Samgönguhagfræði

Samgöngur eru eitt af stóru málunum í pólitík landsmanna og mikið tekist á um þennan fyrirferðamikla málaflokk.  Það eina sem landsmenn eru t.d. sammála um í vegasamgöngum er að engin er ánægður með sinn hlut þegar kemur að uppbyggingu umferðarmannvirkja og telja sig hlunnfarna af stjórnvöldum.  Það er einna helst að íbúar á norðanverðum Vestfjörðum séu ánægðir, en þó alls ekki allir.  Ef marka má ummæli og skrif málsmetandi manna á svæðinu er alls ekki nóg gert fyrir þessi tæplega tvö prósent þjóðarinnar.  Öðrum landsmönnum vex í augum þessar miklu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á næstu tveimur árum samkvæmt fyrirliggjandi samgönguáætlun, sem eru upp á rúmlega fjóra milljarða króna.

Þegar taka þarf ákvörðun um hvar eigi að fjárfesta í umferðamannvirkjum er tekið tillit til hagkvæmni, það er að segja hversu miklu hagræði væntanlegar framkvæmdi skila, og ekki síður réttlætis.  Auðvelt er að reikna út hagræði og nánast hægt með góðum forsendum að setja inn í Excel og reikna út niðurstöðu.  Venjulega myndu framkvæmdir þar sem flestir íbúar búa og mest umferðin er vera hagstæðastar.  Réttlæti er hinsvegar viðfangsefni pólitíkur og er miklu flóknari.  Réttlæti og sanngirni eru mjög háð gildismati og erfitt að höndla og útilokað að reikna út í töflureikni.

Það sama er uppi á teningnum þegar tekið er gjald fyrir notkun samgöngumannvirkja.  Skilvirkast er að láta alla notendur greiða gjald sem dugar fyrir þeim kostnaði sem þeir valda.  En hver er sá kostnaður og hvernig verður hann til?

Í dag er mikið talað um innri og ytri kostnað mannvirkja ásamt föstum og breytilegum.  Látum þá síðarnefndu sæta afgangi og skoðum aðeins þá fyrri, innri- og ytri kostnað.

Innri kostnaður er m.a. uppbygging og rekstur umferðamannvirkja.  Á síðasta ári nam sá kostnaður um 12 milljörðum króna.  Ytri kostnaður er hinsvegar óbeinn og er ekki tengdur því og fellur til óháð því hver notar vegina.  Þetta er kostnaður sem verður vegna loftslagsbreytinga (gróðurhúsalofttegundir), mengunar (staðbundin mengun), hljóðmengunar, slysa og vegna umferðateppu. 

Ef við skoðum þetta aðeins betur þá sjáum við að innri kostnaður verður mun meiri í dreifbýli þar sem færri bílar bera kostnað við fjárfestingu og viðhald.  Viðhald er nefnilega ekki bara af umferðinni heldur er verulegur hluti hennar vegna veðrunar, sem er óháð notkun.  Hinsvegar verður ytri kostnaður mun meiri í þéttbýli, því fyrir utan loftslagsbreytingar, sem eru óháðar staðsetningu, er kostnaður vegna mengunar, slysa og umferðateppu miklu hærri.

Í rauninni má segja að flutningabíll sem leggur af stað frá Reykjavík er að valda miklum ytri kostnaði í upphafi ferðar.  Hann veldur íbúum höfuðborgarinnar kostnaði í formi reyks og svifryks ásamt slysahættu og töfum vegna umferðarteppu.  Hinsvegar er innri kostnaður lágur enda mikil umferð að greiða niður fjárfestingar og viðhald mannvirkja.  Þegar bíllinn er kominn upp á Kjalarnes fer ytri kostnaður hríðlækkandi en sá innri stig hækkandi.  Við komuna í Djúpið þar sem innan við hundrað bílar aka daglega er ytri kostnaður mjög lágur.  Ekki er líklegt að bændur í Ísafjarðardjúpi pirri sig á reyk eða hávaða og í lítilli umferð er slysahætta yfirleitt minni og umferðarteppa engin.  Innri kostnaður hefur hinsvegar rokið upp úr öllu valdi.

Í umræðum um þessi mál er mikið talað um að láta þann borga sem notar en eins og að framan greinir er það ekki auðvelt mál að verðleggja með þeim hætti.  Í Evrópusambandinu er þegar farið að nota GPS tækni til að láta flutningabíla borga mismunandi verð eftir því hvar þeir eru og eins er farið að greiða sérstakt gjald fyrir akstur í stórborgum, t.d. Stokkhólmi og London.  Í Evrópusambandinu hafa rannsóknir sýnt að bílaumferð er ekki að greiða þann kostnað sem hún veldur, þ.e.a.s. samanlagt innri- og ytri kostnað.

Ef niðurstöður þessara rannsókna eru heimfærðar upp á Ísland virðist þó annað vera upp á teningnum.  Umferð hér á landi er að greiða um 25 milljarða á ári til ríkisins en  samfélagslegur kostnaður Íslendinga er nokkurn vegin sama upphæð.  Þetta kemur til af því að hér á landi eru bifreiðaeigendur að greiða mun hærri gjöld en nágrannar okkar í Evrópusambandinu.  Þessi gjöld eru í formi olíu- og bensíngjalds ásamt innflutnings- og bifreiðagjöldum.  Þar sem olíu- bensíngjald, sem er uppstaða af greiðslu fyrir notkun, er háð því hversu mikið er ekið virðist því vera um nokkuð skilvirka aðferð að ræða hér á landi.  Innheimtan er einnig réttlát þar sem þeir greiða sem nota.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 283957

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband