Hvers vegna ESB aðild?

 

Björn Bjarnason hefur fært fyrir því góð rök að umsókn að ESB sé ekki tímabær.  Mikil pólitísk gróska sé innan sambandsins og óvissa um Lissabonsáttmálann sem setji aðildarumsókn Íslands í erfiða stöðu.  En þó telur hann að óðagot Samfylkingar í málinu og ósætti stjórnarflokkanna hvað varðar ESB, sínu verra.  Skilaboð stjórnarsinna eru sitt á hvað.  Össur, Jóhanna og Steingrímur segja að engin tengsl séu milli ESB umsóknar og Icesave en sjávarútvegsráðherra segir málin samtvinnuð og því beri að fresta umsókn, enda sé samningsstaða Íslands vonlaus í dag.  Björn er sammála Jóni Bjarnasyni og telur að bíða eigi minnsta kosti fjögur til fimm ár með umsókn.

Fyrir stuðningsmenn ESB aðildar eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar hörmulegar og þyngra en tárum tekur.  Jóhanna er greinilega lítill leiðtogi og notar hótanir frekar en sannfæringu til að fá ráðvillta V.G. til að greiða atkvæði á alþingi málinu til brautargengis.  Henni hefur algerlega mistekist að sameina menn í málinu og hefur sundrað þjóðinni með klaufaskap.  Umræðan snýst ekki lengur um hvað sé þjóðinni fyrir bestu heldur eru menn komnir í pólitískar skotgrafir. 

Þeir sem aðhyllast umsókn hafa bent á að aðild að ESB geti styrkt traust á Íslensku hagkerfi, sem er lífspursmál í dag.  Svona eins og kýrin var hjá Bjarti í Sumarhúsum, enda tóku börnin heldur betur að braggast við að fá næringarríka mjólkina úr henni.  Einnig hefur verið bent á að þrátt fyrir að upptaka evru og aðild að EMU taki all-nokkurn tíma, væri hægt að gera samning við Seðlabanka ESB um tengingu við evru og bankinn yrði sá bakhjarl sem lítil þjóð þyrfti á að halda.  Aðal málið er þó að tryggja aðgang Íslendinga að lánsfé og mörkuðum og sá ávinningur sem þjóðin hefur fengið í gegnum EES tapist ekki. 

En hvað vilja andstæðingar ESB aðildar?  Lítið er um svör hvað það varðar og framtíðarsýn þeirra nær ekki lengra en að stöðva aðildarumsókn.  Síðan reddast þetta allt!  Síldin kemur!

Bloggari er sannfærður um að þjóðin muni ekki samþykkja aðild ef hagsmunir hennar í sjávarútvegsmálum verði ekki tryggðir.  Það er því ekki það sem hangir á spýtunni heldur er um ríka þjóðerniskennd að ræða og hugmyndir um afsal á sjálfstæði þjóðarinnar.  Í dag hafa Íslendingar undirgengist yfirþjóðlegt vald með EES.  Um það er engin ágreiningur enda er það fylgifiskur flestra alþjóðasamninga.  Mesta breytingin við inngöngu í ESB er að landbúnaður og sjávarútvegur verða tekin inn í pakkann, og Íslendingar verða hluti af ákvörðunarferli sambandsins, sem þeir eru ekki í dag.

Ef menn gefa sér að þjóðin sé skynsöm og samþykki ekki samning sem tryggir henni a.m.k. núverandi arð að fiskveiðiauðlindinni til framtíðar, þá er bara landbúnaðurinn eftir.  Kannski að þetta snúist að lokum allt um rolluna og þjóðin sé tilbúin að axla verulegar byrðar, hærri matarkostnað, verri lífskjör o.s.f., bara ef ekki verður hróflað við rollunni.  Að kindin sé hið raunverulega sjálfstæði þjóðarinnar.

Það er þráin eftir frelsinu sem fær bloggara til að styðja við aðildarumsókn Íslands að ESB.  Að tryggja fjórfrelsið gagnvar ESB ríkjunum og þannig aðgengi að mörkuðum, fjármunum og vinnuafli.  Að koma í veg fyrir einangrun Íslands, sem ríkti að miklu leiti þar til Viðeyjarstjórnin tók við 1991 og landið síðan opnaðist með EES samninginn 1994.  Hvað sem okkur kann að finnast um þjóðir ESB þá deilum við okkar gildum og menningu með þeim.  Íslendingar þurfa að sameinast um að viðhalda því frelsi og kasta fyrir róða þjóðernishyggju og þeirri trú að þjóðin sé einstök í veröldinni, fallegust, best og klárust.  Hvort sem þjóðinni líkar betur eða verr er það einmitt sú firring sem kom henni á vonarvöl.  Mærði útrásarvíkingana og tók þátt í einni stærstu veislu sem haldin hefur verið.  Í stjórnarsáttmála Sjálfstæðismanna og Samfylkingar var einmitt ákvæði um að styðja frekar við útrásina og gera Ísland að alþjóðlegri fjárálamiðstöð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Þetta er nákvæmlega eins og þú segir - góður pistill!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.7.2009 kl. 07:22

2 Smámynd: Guðjón Sigurbjartsson

Ég er sammála þessarri greingu.  Svona liggur þetta. Þeir sem eru á móti umsókn, hvað þá aðild hafa sterka tilfinningu fyrir því að þeir séu að bregðast föðurlandingu og þeirri baráttu sem fór fram við að koma hér á fót líðræði.  Hvað þá með þjóðir Evrópu sem hafa gengið í ESB.  Upplifa þær að hafa tapað sjálfstæði?  Finnst þeim þær hafa afhennt sjálfstæðið af einhverri nauðung?  Nei almennt ekki.  Almennt finnst þeim einfaldlega eðlilegt að vinna náið saman að málum sem eru í eðli sínu þess eðlis að það er heppilegt að horfa þannig á þau. 

Guðjón Sigurbjartsson, 27.7.2009 kl. 08:28

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ég er að reyna að leita raka fyrir ESB aðild, og hér kemur eitt bloggið. Hvers vegna ESB aðild? Innihaldið .....tóm, ekkert. Eina sem tak er í er beljan hans Bjarts í Sumarhúsum. Hvernig hún kemur inn í þetta er ekki alveg ljóst, en rökin eru víst alveg kýrskýr.

Sigurður Þorsteinsson, 27.7.2009 kl. 08:39

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég varð fyrir vonbrigðum við lestur þessa pistils.

Þú gefur þér fjarstæðukenndar forsendur að villd t.d. að lánsfé muni streyma til landsins við það að að landið verði formlegur aðili að ESB. 

Sigurður Þórðarson, 27.7.2009 kl. 08:56

5 Smámynd: Jón Lárusson

Öll vegsemd þessa lands og hagsæld mun koma af vinnu okkar sjálfra, ekki sem einhver ölmusa erlends frá. Að halda því fram að Ísland hafi verið í einhverri einangrun þar til við sömdum um EES, er ekki eitthvað sem ég man eftir. Auðvitað opnuðust ýmsar leiðir inn í ESB við þetta, en landið var ekki í einhverri einangrun annarri en sjálfskipaðri. Svo er eitt sem vert er að athuga. Hvernig er háttað iðnaði á Íslandi núna og fyrir um 30 árum? Þegar ég var að alast upp, þá var allt morandi í iðnfyrirtækjum og við vorum sjálfbær um margt. Núna er varla nokkuð framleitt og verðmætasköpun þjóðfélagsins fellst í hráefnaútflutningi. Ekki það að ég telji EES vera ástæðuna fyrir þessu, heldur frekar gáleysi okkar þar sem við fórum að treysta á útlendinga um forsjá. Við verðum að átta okkur á því að okkar eigin verðmætasköpun er undirstaðan fyrir tilveru okkar hér. Ef við ætlum að byggja allt okkar á innflutningi, þá munum við ekki verða neitt annað en 19. aldar afrískt nýlenduríki.

Jón Lárusson, 27.7.2009 kl. 22:29

6 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Sigurður þú verður að lesa Sjálfstætt fólk til að skilja þetta með Bjart í Sumarhúsum, ,,sjálfstæði" hans og einnig er beljan góð birtingarmynd að því sem nú er að gerast á Íslandi.

Sigurður Þórðarson.  Ég er að benda á að Íslendingar þurfa núna fyrst og fremst traust til að geta nálgast erlent lánsfé.  Ég set fram þau rök að ESB umsókn og síðar aðild ýti undir slíkt traust.  Það eru nokkuð góð rök fyrir því en ég hef aldrei heyrt hvaða leið andstæðingar aðildar vilja fara!

Jón.  Við eru svo fullkomlega á sitt hvorri línunni i þessum málum.   Ég hef lesið mig vel til um EFTA aðild og síðar EES.  Menn notuðu einmitt sömu rök gegn þeim samningum á sínum tíma og eru notuð í dag gegn ESB.  Ef þú ert búinn að gleyma því að sækja þurfti um ferðamannagjaldeyri með 10% álagi og var naumt skammtað.  Alls kyns höft og viðskiptahindranir og haldið uppi vonlausum rekstri iðnfyrirtækja til að Ísland gæti búið við sjálfsþurftarbúskap.  Slíkt leiðir til meiri sóunnar og hærra verðlags.  Enda er samkeppni þannig lítil sem engin.  Tengslin milli haftabúskapar og fátæktar þjóða eru vel rannsakað fyrirbæri og vel rökstutt.  Þú þarft ekki annað en líta á tvö bestu dæmin í heiminum í dag, Norður Koreu og Kúbu.

Gunnar Þórðarson, 29.7.2009 kl. 06:13

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk yrir svarið Gunnar, til áréttingar vil ég segja þetta:

Ég tel þig ekki hafa sett fram nein rök fyrir að traust muni aukast en þú hefur vissulega gefið þér þá forsendu.

Skuldugasta þjóð í heimi þarf ekki lán hún þarf að borga lán.

Eftirfarandi atriði munu væntanlega draga úr trausti:

a) Óskoruð yfirráð ESB yfir fiskimiðum sem nú tilheyra íslenskri forsjá.

b) Afnám allra tolla og fríverslunarsamninga Íslands við ríki utan ESB með fisk.

Sigurður Þórðarson, 29.7.2009 kl. 07:15

8 Smámynd: Jón Lárusson

Ég tók mikið þátt í umræðunni í kringum EES og EB á sínum tíma og kynnti mér hlutina mjög vel. Það var þá sem skoðun mín á EB og síðar ESB aðild mótaðist, en ég taldi aðild að sambandinu ekki okkur til heilla og muni að lokum leiða til fullveldisafsals. Hins vegar var ég sáttari við EES samninginn og vildi láta reyna á hann. Sá samningur hefur komið ágætlega út og auðvitað margt fylgt honum sem opnaði okkur dyr. Hins vegar hefur hann líka leitt til þess að við erum hætt að framleiða nokkurn skapaðan hlut.

Þau "rök" fyrir inngöngu að við munum eiga auðveldara með að nálgast erlent lánsfé eru bara heimska og ekkert annað. Ég var að velta fyrir að nota mildara orð fyrir þetta, en bara get það ekki. Ástæðan fyrir vandanum hjá okkur í dag byggir á erlendri lántöku og því er það ekki kostur að vilja meira af henni. Við eigum að byggja upp samfélag sem eltist ekki við að fá sem mest af lánum, heldur byggja upp eignir. Auðveldari lántaka er ekki valkostur eða ávísun á betra líf.

Ég man ágætlega eftir gjaldeyriskaupunum í den, enda vann ég í banka á þessum tíma og sá um afgreiðslu á þessum fjármunum. Hins vegar eru gjaldeyrishöft ekki eitthvað sem skilyrt er fyrir þjóðir sem ekki eru aðili að ESB og að bera saman Ísland utan ESB saman við Norður Kóreu og Kúbu er bara bull. Þú veist það jafn vel og ég að Ísland og þessi ríki búa ekki við sama hlutinn. Fyrir utan viðskiptabann frá BNA þá búa Norður Korea og Kúba við vinstrisinnaða harðstjórn (veit reyndar ekki hvernig þú túlkar stjórn Jóhönnu?), en Íslendingar hafa mun meira frelsi og virk milliríkjasamskipti. Við erum með allt annan hugsunargang og mjög ólíklegt að einhver haftabúskapur komi til þó við séum ekki aðilar að ESB.

Það er lokamarkmið ESB báknsins, nokkuð sem komið hefur oft fram, að byggja upp sambandsríki í líkingu við BNA. Við getum ekki horft á ESB í dag, enn síður eins og það var fyrir 20 árum síðan, og segja hingað ætlum við inn. Við verðum að horfa til framtíðarinnar, enda langtímamarkmið, þessi innganga. Þar er um að ræða sambandsríki með tilheyrandi fullveldisafsali. Að halda því fram að ekki sé um fullveldisafsal með inngöngu í ESB, svona svipað og að halda því fram að það væri ekki fullveldisafsal að ganga inn í BNA.

Jón Lárusson, 29.7.2009 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 285737

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband