Fýrtomma á ská í sigurverkið

copy_of_dscn0090.jpgÁ táningsárum okkar Nonna Gríms langaði okkur mikið til að verða milljónamæringar og ræddum oft um möguleika til auðsafnaðar.  Eitt sinn eftir miklar vangaveltur töldum við harðfiskverkun liggja vel við, enda verð á afurðinni nokkuð hátt miðað við innkaup á hráefni.  Einnig blasti við sá möguleiki að nýta þurrkklefa sem faðir minn, Þórður Júl, hafði sett upp en hafði aldrei verið notaður. 

Pabbi myndi svo segja til og útskýra framleiðsluaðferðir fyrir hinum ungu athafnamönnum.  Hann sagði að eftir að hafa flakað fiskinn þyrfti að dýfa honum í saltpækil.  Styrkur pækilsins skyldi vera þannig að kartafla flyti þegar búið væri að stinga fýrtommu nagla í gengum hana.  Síðan að raða flökunum roðlausum á grindur og raða í þurrkklefann og gefa þessu nokkra daga með blæstri og hita.  Við töldum rétt að byrja stórt og keyptum því eitt og hálft tonn af ýsu.  Við stóðum við flökun allan daginn og réðum vini og ættingja í vinnu.  Það reyndist þrautin þyngri að fá kartöfluna til að fljóta með naglanum í gegn.  Reyndar tókst það alls ekki þó pækillinn væri orðin saltmettur, en við létum það duga.

Það var komið fram á nótt þegar búið var að raða fiskinum í klefann og þá var kveikt upp í gufukatli rækjuverksmiðju pabba, en hann var tengdur við þurrklefann sem var í ,,hjallinum" upp af verksmiðjunni.  Þegar við röltum svo upp eftir að morgni daginn eftir, sáum við að búið var að skrúfa fyrir gufuna, en það var hægur vandi að kippa því í liðinn.  Við veltum því lítið fyrir okkur að gufustrókur stóð upp úr rækjuverksmiðjunni að Vinaminni, enda var allt á fullu í í að sjóða og pilla rækju, en strókurinn minnkaði nú til muna eftir að við hleyptum  á hjallinn, en þar byrjaði hinsvegar að rjúka nokkuð myndalaga.

Það leið ekki á löngu þar til karlinn kom hlaupandi upp eftir með bægslagang og skipaði okkur að skrúfa fyrir gufuna, ketillinn hefði ekki undan og rækjuverksmiðjan var stopp.  Nú var komið babb í bátinn og við fylgdumst áhyggjufullir með kólnandi blæstri í þurrkklefanum.  En um leið og hefðbundnum vinnsludegi lauk í verksmiðjunni var skrúfað frá aftur og hitinn rauk upp í þurrkinum.  En það var búið að skrúfa fyrir að morgni.  Svona gekk þetta fram eftir vikunni en við fengum svo frið yfir helgina.

Einhvern vegin þornaði ýsan en hún reyndist brimsölt.  Okkur var sagt að þetta myndi lagast ef við renndum henni í gegnum barningsvél.  Ekki man ég hvar við grófum slíkt verkfæri upp en nú var ekki annað eftir en renna þurrum flökunum í gegn og pakka síðan framleiðslunni, og selja hana.  Við töldum söluna nánast aukaatriði enda þóttumst við vissir um að slegist yrði um þessa góðu vöru.  Við höfðum látið á-prenta 200 gr. plastpoka með mynd og innihaldslýsingu.  Þetta átti að verða stórframleiðsla en ekki bara smá tilraunastarfsemi.  Sigurbrautin var vel mörkuð og ekkert gæti komið í veg fyrir frábæran árangur.

Það urðu miklar umræður um hvað við ættum að gera við allan gróðann.  Það þótti augljóst að karlinn yrði að víkja með rækjuverksmiðjuna fyrr en seinna, enda var það bara smá bisness miðað við stórfyrirtækið sem var að hlaupa af stokkunum.  Við ákváðum að við værum báðir framkvæmdastjórar þannig að um það ríkti traust og gott samkomulag.  Það urðu okkur hinsvegar mikil vonbrigði að Högni bankastjóri vildi ekki láta okkur fá afurðarlán, alla vega ekki svona fyrsta kastið.  Það gerði ekkert til þar sem við áttum fyrir hráefninu og umbúðunum, en allt annað kostaði ekki neitt.  Húsnæði, vélar og vinnulaun vorum ókeypis og á því byggði viðskiptahugmyndin.

Þegar búið var að pakka allri framleiðslunni var byrjað að selja.  Salan var þyngri en búist var við enda framleiðslan brimsölt, meira að segja eftir að hafa farið í gegnum barningsvélina.  Þetta var þyngra en tárum tók og nú voru góð ráð dýr.  Það sem við höfðum talið nánast sjálfgefið að varan seldist, þurftum við að leita allra leiða til að koma þessu út.  Að sjálfsögðu vorum við ekkert að segja frá þessum smá galla, svona í fyrstu, og höfðum sent kassa út um hvippinn hvappinn, sem nú voru endursendir með hraði.  Við höfðum sent framleiðsluna í flugi, þar sem markaðurinn gat ekki beðið hennar.

Rétt er að geta þess að ein af ástæðum fyrir frábærri viðskiptaáætlun, sem jafnaðist á við seinni tíma áætlanir útrásarvíkinga, var að við höfðum frían aðgang að vörubíl.  Þetta var 15 tonna Scania Vabis í eigu Þórðar Júl, sem hvorugur okkar höfðum reyndar próf á.  Það gerði ekkert til þar sem bílnum fylgdi bílstjóri, á launum hjá Pabba, sem var Jens Magnferðson og var hann óspart notaður til að snatta fyrir framleiðsluna og skutla framkvæmdastjórunum.  Þetta var nú svona óformlegt samkomulag við karlinn hann pabba, og án hans vitneskju.

En við vorum sem sagt staddir á Ísafjarðarflugvelli til að sækja 44 kassa sem einhver óánægður viðskiptavinur hafði hafnað, en aðeins 41 kassi hafði skilað sér.  Starfsmenn flugfélagsins sögðu þetta vera ,,eðlileg afföll" þegar harðfiskur væri sendur með flugi.  Sama hvað tveir framkvæmdastjórar muldruðu og tuldruðu um bætur, það var ekki á þá hlustað.  Nú ungir menn á framabraut, sem reyndar höfðu orðið fyrir vægu bakslagi, tóku þá til sinna ráða.  Með harðfiskkössunum sem skiluðu sér voru nokkrir kassar af vínberjum í geymslu flugfélagsins.  Við skutluðum einum með og kölluðum um leið inn á skrifstofuna; ,,þetta eru eðlileg afföll"  Starfsmennirnir voru búnir að fá nóg af athafnaskáldunum og svöruðu þessu engu og veittu athöfnum okkar enga athygli.  Þannig að þegar Scaníunni var snúið frá flugvallarbyggingunni voru 41 kassi af harðfisk á pallinum og vínberjakassi við hliðina á okkur í farþegasætinu.

Jenni starði stórum bláum augum á kassann og stundi upp að hann hefði aldrei smakkað vínber.  Nonni reif upp kassann sagði honum að fá sér eins og hann gæti í sig látið.  Jenni átti í mestu vandræðum með aksturinn, enda tróð hann áfergjulega í sig lostætinu.  Því verður ekki skrökvað að vínberjasafinn náði aftur fyrir eyru á bílstjóranum okkar, sem ljómaði að gleði yfir öllu saman.  Það versta var að hann var veikur á launum í tvo daga á eftir, en það hafði engin áhrif á okkar rekstur.

En fyrirtækið bar ekki barr sitt eftir þetta og lokin urðu sú að Vestfirska harðfisksalan keypti lagerinn á niðursettu verði.  Það var í gegnum gömul vináttu sambönd hjá pabba við Garðar úrsmið, sem hefur sennilega selt einhverjum börum framleiðsluna, enda kallaði hún fram óskaplegan þorsta við neyslu.  Þetta sló svolítið niður í okkur Nonna og það leið þó nokkur tími áður en næstu hugmynd var hrundið í framkvæmd.  Framabrautin með milljónir biðu okkar vinanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Gaman að þessu yfirliti athafnamannsins. Þú varst þó ekki eins og Hreinn „gróði“, því að þú framkvæmdir!

Ég vissi ekki af þessu ævintýri. En þetta var þá góð upphitun fyrir rækjuverksmiðjuna ykkar og sushi- verskmiðjuna okkar!

Ívar Pálsson, 30.6.2009 kl. 00:46

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Sæll Ívar. Málið er að líða þarf hæfilegur tími áður en sögur eru sagðar. Þær þurfa að þroskast og lagerast yfir langan tíma áður en þær eru tilbúnar.  Ekki verður hægt að segja frá rækjuverksmiðjunni Ísver eða sushi verksmiðjunni Sindraberg fyrr en eftir svona tuttugu ár.  Við skrifum það saman félagarnir.

Þú sérð að hefðir þú vitað um þessi bernskubrek hefðir þú haft vítin til að varast og kannski forðað þér í tíma.  Lífið hefði þá orðið öðruvísi, ekki satt!

En þetta er bara byrjunin og mikið ósagt ennþá.

Gunnar Þórðarson, 30.6.2009 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 285610

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband