Ólína og sjávarútvegurinn

Í huga bloggara er leiðarljósið í hugmyndum um fiskveiðikerfi Íslendinga, að hámarka hag þjóðarinnar af fiskveiðum til langs tíma litið.  Því miður eru ekki allir samála honum og stundum virðast annarlegar kenndir ráða för.  Það er sérlega slæmt þegar valdamikið fólk á í hlut, t.d. þingmenn og svo ekki sé talað um formann Landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar Alþingis.  Ekki verður annað séð á skrifum hennar en markmiðið sé að koma höggi á útgerðarmenn og almannahagsmunir séu fyrir borð bornir.

Grein Ólínu Þorvarðardóttir í Morgunblaðinu 29. október ber einmitt dám að þessu.  Lítið er reynt að fjalla af sanngirni um málið, hvort sem talað er um líffræðilegan hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins eða þess hagræna.  Bloggari vill aðeins staldra við þessa grein og leiðrétta augljós rangindi sem annað hvort er sett fram að illgirni eða vankunnáttu.

Í fyrsta lagi talar höfundur um að ,,skapaður" hafi verið skortur á leigukvóta til að þrýsta á stjórnvöld.  Gerir þingmaðurinn sér ekki grein fyrir að einmitt það sýnir virkni kvótakerfisins?  Með minnkandi aflaheimildum þarf minni flota til að sækja það sem er til úthlutunar.  Það tryggir hámarks afrakstur nýtingar og þeir fyrstu sem detta út eru kvótalitlir bátar.  Við það er ekkert athugavert og alls ekki hægt að kenna vélarbrögðum útgerðarmanna um.  Reyndar er helst að skilja á Sjávarútvegsráðherra að hann hyggist beita ríkisvaldi til að tryggja framboð á leigukvóta og hafa þannig vit fyrir markaðinum.  Það er svona í anda kommúnismans að pólitíkusinn viti betur en markaðurinn hvað eigi að framleiða, hvernig, hvenær og af hverjum.

Ólínu verður tíðrætt um hvernig kvótakerfið hafi brugðist í að byggja upp fiskistofna.  Það er engin furða enda var kvótakerfið ekki sett á til þess.  Það var sett á til að auka arðsemi í greininni og draga úr sóknargetu flotans, getu sem stjórnmálamenn höfðu skapað með gengdarlausum innflutningi á togurum.  Upp úr 1980 hafði togaraflotinn aukist um rúmlega hundrað skip og algert hrun blasti við útgerðinni og reyndar fiskistofnum líka.  Svarta skýrsla Hafró hafði komið út 1976 og Íslendingar voru að átta sig á nauðsyn þess að stunda ábyrgar sjálfbærara veiðar.  Kvótakerfinu var þvingað upp á útgerðarmenn og þeir látnir bera ábyrgð á niðurskurði á fiskiskipaflotanum, en fengu í staðin nýtingarrétt auðlindarinnar.

Árið 1981 veiddu Íslendingar 469 þúsund tonn.  Nærri fjórðungur að þessum afla endaði á skeiðarhjöllum og var seldur fyrir lágt verð til Nígeríu.  Í þessari miklu veiði var tap útgerðarinnar í sögulegu hámarki og fiskveiðiarðurinn lítill sem engin.  Í þessu samhengi verða menn að skilja að kvótakerfið ræður ekki veiðimagni, enda er sú ákvörðun tekin pólitískt af ráðherra í samráði við vísindamenn Hafró.

Þá er komið að umræðu um líffræðilegan hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins.  Þar tínir þingmaðurinn allt til sem hún finnur til að gera lítið úr vísindamönnum Hafró og sleppir öllu því sem gæti talist þeim til tekna.  Það er gaman að flytja góðar fréttir og slíkt fellur í frjóan jarðveg hjá mörgum.  Tilhugsunin um að hægt sé að veiða miklu meira úr stofnum á Íslandsmiðum skiptir marga miklu máli og því gott að geta trúað því.  En hér verðum við að velja á milli hvort við notum vísindi eða óskhyggju.

Ef þingmaðurinn hefði haft fyrir því að koma við á Hafró hefðu starfsmenn getað leiðrétt mikið af rangfærslum í grein hennar.  En kannski það hafi ekki verið nokkur vilji til þess og tilgangurinn helgi meðalið.  Í fyrsta lagi hefur fæðuskortur aldrei verið afgerandi áhrifavaldur á fjölda fiska í þorskstofninum.  Hinsvegar hefur aðgangur að fæðu áhrif á meðalþyngd, en á þessu tvennu er mikill munur.  Enginn gögn eru til um að þorskstofninn hafi soltið í hel né hann hafi bókstaflega synt til annarra landa.

Hafrannsóknarstofnun notar sínar aðferðir til að ákveða stofnstærðir og hrygningarstofna.  Sjálfsagt er að þær aðferðir séu til umræðu og öll málefnaleg gagnrýni er af hinu góða.  En að hafna vísindum og þekkingu, í pólitískum tilgangi, er ekki til bóta.

Hafró og Fiskistofa stunda mælingar um borð í fiskiskipum og við löndun í höfnum. þar sem lengd er mæld og stundum aldur fiska er greindur.  Öll veiði er skráð um borð í veiðiskipum og skýrslur sendar til Hafró sem slær þeim inn í gagnagrunn.  Þannig er hægt að meta aldursdreifingu stofnsins og eins gefa þessar upplýsingar glögga mynd af veiði á sóknareiningu.  Síðan eru vor- og haust rallið notað til að styðja við þessi gögn og nota til að ákveða stofnstærðir og veiðiráðgjöf kemur í kjölfarið. 

Þetta er það sem kallað er vísindalegar aðferðir við ákvörðunartöku og er að miklu leit byggð á tölfræðilegum aðferðum.  Andstæðan við slík vinnubrögð er að nota aðferðir þingmannsins, t.d. sögur eins og; ,,reyndir menn telja" og ,,sjómenn bentu á" o.s.fr.

Það tekur hinsvegar steinn úr þegar stungið er upp á að nota ,,óháða" verkfræðistofu til reikna út stofnstærðir.  Byggja það á rússneskum aðferðum sem Kristinn Pétursson hefur spurnir af og notað hafi verið í Barentshafi.  Hér er lítið gert úr þekkingu og reynslu okkar vísindamanna og ekki furða að Hafró njóti lítils traust meðan forystumenn stjórnmálanna gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr trúverðugleika stofnunarinnar.

Nýlega sagði fyrsti þingmaður NV kjördæmis að það væri lífspursmál að tryggja samkeppni í rannsóknum á fiskveiðiauðlindinni.  Slíkt lýsir ótrúlegri vanþekkingu enda væri hægt að velta fyrir sér hver hvatinn í slíkri samkeppni yrði.  Það skyldi þó ekki virka þannig að sá sem kæmi með betri fréttir fengi hærri styrki?  Og eins og Ólína sagði þingmaðurinn nokkrar háðungsögur af Hafró, svona til að sýna fram á að ekkert væri að marka þá stofnun.

Það er gott ef stjórnmálamenn gagnrýna Hafró en það þarf að vera á málefnalegum og vísindalegum nótum.  Ekki má horfa framhjá þegar vel tekst til og blasa við þeim sem lesa skýrslur Hafró um ástand og horfur hinna ýmsu stofna.  Ótrúleg fylgni er milli árganga í þroski sem mældir eru árlega með togararalli.  T.d. tveggja ára fiskur sem mældur er í fyrra og borið saman við þriggja ára fisk í ár.  Það gefur sterkar vísbendingar um að menn séu á réttri leið.  Þessar upplýsingar boða ekki endilega góðar fréttir en gætu verið þær réttu.  Í spá Hafró fyrir hrygningarstofn þorsks eru 90% líkur á að með núverandi aflareglu, 20%, að hann verði á bilinu 170 til 300 þúsund tonn á næsta ári.  Ef veiðar væru auknar um 40 þúsund tonn, eins og fyrsti þingmaður leggur til, myndu þetta breytast verulega og hætta á alvarlegum bresti í stofninum.  Í þessu samhengi er rétt að geta þess að spár Hafró hafa verið of bjartsýnar í gegnum tíðina.

Vilja Íslendingar taka slíka áhættu í stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar.  Hvort vilja menn nota vísindi eða sögur til að taka ákvörðun?  Menn verða að hafa í huga að góð veiði er ,,eðlilegt" ástand og slíkt gefur því ekki eitt og sér ástæðu til að auka veiðar verulega.  Veiði getur verið góð í dag þó útlitið sé slæmt í framtíðinni, enda geta slappir árgangar verið í pípunum og nauðsynlegt að taka tillit til þess. 

Umfjöllun Ólínu er ómálefnaleg og ekki til annars en draga úr trúverðugleika Hafró.  Hún er ekki til þess fallin að bæta ákvarðanatöku um fiskveiðiauðlindina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Gunnar. Takk fyrir þessi ítarlegu skrif þín um fiskveiðistjórnun okkar. Því miður eru afar margar rökvillur í framsetningu þinni, sem setja gæði greinarinnar afar mikið niður.  Ég hyggst ekki fara út í tæmandi  úttekt á rökfræði þinni, enda er þér að sjálfsögðu frjálst að hafa þína skoðun.

Grein þín byggist að mestu leiti sem gagnrýni á skrif Ólínu Þorvarðardóttur, þingmanns. Ég elti ekki ólar við það, en gríp niður þar sem mér finnst þú leit of ódýrra lausna á viðfangsefninu. Lítum á dæmi:

Í fyrsta lagi talar höfundur um að ,,skapaður" hafi verið skortur á leigukvóta til að þrýsta á stjórnvöld.  Gerir þingmaðurinn sér ekki grein fyrir að einmitt það sýnir virkni kvótakerfisins? 

Þegar þess er gætt að mesta hagsæld sem útgerð getur haft af úthlutaðri aflaheimild, er að leigja hana frá sér á verði sem nemur 80 - 90 % af löndunarverði, ætti öllum reikningsfærum mönnum að vera ljóst að eitthvað annað en tekjulegir hagsmunir liggja að baki því að allt í einu vilja útgerðarmenn ekki leigja frá sér kvóta.

Með minnkandi aflaheimildum þarf minni flota til að sækja það sem er til úthlutunar.  Það tryggir hámarks afrakstur nýtingar og þeir fyrstu sem detta út eru kvótalitlir bátar.

Þarna hefðir þú betur kannað málin áður en þú settir þetta fram. Staðreyndirnar eru þær að skipum hefur fækkað, en á sama tíma hefur afkastageta hvers skips aukist margfaldlega, með umtalsvert meiri skemmdum á lífríki sjávarbotns, vegna umtalsvert stærri og þyngri togveiðarfæra. Bátaflota sem stundaði veiðar með kyrrstæðum veiðarfærum var hér um bil útrýmt, að undirlagi LÍÚ, til að skapa rými fyrir hina nýju og stóru togara.

Allar vísbendingar hníga að því að nýting, til tekjusköpunar fyrir þjóðfélagið, af þeim fiski sem drepinn er á Íslandsmiðum, hafi versnað verulega eftir 1990, að kvótakerfið var fest í sessi. Margir þættir koma þar að. Má þar t. d. nefna vinnsluskipin sem flokka afurðir eftir flakalengdum, mælt frá sporði. Það hefur valdið því að töluvert er um að fiskur sé hausskorinn nokkuð fyrir aftan eyrugga, og þar með fari verðmætasti hluti flaksins aftur í sjóinn, með hausnum. Þegar aflasamsetning vinnsluskipa er borin saman við önnur skip sem voru við veiðar á sama svæði , á sama tíma, verður ekki annað af því ráðið en vinnsluskipin kasti aftur í sjóinn umtalsverðu magni af því sem í veiðarfæri þeirra kom.  Til viðbótar þessu kemur svo brottkast, til hámörkunar á verðmæti landaðs afla.

Þá má að lokum benda á að kostnaður á aflaeiningu hefur aukist umtalsvert eftir tilkomu kvótakerfisins. Ræður þar mestu um stórlega aukinn olíunotkun (í tonnum talið), auk þess sem fjármagnskostnaður, sem hlutfall af aflaverðmæti, hefur aukist verulega. Allt þetta hefur valdið því að afrakstur þjóðarbúsins, atvinnutækifæri og þjóðfélagsleg veltufjárhæð afraksturs fiskimiðanna, hefur hlutfallslega minnkað umtalsvert síðan kvótakerfið var sett á.

  Við það er ekkert athugavert og alls ekki hægt að kenna vélarbrögðum útgerðarmanna um.

Með þessari einu setningu sýnir þú glögglega hve lítið þú hefur kynnt þér þann raunveruleika sem við öllum blasir, sem lesa sér til að framvindu fiskveiðistjórnunar hér, frá upphafi þeirrar umræðu. 

  Reyndar er helst að skilja á Sjávarútvegsráðherra að hann hyggist beita ríkisvaldi til að tryggja framboð á leigukvóta og hafa þannig vit fyrir markaðinum.  Það er svona í anda kommúnismans að pólitíkusinn viti betur en markaðurinn hvað eigi að framleiða, hvernig, hvenær og af hverjum.

Ef þú hefðir kynnt þér ákvarðanir Alþingis um fiskveiðistjórnun, hefðir þú séð að "leigukvóti" er hvergi til að lögum eða heimildum um fiskveiðistjórnun. Hugstökin "varanleg aflaheimild" og "leigukvóti" hafa aldrei verið sett í lög á Íslandi, og eru því einungis drifin áfram af frekju útgerðarmanna  í LÍÚ og fégræðgi.

Þar sem aflaheimildum er einungis úthlutað til afmarkaðs hóps veiðiskipa og engir aðrir eru "leigjendur" eða "seljendur" aflaheimilda, hefur ALDREI verið um neinn "markað" að ræða í þeim viðskiptum. Enda getur þú séð það, með því að fletta sölu- eða leiguverði aflaheimilda, á fyrri árum, þá er verðið áberandi einokunarverðlags, líkt og bensín og tryggingar. Markaðshugtakið hefur því ekkert komið við sögu í þessum viðskiptum, heldur hefur það verið drifið áfram af hinnum raunverulega hugsunarhætti kommunisma, að ná sem mestu frá þeim verr settu, til þeirra sem drotna.

Ég ætla ekki að elta frekar ólar við hugrenningar þínar um hinar "vísindalegu" aðferðir Hafró.  Það sorglega við þá stofnun er að hún hefur alla tíð lotið forystu LÍÚ, sem ævinlega hefur átt formann stjórnar.  Þá hefur það sýnt sig á undanförnum árum, að þeir trúa ekki einu sinni sjálfir, eign niðurstöðum um hæfni og hegðunarþátt þorsksins.  

Já, Gunnar minn. Það þarf að kafa vel ofan í flókin mál til að greina raunveruleikann, sérstaklega þegar miklu er rótað upp til að gera hann sem ógreinilegastann.   

Guðbjörn Jónsson, 31.10.2009 kl. 15:18

2 Smámynd: Kristinn Pétursson

Greiningardeildin hjá þér Gunnar er út í mýri. Þú virðist vera að reyna að  "fiska í gruggugu vatni"...  til hvers??   

Nýtt alvöru "rall"  - ég var einmitt að setja inn færslu um það í morgun www.kristinnp.blog.is  myndi þá hugsanlega laga eitthvað kolvitlaust mældan þorskstofn.

Farðu og talaðu við Pál - skipstjóra á Páli Pálssyni ÍS.... og  spurðu hann um áreiðanleika togararallsins.

Kristinn Pétursson, 31.10.2009 kl. 16:53

3 Smámynd: Atli Hermannsson.

Kristinn. Getur ekki verið að Gunnar sé einmitt núna að fiska í gruggugu vatni. Er hann ekki á vegum Þróunarsamvinnustofnunar við Viktoríuvatn - sem er gruggugt. En vatnið er að gefa af sér tæplega 300 þúsund tonn af Nílarkarfa á ári - eða tvöfalda ráðgjöf Hafró í þorski hér hjá okkur eftir 25 ára þrotlausa "uppbyggingu"... svo er enginn togarar þar eða stærri skip.

Að allri kaldhæðni slepptri, þá fær Ólína mitt atkvæði.

Atli Hermannsson., 31.10.2009 kl. 20:45

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Gunnar þessi trúarkennisetning ykkar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, að  "dauðu fé sé breytt í lifandi fé" með því að veðsetja alla fiska sem  synda í hafi hefur sökkt sjávarútveginum í stórfelldar skuldir og komið rekstrinum í vonlausa stöðu. Af sama toga er áráttan að einkavinavæða allar þeir eigur ríkisins sem skila arði og koma þeim í hendur vildarvina sem borga ekkert en reikningurinn er sendur til komandi kynslóða. Skuldaslóðinn er svo mikill að vandséð er að komandi kynslóðir geti varið sjálfstæði Íslands hvað þá að búa við góð lífskjör. Það er rétt hjá Ólínu aðhelsta röksemdin fyrir kvótakerfin, sem átti að vera tímabundið, var að byggja upp þorskstofninn.  Af einhverjum ástæðu, vonandi vanþekkingu, þrætir þú við hana um það.

Hvernig væri að hvíla kreddurnar og opna augun?

Sigurður Þórðarson, 1.11.2009 kl. 08:05

5 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Ég átti ágætt spjall við félaga minn um daginn sem sagði að forsenda þess að taka þátt í umræðum um fiskveiðiauðlindina er að viðmælandinn sé sammála um eitt grundvallar atriði.  Að fiskur sé takmörkuð endurnýjanleg auðlind.  Ef þetta liggur ekki fyrir er þýðingalaust að taka þátt í rökræðum.

Svo er hægt að ræða hluti eins og mismuninn á hagrænni og líffræðilegri stjórnun fiskveiða.

Ef nota á Viktoríuvatn sem viðmið um hvert við Íslendingar viljum halda í þessum efnum þá segi ég eins og Geir Haarde;  ,,Guð hjálpi Íslendingum"

Gunnar Þórðarson, 2.11.2009 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 285583

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband