30.3.2009 | 17:24
Frjálshyggja og Sjálfstæðisflokkurinn
Það er mikilvægt þegar fólk fæst við hugmyndafræði eða hugtök að það skilji hvað fjallað er um. Umræða um ,,Ný-frjálshyggju" og nú ,,harða frjálshyggju" er óttalegt bull þar sem fólk hengir sig í hugtök sem það skilur ekki til að nota til útskýringa á því sem miður hefur farið. Frelsi er aldrei vont en eins og gengur þarf alltaf lög og reglu og eftirlit. Ekkert í frjálshyggju mælir gegn því. Íbúi þarf að taka tillit til nágranna síns og samfélagið þarf að hugsa um þá sem minna mega sín.
En það er alvarlegt mál þegar formaður Sjálfstæðisflokksins skilur þetta ekki. Hann talar um harða frjálshyggju og nefnir sem dæmi að slík stefna komi í veg fyrir menntun almennings. Ég vil minna Bjarna Benidiktsson á að upphafsmaður frjálshyggju, Adam Smith, sagði að samfélagið hefði ekki efni á að mennta ekki fátæklinga. Þannig færi það á mis við hæfileika og mannauð.
Sjálfstæðisflokkurinn byggir á einstaklingsfrelsi og einkaframtaki. Bjarni Ben ætlar vonandi ekki að breyta því. Það er einmitt það sem við þurfum núna til að byggja okkur upp aftur. Sósíalismi mun aldrei gera það og hefur aldrei staðið undir auðlegð þjóða.
Það er líka vert að hugsa um að hagsveiflur eru eðlilegar þar sem maðurinn er ekki fullkominn. Sem betur fer. Sjálfur er ég alsæll með sumar breytingar sem kreppan hefur skapað, t.d. að tugur manna eigi Ísland. Það hefur ekkert með frjálshyggju að gera og ef eitthvað er, þá er það andstæða hennar.
Það er lágmarks krafa til þeirra sem fjalla um svona mál að þeir viti hvað þeir eru að tala um. Upphrópanir, frasar og lýðskrum er aldrei til góðs.
![]() |
Ekki hörð frjálshyggja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.3.2009 | 12:32
Davíð kvaddur
Loksins er búið að reka afa gamla út af heimilinu og guð má vita hvar hann drepur niður fæti næst. Afi (Davíð Oddsson) hefur brotið og bramlað allt á heimilinu (Sjálfstæðiflokknum) undanfarin misseri og hafði einhvernvegin tök á húsbóndanum (Geir Haarde) að ekki var hægt að hrófla við honum. En svo í fermingaveislunni (Landsfundinum) hélt hann ræðu sem gekk fram af heimilisfólkinu og féll þar með í ónáð. Loksins er það öllum ljóst að afi er bara orðin ruglaður og tími kominn til að setja þau vandamál sem hann hefur skapað, aftur fyrir sig og takast á við framtíðina. Það sem fyllti mælinn voru dylgjur í garð vammlauss manns sem ekki hafði til annarra saka unnið en hafa deilt á aðferðir afa, þó á faglegan hátt.
Gamanlaust þá hefur enginn veitt Davíð og mislukkaðri peningamálastefnu meira aðhald en Vilhjálmur Egilsson. Ítrekað benti hann á þær afleiðingar sem hávaxtastefnan gæti haft og flest það ræst sem hann varaði við. Það var þó ekki fyrr en hann tók að sér formennsku í endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins og gaf út heiðarlega skýrslu um stjórnarsetu flokksins, sem steininn tók úr.
Það er virðingarvert af Geir Haarde að taka upp hanskann fyrir Vilhjálmi á landsfundinum og frábært að salurinn hafi tekið undir með lófaklappi og jafnvel risið úr sætum við orð fyrrverandi formanns. Það eru þung spor hjá fyrrverandi aðdáenda Davíðs sem stjórnmálamanns að setja þessar línur á blað. Og ömurlegt að farsæll stjórnmálamaður hafi lokið ferli sínum með þeim hætti sem raunin er.
28.3.2009 | 06:36
Kafli 4 - Santorini
Eftir frábæra dvöl á Paros héldum við Stína á ásamt Hafdísi til Santorini. Santorini er í rauninni leifar af einu öflugasta eldgosi sem vitað er um á jörðinni, fyrir um 3.600 árum. Talið að loftþrýstingur af þessu gríðarlega sprengigosi hafi farið tvo hringi um jörðina og flóðbylgjan eytt heilu samfélögunum. Reyndar hafa sumir haldið því fram að Atlantis hafi einmitt eyðst í þessu gosi og Rauðahafið hafi tæmst við gríðarlega flóðbylgjuna. Discovery Channel hefur valið Santorini fjórða merkilegasta eldfjall sögunnar.
Aðkoman að eyjunni er óvenju falleg. Bærinn hangir nánast eins og snjór í fjöllum, ofaná kletta rimina sem liggur austur af risastórum gígnum. Höfnin er undir bænum og vel gerð frá náttúrunnar hendi með gígbarmana nánast umleykis. Það eru þúsundir þrepa að fara ef ganga á frá höfninni upp í bæinn, en fyrir þá sem kjósa þægindi er hægt að taka lyftu í stað stigans.
Santorini er sennileg einn fallegasti staður í heimi og ótrúleg sýn að sjá kvöldsólina merla í Eyjahafinu og lýsa upp hvítkölkuð húsin á klettabrúninni. Við áttum þarna nokkra ógleymanlega daga áður en akkerum var létt og haldið til Ios og síðan til Naxos. Alltaf sama sterka sunnan áttin og freyddi á súðum á Bonny. Hafdís var eins og venjulega stillt og prúð á siglingu þannig að við Stína höfðum nægan tíma til að sinna vinnu okkar um borð. Sat í fötunni í stjórn-gryfjunni og þurfti bara að muna eftir að bæta sjó í reglulega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.3.2009 | 11:01
Evran og Sjálfstæðisflokkurinn
Ef Sjálfstæðisflokkurinn, landsfundurinn, hefði samþykkt að taka Evrópumálin af dagskrá hefði verið rétt að leggja flokkinn niður í núverandi mynd. Það hefði þá verið hægt að stofna einhvern klúbb á rústunum. Ef flokkurinn ætlar ekki að taka upp vitræna og rökstudda umræðu um þessi mikilvægu pólitísku málefni, mun hann ekki flá feitan gölt í kosningunum.
Það er alveg rétt hjá Kristjáni Þór að einhliða upptaka evru er tálsýn. Það hafa allir séð sem horfa raunsætt á þessi mál. Ekki er hægt að notast við krónuna áfram, nema við sættum okkur við lakari lífskjör en gengur í löndunum í kringum okkur. Við getum notað krónu og verið utan ESB ef við ætlum að byggja á sjávarútveg og landbúnaði eins og framtíðarsýn eins frambjóðanda af NV lýsti í grein nýlega. En ef við viljum byggja á mannauð og þekkingu, þá verðum við að vera þátttakendur í samfélagi þjóðanna. Fyrrverandi forstjóri Marel lýsti því yfir á fundi í vikunni að stóru þekkingarfyrirtækin væru öll að hugsa sér til hreyfing frá Íslandi, ef þjóðin ætlar að standa utan ESB um ókomin ár.
Eins mikla virðingu og ég hef borið fyrir Birni Bjarnasyni veldur hans afstaða mér miklum vonbrigðum. Ekki bara að vera á móti umsókn, heldur rakaleysi og fullyrðingar hans um að við myndum afsala okkur fiskveiðaauðlindinni. Annað hvort veit Björn ekki betur eða þetta er argasta lýðskrum. Undirritaður hefur kynnt sér vel þessi mál og komist að því að vel má semja um fiskveiðimál við ESB. Þá á ég við án þess að sambandi breyti stofnsamþykktum sínum, sem það mun aldrei gera. Ég setti þetta fram, vel rökstutt á Evrópuvef Sjálfstæðisflokksins. Ekki minnist ég að Björn hafi verið á meðal margra sem gerðu athugasemdir við greininni. E.t.v. er hann yfir það hafin að ræða svona mál við óbreyttan Sjálfstæðismann.
Ég skora á minn gamla og góða stjórnmálaflokk að söðla um og hefja alvöru umræðu um þessi mál. Láta rökin ráða en ekki upphrópanir og lýðskrum. Þetta minnir svolítið á ,,kvótagreifa" umræðu Fjrálslynda fokksins, og þá er leiðum að líkjast.
![]() |
Evra ekki í sjónmáli næstu ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.3.2009 | 17:18
Ferðin til Murchison - seinni hluti

Á slaginu hálf sex vöknuðum við upp við að hellt var vatni í blikkdolluna fyrir morgun sturtuna. Dagurinn var tekin snemma enda dagskráin þétt þennan laugardag í frumskógi Úganda. Enn var svarta myrkur þegar við mættum til morgunverðar klukkan sex en við áttum að mæta til ferju sem flytja átti okkur yfir Níl klukkan sjö.
Ferjustæðið var í um tuttugu mínútna keyrslu frá gististaðnum og blóðrautt sólarlag litaði ánna og gaf tóninn fyrir frábæran dag. Á skrifstofu þjóðgarðsvarða var okkur sagt að leiðsögumaður byði okkur handan árinnar, hann héti Georg og þekkti garðinn eins og handabakið á sér.
Goggi var snaggaralegur karl á sextugsaldri og hafði starfað í garðinum í 37 ár. Hann minnti mig á persónu sem Peter Sellers lék í bíómyndinni "The Gardner", um mann sem hafði verið garðyrkjumaður í sama garðinum alla sína ævi þangað til hann kom loks út einn daginn og þekkti veröldina fyrir utan lítið. Goggi hafði örsjaldan komið til Kampala en hafði eytt stærsta hluta ævinnar í Murchison Falls þjóðgarðinum. Mjög greindur og skemmtilegur karl og þekkti dýrin og gróðurinn út og inn, en vissi lítið um hinn stóra heim fyrir utan. Vopnaður AK 47 Kalasnikov riffli til að verjast villidýrum og góðum kíki til að finna dýrin sem sýna átti okkur.
Við höfðum ekið skamman spöl þegar hjörð af gíröffum birtust og síðan tóku buffalóar, villisvín og alls kyns antilópur við. Mikið er að bavíönum, en þeir eru leiðinda dýr, ágeng sníkjudýr og kunna ýmis trix til að hrella mannskepnuna.
Það er ólýsanleg stemming að sjá öll þessi villtu dýr í sínu rétta umhverfi og hlusta á alla þekkinguna sem rann upp úr Gogga við aksturinn um þjóðgarðinn. Við leituðum lengi að ljónum og pardusdýrum, en án árangurs. Hinsvegar var gaman að fylgjast með hvernig Goggi notaði þekkingu sína á högum dýrana til að finna þau. Við sáum mikið af flóðhestum og hann sýndi okkur slóðirnar um skógin eftir þessi klunnalegu dýr, en þau leita matar á nóttinni en liggja síðan í vatninu yfir daginn. Við sáum fílahjarðir úr fjarska en Afríski fíllinn er ekkert gæludýr, líkt og frændi hans í Asíu.
Við ókum meðfram bökkum Nílar þar til við komum að ósasvæði árinnar þar sem hún rennur í Albert vatnið og þar stöðvuðum við bílinn nálægt þremur fílum. Hann þekkti þessi dýr og við stigum út og gengum í áttina að þeim. Mér fannst ég geta teygt mig í þá en óvenjulegt er að komast í slíkt návígi við Afríska fílinn. Einn þeirra var með hálfan rana þar sem hann hafði lent í dýraboga fyrir nokkrum árum og misst framan af honum. Engu að síður gat hann bjargað sér en raninn er fílnum mjög mikilvægur.
Við komum á ferjusvæðið um hádegisbilið þar sem við biðum fljótabátsins sem taka átti okkur upp ána að Murchinson fossum. Gistihúsið hafði búið okkur út með nestisbox fyrir hádegismat og sátum við á bekk við lendinguna til að njóta málsverðarins. Bavíanarnir voru kræfir og náðu að grípa hluta af nesti Stínu, en sem betur fer vorum við með myndavélina um hálsinn, en þeir stela slíkum gripum ef maður leggur þá frá sér. Bíllinn var læstur enda geta þeir hæglega opnað bílhurð.
Goggi var leiðsögumaður okkar upp ána en rúma tvo tíma tekur að sigla upp að fossum. Mikið var af vatnahestum, krókódílum og fílum á leiðinni, einnig er fuglalíf mikið við árbakkana. Ekki fór mikið fyrir fossunum, þó þér séu með þeim vatnsmestu í heimi með þúsund tonna rennsli á sekúndu, enda fjarlægðin frá endastöð bátsins í þá töluverð. Þetta voru ákveðin vonbrigði en við ákváðum að aka daginn eftir upp að þeim og skoða fossana betur. Siglingin niður Níl gekk vel enda straumurinn töluverður í ánni. Við tókum síðan ferjuna yfir fljótið og ókum sem leið lá til Nile Safari Lodge þar sem okkur beið nýveidd tilapia í kvöldmatinn.
Áður en við fórum á veitingastaðinn fengum við okkur Moet kampavín á svölunum og horfðum á kvöldsólina speglast í Níl. Við gleymdum reyndar tómri flöskunni á veröndinni og viti menn; hún var horfin þegar við komum til baka. Apakettirnir höfðu stolið henni en varð ekki kápan úr klæðinu að drekka innihaldið, enda höfðum við Stína séð um það.
Við komum að fossunum um ellefu leytið og fengum okkur göngutúr meðfram þessu mikla vatnsfalli sem er rúmlega tvöfalt vatnsmeiri en stærsta vatnsfall Íslands, Ölfusá.
Mér varð hugsað til Samuels Baker sem fann fossana 1864 og sló því föstu að þeir væru upptök Nílar og kom með þá vitneskju til Landafræðistofnunar Bretlands. Skýrði þá reyndar í höfuðið á forseta stofnunarinnar en vötnin við Níl bera nöfn úr konungsfjölskyldu Breta.
Ég skil ekki í Samma að hafa ekki rölt þessa fáu metra, 80m fallhæð, upp á brúnina til að sjá að Níl var hvergi lokið og teygði sig austur og suður í gegnum Lake Koyoga og alla leið til Jinja við Viktoríuvatn. Þar eru upptök þessa mikla vatnsfalls, sem reyndar er í mýflugumynd á þessum slóðum, miðað við það sem síðar verður eftir að hafa runnið í gegnum Súdan og Egyptaland.
En kannski var Samuel orðin þreyttur og uppgefinn eftir ferðalagið upp ána, en flóðhestur hafði hvolft bát hans rétt áður en komið var að fossunum. Áin morandi af þessum hættulegu skepnum ásamt krókódílum. Flóðhestar eru hættulegustu dýr Afríku, eða að minnsta kosti verða flestum mönnum að bana, en þeir geta bókstaflega klippt mann í sundur með risavöxnum skoltinum. Það er þó gert í sjálfsvörn enda eru þeir grasætur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.3.2009 kl. 07:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2009 | 08:28
Ferðin til Murchison Falls - fyrri hluti
Ferðin til Murchison Falls var stórkostleg í alla staði. Sprengdi væntingarskalann svo um munaði. Reyndar lentum við í smá basli í upphafi þar sem treyst var á GPS tæknina, en þjóðvegurinn á leiðarenda var nýr og ekki kominn inn á stafræna kortið. Það kostaði einhverja króka enda er merkingum verulega ábótavant í Úganda og oft erfitt að spyrja til vegar.
En inn í þjóðgarðinn rötuðum við og eftir smá ógöngur fundum við Nile Safari Logde og áður en við náðum að stíga út úr bílnum birtist þjónustustúlka sem kynnti sig og bauð okkur velkomin. Áður en við komum upp orði var þjónn mættur með blauta klúta svo við gætum þurrkað af okkur ferðarykið og þarna var komin forsmekkurinn af því sem koma skyldi í þjónustulund á þessum frábæra gististað.
Staðurinn lætur lítið yfirsér við fyrstu sýn og virðist vera röð af allstórum strákofum en þegar betur er gáð koma í ljós röð af gistiskálum sem minna óneitanlega á gamlar safarí bíómyndir. Manni bókstaflega verkjaði undan þjónustunni, svo góð var hún, með þjón við hvert fótmál sem tóku á móti okkur, buðu okkur velkomin og kynntu sig og þjónustu sína. Vertinn bauð okkur upp á hádegisverð, en við komum um hádegisbil eftir rúma fimm tíma ferðalag, og rétti okkur síðan matseðil kvöldsins og bauð okkur að velja það sem okkur hugnaðist. Annar kynnti sig sem húsþjón okkar og sagðist þurfa lykilinn þegar við færum í kvöldverð til að hafa allt klárt fyrir nóttina. Rafmagnið yrði tekið af kl. tíu og því aðeins um olíuluktir og og kerti eftir þann tíma. Næsti þjónn bar ábyrgð á að hafa vatn í sturtunni, sem var 20 lítra blikkfata hengd fyrir utan skálann og varin með steinhleðslu í kríng. Við báðum um kalda sturtu kl. 18:00 og nákvæmlega á mínútunni heyrðum við bjástrað við dolluna og vatni hellt á hana.
Sólarlagið þennan föstudagseftirmiðdag var ótrúlega fallegt og rauðleit birtan varpaði ævintýrablæ á allt umhverfið þar sem kvöldsólin speglaðist í Níl. Handan fljótsins mátti sjá hjörð af vatnahestum reka trýnið upp úr vatnsborðinu og fílahjörð þrammaði um skógi vaxnar gresjurnar.
Það var þó ekki fyrr en eftir kvöldmatinn og við sátum á svölum á skálans sem við vorum algerlega bergnumin yfir umhverfinu. Frumskógarhljóðin voru ótrúleg og allt virtist svo nálagt okkur, enda við stödd í miðjum frumskógi. Myrkrið var skollið á og fljótlega slökktum við á kertaljósinu og létum takmarkaða birtu stjarnana duga. Við sáum apaketti sveifla sér í trjágreinunum og hljóðið í vatnahestunum var eins og þeir væru innan seilingar. Þeir rumdu og maður heyrði frussið þegar þeir blésu frá sér loftinu við komuna upp á yfirborðið. Heyra mátti í alls kyns skordýrum og vantaði bara öskur í svöngu ljóni. Þetta var ólýsanleg upplifun og nálægð frumskógarins yfirþyrmandi.
Skálinn var reyndar þak með flugnaneti allan hringinn og því lék blærinn um rúmið sem stóð á miðju gólfinu. Við hlustuðum á froska kallast á þar sem karlinn var neðar í ánni en kerlingin ofar. Hann með djúpt kvakið og hún með hærri tón. Þau kölluðust sífellt á og maður heyrði hvernig bilið á milli þeirra minnkaði og um það leiti sem svefninn tók völdin komu hljóðin úr sömu átt, beint undir svölunum hjá okkur. Þau höfðu fundið hvort annað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.3.2009 kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.3.2009 | 06:28
Útslit prófkjörs Sjálfstæðismanna í NV kjördæmi
Ég tel að úrslitin séu ákveðin varnarsigur fyrir Einar Kristinn þar sem þrír frambjóðendur frá Vestfjörðum sóttust eftir fyrsta sætinu og þrír þeirra lentu í fjórum efstu. Það hefur örugglega haft mikil áhrif að tvær mjög hæfar konur sóttust eftir þessu sæti og árangur þeirra er óumdeildur. Að sjálfsögðu áfellist ég þessar konur, Birnu og Eyrúnu, á engan hátt. Það er öllum frjálst að gefa kost á sér og engin regla á að ráða þar um. Ég fullyrði hinsvegar að þetta hefur haft áhrif á niðurstöðuna. Nú er bara að vona að Eyrún nái inn í kostningunum þó að um þungan róður sé að ræða. Ég get fullyrt að hún hefur notið stuðning Sjálfstæðismanna á norðanverðurm vestfjörðum, þar sem ég þekki vel til þar.
Ásmundur er óþekkt stærð í mínum huga og ég þekki ekkert til hans. Ég vona bara að hann standi undir þeim væntingum sem til hans eru nú gerðar, sem leiðtogi framboð Sjálfstæðisamanna í NV kjördæmi. Það mun fljótlega koma í ljós hvort hann stendur undir þeirri miklu ábyrgð og sannarlega vona ég að svo sé. Ég vona að hann noti sér reynslu og mannkosti Einars í þeirri báráttu sem framunand er.
Það eru að vísu vonbrigði fyrir mig sem stuðningsmanns Einars Kristins að hann skyldi ekki ná fyrsta sætinu en ásamt áður nefndum rökum hefur krafan um endurnýjun ráðið einhverju um. Ég er mjög hræddur við að poppulismi taki nú við í Íslensku þjóðfélagi og krafa um að allir sem hafa reynslu og þekkingu sé hent fyrir róða til að láta nýja vendi sópa betur. Ég vil taka því fram að undirritaður var harður í þeirri afstöðu sinni í upphafi bankahrunsins að forystumenn Sjálfstæðisflokksins ættu að bera ábyrgð á því sem gerðist, og þar hafi einstaklingar en ekki stefna brugðist. Sterk krafa kom frá Sjálfstæðismönnum á Ísafirði um að forsettsráðherra og fjármálaráðherra ættu að víkja, enda hefðu þeir ekki staðið undir þeirri ábyrgð sem þeim var falin. Sjálfstæðisflokkurinn ber að sjálfsögðu ábyrgð á hruninu og mikilvægt að flokksmenn viðurkenni það áður en uppbygging hefst. Í mínum huga hefði Einar Kristinn verið góður í þeirri áhöfn sem þarf til að byggja upp flokkinn og tryggja aðkomu hans að þeirri uppbyggingu sem framundan er í Íslensku samfélagi. Hann hefur verið góður sjávarútvegsráðherra og sýnt að honum er treystandi fyrir ábyrgð og vandasömum verkum. Ég vona að Ásbjörn rísi undir þeim kröfum og stýri sinni áhöfn til árangurs í komandi alþingiskosningum. Sporin hræða þegar horft er til stjórnar landsins undanfarna mánuði þar sem poppulismi ræður ríkjum með fáti og fumi ráðherra í stjórn landsins. Það liggur mikið við þessa dagana.
![]() |
Ákveðin krafa um endurnýjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.3.2009 | 18:07
Á vit ævintýranna
Í fyrramálið leggjum við hjónin á vit ævintýranna í ferðalag um Afríku og heimsókn í stærsta þjóðgarð Úganda, Murchison Falls. Við munum gista þar í lúxustjaldi á bökkum Nílar og njóta lystisemda Afríku.
Við notumst við nýjustu tækni við að rata en allir punktar eru í GPS tækinu og bara að treysta á tæknina. Við munum ganga upp með fossunum og fara síðan í gönguferð um þjóðgarðinn í fylgd með einka-leiðsögumanni, sem eðli málsins samkvæmt þarf að bera byssu um öxl, enda von á alls kyns villidýrum á þessum slóðum. Sigling á Níl og síðan að njóta veitinga og aðbúnaðar á heimsmælikvarða.
Stemmingin verður svona svolítið Agata Christy stemming og eins gott að ekki verði framið morð á staðnum. Það gæti tafið okkur að láta Hercule Poroite eyða nokkrum dögum í að finna út hver morðinginn er.
En á vit ævintýranna. Kominn tími til að hrista upp í tilverunni og hafa gaman af lífinu.
12.3.2009 | 05:31
Umsókn í ESB og Sjálfstæðisflokkurinn

Eftirfarandi listi yfir sjálfstæðismenn er tekin af heimasíðu Hjartar J. Guðmundssonar. Ekki er hann tæmandi og sakna ég t.d. Einars Guðfinsssonar af honum, sem ég held að fylli síðasta hópinn. Ekki að hann styðji ingöngu en vill fyrir alla muni leyfa þjóðinn að ákveða það með þjóðaratkvæaðgreiðslu.
Eru andvíg umsókn um inngöngu í Evrópusambandið (16):
Birgir Ármannsson
Elinóra Inga Sigurðardóttir
Erla Ósk Ásgeirsdóttir
Grazyna María Okuniewska
Gréta Ingþórsdóttir
Guðfinnur S. Halldórsson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Hjalti Sigurðsson
Jón Kári Jónsson
Loftur Altice Þorsteinsson
Pétur H. Blöndal
Sigríður Ásthildur Andersen
Sigurður Kári Kristjánsson
Valdimar Agnar Valdimarsson
Þorvaldur Hrafn Ingvason
Þórlindur Kjartansson
Segja ekki tímabært að sækja um inngöngu í Evrópusambandið (3):
Jórunn Frímannsdóttir Jensen
Sigríður Finsen
Sveinbjörn Brandsson
Segjast andvíg inngöngu í Evrópusambandið en vilja engu að síður viðræður um inngöngu (2):
Ásta Möller
Illugi Gunnarsson
Eru hlynnt því að sótt verði um inngöngu í Evrópusambandið (8):
Dögg Pálsdóttir
Guðmundur Kjartansson
Guðrún Inga Ingólfsdóttir
Gylfi Þór Þórisson
Ingi Björn Albertsson
Jón Magnússon
Kolbrún Baldursdóttir
Ólöf Nordal
Eins og staðan er í dag þá eru nánast engar líkur á að íslenska krónan eigi sér framtíð. Það er að fullu reynt að notast við slíka örmynt á tímum alþjóðavæðingar og samþjöppunar hagkerfa heimsins. Einhliða upptaka annarrar myntar virðist þyrnum stráð og því fylgir gríðarleg áhætta þar sem d.t. kostir við inngöngu í evrópskt myntbandalag nást ekki með því, en mikil áætta fylgir því. Með einhliða upptöku dollars eða evru væru engar varnir til ef markaðir misstu tiltrú á íslenskt efnahagslíf og þá gæti hver sem er tekið gjaldeyrir með í töskum úr landinu, þar sem ekki væri komið við neinum vörnum, eins og eru t.d. í dag.
Meirihluti sjálfstæðismanna virðast vera á móti umsókn í ESB og þá hlýtur að vera sú krafa á þá að benda á aðrar leiðir í peningamálum þjóðarinnar. Bloggari hefur aldrei séð neitt vitrænt í þeim efnum. Reyndar er umræða flestra sjálfstæðimanna um málefni ESB yfirborðskennt og byggð á slagorðum eins og ,,valdið til Brussel" ,,Brussel klíkan" og svo framvegis og það telja þeir boðleg skilaboð til sinna kjósenda. Bent er á hvernig ESB hafi farið með Íslendinga í IceSave málinu þess til stuðning hversu vondir þeir eru í þessu sambandi.
Þetta er ekki boðlegt og nauðsynlegt fyrir sjálfstæðismenn að koma með vandaðri umræðu um þessi mál. Bloggari hefur bent á það í rökstuddu máli að líklegt sé að viðunandi samningar geti náðst við ESB í sjávarútvegsmálum. Samningur um landbúnaðarmál verður íslenskri þjóð örugglega hagfeldur.
Það vantar framtíðarsýn frá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins og síðan stefnumótun um hvernig eigi að ná henni. Skýr auðskilin og trúverðug framtíðarsýn er einmitt það sem þjóðin þarf nú, til að öðlast sjálfstraust og vilja til að byggja efnahag landsins upp. Takist þetta verða íslendingar sennilega með þeim fyrstu sem ná sér á strik eftir hrunið.
Við sátum hér tveir félagar í Kampala og ræddum málin sendiherra Belgíu. Umræðuefnð var bankahrunið á Íslandi og framtíðaráform Íslendinga í penigamálastórn. Það má segja að rétt sé haft eftir núverandi viðskiptaráðherra að Íslendingar hafi aldrei getað stjórnað peningamálum sínum, þó steinin hafi tekið úr siðustu árin, undir stjórn Davíðs Oddssonar. Sendiherran sagði okkur frá því hversu miklar breytingar hefðu orðið fyrir íbúa með upptöku evru. Hvort sem það eru ferðamenn sem þvælast yfir landamæri og alls staðar er sama myntin og hægt og bítandi hefur þetta áhrif á samkeppni sem er íbúunum til góða. Sérstaklega hefur myntin þó áhrif á viðskipti þar sem menn þurfa ekki að búa við sveiflur á gjaldeyrismarkaði og geta gert sínar áætlanir með meira öryggi.
Það er ljóst að engin alsherjarlausn felst í myntsamstarfinu en þó er ljóst að þau ríki ESB, fyrir utan Breta, sem enn standa utan EMU vilja komast þangað inn sem fyrst. Hafa beðið um undanþágur og flýtimeðferð sem ekki er líklegt að þeir fái. Þar er verið að tala um undanþágur frá Maastricht sáttmálanum.
Bloggara finnst þetta snúast um hvað sé þjóðinni fyrir bestu í framtíðinni. Ekki stjórnmálaflokkum eða stjórnmálamönnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.3.2009 | 16:59
Fullt tungl
Það nálgast fullt tungl og þá fá vinir bloggara á Sri Lanka sinn Poya dag og frí frá vinnu eða skóla. Tunglið skipar mikinn sess í búddisma og reyndar kristni, enda eru t.d. páskar miðaðir við tunglgang. Það eru reyndar gömlu mánuðir okkar íslendinga, þorri, harpa o.s.fr. Tunglið var tímamælir fyrir gömlu landbúnaðarsamfélögin og allt miðaðist við hvenær fullt tungl var. Heima má þekkja stækkandi mána með því að þegar hægt er að grípa með vinstri hendinni inn í hálfmána, er hann stækkandi. Hér á miðbaug snýr tunglið öðruvísi þar sem gripið er undir það við vaxandi mána og ofaní það við minnkandi.
Nútíma rannsóknir benda til að tunglið af byrjað sem risavaxin hraunsletta úr jörðinni og hafi i fyrstu snúist marga hringi á sólarhring kringum jörðina í tiltölulega lítilli hæð. Fjarlægðin hefur síðan verið að aukast og tunglið fjarlægist okkur um rúma þrjá sentímetra á ári hverju og hægir þá jafnframt á sér.
Tunglið hefur gríðarleg áhrif á lífið á jörðinni og þarf ekki að benda á annað en flóð og fjöru sem orsakast af aðdráttarafli þess sem dregur yfirborð heimshafanna til sín. Það er ekki tilviljun að flóð er tvisvar á sólarhring, enda fer tunglið tvo hringi kringum jörðina á dag. Seinni tíma rannsóknir benda til að tunglið hafi miklu meiri áhrif á jörðina, t.d. með því að halda jafnvægi á halla hennar og halda honum stöðugum í gegnum hringsól jarðar kringum sólina. Jörðin hallar hvorum helming, norður og suðurhveli, um 23 gráður að sólu, sem orsakar árstíðirnar. Miðbaugur snýr næst sólu í kringum 21 mars og í framhaldi byrjar jörðin að snúa norðri meira að sólu og þá vorar á norðurhveli. Hallinn nær síðan hámarki 21 júní og þá er hásumar á Íslandi og í framhaldi fer jörðin að snúa til baka þar til suðurhveli snýr næst sólu 21 desember, sem er að sjálfsögðu stysti dagur á Íslandi. Tunglið skiptir miklu máli til að halda þessari reglu og halda jörðinni í jafnvægi við æfingar sínar.
Svo er að sjálfsögðu áhrif tunglsins á rómantík þegar fullt tungl skín og kveikir þrá í brjóstum jarðarbúa sem fyllast ástarbríma. Rómatísk áhrif tunglsins er ekki á verksviði vísindamanna og þarf ekkert að sanna né afsanna. Eins það að tunglið hafi alls kyns önnur áhrif, allt frá að rjómi fljóti ofaná í mjólkurbrúsa til þess að menn breytist í varúlfa í fullu tungli. Vísindin hafa nóg annað að gera og geta bara látið slíka hluti eiga sig.
Gangi spá eftir heima á Ísafirði gæti rofað til og íbúar notið fulls tungls, eða hér um bil. Vonandi hefur það tilætluð áhrif og best ef slíkt ber ávöxt níu mánuðum seinna. Þá er tunglið farið að fjölga Íslendingum, sem er hið allra besta mál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.3.2009 kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2009 | 07:00
Kafli 3 - Kea og Paros
Ferðin frá Corinthos skurðinum til Piraeus, hafnarborgar Aþenu, gekk vel. Það er ekkert grín að sigla inn í höfn eins Piraeus þar sem umferðarþungi er mikill og stór skip á fullri ferð í allar áttir. Við þurftum að ræða við hafnaryfirvöld í talstöðinni til að fá heimild til að koma inn og leiðbeiningar hvar í höfninni við ættum að vera. Allt gekk þetta vel og vorum við búnir að binda bátinn upp úr miðnætti. Við Sverrir vorum að sjálfsögðu óþreyjufullir að hitta spúsur okkar sem biðu á gistihúsi í Aþenu. Við röltum af stað út í nóttina og þvældumst um höfnina án þess að rekast á nokkra sálu né finna leigubíl. Loksins fundum við einn og innan klukkustundar vorum við komnir í faðm okkar heittelskuðu, komumst í heitt bað og fengum ástúðlega meðhöndlun. Stína var ánægð að hitta eiginmanninn og með henni í för var tveggja ára gömul dóttir okkar, Hafdís. Hafdís var afskaplega fyrirferðarmikli og kraftmikil stelpuhnokki og venjulega fullt starf að passa hana of hafa ofan fyrir henni. Hún var að sjálfsögðu ánægð að sjá skeggjaðan skipstjórann, föður sinn, eftir nokkra vikna siglingu frá Mallorka.
Daginn eftir sagði öll áhöfnin upp sem kom okkur Stínu algerlega í opna skjöldu. Við höfðum ekki reiknað með að vera tvö með tveggja ára barn með okkur á siglingu um Eyjahafið, en við vorum svo sem vön að höndla Bonny í sameiningu. Bæði með skipstjórnarpróf og jafnvíg í siglingafræði og að höndla bát og segl. Við lögðum því þrjú af stað næsta morgun og lá leiðin fyrst til eyjarinnar Kea.
Kea er frábær staður og eins og á öðrum eyjum gríska Eyjahafsins er sjálfur bærinn upp í fjalli, nokkra kílaómetra frá höfninni. Þetta hefur verið svona frá gamalli tíð og til að auka öryggi bæjarbúa, en betra var að verjast upp í fjöllum en niður við sjóinn. En þokkalegur byggðakjarni er við höfnina og mikið af veitingastöðum. Á þessum slóðum er venjan að kasta akkerinu út í góðri fjarlægð frá bryggjunni og bakka síðan upp að kantinum. Binda hanafót upp að aftan og strekkja svo á akkeriskeðjunni þar til fjarlægð frá skut í land var rúmur metri. Þá var settur gönguplanki í land sem tengdi skip og bryggju.
Grísk tónlist dunaði og upplýst veitingarhúsin lágu hlið við hlið upp allan kæjann. Við drifum okkur í land og settumst á matsöluhús sem okkur leist vel á og svo var bara að skiptast á að hafa ofan fyrir Hafdísi meðan hinn helmingurinn naut viðgerninga grískra matreiðslumanna. Hún var á stöðugum hlaupum um hafnarsvæðið og þurfti að skoða allt og spyrja um alla hluti.
Eftir Kea var stefnan tekin á Paros. Á þessum slóðum er viðvarandi sunnan átt, sem kölluð er Meltima vindur og því mjög skemmtilegt að sigla. Það kom fljótlega í ljós að þrátt fyrir yfirnáttúrlegt úthald og þrek sitt þá var Hafdís mjög róleg á siglingu. Við settum fötu fulla af sjó stjórn-gryfjuna og settum hana ofaní þar sem hún sullaði allan daginn. Það þurfti bara að bæta við sjó reglulega og þá var mín manneskja ánægð og lét hallan í beitivindinum ekkert trufla sig. Eftir skemmtilega siglingu komum í höfn á Paros um kvöldleytið og lögðumst að bryggju með hefðbundnum hætti.
Paros er vinsæll ferðamannastaður og mikill handagangur í öskjunni með fjörugu mannlíf i á götum og torgum. Seinnipart næsta dags fórum við í bæinn, sem var steinsnar frá höfninni, til að finna okkur veitingahús fyrir kvöldverð. Eftir að hafa spurt til vegar og fengið upplýsingar um besta pizzu staðinn í bænum settum við stefnuna þangað. Þegar nær dró veitingastaðnum heyrðum við kunnuglega rödd glymja við og segja ,,What do you think of the vikings?" Þarna var ekki bara kominn Bári Gríms heldur öll fyrrverandi áhöfn Bonnýar ásamt eiginkonu Sverris, Björk. Sverrir og Björk höfðu rekist á Bára, Ella og Simma fyrir algera tilviljun og nú bættumst við Stína og Hafdís í hópinn. Það voru fagnaðarfundir og ákveðið að borða saman þarna á pizzastaðnum. Ég tók hinsvegar hátíðlegt loforð af Bárði að minnast ekki orði á víkinga meira. Þegar leið á máltíðina sem menn skoluðu niður með grískum bjór sá ég hvar Bári greip í öxlina á einum þjóninum og dró hann varlega að sér og hvíslaði ,,What do you think of the vikings?" Hann gat bara ekki stillt sig en þjónninn vissi ekki hvað stóð á sig veðrið og skildi ekkert hvert þessi undarlegi maður var að fara.
En allt í einu var Hafdís horfin og nú hlupum við Stína af stað að leita að henni í mannhafinu á aðal torginu á Paros. Við bókstaflega hlupum um allt kallandi nafn hennar en árangurslaust, þar til komum upp í gamalt ræðupúlt úr steini sem var við torgið að þá sat mín manneskja þar með grískum félaga á svipuðu reki að leika sér með flöskutappa.
Seinna um kvöldið rákumst við á norðmenn, sem okkur þóttu reyndar svolítið sjálfumglaðir en þeir voru þarna á skútu, nokkuð stærri og flottari en Bonny. Þeir höfðu ákveðið að fara daginn eftir siglandi á litla eyðiströnd norð-austur af höfninni í Paros og eyða einum degi og nótt þar við sund og sólböð og grilla síðan um kvöldið. Þeir buðu okkur að slást í hópinn sem við þáðum og lagt var af stað í bítið daginn eftir. Siglingin tók innan við klukkutíma og við vörpuðum akkerum í víkinni og syntum síðan í land. Þegar þangað kom hittum við tvær írskar stúlkur á evruklæðum einum saman, en á þessari strönd var léttur klæðnaður nokkuð algengur,. Ströndin er ekki tengd með vegi við byggð á eyjunni og eina aðgengið er af sjó, og því venjulega fámennt þarna. Við sátum og spjölluðum við stúlkurnar sem síðan buðu okkur upp á hádegisverð sem við þáðum. Þarna á ströndinni réði ég aðra þeirra, Pauline, í vinnu og í rækjuverksmiðjuna á Ísafirði og átti hún að mæta 10. Október kl. 8:00 sharp. Allt gekk það eftir og á þeim degi var Pauline mætt til vinnu á Ísafirði og var hún starfandi hjá okkur Stínu næstu tvö árin.
En nú bættust norðmennirnir í hópinn sem dró frekar úr ánægjunni. Við fórum því að safna spreki á varðeld og grill kvöldsins. Við fundum gamlan slipp sem munkar höfðu rekið fyrr á öldinni og þar var mikið magn af eikarbútum sem hentuðu vel á grillið. Þegar logarnir hurfu og glóðin ein var eftir var kjötið sett á og nú slógum við upp heljarinnar veislu þar sem öllum hópnum var boðið. Eftir matin var náð í gítar og spilað og sungið fram í stjörnubjarta nóttina. Máninn merlaði í haffletinum og mótaði fyrir seglskútunum þar sem þær vögguðu letilega út á víkinni. Fegurð kvöldsins og notalegur bríminn af áfengi hafði áhrif á þennan fámenna hóp og ástin lá í loftinu. Einn fyrrverandi áhafnameðlimur Bonnýar hafði slegið sér upp með vinkonu Paulinar en sjálf hafði hún lent með einum norðmanninum. Það þótti okkur illt í efni þar sem hún var bráð myndaleg og örugglega allt of góð fyrir þessa sjálfumglöðu Norðmenn. En Hafdís var hin rólegasta og svaf svefni hinna saklausu milli pabba síns og mömmu við kulnandi varðeldinn.
Um morguninn þegar við vöknuðum var sólin komin upp og Bonny vaggaði notalega í rólegri haföldunni sem lagði inn á víkina. Norska skútan var í 200 metra fjarlægð og fljótlega sáum við hreyfingu þar um borð. Vinkona okkar var sannarlega þarna en við vorum viss um að það gæti ekki verið skemmtileg vist hjá henni. Fljótlega var kominn galsi í mannskapinn í Bonny og við byrjuð að skutla okkur í hlýjan tæran sjóinn með busli og ærslagangi. Allt í einu sáum við hvar Paulin stóð upp, hún var enn á evruklæðum, gekk hægum skerfum fram á stafn skúturnar og sveif síðan í mjúkum boga þar til hún klauf renni slétta hafflötin og hvarf í hafið. Hún tók sterkleg ó ákveðin sundtök með stefnu á Bonny og var komin um borð til okkar innan stundar. Hún fór aldrei meir um borð í Norska bátinn og taldi sig vera í mun betri félagskap með Íslendingunum. Þetta var sko upprennandi rækjukerling.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2009 | 06:44
Ferð II um Úganda
Við lögðum af stað að morgni þriðjudags og ferðinni var heitið til lake Albert og Kyoga, heimsækja héraðsstjóra, fiskimálastjóra og löndunarstaði. Við Alfred höfðum fengið annan bílstjóra sem virtist mun betri ökumaður en sá fyrri, en líkt of flestir ökumenn hér þá var honum illa við að hleypa snúningnum á vélinni upp. Passaði að snúningur færi ekki yfir 1000 rpm og var kominn í fimmta gír á fjörutíu. En hann kunni að keyra, að öður leiti.
Fyrst var ferðinni heitið til Nakasongola héraðs þar sem héraðsskrifstofurnar voru fyrst heimsóttar og fundað með yfirmönnum. Fiskimálastjórinn ætlaði síðan með okkur niður á löndunarstað en fyrst þurfti að kaupa bensín á bátinn, en í þetta sinn þurftum við að fara yfir vatnið til að komast í annað hérað.
Við komum síðan á löndunarstaðinn Kibuye þar sem fundað var með yfirmönnum sammvinnufélags fiskimanna. Síðan var lagt á vatnið og samkvæmt GPS var vegalendin yfir um 12 kílómetrar. Kyoga vatn er að meðaltali sex metra djúpt er reyndar dalverpi sem Níl rennur um á leið sinni frá Viktoriu vatni á leið sinni til Alberts vatns. Það var logn og sólskyn og ekki laust við tíbrá þar sem fiskibátar virtust hanga í lausu lofti yfir vatnsborðinu og margs konar hillingar verða við slík skilyrði. Ferðin tók klukkutíma enda mótorinn lítill en gaman var að fylgjast með fiskimönnum að veiðum en allir fiskbátarnir þarna eru nútíma útgáfa af eintrjáningum með tveimur mönnum í áhöfn. Þessir bátar eru örmjóir en langir og eru því vel lagaðir til gangs undir árum.
Í landi norðan við vatnið var tekið á móti okkur af sýslumanninum sjálfum sem sýndi okkur löndunarstaðinn og vatnhreinsistöð fyrir samfélagið, sem reydnar var biluð. Bifreið beið okkar þarna til að skutla okkur á héraðsskrifstofuna en sýsluskrifstofan (sub-county) var skammt frá og þangað var haldið í fyrstu. Sýslumaðurinn elti á mótorhjólinu og síðan var sest niður á skrifstofu hans til að spjalla. Þarna er sýslumaðurinn stjórnmálamaður og því þurfti að lýsa þörfum bæjarbúa og hvað þeir gætu fengið út úr verkefni okkar í löngu máli.
Síðan var okkur ekið á héraðskrfistofuna sem er í klukkutíma keyrslu frá löndunarstaðnum og eftir hræðilegum vegi að fara. Maður þarf að passa að höfuðið skelli ekki í hurðarkarminn þegar farið er í dýpstu holurnar á veginum en umferðin var frekar lítil sem betur fer.
Okkur var vinsamlega tekið af héraðsstjóranum en ekki boðið upp á vott né þurrt til hressingar. Reyndar hefur okkur hvergi verið boðið upp á svo mikið sem tesopa á ferðum okkar og þar sem útilokað er að finna matsölur á þessum slóðum birgðum við okkur upp með kexi og vatni, sem venjulega þurfti að duga frá morgunverð til kvöldverðar. Ég velti fyrir mér þessari litlu gestrisni og hvort það tengdist fátækt fólksins þarna. En mér varð hugsað til ferða minna um Sri Lanka þar sem alltaf var boðið upp á eitthvað, þrátt fyrir sára fátækt íbúanna þar. Þetta hefur eitthvað með menningu íbúa að gera. Annað er að ef hægt var að finna veitingastað þá fylgdu oft nokkrir innfæddir með í matinn en tímalega áður en reikningurinn kom hurfu þeir eins og dögg fyrir sólu. Það var bókstaflega ætlast til þess að útlendingurinn greiddi gjaldið.
Það var farið að húma að kveldi á leiðinni til baka yfir vatnið. Kvöldsólin litaði allt rautt og allt í einu óð yfirborðið í smásíld og glitraði á hana silfraða í sólroðanum. Þegar í land var komið voru íbúar löndunarstaðarins að taka neysluvatn á brúsa. Þeir gera þarfir sínar í vatnið, baða sig, þvo þvott og leirtau og taka drykkjarvatnið á sama staðnum. Mér er sagt að venjulega sjóði þeir það ekki og því hryllilegt til þess að hugsa að fólk drekki þetta óhreina grugguga vatn alla daga. Enda er heilsa þeirra ekki góð og ofan á þá kvilla sem fylgja óhreinu vatni og alls kyns sníkjudýrum úr vatninu er eyðni mjög útbreidd meðal fiskimanna. Ein ástæða þess er að fiskimannasamfélögum fylgja mikil ,,karlmennska" þar sem staða kvenna er mjög veik og algengt að þeir taki sér ungar stúlkur á táningaaldri til skemmtunar. Eyðni breiðist því hratt út í þessum samfélögum og er allt að fimmföld miðað við meðaltal í Úganda og þá mikið sagt.
Það var langt liðið á kvöld þegar við komum til Masindi þar sem við fengum gistingu og góðan viðgerning. Snemma næsta morguns var haldið til löndunarstaðar við Níl, þar sem áinn rennur á leið sinni í Albert vatnið. Á leiðinni er ekið inn í Murchisen Falls þjóðgarðinn, þar sem brú liggur yfir Níl rétt neðan við mikla fossa. Ég smellti nokkrum myndum á leiðinni yfir brúnna en viti menn á bakkanum biðu okkar tveir hermenn gráir fyrir járnum og heimtuðu myndavélina. Bannað var að taka myndir af brúnni og þó engin skilti væru á staðnum um slíkt var ætlast til að ferðamaðurinn vissi svona augljósa hluti. Hermaðurinn var mjög ókurteis og reiknaði með að myndavélin yrði tekin eignarnámi, enda værum við örugglega stórhættulegir njósnarar. Hann var augljóslega að bíða eftir greiðslu til að leysa málið en það var okkur víðsfjarri. Eftir nokkrar stundar þref við manninn og félaga hans, sem hélt á risastórri Thompson vélbyssu, gafst hann upp og leyfði okkur að fara með myndavélina, án greiðslu.
Áfram var haldið í gegnum þjóðgarðinn á leið okkar á næstu héraðaskrifstofu þar sem fiskimálastjórinn og eftirlitsmaður bættust í hópinn. Við komum síðan á löndunarstaðinn Jakurnga á bökkum Nílar eftir ökuferð sem endaði utan vega þar sem gönguslóða var fylgt síðustu kílómetrana. Þarna biðu okkar fiskimenn og yfirmenn samfélagsins. Það sem vakti athygli mína var að þarna notuðu menn gamaldags eintrjáninga og sagði okkur einn fiskimaðurinn að þeir væru mun sterkari og endingarbetri en nýrri útgáfur af fiskibátum.
Við skutluðu síðan farþegum okkar aftur á héraðsskrifstofuna þar sem við áttum stuttan fund með aðstoðar héraðsstjóranum. Upp á vegg er mynd af konungi svæðisins, hans hátign Rowth Ubimu Philip Olreker Rauni III, sem er reyndar bara smákóngur við hlið þeirra þriggja stóru, frá Hoima og Kampala.
En nú var ferðinni heitið frá vestur Úganda til austurhlutans nálægt upptökum Nílar. Á ferð okkar ókum við í gegnum landsvæði sem fóru illa út úr stríðinu við Lord Resistance Army sem hefur verið íbúum í norður Úganda til mikilla hörmunga. Þorpin sem við ókum í gegnum höfðu lent í Kony sem er foringi uppreisnarmanna og drap tugi þúsunda landa sinna á árunum frá 1996 til 2006 þegar vopnahlé var gert. Kony er enn á lífi en er þessa dagana umkringdur af fjölþjóðaher í mýrarfláka í frumskógi í Kongó, skammt frá landamærum Úganda. Vonandi næst hann næstu daga og fær makleg málagjöld fyrir grimmdarverk sín.
Þegar við áttum um þrjá tíma eftir til áfangastaðar kom kall frá skrifstofunni að við þyrftum að mæta til fundar daginn eftir í Kampala. Það var því ekkert annað að gera en venda kvæði okkar í kross, snúa við og halda suður til höfuðborgarinnar. Það var langt liðið á kvöldið þegar við komum að borgarmörkunum þar sem allt stóð fast í umferðastíflu, sem er venjan en ekki undantekning. Menn aka hér ljóslausir og fara svona og svona eftir umferðarreglum. Mér varð hugsað til þessarar ferðar í myrkri akandi inn í dimma Kampala þegar ég sá frétt af bílslysi þar sem forsætisráðherrafrú Zimbabwe lést í gærkvöldi við svipaðar aðstæður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2009 | 18:52
Seinni ferð um Uganda
Að öllu óbreyttu leggjum við í nýja ferð í fyrramálið til Lake Kyoga til að heimsækja stæðiskrifstofur og löndunarstaði í kringum vatnið. Ef allt gengur að óskum verðum við komnir til baka á laugardag. Félagi minn Alfred er að leita að nýjum bílstjóra þar sem ég neita að fara með þeim fyrri aftur. Það er lágmarkskrafa að maðurinn kunni að keyra en sá sem ók okkur í fyrri ferðinni kunni það alls ekki. Tók af stað í öðrum gír og var kominn í fimmta á þrjátíu. Hann kveikti ekki ljósin þegar dimmdi fyrr en ég skipaði honum að gera það. Hann notaði ekki vinnukonur nema samkvæmt skipun og vildi helst vera á 170 km hraða.
Nei lífið er of gott til að hætta því með kunnáttulitlum bílstjóra á miklu meiri hraða en hann ræður við.
Í þessari ferð munum við aka í gegnum stærsta þjóðgarð Uganda, Murchison Falls. þar eru miklir fossar þar sem Níl steypist niður í þrönga gilskorninga með miklum drunum og látum. Ef ég man rétt var það Samuel Kaker sem fyrstur uppgötvaði fossana árið 1866. Þjóðgarðurinn er frægur fyrir dýralíf en þar eru fílar, flóðhestar, ljón, apar, gíraffar o.s.f.
Reyndar er ég búinn að bóka lúxustjald í Murchison Falls, með svölum yfir Níl, fyrir Stínu þegar hún kemur í heimsókn seinna í mánuðinum. Meiningin er síðan að ganga upp með fossunum og horfa yfir herlegheitin uppi á toppnum. Vonandi rekumst við ekki á ljón á leiðinni en lítil hætta er á fílum í fjallgöngu. Flóðhestarnir eru víst hættulegastir en þeir eru varla heldur í fjallgöngu um hábjartan daginn.
En hér er lífið golf fyrir utan vinnu og yfirleitt rennir maður sér við í klúbbnum, Uganda Golf Club, á leið úr vinnu og fer hálfan hring eða slær nokkrar kúlur á æfingasvæðinu. Bjórinn er ódýr í klúbbnum og ekki spillir grillað spjót af svínakjöti með djúpsteiktum matar-bönunum. Yfir átjándu holunni er risastórt auglýsingaskilti frá Toyota og í hvert skipti þegar skiltið kemur í ljós, svona við sextándu holu, dettur manni Beggi Óla í hug og jafnframt þyrstir mann í einn Tusker (góður Úganda bjór.
Sem sagt bankakreppan utan seilingar og áhyggjur víðs fjarri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2009 | 08:38
Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
Nú lá leiðin til Sikileyjar og viti menn að fljótlega eftir komu okkar til eyjarinnar fréttum við af hópi Íslendinga á vegum Útsýnar. Við ákváðum að kíkja í heimsókn og var okkur tekið vel, en nokkrir gamlir Ísfirðingar voru í þessum hópi. Farastjórinn frétti af þessum víkingum og kallaða okkur á sinn fund. Það var sjómannadagur framundan og spurningin hvort við gætum séð um dagskrá fyrir landkrabbana. Hann bauð okkur í staðin að fara á landsleik milli Íslands og Möltu í fótbolta sem yrði daginn eftir í Palermo.
Við slógum til en sjómannadagurinn var eftir tvo daga sem gæfi okkur hæfilegan tíma til að undirbúa, en hluti áhafnarinnar hafði reynslu af slíku frá ferðum Bonnýar við sólarströndum Spánar. Fótboltaleikurinn var mikil vonbrigði. Íslenska liðið lék illa og tapaði fyrir Möltu, á velli sem var nánast í einhverjum bakgarði í Palermo. Maltverskir áhorfendur voru sérlega ruddalegir og þess sérstaklega getið í héraðsblöðunum daginn eftir. Við vorum hálf beygðir eftir upplifunina en framundan var ábyrgðarmikið hlutverk og undirbúningur þegar hafin. Hátíðarhöldin yrðu haldin við sundlaug hótelsins sem Íslendingarnir gistu á. Við ákváðum að hafa stakkasund, froskalappahlaup, fótboltamót og ræðu fjallkonunnar ásamt ávarpi skipstjórans. Við skrifuðum leikrit og æfðum fyrir sjómannadaginn en skipstjórinn skyldi halda tölu sjómanna.
Hátíðin sló eftirminnilega í gegn og var áhöfnin hyllt sem hetjur á eftir. Heilmikil veisla tók við og skemmtu menn sér vel, en sumir urðu að ganga hægt um gleðinnar dyr þar sem ferðinni yrði haldið áfram daginn eftir.
Við kvöddum skemmtilegan hóp og lögðum af stað suður Messina sund milli Ítalíu og Sikileyjar og síðan stefn suður fyrir odda Ítalíu. Síðan var kúrsinn tekin á Corinthian skurðinn í Grikklandi sem er um á fimmta hundrað mílna sigling. Við sáum Ítalíu hverfa í morgunroðann daginn eftir og framundan var Ionian hafið. Áhöfnin var upp á sitt besta við morgunverðarborðið og margs að minnast frá Sikiley. En allt í einu hrundi tilveran. Tóbakið var á þrotum en reykingarmennirnir höfðu gleymd að kaupa sígarettur. Sjálfur var ég á góðri leið að ánetjast nikótíninu eftir að vera hættur að reykja í fjögur ár. Einn smókur hér og annar þar og var jafnvel farinn að reykja heilu sígaretturnar. En einhvern veginn var ég ekki orðinn fíkill og gat því lifað án tóbaks. En því var ekki að heilsa með restina af áhöfninni og mátti sjá skelfingarsvipinn á þeim og hægt að ímynda sér hvað væri framundan.
En skipstjórinn réði för og ekki yrði snúið við til að kaupa tóbak. Sjálfum leið mér ágætlega yfir þessu og ákvað að ég skyldi bara hætta þessu fikti og hætta alveg öllum reykingum. Sólarhring seinna var tóbakið búið og menn byrjaðir að leita að stubbum út um allt. Það þyngdist brúnin á sumum og þegar grillti Kefallonia eyju vildu menn að leitað yrði að höfn til að kaupa tóbak. En skipstjóranum leið vel og framundan voru ástarfundir með konunni í Aþenu og því neitaði hann staðfastlega að stoppa á einhverri eyju til að láta undan einhverri nikótínþörf.
Enn þyngdist brúnin á áhöfninni og þrátt fyrir góðan byr var einhver fjandans hundur í mönnum. Það var komin stíf vestan átt og við sigldum beggja skauta byr inn Choridnos fjörðinn þannig að sauð á súðum. Ekkert er skemmtilegra en sigla svona og Bonny var komin á tíu mílna ferð. Samt var þetta röfl i mannskapnum og einn eftirmiðdag var nánast gerð uppreisn og menn neituðu að ganga til verka. Skipstjórinn algerlega einangraður í afstöðu sinni og sá sína sæng útbeidda að eitthvað yrði að aðhafast. Hann sat við stýrið og vindinn hafði heldur hægt en góður gangur á bátum, kvöldsólin merlaði í haffletinum og fljótlega fór að skyggja. Það voru ljót hljóð sem komu úr lúkarnum og aldrei að vita hverju menn gætu tekið upp á. Einhvern tímann yrði skipstjórinn að sofa og þá var voðinn vís.
Ég snéri stefnu bátsins rólega á bak og stefndi á stað sem virtist vera veitingastaður eða bar. Engin höfn var á slóðum svo önnur ráð þurftu í stöðunni. Ég feldi seglin um hundrað metra frá landi og lét akkerið falla. Ekki var mælt orð á meðan á þessu stóð en uppreisnarseggirnir komu nú upp til að athuga hvað Mr. Bligth væri að bauka. Þeir sáu á eftir honum á nærbuxunum með plastpoka milli tannanna þar sem hann skutlaði sér í sjóinn og tók að synda í land. Þegar þangað kom snaraði ég mér inn á barinn og bað um tvo sígarettu pakka. Tegundin skipti engu máli, bara að þær innihéldu héldu nikótín. Síðan synti ég um borð með fenginn milli tannanna og án þess að segja orð fleygði ég pökkunum niður í káetuna. Það heyrðist braka í sellófóni og hviss í eldfærum og fljótlega liðaðist blár reykur upp um lúguna og skyndilega heyrðist kallað með glaðværum rómi ,,hæ Gunnsi, er ekki allt í góðu lagi"
Menn brostu út að eyrum það sem eftir var siglingarinnar inn fjörðinn, sem er rúmlega 150 mílna langur, og einn morgun nálguðumst við innsiglinguna í Corinthos skurðinn. Skurðurinn er grafinn í höndum fyrir langa löngu og er gríðarlegt mannvirki. Við þurftum að koma við á hafnskrifstofunni til að greiða gjald fyrir ferðina og síðan fórum við í gegnum hlið áður en skurðurinn sjálfur tók við sem er rúmlega fimm mílna langur. Það var seinnipart dags þegar við komum út austan megin við skurðinn út í Eyjahafið og stefnan þá sett á Piraeus sem er hafnarborg Aþenu. Það var mikil tilhlökkun hjá okkur Sverri að hitta eiginkonurnar og aðrir voru hinir ánægðustu og liðaðist reykurinn út á milli hlátraskalla við brandara stýrimannsins.
(framhald)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2009 | 13:02
Kafli 1 - Frá Mallorka til Ítalíu
Við vorum fimm félagarnir; undirritaður, Elli Skafta, Bári Gríms, Simmi og Sverrir Halldórs sem hófu þessa ferð. Þetta var hörku lið og nokkuð reyndir sjómenn sem árið 1982 flugu til Mallorka til að sigla seglskútinni Bonny til Grikklands, nánast langsum Miðjarðarhafið. Skútan var á landi í skútuhöfninni í Cala D´Or sem liggur austan við Palma.
Okkar beið mikið verk að gera við það sem var bilað, botnmála og gera bátinn sjókláran fyrir siglinguna. Eiginkonur okkar Sverris ætluðu að fljúga til Grikklands og hitta okkur þar ákveðin dag, þannig að við höfðum stranga áætlun sem þurfti að fylgja. Eftir þriggja daga vinnu var báturinn tilbúinn og kostur tekinn fyrir fyrsta áfangann þar sem stefnan yrði tekin á Gagliari á suðurodda Sardinju. Kvöldið áður en lagt var í hann var haldið upp á vel unnið verk og farið á góðan veitingarstað. Eftir matinn fengum við okkur Havana vindla, sem ekki væri í frásögu færandi nema fyrir það að tveir okkur höfðu hætt að reykja þremur árum áður. Ég svona taldi þetta vera í lagi enda púaði ég vindilinn að mestu.
Við lögðum af stað í morgunsárið og fylgdumst með Mallorka síga í sæ meðan freyddi á súðum á Bonny. Vindur var ákveðinn af norðri sem gaf okkur góðan og þægilegan byr til siglingarinnar. Það er notalegt að sigla hliðarvind og hreyfingar bátsins verða hægar undir seglum með litlum hliðarhalla. Við höfðum keypt okkur loftriffil í Palma og fór mikill tími í skotkeppni meðal áhafnarinnar. En síðan fór degi að halla og stjörnubjört nóttin tók við. Þá uppgötvaðist að ljósið í kompásinum var bilað, sem var mjög bagalegt þar sem stýra varð eftir kompásnum. Stefnan hafði verið stungin út og gert ráð fyrir drift undan norðanáttinni, en straumar eru nánast engdir í Miðjarðarhafinu. Í fyrstu var notast við vasaljós en þá sá maður ekkert nema kompásinn þar sem ljósið blindaði allt annað. Þetta var ekki gott mál þar sem mikilvægt var að halda réttri stefnu, enda engin staðsetningartæki til um borð og treysta varð á að stefnu væri haldið vel.
Þá datt okkur það þjóðráð í hug að stýra eftir stjörnunum. Með norðanvind og seglin á stjórnborða blasti Pólstjarnan við í há-norðri og ekkert annað en halda henni aftan til á bakborða en stefnan var sunnan við austur. Þetta gekk prýðilega og þegar skymaði að morgni vorum við úti á ballar hafi og ekkert nema sjóndeildarhringurinn hvert sem litið var. Norðan áttin hélst og nú var komið að því að baða áhöfnina. Sterkur kaðall var settur út af skutnum og síðan fór einn af öðrum í sjóinn, fyrir utan stýrimanninn að sjálfsögðu, og gripu í kaðalinn. Báturinn var á sex til átta mílna ferð og freyddi vel af mannskapnum í kaðlinum. Enn var skotkeppninni haldið á og snæddur hádegisverður en Simmi var aðal kokkurinn um borð. Dagurinn leið og um kvöldið var ákveðið að halda öryggisnámskeið og æfa björgun á manni sem færi fyrir borð. Það var komið niðamyrkur þegar Sverri datt í hug að kasta sér fyrirvaralaust fyrir borð og taldi áhöfnina vera orðna svo þraut þjálfaða að auðvelt væri að snarvenda og ná honum aftur.
En það var öðru nær og þrátt fyrir að öldurnar væru ekki stórar var illmögulegt að koma auga á mann á sundi í myrkri og öldugangi. Það sem bjargaði málum var að Bári hafði brugðist snaggaralega við þegar Sverri stökk fyrir borð og þreif einn hlerann úr afturkáetunni og kastaði á eftir honum. Önnur hlið hennar var hvít og var það lán okkar að sú hlið snéri upp. Eftir að hafa tekið niður seglin og gangsett vélina og náð í kastara var það einmitt hlerinn sem við komum auga á og þegar við sigldum þangað heyrðum við í Sverri og vorum nokkuð ánægðir að drífa hann um borð aftur. Okkur var nokkuð brugðið við þetta en vorum reynslunni ríkari.
Norðan vindurinn hélst allan tímann og komum við á fjórða degi til Gagliari sem er höfðaborg Sardinju. Við byrjuðum á að fara í banka til að kaupa lírur en það var þriggja tíma vinna. Síðan bættum við í kostinn og komum síðan við í ísverksmiðju og keyptum 40 kílóa ísklump. Það var erfitt að bera ísinn umbúðarlausan og anski kalt af láta hann liggja á öxlinni. Það var nærri klukkutíma gangur um borð og endaði með því að við keyptum strámottu sem við vöfðum um klumbinn.
Um kvöldið fórum við á knæpu og fengum okkur drykk. Bárður var aðalnúmerið og gustaði af honum í samskiptum við heimamenn. Við Sverri fórum fljótlega um borð en restin af áhöfninni þurftu að taka Ítalíu betur út. Um morguninn labbaði ég með Bárði upp í bæ til að kaupa nýtt brauð áður en ferðinni yrði haldið á og virtust flestir bæjarbúar kannast við kappann. Kölluðu á hann, Icelandic Viking og gáfu honum honnor.
Stefnan var nú tekin norður fyrir Sikiley á litla eldfjallaeyju sem nefnist Ustica sem er um 250 mílna sigling. Ustica er örsmá og er vestasta eyjan í eyjaklasa norður af Sikiley en þetta eru virk eldfjöll þar sem heitir hverir krauma við hvert fótmál. Enn var norðanáttin og nú voru menn orðnir vanir að stýra eftir stjörnum og menn tóku ekki eftir ljóslausa kompásinum. Þetta var nokkuð spennandi þar sem markið sem sett var örsmátt og skyggnið lítið vegna misturs á daginn.
Við sólarupprás á þriðja degi var byrjað að rýna fram fyrir stefnið til að koma auga á eyjuna okkar. Hafði siglingarfræðingurinn staðið sig við leiðarreikninginn eða myndum við fara framhjá en Sikiley var aðeins nokkrar tugi mílna í suðri, en skyggni varla nema þrár til fjórar mílur. Það sem birtist okkur var algerlega ógleymanlegt og stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotsjónum æ síðan. Allt í einu reis keilulaga eyja upp við sjóndeildarhringinn í morgunbirtunni, beint í stefnu bátsins. Böðuð mistri og minnti ósegjanlega á ævintýri sjóræningja og þegar nær dró komu í ljós einhver mannanna verk og síðar glitti í agnarsmátt þorp við ströndina. Við renndum inn á lagið og rérum í land til að heilsa upp á heimamenn. En þeir voru jafn dularfullir og eyjan sjálf og vildu lítið við okkur tala. Ekkert undirlendi var á eyjunni heldur höfðu menn búið til stalla til að byggja á kofa hreysi og koma fyrir kálgörðum. Við drifum okkur á stað, enda vissum við af fleiri eyjum austar og þar væri meira um að vera.
Við ákváðum að koma við á Stomboli sem lá í hundrað mílur í austri. Við birtingu daginn eftir reis sú eyja úr hafdjúpinu og þegar við komum í land fundum við veitingahús þar sem hádegisverður var snæddur. Þegar við báðum um brandí eftir matinn var það borið fram í barmafullum vatnsglösum. Sumir úr áhöfninni áttuðu sig ekki á magninu og voru orðnir ansi slompaðir þegar leið á daginn. En áhöfnin var sem betur fer nægilega fjölmenn til að hægt væri að halda af stað fyrir kvöldið þó sumir þyrftu að sofa úr sér. Reyndar hafði einn áhafnameðlimur skorið sig illa á fæti en enga læknishjálp var að fá á Stromboli svo ákveðið var að sigla til Libari. Við komum þangað að morgni og fundum fljótlega lækni sem saumaði okkar mann, án þess að deyfa áður. Öskrin bókstaflega glumdu um allar Volcan eyjaklasann en síðan fékk hann sprautu sem honum var sagt að sprauta sig með sjálfur.
Það féll að sjálfsögðu í hlut stýrimannsins að sprauta félagann. Bárður var alvanur öllu svona og tók piltinn á næsta veitingastað þar sem byrjað var að panta tvö full glös af brandí. Og svo bara þarna við borðið á veitingastaðnum girti minn maður niður um sjómanninn og rak í hann stífkrampasprautuna. Enn hvað við öskur en nú voru menn komnir á gott skrið aftur og pöntuðu tvö full glös í víðbót.
Á Líbari eru enn sagðar sögur af heimsókn íslensku víkinganna. Sérstaklega þessum granna slána með ljósa liðaða hárið sem fór sem eldibrandur um þorpið allt kvöldið og bauð mönnum upp á sjómann. Hann gnísti tönnum, horfði með ísköldu heimskauta augnaráði á Ítalanna og sagði með djúpri bassaröddu ,,Have you heard about the Vikings"
Við vorum nú orðnir svo þekktir á þessu eyjaklassa að maður gat ekki gengið um götur á þess að vera honoraður og heilsað eins og gömlum vinum. En svona frægð getur fylgt ákveðin áhætta enda mátti búast við að sumir af þessum miklu víkingum væru farnir að vekja mikla athygli hjá veikara kyninu á eyjunum. Við það getur orsakað öfund og reiði hjá karlmönnunum sem ekki voru bara niðurlægðir með kröftum og sáru tapi í sjómanni, heldur sáu eyjadísarnar ekki sólina fyrir hetjunni okkar. Þannig að það var bara að drífa sig og ákveðið að koma aðeins við á Sikiley áður en haldið væri suður Messnasund á leið til Grikklands. (framhald)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.3.2009 kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
-
astromix
-
ekg
-
stefanbjarnason
-
golli
-
vikari
-
gunnarpetur
-
vestfirdir
-
gudni-is
-
ea
-
ladyelin
-
gp
-
altice
-
hjolaferd
-
kaffi
-
komediuleikhusid
-
rabelai
-
ziggi
-
huldumenn
-
helgi-sigmunds
-
sigrunzanz
-
hordurhalldorsson
-
baldher
-
hjaltisig
-
lotta
-
kjarri
-
bjarnimax
-
jovinsson
-
smjattpatti
-
eirmor
-
vefritid
-
saemi7
-
siggisig
-
maggij
-
lehamzdr
-
contact
-
gauisig
-
jonvalurjensson
-
thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 287351
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar