Bátasmíði í Úganda

batasmi.jpgBloggari hefur verið að velta því fyrir sér hvers vegna bátar eru jafn illa hannaðir og byggðir og raun ber vitni hér í Úganda.  Hann hefur víða komið við í helstu vötnum landsins, og allstaðar er verið að smíða eftir sömu teikningu, hvort sem um er að ræða lítið tveggja manna far eða stóra flutningabáta.  Sérstaklega hefur þetta komið upp í hugann eftir ferðalag á einum bátnum um Kalangala eyjar fyrir skömmu, og þar kom berlega í ljós hverslags ræksni þessir bátar eru og lítið þarf til að þeir slái úr sér og sökkvi.

Bátarnir eru slegnir saman úr u.þ.b. fimmtíu sentímetra breiðum borðum og bitar notaðir til að klambra byrðingnum saman, en sú grind er ekki byggð sem ein sterk heild.  Svona eins og beinagrind í hryggdýri væri bara bein hér og þar en ekki uppbyggð sem ein heild þar sem sameiginlegur styrkleiki er hámarkaður.

Stígur á Horni og Snorri á Húsafelli (var prestur á Sæbóli við Aðalvík og var góður bátasmiður) smíðaði frábæra báta sem réðu við ógnir Dumbshafsins, þar sem straumshnútar Straumsnessins lögðu ógnarhramm sinn á þá.  Lenda þurfti þessum bátum í grýttar fjörur við erfið skilyrði þar úthafshaldan braut á en styrkur og léttleiki bátsins réði til um feigð eða ófeigð.  Málið snýst einmitt um að hafa bátinn eins léttan og sterkan og mögulegt er. 

batur_a_siglingu_878668.jpgStígur valdi viðinn i bátinn af kostgæfni en rekaviður var notaður við smíðina.  Bestur var rauðviður í byrðinginn, sem var hnoðnegldur á grindina.  Styrkleikinn lá einmitt í grindinni þar sem kjölurinn var hryggstykkið ásamt stefni og skut.  Kjölböndin komu þar ofan á en í þau voru notuð rótarhryðjur sem eru gríðarlega sterkar þrátt fyrir þá V lögun sem er nauðsynleg vegna lögunar bátsins.  Síðan komum böndin sem tengdust borðstokknum.  Það má einmitt líka þessu við beinagrind hryggdýrs og þá er bara eftir að setja kjötið á, byrðinginn úr þunnum vel sniðnum borðum.

Mikil verkkunnátta fólst í smíði þessara báta og hefur eflaust gengið frá einni kynslóð til annarra, og síðan komu til frumkvöðlar sem bættu við þessa þekkingu, eins og Stígur á Horni, sem bæði var formaður og bátasmiður og gat því velt fyrir sér hönnuninni við raun aðstæður í Dumbshafi.

Hvað skyldi valda því að slík verkmenning þrífst ekki í Úganda?  Bloggari hefur komið að mörgum bátasmiðnum og alltaf furða sig á klambrinu og lítilli verkkunnáttu.  Þá er ekki talað um ósköpin þar sem snýr að hönnun bátanna.  Þeir eru reyndar gangmiklir en hafa hvorki nægan styrkleika né sjóhæfni.  Í áður nefndri Kalangala ferð kom bloggari einmitt að bátasmiðum sem voru með tvö fley í framleiðslu.  Á milli borða var verið að nota værðarvoð, sem klippt var niður í tommu breiðar ræmur, síðan sett yfir þetta jafnbreið blikkræma og pinnað með litlum saumi.  Værðarvoð er varla traustvekjandi sem ípakk eða þétting og ber slíkum skipasmiðum ekki góða sögu. 

eintraningur.jpgBátasmiðir sögðu að slíkur bátur væri seldur á um 60 þúsund krónur, og dygði í tvö til fjögur ár.  Ef betri viður fengist í smíðina, sem þarf að flytja inn frá Kongó, má auka líftímann töluvert.  Þeir bátar sem duga þó best gegn fúa eru þeir sem höggnir eru beint úr trjábol, með því að hola hann að innan.  Slíkir bátar eru hinsvegar þungir og er síður fallnir til gangs.

Í ferð um Kalangalaeyjar var samstarfsmaður bloggar með í för, sem hafði farið í ferð til eyjar í Viktoríuvatni fyrir verkefni sem hann var að vinna að.  Með honum í ferð voru Bandaríkjamenn sem voru styrktaraðilar fyrir verkefninu.  Smá kvika var og keyrt á móti öldunni en eins og hendi væri veifað sló báturinn úr sér og sökk á örskammri stundu.  Skipbrotsmenn héldu sér í lunningu bátsins, sem marði í yfirborðinu í tvo tíma þar til björgun barst.  Það vill til að vatnið er 25° heitt og því varð þeim ekki meint af volkinu.  Bandaríkjamennirnir bönnuðu notkun á þessum bátum í kjölfarið í þeirra verkefnum, enda dæmdu þeir þá óhaffæra.Værðarvoð notuð sem ípakk

En hvað skildi vanta til þess að verkmenning þróist og einhver taki sig til og smíði betri báta?  Einstaklingsframtak og vilja til að breyta og bæta?  Hvað rak Stíg á Horni áfram og hvað hafði hann sem menn hafa ekki hér?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 285737

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband