Til hamingju Ísland

Ef að reiði er meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins er í garð Þorgerðar Katrínar þá er bloggari æfur út í sinn flokk í Evrópumálunum.  Hvers vegna í ósköpunum ætti Sjálfstæðisflokkurinn að vera einhuga í andstöðu sinni fyrir umsókn?  Bloggari hefði viljað sjá Þorgerði, ásamt fleirum, greiða atkvæði með umsókn.

Ef þingmenn flokksins átta sig ekki á hættunni við að huga meira að hagsmunum flokksins en þjóðarinnar, þá búa þeir í fílabeinsturni.  Rök formanns flokksins fyrir andstöðu eru ákaflega veik og bera merki þess að meira tillit er tekið til pólitískrar stöðu flokkana í núinu, en þjóðarinnar til framtíðar.  Gamlar klisjur þar sem þjóðerniskennd er beitt í pólitískum tilgangi eru notaðar.  Það er slegið um sig frösum um rétt bænda til að níðast a neytendum landsins og að Íslendingar séu að gefa frá sér öll umráð yfir sjávarútvegnum.  Það liggur fyrir að neytendur munu hagnast verulega á inngöngu þar sem landbúnaðarvörur muni lækka umtalsvert.  Henda þarf fyrir róða úreltum og óhóflegum styrkjum og viðskiptahindrunum úr landbúanaði.  Kerfi sem er með því versta sem þekkist í heiminum, en hefur því miður verið stutt af Sjálfstæðismönnum, gegn þjóð sinni, í gegnum áratugina.

Hvað varðar sjávarútveginn hafa mörg rök verið sett fram um að hægt sé að ná samningum sem séu ásættanlegir fyrir Íslendinga.  Á það þarf að láta reyna, en vitað er fyrirfram að ESB mun ekki breyta stofnsamþykktum sínum fyrir Íslendinga.  Aðrar leiðir eru færar og hefur bloggari meðal annarra sett fram rökstuðning fyrir færum leiðum, m.a. á bloggsíðu sinni og Evrópuvef Sjálfstæðisflokksins.

En forysta flokksins telur hinsvegar rétt að standa þétt saman gegn hagsmunum þjóðar sinnar, gegn betri lífskjörum hennar til framtíðar sem fylgja mun viðskiptasamningum við nágrana í Evrópu.  Hugsa eins og Bjartur í Sumarhúsum að öllu skuli fórnað fyrir ,,sjálfstæðið"  Kannski má líkja stöðu þjóðarinnar við ástandið í Sumarhúsum þegar Bjartur hafði sett óvenju mikið fé á til vetrar á sama tíma og heyskapur sumarsins var rýr.  Síðan kom þorrinn og góan með stórviðrum og fé byrjaði að hrynja niður úr hor.  Þá skar hann á háls kúnna sem hafði fært fjölskyldunni nauðsynlega næringu yfir veturinn og var reyndar lífspursmál fyrir fjölskylduna.  Allt fyrir ,,sjálfstæðið" en honum bauðst meðal annars að fá lánaða tuggu til að fleyta sér yfir erfiðleikana frá nágrönnum sínum.  Bjartur fórnaði fjölskyldu sinni fyrir ,,sjálfstæðið" og þeir sem ekki voru þegar komnir niður á sex fetin voru aðframkomnir af skorti og slæmum lífskjörum í bókarlok.

Bjarni Ben er í stöðu Bjarts í dag.  Rök hans eru engu betri en Sumarhúsabóndans og krafan um að allur þingflokkurinn fylgi honum í jafn slæmu máli og andastaða við umsókn er, er óþolandi.  Hér skal ekki sett út á skoðanir manna sem eru á móti aðildarviðræðum, en menn þurfa að rökstyðja þá andstöðu með haldbærum hætti.  Slíkt hefur ekki komið frá forystu Sjálfstæðisflokksins nema í skötulíki.

Nánari tengsl við grannríki okkar í Evrópu á sviði viðskipta er aðeins af hinu góða.  Ekki má greiða það of dýru verði og ekki afsala sér þeirri ábyrgu fiskveiðastefnu sem hér hefur verið rekin undandfarin ár.  Fiskveiðistefna ESB er ekki byggð á viðskiptalegum grunni og sem slík hugnast hún ekki þjóð sem hefur stóran hluta útflutningstekna sinna af sjávarútveg.  En það þarf að láta reyna á samninga sem tryggja áframhaldandi sjálfbærar veiðar á Íslandsmiðum, á viðskiptalegum grunni.  Það sem þarf að tryggja er; Íslandsmið verði sérstakt veiðisvæði innan ESB fyrir botntegundir, sjálfbærar veiðar verði stundaðar og farið verði eftir ráðleggingum vísindamanna um veiðimagn, framseljanlegt kvótakerfi verði áfram notað, Íslendingar sjá sjálfir um veiðieftirlit á Íslandsmiðum og takmörk verði sett á kvótahopp til að tryggja að arður af veiðum verði eftir í landinu.  Varðandi deilistofna verður staða okkar erfiðari þar sem ESB lítur á hluta af veiðum Íslendina á uppsjávarfiski sem sjóræningjaveiðar.  Hvort formleg ákvörðun um veiðimagn verður tekið í Brussel eða Reykjavík skiptir engu máli.  Hægt er að ná þessu fram án breytinga á stofnsamþykktum.

Í þessum málum á að gæta hagsmuna þjóðarinnar en ekki útgerðarmanna né sjálfstæðismanna, með lífskjör Íslendinga til langs tíma verði megin markmiðið.  Innganga í ESB er forsenda fyrir upptöku evru í stað krónunnar sem því miður er hand-ónýt og mun ekki gagnast þjóðinni í framtíðinni.  Ný skipan gjaldeyrismála og samningar við Evrópuríki er grundvöllur lífskjara á Íslandi.  Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að hella sér út í vinnu við umsóknarferli og tryggja sér aðkomu að samningunum.  Núverandi utanríkisráðherra er alls ekki fær um að stýra þessum umræðum.  Skyldi Sjálfstæðisflokkurinn hafa kastað frá sér nauðsynlegum áhrifum á samningagerðinni vegna þröngrar pólískrar sýnar augnabliksins?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

Mjög góð grein hjá þér.

Hvenær kemur sá tími að þingmenn láti hagsmuni þjóðarinnar en ekki flokks síns ráða för? Það hefur verið mjög áberandi eftir bankahrunið og um leið sorglegt að sjá hvað fólk lætur hagsmuni eigin flokks ráða gjörðum sínum.

Á svona erfiðum tímum vill maður sjá alla róa í sömu átt til að bjarga skútunni.

Brattur, 18.7.2009 kl. 09:22

2 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Bjarni Ben féll á prófinu.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 18.7.2009 kl. 11:25

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þorgerður Katrín hefur ríkari skyldum að gegna gagnvart stefnu Sjálfstæðisflokksins sem varaformaður en venjulegur þingmaður.  Þegar hún bauð sig fram til endurkjörs sem varaformaður á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í marz sl. lá fyrir hver stefna flokksins yrði í Evrópumálum. Þorgerður hafði m.ö.o. alla möguleika á að draga framboð sitt til baka ef hún treysti sér ekki til þess að framfylgja þeirri stefnu.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins ber ábyrgð á innra starfi flokksins og ef sá sem gegnir þeirri stöðu treystir sér ekki til þess að framfylgja stefnu hans, sérstaklega í stórum málum, er ekki óeðlilegt þó vangaveltur vakni um það hvort hann sé rétti aðilinn til þess að gegna þeirri stöðu.
 

Hjörtur J. Guðmundsson, 18.7.2009 kl. 12:44

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ef Þorgerður Katrín treysti sér ekki til þess að framfylgja þeirri Evrópustefnu sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins í marz sl. markaði þá átti hún ekki að fara fram á það við sama landsfund að hann kysi hana aftur sem varafomann. Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur einfaldlega þá skyldu að framfylgja stefnu flokksins og ekki sízt í stórum málum.

Hjörtur J. Guðmundsson, 18.7.2009 kl. 21:50

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gunnar Þórðarson:

Þetta hljómar eins og tónlist í mínum eyrum!

Hvað hefur þú verið í allan vetur með þinn snjalla penna?

Síminn hjá mér er 891 97 52 og netfangið gudbjorn.gudbjornsson@tollur.is

Ég er með bloggsíðuna www.gudbjorng.blog.is

Hérna eru aðrar upplýsingar um mig:

Ég er fæddur í Reykjavík 1962 og fyrstu 10 ár ævi minnar var ég búsettur í Kópavogi en fluttist síðan á Álftanes og bjó þar til tvítugs. Því næst lá leiðin til Reykjavíkur í Þingholtin, þar sem ég bjó til ársins 1986.

Síðan fylgdi löng útlegð (12 ár) í Austur-Berlín, Þýska Alþýðulýðveldið/DDR, en síðan flutti ég yfir til Vestur-Berlínar, sem á þeim tíma var yfiráðasvæði Bandaríkjamanna, Breta og Frakka. Eftir dvölina í Berlín lá leiðin til Basel og Zürich í Sviss. Að dvöl minni í Sviss lokinni flutti ég aftur til sameinaðs Þýskalands og bjó fyrst í Kíl, síðar í Trier, en fluttist að lokum til Hamborgar. Eftir að ég fluttist aftur heim bjó ég í Keflavík, en fluttist síðan í stuttan tíma til Reykjavíkur. Nú er ég búsettur í Njarðvík.

Eftir að ég fluttist heim var óperusöngvaraferillinn að mestu lagður á hilluna og ég vann um skeið í innanlandsdeild ferðarskrifstofunnar Terra Nova og síðar sem sölustjóri utanlandsdeildar í sama fyrirtæki. Um tíu ára skeið vann ég hjá Tollstjóranum á Suðurnesjum, síðast sem yfirmaður tollskrifstofu embættisins. Nú starfa ég sem yfirtollvörður og er yfirmaður þróunardeildar hjá tollstjóra og er staðsettur í Reykjavík.

Námsferillinn er einnig fjölbreyttur: Kársnesskóli (Kópavogur), Bjarnastaðaskóli (Álftanes), Garðaskóli (Garðabær), Verzlunarskóli Íslands, Söngskólinn, Nýi tónlistarskólinn, einkanám í söng, Óperustúdíó Óperunnar í Zürich, fjarnám í ferðamálafræðum/Akademie für Fernstudium und Weiterbildung, Tollskóli ríkisins, Háskóli Íslands - BA próf í þýsku. Titill BA ritgerðar var: „Konzepte der Deutschen von den Isländern - Im Vergleich zu dem Selbstbild der Isländer“. Að því afrekuðu lauk ég meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu (MPA - Master of Public Administration). Lokaritgerð mín í því námi bar titilinn: „Áhrif inngöngu Íslands í Evrópusambandið á tollyfirvöld“ (e.The Consequences for Iceland's Customs of Membership within the EU).


Við þurfum að hittast og kynnast!

Með hægri kveðju,

Guðbjörn Gubjörnsson, MPA 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 18.7.2009 kl. 23:25

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Gunnar. Þakkir fyrir málefnalega og góða umfjöllun um umsók um aðild að ESB. Ég er þér sammála um að SAjálfstæðismenn hafi dottið í flokks pytt í stað þess að taka málefnalega þátt í umræðum, atkvæðagreiðsu og síðan sjálfu umsóknarferlinu. Víst má það vera að þeir taki sig á hvað það síðastnefnda varðar. Ég er þér ekki sammála með vanhæfi flokksbróður míns, utanríkisráðherra en það er önnur saga.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.7.2009 kl. 04:07

7 Smámynd: Ívar Pálsson

Sæll Gunnar. Af hverju vilt þú þröngva ESB skoðunum í gegn um Sjálfstæðisflokkinn? Meirihlutinn þar er ekki sammála þér, það sást á landsfundi og í kosningunum, þar sem ESB- aðdáun var ýtt til hliðar ef hún kom skýrt fram innan flokksins. Þessar skoðanir tilheyra öðrum flokki, Samfylkingunni.

ESB- málið er það yfirgnæfandi gegn sjálfstæði landsins að ekki næst að ræða önnur mál af viti í stjórnmálaflokki ef eining ríkir ekki um afstöðuna til ESB. Nú hafa línur skýrst: ESB er ekki þverpólitískt, heldur einmitt sýnir klára afstöðu með eða á móti aðild. Samfylkingin er með aðild, en Sjálfstæðisflokkur mest á móti. Yin/Yang, svart/hvítt, dagur/nótt. Við sáum hvernig flokkarnir reyndust saman, ekki dugir það.

Við frjálshyggjumenn (ég og þú) getum varla aðhyllst ESB án þess að lenda í bullandi þversögnum. Farðu eftir hjartanu og hafnaðu aðild!

Ívar Pálsson, 19.7.2009 kl. 14:45

8 Smámynd: Tryggvi Guðmundsson

Frábær grein hjá þér Gunnar og góð analýsa. Því miður kemur hún ekki til með að breyta afstöðu margra sjálfstæðismanna, sem ættu þó  að vera hvað harðastir fylgismenn ESB ef litið er til grundvallarstefnu flokksins í gegnum tíðina.Skýringar á þessari blindgötu sem Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í eru aðallega af  fernum toga. Í fyrsta lagi er þingflokkurinn ekki búinn að ná sér á strik eftir einræðisstjórn DO og afgerandi andstöðu hans við ESB. Á meðan hann var við stjórnvölinn var óhugsandi að aðrir forystumenn flokksins gætu haft aðra skoðun á þessu máli og komist upp með það. Í öðru lagi er í gangi mikil hræðsla við hagsmunamissi hjá útgerðarmannastéttinni og bændum, en sjálfstæðisflokkurinn er verulega bundinn af skoðunum þessara stétta. Í þriðja lagi vildi svo illa til að tveir af mest lofandi framtíðarmönnum flokksins, sem nú eru komnir í forystu, guggnuðu á síðasta landsfundi á því að opna á málefnalega umræðu um Evrópustefnuna líkt og þú og fleiri sjálfstæðismenn hafa verið að reyna. Hræðslan við að verða undir í átökum við stuðningsmenn DO, útgerðarmenn og bændur leiddi til þess að lokað var áfram á Evrópuumræðuna þótt allir viti að verulegur stuðningur sé innan flokksins við málið. Þingmenn flokksins hafa nú það dapurlega hlutskipti að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir málefnalega umræðu um þetta stóra hagsmunamál þjóðarinnar, sem  í framtíðinni getur varðað lífshamingju og heill barna okkar og barnabarna. Það er ótrúlegt að  sjá marga góða og gegna menn í sandkassaleik með fjöregg þjóðarinnar. Nefni bara einn, Einar Kristin, félaga okkar.  Í fjórða lagi byggist andstaðan við ESB á þjóðernisrembingi, heimóttarskap og minnimáttarkennd, ekki bara hjá Sjálfstæðisflokknum heldur líka hjá Vinstri grænum og framsókn. Ég tel ekki nýja brandaraflokkinn með.  Eitt er þó hættulegast hjá Sjálfstæðisflokknum í dag sem kom skýrt fram í svarinu frá Ívari, vini þínum, sem er á móti ESB sem hagsmunaaðili. Þú átt ekki að hugsa sjálfsætt. Þar sem þú ert flokksmaður átt þú að standa með flokkslínunni, hversu heimskuleg sem hún nú annars er eins og þú hefur rökstutt manna best.

Tryggvi Guðmundsson, 24.7.2009 kl. 09:54

9 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Ég vil þakka ykkur öllum fyrir gott innlegg og biðst velvirðingar á að hafa ekki svarað fyrr.  Ég er netsambandslaus heima og þarf því að stelast til að senda póst úr vinnunni, þó ég skrifi hann heima við.  Málið er að ég er á heimleið til Íslands.

Tryggvi ég get tekið undir margt með þér og er jafn hissa og þú á skoðunarkúgun í Sjálfstæðisflokknum.  Ef skoðanir þínar eru ekki samkvæmt línunni í ESB, þá skaltu bara koma þér út og því fylgja ráðleggingar um að Samfylkinguna muni henta mér.

Ég ber hinsvegar mikla virðingu fyrir málefnalegri umræðu um ESB og get sagt að Hjörtur verður ekki sakaður um annað en málefnaleg og góð rök.  Ég hef áður tekist á við hann um sjávarútvegsmál með aðildarviðræður í huga, og kom þar berlega í ljós mikil þekking og vönduð röksemdarfærsla.

Guðbjörn.  Ég fylgist með blogginu hjá þér en netfangið mitt er silfurtorg@simnet.is og gsm 895-7121.  Ég kem til landsins á fimmtudaginn kemur, alkominn úr tveggja ára útlegð.

Varðandi Þorgerði Katrínu þá get ég ekki annað en fallist á rök Hjartar, en verð þó að segja að umræðan um ESB í flokknum og niðurstaða á Landsfundi var í skötulíki.  En Þorgerður hefði auðvitað átt að standa og falla með sínum skoðunum.  Og ég tek undir með Ívari að sitja hjá er ekki djarfmannlegt.  En umræðan verður að komast á hærra plan hjá Sjálfstæðisflokknum.  ESB og frjálshyggja eiga samleið.  Þetta er viðskiptabandalag sem gengur út á að binda þjóðirnar saman með viðskiptahagsmunum og tryggja samkeppni og afkomu íbúana.  Ég hugsa með hrylling til þeirra myrku ára þegar allt var bannað á Íslandi.  EES samningurinn hefur reynst okkur besta tæki sögunnar til að tryggja frelsi og framfarir á Íslandi.  Við munum nota einstaklingsfrelsi, einstaklingsframtak og stétt með stétt til að byggja upp Ísland.   Atburðir liðins árs hafa ekki breytt minni skoðun í þeim efnum.  

Gunnar Þórðarson, 24.7.2009 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 285735

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband