Sunnudagur í Austurdal

 

ÁbæjarréttÞað er ekki lengi riðið frá Hildaseli niður að Ábæjarrétt til smölunar í Tinnárdal og Ábæjardal.  Þar var skipt liði þar sem Þórólfur og Siggi Hansen gættu hestastóðsins í réttinni en ritari reið upp Skálar til að smala Ábæjar- og Grjótdal við þriðja mann.

Töluverður bratti er upp á fjallið og þurfti að teyma hrosinn að hluta, en þegar upp á heiðina kom trylltist hesturinn.  Hér verður að taka tillit til þess að reiðmaðurinn var óttalegur fjörufúsi og þrátt fyrir „örugg" handtök á taumnum var ekki ráðið við Pegasus, en svo heitir hesturinn.  Í stöðunni virtist best að velja lendingastað og tókst það sæmilega en taumurinn rann úr hendi og Pegasus prjónaði yfir ritara og sparkaði síðan í kálfa hans.  Hrossið fór síðan á trylltu stökki niður fjallið, ausandi og slettandi afturendanum langt upp í loftið.  Hnakkurinn var kominn undir kviðin og dýrið orðið kolbrjálað.  Félagar mínir voru fljótir til mín en Pegasus var horfinn úr augsýn.  Töldu þeir víst að hann myndi skila sér niður í Ábæ og rétt að skakklappast af stað eftir Pegasus, haltur eftir sparkið.Hrossin sett í réttina

Hvergi bólaði á hrossinu á leið niður í Ábæjarrétt og þeir Þórólfur og Siggi höfðu ekki orðið varir við hann.  Þeir töldu víst að hnakkurinn hefði sigið aftur eftir baki hestsins þar til gjörðin fór á nárann, enda bratt riðið upp fjallið.  Gerist slíkt tryllast hrossin, en Pegasus þykir ekki hrekkjóttur hestur.  Ég skipti um stöðu við þá félaga en þeir ætluðu að litast um eftir hrossinu og hjálpa til við smölun í dalnum.  Fyrir mig var lítið annað að gera en setjast niður og bíða eftir smalamönnum úr Tinnárdal og trússbílunum úr Hildarseli.

Allt í einu var kyrrðin rofin af fjórum stórum jeppum sem stoppuðu norðan árinnar, og út stigu fjöldi manns, konur og karlar.  Flest hlaðin risastórum myndavélum sem voru, varlega áætlað, á annan metir á lengd.  Þau voru hissa á að rekast á þennan dalbúa þarna og tók nokkurn tíma að segja þeim undan og ofanaf því sem hér væri að gerast í  Austurdal.  Eftir skamma stund voru þau aftur á brott og ritari eftir, einn í heiminum með, hrossunum.

IMG_4960Allt í einu tók ritari eftir mórauðum díl upp undir fjallsbrún.  Gæti þetta verið Pegasus?  Ekki var hægt annað en láta á það reyna og haltra af stað á fjallið.  Þegar dró saman með fyrirbærinu var ljóst það þarna var hrossið komið í leitarnar.  Nú varð að beita ýtrustu varfærni til að fanga hann og taka stóran sveig upp fyrir hestinn og læðast rólega að honum ofanfrá.  Hafi ritari einhvern tíman verið stimamjúkur við eiginkonuna, þegar mikil hefur legið við, er það hjóm við hliðina á þeim silkimjúka tón sem Pegasus fékk.  Hann féll fyrir þessu og taumurinn var í hendi, en Pegasus trylltist um leið.  En fast var haldið og taumurinn ekki gefin eftir á meðan baslað var við að ná hnakkinum af prjónandi hestinum.  Það tókst að lokum og til að bæta skepnunni þetta allt upp var ákveðið að setja hnakkinn á öxlina og bera hann niður að Ábæjarrétt.

Foringinn kemur með trússiðÞað var langt liðið á dag þegar heyrðist í smalamönnum með féð úr Tinnárdal og í kjölfarið fylgdu trússbílarnir úr Hildarseli.  Það var hressandi að fá félagsskapinn og nú var sest niður til að njóta síðdegisverðar.  Upp úr mali ritara kom skötustappa sem gekk á milli manna og líkaði vel.  Skagfirðingar eru ekki vanir skötustöppu en kannski er nú búið að innleiða nýja menningu í Austurdal.

Áð við ÁbæjarréttSigurður Hansen kom nú ríðandi og taldi að Sigurgísli og Gunnar væru týndir, en þeir höfðu skilið hestana eftir í umsjón þeirra Þórólfs, og Þórólfur væri nú að leita þeirra upp í dal.  Fljótlega kom Gunnar gangandi norðan gilsins og lagði þá Sigurður frá Réttarholti af stað ríðandi til að upplýsa um misskilninginn og að þeir félagar væru ekki týndir, enda skilaði Sigurgísli sér fljótlega eftir þetta.Skötustappan er góð

Það var því ákveðið að halda á með safnið niður að Merkigili en ritari yrði eftir til að passa stóðið og bíða þeirra félaga.  Rökkrið seig yfir með kvöldinu og ekki sást til nokkurs mann á fjallinu.  Það var byrjað að vinda og síðan fór að rigna.  Það dimmdi hratt í þungbúnu veðrinu og einveran svarf að.  Ritari settist á hestinn, svona aðallega til að halda á sér hita, og reið upp á múlann ofan við kirkjugarðinn til að gæta að mannaferðum.  En ekki sást til nokkurs lifandi manns né hests og enn dimmdi, þar til ekki sást á milli augna (eins og konan á Langanesi sagði).

SíðdegisverðurEinhvern vegin var ég alveg rólegur í myrkrinu, enda gæti ekkert illt verið þarna á ferð.  Að vísu stutt í kirkjugarðinn en þar væru allir greftraðir eftir kúnstarinnar reglum og varla órói á gestum garðsins.  En ósköp varð ég feginn þegar ég heyrði til manna, og hrossa, þar sem smalafélagar komu loks ríðandi út úr myrkrinu.  Bæði að fá félagskapinn og eins að vita af þeim óhultum.

Nú var lagt af stað með stóðið niður dalinn, en ekki tókst að smala því fÁbæjarrétt og Stefánsstofaé sem fannst á þessu svæði.  Smalar höfðu lagt áherslu á að leita að „týndum" félögum sínum.  Það var komið niða myrkur og því urðu reiðmenn að treysta algjörlega á hestinum til að sjá fótum sínum forráð.  Annað slagið bar við eins og skugga, eða örlitla þúst í dimmunni, þar sem hestar úr rekstrar stóðinu brugðu fyrir.  Neistar skutust undan skeifum og mátti af þeim ráða hvar hrossin voru.  Annað slagið heyrðust köll í félögunum en orðaskil voru ekki numin, enda langt bil á milli reiðmanna.

ÁbæjarkirkjaÞarna er malarvegur og því leyndi sér ekki á hljóðinu þegar gatan var riðin.  Stundum tók hesturinn þó reiðslóða ofan við götuna og þá þagnaði allt nema laufléttir dynir í mold og mó.  Ekkert sást og lítið annað að gera en treysta hestinum, sem reið nokkuð greiðlega með stóðinu.Í myrkri og rigningu

Þegar komið var að girðingunni við Merkigil biðu bílarnir við hliðið.  Komið var slagviðri og þegar ljósin lýstu út í kolsvart myrkrið voru reiðmenn algerlega blindaðir.  Við þær aðstæður var riðið eftir lausum hestum til að koma þeim inn í girðinguna og þar reyndi á ýtrustu færni og kjark reiðmanna.  Einn smalinn flaug 15 metra fram af hestinum þegar hann féll í þýfðu landinu, en varð ekki meint af.

Myrkur að MerkigiliEn það hafðist að koma fé og hrossum í réttina og klukkan að verða ellefu þegar þreyttir smalar komu inn í hlýjuna að Merkigili.  Gestrisni heimamanna verður ekki oflofuð og hér svignuðu borð undan kræsingum, lambalæri, salat, rauðbeður, rauðkál, brúnaðar kartöflur, grænar baunir og sósa.  Við matarborðið spurði Stebbi ritar hvor hann hefði ekkert orðið var við Ábæjarskottu eða klofna manninn.  Uppglennt starandi augu mændu nú á Keldulandsbóndann, rétt eins og naut á nývirki.  Stebbi útskýrði að draugurinn Ábæjarskotta væri alþekktur og gerði mörgum skráveifur, aðallega í innanverðum Skagafirði.  Hún er sögð hafa drepið búsmala, hrætt fólk og jafnvel orðið einhverjum að bana.  Klofni maðurinn væri afturgengin eftir að vera höggvinn í herðar niður.  Nánast öruggt að rekast á annað hvort þeirra í myrkri við Ábæ.  Alla vegaHvíld og kaffi ef menn væru einir á ferð! 

Það rann kalt vatn milli skinns og hörunds ritara sem nú furðaði sig á óttaleysinu fyrr um kvöldið.  Svona geta menn verið vitlausir, verið í stór hættu og ekki haft hugmynd um það.  Kannski var það einmitt heimskan og vitleysan sem varnaði því að rekast á þessi óbermi.  Sá sem ekki á von á draugum hittir þá örugglega ekki því þeir koma sjaldnast að óvörum.

 

Mínir vinir fara fjöld,

feigðin þessa heimtar köld,

ég kem eftir, kannski í kvöld,

með klofinn hjálm og rifinn skjöld,

brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

Bólu Hjálmar

Hvíld og kaffiEftir matinn var boðið upp á kaffi með slettu af íslensku brennivín út í.  Það var kominn notalegur höfgi yfir ritara og Ábæjarskotta gleymd í bili.  Það var ekki löng leið upp á loft í hvíldarstað næturinnar, þar sem þreyta dagsins myndi líða úr þreyttum beinum eftir erfiðan en skemmtilegan dag. 

 

Kaffitár
yljar vel
bæði sál
og hjarta.

Allt það gerir
einhvern veginn
ofurlítið
betra

Björt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband