Laxeldi á Vestfjörðum (Vesturland apríl 2017)

Mikil átök

Mikil átök eiga sér stað vegna áforma um stórfellt laxeldi á Vestfjörðum, enda eru hagsmunir margir og misjafnir. Fyrir Vestfirðinga er málið stórt á alla mælikvarða og binda íbúar miklar vonir við að eldisframleiðslan geti snúið vörn í sókn til framtíðar. Á sama tíma og Íslendingum hefur fjölgað umtalsvert síðustu áratugina fækkar Vestfirðingum árlega og ekkert lát virðist vera á þeirri þróun. Helsta ástæða þessa er einhæft atvinnulíf og yngra fólk leitar í fjölmennið til að auka tækifæri sín á vinnumarkaði. Sjávarútvegur er yfir helmingur af hagkerfi fjórðungsins og yfir 80% með tengdum greinum. Eftirfarandi dæmi útskýrir mikilvægi þess að renna fleiri stoðum undir vestfirskt atvinnulíf: Vegna sjómannaverkfalls drógust útsvarstekjur janúarmánaðar í Bolungarvík saman um 25% en á sama tíma jukust þær hjá Vesturbyggð um 9%. Engin vafi er á að umsvif eldisfyrirtækja í vestanverðum fjórðungnum hafa dregið úr mikilvægi sjávarútvegs á svæðinu.

Miklir hagsmunir Vestfirðinga

Miðað við þá hagsmuni sem eru í húfi er það sjálfsögð krafa íbúa Vestfjarða að umræða um uppbyggingu laxeldis verði málefnaleg og byggð á rökum. Andstæðingar laxeldis verða að gera sér grein fyrir þessum miklu hagsmunum og gera þarf kröfu til þeirra um að halda umræðunni innan faglegra marka. Frá árinu 1994 til 2011 fækkaði íbúum á Bíldudal um 45% og um 16% í Ísafjarðarbæ. Frá upphafi laxeldis hefur þessi þróun snúist við þar sem íbúum í Vesturbyggð fjölgaði um 9% fram til 2015, en áfram fækkaði í Ísafjarðarbæ um 9%. Viðsnúninginn á sunnanverðum Vestfjörðum má rekja beint til uppbyggingar í laxeldi. Miðað við bjartsýnisspár má gera ráð fyrir að næstu fimm árin verði allt að þúsund manns að vinna við laxeldi í fjórðungnum og um 400 manns við afleidd störf sem munu hafa mikil áhrif á verðmætasköpun og tekjur á Vestfjörðum.

Norskt laxeldi

Norðmenn framleiða um 1,3 milljónir tonna af laxi á ári og hefur framleiðslan tífaldast síðan 1970 sem er vöxtur um 8% ári. Um 28 þúsund manns starfa við greinina sem skilar um 640 milljörðum króna verðmæti ásamt um 320 milljörðum vegna afleiddrar starfsemi. Eldi er orðið mikilvægara en fiskveiðar og vinnsla ásamt því að skila umtalsvert dýrari afurð á markað. Nettó útflutningsverð á laxi er um 800 kr/kg en í sjávarútvegi er verðið innan við 300 kr/kg. Ef ekki kæmi til vandamál með laxalús er talið að framleiðsla Norðmanna gæti verið nokkrar milljónir tonna.

Laxeldi er hátæknigrein sem krefst margskonar sérfræðinga, ráðgjafa, vísinda- og tæknimanna. Ólíkt sjávarútvegi er mikið um undirverktaka við laxeldi, sem gefur mörgum tækifæri til að stofna sitt eigið fyrirtæki til að takast á við sérhæfð kefjandi störf. Greinin er því hátekjugrein og númer fimm í röðinni yfir hæstu laun á ársverk í Noregi og skilar um 43 milljónum króna að meðaltali á ári. Meðaltal atvinnugreina í Noregi eru 18 milljónir og til samanburðar skila fiskveiðar 14 milljónum króna á ársverk.

Áhættustýring

Nýleg reglugerð í Noregi hefur gjörbreytt stöðu við sleppingar úr eldiskvíum. En þó að lög og reglur séu ágæt hjálpartæki mun árangur aðeins nást með vilja og athöfnum eldisfyrirtækjanna. Segja má að staða íslenskra laxeldismanna sé einstök þar sem þeir standa í dag á núllpunkti og geta nýtt sér reynslu Norðmanna síðastliðna áratugi til að byggja upp umhverfisvænt laxeldi.

Skoða þarf alla virðiskeðjuna og gera sér grein fyrir kröfum markaðarins um sjálfbærni og umhverfismál, frá hrognum að fiski á diski neytandans. Ef íslensk eldisfyrirtæki gera þetta ekki munu þau ekki lifa af í samkeppni á markaði. Fyrirtækin verða að líta á sleppingar sem alvarlegan umhverfisvanda sem getur haft áhrif á villta laxastofna. Sleppingar eru slæmar fyrir viðskiptin og hafa mjög neikvæðar afleiðingar á orðspor. Eldisfyrirtækin þurfa að þekkja eldissvæðið og vakta það með reglubundnum hætti og nauðsynlegt er að gera áhættumat fyrir eldissvæði og kvíar og vera viðbúinn áföllum. Nota áhættumat, eftirlit og aðgerðaráætlun! Eldi er flókið fyrirbæri og því fylgir áhætta en mikil tækifæri eru til að takast á við þá áhættu og með réttum aðferðum. Eldisfyrirtæki þrífast ekki án góðs orðspors og munu umhverfismál, sjálfbærni og ábatasamt eldi fara saman hönd í hönd.

Laxeldi er umhverfisvæn matvælaframleiðsla

Eldi er nauðsynlegt til að framleiða prótein fyrir jarðarbúa og er mjög umhverfisvæn framleiðsla í samanburði við hefðbundin landbúnað. Kolefnisspor laxeldis er einungis 2,9 kg/CO2 á hvert neysluhæft kíló, en t.d. eru þetta 30 kg/CO2 í nautakjötsframleiðslu. Það þarf aðeins um 1,2 kg af fóðri fyrir lax til að framleiða kíló af afurð, sem býr við þyngdarleysi, á meðan nautið þarf um 10 kg. Ekkert pláss er fyrir stórfelda aukningu á hefðbundnum búskap enda ræktunarsvæði takmarkað. Eldi er hinsvegar stundað í þrívídd og þarf því miklu minna pláss.

Kynbætur og gelding

Kynbætur eldisfiska hafa að mestu snúist um að auka fóðurstuðul og vaxtarhraða. Vaxtarhraði hefur tvöfaldast á sjö kynslóðum og aðeins þarf um 1,2 kg af fóðri til að framleiða kíló af laxi. Upphaflega var hugmyndin með geldingu að seinka kynþroska og lækka kostnað við eldið. Mikilvægt er að seinka kynþroska þar sem mikið fóður fer í framleiðslu á kynfærum í staðin fyrir vöðva. Hér á landi hefur verið notast við háþrýsting við hrognaframleiðslu til að draga úr kynþroska seinna á eldisferlinum. Krafa framíðarinnar verður framleiðsla á ófrjóum laxi til að útiloka erfðablöndun við villta stofna og  tryggja hagsmuni náttúrunnar. Nýjustu aðferðir byggja á sameindaerfðafræði í laxakynbótum til að framleiða geldlax í eldiskvíum. Menn binda miklar vonir við sameindaerfðafræðilega aðferð (erfðamengja val) sem vonandi verður til þess að skapa meiri sátt um laxeldi í framtíðinni.

Varnir gegn sjúkdómum

Með auknu eldi eykst hætta á smitsjúkdómum í sjókvíum þar sem helstu áhrifaþættir eru þéttleiki í kvíum, umhverfisþættir, meðhöndlun fisks og almennt heilbrigði. Almenn dýravelferð verður æ fyrirferðameiri í umræðunni og er orðin rekstrarlegt fyrirbæri þar sem ekki næst árangur í eldi nema fiskinum líði vel. Til að draga úr smitdreifingu er fjarlægðardreifing eldisstöðva mikilvæg en smitsjúkdómar berast venjulega ekki lengri vegalengd í sjó en 2-3 km en fjarlægðarmörkin í dag á Vestfjörðum eru 5 km.

Tækifæri Vestfirðinga

Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið tæpt á ætti laxeldi á Vestfjörðum að vera vel innan áhættumarka. Um mjög spennandi atvinnugrein er að ræða sem gæti snúið íbúaþróun á Vestfjörðum við og gefið okkur tækifæri til sóknar. Fiskiðnaður er og verður mikilvægur í fjórðungnum en dugir ekki til að laða að ungt og vel menntað fólk og býður ekki upp á þau tækifæri sem vestfirskar byggðir þurfa til að blómstra. Ferðaþjónusta er vaxandi en mjög árstíðarbundin á Vestfjörðum og hefur ekki boðið upp á hálaunastörf. Laxeldið er einmitt það sem við þurfum til að snúa vörn í sókn.

„Transgourmet France“

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 71
  • Frá upphafi: 285822

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband