Handtekinn í Bugolobi

Maður lendir stundum í smá ævintýrum.  Þetta hafði verið annarsamur dagur og um þrjú leitið stóð ég upp frá tölvunni til að teygja úr mér.  Ég greip myndavélina, sem ávallt er nærtæk, og labbaði í gegnum járnhliðið sem lokar svæðinu þar sem skrifstofa verkefnisins í Bugolobi er.  Gatan framan við er mikil umferðargata og mér datt í  hug að ná nokkrum myndum af boda-boda og reiðhjólum, sem oft eru að reiða ótrúlegustu hluti.  Ég hafði tekið eina mynd þegar lögreglumaður með vélbyssu vatt sér að mér og fljótlega stóð annar grár fyrir járnum yfir mér.  Þeir báðu mig að koma yfir götuna með sér þar sem meiriháttar yfirheyrsla byrjaði.  Það dundu á mér spurningarnar en mér til mikillar undrunar var þarna brigðarstöð Ameríska sendiráðsins, og stranglega bannað að taka myndir.  Þeir bentu mér á ein tíu skilti sem auglýstu þetta bann, og voru greinilega sannfærðir um að í fábreytni vinnunnar hefðu þeir gómað njósnara. 

Það kom upp í mér Bjartur í Sumarhúsum og ég brást hinn versti við.  Harðneitaði að gefa upp nafn og alls ekki að afhenda myndavélina.  Þeir skipuðu mér að fara inn í smá skúr sem þeir höfðu á vegabrúninni, en ég neitaði enn.  Og heimtaði að fá að tala við yfirmann.  Þeir vildu fá að sjá vegabréfið, en ég hafði rétt byrjað að útskýra að ég væri ekki með það - á mér; þegar þeir trompuðust alveg.  ,,Hefurðu ekki vegabréf?"

Þá fékk ég vélbyssuhlaupið í magann og inn í skúrinn fór ég og settist á stól.  Nú dundu yfir mér spurningarnar og þeir trúðu því örugglega ekki að ég, sem starfaði handan götunnar, vissi ekki að þetta væri Ameríska sendiráðið.  Að ég skyldi dunda mér við að taka myndir þar sem það er stranglega bannað og rækilega auglýst.  Skiltin voru bókstaflega út um allt, en ég sem hafði ekið þarna framhjá á hverjum degi í rúmt ár, hafði aldrei tekið eftir þeim fyrr.  Það hleypti enn verra blóði í mig að vera talinn einhver hálfviti, sérstaklega þar sem það átti svolítið við, og stóð upp og út úr skúrnum.  Ég var sko sjálfstæður maður og lét ekki fara svona með mig.  Ég sagðist vera farinn og myndi láta sækja myndavélina með látum, en þeir höfðu tekið hana af mér.  Enn var byssuhlaupum lyft og ég spurði hvort ég væri handtekinn, sem þeir svöruðu játandi.

Þá kom þar að yfirmaður öryggismála sendiráðsins og var hinn almennilegasti.  Spurði mig hvaðan ég væri og hvað ég væri að gera þarna.  Eftir nokkur orðaskipti bað hann mig að bíða meðan hann ráðfærði sig við sendiráðið.  Ég spurði hvort ég mætti fara yfir götuna og bíða á vinnustað mínum.  Hann bar þetta undir lögregluna, en nú hafði ég móðgað þá alla upp úr skónum og þeir ráku upp hláturroku meðan þeir hristu höfðuð.  Ég skildi sko bíða þar sem ég var.

Þá byrjaði að rigna.  Ein löggan sá aumur á mér og bauð mér inn í skúrinn.  En mér datt ekki í hug að fara inn í andskotans skúrinn, enda sjálfstæður maður og ekki undir lögregluna kominn.  Það þyngdi regnið en allt í einu var öryggisvörðurinn mættur með regnhlíf til að lána mér.  Hann sagði að öryggisfulltrúi frá sendiráðinu yrði kominn innan stundar og bað mig afsökunar á ónæðinu.  Ég beið þarna í rúman hálftíma og gat ekki látið samstarfsmenn mína vita af uppákomunni þar sem ég hafði skilið símann eftir á skrifborðinu mínu.  Það var alveg fáránlegt að vera sviptur frelsi og mega ekki fara yfir götuna.

Chombe Francis Security Investigator kom aðvífandi á svörtum bíl.  Vatt sér út og gaf sig á tal við mig.  Það fór vel á með okkur og við vorum sammála um að slík uppákoma yrði skrifuð á hryðjuverkamenn, sem hefðu gert slíkar öryggisráðstafanir nauðsynlegar.  Hann lét mig eyða myndinni sem ég hafi tekið og eftir að hafa fengið persónuskilríki mín sagði hann mér að ég mætti fara, um leið og hann baðst afsökunar á öllu tilstandinu.

Samstarfsmenn mínir voru farnir að undrast um mig þar sem ég hafði algerlega gufað upp.  En það var ekkert annað að gera en útsýra fyrir þeim asnaskapinn.  Þetta er í annað skiptið sem ég kemst í kast við lögregluna í Úganda, og bæði skiptin fyrir að taka myndir.  Í fyrra skiptið hafði ég tekið mynd af brú, sem liggur yfir Nílarfljót.  Það var einmitt Alfred samstarfsmaður minn sem hafði hjálpað mér í þeim viðskiptum, en í þetta sinnið þurfti ég að sjá um mig sjálfur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Gunnar lætur ekkert valta yfir sig!

Ívar Pálsson, 16.6.2009 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 285610

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband