Sjálfstæðisflokkurinn í Sumarhúsum

Andstæðingar ESB beita fyrir sig þjóðerniskennd málstað sínum til framdráttar.  Það er ekkert skrítið við það þar sem aðildarsamningur var tvisvar felldur í Noregi á þeim forsendum.  Nafn Jóns Sigursonar er meira að segja notað í umræðunni og þjóðin er vöruð við því að kasta sjálfstæði þjóðarinnar fyrir róða, og undirgangast ofríki Brussel í staðin.

Er þetta svo?  Er Danmörk og Svíþjóð ekki fullvalda sjálfstæð ríki?  Að halda öðru fram er fáránlegt og nota slíkt í mikilvægu hagsmunamáli þjóðarinnar er hið versta lýðskrum.  Sannleikurinn er sá að með EES samningnum hafa Íslendingar undirgengist yfir 80% af regluverki ESB, og vantar inn ákvæði um landbúnað og sjávarútveg.  Það hafa þeir reyndar gert án nokkurrar aðkomu að ákvörðunartöku um þessar reglur.  Eru Íslendingar þá ekki sjálfstæð þjóð í dag og EES samningurinn þá búinn að ræna þjóðina sjálfstæði sínu sem nú hefur undirgengist yfirþjóðlegt vald?  Eða snýst sjálfstæðið um sjávarútveg og landbúnað?  Þýskur stjórnlagadómsstóll komst að því á dögunum að þjóðir ESB deildu ekki með sér sjálfstæði heldur völdum. 

ESB er upphaflega frönsk hönnun og hugsuð til að koma á varanlegum friði í stríðshrjáðri Evrópu.  Hnýta hagsmuni þjóðanna saman á efnahagslegum forsendum þannig að ekkert ríki sjái sér hag í að fara með hernaði gegn öðru.  Í upphafi hét þetta Kola og stálbandalagið, en það þurfti einmitt stál og kol til að hervæðast þannig að skírskotun nafnsins er skýr.  Evrópusambandið er síðan stofnað á grunni Rómarsáttmálans þar sem tryggja átti eðlilega samkeppni milli þjóðanna, íbúum til hagsbóta, og fjórfrelsið var hornsteinninn í samvinnunni. 

Margir sáttmálar hafa verið gerðir síðan en skal einn sérstaklega nefndur hér til sögunnar, Lissabonsáttmálinn.  Í upphafi þegar hann var kynntur kölluðu menn hann stjórnarskrá ESB.  Sjálfsagt hafa það verið samþjöppunarsinnar með Frakka og Þjóðverja í broddi fylkingar, sem komu með nafngiftina, sem var ekki bara vitlaus heldur skapaði mikla andstöðu þeirra sem vildu völd Brussel minni, s.s. Breta.  Hér var ekki um eiginlega stjórnarskrá að ræða og hreyfði í engu við ríkjandi stjórnarkrám aðildarríkjanna, sem eru að mörgu leiti ólíkar.  Eftir stækkun sambandsins 2004, úr 15 í 25, þar sem stór hluti austur Evrópuríkja var tekin inn í sambandið, gerðu menn sér grein fyrir  að jafnhliða stækkun væri nauðsynlegt að straumlínulaga ákvörðunarferli sambandsins.  Hægt vari að taka fleiri ákvarðanir án þess að nota einróma samþykktir (NATO notar slíkar ákvarðanatökur) og hægt verði að taka fleiri með auknum meirihluta eða einföldum meirihluta.  Einnig stóð til að fækka framkvæmdastjórum og breyta samsetningu þingsins og setja hámark á fjölda þingmanna.

Allir sem kynnt hafa sér málefni sambandsins vita að þetta eru algerlega nauðsynlegar aðgerðir og reyndar voru nýju ríkin búinn að fallast á skipan mála fyrir inngöngu.  Það ótrúlega gerðist hinsvegar að ,,Stjórnarskránni" var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi, og ef bloggari man rétt, í Hollandi.  Aftur var sest að hönnunarborðinu og nú hét fyrirbærið Lissabonsáttmálinn.  En þá feldu Írar málið.

Erfitt veður fyrir ESB að taka fleiri ríki inn nema koma sáttmálanum í gegn, þar sem ákvarðanataka er einfaldlega orðin of flókin og erfið í dag.  Hugsanlega myndu menn þú kippa Íslandi inn vegna EES samningsins og hversu fámennt ríkið er.

Það viðskiptafrelsi sem Íslendingar búa við í dag kemur frá ESB í gegnum EES samninginn.  Fjórfrelsið gefur þeim möguleika á að flytjast til allra ríkja EES og fá sér þar vinnu.  Bannað er að setja hömlur á viðskipti milli ríkjanna og eru Íslendingar nú á undanþágu vegna gjaldeyrishafta.  Ekkert nema yfirþjóðlegt vald á þessu sviði tryggir að svo verði áfram.  Allir sem muna tímann fyrir 1994 geta séð fyrir sér framtíðina án EES samningsins og íslenskum stjórnmálamönnum einum og sér, er alls ekki treystandi til að tryggja þetta frelsi.

Ekki þarf annað en líta á íslenskan landbúnað til að sjá það.  Haftastefna íslenskra stjórnvalda í landbúnaðarmálum er sú versta í heimi.  Þó deilt sé á ESB og talað um kerfiskarlana í Brussel og pólitísk tök bænda í Evrópu á stjórnmálum, eru þessi mál í miklu betri farvegi þar en á Íslandi.  Fyrir liggur að verð á landbúnaðarvörum mun lækka umtalsvert við inngöngu Íslands, og lífsgæði íbúanna þannig batna með lægra verði á matarkörfunni.  Í gegnum tíðin hafa Íslendinga fengið að heyra að nú eigi að taka á þessum málum og markaðsvæða landbúnaðinn.  En það eru því miður allt saman sjónhverfingar.  Að vísu hafa samningar World Trait Organization (GATT) eitthvað verið að stríða íslenskum stjórnmálamönnum, en þá er reynt að finna leiðir fram hjá kerfinu, með hagsmuni bænda gegn neytendum, í huga.  Nú er það ekki svo að bændur á Íslandi ríði feitri meri frá þessu öllu, en það er einmitt vandinn við höft og ófrelsi að menn uppskera sóun og allir þjást og engin ber neitt úr býtum.

En þá er sjávarútvegurinn eftir og um það snýst málið.  Grundvallar krafa Íslendinga er að; ná samningum um sjávarútvegsmál sem tryggja sjálfbærni veiða og að sjávarútvegur verði rekin á viðskipalegum grunni í framtíðinni ásamt því að tryggja að fiskveiðiarður sem þannig verður til skili sér til þjóðarinnar.  Hvort ákvörðun um t.d. veiðimagn er formlega tekin í Reykjavík eða Brussel, skiptir engu máli.  Það sem skiptir máli er á hverju ákvörðunin byggir.  Nái Íslendingar ekki þessum markmiðum í aðildarsamningum mun þjóðin fella hann.  Það er sannfæring bloggara.  En á það þarf að láta reyna þar sem hagsmunir þjóðarinnar eru gríðarlegir.

Bjartur í Sumarhúsum fórnaði fjölskyldu sinni fyrir ,,sjálfstæðið" og féð.  Rollan var honum meira virði en börnin, enda hafði hann varla undan við að bera þau í kirkjugarðinn.  Sjálfstæðismenn þurfa að komast út úr slíkri sjálfheldu og gefa sig í umræðuna.  Horfa raunhæft á málið og láta skynsemina ráða en ekki rómantíska þjóðerniskennd þar sem Íslendingnum er stillt upp sem hinum einstaka manni.  Það var einmitt það viðhorf sem er að koma þjóðinni í koll þessa dagana.  Hrokinn og sjálfumgleðin sem þjóðin hefur tamið sér undanfarið hefur ýtt mestu vinarþjóðum hennar í burtu sem horfa nú á aðgerðalaus meðan Íslendingar sökkva í nákalt norður Atlantshafið.  Þessi gríðarlega mikilvægi samningur sem þjóðin gengur nú til má ekki vera án aðkomu Sjálfstæðisflokksins.  En til þess verða sjálfstæðismenn að taka upp alvöru ESB umræðu með hagsmuni þjóðarinnar í huga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Þakka þennan þarfa pistil. Þetta er með því  skynsamlegasta sem ég hef  lesið í þessari ESB umræðu allr. -  Eiður Guðnason

Eiður Svanberg Guðnason, 25.7.2009 kl. 15:35

2 Smámynd: Atli Hermannsson.

Góð samantekt Gunnar; ber að sendast á alla flokksbundna Sjálfstæðismenn - með kveðju frá sérlegum góðvin stórútgerðarinnar

Atli Hermannsson., 25.7.2009 kl. 18:25

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Mikið óskaplega þarf mikla hæfileika til þess að skrifa svona mörg orð um svona lítið innihald. Var að reyna að finna einhver rök í textanum fyrir inngöngu í ESB, en þau var ekki að finna frekar en í mörgum öðrum greinum ESB sinna. Bjartur í Sumarhúsum myndi örugglega hafa skrifað innihaldsríkari grein, það hefðu Bakkabræður einnig gert.

Sigurður Þorsteinsson, 25.7.2009 kl. 21:20

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það er alltaf sama sagan.

Þetta er alveg eins og kosningarnar (og umræðan) hér í ESB. Ef það kemur ekki "rétt" út úr þeim þá á að kjósa (ræða) aftur þar til ESB mönnum finnst koma rétt út úr þeim.

"til þess verða sjálfstæðismenn (nefnilega) að taka upp alvöru ESB umræðu með hagsmuni þjóðarinnar"

Já, sem sagt mínar dömur og herrar, ræðið og kjósið aftur og aftur, eða þangað til það kemur "rétt" (umræða) út úr þessu. Þá vitum við það. Þetta var sem sagt allt bull og þvæla af því það kom ekki það út úr því sem ESB-sinnar vildu.

Ég er búinn að hlusta á þetta einstefnu hjal hér í ESB í 25 ár og það hefur ekkert fært okkur nema óánægju, sundrungu, verri hagsæld og velmegun => eða fullkomna stöðnun. Þetta er því miður röksemdafærsla einstefnumanna sem búa í einsflokkaheimi. Þetta er jafnvel meira naívt en stefnumörkun útrásarbankanna var. Hún byggðist á glórulausri fávísi og raunverulegri heimsku í orðsins fyllstu merkingu, óskhyggja barna

Sorry to say

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 26.7.2009 kl. 01:34

5 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Sigurður það lofar ekki góðu í umræðu manna á milli þar sem reynt er að finna flöt á máli að gera lítið úr viðmælendum sínum.  Það þjónar engum tilgangi.

Gunnar.  Ertur þá ósammála því að EES hafi fært þjóðinni velsæld og aukið hag hennar?  

Ég tel það ekki vera til einskis að úrskýra fyrir þeim sem ekki skilja hvað ESB stendur fyrir!  Hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða og eðlilegt að skoðanir séu skiptar á því.  En ég geri þá kröfu til minna flokksmanna að þeir taki upp skynsamlega rökstudda umræðu og falli ekki í sama foraðið og menn hafa gert í umræðu um fiskveiðastjórnun Íslendinga.  Sú umræða hefur því miður verið á lágu plani og erfitt reynst að halda henni uppbyggilegri.  

Það er eðlilegasta mál að menni greini á, en þeir þurfa að geta rætt málin eins og siðaðir menn.

Gunnar Þórðarson, 26.7.2009 kl. 11:11

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Gunnar

Gunnar. Ertur þá ósammála því að EES hafi fært þjóðinni velsæld og aukið hag hennar?

Það er náttúrlega ekki þitt að segja til hvað sé á lágu plani eða ekki, bara af því að þér fellur ekki niðurstaðan Gunnar. Flest sú umræða sem fer fram hér innan ESB finnst mér á mjög lágu plani, lágkúruleg, þvinguð og læst. Þetta er einsflokkakerfi sem engin leið er að komast út úr aftur og sem hefur ekki fært neinni þjóð í sambandinu aukið ríkidæmi eða velmegun. Það er mjög auðvelt að halda hinu gangstæða fram því evrusvæðið á núna heimsmet í lélegum hagvexti samanlagt hin síðustu 15 ár. Á meðan hafa Íslendingar brunað fram úr þeim öllum. Framtíð ESB er því miður mjög svört.

EES samningurinn hefur fært þjóðinni margt slæmt og sumt gott. Þar ber hæst hina miklu fákeppni sem þið flytjið núna inn frá ESB. Hún er gegndarlaus hér í sambandinu og ómöguleg viðureignar. Þið flytjið inn fákeppnina í dreifingarliðnum. Þið flytjið út vörur í þetta fákeppnissvæði og lendið í því að lokast af frá umheiminum, bæði andlega, menningarlega og líkamlega. Þið eruð að satsa á það markaðssvæði sem á ömurlega framtíð fyrir sér í öllu OECD ef Japan er undanskilið. Það er til heimur fyrir utan ESB.

Framtíð Íslands er björt utan ESB. Ísland á lítið sameiginlegt með ESB og sérstaklega ekki neitt sameiginlegt með fortíð ESB. Fortíðinni sem sambandið byggir tilveru sína á. Því á ekki að henda þessum demanti okkar í hundana hér í ESB bara af því að það kom áfall sem mun valda kreppu í nokkur ár. Ef Ísland gengur í ESB þá mun kreppan vara þar að eilífu.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 26.7.2009 kl. 12:33

7 Smámynd: Atli Hermannsson.

Gunnar Þ. Þú þekkir betur en margur annar hvernig félagsstarf stjórnmálaflokka er á landsbyggðinni, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins.Frammámenn hans eru eins og þú veist kvótaeigendurnir sjálfir í viðkomandi bæjarfélagi eða þeirra nánustu, vinir eða kunningjar. Þá örlar líka á mönnum frá stærstu þjónustufyrirtækjunum í plássinu sem eiga allt sitt undir því að þóknast þeim – eins og þú þekkir að Vestan. Þegar kemur að því að velja á landsfundi Sjálfstæðisflokksins eins og t.d. þann síðasta er því nokkuð ljóst hverjir fá að sýna sig - og hverra hagsmuna á að gæta. Þar hitta þeir félaga sína og fulltrúa hluthafa sem gjarnan eru forkólfar sjóða - olíu- og tryggingafélaga sem taka upp alla stólana í sjávarútvegsnefndinni. Álpist þangað einhver "sérvitringurinn" er honum góðlega klappað ´s öxl og spurður hvort allt sé nú ekki í góðu lagi. Svo eru það hinir sem enga þekkingu hafa á málunum og gangast upp við að fá að standa við hliðina á "stórmennunum" - þó ekki sé nema þegar þeir míga.

Þarf einhver að vera hissa á því að aldrei sé ályktað gegn sérhagsmunum LÍÚ á landsfundi?

Atli Hermannsson., 26.7.2009 kl. 16:43

8 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Já nafni þú hefur þessa skoðun á ESB og ekkert um það að segja.  Ég vil þó vara þig við að tala um hagvöxt.  Ríki sem eru með mjög lágar þjóðartekjur, t.d. Kína og ég tala nú ekki um Afríkuríki, eiga auðvelt með að sýna hagvöxt.  Úganda er með 8 til 10 á ári, en hér er nú samt allt i kalda koli.  Ísland var með næst hæstu þjóðartekjur innan EES 2007.  En það var ekkert að marka það enda þjóðartekjum haldið uppi með háu gengi og skuldasöfnun.  Sjálfur hef ég meira álit á ESB en þú en kann ekki að ræða málin með þeim hætti sem þú gerir.  Ég vil ekkert tala um plan í því sambandi.

Atli mikið skelfingar ósköp er ég orðin þreyttur á þessari heysteríu í þér.  Þú þarft að hlaupa af þér hornin svo þú sjáir umhverfi þitt.  Þú er fastur í þessum ósköpum með sægreifana.  Sjálfstæðisflokkurinn er miklu betri stofnun en þú heldur og þar hef ég meiri reynslu en þú.  Þetta er reyndar eini flokkurinn sem heldur alvöru landsfundi þar sem stefnan er mörkuð.  Ég var hinsvegar ekki á þeim síðasta og er mjög óánægður með hvernig ESB málin voru afgreidd.  Ég held þá á að nudda í mínu fólki og reyna að fá það í alvöru umræðu um málið. 

Þú getur reynt að gera lítið úr samfélögum fyrir ,,Vestan" en það hrynur eins og vatn af gæs hvað mig varðar.  Ég held að slíkt hafi meira með þig sjálfan að gera en íbúa Vestfjarða.

Svona til að upplýsa þig þá horfi ég á sjávarútvegsmálin með hag Íslendinga í huga.  Sama geri ég hvað varðar ESB, enda á ég engra beinna hagsmuna að gæta.  Ég kýs það sem ég tel þjóðinni fyrir bestu.  Hvað gerir þú?

Gunnar Þórðarson, 27.7.2009 kl. 04:59

9 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já, takk Gunnar, en þetta er ekki alveg rétt hjá þér. Þjóðartekjur eru gerðar upp á föstu verðlagi í erlendri mynt (verðbólga hreinsuð út) eða í kaupmætti þjóðartekna = PPP (Purchasing power parity)

Gunnar: finnst þér 7% samdráttur í þjóðarframleiðslu skemmtilegur? Auðvitað finnst þér það ekki. En þetta er semsagt 7% neikvæður hagvöxtur. Það vantar vöxt, hagvöxt. Nú þarf að vinna það tapaða upp á fullu og það er aðeins hægt ef hagkerfið nýtur fulls frelsis, FULLS FRELSIS

Kína (og fátæk ríki) er allt annað mál: það koma um XX milljón Kínverjar á hverju ári út úr gamla hagkerfi Kína og inn í hið nýja hagkerfi í Kína. Kínverska ríkisstjórnin veður að absorbera þetta fólki inn í nýja hagkerfið (skaffa því atvinnu) því annars verður bylting. Þetta krefst mikils hagvaxtar eða um ca. 7-8% hagvaxtar ár ári. Semsagt 7-8% hagvöxtur ári í Kína núna svarar svo að segja til núll vaxtar hjá okkur. Þetta er það lágmark sem Kína getur leyft sér. Fari hagvöxtur í Kína undir þetta þá er tilvera alls kommúnistakerfisins í hættu.

Græjurnar í heilbrigðiskerfið og nýju lyfin verða ekkert ódýrari Gunnar: þú þarft að auka við tekjur samfélagsins til að dragast ekki aftur úr, staðna eða verða Norður og Niður Kórea. Kröfur skattgreiðenda til afkastagetu samfélagsins minnka ekki, þær aukast. Menn vilja meiri velferð en þó án þess að gera sér grein fyrir að það er einungis velmegun (sem er allt annað en velferð) sem getur skaffað peningana á borðið frá atvinnurekstri sem býr til vörur og selur þær fyrir peninga. Og velmegun geta atvinnuvegirnir aðeins búið til. En þetta krefst frelsis. Og það er einmitt frelsið sem þrífst ekki í handjárnum ESB. Að ganga í ESB þýðir óhjákvæmilega frelsisskerðingu fyrir all þjóðfélagið.

En hvernig finnst þér annars þetta ESB-atvinnuleysisástand sem er á Íslandi núna? Við erum búin að hafa svona ástand hér í ESB síðastliðin 30 ár. Það er svona sem það er að vera í ESB. Það á bara eftir að fela atvinnuleysingjana í kössum djúpt ofaní Íslandi, fela þá svo þið takið ekki eftir þeim. Ekkert samfélag þolir svona lagað án þess að veðra fátækt. En það er einmitt það sem ESB hafur orðið miðað við Ísland og BNA á síðustu 30 árum. ESB dregst alltaf meira og meira afturúr.

Frelsið er vöðvabúnt heilans og þegar það dafnar með ágætum þá eykst velmegun okkar allra. Það er þó einn hængur á þessu máli, það þarf að nota frelsið. Það þarf að koma í veg fyrir að þetta vöðvabúnt heilans visni og það gerir það einmitt í spennitreyju þjóðanna í ESB og EMU.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 27.7.2009 kl. 13:59

10 Smámynd: Atli Hermannsson.

"Atli mikið skelfingar ósköp er ég orðin þreyttur á þessari heysteríu í þér.  Þú þarft að hlaupa af þér hornin svo þú sjáir umhverfi þitt.  Þú er fastur í þessum ósköpum með sægreifana." 

Mér þykir leitt að heyra hvað þú ert fljótur að þreytast Gunnar. Það er greinilegt að þú hefur ekki mikið þol gegn gagnrýni á kvótakerfið og kunningja í hópi útgerðarmanna. Sjálfur bý ég svo vel að eiga marga kunningja og vini í þeirra hópi eftir að hafa starfað innan greinarinnar í áratugi. Þá veit ég ekki til þess að þeyr séu farnir að þreytast á mér enda markast skoðanir mínar á fiskveiðikerfinu að verulegu leyti á áratuga samræðum við þá og þeirra reynslu.

En vegna þess að þessi þráður er um áhuga þinn á inngöngu í ESB sem ég deili með þér. Þá læt ég til fróðleiks fljóta með ummæli kunningja þíns Friðriks Jóns Arngrímssonar. framkvæmdastjóra LÍÚ í þættinum Sprengisandi fyrir viku síðan: “Ég held að það sé ekki hægt að ná samningum á sjávarútvegssviðinu sem uppfylla þarfir íslendinga, það er bara þannig”....Þá voru lokaorð Friðriks í þættinum þessi:“Þannig að ég held að Evrópusambandið ætti að henda sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni, setja ábyrðina á ríkin sjálf, á útgerðina og sjómennina,  hætta með þetta styrkjabiks sem þeir eru með og drepur allt eðlilegt atvinnulíf... en það er bara langt í land og það er bara ekki fullnægjandi, því miður”.

Atli Hermannsson., 27.7.2009 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 285731

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband