Kosningar og ábyrgð

 

Loksins sér fyrir endann á Ice-save málinu og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að gengið verði til samninga við IMF ásamt þeim aðilum sem hugsanlega vilja lána okkur það sem upp á vantar til að verja krónuna og skapa eðlileg utanríkisviðskipti.  Málið er að engin annar kostur er í stöðunni þó ekki verður fram hjá því litið að mikil áhætta fylgir þessum aðgerðum.  Innganga í ESB er síðan seinni tíma mál en bjartsýnustu ESB sinnar tala um að innganga gæti átt sér stað 2011, og þátttaka í myntbandalaginu í framhaldi af því.

Mikið er rætt um hugsanlegar kosningar en bloggari telur það ekki tímabært fyrr en þjóðin hefur náð áttum í þessum málum og öll kurl eru komin til grafar.  Hugsanlega mætti kjósa að vori en sennilega heppilegar næsta haust.  Þær kosningar myndu fara fram í erfiðu árferði á Íslandi, með miklu atvinnuleysi og versnandi kjörum almennings á Íslandi.  Alheimskreppan mun að sjálfsögðu hafa mikil áhrif á Ísland og hversu vel gengur að koma vindi í seglin og ná góðu skriði á ný.

Það er alveg ljóst að menn verða kallaðir til ábyrgðar í næstu kosningum, hvenær svo sem þær verða.  Þeir sem mesta ábyrgð bera verða að víkja og hleypa nýjum mönnum að.  Það eru einfaldlega nauðsynleg skilaboð til þjóðarinnar að menn beri pólitíska ábyrgð og skilji sinn vitjunartíma.

Hinsvegar stendur stefna Sjálfstæðisflokksins keik eftir þessar hremmingar og eins og hingað til mun það verða frelsi einstaklinga til athafna, innan skynsamlegs regluverks, ásamt aðgreiningu á reglusetningum og atvinnulífi í hagkerfinu.  Það má að sjálfsögðu kenna kapítalismanum um margt að því sem gerst hefur, enda er hann ekki fullkominn, en pólitíkusar bera þar mikla ábyrgð.  Kapítalisminn er öflugasta tækið til að keyra upp efnahag þjóðarinnar og bæta lífsgæði Íslendinga.

Ef þjóðin ætlar að snúa sér að sósíalisma vegna þess sem gerst hefur má líkja því við skip sem hefur öfluga aðalvél.  Vegna mistaka skipstjórnarmanna og vélstjóra eru vélarnar settar á fullt þannig að skipið nánast kafsiglir sig og liggur eftir hálfsokkið.  Eftir að búið er að bjarga skipinu frá glötun er byrjað að ræða um að skipta um yfirmenn á skipinu, enda bera þeir ábyrgð á því sem komið hefur fyrir.  En þá heyrast þau sjónarmið að skipta þurfi um vél í skipinu til að útiloka að þetta endurtaki sig.  Nú skal setja litla vél (sósíalisma) þannig að ekki verði hægt að ná skriði á skipið.  Því skuli siglt lötur hægt (lágmarka hagkerfið) þannig að engin möguleiki verði á kafsiglingu.  Aðrar raddir segja þetta hafi ekkert með stærð vélarinnar (kapítalismann) að gera heldur þurfi að koma á samskiptum milli brúar og vélarrúms og kerfum sem komi í veg fyrir glannaskap og aðra kafsiglingu.

Reyndar má segja að kreppur séu nauðsynlegar.  Án þeirra væri ekki sú tiltekt til staðar sem þeim fylgir.  Á Íslandi voru komir fjórir til fimm hópar sem allt áttu og öllu réðu.  Höfðu jafnfram fjölmiðlana á sínu valdi til að ráðskast með þjóðina.  Hikuðu ekki við að blanda sér í póltík og nota aflsmuni sína í formi fjármuna og tangarhaldi á fjórða valdinu til að koma sínu fram.  Kreppa er kvalarfull en gefur tækifæri til að lagfæra margt sem aflaga hefur farið hjá þjóð sem hafi týnt sér í mikilmennsku og hroka og taldi sig vera einstaka í heiminum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Næsti landsfundur Sjálfstæðisflokksins og hugsanlegar kosningar munu skýra línurnar, sem eru full- óljósar núna. Valið stendur um ESB eða ekki. And- ESB sinnar finnast ekki bara Vinstri grænum. Hver sá sem hugsar um sjálfstæði í orði og á borði kýs ekki ESB ef hann kynnir sér starfsháttu á þeim bæ. Líka í afstöðunni til frelsis. Nú vill fólk kjósa höftin, en erfitt er síðan að losa sig úr sjálfsköpuðum ESB hlekkjum.

Kreppan hreinsar til, en þó er vitað að misskipting auðs fer fyrst verulega af stað við kreppu, sbr. Rockefeller og stóru kreppuna. Þeir sem auðinn hafa eða fá enn lán geta keypt eignir á útsölu og gera það. Finninn sem hélt fyrirlestur um daginn lýsti þessu líka í þeirra kreppu. En þar komu þeir ekki nógu mikið heimilunum til hjálpar, sem verður nú frekar reynt hér. Völdin færast á stjórnmálamenn í kreppu (með sósíalisma) og eftir á eru þá voldugir pólítíkusar með skuldugum en eignamiklum auðmönnum. En þó ættu skuldlitlu fyrirtækin að standa sig best og eignast stærri hlut á markaði.

Ívar Pálsson, 17.11.2008 kl. 10:44

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Ég verð fjarri góðu gamni Ívar, á næsta landsfundi flokksins.  Ég geri ekki ráð fyrir að eiga heimangengt frá Kampla til Reykjavíkur.  En nú þurfa menn að taka á honum stóra sínum.  Ég get ekki ímyndað mér að Geir Haarde sé stætt á að halda áfram, og reyndar ekki varaformaðurinn heldur.  Það verður að skipta um forystu í flokknum ef hann á að lifa af þau gríðarlegu mistök sem honum hefur orðið á.  Ég er hinsvegar að segja að þetta snýst ekki um stefnumál Sjálfstæðisflokksins né hugmyndafræði yfir höfuð.  Þetta snýst um mistök einstaklinga að hafa ekki brugðist við ,,yfirvofandi og mikilli hættu"  Sem var augljós öllum þeim sem ekki voru blindaðir af tálvon. 

ESB verður að öllum líkindum samþykkt og sótt verður um aðild.  Það verður gert í ljósi þess sem gerst hefur og þeim ótta sem það hefur stráð í hugum Íslendinga.  Fáir trúa því að hægt verði að nota krónu í framtíðinni og því þurfi að taka upp evru, en innganga í ESB er forsenda þess.

Gunnar Þórðarson, 20.11.2008 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 283947

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband