Frjálshyggja og Sjálfstæðisflokkurinn

Það er mikilvægt þegar fólk fæst við hugmyndafræði eða hugtök að það skilji hvað fjallað er um.  Umræða um ,,Ný-frjálshyggju" og nú ,,harða frjálshyggju" er óttalegt bull þar sem fólk hengir sig í hugtök sem það skilur ekki til að nota til útskýringa á því sem miður hefur farið.  Frelsi er aldrei vont en eins og gengur þarf alltaf lög og reglu og eftirlit.  Ekkert í frjálshyggju mælir gegn því.  Íbúi þarf að taka tillit til nágranna síns og samfélagið þarf að hugsa um þá sem minna mega sín.

En það er alvarlegt mál þegar formaður Sjálfstæðisflokksins skilur þetta ekki.  Hann talar um harða frjálshyggju og nefnir sem dæmi að slík stefna komi í veg fyrir menntun almennings.  Ég vil minna Bjarna Benidiktsson á að upphafsmaður frjálshyggju, Adam Smith, sagði að samfélagið hefði ekki efni á að mennta ekki fátæklinga.  Þannig færi það á mis við hæfileika og mannauð.

Sjálfstæðisflokkurinn byggir á einstaklingsfrelsi og einkaframtaki.  Bjarni Ben ætlar vonandi ekki að breyta því.  Það er einmitt það sem við þurfum núna til að byggja okkur upp aftur.  Sósíalismi mun aldrei gera það og hefur aldrei staðið undir auðlegð þjóða.

Það er líka vert að hugsa um að hagsveiflur eru eðlilegar þar sem maðurinn er ekki fullkominn.  Sem betur fer.  Sjálfur er ég alsæll með sumar breytingar sem kreppan hefur skapað, t.d. að tugur manna eigi Ísland.  Það hefur ekkert með frjálshyggju að gera og ef eitthvað er, þá er það andstæða hennar.

Það er lágmarks krafa til þeirra sem fjalla um svona mál að þeir viti hvað þeir eru að tala um.  Upphrópanir, frasar og lýðskrum er aldrei til góðs.


mbl.is Ekki hörð frjálshyggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Mælt þú manna heilastur Gunnar Þórðarson, hverju orði sannara. Það er þó, að virðist, í mannlegu eðli að setja sig í slíkar stellingar og finna sér óvin til að hata, sama hversu fráleitar hugmyndir hann hefur um andstæðinginn. 

Sigurður Karl Lúðvíksson, 30.3.2009 kl. 19:56

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Já, rétt er.  Fólk skilur sjaldnast orðin sem það notar, virðist mér.  Hefur heldur aldrei lesið Mill.  Mill náttúrlega gerði sín mistök, en hann sá heldur aldrei Ísland eftir fullveldi.

Annars var ég að hlusta á Bjarna Ben áðan.  Ég fékk hálfgerðan hroll af að hlusta á manninn.  Hann skelfir mig.  Ef hann er hægri-maður þá er ég Tina Turner.

Ásgrímur Hartmannsson, 31.3.2009 kl. 00:04

3 Smámynd: Þórarinn Sigurðsson

“The most brilliant propagandist technique will yield no success unless one fundamental principle is borne in mind constantly - it must confine itself to a few points and repeat them over and over”

- Goebbels.

Mér datt þetta í hug þegar ég hugsaði til kerfisbundinnar, vísvitandi mistúlkunar hinna blaðrandi stétta (blaðamanna, pólítíkusa og fræðimenn í húmanískum greinum) á frjálshyggjuhugtakinu.

Almenningur á Íslandi virðist ekki hafa mikla mótstöðu gegn þessu bulli, frekar en hann hefur nokkurn tíma haft í sögunni. Ég er farinn að missa álit á þjóðinni.

Þórarinn Sigurðsson, 31.3.2009 kl. 02:25

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nýfrjálshyggja er ekki til, ekki frekar en "ný-sósíalismi", heldur er þetta orðskrípi skapað af vinstrimönnum, til þess ætlað að hræða fólk sem veit ekki hvað klassísk frjálshyggja er. Vinstrimenn hafa líka reynt að gera skammaryrði úr orðinu "einkavæðing", sérstaklega þegar hugtakið er tengt mennta og velferðakerfinu. Vinstrimenn hafa ötullega komið því inn hjá fólki að einkavæðing og einkarekstur á þessum sviðum, þýði það að þar fái menn ekki þjónustu nema borga fyrir hana úr egin vasa. Það er auðvitað rangt.

Sumstaðar, t.d. í Bandaríkjunum, þarf fólk að eiga peninga eða sýna afburða námsárangur til þess að komast í frægustu og bestu háskólana. Grunnskólarnir eru hinsvegar fyrir alla og svipaðir að gæðum, þó vissulega séu til einkaskólar á því stigi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2009 kl. 02:35

5 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Takk fyrir þessi áhugaverðu komment.  Gott að vita að ég er ekki einn um þessar skoðanir.  Ég þekki andstæðingana og reikna með því sem frá þeim kemur.  Ég hef miklu meiri áhyggjur af mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum, sem standa á vörð um meginstefnu um einstaklingsfrelsi og einkaframtak.  Gegn sósíalisma og fyrirhyggjupólitík. 

Margir þeir sem hæst láta í dag og deila á einkaframtakið, sérstaklega útrásarvíkingana, er fólk sem lét vaða á súðum í fjárfestingum og eyðslu.  Kunni fótum sínum ekki fjárráð, frekar en víkingarnir, og eru nú í miklu basli.  Mér sýnist það verða menn eins og ég sem þurfa að borga þá út.  Setji VG á eignaskatta mun ég verða í hópi fárra sem þá greiða.  Aðallega vegna þess að ég hagaði mér skynsamlega í fjármálum.  Seldi öll hlutabréf í sumar sem leið þar sem ég hafði enga trú á því sem var að gerast.  Skulda lítið sem ekki neitt og kaupi ekki bíl nema að eiga fyrir honum.  Enda ek ég á 9 ára gömlum Patrol.

Gunnar Þórðarson, 31.3.2009 kl. 05:57

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Kannski á maður að virða Bjarna það til vorkunnar að flokkurinn er í afar erfiðri stöðu. Hann vill reyna að höfða til sem flestra, ekki síst ungs fóks sem hefur yfirgefið flokkinn í hrönnum. Svona lágt gengi eins og mælst hefur á flokknum, er komið í hættumörk.

Annars held ég að vinstriflokkarnir verði fljótir að hrekja sitt fylgi yfir til okkar aftur. Þeir þurfa ekki nema hálft kjörtímabil til þess.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2009 kl. 06:06

7 Smámynd: Björn Birgisson

Er hér verið að halda því fram að Frjálshyggjan sé góð og gild, en þúsundir Sjálfstæðismanna (og annarra Íslendinga) og milljónir skoðanabræðra þeirra, út um allan heim, hafi dregið þessa góðu stefnu niður í svaðið með taumlausri græðgi og sukki með sína og annarra manna fjármuni?

Voru það vondir Frjálshyggjumenn sem lögðu grunninn að HEIMSKREPPUNNI?

Björn Birgisson, 31.3.2009 kl. 09:39

8 identicon

Mikið getur hugsjónin verið blind. Þú veist það alveg eins vel og ég að það sem vinstriflokkarnir vilja er norrænt velferðasamfélag. Má benda ykkur kapitalistum á að stjórnaformaður Nokia sagði að það sem fyrirtæki þyrftu væri stöðugleiki og búa í ríki þar sem væru tiltölulega háir skattar bæði á fyrirtæki og almenning. Þannnig funkerar samfélagið best. Það er til nóg handa öllum, en þið viljið frekar að það sé nóg handa sumum.

Ef við skoðum heilbrigðisupplýsingar vesturlanda þá kemur í ljós að löndin sem búa við hið norræna velferðarkerfi raða sér í topp sætin og má benda ykkur frjálshyggjufuglum að Bandaríkin eru yfirleitt í 10-12 sæti. Þetta á við bæði um lífaldur og ungbarnadauða. Sem segir allt um það hversu gott er að búa í löndunum. Þess vegna skil ég ekki hvað frjálshyggjumenn eru að rembast við að velta þessu fyrir sér, stefnan er ónýt og virkar ekki vegna siðleysis mannsins. Sættið ykkur við þetta og ykkur mun líða miklu betur.

Valsól (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 10:01

9 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Það er erfitt að ræða flókin mál með upphrópunum.  Ég er viss um að Björn veit einmitt ekkert hvað frjálshyggja er en hefur heyrt að það sé sökudólgurinn. 

Valsól.  Ef maðurinn er siðlaus hvernig notarðu þá norrænt velferðakerfi til að ná tökum á þessum málum?  Er það kerfi ef til vill ekki mennskt?  Málið er að norðurlandaþjóðir nota bæði auðhyggju og frjálhyggju að einhverju leiti.  Frjálhyggja er ekki sökudólgur í bankahruni heimsins.  Margir merkir menn hafa rakið þetta til ákvörðunar stjórnvalda, sérstaklega í BNA.  En efnahagsveiflur eru alls ekki alvondar eins og ég hef bent á.  Þar sem þær eru ekki er reyndar hræðilegt ástand, t.d. í N-Kóreu og Kúbu.

Gunnar Þórðarson, 31.3.2009 kl. 11:43

10 Smámynd: Björn Birgisson

Ég þakka "málefnalegt" svar þitt Gunnar. Segir allt sem segja þarf. Ekki um mig þó. Þú veist ekkert hvað ég veit eða kann. Bara alhæfir um fákunnáttu. Í hnefaleikum heitir þetta að veita högg undir beltisstað og er álitið mjög óheiðarlegt.

Björn Birgisson, 31.3.2009 kl. 11:56

11 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Þetta er ekki högg undir beltisstað Björn.  Ég byggi þetta á skrifum þínum hér að ofan.

Samkvæmt áliti finnska sérfræðingsins sem tók út bankahrunið á Íslandi voru það eigendur bankanna fyrst og fremst sem bera ábyrgð á bankahruninu.  Reyndar gerir hann hlut stjórnvald mikinn sem eftirlitsaðila.  Hvað hefur það með frjálshyggjustefnu að gera að þessir menn tóku of djarfar ákvarðanir og fóru fram úr sér?  Er það þá frjálshyggja að fjölskylda keypti 50 milljóna hús og þrjá bíla á kaupleigu á heimilið?  Að vísu er það frjálshyggja að einkavæða bankana, en hver hefði viljað hafa óbreytt kerfi þar sem stjórnmálamenn voru að vasast í lánveitingum til fyrirtækja og einstaklinga?  Hinsvegar hefur komið í ljós að ekki var rétt að einkavæðingunni staðið þar sem átti að selja breiðum hópi manna hlut ríkisins, en ekki fámennum hópi.  Það hefur ekkert með frjálshyggju að gera heldur er framkvæmdaratriði.

Frjálshyggja gerir ráð fyrir að allir hafi sömu tækifæri til að bæta lífskjör sín.  Hvort sem einstaklingur er karl eða kona, svartur eða hvítur.  Stefnan gerir ráð fyrir að afskipti ríkisins sé eins lítil og hægt er til að halda upp lögum og reglum.  Aðskilnað stjórnmála og viðskipta, fyrir utan eftirlitshlutverk.  Reynar eru kratar þessu að flestu sammála en vilja hlut ríkisins þó meiri en ef ég man rétt voru það menn eins og Mills og siðar Keynes sem komu með hugmynd að blönduðu hagkerfi sem flestar þjóðir vesturlanda vinna eftir.  Í kreppunni upp úr 1970 var þeirri stefnu kennt um.  Nú er það frjálshyggjan og fundinn allsherjar sökudólgur og þarf ekki að ræða það frekar. 

Varðandi aðra umsögn hér að framan vil ég benda á að maðurinn er eina siðaða dýrið á jarðkringlunni.  Um það verður ekki deilt.  Maðurinn er hinsvegar ekki fullkominn, sem betur fer.  Og hann mun aldrei lifa í fullkomnum heimi.  Sem betur fer.

En Björn.  Ég tók of djúpt í árinni og felldi palladóm um þig.  Ég byðst velvirðingar á því.

Gunnar Þórðarson, 31.3.2009 kl. 12:32

12 Smámynd: Björn Birgisson

Velvirðingarbeiðni móttekin og virt.

En útskýrðu eitt fyrir mér og leiðréttu ef þér finnst ég fara rangt með:

Sá flokkur hérlendis sem mest aðhyllist frjálshyggjuna, Sjálfstæðisflokkurinn þinn, er samkvæmt könnunum að tapa vel yfir 22.000 atkvæðum miðað við kosningarnar 2007. Hvernig stendur á því?

Er stefnan ekki rétt eða misskilja kjósendur hana öfugt eins og kerlingin sagði?

Björn Birgisson, 31.3.2009 kl. 12:54

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála þér Skúli

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2009 kl. 16:37

14 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Takk fyrir þessi komment félagar.  Til að svar þér Bjarni þá er skýring á falli Sjálfstæðisflokkinn ekki teng frjálshyggju að örðu leiti en þeim áróðri sem notaður er í notkun á hugtakinu.  Sjálfstæðisflokkurinn brást á vaktinni eins og Skúli kemur inn á.  Fyrir það fær hann að súpa seyðið.  Sjálfur hef ég verið flokknum reiður fyrir það og gekk hart fram, þar sem ég átti þess kost, að krefjast þess að forsætisráðherra og fjármálaráðherra tækju ábyrgð á mistökum og segðu af sér.  Það er mjög mikilvægt að sá siður komist á í Íslenskri pólitík að menn axli ábyrgð.  Ég hef minna beitt mér í málefnum Samfylkingar enda sá flokkur mér fjarri og óskiljanlegur.

Ég var hinsvegar mjög hrifinn af skýrslu Endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins og ég skora á þig Björn að lesa hana.  Enginn annar flokkur á Íslandi myndi gefa út slíka skýrslu þar sem mistökin eru viðurkennt og tekið á því sem fór úrskeiðis.  Leiðtogar flokksins eru ekki teknir neinum vettlingatökum og þætti Seðlabankans ekki heldur.  Engin vafi er í mínum huga að sú staðreynd að fyrrverandi forsætisráðherra réði þar ríkjum hafði alvarleg áhrif á málin.

Það voru menn sem brugðust en ekki stefna Sjálfstæðisflokksins.  Og alls ekki hægt að kenna frjálshyggju um.  Obama sagði á blaðamannafundi eftir fund G20 í gærkvöldi að lýðræði, auðhyggja og frjálshyggja væru bestu vopnin til að byggja upp almenn lífskjör í heiminum.  Hinsvegar getur frelsið farið út af sporinu og menn misst sig í framkvæmd, þó hugmyndafræðin sé í sjálfu sér góð.  Eins og önnur manna verk frjálshyggja eða auðhyggja (kapítalismi) ekki fullkomin.  Sem betur fer og Keynes sagði að það besta við auðhyggjuna væri hversu ófullkomin hún er.

Gunnar Þórðarson, 3.4.2009 kl. 07:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 285834

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband