Í Skaftafelli

Gengið á Kristínartinda

SkaftafellUndirritaður hefur oft komið í Skaftafell en aldrei gengið á Kristínartinda fyrr.  Staðurinn öðlaðist nýja merkingu fyrir hann eftir að hafa lesið bók Jack Ives ,,Skaftafell í Öræfum" um síðustu jól.  Það varð ekki undan því vikist að heimsækja staðinn aftur og upplifa hughrif höfundar á landslagi og menningu Skaftafells.  Bókin er einskonar ástarjátning til Skaftafells og íbúanna, sérstaklega Ragnars Stefánssonar sem var bóndi að Skaftafelli og einn af forvígismönnum þjóðgarðsins.  Ragnar hafði tekið á móti Jack þegar hann kom til að undirbúa jöklarannsóknarleiðangur frá Bretlandi 1951.  Jack heillaðist af þessum einstaka manni og ekki síður Skaftafelli sem hann átti eftir  að kynnast vel í mörgum heimsóknum til staðarins síðar.  Kristínartindar voru honum sérstaklega hugleiknir hafði hann klifið þá ótal sinnum til að njóta þessa mesta útsýnisfjalls landsins.Kjósin

Gangan hefst á tjaldstæðinu við Skaftafell og gengið er upp með Bæjargili.  Fljótlega er komið að Hundafossi og síðan rafstöðinni við bæinn Bölta sem liggur vestan við gilið.  Lítið eitt vestar er Sel, en þar voru búðir Jack Ives og félaga í rannsóknarleiðöngrum á Morsárjökli við Vatnajökul 1953 og 1954. 

SvartifossVið lögðum lykkju á leið okkar til að skoða Svartafoss, sem steypist fram af svörtum stuðlabergi og er með fegurstu fossum Íslands.  Grænn gróðurinn í gilinu og uppi á brúnum þess stingur í stúf við svartan hamarinn og myndar einstaklega fallega umgjörð um fossinn og nágrenni hans.  En áfram er haldið upp með Hvarfi og síðan austur undir Skerhól og smátt og smátt nær maður hæð og yfirsýn yfir stórkostlegt umhverfi Morsárdals.  Þegar komið er upp á Skorar og horft fram af Skorabrúm blasa Skaftafellsfjöll við upp af Kjósinni.  Litskrúðug líparít einkennir þessi fjöll þar sem svartur, grár, rauður, grænn og blár litur er áberandi ásamt skrúðgrænum gróðurlit við rætur fjallana.  Til að undirstika sjónarveisluna er hvítur sandur Kjósarinnar, sennilega gjóska frá Öræfagosinu 1362, í botni hennar þar sem leifar jökulsár rennur en skriðjökulinn er horfinn.Við Skorar

Þegar kemur í Gemludal taka við brattar skriður en þægilegt er að halda sig í slóðinni sem liggur upp á milli syðri og nyrðri Kristínartinda.  Í kvosinni á milli tindanna er varða þar sem leiðir skilja niður að brúnum Skaftafells með útsýni yfir Skaftafellsjökul eða sveigt útaf til norðurs upp á nyrðri tindinn.  Sá tindur er hærri, 1126 metrar og þangað er förinni heitið.  Fljótlega tekur við smá klettaklifur en þó á allra færi að fást við.  Þegar hinsvegar er litið upp til tindsins virðist hann með öllu ókleifur með snarbröttum hamraveggjum hvert sem litið er.  En þessi klettastígur er milku auðveldari og hættuminni en á horfir og það ótrúlega gerist þegar ofar dregur að í staðin fyrir snarbratta hamra taka við aflíðandi þægilegar brekkur, alla leið á toppinn.

_Á toppi KristínartindaEn toppurinn stenst allar væntingar, og rúmlega það.  Skyggnið var ekki fullkomið en þokuslæðingur feyktist til og frá og byrgði útsýn yfir Morsárjökul og Skaftafellsjökul, en skaf heiðskýrt og bjart til vesturs yfir Kjósina og alla leið að Lómagnúp.  Súlutindar bera við Gnúpinn og enn nær breiðir Breiðamerkurjökull úr sér niður á aurarnar.  Litadýrðin í Skaftafellsfjöllum er nánast óraunveruleg og gæti tilheyrt framandi reikistjörnu.  Mann rekur í roga stans og trúir varla eigin augum.  Og hafi fegurðarskynið fengið ofbirtu við augnakonfektið þá tók ekki betra við þegar þokan leystist upp og Morsárdalurinn birtist með sínum 380 metra háu ísfossum.  Það var eins og við manninn mælt að skyndilega hrundi stórt stykki niður austurfossinn með gríðarlegum drunum sem bergmáluðu um fjallasali umhverfisins.  Ferðafélagi minn átti afmæli þennan dag og ekki hægt að hugsa sér betri stað til að halda upp slík á tímamót, en hún er fædd fimm árum eftir fyrstu komu Jack Ives til Skaftafells.Nyrðri tindur Kristínartinda

Ísfossarnir í Morsárdal voru einmitt rannsóknarefni Jack Ives og félaga í upphafi sjötta áratug síðustu aldar.  Þá náðu jöklarnir saman neðan fossana og runnu saman í einn skriðjökul niður Morsárdalinn, en nú er eystri taumurinn aðskilin frá þeim vestari og endar skammt fyrir neðan fossinn.  Þetta er stórkostlegt náttúruundur og drunur fossanna voru íbúum Skaftafells daglegt brauð, en þær heyrðust á góðum dögum alla leið niður að bæ.

Þokan sveipaði umhverfinu dulmögnuðum blæ og feyktist til og frá.  Eina stundina hvarf Morsárjökull og allt í einu var eins og tjald væri dregið frá og við okkur blasti þessi tilkomumikla fegurð.  Vel sást yfir á Öræfajökul með Hvannadalshnúk hnarreistan þó Hrútsfjallið virtist hærra vegna nálægðar við Kristínartinda.  Þokan náði ekki í þessa hæð og vel sást norður eftir Vatnajökli að Þuríðartind, og norðar voru Þórðarhyrna og Geirvörtur ásamt Bárðarbungu.  Lengst í norðri töldum við okkur grilla í Kverkfjöll.

Ekki sást niður til Skaftafellsjökuls vegna þokunnar sem ekki vildi láta undan í austurhlíðum Bröttuhálsa í Kristínartindum.  Við vonuðum að úr því rættist á niðurleið þar sem hægt er að ganga suður brúnir ofan skriðjökulsins.

Kristínartindar Til vesturs eru Kristínartindar þverhníptir niður að jökulfarveg Morsárjökuls og álíka fall niður að vestan megin niður að Skaftafellsjökli.  Tindurinn sjálfur er öruggur og þægilegur til að njóta veislunnar.  Slétt flögugrjót og nægilegt pláss til að athafna sig og því upplagt að njóta hádegisverðar á þessum stórkostlega stað.  Rúgkökur með hangiketi og kæfu brögðuðust sérlega vel við þessar aðstæður.

Ferðin niður gekk vel og þegar komið er niður í kverkina milli tindana er tekin vinstri beygja til að fara suður brúnir Skaftafellsjökuls.  Slóðin var örlítið ógreinleg á kafla og erfitt að ná áttum þegar þokan læddist yfir.  Allt í einu blasti við okkur gríðarlegur gígtappi í gegnum þokuna og kom þá upp í hugan umræða um reðurtákn og karlmennsku sem fram fór í ferðum okkar um Skagafjörð fyrr um sumarið með Hallgrími Bláskóg.  Þar var talað um að ,,mastra" eins og gert var á víkingaskipum áður en siglt , þegar mastrið var reyst og seglið dregið að húni.  Þetta var heldur betur reisulegt mastur hefði sómt sér hvar sem er innan um manngerðar súlur karlmennsku víða um heim.mastri.jpg

Skaftafellsjökull lét ekki að sér hæða og þegar við komum niður  á brúnir Austurheiðar hafði þokan hörfað og við blasti útsýni yfir jökulinn.  Tröllaukinn kraftur þyngdaraflsins þar sem ákoma jökulsins þrýstir honum niður brattar hlíðar fjallsins, sverfur og mótar landslagið með mikilúðlegum hætti.  Hlíðarnar eru víða snarbrattar þar sem er kafsprungin jökullinn rífur sér leið niður dalinn og skilur eftir greinilegan urðarana sinn sem hann sverfur úr jökulskeri nálægt austurjaðrinum. 

Við komum heim í tjaldið sjö tímum eftir brottför, þreytt og ánægð eftir nánast ofgnótt fegurðar og stórfengleika dagsins.  Í austri lúrði Hvannadalshnúkur yfir okkur, baðaður kvöldsólinni og Dyrhamar rétt sunnan hans.  Með tár af rauðvíni í glasi og minningar dagsins ásamt þessari fögru kvöldsýn virtist tilveran vera fullkomin.

 

Skaftafellsjökull


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 283914

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband