Hin opna stjórnsýsla á Íslandi

Það er gott að búa í upplýstu samfélagi þar sem stjórnvöld hafa lofað þegnum sínum opinni stjórnsýslu og hún fái náið að fylgjast með gangi mála og sé meðvituð um stöðu sína.  Ekki síst hvað varðar uppbyggingu íslensks efnahags og þjóðin geti farið að takast á við væntanlega uppbyggingu eftir hrun.  En eitthvað hlýtur að vera brogað við athyglisgáfu bloggara sem ekki skilur upp né niður í því sem er að gerast, og þar ber hæst svokallað IceSave mál.

Í upphafi september mánaðar komu mjög jákvæðar fréttir frá ríkisstjórninni.  Fyrstu viðbrögð Hollendinga og Breta lágu fyrir og þau voru mjög jákvæð.  Málið lá nánast fyrir og vonandi hægt að klára það næsta dag.  Svona eiga sýslumenn að vera og því var beðið með mikilli eftirvæntingu eftir þessum frábæru fréttum, daginn eftir.

Raunveruleikinn var hinsvegar annar og ljóst að samningsþjóðir okkar höfðu hafnað fyrirvara Alþingis um ríkisábyrgð á samningnum.  Allt er þetta hið ömurlegasta mál og byrjar með því að fjármálaráðherra, en málið er á hans forræði, ýtir fulltrúum þingflokka út úr samninganefnd um IceSave, en seta þeirra var forsenda breiðrar samstöðu um málið.  Hann setur síðan tvo vini og bandamenn yfir samningunum við Breta og Hollendinga og gerir málið þannig persónulegt.  Ráðherra gætti þess ekki einu sinni að hafa þingmenn stjórnarflokkana með í ráðum, þó augljóst mætti vera að um stærsta samning Íslandssögunar fyrr og síðar væri að ræða, og því fyrirsjáanlegt að leita þyrfti stuðnings þingsins við fullnustu hans.

Annan júní sagði fjármálaráðherra í þinginu að ekkert væri að frétta af málinu, enda lá ekkert á að klára það.  Samt var búið að skrifa undir þann fjórða júní og á þeim forsendum að aðal samningamaður Íslands, vinur og pólitískur mentor ráðherra vildi ekki hafa þetta hangandi yfir sér í sumarfríinu.

Nú liggur fyrir að þeir fyrirvarar sem Alþingi setti við ríkisábyrgðina verða ekki samþykktir af viðsemjendum okkar; en samt var niðurstaðan mjög jákvæð.  Annar forsætisráðherranna sagði að ekki stæði til að setja bráðabirgðalög, eins og nokkrum manni hafi dottið í hug að þessi ríkisstjórn gripi til slíkra óyndis úrræða, nema þá þeim sjálfum.

Það hefur komið fram í bloggi að fjöldi manna hafi fylgst með Indriða H. Þorlákssyni skrifa ,,trúnaðarskýrslu" til ríkisstjórnarinnar um viðbrögð Breta og Hollendinga í Flugleiðavél þann 2. september. ,,Skjalið sem lá þarna fyrir fólki eins og dagblað á kaffihúsi voru svör Breta og Hollendinga við fyrirvörum Alþingis!" segir m.a. í bloggfærslunni, sem Bergur Ólafsson, meistaranemi í stjórnun við viðskiptaháskólann BI í Osló, skrifar.   Þrátt fyrir að viðsemjendur höfnuðu alfarið fyrirvörum Alþingis í þessu skjali kom fram hjá forsætisráðherra fjórða september að góður andi hefði ríkt í samninganefndu þjóðanna og síðar þann dag upplýsti formaður fjárlaganefndar, eftir fund nefndarinnar með embættismönnum, að engin formleg viðbrögð lægju fyrir frá Bretum og Hollendingum.

Í dag tala síðan báðir forsætisráðherrar þjóðarinnar um að leysa þurfi IceSave málið og það sé algert forgangsmál!  Þjóðin hefur hinsvegar ekki hugmynd um hvert vandamálið er né hvert þetta mál stefnir.  Össur átti fund með forstjóra AGS í vikunni en það var allt bundið trúnaði og aðeins þessi venjulega bjartsýni um að lausnin væri handan við hornið, kom fram hjá utanríkisráðherra.

En hvað ætli gangi á í þessu öllu saman.  Þar sem hin opna stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar er svo loðin að engin skilur hvað þeir eru að segja, verða menn að spá í spilin og geta sér til.  Áður hefur komið fram hjá bloggara undrun yfir því hvernig nánustu vinarþjóðir okkar virðast hafa snúið við okkur baki og, miðað við opnu stjórnsýsluna, virðast standa með óvinunum, Bretum og Hollendingum.

En er þetta svona?  Eru þessar ,,fyrrum" vinaþjóðir okkar svona vondar við okkur vilja ekki rétta okkur hjálparhönd á ögurstund?  Hér koma getgátur bloggara á því sem er að gerast:

Norðurlandaþjóðir ásamt öðrum vinarríkjum sem lofað hafa okkur láni í samvinnu við AGS hafa sett það sem skilyrði að IceSave samningar liggi fyrir áður en lánin eru veitt.  Þetta er ekki gert til að taka stöðu með Bretum og Hollendingum, heldur til að tryggja að fjármunirnir fari ekki til að greiða þeim, heldur til þerra hluta sem þeim var upphaflega ætlað.  Styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, sem er forsenda þess að afnema gjaldeyrishöftin.  Þetta snýst því ekki um góðu og vondu mennina, eins og margir ráðherra láta í veðri vaka, heldur sjálfsagða varkárni í viðskiptum við Íslendinga.  Bretar og Hollendingar eru sjálfsagt ekkert að skipta sér af einstökum málefnum AGS og ástæða þess að mál Íslands er ekki tekið fyrir hefur ekkert með það að gera.  Heldur það fyrrnefnda ásamt því að Íslenskir ráðamenn ljúki við þá vinnu sem þeim var sett í áætlun sjóðsins um uppbyggingu íslensks efnahags.  Það er hinsvegar auðveldara fyrir ríkisstjórnina að finna blóraböggul og þjóðin tilbúin að trúa öllu illu upp á Hollendinga og Breta. 

Eitt það mikilvægasta í dag er að afnema gjaldeyrishöftin.  Það er ekki hægt nema gjaldeyrisvarasjóðurinn dugi til að greiða erlendum eigendum fjármagns á Íslandi út.  Höftin eru brot á EES samningnum og ESB hefur horft í gegnum fingur sér með það, vegna alvarlegra stöðu Íslands.  Ef Íslendingar ætluðu sér að lækka vexti, á sama tíma og gjaldeyrishöft eru við líði, myndi sá velvilji hverfa sem dögg fyrir sólu.  Skilaboðin væru sú að við neyðum ykkur til að eiga íslenskar krónur, og á sama tíma ætlum við ekki að borga ykkur sanngjarna vexti af þeim.  Vexti sem duga a.m.k. ríflega fyrir þeirri verðbólgu sem hér ríkir.  Til þess að ASG og vinarþjóðir Íslendinga geti rétt okkur hjálparhönd verðum við að ganga frá IceSave samningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 283939

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband