10.3.2007 | 10:41
Erotic og kvenréttindi


Klámaldan ríður yfir okkur Íslendinga þessa daganna. Ég er fullur iðrunar yfir þeim kvöldstundum á Hótel Sögu þegar maður kveikti á bláu myndinni sem boðið hefur verið upp á síðan 1986 á herbergjum þess. Ég áttaði mig ekki á þeim hryllilega glæp sem ég var að fremja. En ég væri reyndar ekki hissa þó hægt væri að sjá fólkið, sem Bændasamtökin (eigendur Hótels Sögu) meinuðu aðgangi að hótelinu á dögunum, með því að kveikja á bláu rásinni í sjónvarpinu. Góð hugmynd fyrir blygðunarlausa Íslendinga sem vilja sá hvernig þessar hræðilegu klámstjörnur líta út.
Í fullri alvöru þá var þessi uppákoma ein af þeim sem fær mig til að skammast mín fyrir land og þjóð. Að málið skyldi ná til Alþingis og vera rætt þar á þeim nótum að alþingismenn teldu sig þurfa að verja svartan almúgann fyrir þessu ,,hræðilega" fólki.
Á svipstundu var blandað saman erótík, klámi, barnaníðingum, nauðgurum og öllu því sem mögulegt er að tengja við kynlíf. Þetta er auðvitað fáránlegur málflutningur og eins hægt að blanda tísku, snyrtivörum og ástarsögum inn í málið, sem tengjast kynlífi sterkum böndum. Nú er farið að blanda jafnréttisbaráttu kynjanna inn í umræðu um klám, sem ég skil ekki því þær myndir sem ég haf séð voru bæði með karla og konur.
Ég vil taka því fram að ég er einharður jafnréttissinni. Ég get ekki verið annað trúandi á frelsið. Það samrýmist ekki hugsjónum frjálshyggjumanna að karlmenn undiroki konur, sem þeir hafa vissulega gert í gegnum tíðina. Hinsvegar hef ég enga trú á boðum og bönnum með lagasetningum í málinu. Setja kynjakvóta sem geta aldrei annað en valdið miklum vandamálum og gert fólk afhuga því sem raunverulega skiptir máli. Að það takist að breyta hugafarinu í samfélaginu þannig að konur hafi sömu tækifæri og karlar.
Fæðingarorlof okkar Íslendinga er einstakt í veröldinni og mun verða öðrum þjóðum til eftirbreytni. Megin markmiðin með lögum um feðraorlof er að jafna aðstöðu kynja til starfsframa og styrkja fjölskylduna í samfélaginu. Ef karlar taka sér fæðingarorlof munu vinnuveitendur hætta að líta á vandamálið í tengslu við konur. Að það verði ekki bundið við konur að þurfa að hætta vinnu tímabundið til að eiga börn. Karlarnir munu gera það líka þannig að þessi aðstöðumunur, sem er ein af megin orsökum þess að konur eiga undir högg að sækja á vinnumarkaði, mun hverfa. Hinsvegar er mikilvægt að karlmenn nýti sér þennan rétt og á réttan hátt. Noti þann tíma sem þeir eru í fæðingarorlofi til að vera með börnum sínum. Gefa barninu tækifæri til að alast upp með báðum foreldrum og sinna þessu mikilvægasta hlutverki mannsins, að koma erfðarefninu áfram.
Ég hafna þeirri fyrirhyggju sem kristallast í umræðu sumra femínista um þessi mál. Ég hafna því að nauðsynlegt sé að setja fleiri lög um þessi mál og tel viðhorfsbreytingu hjá almenningi vera réttu lausnina. Þó hún sé hægfara hefur það gefið góða raun hingað til en miklar breytingar hafa átt sér stað á undanförnum árum.
Ég hafna fyrirhyggju þeirra stjórnmálamanna sem vilja setja lög um alla skapaða hluti. Ég hafna því að lögjafarsamkunda þjóðarinnar sé notuð til siðvenda þjóðina. Það er algjör óþarfi. Við setjum lög um það sem nauðsynlegt er til að halda uppi lögum og reglum og treystum síðan gildismati þjóðarinnar fyrir siðferðilegar ákvörðunartökur. Þjóðin þarf ekki leiðbeiningar um það frá Austurvelli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.3.2007 kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Á þessu ári eru 70. ár liðin frá útgáfu Almennu kenningarinnar um atvinnu,vexti og peninga.
Bókin hafði mikil áhrif og höfundurinn , hagfræðingurinn John Maynard Keynes, hefur verið talin einn af áhrifamestu einstaklingum síðustu aldar.
John Mayn Keynes fæddist í Cambridge á Englandi 1883, sonur hagfræðings og prófessors við Cambridge háskóla, John Neville Keynes. Hann fékk fyrsta flokks menntun frá Eton og Cambridge en áhugamálin spönnuðu vítt svið. Hann féll illa að staðlaðri fyrirmynd hagfræðinga samtímans enda margt sem fangaði huga hans, t.d. listir, en hann gekk undir gælunafninu ,,listvinurinn" meðal samnemanda sinna í Eton og Cambride. Sem ungur maður stundaði hann embættismannastörf fyrir bresk yfirvöld, m.a. hjá landstjóranum á Indlandi. Hann var snjall fjármálamaður enda var hann vel efnum búinn þegar hann lést árið 1946..
Hann var mikilvirkur í listalífi Lundúna, og í vinfengi við marga þekktustu listamenn landsins í gegnum svokallaðan Bloomsburry hóp. Þar kynntist hann meðal annars Virginíu Wolf, George Bernhard Shaw og Duncan Grant listmálara en við hann átti Keynes í ástarsambandi framan af ævi.
Þegar heimsstyrjöldin fyrri skall á var hann kallaður til starfa hjá breska fjármálaráðuneytinu sem tryggði honum stöðu í nefnd sem fór til Parísar til að ganga frá Versalasamningunum við uppgjöf Þjóðverja eftir fyrri heimstyrjöldina. Eftir heimkomu þaðan gagnrýndi hann einstrengingslegar kröfur sigurvegaranna, Frakka, Breta og Bandaríkjamanna, og varaði við gríðarlegum stríðsskaðabótum sem Þjóðverjum var gert að greiða. Hann taldi að þær myndu einungis ýta undir ofstæki og skapa jarðveg fyrir öfgahópa. Hann gerði friðarsamningunum skil í bók sem hann nefndi ,,Hinir hagrænu afleiðingar friðar" og eftir seinni heimstyrjöldina voru viðvaranir Keynes hafðar að leiðarljósi við uppgjöf Þjóðverja.
Eftir seinni heimstyrjöldina var hann formaður bresku sendinefndarinnar á ráðstefnu í Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum, þar sem Alþjóða gjaldeyrisjóðurinn og Alþjóðabankinn voru stofnaðir. Á ráðstefnunni var gerður sáttmáli um að auka milliríkjaverslun með því að draga úr viðskiptahindrunum landa á milli, en til að það tækist varð að draga úr verndarstefnu ríkja milli ríkja.
Í ræðu sem Keynes flutti á Breska þinginu í desember 1945, hálfu ári áður en hann lést, sagði hann eftirfarandi um Bretton Woods samkomulagið:
,,tillögur varðandi gjaldmiðla og viðskipti eru miðaðar við að halda jafnvægi, með því að leyfa ýmsar verndarráðstafanir þegar þeirra er þörf og banna þær, þegar þeirra er ekki þörf. Það sem einkennir þessar fyrirætlanir er að tengja saman helstu kosti verslunarfrelsis við óheillavænlegar afleiðingar laissez-faire. Enda tekur það ekki beinlínis tillit til varðveislu jafnvægis og treystir einvörðungu á ferli blindra afla. Hér er því um tilraun að ræða þar sem við notum það sem við höfum lært af reynslu samtíðarinnar og skilgreiningu nútímans, en ekki til að hnekkja heldur til að efla visku Adams Smiths"[1].
Það er þó fyrir bókina ,,Almennu kenningarinnar um atvinnu vexti og peninga" sem Keynes verður fyrst og fremst minnst. Bókin hefur oft verið kölluð upphaf þjóðhagfræði en þar leit höfundur yfir heildarsviðið, allt hagkerfið, í stað þess að einblína á einstakar atvinnugreinar, fyrirtæki eða heimili við útskýringar á virkni hagkerfisins.
Bókin sem kom út í skugga kreppunnar miklu sem í kjölfar verðfallsins á Wall Street 1929 setti hagkerfi heimsins á hliðina. Í kjölfar kreppunnar fylgdi óskaplegt atvinnuleysi sem olli sárri fátækt í Bandaríkjunum og víðar á vesturlöndum. Á þessum tíma þekktust atvinnuleysisbætur ekki og kröppum kjörum alþýðu fylgdi mikil ólga þar sem öfgafullum stjórnmálaöflum óx fiskur um hrygg.
Klassískir hagfræðingar (Íhaldsmenn) höfðu boðað afskiptaleysi stjórnavalda, ,,laissez fair", allt frá dögum Adam Smith og vildu margir kenna ófullkomnleika þeirrar stefnu um kreppuna og getuleysi (viljaleysi) stjórnvalda til að taka á málum. Í framhaldi af verðfallinu 1929 varð sjóðþurrð hjá bönkum sem olli mikilli skelfingu og fólk þyrptist í banka til að taka út peninga. Þetta var fyrir þá tíð að seðlabankar tryggðu bönkum ávallt nægilegt fjármagn til að greiða út innistæður.
Þrátt fyrir að Keynes teldi sig tilheyra borgarastéttinni og aðhylltist auðhyggju (kapítalisma) taldi hann að frjálshyggjan hefði siglt í strand og aðferðir Íhaldsmanna dygðu ekki til að koma efnahagskerfinu upp á sporið að nýju. Hann taldi sig reyndar vera að bjarga auðhyggjunni með hugmyndum sínum, en gagnrýni hans á ríkjandi stefnu, frjálshyggju og afskiptaleysi ,,laissez fair", var hörð og óvægin.
Hann trúði því að með aðgerðum sínum gætu stjórnvöld komið hjólum efnahagslífsins á stað aftur og benti sérstaklega á vangetu Íhaldsmanna til að leysa atvinnuleysi og gagnrýndi hugmyndir þeirra um að hagkerfið væri ávallt í jafnvægi á fullum afköstum, sem það taldi Keynes að gæti alls ekki staðist.
Keynes hélt því fram að laun breyttust með öðrum hætti en vörur vegna hugmynda launþega um réttlæti og með samtakamætti og stéttaátökum kæmu þeir í veg fyrir launalækkun. Hinsvegar með því að ríkið auki framkvæmdir og umsvif sín í hagkerfinu og bæti við peningamagni í umferð, valdi það verðbólgu sem lækki raunlaun og fyrirtæki sjái sér hag í að ráða fólk í vinnu. Þannig að framleiðsla eykst með minkandi atvinnuleysi og einnig valdi þessi innspýting ríkisins inn í hagkerfið aukinni bjartsýni á framtíðina sem auki fjárfestingu og auki hagvöxt. Sérstaklega eigi þetta við á krepputímum en afskiptaleysi stjórnvalda á slíkum óvissutímum sýni aðeins hversu máttvana klassísk hagfræði er til að takast á við slíkan vanda. Það var meðal annars haft eftir honum að það gæti borgað sig fyrir ríkið að láta verkamenn moka skurði og síðan fylla þá upp aftur.
Segja má að í þessu kristallist ágreiningur Keynes við klassíska hagfræðinga, sem höfnuðu pólitísku inngripi í hagkerfið og vildu láta markaðinn leysa hagfræðileg mál. Keynes aftur á móti vildi nota auðhyggjuna eftirspurnarmegin í hagkerfinu (gefa fyrirtækjum gott svigrúm) til að framleiða á sem hagkvæmasta hátt, en pólitík til að dreifa afrakstrinum framboðsmegin (ríkið auki hlutdeild sína í hagkerfinu) þar sem gæðunum er útdeilt.
En Keynes vildi ganga lengra og lagði til ,,félagslega fjárfestingu" þar sem ríkið ætti að auka hlutdeild sína í hagkerfinu með beinum fjárfestingum í atvinnulífinu . Hann taldi sig ekki vera að leggja til sósíalisma með þessu heldur væri þetta eina leiðin til að koma á jafnvægi fullrar atvinnu og hámarks framleiðslu, sem hann taldi frjálshyggjuna ófært um að gera.
Bók Keynes um Almennu kenninguna hafði mikil áhrif í heimi hagfræðinnar og á hið pólitíska andrúmsloft. Margt af því sem þar kemur fram hefur eflaust hljómað vel í eyrum stjórnmálamanna eins og réttlæting á peningaprentun, aukinni skattlagningu og áhrif stjórnmálamanna á framboðshlið hagkerfisins. Einnig eru viðbrögð klassískra hagfræðinga, en hugmyndir þeirra höfðu verið ráðandi á vesturlöndum um langt skeið skiljanleg. Bókin réðst harkalega að kenningum frjálshyggjumanna og dregur þá oft sundur og saman af háði enda textinn einharður og miskunnarlaus.
Margar þjóðir vesturlanda tóku upp hugmyndafræði Keynes til að leysa kreppu og í kjölfarið fylgdi mesta hagvaxtarskeið mannkynssögunnar. Margir voru hinsvegar til að gagnrýna þessar kenningar og fór þar félagi og samtímamaður hans austurríkismaðurinn Fredrik Ágúst von Hayak einna fremstur í flokki. Einnig deildi Milton Friedman prófessor við Chicago háskólann ákaft á kenningar Keynes, en hann hafði aðra skýringu á kreppunni miklu sem hann skýrði með mistökum seðlabanka Bandaríkjanna að tryggja ekki bönkum fé og skorti á peningum í umferð. Á sama hátt varaði hann við lausbeislaðri peningamálastefnu og auknum ríkisafskiptum sem leiða myndu til verðbólgu og skuldasöfnunar ríkissjóðs. Aðrir kennismiðir í anda Keynes höfðu fundið út að hægt væri að auka atvinnu (minnka atvinnuleysi) með því að auka verðbólgu aðeins og komin var töfraformúla til að auka hagvöxt og velsæld í heiminum.
Í lok sjötta áratugarins voru vesturlönd komin í þrot þar sem bæði verðbólga og atvinnuleysi fóru úr böndunum ásamt meiri viðskiptahalla en áður hafði þekkst. Keynes lifði ekki þessa daga en margir hafa bent á að ósanngjarnt sé að gera kenningar hans að blóraböggli í því máli. Það varð þó til þess að íhaldsmenn náðu aftur vindi í segl sín og nýjir tímar tóku við með Thatcher og Reegan. Í dag má segja að ríkjandi kenningar í hagfræði séu Ný- Keynesismi og Ný - klassísk. Þó nefna megi Peningastefnu (Monetarisma) með Milton Friedman í fararbroddi.
Gunnar Þórðarson og Indriði Indriðason
[1] ,The balance of Payments of the United States",The Economic journal, Vol.LVI.júni 1946,bls 185-186. þýðing Haraldur Jóhannsson í Heimskreppa og Heimsviðskipti (1975)
10.3.2007 | 08:56
Frelsið

Sjálfstæðismenn þurfa að verja frelsið. Flokkurinn byggir á hugyndum um einstaklinginn og frelsi hans. Í stefnuskrá flokksins segir m.a. "Svigrúm og athafnafrelsi fólks og fyrirtækja verður best tryggt með lágmarksafskiptum hins opinbera,, Þetta er kjarni málsins.
Það eru sterk öfl sem vilja ganga hina leiðina. Gegn frelsinu þar sem forsjárhyggjan ræður ríkjum og stjórmálamaðurinn telur sig vera betur til þess fallin að taka ákvarðanir en einstaklingurinn. Að vísu hefur stjórn undir forystu sjálfstæðismanna gengið töluvert gegn þessu með breytingum á regluverki og einkavæðingu, og árangurinn lætur ekki á sér standa.
En miklu meira þarf til. Við sjálfstæðismenn þurfum að skoða ræturnar og fyrir hvað við stöndum. Átta okkur á því að ásamt öðrum vesturlandabúum og stórum hluta Asíuríkja, höfum við byggt upp velmegun sem aldrei fyrr hefur þekkst í sögum mannkyns. Við höfum byggt þessa velmegun með auðhyggju (kapítalmisma), frjálshyggju (frelsi einstaklingsins) og afskiptaleysi stjórnmálamanna (laissez fair)
Þetta eru hugmyndir íhaldsmanna (þíðing úr Classical Economies) sem Sjálfstæðisflokkurinn er einmitt reystur á.
En hvað með það? Hvað ber okkur að gera sem sjálfstæðismenn sem vilja frelsi með lágamarks afskiptum hins opinbera?
Við skulum byrja á að viðurkenna hverjir við erum og fyrir hvað við stöndum. Berjast gegn hverskonar leitni stjórnmálamanna til að svifta okkur frelsi með forsjárhyggju. Reysum við hugmyndir eins og auð- og frjálshyggja sem misvitrir stjórmálamenn, jafnvel úr okkar eigin röðum, hafa úthrópað.
Málið er að ef sjálfstæðismenn berjast ekki gegn forsjárhyggjunni þá mun engin gera það. Við eigum einnig að berjast fyrir því að einstaklingar beri sjálfir ábyrgð á sér. Það eru ótrúlega sterk öfl sem vinna á hinn vegin í dag og nauðsynlegt að spyrna við fótum. Það eiga sjálfstæðismenn að gera. Látið ekki slá ryki í augu ykkar með fullyrðingum um innan íhaldsstefnunnar felist alger miskipting og þar sé ekki gert ráð fyrir öryggisnetum fyrir þá sem minna mega sín.
Sameinumst um að viðhalda frelsinu og höfnum forsjárhyggjunni. Berjumst fyrir því sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir, óhikað og grímulaust. Krefjumst þess að einstaklingar hafi frelsi til orðs og athafna og beri jafnframt ábyrgð á eigin lífi.
7.3.2007 | 12:43
Trukkar í ESB
Það er alltaf jafn slæmt þegar menn hafa fundið sannleikann og eiga ekkert eftir nema að sýna fram á hann. Slíkir menn lenda oft í ógöngum enda kynna þeir sér ekki málin áður en vaðið er af stað og láta gamminn geysa.
Bæjarstjórinn í Bolungarvík skrifar á heimasíðu sína grein undir nafninu ,,Bóklærð frjálshyggja úr tengslum við raunveruleikann" Ekki skýrist nafnið af innihaldinu en efnið ber keim af vanþekkingu og væri kannski gott að kíkja svolítið í bækurnar.
Ekki má rugla saman átaki ESB í að leysa gríðarlegan umferðarvanda á vegum Evrópu og byggðamálum. Með stækkandi Evrópusambandi í austur hafa nýir markaðir opnast og enn aukist umferðin þaðan til markaðsvæða í vestri. Sérstaklega er vandinn mikill í kringum Alpana, norður Ítalíu og suður Bretlandi. Á sama tíma hefur notkun einkabílsins stóraukist og er orðin nokkurskonar frelsistákn nútímamannsins.
Eitt mikilvægasta atriðið í þessu vandamáli er að láta þá borga sem valda kostnaði. Svisslendingar tóku upp háa gjaldtöku á flutningabíla sem fara um þeirra vegi, rúmlega það sem þeir valda, og nota afganginn í eitt mesta samgöngumannvirki álfunnar sem eru lestargöng undir Alpana. Þjóðverjar hafa tekið upp GPS tækni til að láta flutningabíla greiða mismunandi gjald eftir því hvar þeir eru og hversu miklum kostnaði þeir valda. Vandamálið er að vita hver kostnaðurinn er og hvernig á að láta greiða fyrir hann.
Í Hvítbók, stefnumótun ESB í samgöngumálum, er talað um að stefna að gjaldtöku miðað við jaðarkostnað. Þetta er hagfræðilegt skilgreiningaratriði og örugglega bara fyrir bóklærða frjálshyggju menn að meðtaka. En hugmyndin á bak við jaðarkostnað er að hver greiði þann þjóðhagslega kostnað sem hann veldur. Þetta hefur ekki virkað vel hingað til þar sem ekki hefur verið innheimtur kostnaður vegna mengunar, slysa og örtraðar. Svokallaðs yrtir kostnaðar.
Ef hægt verður að finna aðferð til að meta ytri kostnað og síðan að innheimta hann munu flutningaleiðir og umferðarmannvirki hafa þær tekjur sem þjóðhagslegur kostnaður við rekstur þeirra er. Slíkt er ekki uppi á teningnum í ESB miðað við þær rannsóknir sem hafa verið gerðar. Umferð á vegum er ekki að greiða það sem henni ber en sjóflutningar að greiða rúmlega það sem þeim ber. Slíkt réttlætir Marco Polo áætlunina sem er styrktaáætlun til að ná fram stefnu samkvæmt Hvítbók.
Ein af afleiðingum jaðarkostnaðar reglunnar er að kostnaður við akstur í þéttbýli mun hækka mikið en lækka í dreifbýli. Bent er á röksemdum Framkvæmdastjórnar ESB að það geti nýst jaðarsvæðum vel og lækkað flutningkostnað þeirra.
Á Íslandi er gjaldtakan hærri og séu þessar rannsóknir staðfærðar á okkar aðstæður má ætla að umferð sé að greiða þann kostnað sem til fellur.
Hvítbók er stefnumótun ESB til ársins 2012 og þar eru sett tímamörk á aðildarríki í Evrópsku efnahagsvæði, sem Ísland er aðili að, að reglur um jaðarkostnað verði komnar á fyrir árslok 2008 og gjaldtaka taki mið af þjóðhagslegum kostnaði fyrir árið 2012.
Það er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmt að þeir greiði sem valda en niðurgreiðslur á einni flutningagrein umfram aðra dregur úr skilvirkni. Ef flutningskostnaður með skipum er hagkvæmur mun hann verða notaður. Sérstaklega eftir að nýjar reglur taka gildi.
Hróp og köll eins og Grímur notar er ekki gott innlegg í þessa umræðu og varla getur hann verið óssáttur við hlut síns bæjarfélags í samgöngu áætlun.
Það er alltaf einfalt að kalla eftir ríkisstyrkjum og lenska þeirra sem lengst eru frá frjálshyggju. Það mun ekki leysa vanda okkar Vestfirðinga en tækifærin liggja í bættum samgöngumannvirkjum og þeirri byltingu sem er að verða í vegamálum fjórðungsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.3.2007 kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2007 | 18:53
Samgönguhagfræði
Samgöngur eru eitt af stóru málunum í pólitík landsmanna og mikið tekist á um þennan fyrirferðamikla málaflokk. Það eina sem landsmenn eru t.d. sammála um í vegasamgöngum er að engin er ánægður með sinn hlut þegar kemur að uppbyggingu umferðarmannvirkja og telja sig hlunnfarna af stjórnvöldum. Það er einna helst að íbúar á norðanverðum Vestfjörðum séu ánægðir, en þó alls ekki allir. Ef marka má ummæli og skrif málsmetandi manna á svæðinu er alls ekki nóg gert fyrir þessi tæplega tvö prósent þjóðarinnar. Öðrum landsmönnum vex í augum þessar miklu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á næstu tveimur árum samkvæmt fyrirliggjandi samgönguáætlun, sem eru upp á rúmlega fjóra milljarða króna.
Þegar taka þarf ákvörðun um hvar eigi að fjárfesta í umferðamannvirkjum er tekið tillit til hagkvæmni, það er að segja hversu miklu hagræði væntanlegar framkvæmdi skila, og ekki síður réttlætis. Auðvelt er að reikna út hagræði og nánast hægt með góðum forsendum að setja inn í Excel og reikna út niðurstöðu. Venjulega myndu framkvæmdir þar sem flestir íbúar búa og mest umferðin er vera hagstæðastar. Réttlæti er hinsvegar viðfangsefni pólitíkur og er miklu flóknari. Réttlæti og sanngirni eru mjög háð gildismati og erfitt að höndla og útilokað að reikna út í töflureikni.
Það sama er uppi á teningnum þegar tekið er gjald fyrir notkun samgöngumannvirkja. Skilvirkast er að láta alla notendur greiða gjald sem dugar fyrir þeim kostnaði sem þeir valda. En hver er sá kostnaður og hvernig verður hann til?
Í dag er mikið talað um innri og ytri kostnað mannvirkja ásamt föstum og breytilegum. Látum þá síðarnefndu sæta afgangi og skoðum aðeins þá fyrri, innri- og ytri kostnað.
Innri kostnaður er m.a. uppbygging og rekstur umferðamannvirkja. Á síðasta ári nam sá kostnaður um 12 milljörðum króna. Ytri kostnaður er hinsvegar óbeinn og er ekki tengdur því og fellur til óháð því hver notar vegina. Þetta er kostnaður sem verður vegna loftslagsbreytinga (gróðurhúsalofttegundir), mengunar (staðbundin mengun), hljóðmengunar, slysa og vegna umferðateppu.
Ef við skoðum þetta aðeins betur þá sjáum við að innri kostnaður verður mun meiri í dreifbýli þar sem færri bílar bera kostnað við fjárfestingu og viðhald. Viðhald er nefnilega ekki bara af umferðinni heldur er verulegur hluti hennar vegna veðrunar, sem er óháð notkun. Hinsvegar verður ytri kostnaður mun meiri í þéttbýli, því fyrir utan loftslagsbreytingar, sem eru óháðar staðsetningu, er kostnaður vegna mengunar, slysa og umferðateppu miklu hærri.
Í rauninni má segja að flutningabíll sem leggur af stað frá Reykjavík er að valda miklum ytri kostnaði í upphafi ferðar. Hann veldur íbúum höfuðborgarinnar kostnaði í formi reyks og svifryks ásamt slysahættu og töfum vegna umferðarteppu. Hinsvegar er innri kostnaður lágur enda mikil umferð að greiða niður fjárfestingar og viðhald mannvirkja. Þegar bíllinn er kominn upp á Kjalarnes fer ytri kostnaður hríðlækkandi en sá innri stig hækkandi. Við komuna í Djúpið þar sem innan við hundrað bílar aka daglega er ytri kostnaður mjög lágur. Ekki er líklegt að bændur í Ísafjarðardjúpi pirri sig á reyk eða hávaða og í lítilli umferð er slysahætta yfirleitt minni og umferðarteppa engin. Innri kostnaður hefur hinsvegar rokið upp úr öllu valdi.
Í umræðum um þessi mál er mikið talað um að láta þann borga sem notar en eins og að framan greinir er það ekki auðvelt mál að verðleggja með þeim hætti. Í Evrópusambandinu er þegar farið að nota GPS tækni til að láta flutningabíla borga mismunandi verð eftir því hvar þeir eru og eins er farið að greiða sérstakt gjald fyrir akstur í stórborgum, t.d. Stokkhólmi og London. Í Evrópusambandinu hafa rannsóknir sýnt að bílaumferð er ekki að greiða þann kostnað sem hún veldur, þ.e.a.s. samanlagt innri- og ytri kostnað.
Ef niðurstöður þessara rannsókna eru heimfærðar upp á Ísland virðist þó annað vera upp á teningnum. Umferð hér á landi er að greiða um 25 milljarða á ári til ríkisins en samfélagslegur kostnaður Íslendinga er nokkurn vegin sama upphæð. Þetta kemur til af því að hér á landi eru bifreiðaeigendur að greiða mun hærri gjöld en nágrannar okkar í Evrópusambandinu. Þessi gjöld eru í formi olíu- og bensíngjalds ásamt innflutnings- og bifreiðagjöldum. Þar sem olíu- bensíngjald, sem er uppstaða af greiðslu fyrir notkun, er háð því hversu mikið er ekið virðist því vera um nokkuð skilvirka aðferð að ræða hér á landi. Innheimtan er einnig réttlát þar sem þeir greiða sem nota.
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
-
astromix
-
ekg
-
stefanbjarnason
-
golli
-
vikari
-
gunnarpetur
-
vestfirdir
-
gudni-is
-
ea
-
ladyelin
-
gp
-
altice
-
hjolaferd
-
kaffi
-
komediuleikhusid
-
rabelai
-
ziggi
-
huldumenn
-
helgi-sigmunds
-
sigrunzanz
-
hordurhalldorsson
-
baldher
-
hjaltisig
-
lotta
-
kjarri
-
bjarnimax
-
jovinsson
-
smjattpatti
-
eirmor
-
vefritid
-
saemi7
-
siggisig
-
maggij
-
lehamzdr
-
contact
-
gauisig
-
jonvalurjensson
-
thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 287350
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar