara næturinnar sem lék inn um opna svalahurðina.  Allt í einu heyrðum við þrusk fyrir utan svalirnar og var okkur heldur betur brugðið.  Við vorum háttaðir og ég greip til vasahnífsins og opnaði hann undir sænginni.  Sagði síðan Bárði að fara og kíkja út og athuga hvað þetta gæti verið.  Ég gleymi aldrei þeirri sjón þegar Bárður, horaður og væskilslegur, fór nötrandi og skjálfandi að svalahurðinni í boxernærbuxum einum fata.  Eftir Súgandafjarðardeiluna hlýddi hann okkur Jóni í einu og öllu, og einnig vorum við hans eina traust í viðsjálum heimi útlandanna.  Við höfðum svona ægivald yfir stráknum þessa dagana, eða því trúðum við.  Hnén skulfu undir honum og ég hugsaði með mér að ef einhver brjálæðingur réðist inn myndi ég fá tækifæri til að skjótast út meðan Bárður yrði meðhöndlaður.

Allt í einu sveiflar stóri bróðir sér yfir svalahandriðið.  Hann hafði klifrað upp níu hæðir eftir þakrennunni.  Mikið óskaplega hefði hún móðir hans verið stolt af honum á þessari stundu ef hún hefði orðið vitni af hetjuskapnum.  Sérstaklega ef haft er í huga nýleg ábyrgð hans á uppeldi yngri bróður síns og sú fyrirmynd sem hann átti að vera honum í öllu orði og æði.

Næst var að kíkja á "púbbinn" og ekkert til fyrirstöðu að taka Bárð með þangað, þar sem hann var orðin 16 ára.   Við treystum engum fyrir peningatöskunni þannig að við tókum hana með okkur hvert sem farið var.  Það er gaman að sitja á enskum pub og drekka volgan lagerbjór með litlu sem engu gasi.  Flatur og bragðdaufur en skemmtilegt að láta tímann líða og renna hverjum pæntaranum eftir annan niður þurrar kverkarnar.  Fyrir rest stígur þetta manni til höfuðs en Bretar höfðu vit á því á þessum tíma að loka yfir miðjan daginn til að hafa vit fyrir mönnum.  Við vorum í góðu skapi þegar við komum upp á hótel eftir skemmtilegan tíma og góðan árangur við uppeldi Bárðar. 

Allt í einu mundum við eftir peningatöskunni sem einhverra hluta vegna hafði ekki ferðast með okkur til baka heim á hótel.  Okkur sortnaði fyrir augum í angist og sáum drauma marga ára renna út í sandinn.  Hvað áttum við að segja við Hjalta?  Að við hefðum týnt peningunum á enskri krá?  Tárin þrýstust fram í augnahvarmana og blóðbragð kom í munninn.

MoneyVið máttum varla mæla meðan brunað var til baka og fyrst að reyna að finna réttu kránna og síðan peningana okkar.  Við fundum rétta staðinn og við okkur blasti merkileg sjón á miðri götunni utan við ölstofuna.  Hermaður í heljarinnar múnderingu stóð á miðri götunni með haglabyssu sem hann miðaði á skjalatöskuna okkar.   Fjöldi áhorfanda voru þarna en áttu allir sameiginlegt að vera minnst 100 metra í burtu frá töskunni.  Ég kallaði á manninn að hætta þessu því við ættum þessa tösku.  Hann leit á okkur og benti mér svo að koma til sín alvarlegur í bragði.  Ég gekk til hans og útskýrði málið með titrandi röddu, að við hefðum gleymt töskunni á kránni fyrr um daginn.  Hann skipaði mér að opna töskuna og ég fálmaði í talnalæsinguna og svipti svo lokinu upp.  Við okkur blasti full taska af hinum ýmsu tegundum af peningaseðlum þannig að minnti á bíómynd um mafíuna.  Allt í einu fór hermaðurinn að skellihlæja og benti okkur á að taka töskuna og hypja okkur í burtu.

Seinna tókum við eftir því að á öllum krám í London, og þó víðar væri leitað, voru viðvörunarspjöld þar sem gestir voru hvattir til að láta vita ef einhver skildi eftir tösku eða pakka.  Á þessum tíma voru IRA að sprengja eldsprengjur í enskum ölhúsum og hræðslan Breta við hryðjuverk var mikil.  Það var semsagt IRA sem bjargaði draumi okkar um skútuævintýri að þessu sinni.

Skútan keypt.

Við byrjuðum að hringja í bátasölur og duttum loks niður á aðila sem hafði rétta bátinn á verði sem var viðráðanlegt.  Hann bauðst til að skutla okkur til Chishester, sem  er hafnarbær á suður strönd Englands, til að skoða bát sem hann hafði í sölu. 

Þegar svona heimborgarar leita að bát dugar ekkert minna en eigandinn sjálfur sýni þeim hvað erí boði.  Hann var virðulegur enskur séntilmaður í teinóttum fötum og sótti okkur á Bentley snemma laugardagsmorguns.  Við ókum út úr borginni og fljótlega tóku við ensk sveitahéröð með grænum engjum og hæðum með búfénaði á beit.  Þetta var notalegt ferðalag í einstöku umhverfi og flottum bíl og bátasölumaðurinn ræddi við okkur á sinni virðulegu Oxford ensku.

BeljanEn það var þó eitt sem skyggði á ánægjuna.  Bárður hafði verið með vindverki og stóð í ferlegum viðrekstri sem var okkur lifandi að drepa.  Við höfðum hótað honum að skilja hann eftir í London þar sem hann væri ekki í húsum hæfur.  En hann sór og sárt við lagði að hann myndi ekki bregðast okkur ef hann fengi að koma með.  Hann skyldi sko bara halda í sér.

Það var bjartur og fagur sólardagur og gestgjafi okkar hafði gluggann á bílnum opinn og vindurinn lék við andlit okkar of feykti hárlubbunum á okkur til og frá.  Allt í einu byrjar Bárður að freta.  Hrikaleg lyktin fyllti bílinn en bílstjórinn misskildi aðstæður.  Hann bölvaði þessari sveitalykt og skrúfaði upp gluggann til að verjast henni.  Jón hafði rekið hnefann undir bringuspjarirnar á Bárði sem lagaði ekkert ástandið.  Augun ætluðu út úr Bárði, blá og stór, sakleysisleg og varnarleysið algjört. Það tók manninn í teinóttu fötunum langan tíma að skilja uppruna lyktarinnar og þá staðreynd að hún tengdist á engan hátt enskum landbúnaði.  Við Nonni höfum aldrei verið eins vandræðalegir en sá teinótti treysti sér ekki til að taka okkur til baka  eftir skoðun á bátnum.  Það gerði svo sem lítið til því við höfðum tekið með allar okkur föggur og vorum komnir á rétta staðinn til að kaupa bát.  Við fengum okkur því hótelherbergi í Chichester og kvöddum þann teinótta.


Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin

Undirbúningur kaupa

skúta

Við vorum þrír félagar, allir liðlega tvítugir, sem höfðum árum saman skipulagt kaup á seglskútu til að sigla henni heim til Íslands.  Þessir ævintýramenn voru sögumaður ásamt Jóni Grímssyni, sem er jafnaldri minn og uppeldisvinur ásamt bróður mínum Hjalta.  Við félagarnir höfðum marga fjöruna sopið saman og höfðum meðal annars ekið um Evrópu þvera og endilanga, sem þótti óvenjulegt á þessum tíma og verið á samyrkjubúi í Ísrael.  Fjórði félaginn í þeim ævintýrum, sem seinna verður sagt frá, var eiginkona mín Kristín, sem kom töluvert að þeim skútukaupum sem hér er sagt frá.

Það var ekki auðvelt að kaupa skútu á þessum árum erlendis, í kringum 1976, þar sem fyrirhyggjupólitík og haftastefna stjórnvalda hafði náð sínum hæstu hæðum.  Leyfi þurfti til alls og meðal annars til að kaupa gjaldeyri.  Fólk gat fengið ferðamannagjaldeyri sem dugði fyrir tveggja

vikna ferð til Spánar og greiddi tíu prósent skatt ofan á skráð gengi.  Stjórnvöld höfðu þannig vit fyrir borgurunum og komu í veg fyrir óþarfa bruðl eða flæking um lendur erlendra ríkja. 

Það var því ekki hægt að kaupa erlendan gjaldeyri til kaupa á skútu með löglegum hætti í næsta banka.  Við vorum því með allar klær úti og árum saman söfnuðum við gjaldeyri út um allt.  Við þekktum til á Keflavíkurflugvelli sem var góð uppspretta gjaldeyris frá hernum, þar sem íslenskir starfsmenn stungu tíu prósentunum í vasann sem milligöngumenn og drýgðu þannig tekjur sínar.  Ýmis fyrirtæki sem tóku við greiðslum í gjaldeyri og seldu hann gjaldeyrisþurfandi landsmönnum með umræddri álagningu.

Svo þurfti að sjálfsögðu að safna krónum til að kaupa gjaldeyrinn og fylgdi því mikil vinna.  Tveir okkar voru togarajaxlar og sá þriðji var á leiðinni á sjóinn, en á þessum árum fyrir tíma kvótakerfis um það leyti sem skrapdagakerfið var í smíðum, var gullöld skuttogaranna og sjómenn voru með tvöföld bankastjóralaun.  Við slógum líka lán  í sparisjóðum og góðir vinir okkar, eins og Grímur Jóns, skrifuðu upp á víxlana.  Ég man ennþá eftir jákvæðum viðbrögðum vinar míns Sólbergs Jónssonar í Bolungarvík, sem hikaði ekki við að lána þessum strákpjökkum til að kaupa skútu.  Slíkt var honum bæði ljúft og skylt og hann sagðist myndi fylgjast vel með ævintýri okkar.  Einnig reyndist Magnús Amelin á Þingeyri okkur afar vel.

Snemma sumars 1976 vorum við komnir með fulla skjalatösku af dollurum, norskum krónum, sænskum krónum, dönskum krónum, enskum pundum og þýskum mörkum.  Upphæðin var rúmlega 25.000 ensk pund sem duga áttu fyrir sæmilegu fleyi til að sigla Altansála heim til Ísafjarðar.

Ferðin undirbúin

England var allan tímann fyrirheitna landið til kaupanna.  Einhvernvegin tengdum við landið við siglingar og fagblöðin sem við lásum á undirbúningstímanum voru ensk og við vorum farnir að þekkja helstu bátategundir sem þar voru smíðaðar.  Það var ákveðið að við Jón færum út að kaupa bátinn og sigla honum heim en Hjalti yrði eftir heima til að safna meiri peningum og gæta hagsmuna okkar þar.  Ég var með skipstjórnarpróf og kunni siglingafræði og var því sjálfkjörinn í ferðina.  Jón var með mikla reynslu í sjómennsku en hvorugur okkar hafði nokkurn tíma komið um borð í seglbát.  Skútan var bara draumur sem byggði á ungæðislegri rómantík en minna á fyrri reynslu.  Við höfðu aldrei á ævi okkar dregið upp fokku eða stórsegl né hagrætt seglum eftir vindi.

Þegar upphaf ferðarinnar nálgaðist kom svolítið babb í bátinn.  Móðir Nonna, sú ágæta kona Jóhanna, lagði hart að okkur félögunum að taka yngri son sinn, Bárð, með í ferðina.  Hún var orðin hálf þreytt á uppátækjum hans og prakkaraskap og trúði því að hann hefði gott af leiðsögn okkar fullorðnu mannanna í smá tíma.  Bárður var á sautjándi ári og við Jón vorum tuttugu og eins.  Lífreyndir heimshornaflakkarar og sjálfsagt hefðum við getað orðið unga manninum góð fyrirmynd út í lífið og tilveruna.  Við tókum þessu mjög illa í byrjun, ekki það að Bárður gat verið bráð skemmtilegur, en við höfðum engan áhuga á að hafa svona krakkakjána með okkur í þessa mikilvægu viðskiptaferð.  Jóhanna lagði hart að okkur og við gáfum eftir með alls kyns skilyrðum sem Bárður varð að undirgangast.  Á þessum árum var Bárður óvenju lítill og væskilslegur, óttalegur vandræðagripur en eins og áður segir, en gat hann verið bráð skemmtilegur, enda mikill húmoristi.

Við tókum hann því með okkur kvöldið fyrir brottför að Gilsbrekku í Súgandafirði, þar sem ferðin var íhuguð og andlegur undirbúningur okkar fór fram.  Við kveiktum eld niður við fjöru og þegar hann hafði brunnið út að mestu og glóðin ein var eftir, grilluðum við kartöflur sem voru algjört lostæti.  Við höfðum keypt okkur einn vodka pela sem átti að dreypa á við glóðirnar þessa fögru vornótt í Súgandafirði.  Við tókum ekki eftir neinu sérstöku í fari Bárðar fyrri part kvöldsins en þar höfðum við sofnað á verðinum.  Ég rölti upp í sumarbústað til að sækja pelann en greip í tómt.  Eftir ákafa árangurslausa leit vaknaði með okkur Nonna hræðilegur grunur.  Við horfðum á litla bróður hans þar sem hann slagaði undir húsgaflinum og þegar við beindum spurningum til hans, leyndi sér ekki að drengurinn var heldur betur þvoglumæltur. 

Það er varla hægt að ímynda sér reiðina og vonbrigðin hjá okkur Nonna.  Stemmingin var fullkomin og grilluðu kartöflurnar mjög ljúfar, björt vornóttin og gáraði ekki á fjörðinn í kvöldkyrrðinni.  Það sem vantaði upp á var smá vodkastaup til að fullkomna augnablikið.  Þetta hafði verið frá okkur tekið og ekki möguleiki að bæta úr því  á þessum stað og stund.  Þegar Nonni var búinn að lúberja litla bróðir var frekari refsing ákveðin.  Hann kæmi ekki með í ferðina til Englands.  Ekkert undir sólinni fengið þeirri ákvörðun breytt og við það sofnuðum við vinirnir, með formælingum, bölvi og ragni í garð óþekka unglingsins sem við áttum að bera ábyrgð á.

Það var ekki komið hádegi daginn eftir þegar Jóhanna blessunin var búin að snúa okkur og ákveðið að Bárður kæmi með og seinna um daginn hófst þessi mikla viðskipaferð til skútulandsins, Englands.  Við tveir lífsreyndir vinir með þá miklu ábyrgð á okkar herðum að koma þessum brokkgenga ungling til manns.


Sögustund

Já nú verður skrúfað frá Grímsævintýrum.  Í kvöld ætla ég að hefja sögustund þar sem Grimsarar og fleiri koma við sögu og byrja árið 1976.  Margt gerist fyrir þann tíma en sögurnar verða ekki sagðar í tímaröð.

Bári GrímsÉg byrja á skútusögum þar sem við  æskuvinirnir Jón og Gunnar, ásamt Hjalta bróður keyptu skútu og sigldu til Íslands.  Við höfðum áður lent í ævintýrum saman sem sagt verður frá seinna.  Ég hef svo sem ekkert annað en eigið minni til að styðjast við og sumt hef ég reyndar eftir öðrum, þar sem ég var sjálfur ekki viðstaddur.

Ég vil taka því fram að við Jón eru sálufélagar og höfum haldið góðri vináttu í gegnu tíðina.  Grímur og Jóhanna voru miklir vinir mínir og það var Bárður líka.  Ekki er meiningin að gera lítið úr neinum með þessum sögum, nema síður sé.  Reyndar eru sögurnar rýndar beggja vegna Altansála fyrir birtingu en engu að síður eru þær sagðar eftir mínu minni.

Þó Bárði hafi verið hálf troðið upp á okkur Nonna í fyrstu siglinguna átti hann eftir að súpa marga fjöruna með mér á siglingum eftir það.  Sigldi með mér suður yfir til Bretlands aftur og síðar frá Spáni til Grikklands.  

Það er rétt að segja frá því að dóttur sonur minn heitir Jón Gunnar.  Sömu nöfnin og saga að segja frá því.  Í gamla daga bundust við  Jón vinur minn fasmælum um að ef við eignuðumst son myndum við skýra hann í höfuðið á hvorum öðrum.  Jón hefur ekki þurft að standa við sinn helming en 1984 eignaðist ég son sem skýrður var í höfuðið á mínum besta vin.  Reyndar var Jón viðstaddur hríðirnar hjá Stínu og taldi tímann á milli þeirra þangað til ákveðið var að skutla henni niður á fæðingadeild.

Dóttir mín skýrði síðan sinn frumburð sinn í höfuðið á bræðrum sínum, Jóni og Gunnari Atla. 

Eins og vinur minn Ívar myndi orða þetta þá liggur þetta í stjörnunum og eru forlög.  Örlögin verða ekki umflúin.

En nú bíð ég eftir að vinur minn Jón vakni í Seattle til að gefa grænt ljós á fyrstu birtingu Grímsævintýra. 


Skapvonska

NautÞað hefur verið ýtt við mér vegna bloggleti undanfarið og spurt hvað valdi slíkri ómennsku við að höggva í googlesteininn.  Málið er að ég hef verið í vondu skapi.  Ósköp einfaldlega.

Reyndar er ég frekar skapgóður og liggur sjaldan illa á mér.  Það kemur þó fyrir að ég vakna upp að morgni og finn að ég er í vondu skapi.  Fyrir löngu fór ég að taka því eins og hverju öðru hundsbiti, vitandi að með nýjum degi væri vandamálið leyst og aðeins spurning um að komast í gegnum einn dag.  Eftir góðan nætursvefn tekur við nýr dagur með nýjum tækifærum og möguleikum og vonda skapið flogið út í veður og vind.  Að öllu jöfnu tel ég mig vera jákvæðan mann sem lætur ekki smáatriði pirra sig né málar skrattann á vegginn í einhverjum andskotagang.

En það eru ekki allir þannig gerðir og ég man eftir kunningja mínum sem stundum heimsótti mig í vinnuna þegar ég var framkvæmdastjóri HSV.  Hann kom bölmóður innum dyrnar með hornin úti þannig að flísaðist úr hurðakarminum.  Ýmislegt annað hafði hann á hornum sér og lét móðan mása um hvernig allt væri að fara til andskotans.  Það eru fleiri þannig og þeim er reyndar vorkunn.  Það getur ekki verið notalegt líf að fara þannig í gegnum lífið og illt fyrir þá sem eru samferðamenn.

En ég var bara skapvondur í nokkra daga en hef nú jafnað mig.  Það tók nokkurn tíma að vinna sig út úr erfiðleikum í umhverfinu hérna og tækla hlutina rétt.  Fara í svona SWOT greiningu og átta sig á styrkleikum sínum og veikleikum til að takast á við það umhverfi sem umleikur mann.  Skoða þau tækifæri og þær ógnanir sem sem það bíður uppá.  Hvernig hægt sé að nota styrkleika sína til að nýta tækifæri eða sigrast á ógnunum.  Hvernig hægt sé að breyta veikleikum í styrkleika og þannig snúa mótvind í meðbyr.  Stekkja svolítið á fokkunni og draga inn stórseglið þannig að réttri stefnu sé náð og auka hraðan um tvær mílur í leiðinni.

Það er ótrúlegt hvernig erfiðleikar geta falið í sér tækifæri og hægt að snúa þeim sér í hag.  Allt er þetta undir manni sjálfum komið og hafa stjórn á hlutunum.  Hagræða seglum og nýta mótvind sem meðbyr.

Mér er því engin vorkunn að takast á við erfitt umhverfi og tækla það rétt.  Taka sjálfan sig svolítið í gegn og hafa stjórn á sér en berjast ekki um eins og þang í fjöru.  Það er hinsvegar erfitt fyrir nefndan félaga minn, vaðandi um eins og naut í flagi, að tækla sitt líf.  Hann kann ekki að hagræða seglum. Og þannig eru því miður margir gerðir.

Jón og GunnarÉg hef hinsvegar hugsað mér að hvíla mig á skrifum um Sri Lanka og láta upplifun mína hér bíða betri tíma í góðra vina hópi.  Ég hef verið í góðu sambandi við æskufélaga minn í Seattle, Jón Grímsson, en við höfum marga fjöruna sopið saman.  Mig langar til að segja sögur af ævintýrum okkar sem eru mörg og merkileg.  Jón er aðeins í skype lengd frá mér en það merkilega er að við munum ekki allar sögurnar eins.

Ég ætla ekki endilega að segja þessar sögur í réttri tímaröð og ætla að byrja árið 1976 þegar við fórum til Englands til að kaupa skútu og sigldum henni heim.  Síðan mun ég segja frá Ísraelsævintýrum okkar og akstri í gegnum Evrópu árið 1973.  Meðal annars höfum við troðið upp á 3000 manna tónleikum þar sem við sungum ,,Ríðum og ríðum,,  Báðir gersneyddir tónlistarhæfileikum.  Margar sögur hafa orðið til með Jóni og ekki síður föður hans, Grími.  Þetta verða svona Grímsævintýri.


« Fyrri síða

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 283937

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband