Áfengi og hamingnja

Áfengi

Ég hef ákveðið að hætta að drekka; um stundasakir! Hvers vegna? Ekki að þessi gleðigjafi sem áfengið getur verið hafi verið eitthvað vandamál, heldur er um heimspekilega spekúlasjón að ræða.

Hamingja

Þetta snýst allt um hamingju og hámarka hana eins og kostur er. Ég tel mig reyndar vera hamingjusaman em lengi má gott bæta. Hamingjan er nefnilega heimsálfa á meðan gleði, nautn og ánægja eru bara litlar eyjar eða tindar á leið manns um hamingjulandið. Inn á milli eru svo sorg og sút, svona skurðir og gil, sem einnig verða á leið mans. Án þeirra væri reyndar ekkert viðmið og erfitt að tala um hamingju ef óhamingja væri ekki til. Summa þessa alls ráða hamingjunni og því meira af því fyrrnefnda, eyjum og tindum, því líklegra að maður verði hamingjusamur.

Þá erum við komin að kjarna málsins! Áfengi getur verið mikill gleðigjafi, losað um spennu og fátt er betra en fá sér kaldan bjór eftir líkamleg átök eða fá sér rauðvínstár með elskunni sinni. Svo ekki sé talað um viskítár fyrir sálina. En áfengi fylgja vandamál, þó þau séu ekki félagsleg eða líkamleg hjá mér. Þekkt er að of mikil neysla getur spillt heilsu og margir eiga við mikil hegðunarvandamál að stríða vegna neyslunnar. Þó svo að ég standi ekki frammi fyrir slíkum vandamálum í dag þá vekur það forvitni mína hvort áfengi bæti líf mitt eða dragi úr lífsgæðum. Svo er það líka dýrt!

Efnafræði og boðefni

En málið er að við höfum innbyggt kerfi til að njóta tilfinninga eins og gleði, nautnar og ánægju, svo nokkuð sé upp talið. Heilinn býr yfir allskonar efnavirkni til að láta okkur líða vel, svokölluð boðefni. Við fáum adrenalín til að bregðast við hættu, dópamín til að örvunar og hvatningar, serótónín til að miðla málum og sættast, noradrenalín stendur fyrir kappakstur og hraða og hækkar blóðþrýsting og kemur í veg fyrir taugaáfall. Oxýtósín gerir okkur að einkvænisverum og veldur því að við sjáum ekki galla makans í allt að sjö ár; nógu lengi til að koma afkvæminu á legg og við fáum vellíðunartilfinningu þegar við höfum reynt mikið á okkur (endaorfin). Boðefnin veita okkur sælutilfinningar, munaðar og nautnar; hver kannast ekki við ástarbríminn þegar við erum ástfangin og svo ekki sé talað um samfarir. Sýnt hefur verið fram á að fólki líður vel þegar það gerir gott fyrir aðra og svo líður manni vel með sínum nánustu. Allir þekkja það þegar fjölskylda hittist yfir jólin hvaða vellíðunartilfinning það er að vera öll saman.

Heimsálfa hamingjunnar

En hamingja er heimsálfa og jólin geta ekki verið alltaf. Þetta er meira upp og niður en mikilvægt að samanlagt sé það gott. Þá er það spurningin; dugar heilinn til að sjá um þetta eða þurfum við hjálpartæki eins og áfengi? Um það snýst málið og ég lít á mig nú sem landkönnuð þar sem þetta er skoðað. En þá dugar ekki að ganga einn dal (eina viku) heldur þarf að fara lengri leið til að bera saman lífið með eða án áfengis. Það þarf nokkuð lengra tímabil en viku til að skera úr um það hvort heilinn, með sína efnaframleiðslu og tilfinningar geti séð betur um hamingjuna án utanaðkomandi hjálpar. Reyndar veldur súkkulaði unaði og spurningin hvort rétt er að halda því inni, svona í hófi.

Leiði ferðalag mitt til þess að samanburðurinn verður áfenginu í hag mun ég taka upp fyrri iðju. Að sjálfsögðu þar sem markmiðið er jú að auka hamingjuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Áhugaverður, umhugsunarverður og óvenjulegur pistill um tengsl efnafræði og hamingju.  Þetta er eiginlega grunnur að lífsstefnu.  Verst, að hamingjan er tormælanleg.  Spurning, hvaða mælikvarða þú ætlar að leggja á árangur breyttrar neyzlu ?  Er ekki summa lastanna konstant ?

Bjarni Jónsson, 11.1.2017 kl. 11:43

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Þú sérð eftir þessu vinur. Það eru nefnilega bara svo og svo margir laugardagar eftir sagði einn vinur minn við mig í Ríkinu þegar ösin var svo mikil að ég ætlað að gefast upp að bíða. Hann var dáinnsjálfur ekki löngu eftir þetta,

Halldór Jónsson, 11.1.2017 kl. 22:01

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Styð þig heilshugar í tilrauninni Gunni, þótt ég sé sammála því að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta. Ég hef verið laus undan þessu í 10ár, en ég hafði líka ríflegri mælikvarða á hóf en flestir.

Þegar maður fer yfir meðalhofið er maður farinn að taka gleðina út á kredit og þarf að borga til baka dagen derpå með vöxtum sem hækka í hlutfalli við aldur.

Þetta stopp skerðir ekki fábreytt félagslíf mitt og það truflar mig ekkert að sitja í góðra vina hóp sem dreypir á víni. Kosturinn er að ég veit nú hvenær er komið gott af gleðinni og tími til að kveðja. Nokkuð sem eg kunni ekki áður og var oftar en ekki síðasi maður heim. :)

Þú hefur allt að vinna og engu að tapa. :)

Jón Steinar Ragnarsson, 12.1.2017 kl. 22:17

4 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Kærar þakkir félagar fyrir athugasemdir ykkar. Jú það er rétt að hamingja er tormælanleg enda um huglæga rannsókn að ræða. Erfitt að setja tölu á þetta en þá þarf maður bara dálítið lengri tíma. Í raun er maður með á hreinu kostnaðinn, eiginlegan og óeiginlegan af áfengi.

Ein góð saga um hamingju: Ferðamaður á Grískri eyju rakst á sjómann sofandi í netunum um há-bjargræðistímann. En spurði hann af hverju hann væri ekki á sjó. Sjómaðurinn spurði hvers vegna hann ætti að vera á sjó. Ferðamaðurinn sagði til að þéna peninga. Til hvers spurði sjómaðurinn. Ef þú ert duglegur þá getur þú eignast bátinn, ráðið áhöfn og þénað pening og haft það gott í sólinni. Það er nákvæmlega það sem ég er að gera svaraði sjómaðurinn!

Gunnar Þórðarson, 13.1.2017 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 61
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband