Vinstri stjórn eða þjóðstjórn

Hvers vegna þjóðstjórn?  Ef horft er á ástandið með augum leikjafræði og tilfinningar teknar út og ísköld rökhyggja notuð til að meta stöðuna og það sem framundan er lítur þetta svona út:

Þegar sigurvíman dvínar hjá vinstri flokkunum og ískaldur veruleikinn tekur við er staðan sú að þörf er á gríðarlegum niðurskurði í ríkisfjármálum.  Talað er um að stoppa upp í 150 milljarða gat í fjárlögum fyrir næsta ár til að ná endum saman.  Í fyrri vinstri-ríkisstjórnum var venjan að ýta vandanum á undan sér og taka lán, hjá Seðlabanka (peningaprentun), lántöku hjá þjóðinni (ríkisskuldabréf) eða erlendri lántöku, eða blöndu af þessu öllu saman.  Nú er hinsvegar sú hliðin uppi á teningnum að engin af þessum leiðum eru færar, nema helst að prentar ónýtar krónur.  En þá kemur að IMF sem setur kröfur sem koma í veg fyrir það.  IMF hefur sett reglur um endurreisn sem ekki verður fram hjá komist og því fokið í flest skjól, nema að skera niður útgjöld.

Engum skal detta í hug að hægt sé að skera niður slíkar upphæðir án þess að koma við velferðarkerfið, heilbrigðismál eða menntamál.  Stærðargráðan er einfaldlega sú að ekki verður hægt að ná endum saman með öðrum hætti, og uppsagnir þúsunda ríkisstarfsmanna blasir þannig við.  Það er svo sem ekkert óeðlilegt ef tekið er mið af gríðarlegri útþenslu ríkisins undanfarin ár, sem nú þarf að leiðrétta. 

Slíkar aðgerðir verða mjög óvinsælar og viðbúið að þeir stjórnmálaflokkar sem takast á við þær fái á baukinn þegar fram líða stundir.  Ef horft er fjögur ár fram í tímann, gæti Sjálfstæðisflokkurinn verandi á hliðarlínunni í stjórnarandstöðu sótt verulega á við slíkar aðstæður.  En það er heldur betur ,,ósanngjarnt" miðað við að flokkurinn er ,,ábyrgur" fyrir ástandinu.  Hversvegna ætti hann að rétta úr kútnum meðan vinstri flokkarnir puða við að laga ástandið eftir ,,óstjórn" Sjálfstæðisflokksins.  En laun heimsins eru vanþakklæti og það ættu stjórnmálamenn að gera sér grein fyrir, og sennilega gera þeir það. 

Það er því hætt við að vinstri flokkarnir veigri sér við að taka nauðsynlegar ákvarðanir fyrir þjóðina á komandi kjörtímabili, til að forðast því sem lýst er hér að framan.  Það væri skelfilegt fyrir þjóðin og gæti riðið lýðveldinu að fullu, allavega fjárhagslegu sjálfstæði þess.

Því er besta ráðið að gera alla flokka ábyrga fyrir þeim nauðsynlegu ákvörðunum og aðgerðum sem framundan eru, og kjósa svo að loknum fjórum árum, og þá standa allir við sama borð, og standa vonandi fyrir öðrum og huggulegri áskorunum.  Málið er að þó pólitísk hugmyndafræði sé áhrifavaldur í því sem framundan er, eru þetta mikið grundvallar ákvarðanir sem þarf að taka.  Skera niður kostnað ríkisins og ná þannig jafnvægi í ríkisfjármálum.  Skattlagning er tálsýn því allt of fáir hafa borð fyrir báru til að taka á sig auknar skattbyrðar og þær draga úr athöfnum og atvinnusköpun.  Finna þarf lausn á peningamálum þjóðarinnar, með hennar hagsmuni í fyrirrúmi þar sem hent er fyrir róða gömlum kreddum og þjóðerniskennd.  Byggja upp traust á efnahagslífið, innanlands og sérstaklega erlendis til að laða að fjármagn og fjárfestingar sem verða okkur lífspursmál.

Þjóðin hefur ekki efni á sundurlyndi og átökum og þarf því að snúa bökum saman í þeim ólgusjó sem framundan er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 283945

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband