14.10.2007 | 16:46
Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
Undirbúningur kaupa
Við vorum þrír félagar, allir liðlega tvítugir, sem höfðum árum saman skipulagt kaup á seglskútu til að sigla henni heim til Íslands. Þessir ævintýramenn voru sögumaður ásamt Jóni Grímssyni, sem er jafnaldri minn og uppeldisvinur ásamt bróður mínum Hjalta. Við félagarnir höfðum marga fjöruna sopið saman og höfðum meðal annars ekið um Evrópu þvera og endilanga, sem þótti óvenjulegt á þessum tíma og verið á samyrkjubúi í Ísrael. Fjórði félaginn í þeim ævintýrum, sem seinna verður sagt frá, var eiginkona mín Kristín, sem kom töluvert að þeim skútukaupum sem hér er sagt frá.
Það var ekki auðvelt að kaupa skútu á þessum árum erlendis, í kringum 1976, þar sem fyrirhyggjupólitík og haftastefna stjórnvalda hafði náð sínum hæstu hæðum. Leyfi þurfti til alls og meðal annars til að kaupa gjaldeyri. Fólk gat fengið ferðamannagjaldeyri sem dugði fyrir tveggja
vikna ferð til Spánar og greiddi tíu prósent skatt ofan á skráð gengi. Stjórnvöld höfðu þannig vit fyrir borgurunum og komu í veg fyrir óþarfa bruðl eða flæking um lendur erlendra ríkja.
Það var því ekki hægt að kaupa erlendan gjaldeyri til kaupa á skútu með löglegum hætti í næsta banka. Við vorum því með allar klær úti og árum saman söfnuðum við gjaldeyri út um allt. Við þekktum til á Keflavíkurflugvelli sem var góð uppspretta gjaldeyris frá hernum, þar sem íslenskir starfsmenn stungu tíu prósentunum í vasann sem milligöngumenn og drýgðu þannig tekjur sínar. Ýmis fyrirtæki sem tóku við greiðslum í gjaldeyri og seldu hann gjaldeyrisþurfandi landsmönnum með umræddri álagningu.
Svo þurfti að sjálfsögðu að safna krónum til að kaupa gjaldeyrinn og fylgdi því mikil vinna. Tveir okkar voru togarajaxlar og sá þriðji var á leiðinni á sjóinn, en á þessum árum fyrir tíma kvótakerfis um það leyti sem skrapdagakerfið var í smíðum, var gullöld skuttogaranna og sjómenn voru með tvöföld bankastjóralaun. Við slógum líka lán í sparisjóðum og góðir vinir okkar, eins og Grímur Jóns, skrifuðu upp á víxlana. Ég man ennþá eftir jákvæðum viðbrögðum vinar míns Sólbergs Jónssonar í Bolungarvík, sem hikaði ekki við að lána þessum strákpjökkum til að kaupa skútu. Slíkt var honum bæði ljúft og skylt og hann sagðist myndi fylgjast vel með ævintýri okkar. Einnig reyndist Magnús Amelin á Þingeyri okkur afar vel.
Snemma sumars 1976 vorum við komnir með fulla skjalatösku af dollurum, norskum krónum, sænskum krónum, dönskum krónum, enskum pundum og þýskum mörkum. Upphæðin var rúmlega 25.000 ensk pund sem duga áttu fyrir sæmilegu fleyi til að sigla Altansála heim til Ísafjarðar.
Ferðin undirbúin
England var allan tímann fyrirheitna landið til kaupanna. Einhvernvegin tengdum við landið við siglingar og fagblöðin sem við lásum á undirbúningstímanum voru ensk og við vorum farnir að þekkja helstu bátategundir sem þar voru smíðaðar. Það var ákveðið að við Jón færum út að kaupa bátinn og sigla honum heim en Hjalti yrði eftir heima til að safna meiri peningum og gæta hagsmuna okkar þar. Ég var með skipstjórnarpróf og kunni siglingafræði og var því sjálfkjörinn í ferðina. Jón var með mikla reynslu í sjómennsku en hvorugur okkar hafði nokkurn tíma komið um borð í seglbát. Skútan var bara draumur sem byggði á ungæðislegri rómantík en minna á fyrri reynslu. Við höfðu aldrei á ævi okkar dregið upp fokku eða stórsegl né hagrætt seglum eftir vindi.
Þegar upphaf ferðarinnar nálgaðist kom svolítið babb í bátinn. Móðir Nonna, sú ágæta kona Jóhanna, lagði hart að okkur félögunum að taka yngri son sinn, Bárð, með í ferðina. Hún var orðin hálf þreytt á uppátækjum hans og prakkaraskap og trúði því að hann hefði gott af leiðsögn okkar fullorðnu mannanna í smá tíma. Bárður var á sautjándi ári og við Jón vorum tuttugu og eins. Lífreyndir heimshornaflakkarar og sjálfsagt hefðum við getað orðið unga manninum góð fyrirmynd út í lífið og tilveruna. Við tókum þessu mjög illa í byrjun, ekki það að Bárður gat verið bráð skemmtilegur, en við höfðum engan áhuga á að hafa svona krakkakjána með okkur í þessa mikilvægu viðskiptaferð. Jóhanna lagði hart að okkur og við gáfum eftir með alls kyns skilyrðum sem Bárður varð að undirgangast. Á þessum árum var Bárður óvenju lítill og væskilslegur, óttalegur vandræðagripur en eins og áður segir, en gat hann verið bráð skemmtilegur, enda mikill húmoristi.
Við tókum hann því með okkur kvöldið fyrir brottför að Gilsbrekku í Súgandafirði, þar sem ferðin var íhuguð og andlegur undirbúningur okkar fór fram. Við kveiktum eld niður við fjöru og þegar hann hafði brunnið út að mestu og glóðin ein var eftir, grilluðum við kartöflur sem voru algjört lostæti. Við höfðum keypt okkur einn vodka pela sem átti að dreypa á við glóðirnar þessa fögru vornótt í Súgandafirði. Við tókum ekki eftir neinu sérstöku í fari Bárðar fyrri part kvöldsins en þar höfðum við sofnað á verðinum. Ég rölti upp í sumarbústað til að sækja pelann en greip í tómt. Eftir ákafa árangurslausa leit vaknaði með okkur Nonna hræðilegur grunur. Við horfðum á litla bróður hans þar sem hann slagaði undir húsgaflinum og þegar við beindum spurningum til hans, leyndi sér ekki að drengurinn var heldur betur þvoglumæltur.
Það er varla hægt að ímynda sér reiðina og vonbrigðin hjá okkur Nonna. Stemmingin var fullkomin og grilluðu kartöflurnar mjög ljúfar, björt vornóttin og gáraði ekki á fjörðinn í kvöldkyrrðinni. Það sem vantaði upp á var smá vodkastaup til að fullkomna augnablikið. Þetta hafði verið frá okkur tekið og ekki möguleiki að bæta úr því á þessum stað og stund. Þegar Nonni var búinn að lúberja litla bróðir var frekari refsing ákveðin. Hann kæmi ekki með í ferðina til Englands. Ekkert undir sólinni fengið þeirri ákvörðun breytt og við það sofnuðum við vinirnir, með formælingum, bölvi og ragni í garð óþekka unglingsins sem við áttum að bera ábyrgð á.
Það var ekki komið hádegi daginn eftir þegar Jóhanna blessunin var búin að snúa okkur og ákveðið að Bárður kæmi með og seinna um daginn hófst þessi mikla viðskipaferð til skútulandsins, Englands. Við tveir lífsreyndir vinir með þá miklu ábyrgð á okkar herðum að koma þessum brokkgenga ungling til manns.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.10.2007 kl. 14:51 | Facebook
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
- astromix
- ekg
- stefanbjarnason
- golli
- vikari
- gunnarpetur
- vestfirdir
- gudni-is
- ea
- ladyelin
- gp
- altice
- hjolaferd
- kaffi
- komediuleikhusid
- rabelai
- ziggi
- huldumenn
- helgi-sigmunds
- sigrunzanz
- hordurhalldorsson
- baldher
- hjaltisig
- lotta
- kjarri
- bjarnimax
- jovinsson
- smjattpatti
- eirmor
- vefritid
- saemi7
- siggisig
- maggij
- lehamzdr
- contact
- gauisig
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 26
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Flott!
Ívar Pálsson, 14.10.2007 kl. 17:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.