Smalað í Austurdal - föstudagur

 

Föstudagur:

Hressing fyrir reiðtúrÞað var komið að því að standa við skyldur sínar sem félagi í Gangnamannafélagi Austurdals, og smala fé úr efstu dölum Skagafjarðar.  Vestfiski armur félagsins, undirritaður og vinur hans Einar Kristinn, vorum sem aldrei fyrr undirbúnir fyrir átökin.  Nú yrði ekki skilið við fé og menn að Merkigili, heldur myndum við klára fjárreksturinn heim í hlað á Keldulandi.  Fjögurra daga ferð var framundan og við búnir með nesti og nýja skó.  Ekkert tros í malnum í þetta skiptið en búið að útbúa sviðasultu, bjúgu og skötustöppu til að tryggja okkur orkuforða við smölunina.  Einnig tókum við með okkur hákarl og harðfisk til að bjóða smalafélögum okkar uppá ásamt ofur litlu brennivínstári til að skola því hnossgætinu niður.  Fjárfest var í nýjum reiðbuxum og allt til að sýna Skagfirðingum fram á að fagmennska Vestfirðinga riði ekki við einteyming.  Við þurftum að bæta upp tapaðan orðstír frá því í fyrra hvað það varðaði.Glatt á hjalla

Ferðin átti að standa frá föstudegi fram á mánudagskvöld og bloggari átti pantað með morgunvélinni suður og ákveðið að við vinirnir ækjum saman frá Reykjavík.  En smá sunnan andvari kom í veg fyrir flug og ekki annað að gera en aka í Staðarskála þar sem öðrum bílnum var lagt og haldið á hinum í Skagafjörð.

Í MerkigiliÞað var því komið fram á eftirmiðdag þegar við renndum í hlaðið í Keldulandi og hittum smalafélaga okkar, dalaskáldið Sigga Hansen, Þórólf frá Hjaltastöðum, Sigurð frá Réttarholti, Sigurð frá Tyrfingstöðum, Gísla Frostason frá Varmahlíð, Magnús frá Íbisahóli og foringjann sjálfan, Stebba á Keldulandi.  Framkvæmdastjóri ferðafélagsins Útivistar, Skúli Skúlason var gestur í þessari ferð til að kíkja á aðstæður fyrir skálabyggingu við Fossá í Austurdal.Maggi að Merkigili

Kelduland liggur skammt ofan við ármót Austari- og Vestari Jökulsáa, þar sem Héraðsvötn myndast og renna síðasta spölinn til sjávar.  Okkar leið lá upp með Austri Jökulsá sem á upptök sín í Hofsjökli og safnar í sig fjölda vatnsfalla á leið sinni niður næstum 50 km langan Austurdalinn.  Dalurinn er þröngur og vel gróinn með háa hamraveggi á báða bóga og liggur nokkurn veginn í norður frá jöklinum.   Grös eru gjöful í Austurdal enda koma sauðir feitir af fjöllum eftir sumarbeit í Dalnum.

Maggi í réttinniVeðrið lék við reiðmenn þennan eftirmiðdag, hlýtt og þurrt með hægum sunnan andvara.  Áður en komið var í Merkigil þótti rétt að teygja úr sér og vökva örlítið lífsblómið og fara með nokkrar vísur og smá aftansöng.  Síðan var stigið á bak hrossunum og fljótlega eftir að gilið var að baki komum við heim að Merkigili. 

Það er alltaf tekið vel á móti gagnamönnum úr Austurdal að Merkigili, þar sem systur Helga Jónssonar, síðasta ábúanda á Merkigili, reka sumargistingu.  Þær systur taka enga greiðslu fyrir greiðann en bjóða upp á kjötsúpu á leið fram dalinn og síðan lambasteik og gistingu þegar komið er til baka með safnið, tveimur dögum seinna.

MerkigilGreiðinn að Merkigili stóðst allar væntingar og galsi í mönnum og hrossum áður en lagt var á fyrir ferðina í Ábæ.  Það var farið að bregða birtu þegar smalamenn komu að Ábæjarrétt þar sem síðasta hvíld var tekin fyrir lokaáfangann að Hildarseli. Dalurinn skartaði sínu fegursta í ljósaskiptunum og angan gróðurs barst okkur með hlýjum sunnan blænum og niður jökulsárinnar lék undir með þungu nuði sínu.Sigurður Hannsen við Ábjarrétt

Að Hildarseli hittum við Stebba foringja ásamt Skúla Útivistarmanni sem komu akandi með trússið frá Keldulandi.  Það gafst ágæt tóm til að innbyrða Kakala og taka nokkur lög áður en Smalafélag Austurlands lagðist til hvíldar og safnaði kröftum fyrir átök morgundagsins.

Við eigum ból í Austurdal

við iðjagrænan mó

Við fögnum kyrrð í fjallasal

og fyllum hugann ró

 

Við lyftum gjarnan ljúfri skál

er ljósin dofna fer

Við hugsum ekki um heimsins mál

vor heimur á fjöllum er

 

Því hvað er lífsins keppnismál

og hvað er andi þinn?

Og hvað er þessi söngvasál

er syngur drauminn sinn?

S.H.Við ÁbæjarréttÞórólfur vökvar lífsandann


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 285832

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband