Smalað í Austurdal

Enn koma menn af fjöllum, eins og nýslegnir túskildingar eftir góðan tíma á dásamlegum stað í góðum félagsskap.

einar_a_baki.jpgStundum er úr vöndu að ráða þegar maður hefur lofað sér á tvo staði og gera þarf upp við sig hvaða Keflavíkinni er róið úr. En þegar maður hefur lagt drengskap sinn við eitthvað er ljóst hvernig brugðist er við því, en við Einar höfðum bundist fóstbræðralagi með að mæta í göngur í Austurdal, sama hvað gengi á. Nú höfðum við hinsvegar skipulagt ráðstefnu sömu helgina og sækja átti skjáturnar í Austurdalinn, þar sem við höfðum miskilið fjallakónginn með dagsetningu.

Úr varð að fresta ferðinni um einn dag, aka upp úr hádegi á laugardegi þegar ráðstefnan væri komin á gott skrið og sæist fyrir endann á henni án vandræða. Við lögðum því af stað um tvö leytið og áætluðum komu í Hildarsel um níuleytið. Ekki voru allir ánægðir með brotthvarf okkar, en eins og áður segir verða menn að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir þegar þannig stendur á.

gisli_runar.jpgÞað bar lítið til tíðinda á leið í Skagafjörðinn og vorum við komnir um kvöldmataleytið í Ábæ, þar sem bíllinn var skilinn eftir og tveggja stunda ganga var eftir í smalakofann. Við höfðum komið við í Staðarskála þar sem við keyptum ennisljós sem nú kom sér vel þar sem fljótlega skall á myrkur og nokkuð erfitt að fylgja ógreinilegri slóðinni. Við greindum Tinnána rétt um það bil þegar myrkrið tók af okkur sýn, en leiðin er þar rúmlega hálfnuð. Það mátti greina daufa týru upp í dalnum þar sem Hildarsel er og ekki laust við tilhlökkun að hitta smalafélaga, vitandi af kjötsúpu og kakala í kvöldmatinn. Allt í einu tókum við eftir bílljósum sem tifuðu niður dalinn á móti okkur og þóttumst vita að einhver hefði ekið til móts við okkur. Þarna er engin bílvegur og ekki á færi nema kunnugra á breyttum bílum að aka leiðina.

Bíllinn stöðvaðist allnokkuð ofar í dalnum og þegar nær dró mátti greina Tinnárbrú í ljósgeislanum, en það er göngubr sem er ófær bílum. Það var engin annar en foringinn sjálfur sem sat undir stýri og beið okkar handan árinnar; Stebbi á Keldulandi. Við tróðum okkur inn í bílinn, sem er gamall Nizzan skúffubíll, breyttur á miklum dekkjum til að ráða við mjög erfitt undirlag dalsins. Erfitt var að greina slóðann sem lá upp með áreyrum, að mestu á grjóti og hörðu yfirborði. Þrátt fyrir árin 85 lék þetta í höndunum á Stebba og ekki laust við feiginleika ferðamanna að þurfa ekki að aka bílnum við þessar erfiðu aðstæður.

_orolfur_me_hestinn.jpgÞegar við komum í Hildarsel var vel tekið á móti okkur og líktist einna helst mótöku Rússneska kommúnistaflokksins á tímum Bréfsnefs, þvílíkir voru kossar og faðmlög. Við vorum varla búnir að koma okkur fyrir þegar kjötsúpa var borin á borð, og fylgdi henni góð hressing úr Skagafirði. Rétt fyrir miðnættið skrönglaðist sögumaður upp á loft til að leggja sig, þar sem hann sofnaði undir Skagfirskum söng af neðri hæðinni. Margir göngumanna eru úr karlakrórnum Heimi, en allir eru þeir miklir söngmenn og stórkostlegt að láta þá vagga sér í svefn með tónaflóði.

Það var blíðskapar veður morguninn eftir og sólin byrjuð að verma grund þegar gengið var í hestaréttina til að velja sér reiðskjóta fyrir daginn. Það þurfti líka að verma lundina og slípa reiðmanninn í sér áður en lagt var af stað til leitar. Ég hafði fengið Pegasus til reiðar, hestinn sem fleygði mér af baki í síðustu leitum, en það var allt löngu gleymt og grafið. Ég átti að fylgja Einari Kristni og Gísla Rúnari til leitar í Ábæjardal. Við riðum með hópnum niður að Ábæ og þurfti ekki að hvetja Pegasus, sem var fullur af fjöri og flaug á brokki niður dalinn.

Við kvöddum hópinn við Ábæjarrétt og héldum upp holtin upp af kirkjunni og lögðum síðan á brattann austan við dalinn, einmitt á þær slóðir sem Pegasus kastaði mér af í fyrra. Á síðasta aðalfundi Smalafélagi Austurdals, sem eru haldnir í mars á hverju ári, gáfum við Einar félaginu talstöðvar, að gefnu tilefni úr síðustu smalaferð. Nú var ég komin með eina slíka í vasann til að vera í sambandi við aðra leitarmenn og halda skipulagi á leitinni.

Nú vita menn að bannað er að aka bíl og tala í síma þar sem slíkt geti valdið slysahættu. En akstur í síma er hégómi við hliðina á því að vera loftskeytamaður á hestbaki. Nú glumdu við skipanir og köll í talstöðinn meðan Pegasus þaut um loftið, ör og fjörugur hafði lítið fyrir að skella sér á tölt meðan talstöðin glumdi reiðmanni. Á hröðu brokki þurfti því að sleppa taumnum meðan talstöðin var dregin upp úr dýpsta vasa og svarað var kallinu. Nú er ljóst að þessi helreið var ekki hættuleg öðrum vegfarendum, en engin tryggingafélög hefðu viljað tryggja reiðmann loftskeytanna.

lettiri_rettinni.jpgÞegar komið var upp á fyrstu hjalla Ábæjardals var stigið af baki þar sem framundan er nokkuð klungur og ekki hestafært. Einar tók tauminn hjá mér og Gísla en við héldum fótgangandi upp dalinn. Mér var falið að leita í Þverdal, sem liggur norður úr Ábæjardal, en Gísli Rúnar hélt á upp í dalbotninn. Þegar dalurinn opnaðist mér sá ég átta kindur í bröttum hlíðum austan megin og ákvað að komast upp fyrir þær til að reka niður dalinn. Ég þurfti því að ganga hrygginn sem heldur um dalinn í austri, upp á brún á fjallinu, sveigja síðan inn dalinn og koma að fénu úr norðri.  Allt tókst þetta vel og kindurnar fóru fljótlega að renna niður dalinn niður að á.

Nú er það þannig að forframaður leitarmaður er því fegnastur finni hann engar kindur. Það er svo miklu léttara að smala þegar engar rollur eru til að þvælast fyrir manni. Kindur geta valdið alls kyns vandræðum við smölun og eykur erfiði smalans um allan helming. Nú taldi ég mig vera orðin nokkuð sigldan í smalamennsku og var auðvitað að vona að ég fyndi ekkert fé. Laus við þann barnaskap vona að hver depill sem birtist við ystu brún væri kind sem reka mætti heim. En ég verð að viðurkenna að þegar ég sá skjáturnar, var ég ofsaglaður og fannst ferðin einmitt fá tilgang með fundinum. Erfiðleika við fjallaklifur, skipulag við að koma rétt að kindunum urðu mér til mikillar ánægju. Svona getur maður verið barnalegur og eins gott að halda slíku fyrir sjálfan sig ef halda á virðingu í smalafélagi.

komi_i_merkigil.jpgÞað bættust þjár við hópinn þegar komið var niður í Ábæjardal vestanverðan. Þær litu út eins og ullarhnoðrar með litlum pinnum neðan úr sem þær tipluðu á við mikla erfiðleika. Þetta reyndust vera útigöngufé frá því í fyrra og reyndust erfiðar í rekstri. Meðan ég rak hópinn fór Gísli Rúnar brúnir ofan Ábæjardals til að sækja þangað kindur en Einar fór með hestinn á móti honum. Ég hélt á með mínar 11 kindur, sem reyndist vera fjórðungur af rekstrarfé Austurdals þetta árið, áleiðis niður á veg. Það var erfitt að reka hópinn þar sem þessar þrjár sem bættust við vildu ekki vera í safninu. Það er snúið að reka slíkt einn og ekki nokkur leið að breyta fjárstefnunni þar sem rennslið vantar. Því varð ég að elta hópinn nokkra kílómetra niður Austurdal áður en ég komst upp fyrir hann til að reka niður á veg. Þá var reksturinn komin niður á móts við kláfinn yfir Jökulsá, marga kílómetra neðan við Ábæ.

En niður á veg komst ég með safnið þar sem ég skildi það eftir, klukkan gengin í sex og stutt í rökkrið. Ég reið hratt veginn til baka upp dalinn, þar sem ég vissi af félögum mínum við Ábæjarrétt þar sem malapokinn var venjulega opnaður. Það voru engin vonbrigði þegar ég reið í réttina, enda nutu menn þar hvíldar yfir bjúgum úr Reykhólasveit sem rennt var niður með öli.

kvoldver_ur_i_merkigili.jpgNú var lokið minni reiðmennsku í þessari smölun,  enda þurfti ég að taka bílinn niður að Merkigili þar sem kvöldverður beið okkar smalamanna, eins og venja var. Það var komið rökkur þegar hestar, kindur og menn skiluðu sér niður að bæ og í Merkigili var öllu tjaldað til fyrir fjallamenn. Íslenskt lamb með bökuðum kartöflum, salati og boðið upp á kakala fyrir þá sem það kunnu að meta. Síðan beið okkar svefnloftið þar sem unaðslegt meðvitundarleysi svefnsins hvíldi lúin bein eftir annasaman dag. Slíkir herramenn voru smalar að ekki heyrðust nokkur svefnlæti úr þeim búðum, hvorki hósta, stuna né hrota.

Eftir að hafa ekið niður í Varmahlíð daginn eftir og þaðan upp í sveitina austan Héraðsvatna þar sem kaffi beið okkar hjá Sigurði á Tyrfingsstöðum Eftir frábærar trakteringar hjá húsfreyjunni var lagt að stað heim á leið eftir skemmtilega og annasama helgi. Einar Kristinn varð mér samferða í Staðarskála en áfram hélt ég ferðinni einsamall heim á Ísafjörð.smaladrengir_og_stulka.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband