12.6.2024 | 08:42
Sjókvíaeldi á Íslandi
Á Bylgjunni um daginn voru kallaðir á teppið Kristinn H. Gunnarsson og Jón Kaldal til að ræða sjókvíaeldi við Ísland. Þar kom fram að 40 þúsund manns hefðu undirritað ósk um að banna sjókvíaeldi. Mín fyrstu viðbrögð við þessum upplýsingum voru; ekki fleiri en það! Miðað við stanslausan áróður og fjáraustur efnamanna er þetta ekki merkilegur árangur, og kannski mikill meirihluti landsmanna sammála nauðsyn þess að byggja upp verðmæta framleiðslu og útflutning, til að standa undir lífskjörum þjóðarinnar. Ég segi áróður, því í gegnum tíðina hefur þessum niðurrifsöflum þótt eðlilegt að halda fram staðleysum, enda helgar tilgangurinn meðalið. Nú er það svo að þessi annars umhverfisvæna matvælaframleiðsla er ekki gallalaus, og margt sem betur má fara. Mistök verið gerð sem erfitt er að réttlæta. En hér er einfaldlega mikið í húfi, byggðarlög á Aust- og Vestfjörðum standa og falla með sjókvíaeldi. Margar fjölskyldur hafa tekjur af starfseminni og eru háðar verðmætasköpun í fiskeldi, og sveitarfélögin treysta á tekjustreymi í formi útsvarstekna. Helstu áskoranir sjókvíaeldis eru einkum þrennar, ef litið er til framtíðar. Umhverfismál, dýravelferð og fóðurframleiðsla fyrir vaxandi framleiðslu. Laxeldisfyrirtæki og rannsóknarstofnanir eru á fullu við að takast á við þessar áskoranir, og með samvinnu og nægu fjármagni, munu þau mál leysast. Það hlýtur að vera krafa til andstæðinga fiskeldis að þeir ræði þessi mál af heiðarleika, yfirvegun og sanngirni. Afstaða veiðifélaga snýst um ótta við erfðablöndun villtra laxa, sem hefur ekkert með dýravelferð eða skolp að gera. Hinsvegar er lítið talað um laxveiði sem er ekkert annað en dýraníð, þar sem laxinn er veiddur aftur og aftur þar til hann jafnvel deyr úr streitu og álagi. Þessi ofsalegi áróður minnir stundum á byggingu Kárahnjúkavirkjunar, en 40.000 manns hefðu örugglega undirritað bann við byggingu virkjunarinnar á þeim tíma. Þar héldu andstæðingar virkjunarinnar fram að hún myndi leka, hrynja, valda útdauða heiðargæsarinnar og myndi setja Landsvirkjun á hausinn, enda yrði mígandi tap á rekstrinum. Ekkert af þessu hefur raungerst og hægt að benda á að Landsvirkjun er að skila ríkissjóði 30 milljarða í arðgreiðslu á þessu ári. Laxeldið í samstarfi við rannsóknarfyrirtæki, háskóla og samkeppnissjóði sem eru á fullu að leysa þær áskoranir sem greinin stendur frammi fyrir. Undirritaður tekur þátt í verkefni með norskum og íslenskum fyrirtækjum til að bæta heilsu eldislaxa. Í öllu eldi þarf að huga að velferð dýra, annars gengur það ekki upp. Hvað laxalús varðar er þróunin ör og lausnir munu finnast í nánustu framtíð, sama á við er varðar sleppingar. Handan við hornið eru lausnir á kynþroska laxfiska og geldfiskur mun koma inn á næstu árum. Að 40.000 einstaklingar skrifi undir óskir um að banna sjókvíaeldi lýsir mikilli fáfræði og hroka gagnvart einstaklingum, fyrirtækjum og samfélögum. Umhugsunarlaust að standa gegn umhverfisvænni matvælaframleiðslu og verðmætasköpun í íslensku samfélagi. Verðmætasköpun og útflutningur sem er m.a. undirstaða velferðarkerfisins, en skilningsleysi á því segir kannski að allur þessi hópur þurfi ekkert á því að halda? Gunnar Þórðarson, MSc í alþjóðaviðskiptum
2.1.2024 | 13:04
Samstarf Matís við Utanríkisráðuneytið og WB í Indónesíu
Að fæða heiminn til framtíðar
Matís ohf var þátttakandi í sendinefnd á vegum Alþjóðabankans til Indónesíu, til að aðstoða þarlend yfirvöld við sjálfbæra fiskveiðistjórnun og tillögur varðandi fiskeldi. Markmiðið er að tryggja matvælaöryggi ásamt því að auka verðmætasköpun og útflutning á eldisafurðum frá Indónesíu.
Fiskeldi í Indónesíu
Indónesía er næst stærst í heiminum (á eftir Kína) þegar kemur að eldi í sjó og vatni, og er áætlun þarlendra að framleiðsla fyrir 2020 verði rúmlega 18 milljón tonn. Mestu munar þar um framleiðslu á þangi, um 11 milljón tonn, og rækju sem er 1,2 milljónir tonna. Ræktun á þangi er rúmlega 99% af eldi/ræktun í sjó og því álitið að tækifæri í fiskeldi séu mikil. Sjóeldi er ein umhverfisvænasta prótein framleiðsla sem þekkist, með umtalsvert minna sótspor en landbúnaður. Hefðbundinn landbúnaður losar rúmlega fjórðung af allri losun gróðurhúsaloftegunda í heiminum, fyrir utan önnur neikvæð áhrif á lífríki jarðarinnar. Eldi í ferskvatni hefur einnig haft neikvæð umhverfisáhrif sem valdið hafa miklu tjóni á jarðveg og gróðurlendum, og aukið hættu á flóðum ásamt öðrum spjöllum á lífríkinu.
Próteinframleiðsla framtíðar
Vandamál sjóeldis í Indónesíu er hversu vanþróað það er og mikið um sóun á t.d. fóðri, sem er um 60 70 % af kostnaði við fiskeldi. Með nútíma eldisaðferðum, eins og þekkjast á kaldari svæðum, mætti lyfta Grettistaki með því að nota hátækni og þekkingu til að framleiða holla fæðu fyrir fjölmennasta svæði veraldar. Í dag er lax alinn á norðlægum slóðum og fluttur ferskur með flugi til borga í Asíu, með ærnum fjárhagslegum og umhverfislegum kostnaði. Það liggja því mikil tækifæri í að setja upp eldi til að sinna þessum markaði, en í kringum Indónesíu eru mörg fjölmennustu ríki heimsins, enda búa þar nærri helmingur jarðarbúa. Áætlað er að auka þurfi matvælaframleiðslu um 70 milljón tonn til ársins 2050, þegar íbúar jarðar verða rúmar níu milljarðar talsins.
Umhverfisvæn prótein framleiðsla
Í dag kemur um helmingur af öllu fiskmeti úr eldi, enda takmörk fyrir því hvað hægt er að veiða af villtum fiski. Fiskeldi er einnig með sérlega lágt kolefnisspor og því leynast umtalsverð tækifæri eldinu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Líkja má fiskeldi við að matvæli séu framleidd í þrívídd, þar sem notað er flatarmál sjávar og svo dýpt, en hefðbundinn landbúnaður þarf því miklu meira rými. Fiskur er alinn upp í þyngdarleysi sem dregur mjög mikið úr eigin orkunotkun, og fóður nýtist því mun betur til að framleiða nauðsynleg prótein. Fiskur er einnig almennt talinn heilnæmari fæða en flestar aðrar dýraafurðir, auðugur af omega 3 fitusýrum, D vítamíni og B12 vítamínum. Flest ríki jarðar hafa á stefnu sinni að auka neyslu á fiskipróteinum meðal þjóða sinna.
Fæðuöryggi í Asíu
Gunnar Þórðarson, svæðisstjóri Matís á Vestfjörðum, tók þátt í þessu verkefni í Jakarta, ásamt starfsmönnum Alþjóðabankans. Haldnir voru fundir með starfsmönnum ráðuneyta til að undirbúa verkefnið og leggja línurnar til að auka fiskeldi og matvælaframleiðslu þjóðarinnar. Ljóst er að Matís hefur margt fram að færa til að bæta úr og koma öflugu fiskeldi í sjó á rekspöl á Indónesíu. Með þekkingu sem byggð hefur verið upp við laxeldi væri hægt að koma miklu til leiðar við framleiðslu á eldisfiski, sem myndi koma Indónesíu, Asíu og reyndar öllum þjóðum heims til góða. Lykilatriði liggja í strandsvæðaskipulagi sem er grundvöllur fyrir árangursríku fiskeldi í sjó. Finna þarf réttu svæðin sem uppfylla skilyrði fyrir iðnvæddu eldi með tilliti til; mannauðs, samgangna og umhverfisþátta. Yfirvöld í Indónesíu áætla að um 26 milljónir hektarar henti til sjóeldis þar í landi, enda er strandlengja þess um 90 þúsund mílna löng. Annað sem skiptir miklu máli er fóður sem er áskorun fyrir stórfellt fiskeldi. Huga þarf að innlendri framleiðslu til að auka verðmætasköpun í landinu og lækka kolefnisspor með notkun á innlendum próteinum og lágmarka flutning á aðföngum. Einnig þarf að aðstoða heimamenn með heilbrigði og dýravelferð, en það fer algerlega saman við árangursríkt fiskeldi sem getur skilað verðmætum. Efla þarf rannsóknaraðstöðu í kringum fiskeldi og ekki síður við framleiðslu á afurðum til að auka öryggi neytanda. Einnig þarf að aðstoða heimamenn við val á tegundum til eldis og þróa erfðafræðilega þætti til að bæta framleiðni. Koma þarf upp erfðabönkum til að minka líkur á einræktun við þróun eldisstofna. Síðast en ekki síst þarf að bæta mannauð til að takast á við skipulag og framkvæmd hátækni eldis, ef árangur á að nást.
Íslensk þekking flutt út
Á öllum þessum sviðum hafa Íslendingar náð góðum árangri og hafa burði til að aðstoða aðrar þjóðir til að bæta lífsgæði sín og nágranna sinna. Þó þessi þekking sé ekki öll innan veggja Matís getur fyrirtækið nálgast hana í gegnum sitt tengslanet og samstarfsaðila. Svona verkefni koma öllum til góða og er dæmi um þekkingu sem Íslendingar eiga að flytja út. Matís hefur einnig tekið að sér verkefni á Filipseyjum með utanríkisráðuneytinu og Alþjóðabankanum sem lýtur að ræktun á þangi, en gríðarleg tækifæri geta falist í þaravinnslu fyrir lönd í hitabeltinu, bæði umhverfisleg og ekki síður hvað varðar fæðuöryggi heimsins. En meira um það síðar. Þessi verkefni Matís eru hluti af samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og Alþjóðabankans um að veita bankanum aðgang að sérfræðiþekkingu á Íslandi.
Gunnar Þórðarson, útbússtjóri Matís Ísafirði
2.1.2024 | 12:55
Jól á Sri Lanka 2007
Það leið að jólum á Sri Lanka árið 2007 og danskir vinir okkar stóðu fyrir jólaboði í siglingaklúbbnum í Colombo. Það var heilmikið fjör með öli og snaps, sungið og sagðar sögur þar sem setið var við langborð í notalegri veðráttu norð-austan monsoon, sem er ríkjandi á þessum árstíma. Á miðri mynd vinstra megin má sjá félaga minn Árna Helgason yfirmann í sendiráði Íslands á Sri Lanka. Það lá fyrir að ég tæki vaktina í sendiráði Íslands yfir jólahátiðina, stýrði málum sem chargé d'affaires og yfirmaður átta manna starfsliðs. Til að bæta upp einmannaleikann yfir hjátíðarnar bauð ég syni mínu Nonna að koma í heimsókn, en hann stundaði þá nám í Sterling háskólanum í Skotlandi.
Ég bjó mjög vel í Colombo, í stórri íbúð með tvö gestaherbergi og því myndi fara vel um okkur feðgana fram yfir áramótin. Ég vildi gera vel við son minn og skipulagði því jólaferð á suðurströnd Sri Lanka, en þar eru helstu ferðamannastaðirnir. Ég hafði ráfært mig við vini mína og samstarfsmenn á NARA, sem er rannsóknarstofnun sem sinnir svipuðu hlutverki og Hafró og Matís samanlagt. Þeir voru algerlega með þetta á hreinu, hjálpuðu mér að bóka frábært hótel á æðislegri strönd, sem átti að að sæma konungum og hertogum. Það var ákveðið að skella sér þangað á Þorlákmessu og njóta verunnar yfir jólahatíðina.
En fyrst þurfti að sinna vinnu skyldum fyrir sendiráðið. Eftir að hafa sótt Nonna á flugvöllinn og koma honum fyrir í íbúðinni, fór ég í að skipleggja afhendingu á löndunarstöð sem Íslendingar höfðu byggt fyrir heimamenn, nálægt Negombo. Þetta var unnið í samstarfi við sjávarútvegráðuneyti landsins, en sendiráðið var í miklu samstarfi við það, sérstaklega ráðuneytisstjórann. Að þessu sinni skyldi aðstoðarráðherrann taka þátt í verkefninu fyrir hönd Sri Lanka.
Viðburðurinn átti að halda þann 22. desember, daginn fyrir Þorláksmessu. Ég var með einkabílstjóra frá sendiráðinu sem ók okkur Nonna á svæðið seinni part dags að löndunarstöðinni. Stöðin hafði verið í byggingu undanfarin tvö ár og var nú tilbúin til formlegarar afhendinar. Þegar við Nonni mættu á svæðið tókum við eftir stórum vörubíl með tengivagni, sem reyndist vera hlaðinn hátölurum. Þegar skyggja tók voru hátíðaljós tendruð og síðan kveikt á tónlistinni. Og þvílík tónlist og þvílíkur hávaði! Hárið stóð beint aftur af okkur og ekki nokkur leið að tala saman vegna hávaða. Við heyrðum ekkert hvor í öðrum, þó svo að tónlistin væri spiluð útivið. Við Nonni flúðum niður á ströndina, og þegar við vorum komnir í um 200 metra fjarlægð, gátum við heyrt hvor í öðrum með því að öskra.
Þegar til baka var komið var fjöldi fólks mætt á svæðið, búið að setja upp hátíðarpall og heldri manna bekk beint á móti. Ég var ekki alveg viss um hlutverk mitt á þessari hátíð, og ekkert annað að gera en láta sig fljóta með og uppfylla skyldur mínar. Þarna voru mættir fulltrúar hins veraldlega valds, vara- sjávarútvegsráðherra og forystu menn sveitarfélagsins, ásamt fulltrúum geistlega valdsins. Flestir þarna voru búdda trúar og því við hæfi að hafa fulltrúa andlegs valds og trúarlega athöfn. Byrjað var á að kveikja á gullhananum sem einskonar lampi með fjölda kerta, sem er tendraður til að tryggja velgengni og hamingju. Enn heyrðist ekkert fyrir hávaða frá hátölurunum, en að lokum gat ég gert mig skiljanlegan um að nauðsynlegt væri að lækka í tónlistinni, enda búið að koma fyrir hljóðnema á sviðinu þar sem merkileg athöfn var að hefjast.
Sagan segir að ég hafi haldið mikla ræðu, blaðalaust! Búið að lækka í tónlistinni svo ekkert færi nú fram hjá gestum viðburðarins. Áður en ég vissi af var ég farinn að gefa sjómönnum utanborðsmótara og síðan að rétta öðrum umslög með peningum. Ekki hafði ég hugmynd um hvernig þessir einstaklingar voru valdir en reiknaði með að þetta væri allt hið besta mál, enda á kostnað ríkisins. Þegar athöfninni lauk tók sjávarútvegsráðherrann okkur Nonna upp á sína arma og bauð í heimsókn í nálægt hús. Ekki veit ég hvort hann þekkti fólkið en það rann upp fyrir mér, þegar ég tók eftir Jesú mynd á veggnum, að fjölskyldan og ráðherrann voru kaþólikkar. Þarna var boðið upp á alls kyns hressingu, enda eru Sri Lanka búar einstaklega gestrisið fólk. Eftir ánægjulega stund á þessu notalega heimili var farið í ráðherrabílinn og ekið um stund.
Næsta sem tók við var annað boð, í þetta sinn mun ríkmannlegra heimili, í eitthvað sem sýndist í fyrstu vera brúðkaup. Þessi fjölskylda hafði á sínum tíma komist til Ítalíu, með ólöglegum hætti, unnið þar í 10 ár og safna nokkrum sjóði. Þeir voru ítalskari en Silvio Berlusconi, og beittu ítölsku fyrir sig í öðru hverju orði. Við Nonni þurftum að draga fram okkar fínustu frasa á ítölsku til að falla vel í hópinn, reyndar náði það ekki lengra en það sem Dean Martin hafði kennt okkur: "Buona sera, signorina". Mínum manni hefði ekki leiðst í þessari veislu, enda flaut viskíið. Þetta svo kallað heimkomu veisla, sem er viðburður sem boðið er í eftir að brúðhjónin koma úr brúðkaupsferðinni. Þá er slegið upp annarri veislu, sambærilegri við brúðkaupið, þar sem brúðhjónin mæta í fullum skrúða og gestir í sínu fínasta pússi. Þetta var heljarinnar partí og ekkert til sparað. Viskíið flaut og vel veitt í mat og drykk. Þetta voru að sjálfsögðu kaþólikkar, en þeir eru alla jafna mun fjörugri en Búdda trúar. Enda skorti ekkert á gleðina og stóð veislan fram á nótt.
Það var komið langt fram yfir miðnætti þegar við Nonni höskuðum okkur heim. Eftir góðan nætursvefn var hafist handa við undirbúning jólaferðarinnar. Á þessu tíma hafði ég litla reynslu í að aka í vinstri umferð og rataði ekki mikið um Colombo. Ég var alltaf með bílstjóra og eina sem ég keyrði sjálfur var korters skutl á Water Egde golfvöllinn eftir vinnu. En einhvern tímann er allt fyrst og tími kominn til að ná tökum á vinstrihandar umferð. Reyndar náði ég góðum tökum eftir þetta, sérstaklega eftir ársdvöl í Úganda án einkabílstjóra. Þannig að við Nonni ókum af stað suður eftir eyjunni í ferðamannaparadísina sem vinir mínir í NARA höfðu skipulagt fyrir okkur. Við ókum af stað suður eftir Galle þjóðveginum en einmitt á þeirri leið hrifsaði flóðaldan mikla árið 2005 járnbrautalest með 1500 manns innanborðs.
Ferðin sjálf var hin mesta þrautarraun, ekki bara vegna bílstjórans, heldur aðallega vegna adrenalínfíklanna á bakvið stýri á rútum á Sri Lanka. Þeir t.d. kippa sér ekkert upp við það að gefa frammúr annarri rútu við tvöfalda óbrotna línu í blindbeygju. Sá sem mætir þessum rútum á fleygiferð verður umsvifalaust að víkja, geri hann það ekki er ekki spurning hver lifir af. Það er erfitt að byrja að keyra í vinstri umferð. Maður les bílinn vitlaust og allt er röngu megin við mann, gírar stefnuljós og einnig farþeginn. Ég var á 60 km hraða þegar ég rak hliðar spegilinn hægra megin í hjólreiðarmann, sem betur fer varð honum ekki meint af. Eftir þessa hættuför komum við loksins á hótelið um nónleytið, komum okkur fyrir og drifum okkur á ströndina. Það runnu á okkur tvær grímur þegar við skoðuðum herlegheitin, fullt af miðaldra Þjóðverjum og stöndin ekki til að hrópa húrra fyrir. Lágur veggur greindi hótelsvæðið frá almenning, og yfir þennan vegg streymdu sölumenn með alskyns varning til að selja okkur. Það var ekki nokkur friður þarna og fljótlega gáfumst við upp og drifum okkur inn.
Við mættum til kvöldverðar og ekki var veitingasalurinn burðugur, jólamaturinn baðaður blikkandi flúorljósum og plastfilmum raðað yfir ólystugt hlaðborðið. Ósamstæð hnífapör og diskurinn minn með djúpri sprungu og hékk saman á lyginni. Maturinn var í takt við aðbúnaðinn og ekki laust við að setti að okkur kvíða að eyða jólunum við þessar aðstæður. Við komum snemma upp á herbergi og þegar við höfðu slökkt ljósin og við tilbúnir að fara yfir í óminni svefnsins, heyrðist í Nonna, "Pabbi, getur verið að við höfum lent í slysi á leiðinni og við séum fastir í hreinsunareldinum?" Við tókum þegar þá ákvörðun að koma okkur út af þessu hóteli, og fyrir allar aldir vorum við búnir að pakka niður, koma töskum í bílinn og lagðir af stað í norður. Ég vissi af fimm stjörnu hóteli miðja vegu til Colombo, sem heitir Blue Water, og þar hafði ég verið með vinnufund yfir helgi og þekkti því vel til.
Þetta er heilmikið hótel með risa strönd fyrir gesti, sem fá frið fyrir sölumönnum og annarri slíkri óværu. Reyndar var fíll í bakgarðinum sem hægt var að fá sér smá reiðtúr á. Það var meira að segja jólasveinn við innganginn, frekar ólíkur því sem við áttum að venjast, en bara skemmtilegt. Ef fyrra hótelið var hreinsunareldurinn þá komumst við loksins til himna og jólamaturinn var sjö rétta máltíð sem samanstóð meðal annars af laxi, kalkún, ástralskri nautasteik og súpu með silfurlaufum. Og þarna dvöldum við í góðu yfirlæti fram á annan í jólum. Á gamlárskvöld snæddum við kvöldverð á Mango Tree, sem sérhæfir sig í Indverskum karrí-réttum. Kvöldinu eyddum við niður á ströndinni við Galle Face hótelið, þar sem fjöldi fólks fagnaði áramótum með tónlist og flugeldum. En ævintýrið var ekki úti enn og við feðgarnir ákváðum að skella okkur til Nuwara Elia, sem er hálendi á Sri Lanka í rúmlega 2000 metra hæð. Loftslagið þarna er eins í Evrópu og því vinsælt að hvíla sig frá 30 °C hita og njóta svalans í fjöllunum. Á leiðinni þangað er ekið í gegnum te plantekrur, en te var lengi helsta útflutningsvara Sri Lanka (áður British Ceylon). Um 150 km akstur er þangað, en tekur um sjö til átta tíma að keyra þessa leið, enda umferðin svakaleg. En við ætluðum okkur að spara okkur aksturinn og taka lest, sem við reiknuðum með að kæmist á leiðarenda á fjórum tímum.
Við mættum á lestarstöðina klukkan sex um morguninn, í myrkri og mistri við illa upplýsta brautastöðina. Lestin var ævagömul og allt minnti okkur á upphaf síðustu aldar. Við áttum alveg eins von á að rekast á Hercule Poirot þarna, sem hefði verið skemmtilegt, en líka áhættusamt. Það er alltaf einhver myrtur þar sem hann er og einhverjar líkur á að við lentum öðru hvoru megin, sem lík eða morðingjar. Við vorum á fyrsta farrými, í aftasta vagninum, sem var bogalagaður með glugga allan hringinn. Þarna voru sæti fyrir 10 manns og lestin skrölti rólega af stað. Allt gekk eins og í sögu og fljótlega rann dagur og sólin kom upp. Fljótlega eftir að við lögðum í fjallið stoppaði lestin. Eftir hálftíma stopp voru flestir farþegarnir komnir út og röltu við ferðlausa lestina. Eftir klukkutíma stopp, sem engin skýring fékkst á, gaf lestarstjórinn merki með flautu og lestin lullaði að stað upp brekkurnar. Þessi óútskýrðu stopp endurtóku sig allnokkru sinnum. Það var lán í óláni að matsala var á fyrsta farrými og því vorum við vel haldnir. Það var ekki fyrr en ellefu tímum eftir brottför sem við komum á brautarpallinn í Nuwara Elia. Við héldum strax upp á Club House, enda var ég meðlimur þar.
Þetta er hótel frá upphafi síðustu aldar, byggt sem lúxus hótel fyrir breska yfirstéttar menn til að slaka á og hvíla sig á suðupottinum í Colombo. Ég tala um menn en gæti sagt karlmenn, því þó konur fái inni í dag í gistingu, þá komast þær ekki í klúbbinn og mega ekki fara á barinn. Þar fyrir utan er skilti sem segir men only En klúbbhúsið er dásamlegt, þjónustan á heimsmælikvarða og maturinn æðislegur og þjónar með hvíta hanska. Í borðstofunni var mynd af Elísabetu ll og þegar við fórum í bókaherbergið til að dreypa á viskí, var risastór mynd af foringjanum sjálfum, Winston Churchill. Þar logaði eldur í arninum og við nutum þess að dreypa á viskíinu og njóta ylsins frá eldinum. Þegar við komum upp á herbergin okkar var búið að koma fyrir flösku með heitu vatni undir sænginni, til að ylja upp rúmið áður en lagst er til hvílu enda lítið um kyndingu þarna. Bara að troða sér undir þykka dún-sængina og falla síðan í djúpan svefn við drauma aðstæður. Morguninn eftir beið okkar golfhringur á 18 holu velli í Nuwara Elia.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2021 | 10:32
Nonni - In memorandum
Uppeldisvinur minn og sálufélagi, Jón Grímsson lést á heimili dóttur sinnar í Seattle sunnudaginn 10. október. Nonni var fæddur 21. september árið 1954. Hann átti tvær dætur, Jóhönnu og Leah, og sex barnabörn.
Upphafið
Líf okkar hefði orði öðruvísi og lágstemmdara ef Grímur Jónsson hefði ekki hætt sem lofskeytamaður á sjöunda áratugnum hjá Gæslunni og tekið við starfi sem flugleiðsögumaður á Ísafirði. Grímsararnir komu sem stormsveipur að Engjavegi 30 og allt breyttist í þessu fyrra rólega umhverfi. Einn nágranninn mátti upplifa að heimilskötturinn var hengdur fyrir mistök fyrir villikött sem hafði haldið vöku fyrir Grími. Rólegaheita maðurinn Pétur Blöndal var nágranni handan götunnar og synir hans urðu oftar en ekki á vegi okkar Nonna, Gísli og Snæbjörn Blöndal. Skammt undan vor Bússasynir, Tryggvi, Elli og Svanbjörn sem oft komu við sögu í ferðalagi okkar Nonna í gegnum lífið.
Það var sönn upplifun að hafa kynnst þessari fjölskyldu þar sem ævintýrin voru við hvert fótmál. Uppátækjasemin náði langt fram yfir æskuárin og við Nonni höfum marga fjöruna sopið. Við áttum okkur draum um að verða ríkir og ekki stóð á viðskiptahugmyndunum. Steinasteypa, girðingstaurar og harðfiskvinnsla svo eitthvað sé talið, en einhvern veginn lét ríkidæmið á sér standa þrátt fyrir að mikið væri á sig lagt. Við vorum reyndar tossarnir í bekknum, enda höfðum við sett markið miklu hærra en menntun gæti staðið undir.
Sem strákar gerðum við út bát og leituðum leiða til að hafa tekjur af honum en gekk aldrei. Það var mikið viðhald á honum og við fundum út að best væri að hafa hann nálægt slippnum hans Eggerts Lárussonar, enda var Nonni búinn að finna leið til að komast inn á verkstæðið til að sækja verkfæri á kvöldin. Þó verkfærunum væri alltaf skilað fór þetta ekki fram hjá góðmenninu Eggert, sem leysti málið með að ráða Nonna í vinnu í slippnum. Nonni var hamhleypa til vinnu og bráðlaginn og eins og venjulega var hann búinn að eignast alla karlana þarna sem bestu vini, Kitta Gau, Óla, Simba, og Hávarð, fyrir nú utan Eggert sjálfan sem sá ekki sólina fyrir Nonna.
Reyndar var Grímur pabbi Nonna eins og einn af okkur strákunum og tók þátt í uppátækjum okkar fram á gamals aldur. Við Nonni gengum til rjúpna með honum frá 15 ára aldri alltaf var hann tilbúinn að taka þátt í ævintýrum með okkur. Nítján ára gamlir fórum við með Sigga Gríms, bróðir Nonna, og Sigga Ásgeirs á Kibbúts Shamir í Ísrael og dvöldum þar í um hálft ár við að tína ávexti og vinna á bómullaakri.
Í miðri orkukreppunni 1974 fórum við ásamt Stínu og Dadda bróður til Þýskalands, þar sem hugmyndin var að kaupa mótorhjól og aka um heiminn. Við komuna til Munchen þar sem farið var á milli bílasala í leit að BMW hjólum, sem reyndust allt of dýr og niðurstaðan var að Nonni og Daddi keyptu gamlan Bens, en við Stína notaða Renó druslu. Eftir ævíntýraför í gegnum Evrópu, m.a. gömlu Júgóslavíu, enduðum við Stína í Aþenu þar sem við seldum bílinn. Við höfðum týnt félögum okkar á ferðinni í gegnum Mílanó og engin plön gerð hvernig við ættum að hafa samband. Þeir óku oftar en ekki yfir gatnamót á gulu ljósi og ekki heyglum hent að halda í við þá. Við Stína keyptum okkur far með El-Al til Ísrael, tókum rútu norður til Shamir þar sem við fengum strax vinnu. Fyrsta morguninn lentum við í árás skæruliða sem komu frá Sýrlandi og má þakka guði fyrir að lifa það af. En daginn eftir voru þeir félagar mættir og þarna var dvalið næsta hálfa árið við ýmis störf.
Næsta ævintýri okkar voru kaup á skútu í Bretlandi árið 1976 sem við sigldum síðan heim til Ísafjarðar. Jóhanna mamma Nonna heimtaði að við tækjum prakkarann Bára með, bróðir Nonna, enda var hún uppgefin á uppátækjum hans. Með skjalatösku fulla af gjaldeyri, en þá voru galdeyrishöft á Íslandi, til að borga skútuna. Við skildum töskuna aldrei við okkur en tókst þó að gleyma henni á pub eftir hádegisverð. Við komum heim á hótelið og uppgötuðum okkur til mikillar skelfingar að taskan hafði orðið eftir. Við fórum í hendingsskasti til baka og Þegar við komum örvæntingafullir að barnum var búð að loka honum og allri götunni, herinn mættur og maður í sprengjugalla með haglabyssu sem bjó sig undir að skjóta töskuna úti á miðri götunni. Nonni hljóp að honum til að stoppa hann af og sagðist eiga töskuna. Sprengjusérfræðingurinn leit á okkur fullur tortryggni og bað okkur að opna hana. Þegar hann sá innihaldið, fulla af allskyns gjaldeyri, var honum greinilega létt, rak upp hlátur og sagði okkur að taka töskuna og haska okkur. Á þessum tíma var IRA að skilja eftir eldsprengjur í pubbum í Bretlandi og það bjargaði okkur að þessu sinni.
Við héldum upp á þetta um kvöldið og einhvern veginn skildu leiðir og við Bári týndum Nonna. Við komum upp á hótel, en herbergið okkar var á fjórðu hæð. Við vorum háttaðir og á leið í koju, þegar við heyrðum þrusk úti á svölum. Bárður var mjög smár og pervisinn á þessum árum, aðeins 15 ára gamall og ég sagði honum að fara út á svalir að athuga hvað væri að gerast. Ég skildi vera viðbúinn að með hníf í hendi ef þetta væri ræningi, jafnvel morðingi. Bárður var í allt of víðum boxerum og þegar ég horfið á hann titrandi af hræðslu gat ég ekki stillt mig um að reka upp hlátur. En þá snaraðist Nonni inn í herbergið, hafði klifið þakrennuna alla leið upp á svalir.
Síðan var haldið í hafnarbæinn Chishester til að leita að skútu. Við gistum á tveggja hæða hóteli í nágrenni bæjarins. Um kvöldið var farið út að kíkja á lífið, verðandi útgerðamenn og næstum því stór grósserar. En þegar við komum heim á hótelið var búið að dyrunum og enginn næturvörður. Þarna áttu menn að mæta heim fyrir kl. 22:00 til að komast inn. Þá voru góð ráð dýr en þar sem Nonni hafði drýgt þessa hetjudáð í London var nú komið að mér að bjarga málum. Við fundum gluggann á herberginu okkar og ég kleif upp þakrennuna, greip í gluggakarminn og sveiflaði mér inn um opið fagið. Það rann upp fér mér umsvifalaust að ég var i röngu herbergi. Ekki var rúm undir glugganaum hjá okkur en þarna lenti ég upp í bæli hjá ungri konu sem rak upp þetta ógurlega öskur; mér var ekki minna brugðið og greip í gluggann og henti mér út sömu leið til baka. Einhvern veginn lenti á tveimur fótum á stéttinni fyrir neðan heill á húfi. Það tók okkur nokkurn tíma að finna aðra leið inn en lokum komumst við í bælið okkar. Á leið til morgunverðar rakst ég á konuna, og ætlaði að biðjast innilegrar afsökunar, en komst varla að að því hún var svo leið yfir að hafa brugðist svona við. En ekki er hægt að álasa henni að bregða við að fá ókunnugan mann flúgandi upp í rúmið, enda var hún í fasta svefni.
Við fundum skútu, skýrðum hana Bonny og ekki eftir neinu að bíða að fara í prufusiglingu. Við keyrðum frá höfninni og drógum upp segl. Það gekk ekki betur en svo að við drógum fokkuna upp á hvolfi, ekki lofaði það góðu. Þegar við lögðumst aftur að bryggju hafði prufusiglingin vakið eftirtekt í höfninni og margir mættir til að taka við endanum. Spurt var; hvert eruð þið að fara? Við ætlum að sigla til Íslands sögðum við sposkir, fullir sjálfstrausts. Það kom skelfingarsvipur á karlana sem leist ekkert á fyrirætlanir okkar. Nonni spurði þá hvort þeir vissu hvar við gætum keypt belgsegl (spinnaker), sem þykir frekar vandmeð farið segl. Þeir voru fljótir að svara að við skyldum láta einfaldari seglbúnað duga og vonuðu að guð vekti yfir okkur á ferðalaginu heim.
Meira seinna.
21.9.2021 | 14:35
Viðreisn og ráðstjórn
Stjórnmála- og fræðimaðurinn
Það var mikið áfall fyrir mig þegar Daði Már Kristófersson hætti að vera fræðimaður og gerðist stjórnmálamaður í framboði. Maður sem ég hafði tekið mikið mark á, enda snjall fræðimaður á svið auðlindastjórnunar. Maður sem hefur hampað frábæru fiskveiðistjórnunarkerfi og verið framarlega í að útskýra yfirburði íslensks sjávarútvegs, sem sé markaðsdrifinn og skili meiri verðmætum en þekkist nokkur staðar annarstaðar í heiminum. Nú í einni svipan á að þjóðnýta auðlindina með því að ríkið taki veiðiheimildir og setji á uppboð. Þetta hefur reyndar verið reynt áður í fiskveiðum, með hörmulegum afleiðingum. Eignaréttur á veiðiheimildum er einmitt forsenda þess að fyrirtæki fjárfesti, auki framleiðni og þannig verðmætasköpun, sem er okkur Íslendingum svo mikilvægt. Uppboð á þessum heimildum, þó það sé gert í mörgum skrefum, er ómöguleiki sem verður útskýrt hér seinna. En hvers vegna skyldi nú stjórnmálamaðurinn leggja þessi ósköp til? Hann hefur útskýrt það með því að alls ekki sé verið að tala fyrir meiri skattheimtu á útgerðina, bara að tryggja sátt til framtíðar. En spurningin er sú; hver er sáttin ef annar aðilinn er algerlega á móti breytingunum? Sjávarútvegurinn yrði þannig ósáttur, en sá hluti landsmanna sem er á móti kvótakerfinu yrði sáttur!
Ómöguleiki uppboða á veiðiheimildum
En hvers vegna virka ekki uppboðin? Ef við tökum 5-10 % af aflaheimildum árlega og setjum á uppboð munu útgerðir bjóða í þær. Myndi það tryggja rétt verð á kvótanum? Fyrir útgerð sem hefur fjárfest í skipi og búnaði og búið að taka 10% af heimildum af þeim, þá standa þeir frammi fyrir ákveðnu vandamáli. Fyrir þá sem einhvern tímann hafa komið nálægt rekstri þekkja hugtök eins og fastur kostnaður og breytilegur. Fyrir flugfélag sem er að selja miða lítur dæmið út þannig að þegar búið er að selja dýra miða og komið er fyrir breytilegum kostnaði, getur borgað sig að bjóða miða á verði sem aldrei myndu duga til rekstursins, en skila þó einhverju upp í fastan kostnað. Sama gildir með útgerð sem þarf að leigja kvóta af ríkinu, til að fá hann getur borgað sig að bjóða verð sem dugar fyrir breytilegum kostnaði og skilar einhverju upp í fastan kostnað. Útgerðin sem slík myndi hins vegar aldrei bera sig með slíku veiðigjaldi, þannig að það verð endurspeglar á engan hátt hvaða veiðigjald er raunhæft. Er samt hægt að halda því fram að leiguverðið endurspegli getu útgerðarinnar til að taka á sig hækkun á veiðigjöldum?
Þekking á sjávarútvegi
Þegar ég sé hugmyndir margra stjórnmálamanna um veiðigjöld finnst mér einhvern veginn að þeir hafi bara ekki hugmynd um hvað þeir eru að tala! Svona álíka og ég skrifaði greinar um sinfóníuhljómsveit með sterkum skoðunum um hvort fjölga ætti fiðluleikurum eða senda trommuleikarann heim. Þetta skín reyndar í gegn frá bæði formanni og fyrrverandi formanni í flokki Daða Más; en ég geri bara miklu meiri kröfur til hans. Fyrir fólk sem vill kynna sér sjávarútveg vil ég benda á nýlega skýrslu sem heitir: Staða og horfur í Íslensku sjávarútveg og fiskeldi
https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Sta%C3%B0a%20og%20horfur%20%C3%ADslenskum%20sj%C3%A1var%C3%BAtvegi%20og%20fiskeldi.pdf
Uppboð ríkisins á veiðiheimildum er ekkert annað en sósíalismi þar sem horfið er frá markaðbúskap til ráðstjórnar. Hvernig halda menn að brugðist verði við því þegar eitt sjávarpláss tapar veiðiheimildum ár eftir ár, þar sem útgerðir þar hafa ekki sama bolmagn og öflugustu útgerðirnar til að bjóða há verð? Verður þá brugðist við því með sértækum aðgerðum? Sendir sérfræðingar til að ráða bót á vandanum og leysa hann? Það er ráðstjórn! Ástæða þessa að veiðigjald er reiknað sem hlutfall af hagnaði er einmitt hugsuð til að verja veikari útgerðir gagnvart þeim öflugu. Íslenskur sjávarútvegur er vel rekinn og á eðlilegum grunni. Þegar búið er að taka rúmlega 30% af hagnaði í veiðigjöld er hann á pari við önnur vel rekin fyrirtæki með rekstrarhagnað en greiðir sér heldur minni arð af hlutafé.
Gunnar Þórðarson Viðskiptafræðingur.
26.8.2021 | 11:07
Umræða um loftslagsmál
Umræða um loftslagsmál Það er erfitt að festa hönd á stefnu þeirra sem mest hafa sig í frammi í umhverfis-og loftslagsmálum á Íslandi. Bæði fer hljóð og mynd ekki saman og eins mætti ætla að Íslendingar einir og sér séu í stöðu til stöðva útblástur gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum í öllum heiminum. Í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 8. ágúst s.l. voru mætt í settið hjá Kristjáni stjórnanda núverandi og fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar; Auður Magnúsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ásamt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til að ræða loftslagsmál og ábyrgð Íslendinga á ástandi heimsins. Eins og Sigmundur Davíð benti á eru Íslendingar í einstakri stöðu þegar kemur að útblæstri CO2, framleiða mesta raforku á mann í heiminum sem er öll umhverfisvæn og hita upp meginpart húsnæðis með endurnýjanlegum orkugjöfum. Hann sagði þetta mikilvægasta framlag þjóðarinnar til loftslagsmála heimsins, sem er hnattrænt, þar sem eitt álver á Íslandi losar rétt rúmlega 10% af gróðurhúsalofttegundum álvers staðsett í Kína, en þar hefur vöxtur álframleiðslu verið mestur undanfarna áratugi. Þessu hafna Landverndarmenn algjörlega og segja að engin sönnun sé til á þessari staðhæfingu. Þó það blasi við að álver í Kína nota kol sem orkugjafa en Íslendingar endurnýjanlega orku. Framkvæmdastjóri Landverndar opinberaði fullkomna vanþekkingu sína á hagfræði þegar hún hélt því fram að framleiðslan á Íslandi hafi valdið lækkun á heimsmarkaðsverði og valdið því að endurvinnsla áls hafi nánast stöðvast í heiminum. Engin skilningur á framboði og eftirspurn og viðurkenning á því að lokun álvera á Íslandi mun ekki minnka framboð, þar sem eftirspurnin mun ráða för. Einnig má bæta því við að enginn málmur er meira endurunninn í heiminum en ál. Þetta sama fólk hefur með endalausum kærum staðið gegn virkjanaframkvæmdum sem þó munu skila miklum árangri í loftslagsmálum, margföldum við að rafvæða bílaflotann. Það hefur með ofbeldi staðið gegn uppbyggingu flutningakerfisins sem kostar þegar mikil töp við dreifingu orku um landið og veldur miklu óöryggi á afhendingu sem er einn þáttur í að letja menn til að fara í orkuskipti. Það hefur sem dæmi ekki gengið lítið á þar sem þetta sama fólk hefur barist gegn virkjun Hvalár og notað til þess opinbert fé, virkjun sem er staðsett utan jarðskjálfta- og eldgosa svæða, og mun hafa umtalsverð áhrif á raforku öryggi Vestfjarða og opna leið til að virkja í Ísafjarðardjúpi. Það blasir nú við að umhverfisvæn framleiðsla á kalkþörungum í Súðavík mun nota gas sem orkugjafa en ekki umhverfisvænt rafmagn, einmitt vegna þessa. Sömu aðilar hafa barist með hnúum og hnefum gegn fiskeldi á Íslandi og nýtt sér áróður sem minnir helst á stjórnmálastefnu á fyrri hluta síðustu aldar, þar sem sannleikur og staðreyndir skiptir engu mál. Sannleikurinn er sá að ef við ætlum að fæða níu milljarða manna á jörðinni er engin leið til þess nema nota ræktun og eldi í sjó. Miðað við framleiðslu á próteini stendur engin eldisframleiðsla fiskeldi á sporði hvað varðar umhverfisvæna framleiðslu; ef hins vegar er litið til framleiðslu á kaloríum þá veldur framleiðsla á grænmeti meiri losun en fiskeldi. Við höfum séð umhverfissinnana standa gegn framförum í samgöngum sem þó eru einn lykilþáttur í að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda. Í tæp tuttugu ár þvældust þau fyrir eðlilegum og nauðsynlegum vegabótum fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum, af ástæðum sem erfitt er að skilja. Nú blasir við dæmi sem spennandi verður að fylgjast með næstu misserin. Þýskt fyrirtæki fyrirhugar mikla námuvinnslu á vikur á Mýrdalssandi, og ætlunin er að flytja út milljón tonn á ári. Þetta mun klárlega auka útblástur gróðurhúsaloftegunda á Íslandi, en spara það verulega á heimsvísu. Þó að þurfi 30 trukka til að aka vikrinum um 180 km leið í skip, mun þetta draga úr notkun á sementsgjalli í steypuframleiðslu í Evrópu sem veldur mikilli losun á koldíoxíðs við framleiðsluna. Hvernig mun þetta öfgafólk tækla þetta? Kannski er bara verðmætasköpunin við námuvinnsluna sem fer mest í taugarnar á þeim? Til að bíta höfuðið af skömminni nefndi umhverfisráðherra sjávarútveg á Íslandi sem dæmi um umhverfissóða. Sjávarútvegur hefur tekist á við loftslagsmálin af mikilli festu undanfarin ár. Með skilvirku stjórnkerfi fiskveiða og fjárfestingunum í nýjum skipum og búnaði hefur útblástur gróðurhúsalofttegunda dregist verulega saman á hvert veitt tonn, tala nú ekki um verðmæti. Enginn sjávarútvegur stenst samanburð við þann Íslenska í þessum efnum. Það kom fram nokkrum sinnum í umræddum Sprengisandsþætti að þó loftslagsmálin væru mikilvæg þá voru ráðherra og framkvæmdastjóri Landverndar tilbúin að setja þau í annað sætið, þegar kemur að ýtrustu kröfum þeirra um landvernd. Nú er það auðvitað svo, að flest sem við gerum veldur einhverjum áhrifum á umhverfið. Við verðum hins vegar að geta tekið skynsamlega umræðu um hvort ávinningurinn sé meiri en kostnaðurinn. Við munum aldrei komast áfram með öfgafullri og rakalausri umræðu um loftslagsmálin. Það þarf að sameina fólk í þeim breytingum sem við þurfum að gera til að snúa þessari þróun við. Málflutningur sem minnir oft á Talibana er ekki til þess fallinn, þvert á móti sundrar það fólki og hægir þannig á skynsamri og lífsnauðsynlegri þróun. Það tók einmitt Talibana aðeins fimm ár að rústa efnahag Afganistans þegar þeir voru þar síðast við völd. Einmitt vegna öfga, einstengisháttar og afneitun á viðtekinni þekkingu í efnahagsmálum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.9.2021 kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2021 | 13:08
Hálfrar aldar sögur að Vestan
Fyrir um 50 árum stóðum við Dóri Ebba vinur minn og jafnaldri upp á dag, frammi fyrir því að sækja okkur kvonfang. Við höfðum augastað á ungmeyjum í Bolungarvík en þurftum bara að vinna hug þeirra og sannfæra um ágæti okkar. Ekkert fékk stöðvað okkur, snjóflóð eða aurskriður á Óshlíðinni, enda lá mikið undir hjá ástföngnum ungum mönnum. Eitt sinn ókum við á Willis jeppa sem Ebbi átti, breyttur með háu húddi, sem hannaður var fyrir eyðimerkur hernað Ísraelsmanna. Þegar ekið var inn á breiðstræti Bolungarvíkur, sem venjulega er mannlaust og lítil umferð, fannst okkur eins og við þyrftum að láta á okkur bera. Eins og ungir menn gera þegar þeir gera hosur sínar grænar fyrir ungmeyjum. Dóri setti jeppann í fyrsta gír á miðri breiðgötunni, þeirri einu á Íslandi, og við fórum upp á þak á jeppanum. Þetta er algerlega eðlileg hegðun manna í tilhugalífi, allavega haga fuglarnir sér svona. Þar sem við stóðum upp á þaki jeppans og horfðum yfir sviðið með leitandi augum að okkar heittelskuðu, kemur lögreglan aðvífandi. Einar Þorsteinsson var þar mættur, hann skipaði okkur að stíga niður og hætta þessum fíflalátum. Maðurinn hafði engan skilning á því að við vorum að hefja langtíma samband við bolvískar meyjar, enda þarf að vanda til þess sem lengi á að standa. Þetta væri nauðsynlegt ástarbrím til að ná athygli og hefði átt að vera yfir lög og reglu hafið. Einar heitinn hafði hins vegar engan skilning á þessu, sennilega verið gersneyddur rómantík. Ég er nú rólegheitar maður og yfirvegaður, eins og ég á kyn til. En Dóri er svo andskoti skapstór! Þegar löggan hafði drepið á vélinni og tekið lyklana fauk í minn mann og allt endaði þetta með slagsmálum og við tveir í dýflissunni. Þar hófust miklir samningar sem enduðu með því að okkur var sleppt með því fororði að við kæmum aldrei aftur til Bolungarvíkur. Sá samningur var marg brotinn, enda unnum við hjörtu ungmeyjanna, sem hefur borið ríkulegan ávöxt í gegnum tíðina. Dóri flutti meira að segja til Bolungarvíkur um tíma, og eftir því sem ég best veit var þeim Einari vel til vina. Við áttum eftir að fara marga svaðilförina um Óshlíðina, oft þannig að hún var nánast ófær vegna grjóthruns og einhverju sinni ætlaði Pimmi að skutla okkur ef festi Willisinn sinn ofan á snjóflóði. Ekkert fékk stoppað okkur á þá daga. Eitt sinn vorum við Daddi bróðir að aka á Dodsinum hans pabba, á eftir Willisinum hans Ebba út Óshlíðina, og Dóri undir stýri. Palli skólabróðir Dadda var með og allt í einu sjáum við Willisinn fljúga út af veginum og endasendast niður snarbratta hlíðina. Margt fór í gegnum hugann þegar ég hljóp niður brattann í átt að jeppanum. En fljólega kom ég að einum liggjandi og lifandi, sem hafði flogið út um afturgluggann. Á þessum jeppum var yfirbygging úr timbri, og neðar kom ég að þakinu þar sem hinir tveir lágu óslasaðir á því. Jeppinn lá hins vegar ónýtur ofaní fjöru og rauk úr honum. En ástir okkar í Bolungarvík entust vel og lengi og kominn heilir ættleggir út frá ævintýrinu. Í gær kvöddum við hins vegar eiginkonu Dóra, Ásgerði Kristjánsdóttur sem nú er sárlega syrgð. Glaðværasta og jákvæðasta manneskja sem ég hef kynnst um ævina, blessuð sé minning hennar. En eftir stendur vinátta okkar þriggja, mín, Dóra og Pimma. Við stofnuðum hljómsveitina, Tigers, sem enn er til. Það eina sem hefur þvælst fyrir okkur á framabrautinni er hæfileikaleysi okkar í tónlist, við getum hvorki lært á hljóðfæri né sungið. En eftirspurnin um að komast í hljómsveitin er gríðarleg. Jómbi vinur okkar hefur sótt um árlega en er ávallt hafnað.
Gunni Tóta Júl
8.2.2021 | 13:53
Auðlindakafli stjórnarskrár
Þjóðnýting auðlindar
Öðruvísi mér áður brá þegar fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og sjávarútvegráðherra talar fyrir þjóðnýtingu sjávarútvegs á Íslandi í Fréttablaðinu sl. fimmtudag. Erfitt var að sjá fyrir sér að Þorsteinn Pálsson talaði fyrir þjóðnýtingu og ráðstjórn, en því auðveldara að sjá formann flokks hans í í þeim sporum. Þorsteinn notar hugtökin virk og óvirk þjóðareign á auðlindum. Réttara væri að kalla þetta réttum nöfnum, ráðstjórn eða markaðshagkerfi.
Stjórnarskráin
Nú á að nota stjórnarskrá lýðveldisins til að láta drauminn rætast um þjóðnýtingu sjávarútvegs og hugmyndin er þá að úthluta kvóta tímabundið með útboðum ríkisins. Slíkt kerfi hefur verið reynt í öðrum löndum með mjög alvarlegum afleiðingum og hruni í atvinnugreininni. Það þarf ekki sérfræðing til að sjá að með tímabundinni úthlutun mun enginn fjárfesta til langs tíma, en sjávarútvegur er mjög fjárfestingafrek atvinnugrein. Þeir sem bjóða í veiðiheimildir verða þá að hafa aðgang að skipum og vinnslum til að geta boðið í kvótann, sem augljóslega býður upp á offjárfestingu í greininni. Annað er, að slík óvissa myndi hafa veruleg áhrif á stöðu sveitarfélaga sem eru háð sjávarútveg og kæmust þeir ekki að við útboðið, og þá stæðu þau sveitarfélög eftir á vonar völ. Gegn þeim rökum hafa sósíalistarnir sagt að í slíkum tilfellum verði gripið til sértækra aðgerða af hálfu ríkisins.
Virk/óvirk þjóðareign
En hvers vegna að draga línuna við sjávarútveg? Stóriðjan er auðlindaháð og hefur notið góðs af hagstæðri orku, sem fengin er úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Er þá ekki næsta skref að segja við eigendur þeirra fyrirtækja að framvegis verði aðeins samið við þá í tíu ár og síðan færi fram útboð á raforkunni? Dettur einhverjum í hug að stóriðja hefði byggst upp á Íslandi ef slík ákvæði væru jafnvel bundin í stjórnarskrá. Hvað með bændur, á að veita þeim tíu ára beitingarétt á afréttum í senn? Annað er sem ég hnýt um í grein Þorsteins er tilvitnun hans um ósvinnuna um óvirka þjóðareign, að aflaheimildir geti erfst milli ættliða. Ef slíkt er sett í stjórnarskrá að útgerðarmaður afhendi fyrirtækið til ríkisins þegar hann deyr, hvers vegna að einskorða það við sjávarútveg; má þá ekki setja slíkt ákvæði um t.d. stóriðju og bændur? Hvers eiga aðrir hluthafar í útgerð, t.d. lífeyrissjóðir, að gjalda við slík tímamót? Ég er þess fullviss að svona umræða gæti hvergi átt sér stað Norðurlöndum nema á Íslandi. Hvergi nema hér myndu stjórnmálamenn tala af slíku ábyrgðaleysi um eignarréttinn. Málið er að grundvöllur fyrir velgengni íslensks sjávarútvegs er eignarréttur á nýtingu aflaheimilda. Þess vegna erum við heimsmeistarar í sjávarútvegi og erum undantekning þar sem greitt er auðlindagjald fyrir uppsjávar og botnfiskveiðar til ríkisins
Afkoma sjávarútvegs
Fyrir nokkrum árum tók undirritaður þátt í að taka saman skýrslu um áhrif veiðigjalda á fjárfestingagetu útgerða. Það var á tímum hreinnar vinstri stjórnar sem hækkaði veiðigjöld verulega og höfðu hugmyndir um að bæta hressilega í. Niðurstaðan var sú að hefðu villtustu hugmyndir sósíalista náð fram að ganga hefði engin útgerð fjárfest í nýjum skipum, enda engin banki lánað þeim fyrir fjárfestingunni. Í þessari úttekt var ekkert pláss fyrir tilfinningar, bara grjótharðar tölur. Undanfarin tíu ár hafa veiðigjöld hækkað mikið og með ólíkindum hversu vel útgerðin hefur brugðist við því, en það er gert með aukinni samþjöppun þar sem minni útgerðir gefast upp og renna inni stórútgerðir. Það eykur framlegð og hefur dugað til að bregðast við hærri veiðigjöldum. Með frekari hækkun mun þessi þróun halda áfram, sem út af fyrir sig er þjóðhagslega hagkvæmt, en vilji menn feta þá slóð þá eiga stjórnmálamenn að segja það hreint út. Málið er að sjávarútvegur á Íslandi er heilbrigð atvinnugrein sem skilar miklum verðmætum inn í íslenskt samfélag. Hann skilar reyndar heldur minni hagnaði en meðaltal fyrirtækja í kauphöll og arðgreiðslur til eiganda eru minni. Aukin skattlagning á atvinnugreinina mun ekki skila neinum verðmætum, nema eins og áður hefur komið fram... með aukinni samþjöppun og stærri fyrirtækjum. Vankunnátta eða lýðskrum Með það í huga vekur það furðu undirritaðs að íslenskir stjórnmálamenn séu tilbúnir til að gera tilraun með atvinnugreinina, þrátt fyrir að dæmin séu til um að sú leið er ófær. Ástæðan er vonandi vankunnátta þar sem um flókið málefni er að ræða, eða hreinlega lýðskrum og stjórnmálamenn séu enn og aftur að nýta sér áratuga ófrægisherferð á greinina til að sækja sér atkvæði. Ef það fyrrnefnda er vandamál hjá Viðreisn skal benda þeim á að ræða við varaformanninn sem þekkir málefni auðlindanýtingar betur en nokkur annar Íslendingur.
Gunnar Þórðarson Viðskiptafræðingur
10.12.2019 | 14:42
Samstarf Matís og Utanríkisráðuneytisins í Filipseyjum
Matís ohf tók þátt í verkefni síðsumars á Filippseyjum sem var hluti af samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og Alþjóðabankans um að veita aðgang að sérfræðiþekkingu Íslendinga. Hlutverk Matís í þessari ferð var að styðja við tillögur Alþjóðabankans um uppbyggingu á eldi í sjó, með sérstaka áherslu á ræktun á þangi.
Ræktun á þangi á Filipseyjum
Filippseyjar eru þriðju mestu ræktendur á þangi í heiminum, næstir á eftir Kína og Indónesíu, og rækta um 1,5 milljónir tonna á ári. Megin hluti þessarar ræktunar er notað sem hráefni í carageenens framleiðslu, sem fer síðan í útflutning og meðal annars notað til framleiðslu á matvælum. Ræktun á þangi er mikilvæg fyrir efnahag landsins og afkomu fólks, en um ein milljón manna hafa lifibrauð af atvinnugreininni. En ræktunin er frumstæð og bændur búa við mikla fátækt og óvissu. Hver fjölskylda ræktar þara á svæði sem er um hálfur til einn hektari, og fer ræktunin aðalega fram á grunnsævi til að bændur getið athafnað sig án þess að nota báta. Það eru margskonar ógnir sem bændur búa við, stormar geta lagt ræktunina í rúst og breytingar á hitastigi sjávar eða seltustigi geta valdið sjúkdómum sem eyðileggja uppskeruna. Bændur hafa ekkert borð fyrir báru, og þó að þeir geti náð 4-6 uppskerum á ári, þarf ekki marga bresti til að þeir hafi ekki efni á að kaupa nýjan búnað eða græðlinga og þá er ræktunin sjálfstopp og fjölskyldan án lífsviðurværis.
Að bjarga heiminum
Í skýrslu sem Alþjóðabankinn gaf út fyrir skömmu er dregin upp mynd af því mögulega sem hægt væri að gera til að auka ræktun á þangi í hitabeltinu, svolítið eins í fullkomnum heimi. Þar kemur fram að fram til ársins 2050 þarf að auka heimsframleiðslu á próteini um 50 70% til að fullnægja fæðuþörf jarðarbúa. Það verður varla gert með hefðbundnum landbúnaði sem er í dag ein helsta uppspretta gróðurhúsaloftegunda og neikvæðra umhverfisáhrifa og hreinlega ekkert pláss til ræktunar. Mikil tækifæri liggja hins vegar í ræktun í sjó sem jafnframt hefði jákvæð áhrif á lífríki jarðar. Ef ræktun á þara ykist um 14% á ári gæti framleiðslan á þurrvigt orðið 500 milljón tonn árið 2050. Ef tekið er til greina þær miklu framfarir sem hafa orðið á búnaði til ræktunar, þekkingu og tæknilegum lausnum sem liggja fyrir, ætti það að vera mögulegt. Með hefðbundum ræktunaraðferðum ræktar hver bóndi um 20 tonn af hálfþurrkuðum þara (cottonii) en með nútíma tækni og breyttu skiplagi gæti hann framleitt 100 til 120 tonn á ári.
Nýta kaupfélagsformið
Ein hugmyndin til að auka framleiðsluna er að stofna kaupfélög um ræktunina, með um 100 bændum, og til hliðar við það væri tryggður rekstur um ræktun og framleiðslu á græðlingum. Fjármagn væri útvegað til að nútímavæða ræktunina þar sem hún væri færð á meira dýpi og búnaðurinn væri strengdur niður, ekki ósvipað og við þekkjum með laxeldiskvíar hér á landi. Mikilvægt er að finna aðila sem fólkið treystir til að vera í forystu kaupfélagsins, sem greiðir síðan bændum lágmarkslaun allan ræktunartímann, og síðan aukalega fyrir hráefni þegar því er skilað inn. Einnig mun safnast upp höfuðstóll í kaupfélaginu sem bændur eiga og hægt er að nota við fjárfestingar eða greiða árlega út arð, eða takast á við óvæntan mótbyr við ræktun. Kaupfélagið fjárfestir í vöruskemmu og getur því stýrt framboði miðað við eftirspurn, en hægt er að geyma forþurrkaðan þara í allt að þrjú ár. Kaupfélagið selur framleiðsluna beint til verksmiðjunnar og losnar þannig við tvo til þrjá milliliði (kaupmenn) sem starfa í virðiskeðjunni í dag.
Nýjar aðferðir við ræktun
Með því að færa ræktunina á meira dýpi losna bændur við sveiflu í hita og seltustigi sem veldur sjúkdómum og er ein mesta ógnunin í dag. Við fjöruborðið getur selta og hiti breyst mikið við rigningar, sem geta stundum dunið á vikum saman í hitabeltinu. Þannig gætu þessar hugmyndir breytt miklu fyrir íbúa svæða þar sem ræktunin fer fram, sem eru mjög fátækir og lifa fyrir hvern dag fyrir sig í algeru öryggisleysi. Með 500 milljón tonna framleiðslu myndu skapast 50 milljón bein störf við ræktun í hitabeltinu, sem gætu með óbeinum störfum orðið um 100 milljón og skilað 500 milljörðum dollara í verðmætum. En það hangir fleira á spýtunni og þá komum við að umhverfisþætti þess að rækta 500 milljón tonn af þara á ári!
Að fæða heiminn
Slík framleiðsla myndi auka matarframboð heimsins um 10%. Úr þurrkuðum þara má vinna á bilinu 10-30% af próteini, og þannig myndi 500 milljón tonn skila í kringum 150 milljónum tonna af þörungapróteini og 15 milljón tonnum af þörungalýsi. Þörungalýsi getur innihaldið omega 3 fitusýrur og líkist því fiskalýsi. Ef tekið er tillit til mismunandi próteininnihaldi í þörungamjöli og t.d. soyjamjöli gæti framleiðsla á því fyrrnefnda jafnast á við 20% af framleiðslu þess síðarnefnda og framboð af þörungalýsi yrði sjöfalt miðað við framboð af fiskilýsi í heiminum í dag. Ef hægt væri að framleiða fiskifóður úr afurðum þara, sem síðan yrði notað til fiskeldis, sem er umhverfisvænasta próteinframleiðsla sem þekkist, væri búið að leysa hluta af umhverfisvanda heimsins. En þar með er ekki öll sagan sögð!
Gríðarleg umhverfisáhrif
Þari lifir á kolsýru og köfnunarefni. Í dag eru notuð um 150 milljón tonn af áburði (köfnunarefni) en aðeins helmingurinn af því nýtast jurtum, en um 15 30% skilar sér í sjóinn. Þetta hefur skapað um 250.000 km2 af dauðasvæðum í heimshöfunum. Þangrækt gæti tekið í sig um 10 milljón tonn af köfnunarefni árlega, eða um 30% af því sem við látum frá okkur í sjóinn. Önnur mengun sem veldur miklum áhyggjum í sjónum er kolsýra (CO2), sem skolast með rigningu úr menguðu andrúmsloftinu og endar í sjónum. Hækkandi sýrustig sjávar er meðal stærstu áskorunum sem maðurinn stendur frammi fyrir, sem þegar er farið að hafa neikvæð áhrif á lífríki hafsins. Með ræktun á 500 milljón tonnum myndi þari taka í sig um 135 milljón tonn af kolsýru, um 3,2% af árlegri mengun sem sjórinn tekur við á ári.
Er þetta hægt?
Allt hljómar þetta eins og ævintýri og sumir myndu segja að væri of gott til að vera satt! Enn er ekki búið að þróa hagkvæmar afurðir úr þara til að nota sem fóður. En til þess að virkja hugvit og frumkraft þarf að sýna fram á framboð í framtíðinni. Trúi menn ekki á framboðið verður ekki til sá hvati sem til þarf að þróa verðmætar afurðir úr þessu grænmeti hafsins. Þannig verður vænt framboð og eftirspurn að fara saman hönd í hönd. Matís hefur þegar komið að tugum rannsókna á nýtingu þörunga og mikill áhugi er meðal erlendra rannsóknaraðila á málinu. Efna- og plastframleiðendur hafa sýnt því áhuga að nota hluta af þangi til framleiðslu sinnar. En hvað þarf til að koma svona hugmyndum á rekspöl? Tæknilega verða engar óyfirstíganlegar hindranir, sem hugvit og frumkvæði geta ekki leyst. Allt mun þetta snúast um mannlega þáttinn, að koma á breytingum og endurskapa núverandi menningu. Breytt hugafar og virkja bændur til að vinna undir skipulagi, bæta þekkingu og mannauð.
Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2019 | 11:38
Indónesía
Ég verið að vinna í höfuðborg Indónesíu, Jakarta, undanfarið í rúmlega tveggja vikna vinnuferð fyrir Alþjóðabankann. Það er alltaf jafn gaman að vakna snemma og grípa Moggann (The Jakarta News) undan herbergisdyrunum á hótelinu, arka í frábæran morgun verð og lesa um ástandið hér í landi. Reyndar er ástandið nokkuð gott undir styrkri stjórn Jokowi, sem nýlega fékk endurnýjað umboð kjósenda sem forseti landsins. Kosningabaráttunni er nýlega lokið með hans sigri eftir nokkuð hat-römm átök. Það sem vekur athygli gestsins við lestur bæjarblaðsins er hversu margt er skylt því sem gengur á í pólítík annarstaðar í heiminum. Eins og víða um heim eru átökin ekki lengur um hægri og vinstri, sósíalisma eða auðhyggju og hlutverk ríkisins; heldur er hún hér um fjölmenningu eða öfgafulla múslimska hugmyndafræði. Það er ljóst að mörgum er létt yfir sigri Jakowi, talsmanni þess fyrrnefnda og mikill óhugnaður meirihlutans hér í landi yfir því sem minnihlutinn berst fyrir. Sem betur fer eru litlar líkur á að Indónesía verði íslamskt ríki eins og Sádi Arabía eða Íran. Hér ríkir nokkuð frjálslyndi og lýðræði virðist standa traustum fótum. En um þetta er tekist í pólítíkinni. Í Bandaríkjunum er sá flokkur sem ég hefði talið mig aðhyllast, Repúblikanaflokkinn vera á skrítnum stað, þar sem hann stendur fyrir einangrun í heimsviðskiptum með haftastefnu í forgrunni. Flokkur sem hingað til hefur staðið fyrir viðskiptafrelsi, og verið forysturíki í lýðræðisvæðingu í heiminum. Í Bretlandi berst Íhaldsflokkurinn fyrir svipuðum markmiðum, þvert á allt sem hann hefur staðið fyrir frá upphafi. Þessir tveir flokkar eru með elstu stjórnmálaflokkur sem til eru í dag. Á Íslandi er svipaða sögu að segja þar sem fólk sem maður taldi samherja sína og tryðu fyrst og fremst á frelsi einstaklingsins, borgarleg réttindi, réttarríkið og frjáls viðskipti, berjast með hnúum og hnefum gegn viðskiptafrelsi. Virðast ekki skilja muninn á einstaklingsfrelsi og frelsi ríkisins til að ákveða alla hluti. Frjálsasta ríki veraldar í dag, Norður Kórea, hefur ekki undirgengist yfir þjóðlegt vald og er þannig frjálst, en einstaklingarnir eru hins vegar kúgaði þannig þyngra er en tárum taki. Þessir þjóðernissinnar virðast vera á móti frjálsum viðskiptum og markaðhagkerfi, sem er þó okkur borgurunum svo mikils virði og er reyndar grunnur að lífsgæðum okkar. En Indónesía fer vel með mig og hér er gott að vera. Gott fólk og góður matur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2019 | 12:42
Borgaralegur réttur
Það er svo mikilvægt að gæta að borgaralegum réttindum og dómstólar noti ekki hefnigirni við dóma sína heldur styðjist við lög. Þessi hrunmál á Íslandi er okkur sem þjóð til vansa.
Allir sýknaðir í CLN-máli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.5.2019 | 08:10
Grein í BB 23. maí 2019
Loftslagsbreytingar af mannavöldum
Meðalhiti á jörðinni hefur hækkað um 0,85 °síðan 1880 sem vísindamenn tengja við aukningu á CO2 í andrúmsloftinu, frá 278 ppm (1750) upp í 412 ppm í dag. Það er engin spurning að hlýnun jarðar af mannavöldum er stærsta áskorun sem jarðarbúar hafa staðið frammi fyrir. Verkefnið er yfirþyrmandi og mikilvægt að þjóðir heims taki sig saman um lausn málsins og geri sér grein fyrir að um hnattrænan vanda er að ræða.
Undirritaður lítur á sig sem umhverfissinna en oftar en ekki getur hann alls ekki samsamað sér þeim sem mest hafa sig í frammi um þessi mál, og virðast oftar en ekki láta ráðast af ofstæki og pólitískum rétttrúnaði. En vilji Íslendingar hafa áhrif á heimsvísu og mark sé á þeim takandi þurfa þeir að vera til fyrirmyndar, en samstaða hér innanlands er alger forsenda þess. Notast við hlutlægt mat en enn byggja á tilfinningum einum eða láta stjórnmálaskoðun afvegaleiða umræðuna.
Aukning á losun gróðurhúsalofttegunda skrifast að mestu leyti á bættan efnahag fjölmennra ríkja í Asíu, s.s. í Kína og Indlandi. Þar eru minni kröfur gerðar um útblástur farartækja og orkuvera en t.d. í Evrópu, en skiljanlegt að erfitt sé að sannfæra þessar þjóðir um að draga úr hagvexti til að bjarga heiminum. Aukning á lífsgæðum í þessum löndum skýrir aukningu á orkuþörf og matvælaframleiðslu, fjölgun farartækja og eyðingu skóga í heiminum. Losun gróðurhúsalofttegunda er hnattrænt vandamál og tekur ekkert tillit til landamæra.
Umhverfissinnar viðast ekki sjá skóginn fyrir trjám í baráttu sinni og stað þess að skapa sátt meðal almennings um að bæta umgengni um umhverfið berjast þeir hiklaust gegn jákvæðri þróun sem dregur úr losun á gróðurhúsalofttegundum í heiminum. Tökum dæmi!
Þessi háværi fámenni hópur hefur markvisst barist gegn stóriðju á Íslandi, þó ljóst megi vera að mikilvægasta framlag Íslendinga í loftslagsmálum er einmitt stóriðja sem nýtir umhverfisvæna orku. Álver á Íslandi mengar brot á við álver í Kína sem notar brúnkol sem orkugjafa. Ef við lokuðum öllum álverum á Íslandi myndi það ekki hafa nokkur áhrif á heimsmarkaðinn, þar sem framboðið yrði aukið frá kínverskum álverum en stórauka losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig þarf að hafa í huga þegar rætt er um ál að sá málmur er, fyrir utan framleiðsluna sjálfa, mjög umhverfisvænn þar sem hann léttir farartæki og einnig er ódýrt og umhverfisvænt að endurnýta hann.
Mikið er talað um mengun af völdum kísilvera og barist gegn framleiðslu þeirra á Íslandi. Kísill er notaður við framleiðslu á sólarrafhlöðum þannig að taka þarf það inn í myndina þegar talað er um losunina við framleiðsluna, að hann er forsenda þess að nýta umhverfisvæna orku.
Umhverfissinnar berjast með hnúum og hnefum gegn umhverfisvænum virkjunum á Íslandi þó einmitt það sé okkar framlag til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda á heimsvísu. Þeir berjast einnig gegn lagningu flutningslína sem veldur mikilli sóun í Íslenska raforkukerfinu. Með aukningu á bráðun jökla, vegna gróðurhúsalofttegunda, eykst afl virkjana en ekki er hægt að nýta þessa orku þar sem flutningkerfið hefur ekki undan.
Umhverfissinnar berjast gegn laxeldi á Íslandi. Laxeldi er umhverfisvænasta próteinframleiðsla sem til er og samkvæmt úttekt FAIRR (https://www.fairr.org/index/) eru fjögur laxeldisfyrirtæki af fimm próteinframleiðslu með lægstu umhverfisáhættu á heimsvísu, og reyndar sex meðal þeirra öruggustu af 11 fyrirtækjunum í heiminum. Í öllum samanburði við hefðbundinn landbúnað skorar eldi mjög hátt sem umhverfisvæn framleiðsla. Hvalaafurðir skora vel sem umhverfisvænasta kjötframleiðsla sem til er, en umhverfissinnar berjast gegn þeim af miklu offorsi. Þeir berjast gegn notkun áburðar sem er forsenda þess að hægt sé að fæða níu milljarða jarðarbúa. Ef öll framleiðsla yrði vistvæn dygði ekki að höggva alla skóga jarðar fyrir ræktarland og sótspor stóraukast við landbúnað, þar sem framleiðni mynd dragast verulega saman. Þessi barátta gegn umhverfisvænni framleiðslu matvæla hefur verið einstaklega óvægin og tilgangurinn helgar meðalið og ekki skirrst við að halda fram staðleysum og ósannindum. Þessi barátta gegn umhverfisvernd er drifin áfram af auðmönnum sem leggja til umtalsverða fjármuni til áróðurs og afvegaleiða almenning í málinu.
Á sama tíma talar enginn um fílinn í stofunni en hefðbundinn landbúnaður (kjöt- og mjólkurframleiðsla) stendur undir 11% próteinþörf heimsins og notar til þess 83% af ræktarlandi. Enn er verið að höggva skóga í stórum stíl til að auka framleiðslu á kjöti og mjólk. Á Íslandi hafa bændur grafið skurði sen jafngilda vegalengdinni í kringum hnöttinn, til að þurrka upp mýrar. Umhverfissinnar láta sig það í léttu rúmi liggja, enda telur það ekki með í bókhaldinu, en um er að ræða mesta skaðvaldinum hér á landi við losun gróðurhúsalofttegunda. Framleiðsla á kindakjöti losar um 40 kg af CO2 við framleiðslu á hverju kíló af kjöti. Ef Íslendingar myndu stilla framleiðslu á kindakjöti við eftirspurn á heimamarkaði væri hægt að minnka framleiðslu um 4.000 tonn af kjöti, sem minnkar losun um 160 þúsund tonn af CO2. Þá er ótalin sótsporin við að flytja kjötið, niðurgreitt af ríkinu, á fjarlæga markaði. Landbúnaður losar um 24% af öllum gróðurhúsalofttegundum í heiminum en samgöngur um 14% þannig að augljóst er hver sökudólgurinn er.
Það er einmitt í samgöngum sem Íslendingar geta verið góð fyrirmynd í umhverfismálum. Sjávarútvegur hefur staðið sig mjög vel og dregið hefur stórkostlega úr sótspori við veiðar og vinnslu. Mestu munar skipulag og stjórnun með kvótakerfi sem hefur aukið veiði miðað við sókn. Fiskveiðiflotinn er einnig mun umhverfisvænni í dag og með þróun á hönnun skipa, bættum vélbúnaði og jafnvel orkuskiptum um borð og í vinnslunni hefur Grettistaki verið lyft. Rafbílavæðing er mikið í umræðunni en ekki er allt sem sýnist í þeim efnum, en sótspor við framleiðslu á rafhlöðum er umtalsverð og dregur verulega úr jákvæðum áhrifum orkuskipta. Bílar eru einungis að losa um 4% af heildarlosun í heiminum þannig það eitt og sér leysir ekki málin.
Það er alltaf stutt í viljann til skattheimtu hjá umhverfissinnum þegar kemur að baráttu við losun gróðurhúsalofttegunda. Umhverfisskattar á almenning eru um fimm milljarðar á ári og krafan um frekari skatta, sérstakleg á fyrirtæki er hávær. Ef Íslendingar skattleggja álverin frá sér með umhverfissköttum aukum við einfaldlega mengun í heiminum. Ef skattar eru ekki settir til að liðka fyrir orkuskiptum, eru þeir ekki umhverfisvænir og ganga einfaldlega út á að auka tekjur ríkissjóðs. Kolefnisgjald á flug dregur ekki úr sótspori en eykur bara kostnað almennings. Enginn möguleiki er fyrir flugfélög að skipta yfir í umhverfisvænni orku. Varla vilja Íslendingar nota kolefnisskatt til að draga úr ferðalögum almennt séð? Við búun á stjálbýlli eyju og þurfum því meira en aðrir á flugi að halda.
Ef Íslendingar vilja hafa áhrif á heimsvísu og vera til fyrirmyndar er nær að tryggja stuðning almennings. Mikilvægt er að nota hlutlægt mat á losun gróðurhúsaloftegunda og almennt að gera sér grein fyrir því að vandamálið er hnattrænt. Umræðan þarf að byggja á hlutlægum sannleika en ekki huglægum eða pólitískum rétttrúnaði. Huglægur sannleikur dugir vel í trúarbrögðum en er ekki nothæfur í umræðu um umhverfismál og virkja almenning til að draga úr mengun og hnattrænni hlýnun.
Gunnar Þórðarson
Viðskiptafræðingur
26.3.2019 | 08:39
Vinnsla, flutningur og markaðssetning eldisfisks frá Íslandi
Ráðstefnan Strandbúnaður verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík dagana 21 22 mars n.k. Strandbúnaður vísar til landbúnaður og er vettvangur aðila sem tengjast eldi og ræktun í sjó og vatni. Á ráðstefnunni eru erindi og kynningar á öllu því helsta sem er að gerast í þessari grein og reynt að varpa ljósi á þróun til framtíðar.
Ein málstofa ráðstefnunnar heitir Vinnsla, flutningur og markaðsetning eldisfisks þar sem staðan er tekin og tækifæri metin. Nánast allur lax er fluttur út slægður/ferskur þar sem hann er fullunninn á smásölu- eða veitingahúsamarkað. En hvar liggja tækifæri Íslendinga í að hámarka verðmætasköpun í fiskeldi? Getur eldisgreinin tileinkað sér árangur bolfiskvinnslunnar í framleiðslu og sölu á ferskum flakastykkjum, sem aukið hafa verðmætasköpun á hvítfiski umtalsvert? Með nýjustu tækni og þekkingu hefur íslenskri fiskvinnslu tekist að framleiða vöru samkvæmt ítrustu kröfum neytanda, sem er tilbúinn til að greiða hærra verð fyrir vikið.
Ef allt fellur Vestfirsku eldi til næstu árin, má gera ráð fyrir a.m.k. 50 þúsund tonna framleiðslu á ári, sem myndu skila nærri 50 milljarða framleiðsluverðmætum í þjóðarbúið. Ekki er raunhæft að ætla sér fullvinnslu á öllu því magni en hluti þess gæti verið unninn á neytandamarkað í framtíðinni. En áskoranir fyrir slíkri framleiðslu eru margar og ýmislegt er hugmyndinni mótdrægt; þó tvær hindranir séu helstar, há vinnulaun og miklar vegalendir á markað.
Í dag er töluverður hluti af eldisfiski fluttur til Póllands, þar sem hann er fullunninn á neytandamarkað í Evrópu. Undirritaður hefur átt tækifæri til að heimsækja verksmiðjuna Milarex í Slupsk í Póllandi þar sem ferskur fiskur er fluttur frá Íslandi, Noregi og Færeyjum með skipum og trukkum. Fiskurinn er flakaður, snyrtur og síðan unninn í neytandapakkningar, ferskur, reyktur eða frosinn, og skipta vörunúmer hundruðum. Matís í samstarfi við Skagann 3X og Arctic Fish hefur flutt regnbogasilung í gámum til þessarar verksmiðju þar sem gerð var tilraun með að ofurkæla fiskinn og senda hann íslausan með hitastýrðum gámum sjóleiðina. Þrátt fyrir að flutningur tæki átta til tíu daga, var fiskurinn enn af miklum gæðum og hafði nægjanlegan líftíma til að vera unninn og seldur ferskur á neytandamarkað um alla Evrópu. Slupsk í Póllandi er vel staðsett til að dreifa vöru landleiðina á Evrópumarkað á einum til tveimur dögum.
Vinnslan sem um ræðir er öll hin glæsilegasta, með 500 starfsmönnum og hreinlæti og gæðastjórnun með því besta sem þekkist í heiminum. Það er áleitin spurning hvernig íslensk fyrirtæki gætu keppt við slíka vinnslu í framleiðslu og dreifingu á smásölumarkað Evrópu? Vinnslan er ágætlega tækjum búin, með mjög hæft starfsfólk, á launum sem eru langt að baki því sem gerist hérlendis.
Flutningsmöguleikar skipta máli fyrir útflutning á laxi; héðan eru sjóflutningar stundaðir frá mörgum höfnum á Íslandi, til hafna í Bretlandi og meginlandi Evrópu. En mestu skiptir þó þéttriðið net flugsamgangna, sem teygðu sig til um 100 borga vítt og breitt um heiminn þegar best lét í íslenskri ferðaþjónustu, en heldur hefur dregið úr framboði við samdrátt í fjölda erlendra ferðamanna. Flugfrakt er dýr og skilur eftir sig umtalsvert kolefnisspor, en með nýrri tækni, ofurkælingu, er hægt að minnka það nokkuð. Bæði laxasláturhús landsins nota ofurkælingarbúnað frá Skaginn 3X sem lágmarkar notkun á ís við flutning á fjarlæga markaði.
Skipaflutningar eru mun ódýrari en flugfrakt ásamt því að minka sótspor framleiðslunnar. En sjóflutningar taka tíma á fjarlæga markaði sem minnkar líftíma á ferskri vöru fyrir kaupandann. Þá skiptir máli hvort hægt er að vinna laxinn strax eftir slátrun og jafnvel fyrir dauðastirðnun. Ódýrara er að flytja flakaðan fisk á markað og losna þannig við dýran flutning með flugi á beinum og haus. Hingað til hefur þurft að geyma laxinn í um fjóra sólahringa áður en hægt er að draga beinagarðinn úr flakinu, en beinin losna ekki fyrr úr vöðvanum. Ef nútímatækni eins og vatnsskurður væri notaður við að skera beinin úr væri hægt að lengja geymsluþol ferskra afurða um þann tíma. Annað tækifæri sem það gefur, er að hægt er að hluta flakið niður eftir ýtrustu kröfum markaðarins, eins og gert er við hvítfisk í dag, og framleiða þar með algjörlega nýjar vörur á markað; markað sem gæti greitt hærra verð og þannig aukið verðmætasköpun vinnslunnar. Vatnskurðartæknin er líka forsenda þess að lágmarka framleiðslukostnað og skapa samkeppnisforskot gagnvart láglauna svæðum.
Ný tækni við vinnslu þar sem tölvustýrðir þjarkar koma í stað mannshandar eru einmitt forsenda slíks samkeppnisforskots. Ljóst er að fiskvinnsla væri að miklu leyti farin úr landi ef ekki væri fyrir nýjustu tækni við framleiðslu í dag. Fram undan eru tímar tækniframfara með hraða sem menn hafa ekki séð fyrr. Mikilvægt er að Íslendingar tileinki sér nýjustu tækni til að viðhalda samkeppnisforskoti og undirbúi starfmenn til að takast á við nýjar áskoranir og auknar kröfur í framtíðinni. Þannig verða til betri störf og betur borguð í samkeppni við láglaunasvæði.
Ef til vill munu Íslendingar geta boðið upp á nýjar vörur úr ferskum laxi í framtíðinni, laxi sem er upprunninn úr hreinum en köldum sjó. Framleiðslu sem verður sérsniðin að ýtrustu þörfum viðskiptavinarins, með dreifingu víða um heim. Vöru sem hefur jafnvel lengra geymsluþol en samkeppnisaðilinn getur lofað og þannig keppt á kröfuhörðustu mörkuðum heimsins. Íslendingar eiga kost á að ná samkeppnisforskoti með hugviti, tækni og mannauði sínum.
Gunnar Þórðarson, Matís
26.3.2019 | 08:38
Umhverfis- og öryggismál í sjókvíaeldi
Ráðstefnan Strandbúnaður verður haldin á Grand Hótel Reykjavík dagana 21 22 mars n.k. Strandbúnaður vísar til landbúnaður og er vettvangur aðila sem tengjast eldi og ræktun í sjó og vatni. Á ráðstefnunni eru erindi og kynningar á öllu því helsta sem er að gerast í þessari grein og reynt að varpa ljósi á þróun til framtíðar.
Á málstofunni Umhverfis- og öryggismál í sjókvíaeldi verður fjallað um umhverfisógnanir sjókvíaeldis, bæði gagnvart náttúrinni og rekstrinum. Vestfirðir bjóða upp á marga kosti frá náttúrunnar hendi til strandeldis, hreinn sjór, djúpir og vel varðir firðir ásamt innviðum og mannauði til að stunda sjókvíaeldi. En ógnir Dumbshafsins eru miklar hvað varðar veðurfar auk þess eru umhverfisógnir eins og erfðablöndun við villta laxastofna í íslenskum ám.
Hætta á erfðablöndun vegna sleppinga úr sjókvíum hefur fengið einna mesta athygli og hafa veiðirétthafar laxveiðiáa barist harðri baráttu gegn leifum til laxeldi í sjókvíum á Íslandi. Þrátt fyrir fyrr sátt um að draga línu þar sem eldið er eingöngu leyft á Vestfjörðum, Eyjarfirði og Austfjörðum, hefur sáttin ekki haldið með auknum óbilgjörnum kröfum veiðirétthafa. Að sjálfsögðu eru slysasleppingar alvarlegt mál en með mótvægisaðgerðum má lágmarka áhrif þeirra á náttúruna. Huga þarf að hegðun eldisfisks og spurning hvort hann er raunveruleg ógn í náttúrinni.
Íslensk veðrátta skapar mikla áhættu en ekki þarf að fara langt aftur í tímann til að sjá veðurfar sem myndi skapa mikla áhættu við laxeldi. Um og eftir miðja síðustu öld hafa komið kuldakaflar þar sem hitastig og vindur hafa skapað aðstæður sem eru mjög hættulegar fyrir lax í sjókvíum. Þessu fylgdi jafnframt lagnaðar- og rekís sem geta valdið miklu tjóni á sjókvíum. Farið verður yfir þessi mál á ráðstefnunni og reynt að meta áhættur og hugsanleg viðbrögð til framtíðar.
Sjórinn er kaldari við Ísland en í helstu samkeppnislöndum okkar, sem hefur bæði kosti og galla. Kostir eru að gæði Íslensks lax þykir framúrskarandi og laxalúsin á erfiðra uppdráttar í kaldari sjó. Lágur sjávarhiti veldur hægari vexti og hætt við að það hafi áhrif á næringarþörf og fóðurnýtingu. Hægt er að bregðast við því með útsetningastærð seiða og með þróun á fóðurgerðar og fóðrunar.
Aðstæður á Íslandi eru góðar hvað varðar skjól á fjörðum en aðstæður við t.d. Færeyjum eru erfiðari hvað þetta varðar, enda ölduhæð við eyjarnar langt um meiri en búast má við eldisaðstæður hérlendis. Engu að síður er mikilvægt að búnaðarstaðall, staðarúttektir og festingar standist ýtrustu kröfur, bæði hvað varðar áhættu á sleppingum og eins efnahagslegu tjóni af slíku. Á ráðstefnunni verður kynning á þessum málum og hvernig eftirliti og viðbrögðum er stjórnað.
Það sem skiptir mestu máli í öllu þessu er að hagsmunir náttúrinnar og rekstraraðila fara algerlega saman. Rekstur sjókvía er ómögulegur ef svæði eru ekki hvíld á milli eldis til að koma í veg fyrir mengun og sjúkdóma og eins getur enginn rekstraraðili búið við að missa lax úr kvíum. Velferð fisksins fer saman við afkomu rekstursins.
En það verður áskorun framtíðar að takast á við umhverfisskilyrði við Dumbshaf, nýta kostina en bregðast við ógninni sem því fylgir. Takist það má búast við miklum tekjum af sjókvíaeldi, landsmönnum til hagsmuna með auknum útflutningi og verðmætasköpun. Fyrir svæði eins og Vestfirði skiptir sjókvíaeldi gríðarlega miklu máli til að byggja upp efnahag og byggðafestu til framtíðar.
Gunnar Þórðarson, Matís
6.3.2019 | 11:29
Tölvan segir nei (The computer says no)
Það var athyglisvert viðtal við Dr. Ian Kerr í Kastljósi 26. febrúar s.l. Dr.Kerr er einn fremsti vísindamaður hvað varðar gervigreind og notkun vélmenna í heiminum í dag. Hann var að velta fyrir sér lagalegum, félagslegum og siðferðislegum spurningum hvað varðar notkun tölva og vélmenna til að taka við mörgum þeim verkefnum sem menn hafa séð um hingað til, og þá ógn sem gæti stafað af því ef búnaðurinn fer að taka eigin ákvarðanir. Kerr nefndi drápsvélar sem dæmi, en Sameinuðu þjóðirnar fjalla um þessar mundir um að bann á notkun þeirra í hernaði. Í sjálfu sér gæti verið gott að nota tilfinningalausa vél í stað þess að hætta mannslífum í átökum, sem er reyndar þegar gert. Hægt væri að forrita vélina á besta hátt, en með gervigreind mun vélin læra og bæta við sig þekkingu sem nýtist henni til að þjóna manninum betur í framtíðinni. Sama má segja um vélmenni í heilbrigðiskerfinu þar sem þau geta lært að greina sjúkdóma og framkvæma aðgerðir sem maðurinn ræður ekki við. Það geta verið stórkostleg tækifæri í að nýta vélar sem læra til að framkvæma hluti sem maðurinn ræður ekki við og mikið framfaraskref fyrir mannkynið. En það fylgir böggul skammrifi! Það má ekki taka mennskuna út úr dæminu og láta vélar taka ákvarðanir um líf og dauða! Vél sem lærir gæti komist að þeirri niðurstöðu að hún viti betur en forritið segir og ákveðið ný viðmið um aðgerðir. Vélmenni mega alls ekki taka af skarið og mikilvægt að ákvörðunin sé tekin af mönnum! Sem dæmi var prófað að nota tölvur sem dómara í Kína, en niðurstaðan varð hörmuleg þar sem þær skortir algerlega tilfinningar. Nú er það ekki svo að allar mennskar ákvarðanir séu góðar, nema síður sé. Við höfum endalaus dæmi um mannvonsku, hatur og ofbeldi sem rekja má til mannlegra hvata. Engu að síður verða ákvarðanir fortakslaust að vera mennskar á ábyrgði manneskju en ekki vélar! Mannskepnan hefur notað trúarbrögð til að leiðbeina sér við ákvarðanir frá upphafi vega. Mikilvægi kristinnar trúar er gríðarlegt fyrir mannkynið og engin tilviljun að lýðræði og mannréttindi eru að jafnaði betur tryggð í kristnum löndum en öðrum. Jesú Kristur var sennilega merkasti heimspekingur sem uppi hefur verið og hefur haft meiri áhrif en nokkur annar á íbúa jarðarinnar. Þaðan höfum við einmitt okkar gildismat; hvað er rétt og rangt, ljótt og fallegt, vont og gott sem dæmi. Mikilvægasta framlag hans var að kynna til sögunnar guð Nýja testamentisins sem var umburðarlyndur og kenndi fylgjendum sínum m.a. umburðarlyndi og að fyrirgefa. Fyrirgefning er einmitt partur af mennskunni. Fyrirgefning og umburðarlyndi eru systkini! Ástæðan fyrir því að gyðingar viðurkenndu Jesú ekki sem Messías var einmitt vegna þess að þeim hugnaðist ekki þessi umburðarlyndi fyrirgefandi guð, og viltu halda í stríðsóðan guð Gamla testamentisins, enda létu þeir þyrma óbótamanninum Barabbas, og létu krossfesta Jesú. Sjálfur hef ég þurft að biðjast fyrirgefningar, sem er ekki það sama og afsökun en rétt er að hafa í huga að; âžMaður fyrirgefur ekki öðrum, af því að þeir eigi skilið fyrirgefninguna, heldur vegna þess að maður á það skilið að öðlast frið Stórmenni eins og Ghandi og Mandela skildu hvað fyrirgefningin var mikilvæg. Í stað þess að gjalda líkum líkt fyrirgáfu þeir misgjörðarmönnum sínum, til þess að ná árangri fyrir þjóð sína. Það hefði margt orðið öðruvísi í Rwanda og fyrrum Júgóslavíu ef leiðtogar þeirra landa hefðu haft þá mennsku sem þessir miklu menn höfðu. Við getum litið okkur nær! Ofbeldið og hatrið sem fylgdi hruninu tók út yfir allan þjófabálk. Auðvitað átti að refsa mönnum fyrir lagabrot, en dómsstólar mega aldrei byggja dóma á hefnigirni eða undir þrýstingi frá dómstóli götunnar. Dómar eiga að byggja á lögum en vera mennskir. Við sáum þetta líka í svokölluðu Klaustursmáli þar sem almenningur fór úr límingunum og leið mjög illa vegna gengdarlauss haturs á fólki sem hafði ekki brotið annað af sér en röfla á krá hver við annan. Í rauninni hefði enginn skaði orðið ef óprúttinn aðili hefði ekki tekið upp einkasamtal og komið því til fjölmiðla. Það veit guð að ég hef látið út úr mér ýmislegt í góðra vina hópi sem ég kæri mig ekki um að verði birt almenningi en ég hef auðmýktina til að viðurkenna það. Ef til vill erum við Íslendingar á rangri vegferð að draga úr kristinfræðikennslu og boðskap Jesú Krists. Ég vil reyndar halda þjóðkirkjunni utan við þessa umræðu, en mikilvægi boðskapar hans og gildismats kristinnar trúar á fullt erindi við Íslendinga. Hvað sem hægt er að segja um kirkjuna sem slíka hefur þessi boðskapur kennt okkur að meta hvað er gott og vont, fallegt og ljótt og rétt og rangt. Þegar Kaþólska kirkjan er afhjúpuð af ógnarverkum sínum, er engin vafi á að það sem prestarnir aðhöfðust var rangt og ljótt. Slíku er ekki alltaf farið innan annara trúarbragða þar sem viðurkenning á hræðilegum athöfnum liggur fyrir. Við megum ekki láta tilfinningalausar vélar taka ákvarðanir og betra að fólk geri það samviskusamlega með kristnu gildismati. Ekki síst þegar þær snúast um líf og dauða. Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
- astromix
- ekg
- stefanbjarnason
- golli
- vikari
- gunnarpetur
- vestfirdir
- gudni-is
- ea
- ladyelin
- gp
- altice
- hjolaferd
- kaffi
- komediuleikhusid
- rabelai
- ziggi
- huldumenn
- helgi-sigmunds
- sigrunzanz
- hordurhalldorsson
- baldher
- hjaltisig
- lotta
- kjarri
- bjarnimax
- jovinsson
- smjattpatti
- eirmor
- vefritid
- saemi7
- siggisig
- maggij
- lehamzdr
- contact
- gauisig
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.1.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 30
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 23
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar