Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins

Einar og Sigrún

Ráðherrar Sjálfstæðismanna

Þetta voru afskaplega góðar fréttir úr Valhöll. Tvennt stendur nú uppúr í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Björn Bjarnason heldur embætti sínu sem dómsmálaráðherra sem hann á rækilega skilið. Varla verður stjórnin kölluð ,,Baugstjórn" úr þessu.

Það sem mestu máli skiptir þó er að Bolvíkingurinn Einar Kristinn verður áfram sjávarútvegsráðherra og gott betur þar sem landbúnaðinum er bætt við. Það eru frábærar fréttir fyrir Vestfirðinga. Einar fær þá tækifæri til að halda á með gott starf í Sjávarútvegsráðuneytinu og tryggja stöðuleika í greininni og gera henni kleift að þróast sem alvöru atvinnugrein.

Bloggari óttast að vísu að Einar hafi ekið of oft í gegnum Dalasýsluna og Skagafjörðinn til að taka til í landbúnaðarkerfinu. En samgleðst vini sínum forfrömunin og sendi allar bestu óskir honum til handa í vandasömu starfi. Vonandi mun hann líta sömu augum á landbúnað og sjávarútveg með nauðsyn þess að greinin geti þróast sem alvöru atvinnugrein öllum Íslendingum til heilla.

Það eru góðir tímar framundan hjá Íslendingum.


Kvótakerfið

  Páll Pálsson ÍS 102

Kvótakerfið er enn og aftur komið í umræðuna og nú vegna atburða á Flateyri. Það er ekkert skrýtið við hörð viðbrögð fólks vegna þessa máls enda áfallið verulegt. En það er töluvert mikil einföldun að kenna kvótakerfi um þá atburðarás sem hófst seinnipartinn í síðustu viku.

Þegar umræðan var á Alþingi um kvótakerfið á seinni hluta sjöunda áratugar síðustu aldar og fram að setningu kvótalaga 1984, var rekstrarafkoma útgerðar og viðvarandi tap höfuð vandamálið. Engin fiskveiðiarður var af mikilvægustu atvinnugrein Íslendinga sem þá hélt uppi um 14% af vergri þjóðarframleiðslu. Ástæðan fyrir afkomu greinarinnar var fyrst og fremst ofveiði og of stór fiskveiðifloti og ljóst að takmarka þyrfti veiðarnar með einum eða öðru hætti.

Kvótakerfið var því sett á til að auka hagkvæmni í greininni en ekki sem friðunarráðstöfun í sjálfu sér. Reyndin var sú að eftir setningu kvótakerfisins var leyfð veiði umtalsvert meiri en ráðgjöf Hafró í þorski. Vandamálið blasti við í allt of stórum flota til að veiða það magn sem stofninn þoldi.

Það þarf ekki að undra að Vestfirðingar sem mest höfðu þá bætt við sig í veiði og sátu vel að fiskimiðunum börðust á móti kvótasetningu á meðan Austfirðingar vildu koma kerfinu á enda staðan önnur hjá þeim. Í umræðunni um kvótann toguðust á sjónarmið hagkvæmni og réttlætis. Flestir voru sammála um að kerfið myndi verða hagkvæmt en margir töldu það verða óréttlátt. Annars vegar er um að ræða hagfræði sem auðveldlega er hægt að reikna út og hinsvegar málefni stjórnmálanna, réttlætið.

Allar götur síðan hefur verið reynt að auka ,,réttlæti" í kvótakerfinu, sem oftar en ekki hefur snúist upp í andhverfu sína og valdið miklu óréttlæti. Trillukvóti, línutvöföldun, línuívilnun, byggðarkvóti og hvað þetta heitir nú allt saman. Málið er að takmörkun verður alltaf erfið, en hún er lífspursmál. Ekki þarf mikla hagfræðikunnáttu til að sjá að dagróðrakerfi er algerlega vonlaust þegar kemur að hagkvæmni. Þá er sama hvort horft er á stærð fiskiskipaflotans, hvernig viðskiptavinum (markaðinum) er sinnt eða afkomu greinarinnar. Jafnframt verður ekki séð hvernig dagróðrakerfið væri réttlátara en aflamarkskerfi.

Kosturinn við aflamarkskerfi með framseljanlegum heimildum þar sem útgerðarmenn eiga nýtingarétt auðlindarinnar, er hagkvæmni. Þeir sem best standa sig munu blómstra og þeir sem síður kunna tökin á atvinnugreininni hætta og fara í annað. Eftir stendur hagkvæm atvinnugrein sem hefur burði í samkeppni, hvort sem er við aðrar atvinnugreinar eða í sjávarútvegi á heimsvísu.

Í því tilfelli er markaðurinn látinn ráða en hann er býsna miskunnarlaust fyrirbæri. Hann er reyndar ekkert fyrirbæri þar sem hann er athafnir einstaklinganna sem lifa í samfélaginu. Markaðurinn er algerlega hreinskiptin og ef hann er látin í friði mun hann jafna flestar misfellur. En hann er ekki endilega réttlátur.

Hugsum okkur hina leiðina þar sem ,,réttlætið" er látið ráða. Pólitíkusar ákveða þá hverjir megi veiða, hvar og hvernig. Hverjum dettur í hug að slíkt sé framkvæmanlegt? Hvernig eiga stjórnmálamenn að ákveða hvar veiðar eigi að fara fram og hverjir eigi að hafa rétt til að veiða og hverjir ekki? Ekki þarf nema að líta til byggðakvótans og vandræðanna við úthlutun hans til að sjá vonleysið í slíkum úthlutunum á gæðum.

Málið á Flateyri er að einstaklingar sem hafa af krafti byggt upp atvinnulíf á staðnum gefast upp á rekstrinum og ákveða að selja. Það er rangt af þeim að kenna háu kvótaverði um. Verðið á kvótanum er hátt vegna þess hve vel gengur í greininni. Það er markaðurinn sem ræður því og hann er samkvæmur sjálfum sér. Það er rangt að kenna ríkisstjórninni um og efnahagstefnu undanfarinna ára um. Auðvitað er vont fyrir sjávarútveg að hafa hátt gengi. Reyndar lækka skuldir fyrirtækjanna en kostnaður við hráefni og vinnulaun eru í krónum. En mjög gott ástand á mörkuðum bætir þetta upp. Góð markaðsstaða endurspeglast í háu verði á aflaheimildum, hvort sem um er að ræða kaup eða leigu. Háir stýrivextir eiga ekki að hafa mikil áhrif á vel fjármagnað fyrirtæki. Stýrivextir Seðlabankans hafa fyrst og fremst áhrif á skammtímavexti, s.s. yfirdráttarvexti, en lítil á langtímavexti og engin á erlend lán.

Annað sem skiptir miklu í þessari umræðu er að margir tala um að það eigi bara að veiða meira og fiskifræðingar viti ekkert í sinn haus. Það er allt önnur umræða og kemur aflamarkskerfinu ekkert við. Það er mikilvægt til að ræða af skynsemi um þessi mál að tala um eitt í einu og setja ekki umræðuna á dreif. Það er lífsspursmál fyrir þessa þjóð að geta haldið uppi vitrænni umræðu um fiskveiðimál.


Til hamingju Ísland

Ný ríkisstjórn

Það stefnir í góða ríkisstjórn á Íslandi. Ríkisstjórn með öflugan meirihluta á þingi og flokkum sem deila mörgu í stefnumálum. Í rauninni er ekkert sem brjóta þarf á í málefnasamningi ríkisstjórnar til næstu fjögurra ára.

Vestfirðingar vonast til að halda sínum ráðherrum og njóta áhrifa Einars Odds í ríkisfjármálum. Bara að halda karlinum fyrir utan landbúnaðarmálin. Það er rétt að láta Kratana um þau mál þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er fullkomlega ófær um að leiða þann málaflokk þjóðinni til heilla.

Vonandi verða ráðuneytin stokkuð upp og aðlöguð breyttum tímum. Það er löngu orðið tímabært að sameina þrjú ráðuneyti í eitt atvinnumálaráðuneyti. Straumlínulaga framkvæmdavaldið og auka framleiðni í samfélaginu.

Hagsmunagæsluflokkurinn

Viðbrögð Framsóknarmanna og Vinstri grænna er brjóstumkennanlegt. Það var ekkert því til fyrirstöðu hjá Sjálfstæðisflokknum að semja strax eftir kosningaúrslitin við Samfylkinguna. Bloggari er viss um að þar réði aðeins virðing Geirs Haarde fyrir góðum samherja þar sem Jón Sigurðsson var. Gefa honum tækifæri til að komast úr vonlausri stöðu og halda andlitinu. Það skyldi þó ekki hafa verið krafa Framsóknarmanna um jafna skiptingu ráðuneyta sem steytti á í þeim viðræðum.

Málið er að ástæða þess að Framsókn fór svona snautlega út úr kosningunum eru ekki verkefni síðustu ríkisstjórnar. Hún skilaði góðu starfi og Sjálfstæðisflokkurinn naut þess í kosningunum. Það eru hinsvegar mikil völd lítils flokks sem gengið hefur fram af þjóðinni. Flokkur sem var orðin svo firrtur sýn á lýðræði að fyrrverandi formaður taldi að hann gæti valið sér eftirmann þegar hann hætti. Hann gleymdi því að flokkurinn er fólkið sem í honum er og hann (formaðurinn) var þarna fyrir þau en ekki öfugt. Farvell Framsókn.

Rifrildisseggir

Bloggari skilur Ingibjörgu Sólrúnu fullkomlega að treysta ekki Framsókn og Vinstri grænum í samstarfi í ríkisstjórn. Það var grátbroslegt að horfa á Guðna Ágústsson og Steingrím J. Sigfússon í Kastljósi í síðustu viku. Fallast í faðma í harmoný og slá svo hvorn anna undir bringuspjarirnar á sama tíma. Þeir gátu ekki látið vera að kýta og pexa þó pólitískt líf þeirra væri undir.

Af þremur pólitískum flokkum á Alþingi var Samfylkingin eini raunhæfi kosturinn fyrir Sjálfstæðiflokkinn. Það eru spennandi tímar fram undan hjá íslenskri þjóð.


Flateyri og kvótinn

kambur

 

Þetta eru vondar fréttir frá Kambi á Flateyri. Enn liggur þó ekki fyrir hvað er að gerast en miðað við viðbrögð framkvæmdastjórans í viðtali í útvarpinu er hann kominn að fótum fram með reksturinn. Fyrirtækið sé skuldsett, vexti háir, gengi krónunnar óhagstætt, kvóta verð hátt og leigukvóti út úr kotinu.

Bloggari hélt reyndar að staða fiskvinnslunnar væri mjög góð um þessar mundir, þátt fyrir hátt gengi krónunnar, og það væri orsökin fyrir háu verið á þorskkvóta. Ekki er það stöðuleiki í pólitíkinni sem gefur tilefni til hás verðs eða nein sérstök bjartsýni fiskifræðinga hjá Hafró á stöðu stofnsins. Rétt er að benda á að Kambur er í samkeppni við önnur íslensk fyrirtæki sem starfa í sama umhverfi með sama gengi og vaxtastefnu.

Fullyrt var við bloggara að þetta hafi verið kalt mat hjá eigendum þar sem kvótaverð væri í hámarki, hætta á vondum fréttum frá Hafró á leiðinni og erlend skuldastaða hagstæð vegna sterkrar krónu. Eigendur geti því gengið út með umtalsverða fúlgu fjár, þrátt fyrir að reksturinn sé kominn að fótum fram. Erfitt er að trúa því að fólk sem eytt hefur starfsævinni í samfélagi eins og Ísafjarðarbæ í áratugi, verið áhugafólk um uppbyggingu og rekstur samfélagsins, geti tekið slíkar kaldar ákvarðanir til að komast út með milljarða í eigin sjóð.

Einnig hefur því verið fleygt að ákvörðunin hafi komið skyndilega og aðrir öflugir aðilar í greininni á svæðinu hafi ekki fengið ráðrúm til að bregðast við. Eigendur Kambs hafi þannig látið sér í léttu rúmi liggja hvað yrði um starfsfólk sitt, bæjarfélagið og félaga sína í greininni. Það er alveg ljóst að ef þetta er eins slæmt og það lítur út fyrir að vera að þá liggja kollegarnir í súpunni og andstaða við annars ágætt kerfi mun blossa upp. Þetta mun æsa upp andstöðu við kvótakerfið og verða vatn á myllu andstæðinga þess.

Í Japan er til stefna sem byggir á samurai hugsun. Menn þar gera ráð fyrir að hver dagur sé þeirra síðastur og þeir þurfi að vera tilbúnir að skilja við þennan heim. Að hegðun þeirra og framkoma við annað fólk sé með þeim hætti að þeir geti hvatt þetta líf og orðstír þeirra lifi þeim og fjölskyldu þeirra til sóma. Norrænir menn veltu þessu sama fyrir sér í eftirfarandi kvæði úr Hávamálum.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

 Bloggari hefur verið dyggasti stuðningsmaður kvótakerfisins þar sem það hefur fært Íslendingum hagsæld með hagkvæmu stjórnkerfi. Í raun er um takmarkaða auðlind að ræða og ekki hægt að stunda sjálfbærar veiðar úr stofninum nema með einhverskonar takmörkunum. Málið er bara að þær séu hagkvæmar og fiskveiðiarði verði síðan úthlutað með réttlátum hætti. Kvótakerfið byggir á eignarétti á nýtingu auðlindarinnar sem er grundvallaratriði í kerfinu. Leiga og sala á aflaheimildum eru forsenda þess að veiðar og vinnsla verði hagkvæm og skili góðum arði.

En frelsinu fylgir ábyrgð og mikilvægt að þeir aðilar sem treyst er fyrir lífsviðurværi hundruða manna standi undir því trausti sem á þá er lagt. Hafi engin vilji verið hjá eigendum Kambs að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækisins eða kanna áhuga heimamanna fyrir kaupum, eru þeir ekki að standa undir því trausti. Hér er að sjálfsögðu átt við aflaheimildirnar en ekki ónothæf fisklaus hús á Flateyri.

Það verður beiskur kaleikur að dreypa á þegar breyta á öllum milljörðunum í ánægju fyrir sjálfan sig. Það hefði kannski þurft meiri samurai hugsun í þetta mál.

 samurai

 

 

 

 

 


Frelsi í Frakklandi

Sarkozy

Hvað skyldi nýr forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, ætla að gera varðandi atvinnumál landsins? Það hefur verið viðvarandi atvinnuleysi í Frakklandi og því vandamáli deila Frakkar með Þjóðverjum.  En hverju skyldi vera um að kenna?

Fyrir hálfu öðru ári síðan reyndi þáverandi forsætisráðherra Frakka, Dominique de Villepin, að gera breytingar á vinnulöggjöfinni til að draga úr atvinnuleysi ungs fólks, sem var þá um 25%. Stríðsástand skapaðist og stjórnvöld urðu að gefast upp fyrir ofbeldi verkalýðsfélaga og draga í land með annars ágæt áform.

Atvinnuleysi í Frakklandi

Vandamálið í Frakklandi eru of mikil völd verkalýðsfélaga og mikið regluverk á vinnumarkaði sem dregur úr vinnuvilja almennings og vilja fyrirtækja til starfrækslu í landinu. Það er mjög dýrt að losa sig við starfsmenn þegar dregur úr eftirspurn á vörum frá fyrirtækjum, og því hika þau við að ráða fólk þegar betur gengur. Þetta er grundvallaratriði og er einmitt ástæðan fyrir lélegri framleiðni hjá ríkisstarfsmönnum á Íslandi. Þess vegna var nauðsynlegt að hlutafélaga væða RÚV.

Hér að neðan eru tvö línurit þar sem annars vegar er borið saman stig regluverks og atvinnuþátttaka vinnuafls í 14 ríkjum ESB, og hinsvegar kostnaður við uppsagnir og atvinnuþátttöku vinnuafls í sömu ríkjum.  Töflurnar eru reyndar sex ára gamlar en standa vel fyrir sínu og gefa glögga mynd af leitni milli þessara breyta.

Regluverk og atvinnuleysi.

Ef vinnumarkaðurinn væri fullkomin þyrfti enga samninga milli launþega og atvinnurekanda. Markaðurinn myndi sjá um sig sjálfur en lífið er ekki svo fullkomið hvað þetta varðar. Reyndar hefur samband launþega og atvinnurekanda batnað til muna þar sem sá síðarnefndi áttar sig á því að sá fyrrnefndi er mikilvægasta auðlind fyrirtækisins.

Rétt er að skoða fyrst stig regluverks og tengsl þess við atvinnuþátttöku vinnuafls.  Rétt er að taka fram að hér er aðeins miðað við vinnufæra menn þar sem börn, gamalmenni, sjúklingar og öryrkjar eru ekki taldir með.  

 Stig regluverks

 

 

 

 

 

 

 

 

Mikil leitni er á milli þessara breyta og er fylgnin um 65% sem gefur mjög sterka vísbendingu um að regluverk skapar atvinnuleysi.

Næsta línurit sýnir kostnað við að segja upp fólki og leitni þess við atvinnuþátttöku í 14 ríkjum ESB. Mikil fylgni er þarna á milli.

Kostnaður við uppsögn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sagt hefur verið um þessi línurit að að þau séu ,,The graphs the EU Commission dare not publish" (línuritin sem Framkvæmdastjórn ESB voga sér ekki að birta)

Það verður gaman að fylgjast með Sarkozy og félögum takast á um þessi mál í Frakklandi á næstu misserum. Hugmyndin er að henda 35 stunda vinnuviku fyrir róða, endurskoða velferðakerfið og auka vilja til vinnu. Í stuttu máli sagt ætlar hann að auka frelsi.


Björn Bjarnason

images

Björn Bjarnason

2500 kjósendur strikuðu yfir nafn Björns Bjarnarsonar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Skyldi margfræg auglýsing hafa haft mikil áhrif á viðhorf fólks eða hafa margir kjósendur Sjálfstæðisflokksins lítið álit á dómsmálaráðherra?

Björn Bjarnarson er einn hæfasti stjórnmálamaður samtímans. Hann hefur staðið sig frábærlega sem ráðherra, bæði sem forystumaður mennta- og dómsmála. Það hefur verið gaman að fylgjast með uppbyggingu lögreglunar og hvernig brugðist hefur verið við því tómarúmi sem myndaðist við brottför Bandaríkjamanna af Keflavíkurvelli. Fumlaus vönduð vinnubrögð sem gætur verði hverjum sem er til fyrirmyndar.

Björn hefur reyndar verið óþreytandi við að sannfæra þjóðina um mikilvægi öryggismála. Það virðist vera að mörgum stjórnmálamanninum þyki það léttvægt og oftar en ekki gert grín að dómsmálaráðherra fyrir skoðanir og stefnu hans í málaflokknum. Grundvallar hlutverk stjórnvalda er að tryggja öryggi borgaranna og halda uppi lögum og reglum. Slíkt er ekki til að ræða af hálfkæringi eða spauga með.

Baugsmálið

En hvað veldur þá þessum útstikunum? Er það kannski Baugsmálið.

Það er nánast óbærilegt að sjá hversu mikil völd menn geta haft með peningana eina að vopni. Einsdæmi er að einhver hefni sín á óvildarmanni með heilsíðu auglýsingum í dagblöðum eins og dæmið með Jóhannes í Bónus gegn Birni.

Það má rétt vera að Davíð Oddsson og Björn Bjarnason hafi talað óvarlega í umræðu um Baugsmálið en ekki hefur verið sýnt fram á neinskonar afskipti þeirra af dómsmálinu. Enda væri slíkt alvarlegt mál og gengi þvert gegn þrískiptingu ríkisvaldsins og þar með lýðræðinu í landinu.

Bloggari leggur til að ef Björn fær ekki ráðuneyti í nýrri ríkisstjórn þá verði hann fengin sem sérlegur ráðgjafi fyrir væntanlega ráðherra. Þeir fái kennslu í því hvernig eigi að laga til stjórnsýslu og setja stefnumótun í öndvegi. Ég held að allir geti viðurkennt að grettistaki hefur verið lyft í málefnum lögreglunnar og í öryggismálum Íslendinga á undanförnum árum.


Framleiðni vinnuafls á Íslandi

Fram hefur komið að framleiðni vinnuafls á Íslandi er í flokki með Portúgölum og fyrir neðan Ítali ef miðað er við fjölda vinnustunda á íbúa.  Íslendingar halda uppi öflugu hagkerfi með mikilli vinnu.  Þeir eru meðal ríkustu þjóða heims en þurfa að púla og þræla fyrir því.  En skiptir það einhverju máli?

Það gerir það svo sannarlega.  Það er hægt að nota tímann í annað en að fara yfir lækinn til að sækja vatnið.  En hvernig stendur á þessu og hvað er til ráða?

árabáturKvótakerfið hefur örugglega haft jákvæð áhrif á bæði framleiðni vinnuafls og fjármuna.  Kerfið var sett á til að stöðva glórulausan taprekstur þar sem steininn tók úr upp úr 1978.  Flotinn var allt of stór og ofveiði mikil og ljóst að hægt var að fiska hámarks afla með mun færri skipum og ekki síður með mun færri höndum.  Framsalsheimild kerfisins hefur síðan gert mönnum kleift að einbeita sér að ákveðnum tegundum og afurðum með mikilli sérhæfingu í veiðum og vinnslu.  Það eykur framleiðni.

En betur má ef duga skal ef Íslendingar vilja skjóta Ítölum ref fyrir rass.  Hér skulu nefnd nokkur dæmi úr atvinnulífinu þar sem hægt væri að bæta framleiðni:

Línuívilnun er eitt það vitlausasta kerfi sem til er.  Það mætti jafna því við að sagt væri við bóndann að ef hann legði dráttavélinni og notaði hestinn í staðin að þá fengi hann aukið búmark.  Menn eru verðlaunaðir fyrir að notast við úreltar vinnuaðferðir og beita í höndum þar sem til eru vélar til að vinna verkin.  Slíkt stöðvar alla framþróun og dregur úr framleiðni.  Halda uppi atvinnu fyrir vinnuafl sem ekki er til og flytja þarf inn útlendinga í stórum stíl til að sinna þessari óþrifalegu og erfiðu vinnu.

Annað dæmi er byggðarkvóti sem dreift er á aðila eftir pólitískum leiðum.  Tekið fram fyrir hendurnar á markaðinum sem færir veiðiheimildir til þeirra sem best kunna að fara með þær, til annarra sem síður hafa færni til þess.  Það dregur úr framleiðni.

Landbúnaðarkerfið er annað gott dæmi um pólitík sem dregur úr framleiðni.  Á Íslandi er ekki loftslag til ræktunar grænmetis og örugglega hagkvæmara að flytja það inn.  Í sauðfjárræktinni eru allt of margir að hokra við nokkur hundruð kindur og draga fram lífið með ríkisstyrkjum.  Menn eru nánast í vinnu hjá ríkinu við að framleiða matvöru sem auðveldlega væri hægt að flytja inn á mun betra veðri.

Hér verða ekki tekin fyrir fleiri dæmi að svo stöddu en áleitin spurning hvort ríkið gæti aukið hagkvæmni í rekstri stofnana og aukið þannig framleiðni vinnuafls á Íslandi.  Alla vega er það vettvangur stjórnmálanna að draga úr óhagkvæmni og ýta undir bætta framleiðni.  Íslendingar gætu notað afgangstímann til að sinna fjölskyldunni sem er mikilvægasta hlutverk mannsins.


Á toppnum í tilverunni

toppurinnÞetta er góður dagur fyrir Sjálfstæðismenn og reyndar íslensku þjóðina.  Stórsigur Sjálfstæðismanna í alþingiskosningunum eftir 16 ára forystu í ríkistjórn.  Flokkurinn hefur örugglega verið að gera góða hluti og nú er bara að halda því á.  Flokkurinn er í þeirri aðstöðu að geta valið sér meðreiðarsvein til forystu næstu fjögur árin.  

Það verða ótrúlega spennandi tímar fram undan í íslenskum stjórnmálum.  Tækifæri til að stokka upp ráðuneyti til að gera framkvæmdavaldið straumlínulagað og hæfara til að takast á við breytta tíma.  Tækifærin eru mikil fyrir íslenska þjóð.

Eitt það mikilvægasta í dag er að auka framleiðni í íslensku atvinnulífi.  Í dag höldum við uppi öflugu hagkerfi með mikilli vinnu.  Íslendingar eru hins vega að eyða of mörgum vinnustundum í árangurinn.  Það liggja mikil tækifæri í að bæta framleiðni á hverja vinnustund.  Það verður meðal annars verkefni næstu ríkisstjórnar.


Kjördagur

xdÍslendingar mæta í kjörklefana í dag til að kjósa nýja löggjafarsamkomu.  Vonandi fara þeir ekki ofaní kjörkassana eins og Ómar Ragnarsson talaði um í sjónvarpinu í gær.  Það gætir orðið ansi þröngt á þingi þar.

Þetta er gríðarlega mikilvægur dagur fyrir þjóðina.  Verður haldið áfram á þeirri sigurbraut sem íslendingar hafa verið á síðan 1991 eða verður allt sett í stopp þar sem dregið verður úr framleiðsluþáttum og óábyrg fjármálastefna verður rekin af ríkinu?  Komist vinstri stjórn að verður það helsta von þjóðarinnar að hún svíki flest kosningaloforð sín.  Hér er tekið undir með Mogganum að það eina sem er ókeypis eru svikin loforð stjórnmálaflokka.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt mikla ábyrgð í þessari kosningabaráttu.  Flokkur sem stóð við öll sín loforð síðast ætti að vera trúverðugur að þessu sinni.  Engu að síður féll flokkurinn ekki í þá gryfju að lofa vinsælum og dýrum aðgerðum til að kaupa atkvæði fyrir þessar kosningar.

Það merkilegasta er að stjórnarandstaðan er í raun að viðurkenna að síðustu loforð flokksins um skattalækkanir hafi verið góð fyrir þjóðina.  Alla vega ætlar engin flokkur að hækka skattana upp í það sem þeir voru áður.

Bloggari vonar að þjóðin sé það skynsöm að sjá í gegnum kosningaloforð.  Það verður að afla peninganna til að hægt sé að eyða þeim.  Maður getur ekki drukkið mjólkina og slátrað kúnni á sama tíma.  Við þurfum frelsi til athafna og einstaklingsframtak til að búa til fjármuni.  Síðan á ríkið að gera eins lítið og mögulegt er í forræðishyggju og eftirliti með fólkinu.  Það er ekki fyrr en frelsið fer að bitna á öðrum sem nauðsynlegt er að grípa inni og hafa áhrif á framganginn.  

Sjálfstæðisflokkurinn er eina ábyrga stjórnmálaaflið og verður að taka sæti í nýrri ríkisstjórn.  Það er ef til vill kominn tími til að skipta um meðreiðasvein í stjórnarsamstarfinu og láta reyna á vilja Krata til góðra verka.  Það er ekki sá grundvallarmunur í stefnuskrá þessara tveggja flokka að þeir geti ekki náð árangri saman.  Síðasta samstarf snérist meira um einstaklinga en ekki grundvallar skoðanamun.  Enda náði ríkisstjórnin frá 1991 til 1995 miklum árangri í efnahagsmálum.  Hæst stendur þar samningur um EES sem Framsókn og Kommar voru á móti, og ekki síður frelsun og nútímavæðing atvinnulífsins.  Dregið úr haftastefnu með áherslu á frjálst hagkerfi og utanríkisverslun.

 Að lokum þessi skilaboð frá Tý í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn var, en hann skorar á kjósendur í Norðvesturkjördæmi að tryggja Einari Oddi Kristjánssyni örugga kosningu á þing. Skattgreiðendur mega ekki missa sinn traustasta vin úr þingsölum.


 

XD Grin

 


Olíugjald af umferð

fjallvegur

Það var góður fundur í hádeginu í dag með Sturla Böðvarssyni samgönguráðherra í kosningamiðstöð Sjálfstæðismanna.  Troðið út úr dyrum og líflegar umræður og greinar góð svör frá ráðherra.  Eitt var það þó öðru fremur sem kætti bloggara á fundinum.  Það var við fyrirspurn Ragga í Gámaþjónustunni um olíugjaldið og skoðun hans um hversu óréttlátt það væri.  Raggi telur að ekki eigi að mismuna mönnum í sköttum þó þeir búi við fjalllendi eins og Vestfirðingar þar sem olíueyðsla er meiri en á sléttlendinu fyrir sunnan.  Olíugjald sé því ekki réttlát skattlagning.

Ráðherra svaraði að bragði að hann teldi að með nútíma tækni mætti láta þá menn borga sem notuðu.  Með GSM og GPS tækni mætti rukka ökumenn fyrir þann kostnað sem þeir raunverulega valda.  Ytri sem innri kostnaði við aksturinn, þ.e.a.s. þjóðhagslegum kostnaði.  Til að einfalda þetta mjög mætti ímynda sér að sá sem æki á nóttinni þegar fáir aðrir eru að nota mannvirkið myndu þá borga minna.  Meira kostaði ef betri leið væri farin með jarðgöngum eða hraðbraut.

Bloggari kom einmitt með þessa tillögu á Landsfundi Sjálfstæðismanna fyrir skömmu.  Einhvern vegin fannst honum að nefndarmenn í samgöngunefnd skildu ekki skilaboðin og hann væri svolítið á undan sinni samtíð.  En þarna kom í ljós að ráðherra er með þetta á hreinu sem er gott mál.  Það gæti hugnast Vestfirðingum að taka upp slíkt kerfi þar sem ódýrt væri að aka um Djúpveg en mjög dýrt að aka nálægt höfuðborginni.  Þetta er vegna ytri kostnaðar sem er t.d. mengun, slysahætta, örtröð og tafir sem er reiknað með sem kostnaði í auknum mæli í löndunum í kringum okkur.

En varðandi olíugjaldið vill bloggari koma sínum sjónarmiðum á framfæri.  Olíugjald er mjög skilvirk gjaldtaka.  Það hvetur til notkunar á sparneytnum ökutækjum.  Bylting er að verða í gerð díselvéla í flutningabílum sem nota minna eldsneyti.  Það er rétt að þeir sem nota sparneytin ökutæki njóti þess í lægri sköttum.  Betri samgöngumannvirki munu líka færa notendum hagræði.  Það er samfélaginu til góða.

Raggi og Jói


Á toppinn

island_hreintSíðastliðin sunnudag fór bloggari við þriðja mann upp á tind Eyjafjallajökuls á skíðum.  Lagt var upp við norðurhlíðar jökulsins við mynni Þórsmerkur.  Leiðindaveður var við akstur frá Reykjavík með slyddu og norðan sudda. 

Fjallganga

Fljótlega eftir að fjallgangan hófst birti til og eins og hendi væri veifað var komin heiðskýra með ótrúlegri fjallasýn að Heklu og Tindfjöllum.  Við 700 metra hæð var komið að snjólínu og skíðin spennt undir og gengin svokölluð Skerjaleið.  Það er gaman að ganga á fjallaskíðum en ekki auðvelt í nýfallinni mjöll.  Kannski fyrir sporgöngumennina en erfitt er að troða brautina.

Þegar komið er á jökulinn sjálfan þarf að setja á sig öryggislínu.  Það er traustvekjandi að hafa band í félaga sína til að mæta hugsanlegum óvæntum áföllum eins og jökulsprungu.  Þetta minnir svolítið á lífið sjálft.  Það er gott að hafa góð tengsl við vini og vandamenn til að takast á við óvæntar uppákomur í lífinu.  Það er svona svipað og líflínan sem fjallgöngumaðurinn hefur meðan gengið er yfir sprunginn jökul.

 Goðasteinn

Í 1560 metra hæð er komið að Goðastein sem gnæfir yfir þverhníptur tuttugu metrum hærra.  Ekkert annað að gera en haska sér á toppinn og virða fyrir sér ægifagurt útsýnið.  Vestmannaeyjar eins og leikfangakubbar í suðvestri.  Hekla í norð-vestur og Mýrdalsjökull í austri.  Þórsmörkin með Tindafjöllum í norðri og langt í fjarska má sjá Rjúpnafell og enn lengra glittir í Hrafntinnusker.

 

 

 

 Gunni og Stebbi

En það er ferðin niður á skíðum sem er toppurinn á þessum góða degi.  Nýfallinn púðursnjór og veður á súðum á siglingu niður hlíðar jökulsins.  Ekki stoppað fyrr en við snjólínu en þaðan þarf að klöngrast niður þverbratta hlíðina niður undir Markafljót.  Þetta var frábær en erfiður dagur. 

untitled


Innflytjendur og Frjálslyndi flokkurinn

EES

Innflytjendur

Það er grátbroslegt að fylgjast með umræðu formanns Frjálslynda flokksins í málefnum innflytjenda.  Það sama er uppi á teningnum hjá Guðjóni Arnari í þessu máli eins og kvótaumræðunni, að hann setur sig ekki inn í málin nægjanlega til að skilja þau.  Eftirfarandi er haft orðrétt eftir honum í Viðskiptablaðinu:

 „Ég tel að innflytjendur eigi að fá almennar upplýsingar um land og þjóð auk þess að fá upplýsingar um réttindi sín strax við komuna til landsins. Þá myndi fólkið sem hingað kæmi vita hver réttindi sín væru og hvernig ætti að sækja þau. Í kjölfarið ætti fólkið auðveldara með að starfa í þjóðfélaginu með okkur og öll aðlögun myndi ganga betur."

EES

Að gefnu tilefni er rétt að upplýsa formanninn um þá augljósu staðreynd að við erum hluti af Evrópsku efnahagsvæði þar sem samið var um meðal annars frjálsa för íbúa innan svæðisins.  2004 bættust átta fyrrum kommúnistaríki við EES og tvö ríki um síðustu áramót.  Við inngöngu þeirra var boðið upp á aðlögunartíma fyrir þau ríki sem fyrir voru innan EES sem Íslendingar ákváðu að notfæra sér.  Svíar hinsvegar gerðu það ekki og opnuðu landamæri sín strax fyrir þessu fólki.  Ekkert bendir til þess að sú ákvörðun hafi verið röng hjá frændum okkar.

Reiknað var með endurskoðun eftir tvö ár og var niðurstaða íslenskra stjórnvalda að ekki væri ástæða til að framlengja undanþágu á ferðafrelsi fólks frá þessum ríkjum. Í rauninni höfðu Íslendingar engar efnislegar forsendur til framlengingar.  Mikill skortur var á vinnuafli á Íslandi og með afnámi undanþágunnar var tryggt beint ráðningarsamband milli starfsmanns og atvinnurekanda sem best var til að tryggja réttindi launþega og ábyrgð atvinnurekanda.

Ríki utan EES

Hins vegar settu íslensk stjórnvöld ný lög um innflytjendur frá öðrum ríkjum sem eru utan EES, sem voru mun strangari en áður höfðu verið.  Frjálslyndi flokkurinn greiddi atkvæði gegn þessum lögum og barðist gegn setningu þeirra á sínum tíma.

Mikill munur er á þeirri stefnu Íslendinga að líta á sig sem Evrópubúa og þátttöku í uppbyggingu álfunnar og vörnum gegn ólöglegum innflytjendum frá öðrum ríkjum.  Annars vegar erum við að opna dyrnar fyrir fólki með lík viðhorf og menningu og hinsvegar að verja okkur gegn vandamálum sem fylgja því gangstæða.  Hér verður ekki lagður dómur á hvað sé betra eða verra en ólíkir menningarheimar rekast oft harkalega á og má benda á vandamál víða í Evrópu því til sönnunar.

,,Gamlir og nýjir Íslendingar"

Í tilvitnuninni hér að ofan er eins og formaður Frjálslynda flokksins átti sig ekki á þessum mun.  Pólverji sem kemur til Íslands er ekki stoppaður af í Leifsstöð.  Hann gengur þar í gegn eins og heimamaður, labbar sig niður á bryggju og biður um vinnu.  Hann hefur til þess fullan rétt og þarf engin leyfi til. 

Að sjálfsögðu eigum við að taka vel á móti þessu fólki og tryggja aðlögun þeirra eins og vel og kostur er.  Það er bara allt önnur umræða.  En sú umræða sem Frjálslyndiflokkurinn heldur á lofti er lýðskrum til að sækja atkvæði í örvæntingu þar sem kvótaumræðan er töpuð.  Sem betur fer.

Efnahagsmál

Annað sem vakti athygli bloggara var yfirlýsing formannsins um að tímabundin innflutningur vinnuafls við uppbyggingu Kárahnjúka hefði engin áhrif á Íslenskt hagkerfi.  Þetta er auðvitað allt önnur umræða þar sem þessir starfsmenn eru hér tímabundið og margir þeirra frá ríkjum utan EES.  Að sjálfsögðu hefur það mikil áhrif á hagkerfið og dregur úr þennslu að flytja inn starfsmenn til að taka kúfin af við slíkar risa framkvæmdir.  Allir sem setja sig inn í efnahagsmál eru sammála um það.  Það dregur úr þennslu á vinnumarkaði og laun eru greidd í erlendum gjaldeyri og koma varla inn í hagkerfið. 

 


Einar Kristinn og sjávarútvegurinn

EKG

 

Steingrímur Hermannsson

Bloggara var heldur betur brugðið þegar grein birtist í Blaðinu eftir Steingrím Hermannsson undir ,,Umræðunni" á fimmtudaginn var. Greinin var hæðnispistill til Einars Kristins Guðfinnssonar vegna kvótamálsins í tengslum við nýjustu fregnir af kvótasölu í Bolungarvík.

Eftir að hafa lesið um átökin í kringum kvótalögin var bloggari heldur betur hissa á greinarskrifunum þó hann vissi um hug okkar gamla þingmanns til kvótakefisins, en ábyrgð hans á kerfinu eru óumdeilanleg. Það var því ákveðin léttir að sjá leiðréttingu um að greinin var eftir allt annan Hermannsson og sá er ekki svara verður á þessum vettvangi.

Jakob Valgeir

Það er hinsvegar gaman að fylgjast með uppgangi Jakobs Valgeirs ehf í Bolungarvík sem nú er orðinn burðarásinn í atvinnulífi bæjarins.  Traustir og öflugir menn sem vita hvað þeir eru að gera og hafa náð einstökum árangri í útgerð og fiskvinnslu. Dæmi um hvernig framsalsréttur kvótans gefur dugandi mönnum tækifæri með heiðarlegri samkeppni og uppkaupum af þeim sem lakar standa sig.

Fyrirtækið er stofnað eftir kvótasetningu og því eru eigendur hluti af nýliðum í greininni. Það væri synd ef þeir hefðu ekki fengið tækifæri til að hasla sér völl og aðgengi að greininn lyti ekki lögmálum markaðarins.

Sjávarútvegsráðherra hefur marg bent á þá staðreynd að líta verði á sjávarútveg sem atvinnugrein. Íslendingar hafi ekki efni á að reka útgerð sem einhverskonar byggðastofnun líkt og Evrópusambandið og Norðmenn. Reyndar eru aðeins tvær þjóðir í veröldinni sem reka sjávarútveg sem skilar góðum fiskveiðiarði, það eru Íslendingar og Nýsjálendingar. Báðar þjóðirnar nota kvótakerfi til hagræðingar í útgerð.

Óvissa í greininni

Það er hinsvegar lífspursmál fyrir atvinnugrein eins og sjávarútveg að fá frið fyrir misvitrum stjórnmálamönnum. Óöryggið sem fylgir yfirlýsingum stjórnmálamanna sem reyna hvað þeir geta til að ná fylgi með lýðskrumi fælir menn úr greininni. Ein megin ástæðan fyrir brotthvarfi sjávarútvegsfyrirtækja af almennum hlutabréfamarkaði er neikvæð umræða um greinina og óöryggi hennar vegna pólitískra hrossakaupa. Varkáir hlutabréfakaupendur hafa sniðgengið bréf í sjávarútvegsfyrirtækjum vegna óvissu í greininni. Það hafði áhrif á verðmætið til lækkunar með þeim hætti að eignarhaldið hefur færst á æ færri hendur með tilheyrandi samþjöppun í greininni.

Sjávarútvegsráðherra

Þegar Einar Kristinn tók við stjórnartaumum í sjávarútvegsráðuneytinu sagði hann að tími lagabreytinga væri liðinn. Tími væri kominn til að greinin fengi frið til að þróast og dafna og skapa þyrfti henni stöðuleika og öryggi.  Hann hefur bent réttilega á að sjávarútvegur er í samkeppni við aðrar atvinnugreinar um fólk og fjármagn. Með því að hrekja greinina af markaði er öflug leið til fjármögnunar farin. Neikvæð umræða verður til þess að ungt og efnilegt fólk sniðgengur greinina og hún fer á mis við nauðsynlegan mannauð til framsóknar í framtíðinni. Leyfum sjávarútveginum að þroskast sem atvinnugrein í framtíðinni. Vestfirðingar hljóta að geta keppt á jafnréttisgrunni til að efla útgerð í heimabyggð. Gott dæmu um það má sjá út í Bolungarvík.


Land- og sjóflutningar

vegur

Það grípur bloggara stundum vonleysi þegar hann hlustar á rökleysu byggða á fáfræði.  Oft eru öll vopn slegin úr höndum manna og ekki hægt að festa hönd á neinu þegar þessu er beitt.  Allri almennri þekkingu er hent fyrir róða og fáfræðin veður á súðum.

Aftur og aftur er verið að tala um áætlanasiglingar skipa til Ísafjarðar og ríkið eigi að niðurgreiða slíka flutninga.  Rökin fyrir þessu eru helst eftirfarandi:

For- og framhaldsfrakt

Í fyrsta lagi hafi verð stórhækkað hjá framleiðendum sjávarfangs við aflögn áætlanasiglinga. 

Skoðum þetta nánar.  Það sem gerðist og breytti stöðunni var að áður var sama gjald hjá útflytjendum, sama hvar þeir voru á landinu, svokallaður forflutningur.  Einnig var í mörgum tilfellum sama gjald hvert innflutningur fór á Íslenskar hafnir, svokallaður áframflutningur.  En hver skyldi hafa greitt fyrir þetta?  Að sjálfsögðu aðrir viðskiptavinir sem ekki höfðu sömu stöðu á markaði.  Hinn almenni viðskiptavinur.  Í dag er krafan sú að sá greiðir sem notar.  Þetta kemur vel fram í Hvítbók ESB sem er stefnumótun í samgöngumálum sambandsins og reyndar í norskum og dönskum rannsóknarskýrslum. 

Þjóðarhagur

Í öðru lagi að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að flytja með skipi en ekki bíl og rétt sé að bæta samkeppnishæfni skipaflutninga.

Flutningabílar eru í dag að greiða 11% umfram þann þjóðhagslega kostnað sem þeir valda.  Þá er gert ráð fyrir bæði innri og ytri kostnaði, sem er t.d. viðhald, mengun, loftslagsbreytingar, örtröð, tafir og slysahætta.  Varla tala menn fyrir því að meiri gjöld  verði lögð á bílana sem myndi auka enn frekar kostnað Vestfirðinga umfram Reykjavíkursvæðið.  En hvað þá?  Lækka álögur á skipin?  Skipið er ekki að greiða neitt til ríkisins til að standa undir þjóðhagslegum kostnaði við flutningana.  Skipin og viðskiptavinir eru að greiða til hafnarinnar sem er í eigu sveitarfélagsins.  Haldi menn að þau gjöld séu of há er rétt að beina því til Ísafjarðarbæjar.  Ástæðan fyrir óhagkvæmni skipana er hár fastur kostnaður sem kallar á mikið flutningamagn til að ná niður meðalkostnaði.  Slíkt magn er til staðar víða í Evrópu en langt frá því hér á Ísafirði.

Niðurgreiðslur eru aldrei réttlætanlegar sem sértækar aðgerðir þar sem ekki er um lífspursmál fyrir íbúana að ræða.  Að ætla að niðurgreiða fyrir einhverja sérstaka aðila en ekki aðra er alvarleg mismunun.  Einnig er niðurgreiðsla með skattfé óskilvirk aðferð sem rekur fleyg á milli athafna og arðsemi einstaklinga.

Rétt er að bæta við að ríkið hefur stórkostlega niðurgreitt skipaumferð með því að greiða kostnað við mannvirkjagerð án gjaldtöku í staðinn.

Landflutningar

Í þriðja lagi heyrist það oft hversu vont sé að hafa þessa flutningabíla á þjóðvegunum og nauðsynlegt sé að losna við þá.

Í dag eru vegir hannaðir fyrir 11.5 tonna öxulþunga.  Flutningur á 28.000 tonna framleiðslu sjávarfangs á norðanverðum Vestfjörðum hefur ekki afgerandi áhrif á slit þeirra.  Djúpvegur er með umferð sem er innan við 100 bílar á sólarhring sem er mjög lítið.  Þetta er helsta vandamál Vestfirðinga í samgöngumálum.  Mikilvægt er að þessi vegur fái þau viðskipti sem möguleg eru. 

Vegabætur skipta miklu máli varðandi kostnað og undravert hve lítð talsmenn sjóflutninga tala um það.  Reiknað hefur verið út að vegabætur sem nú standa yfir gætu sparað um 20% af kostnaði við landflutninga.  Mestu munar um að meðal vegalengd hjá flutningabílum fer úr 515 km í 458 km.  Einnig eru breytingar á þungatakmörkunum vegna vegabóta sem verður lokið haustið 2008, mikilvægar.

Framtíðin

Sjálfstæðisflokkurinn og samgönguráðherra hafa skilað Vestfirðingum miklu með Grettistaki í vegamálum Vestfirðinga.  Þegar hafa miklar vegabætur átt sér stað við Djúp og enn meira er í framkvæmd.  Brú yfir Mjóafjörð og nýr vegur um Reykjanes í Ísafjörð.  Vegur um Arnkötludal sem liggur í Dalasýslu og losar vegfarendur við Strandir og Holtavörðuheiði.  Göng undir Óshlíð og miklar vegabætur til sunnanverðra Vestfjarða. 

Mikil aukning hefur orðið á framleiðslu fersks fisk á erlendan markað.  Þar liggja sóknarfærin og hefur fyrirtæki eins og HG náð miklum árangri á þessum markaði.  Ný fiskvinnsla á Bíldudal er hugsuð fyrir þann markað en landflutningar eru forsenda fyrir slíkri framleiðslu.  Engin möguleiki er að flytja þessa afurðir með skipi frá Ísafirði eða Bíldudal.

Bloggari hefur lagst í töluverða stúdíu vegna þessa og hvergi fundið haldbær rök eða rannsóknarvinnu sem styður sjóflutninga.  Víða er hægt að finna hið gagnstæða sem mælir gegn slíkum gamaldags aðferðum og hugsunarhætti. 


Kosningaloforðin

kind

Loforðin

Í dag dynja á landsmönnum kosningaloforðin.  Samfylkingin lofar ,,ókeypis" tannlækningum ásamt öðru og einhver reiknaði út að kosningaloforð Íslandshreyfingarinnar væri komin upp í 200 milljarða.  Ég tárfelli yfir örlæti frambjóðenda, góðmennsku þeirra og hugulsemi.  Bloggari ætlar að kjósa þá alla.  Bloggari heyrði Ingibjörgu Sólrúnu lofa í auglýsingu að stytta vinnutíma landsmanna þannig að þeir gætu eytt meiri tíma heima með fjölskyldum sínum.  Nú er bloggari byrjaður að kjökra yfir þessar hjartahlýju og umhyggju fyrir velferð hans.

Hver borgar

Bloggari heyrði á tal tveggja Bolvíkinga um daginn þar sem óbreyttur sagði við bæjarstjórnarmann að fyrirhugaðar framkvæmdir við rennibraut við sundlaug staðarins væri allt of dýr og myndi kosta bæjarsjóð mikið í fjárfestingu og viðhaldi.  Miðað við væntanlega nyt af mannvirkinu væri þetta bara vitleysa.  Bæjarstjórnarmaðurinn hélt nú ekki að þetta væri of dýrt.  Bæjarstjórnin ætlaði að gera þetta fyrir ,,fólkið" sem ætti þetta rækilega skilið.

Mér verður oft hugsað til orða Friedmans sem sagði einhvern tímann að hann vildi bæta við 11 boðorðinu og það yrði einhvern veginn svona:  ,,Ef þú vilt vera örlátur þá skaltu vera það á eigin kostnað"

Síðast þegar bloggari reif upp launaseðilinn sinn var ríki og bær búin að taka ríflegan hluta þeirra.  Bloggara líður eins og honum hafi verið boðið í mat og fengið reikninginn á eftir.

Fleiri loforð

Hversu mikil eiga völd stjórnmálamanna að vera?  Þarna eru átakalínurnar í pólitík sem sumir rugla með hægri og vinstri.  Bloggari vill nota frelsi og ófrelsi.  Hvers lags fyrirhyggjupólitík er að lofa meiri frítíma og vera búin að ákveða hvað kjósandi ætlar að gera við hann.  Hægt væri að láta alla launamenn hafa kort þar sem þeir stimpla sig út úr vinnunni og síðan inn á heimilið.  Þannig mætti fylgjast með því að almenningur fylgi forskriftinni.

Bloggari var að skoða kosningabækling ungs Samfylkingarfólks.  Í miðopnu er mynd sem sýnir þessi hræðilegu tólf ár sem borgaraöflin hafa verið við völd.  En áhugaverðara er að skoða framtíðarsýn jafnaðarmanna næstu tólf árin eftir sigurinn í kosningum í vor.

Það sem mesta athygli vekur er Ingibjörg Sólrún að ríða á Georg W. Bush.  Bloggari hefur heyrt um margar fantasíur en þessi tekur allt út.  Ingibjörg er með svipu og sveiattan bara ef Georg er ekki í latex.

Annað sem vekur athygli er prestur sem eflaust er að gefa saman samkynhneigða karlmenn.  Bloggari kynnir sig sem fordómalausan mann og stendur við það.  Í hans huga má fullorðið fólk gera það sem þeim sýnist í þessum málum.  Hinsvegar ræður þjóðkirkjan því hvað hún gerir.  Ef hún vill ekki vígja slíka sambúð er það hennar mál, og alls ekki stjórnmálamanna sem eru í framboði.  Öllu hinu hefur bloggari bara gaman af, sérstaklega rollunni sem komin er í búning fjallkonunnar. 

Landbúnaðurinn

Bara að hægt væri að reiða sig á Kratana.  Að einhverstaðar væri hægt að festa hönd á stefnu þeirra.  Þeir ættu að öllu eðlilegu að vera nálægt frelsishugsjóninni og í samstarfi gætu þeir hjálpað Íslendingum að ná fjallkonubúningnum af kindinni.  Sjálfstæðismenn munu aldrei gera það með hjálp Framsóknar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 287350

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband