Ferð II um Úganda

fossar_i_nil.jpgVið lögðum af stað að morgni þriðjudags og ferðinni var heitið til lake Albert og Kyoga, heimsækja héraðsstjóra, fiskimálastjóra og löndunarstaði.  Við Alfred höfðum fengið annan bílstjóra sem virtist mun betri ökumaður en sá fyrri, en líkt of flestir ökumenn hér þá var honum illa við að hleypa snúningnum á vélinni upp.  Passaði að snúningur færi ekki yfir 1000 rpm og var kominn í fimmta gír á fjörutíu.  En hann kunni að keyra, að öður leiti.

Fyrst var ferðinni heitið til Nakasongola héraðs þar sem héraðsskrifstofurnar voru fyrst heimsóttar og fundað með yfirmönnum.  Fiskimálastjórinn ætlaði síðan með okkur niður á löndunarstað en fyrst þurfti að kaupa bensín á bátinn, en í þetta sinn þurftum við að fara yfir vatnið til að komast í annað hérað.

Við komum síðan á löndunarstaðinn Kibuye þar sem fundað var með yfirmönnum sammvinnufélags fiskimanna.  Síðan var lagt á vatnið og samkvæmt GPS var vegalendin yfir um 12 kílómetrar.  Kyoga vatn er að meðaltali sex metra djúpt er reyndar dalverpi sem Níl rennur um á leið sinni frá Viktoriu vatni á leið sinni til Alberts vatns.  Það var logn og sólskyn og ekki laust við tíbrá þar sem fiskibátar virtust hanga í lausu lofti yfir vatnsborðinu og margs konar hillingar verða við slík skilyrði.  Ferðin tók klukkutíma enda mótorinn lítill en gaman var að fylgjast með fiskimönnum að veiðum en allir fiskbátarnir þarna eru nútíma útgáfa af eintrjáningum með tveimur mönnum í áhöfn.  Þessir bátar eru örmjóir en langir og eru því vel lagaðir til gangs undir árum.

konur_a_taka_vatn_ur_nil.jpgÍ landi norðan við vatnið var tekið á móti okkur af sýslumanninum sjálfum  sem sýndi okkur löndunarstaðinn og vatnhreinsistöð fyrir samfélagið, sem reydnar var biluð.  Bifreið beið okkar þarna til að skutla okkur á héraðsskrifstofuna en sýsluskrifstofan (sub-county) var skammt frá og þangað var haldið í fyrstu.  Sýslumaðurinn elti á mótorhjólinu og síðan var sest niður á skrifstofu hans til að spjalla.  Þarna er sýslumaðurinn stjórnmálamaður og því þurfti að lýsa þörfum bæjarbúa og hvað þeir gætu fengið út úr verkefni okkar í löngu máli.

Síðan var okkur ekið á héraðskrfistofuna sem er í klukkutíma keyrslu frá löndunarstaðnum og eftir hræðilegum vegi að fara.  Maður þarf að passa að höfuðið skelli ekki í hurðarkarminn þegar farið er í dýpstu holurnar á veginum en umferðin var frekar lítil sem betur fer.

tre_i_bloma.jpgOkkur var vinsamlega tekið af héraðsstjóranum en ekki boðið upp á vott né þurrt til hressingar.  Reyndar hefur okkur hvergi verið boðið upp á svo mikið sem tesopa á ferðum okkar og þar sem útilokað er að finna matsölur á þessum slóðum birgðum við okkur upp með kexi og vatni, sem venjulega þurfti að duga frá morgunverð til kvöldverðar.  Ég velti fyrir mér þessari litlu gestrisni og hvort það tengdist fátækt fólksins þarna.  En mér varð hugsað til ferða minna um Sri Lanka þar sem alltaf var boðið upp á eitthvað, þrátt fyrir sára fátækt íbúanna þar.  Þetta hefur eitthvað með menningu íbúa að gera.  Annað er að ef hægt var að finna veitingastað þá fylgdu oft nokkrir innfæddir með í matinn en tímalega áður en reikningurinn kom hurfu þeir eins og dögg fyrir sólu.  Það var bókstaflega ætlast til þess að útlendingurinn greiddi gjaldið.

kanno.jpgÞað var farið að húma að kveldi á leiðinni til baka yfir vatnið.  Kvöldsólin litaði allt rautt og allt í einu óð yfirborðið í smásíld og glitraði á hana silfraða í sólroðanum.  Þegar í land var komið voru íbúar löndunarstaðarins að taka neysluvatn á brúsa.  Þeir gera þarfir sínar í vatnið, baða sig, þvo þvott og leirtau og taka drykkjarvatnið á sama staðnum.  Mér er sagt að venjulega sjóði þeir það ekki og því hryllilegt til þess að hugsa að fólk drekki þetta óhreina grugguga vatn alla daga.  Enda er heilsa þeirra ekki góð og ofan á þá kvilla sem fylgja óhreinu vatni og alls kyns sníkjudýrum úr vatninu er eyðni mjög útbreidd meðal fiskimanna.  Ein ástæða þess er að fiskimannasamfélögum fylgja mikil ,,karlmennska" þar sem staða kvenna er mjög veik og algengt að þeir taki sér ungar stúlkur á táningaaldri til skemmtunar.  Eyðni breiðist því hratt út í þessum samfélögum og er allt að fimmföld miðað við meðaltal í Úganda og þá mikið sagt.

Það var langt liðið á kvöld þegar við komum til Masindi þar sem við fengum gistingu og góðan viðgerning.  Snemma næsta morguns var haldið til löndunarstaðar við Níl, þar sem áinn rennur á leið sinni í Albert vatnið.  Á leiðinni er ekið inn í Murchisen Falls þjóðgarðinn, þar sem brú liggur yfir Níl rétt neðan við mikla fossa.  Ég smellti nokkrum myndum á leiðinni yfir brúnna en viti menn á bakkanum biðu okkar tveir hermenn gráir fyrir járnum og heimtuðu myndavélina.  Bannað var að taka myndir af brúnni og þó engin skilti væru á staðnum um slíkt var ætlast til að ferðamaðurinn vissi svona augljósa hluti.  Hermaðurinn var mjög ókurteis og reiknaði með að myndavélin yrði tekin eignarnámi, enda værum við örugglega stórhættulegir njósnarar.  Hann var augljóslega að bíða eftir greiðslu til að leysa málið en það var okkur víðsfjarri.  Eftir nokkrar stundar þref við manninn og félaga hans, sem hélt á risastórri Thompson vélbyssu, gafst hann upp og leyfði okkur að fara með myndavélina, án greiðslu.fiskima_ur.jpg

Áfram var haldið í gegnum þjóðgarðinn  á leið okkar á næstu héraðaskrifstofu þar sem fiskimálastjórinn og eftirlitsmaður bættust í hópinn.  Við komum síðan á löndunarstaðinn Jakurnga á bökkum Nílar eftir ökuferð sem endaði utan vega þar sem gönguslóða var fylgt síðustu kílómetrana.  Þarna biðu okkar fiskimenn og yfirmenn samfélagsins.  Það sem vakti athygli mína var að þarna notuðu menn gamaldags eintrjáninga og sagði okkur einn fiskimaðurinn að þeir væru mun sterkari og endingarbetri en nýrri útgáfur af fiskibátum.

Við skutluðu síðan farþegum okkar aftur á héraðsskrifstofuna þar sem við áttum stuttan fund með aðstoðar héraðsstjóranum.  Upp á vegg er mynd af konungi svæðisins, hans hátign Rowth Ubimu Philip Olreker Rauni III, sem er reyndar bara smákóngur við hlið þeirra þriggja stóru, frá Hoima og Kampala.

En nú var ferðinni heitið frá vestur Úganda til austurhlutans nálægt upptökum Nílar.  Á ferð okkar ókum við í gegnum landsvæði sem fóru illa út úr stríðinu við Lord Resistance Army sem hefur verið íbúum í norður Úganda til mikilla hörmunga.  Þorpin sem við ókum í gegnum höfðu lent í Kony sem er foringi uppreisnarmanna og drap tugi þúsunda landa sinna á árunum frá 1996 til 2006 þegar vopnahlé var gert.  Kony er enn á lífi en er þessa dagana umkringdur af fjölþjóðaher í mýrarfláka í frumskógi í Kongó, skammt frá landamærum Úganda.  Vonandi næst hann næstu daga og fær makleg málagjöld fyrir grimmdarverk sín.

bensini_handdaelt_806936.jpgÞegar við áttum um þrjá tíma eftir til áfangastaðar kom kall frá skrifstofunni að við þyrftum að mæta til fundar daginn eftir í Kampala.  Það var því ekkert annað að gera en venda kvæði okkar í kross, snúa við og halda suður til höfuðborgarinnar.  Það var langt liðið á kvöldið þegar við komum að borgarmörkunum þar sem allt stóð fast í umferðastíflu, sem er venjan en ekki undantekning.  Menn aka hér ljóslausir og fara svona og svona eftir umferðarreglum.  Mér varð hugsað til þessarar ferðar í myrkri akandi inn í dimma Kampala þegar ég sá frétt af bílslysi þar sem forsætisráðherrafrú Zimbabwe lést í gærkvöldi við svipaðar aðstæður.kolaflutninar.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 283953

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband