Strandveiðar

smabatahofn2.jpgEru strandveiðar þjóðhagslega hagkvæmar? 

Varla getur það verið þjóðhagslega hagkvæmt að auka við sóknargetu veiðiflotans.  Kvótakerfinu var komið á til að draga úr sóknarþunga til að bregðast við gegndarlausu tapi útgerðarinnar.  Tapi sem skapaðist meðal annars af óstjórn og afskiptum stjórnmálamanna.  Innflutningi á togurum og úthlutun þeirra til valinkunnra manna allt í kringum landið.  En er þá hægt að auka hagkvæmni með því að auka sóknarþunga og bæta við skipaflotann?

Til eru þeir aðilar sem hafa reiknað út að trillur, sem stunda strandveiðar, séu miklu hagkvæmari en önnur veiðiskip.  Einn stjórnmála- og fræðimaður hefur haldið því fram að fyrirtæki eins og H.G. ætti að selja alla sína togara og kaupa 30 til 50 trillur í staðinn, enda sé það miklu hagkvæmari kostur.  Hann hefur reiknað þetta allt út og birt opinberlega.  Getur verið að hann hafi eitthvað til síns máls?

Það er rétt að gera sér grein fyrir því að hér er um hreinan og ómengaðan kommúnisma að ræða.  Að yfirvöld eigi að skipuleggja atvinnugreinar og reikna út hvað sé best að framleiða, hvenær og hvernig.  Bloggari taldi að slíkar aðferðir heyrðu sögunni til og hefðu verið fleygt á ruslahauga sögunnar.

Auðvitað veit útgerðarmaðurinn hvað er hagkvæmast og hvernig best er að reka sína útgerð.  Hvorki menntamenn né pólitíkusar eiga að blanda sér í slíkt, enda engar líkur á að þeir geti gefið góð ráð.  Ekki frekar en að koma við hjá bókabúðinni, flugfélaginu eða prjónabúðinni með útreikninga og tillögur um hvað skuli framleitt, hvernig og hvenær.  Í rauninni er þetta svo augljóst að óþarfi er að taka þátt í þessari umræðu.

H.G. þarf að tryggja rétt gæði afla og bjóða upp á afhendingaröryggi til að geta selt ferskan unnin fisk á erlendan markað.  Stjórnendur fyrirtækisins vita þetta og skilja að ferlinum lýkur ekki á fiskmarkaðinum við Sindragötu enda nær virðiskeðjan til neytandans í Bretlandi.  Miklar kröfur um gæði og afhendingu kalla á öflug skip sem eru sérstaklega útbúin fyrir þessa virðiskeðju ferskfisks.  Fiskurinn er kældur í niður fyrir -1°C staks eftir slægingu.  Líftíminn þarf að vera nægjanlegur fyrir flutning og dreifingu til neytandans.  Öflug skip skapa öryggi um afhendingu og gæði.

En eru þá strandveiðar réttlátar? 

Hver sér réttlætið með sínum augum.  Bloggara finnst það ekkert sérstaklega réttlátt að þeir sem gefist hafa upp á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og selt sig úr því, fá á ný tækifæri til að byrja upp á nýtt.  Það er morgunljóst að þegar um endurnýjanlega auðlind er að ræða eins og fiskimið, að ekki er hægt að afhenda einum án þess að taka af öðrum.  Þau 6.000 tonn sem fyrirhugað er að veiða í strandveiðikerfi á þessu ári eru þannig tekin að þeim sem stunda atvinnugreinina í dag.  Miðað við nýlega skýrslu Sjávarútvegsráðuneytisins um strandveiðar kemur fram að um þriðjungur þeirra sem stunduðu þessar veiðar á nýloknu ári höfðu selt sig út úr kerfinu áður.  Margir komu úr öðrum starfsgreinum og notuðu sumarfríið sitt til að veiða.  Minnst af þessum afla kom til vinnslu hér á svæðinu og því var atvinnusköpun í lágmarki.  Reyndar var ekkert talað um þjóðhagslegan ávinning af veiðunum í skýrslunni, en slíkt verður ekki mælt nema taka alla virðiskeðjuna til kaupandi í Bretlandi.

Mikið er talað um að strandveiðar stuðli að nýliðun í greininni.  Varla þarf strandveiðar til þess þar sem nýliðun hefur verið mikil, t.d. hér á norðarnverðum Vestfjörðum, en nánast engin sem hélt um útgerð upp úr 1990 er enn við lýði.  Nýir menn hafa tekið við og enn eru ungir dugandi menn að koma sér í útgerð og kaupa skip og veiðiheimildir.  Það þarf engin ríkisafskipti til að hagkvæmni finni sér bestu leiðir og menn uppgötvi nýjar arðbærar aðferðir í útgerð og fiskvinnslu.  Og reyndar ekki ráð frá menntamönnum eða pólitíkusum.

Þjóðhagslegur ávinningur

Hvernig sem þessu máli er velt upp verður ekki séð að þessar veiðar séu þjóðhagslega hagkvæmar né réttlátar.  Ef til vill þjónar þetta allt saman einhverjum pólitískum hagsmunum, en það gerir það ekki réttlátt.  Hinsvegar ef menn gera sér ekki grein fyrir að fiskveiðar þurfa að vera sjálfbærar og nauðsynlegt að takmarka aðganginn að auðlindinni, er erfitt að ræða þessi mál við þá.  Sá skilningur er grundvallaratriði til skynsamlegra umræðu um fiskveiðimál og nauðsynlegur til að hægt sé að taka vitrænar ákvarðanir um sátt í þessum umdeildu málum.  Sátt sem leiði til þjóðhagslegs ávinnings.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég efast ekki um að þú sért sprenglærður viðskiptafræðingur en af einhverjum óskýrðum ástæðum yfirfærir þú viðskiptafræðikenningar yfir á stofnlíffræði fiska. Útkoman er hvorki viðskiptafræðilegs né líffræðilegs eðlis, rétt eins og afkvæmi fugla og fiska eru "hvorki fugl né fiskur".

Ef ég skil þig rétt mætti veiða allann leyfilegt heildarmagn t.d. þorsks eingöngu við suðurströndina.  Hvað á þá að gera í því að hér eru margir þorskstofnar? 

Er er ekki hægt að búa til fína viðskiptafræðilega formúlu í Exel með tilheyrandi grafík og sýna fram á að nóg sé að heyja 5 sinnum á Suðurlandi og sleppa heyskap á öðrum stöðum?  

Sigurður Þórðarson, 5.2.2010 kl. 17:35

2 Smámynd: Kristinn Pétursson

Gunnar fyrir hvern ertu að skrifa svona bull?  Varla fyrir Vestfirðinga.  Ætlar þú að sækja um stöðu hjá kvótavinafélaginu?

Að er allt gott við þessar strandveiðar. Svo þar að auka aflaheimildir þar að auki um 50 þúsund tonn.

Heyrðir þú fréttirnar áðan. Venus er með mettúr úr Barentshafinu.... aldrei annað eins mok þar. Veiðiálag umfram ráðgjöf  ICES (heimskuformúlan) var fleri hundruð þúsund tonn árlega eftir árið 2000......

Þá fyrst  fór stofninn að braggast  upp á við. Vinsamlega reyndu svo að skilja þetta  rétt - og hafði líffræðina með. Það verður aldrei byggður upp fiskistofn með pattstöðu  í fæðu sem flöskuháls.

Kristinn Pétursson, 5.2.2010 kl. 18:29

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Margt er nú orðið morgunljóst hjá sjóhundinum Gunnari Þórðarsyni sem hefur greinilega unnið í öllum flokkum útgerðar frá blautu barnsbeini.

"Það er morgunljóst.......að ekki er hægt að afhenda einum án þess að taka frá öðrum" sem ég hef alltaf skilið þannig að þegar allar aflaheimildir voru "afhentar öðrum" í upphafi voru þær teknar frá öðrum. Auvitað veit G.Þ. að  í lögum um stjórnun fiskveiða stendur klausan:" Úthlutun aflaheimilda myndar ekki eignarrétt."

Árni Gunnarsson, 5.2.2010 kl. 20:19

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Sæll Gunnar: Eg sé að þú ert á móti því að skapa fleiri störf á Vestfjörðum í sjávarútvegi. Eg bara skil þig ekki. Flestir sem eg tala við hér eru mjög ánægðir með þetta framtak. Eg veit náttúrlega að stórútgerðin hér, og auðvitað þú eru á móti. Er það hagfræði, græðgi eða kannski bæði?     Hvað heldur þú að skapi fleiri störf fólkið  eða peningar?   Ef 6000 tonnum yrði bætt við heildarkvótann og deilt niður á allan flotann, hvað skapaði það mörg störf á Vestfjörðum? Þú ættir ekki að vera í vandræðum að reikna þetta út fyrir mig.   Hagfræðingarnir hafa gleymt fólkinu í landinu við að reikna út hvernig hægt er að græða sem mest á því að fækka störfum. þetta er að koma í bakið á okkur öllum.  Hvað ætli séu margir hagfræðingar starfandi á Íslandi?

Bjarni Kjartansson, 5.2.2010 kl. 21:07

5 Smámynd: Óskar Stefán Gíslason

Sæll Gunnar lastu það sem þú skrifaðir áður en þú sendir bréfið,þú segir að útgeramaðurinn viti hvað sé haghvæmast,er það ekki sama í þínum augum hvort útgerðamaðurinn á trillu og sé ekki í LIÚ eða ertu farinn að vinna fyrir þá sem halda að þeir eigi fiskin í sjónum.   kvStefán Gíslason

Óskar Stefán Gíslason, 6.2.2010 kl. 05:04

6 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Strandveiðarnar eru hobbý sem menn fá greitt fyrir að stunda og eru góðar sem slíkar.Formaður Landsambands Smábátaeigenda átti til að mynda sportbát, svokallaðan núllbát sem búið var að selja kvótan af, formaðurinn fór á strandveiðar á honum í fullu starfi með 8-9 hundruð þúsund kr. laun þótt Landssambandið sé rekið með bullandi tapi.Formaðurinn segist samt ekki vera að taka neitt frá öðrum með veiðiskap sínum.Fiskverðið á mörkuðunum hrundi um leið og strandveiðarnar byrjuðu og fram kom á fundi þar sem fiskkaupendur voru að helsta skýringin væri ormur í fiskinum.Þetta kerfi að vera með sameiginlegan pott sem allir hafa aðgang að er ekki nýtt og þýðir bara það að báyumm mun fjölga þar til aðeins verða nokkrir dagar á ári sem hver fær.Það getur hentað mönnum í fullu starfi á háum launum en varður aldrei annað en hobbý.Strandveiðiflotinn taldi um 550 báta á síðastliðnu ári. Á mörgum voru 2 menn, þannig að áætla má að 750 menn hafi þurft til að veiða þessi 4000 tonn á 2 mánuðum.Eru þessar tölur frá ráðuneytinu.Hægt hefði verið að veiða þessi 4000 tonn á 15 bátum af stærstu gerð innan smábátakerfisins með 60 mönnum.Verðið á fiskinum hjá strandveiði flotanum var í kringum180-200 kr.Verðið sem stærstu línubátarnir eru að fá núna er í kr.300-350 kr. þannig að allir ættu að sjá ruglið.

Sigurgeir Jónsson, 6.2.2010 kl. 10:25

7 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Jæja Sigurgeir:  Hvar ætlar þú að taka þessi 4000 tonn fyrir 15 stærstu línubáta krókakerfisins? Af hverjum ætlar þú að taka? Þú ert sem sagt tilbúin að verja það að krókaleyfisbátar fengu 4000 tonn í viðbót. Af hverju ekki bara tveir togarar? Gæti verið að þú gerðir út stóran línubát í krókakerfi?

Bjarni Kjartansson, 6.2.2010 kl. 15:43

8 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Upphaflega hugmyndin var að byggðakvótinn færi í þetta og svo er væntanlega en.Togarar hafa fengið byggða kvóta en úthlutunin á honum hefur verið slík lögleysa og vitleysisgangur að umboðsmaður alþingis hefur verið á fullu við að álykta um vitleysuna.Það að ég benti á stóru línubátana í krókaaflamarkskerfinu var það að mér sínist að þeir hafi mesta verðmætasköpun og mestu hagkvæmni þegar allt er upptalið, náttúruvernd og minstur tilkostnaður.

Sigurgeir Jónsson, 6.2.2010 kl. 16:56

9 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ég á ekki stóran línubát í krókaaflamarkskerfinu.Ég á lítinn bát sem ég  er á handfærum.

Sigurgeir Jónsson, 6.2.2010 kl. 17:41

10 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Ég segi nú bara enn og aftur eins og félagi minn forðum.  Ef menn skilja ekki að fiskveiðiauðlindin er takmörkuð og endurnýjanleg þá þíðir ekkert að ræða við þá.  Þetta er svona grundvallaratriði í umræðum um fiskveiðikerfi.  Þannig er fiskveiðiauðlindin ólík t.d. olíu eða kolanámum.  Við stefnum að að hámarka afraksturinn með því að veiða það magn sem stofninn gefur best af sér.  Það er hinsvegar nauðsynlegt að aðskilja það síðan hagfræðilegu hliðinni, hvernig viljum við síðan hámarka arðsemi þess sem við veiðum.

Gunnar Þórðarson, 11.2.2010 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 283943

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband