Icesave hrunadansinn

 

Ef bloggari væri þingmaður í dag myndi hann greiða atkvæði gegn Icesave frumvarpinu, þrátt fyrir þá óvissu sem það muni valda við umsókn Íslendinga til ESB.  Það verður ekki fyrir það þrætt að allt sem gert hefur verið varðandi þetta mál, frá upphafi til enda, er þyngra en tárum tekur.  Hægt er að afsaka gríðarleg mistök fyrri ríkisstjórnar með því sem kalla mætti hamfarir.  Mikill skortur var á samhæfingu og ráðherrar töluðu út og suður og alls kyns yfirlýsingar voru gefnar.  Ekki virtust ráðherrar Íslands geta hringt í kollega sína erlendis og róað ástandið og þannig keypt sér tíma.  Þó var þetta þjóð sem hafði eytt milljörðum í kosningabaráttu til að ná sæti í öryggisráði S.Þ.

En það tekur steininn úr þegar kemur að vinnubrögðum núverandi ríkisstjórnar.  Fjármálaráðherra velur tvo vini sína til að höndla samningaviðræður um Icesave, Indriða sem er hans hægri hönd í ráðuneytinu, og pólitískan læriföður sinn Svavar Gestsson.  Að vísu horfir bloggari á málið úr fjarlægð, alla leið frá miðbaug, en honum virðist að með þessu skipulagi hafi ráðherra gert niðurstöðuna persónulega, og geti alls ekki bakkað út úr vitleysunni.  Svavar sem formaður samninganefndarinnar virðist ekki hafa leitað til hæfustu manna við samningagerðina, sérstaklega lögfróðra, og niðurstaðan ber keim af því.  Svo kölluð ,,Landsbankaleið" sem er bloggara algerlega óskiljanleg, virðist miðað við yfirlýsingar Svavars vera galdurinn á bak við ,,frábæra niðurstöðu"  Þrátt fyrir frábæra niðurstöðu eru allar líkur á að samninganefndin hafi afsalað sér forgangi í kröfur á Landsbankann, til að greiða innistæður Icesave.  Þá er gert ráð fyrir að lágmarksupphæðin sé samkvæmt regluverki ESB, sem reyndar er mjög görótt plagg.  Hér var gefið eftir og kröfur Breta og Hollendinga gerðar jafn réttháar, þrátt fyrir að viðbótarframlag þeirra sé pólitísk útspil sem er algerlega úr tengslum við regluverk ESB.  Þetta gæti kostað þjóðina um 300 milljarða króna og er þá ótalin smá mistök hér og þar í samningagerðinni sem kosta bara nokkra tugi milljarða.

Fari hinsvegar neyðarlögin fyrir dómstóla og verði dæmd ólögleg, er staðan miklu verri en þetta og allt að 700 milljarðar fallið á ríkið.

Það má guð vita hvað gerist þegar alþingi hafnar þessum samning, en ekki er um annað að ræða.  Áður vonuðust menn eftir góðri síldarvertíð til að ,,redda" málunum, en hér eru stærðargráðurnar þannig að ekkert getur reddað því. 

En spurningin er hvers vegna staða Íslendinga er með þessu hætti í dag, og engin þjóð virðist standa að baki þeim á þessari ögurstundu.  Hvað í ósköpunum hefur þjóðin gert til að verðskulda það?   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Guðmundsson

Sæll félagi.

Þú spyrð:

En spurningin er hvers vegna staða Íslendinga er með þessu hætti í dag, og engin þjóð virðist standa að baki þeim á þessari ögurstundu.  Hvað í ósköpunum hefur þjóðin gert til að verðskulda það?   

Við þessu er einfalt svar og auðsjáanlegt. Meirihluti þjóðarinnar kaus yfir sig s.l. 20 ár gjörspillta stjórnmálamenn sem stofnuðu til svokallaðrar einkavæðingar bankanna með það að leiðarljósi að "réttir menn" í góðu sambandi við flokkanna fengju þá. Búið var til hugtakið "kjölfestufjárfestar" og mönnum talin trú um að slíkir væru nauðsynlegir í stað "dreifðrar eignaraðildar" sem sömu menn höfðu áður talið algjöra forsendu fyrir einkavæðingunni. Horft var í gegnum fingur sér bæði með fjárhagslega getu hinna réttu manna og eins það hvort þeir hefðu einhverja kunnáttu í bankarekstri. Búnar voru til goðsagnir um ríkidæmi hinna réttu manna og kaupin voru síðan fjármögnuð með leynilegum gagnkvæmum lánum úr hinum seldu bönkum. Framhaldið þekkjum við svo. Rífleg fjárframlög til stjórnarflokkanna tryggðu baklandið til síðasta dags og yfirlýsingar voru gefnar óspart til annarra landa um algera ábyrgð íslenska ríkisins á starfsemi hinna réttu manna.

 Hvers vegna eru menn hissa á því að enginn taki mark á okkur erlendis þegar við blasir að pólitísk spilling á við hin verstu afiríkuríki hefur litað allt þetta ferli.

Það verður gaman að fá þig í golfið, Gunni. og sjá hvort þú hefur eitthvað í Gísla Jón að gera.

Tryggvi Guðmundsson, 22.7.2009 kl. 16:11

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Heill og sæll félagi Tryggvi.  Ég þarf að útskýra fyrir þér hvað pólitísk spilling er í gufunni í haust.  Málið er að miðað við alla mælikvarða eru stjórnvöld á Íslandi ekki spillt og lýðræði með því besta sem gerist í heiminum.

Það er eflaust margt til í því sem þú segir varðandi mistök við einkavæðingu bankana, en það útskýrir ekki viðbrögð í okkar garð frá t.d. norðurlandaþjóðunum.  Það er eitthvað annað og meira.  Ég held að almenningur beri meir ábyrgð en þú vilt vera láta.  Íslendingar gengu um með hroka hvert sem þeir fóru, og töldu sig almáttuga.  Gerðu litið úr nágrönum sínum og mikluðust af sínum frábæru útrásarvíkingum.  Og ekki síst þá var nánast öll þjóðin á fylliríi.  Það er ekki hægt að klína þessu á Davíð og Co.  En við ræðum þetta betur seinna.

Gunnar Þórðarson, 24.7.2009 kl. 10:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 285731

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband