Trönustaurar h/f

gunnar_og_pimmi_006.jpgDraumar um völd og auðlegð létu okkur Nonna Gríms ekki í friði.  Málið var að við vildum fara stuttu leiðina og gera þetta hratt og auðveldlega.  Við höfðum ekki tíma til að bíða árum saman, gera langtímaáætlanir og byggja á föstum og góðum grunni.  Eins og seinnitíma útrásarvíkingar þurfti að reisa þetta á sandi og það undireins.  Einn daginn fengum nýja hugmynd, sem var svo góð að hún gat ekki mistekist.  Hún hafði sem sé alla þá kosti sem prýða skal góða viðskiptahugmynd þar sem skyndi gróði kemur án þess að nota mikið af lindum (recourses).

Við höfðum veitt skreiðarhjöllunum á Arnanesi athygli um all langt skeið og allt í einu laust hugmyndinni niður í kollinn á okkur.  Reyndar höfðum við verið að sigla á ,,Bláa bátunum" sem var skjöktari og við höfðum að láni hjá pabba og félögum hans í Gunnvöru h/f.   Við áttum leið framhjá Arnarnesi, höfðum verið að velta fyrir okkur grásleppuútgerð og prufuðum reyndar að draga eina trossu í leyfisleysi, sem verður sagt frá hér seinna.  Við horfðum á þennan skóg af skreiðarhjöllum sem staðið hafði þarna um árabil og engum til gagns.  Hjallarnir voru meðal annars voru í eigu Þórðar Júl, og sáum við gríðarlegt viðskiptatækifæri í að saga þá niður í girðingastaura og selja bændum um sveitir landsins.

Þetta gat nú varla verið betra.  Hráefnið var frítt og vörubíllinn líka og ekki eftir neinu að bíða með framkvæmdir.  Við fylltum vörubíllinn af trönum og ókum hlassinu að Engjaveg 30, þar sem Nonni átti heima.  Eftir nokkur símtöl var framleiðslulýsingin komin, þ.e.a.s. lengdin á staurunum.  Salan var ekki frágangssök þar sem slík vara seldi sig nánast sjálf.  Það var bara spurningin um að framleiða og hitt kæmi allt að sjálfu sér.

Garðurinn að Engjavegi bókstaflega fylltist af trönum og nú var byrjað að saga á fullu.  Fyrst notuðum við þverskera en það gekk nokkuð hægt fyrir sig.  Grímur Jóns, húsbóndinn á heimilinu, fylgdist með vaxandi áhuga á verkefninu og sagði að við þyrftum bogasagir.  Eins og annað við þessa framleiðslu var hægt að útvega slíkt nánast frítt, og ekki skyggði á að reglulega kallaði húsfreyjan í okkur og bauð upp á kaffi og með því.  Jóhanna var fyrirmyndar húsfreyja og þessi þjónusta kom sér sérlega vel fyrir framkvæmdamennina, sem fengu þarna næga orku til að vinna fram á kvöld.

En það vantaði meiri framleiðsluhraða og nú var náð í hjólsögina hans Gríms, en rafmagnið á hana var frítt, eins og svo margt annað í fyrirtækinu.  Vélargnýrinn drundi um nágrennið og varla sást í okkur félagana fyrir sagi, og fjöldi girðingastaura var nú talinn í þúsundum.  Eins gott að Jóhanna hafði ekki fengið garðyrkjudelluna ennþá, þar sem ekkert pláss var fyrir plöntur eða tré í verksmiðjunni.  Við sömdum við Hermann Björnsson nágranna að hætta ekki seinna en tíu á kvöldin, til að hann fengi svefnfrið.  Vörubílshlössin af trönum streymdu að frá endalausri auðlindinni á Arnarnesi, og breyttust umsvifalaust í verðmæta girðingastaura, sem nú var beðið eftir um allt land.  Eða hvað?

Það kom í ljós þegar söluherferðin hófst að menn vildu ekki staura sagaða úr trönum.  Menn vildu fá girðingarstaura úr rekavið, en seltan í þeim virkar sem fúarvörn.  Þvílík vitleysa og misskilningur hjá þessum bændum.  Við hefðum svo sem átt að vita betur að treysta á þeirra dómgreind við mikilvægasta þátt fyrirtækisins, söluna.  Við höfðum samband við Landbúnaðarráðuneytið sem keypti gríðarlegt magn af staurum á hverju ári í sauðfjárvarnargriðingar.  Þeir voru haldnir sömu skynvillunni með gæði trönustaurana.  Við hringdum í sveitarfélög sem voru við sama heygarðshornið og allir hinir.  Það sem átti að vera auðveldasti hluti rekstursins var nú orðið helsta fótakeflið. 

Það var ekki sjón að sjá Engjaveginn þar sem rétt grillti í húsið í gegnum háa staflana.  Það runnu tvær grímur á Grím Jónson og Jóhönnu Bárðar, enda lóðin undirlögð af staurum.  Þau þurftu að skáskjóta sér útaf lóðinni til að komast í bæinn, en það var ekki vandi að finna húsið aftur.  Það var vaxandi pirringur í þeim hjónum vegna þessa og mikið mændi á framkvæmdastjórninni vegna þrýstings um aðgerðir.  Það leið nærri ár þangað til losnaði um sölutregðuna og kaupandi fannst, allavega fyrir mestan hlutann.  Kaupandinn greiddi verð sem dugði fyrir flutningi til hans, þannig að þetta var nokkurs konar sorpeyðing.  Í stað auðæva og frægðarljóma héldum við félagarnir eftir strengjum um allan skrokkinn af átökum, ásamt svefnlausum nóttum vegna sinaskeiðabólgu.  Okkar tími var ekki kominn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Góðir!

Ívar Pálsson, 30.6.2009 kl. 22:02

2 Smámynd: Steingrímur Helgason

Frábær saga, það að girðíngarztaurarinir væru með 'frúarvörn' eiginlega er toppurinn...

Von að markhópurinn væri ekki móttækilegri...

Steingrímur Helgason, 1.7.2009 kl. 02:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 283951

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband