Í minningu Högna Sturlusonar

Högni Stull við tölvunaHögni Sturluson var fæddur í Rekavík bak Látur 15.apríl 1919.  Seinna fluttist hann til Fljótavíkur þar sem hann kvæntist Júlíönu Júlíusdóttur, Geirmundsonar bónda á Atlastöðum.  Högni var einn fimm Fljótavíkurbænda sem brugðu búi og fluttust alfarnir úr víkinni árið 1946, og skildu nær allar veraldlegar eigur sínar eftir.

Undirritaður átti því láni að fagna að kynnast Högna seinni árin, þó hann hafi reyndar þekkt hann síðan hann man eftir sér.  Einstaklega ræðinn maður og mikill sögumaður.  Þegar undirritaður safnaði saman fróðleik um lífið í Fljótavík í upphafi síðustu aldar, var Högni mikill sagnabrunnur og lýsti lífinu og tilverunni við harðneskju á nyrstu nöf við Dunshaf.

Að sögn Högna Sturlusonar voru veiðibátarnir smá kænur, af augljósri ástæðu, þar sem menn réðu ekki við að lenda stærri bátum í brimgarðinum nema margir saman.  Aðeins voru tveir menn á hverri skektu og réði það stærð bátanna ásamt aðstæðum í Fljóti.  Síðustu þrjú árin sem Geirmundur Júlíusson var búsettur í víkinni reru þeir Högni saman og verkuðu eitt árið um 24 tonn af saltfiski.  Júlíus reri þá við Guðmund son sinn en feðgarnir Finnbogi og Jósep gerðu út saman.  Ef haft er í huga að vélbátavæðing hófst á Ísafirði 1902, er erfitt að ímynda sér þessa útgerðahætti standast samanburð við það.  Svo ekki sé talað um þilskipin sem seinna komu, en ómögulegt hefur verið að gera slík skip út vegna hafnleysis og erfiðra lendingaskilyrða í Fljóti. 

Högni og Þórður JúlÍ einni frásögn Högna minnist hann sjóferðar með Geirmundi þar sem línan var lögð undir Hvestunni.  Veiði var góð og skektan komin í slyðrarann að aftan.  Miðrúmið var orðið fullt af þorski og hálsrúmið hálft af steinbít.  Jafnframt var búið að seila töluvert magn af þorski á skutinn en það var oft gert þegar vel fiskaðist, enda báru bátarnir aflann ekki öðruvísi.  Það var byrjað að hvessa og skall á með norðaustan hvassviðri.  Þegar síðasti balinn var dreginn byrjað að brjóta yfir lunninguna á bátnum.  Geirmundur skipaði nú Högna að henda öllum steinbítnum úr miðrúminu í sjóinn.  Þegar búið var að draga línuna minnist Högni þess að hann fleygði henni aftur í bátinn til Geirmundar, og við það gekk hnýfillinn á kaf í ölduna.  Geirmundur greip þá aftur fyrir skutinn og sleppti fiskinum sem var seilaður og flaut hann um allan sjó.  En þeim tókst að komast heilum á höldnu í land og koma bátum upp á kambinn við króna.  Rétt er að segja frá því að oft var fiskurinn seilaður fyrir lendingu ef afli var góður og eitthvað brimaði.  Það var gert til að létta bátinn í lendingunni og var fiskurinn síðan dreginn upp í fjöruna í gegnum brimgarðinn.

Geirmundur JúlíussonÍ annarri sögu Högna sem gerðist í róðri rétt fyrir páska fóru þeir Geirmundur yfir á Almenninga að sækja reka en Júlíus og Guðmundur reru til fiskjar.  Veiði var góð enda veður með besta móti.  Á páskadag var víkin eins og heiðatjörn og þegar annar í páskum rann upp var sama uppi á teningnum.  Þá vildi Júlíus róa en Guðmundi  þótti dagurinn vera heilagur. Högni, sem þá var fluttur heim á Atlastaði, fór þá út eftir til Geirmundar og spurði hvort hann ætlaði að róa.  "Á heilögum degi" sagði Geirmundur og neitaði því.  Högni fór þá heim aftur og sagði "Jæja, ég er til í að fara á sjóinn"   Og varð úr að þeir hrintu bát úr vör og lögðu línuna.  Ekki tóku æðri máttarvöld uppátækið illa upp og fiskaðist þeim vel.  Fylltu þeir heilar þrjár tunnur af saltfisk sem gaf þeim um 500 krónur í aðra hönd, sem þótti mikið í þá daga.

Högni minntist þess að Júlíus var vanur að fara í hverjum janúarmánuði yfir að Látrum og til Miðvíkur.  Þetta var hans andlega upplyfting að hitta karlana, svo sem Frigga Magnúsar, til að spjalla og segja sögur, enda átti hann sínar rætur á þessum slóðum.  Eitt sinn var blíðskapar veður og reru Högni og Geirmundur upp á hvern dag og lágu bara fyrir föstu á baujuvaktinni.  Þá leið Júlíusi illa þegar hann kom til baka, að hafa misst af þessari veiði sem gaf mjög vel í aðra hönd.

Fleyri sögur hef ég skráð eftir Högna og birt meðal annars á bloggi mínu í júní mánuði 2007, svo sem um frægt smyglmál í Rekavík bak Höfn.

Högni tilheyrir kynslóð sem örugglega er einstök í mannkynsögunni.  Fæddur í torfkofa án rennandi vatns og rafmagns þar sem handaflið eitt var til að berjast fyrir lífinu við erfið skilyrði.  Fyrir utan verkkunnáttu voru kjör þessa fólks á fyrri part tuttugustu aldarinnar, með því lakasta sem þekkist í Evrópu, og þó víðar væri leitað.  Veðurfar með því versta sem þekkist á Íslandi þar sem snjóa leysti upp í júní og vetur skollinn á í september.  Langvarandi óþerrar sem gerðu heyskap og fjárhald erfitt og því treyst meira á sjóinn en víða annarsstaðar.  Högni lifði mikla breytingartíma, sennilega meiri en nokkur önnur kynslóð í veröldinni hefur gert, að kynnast rafmagni, vélum og síðan og ekki síst, tölvuöld og veraldarvefnum.  Yfirleitt þegar ég leit við hjá honum á Hlíf, var hann að skoða heimasíður afkomenda sinna, senda þeim tölvupóst eða nýbúinn að spjalla við einhvern þeirra í Ameríku á Skype. 

Fyrstu kynni mín af Högna var þegar ég fór ungur að árum til Fljótavíkur í fyrsta sinn með foreldrum mínum ásamt hópi fólks með Gunnhildi ÍS.  Jói Júl var skipstjóri en Högni vélstjóri.  Við lentum í hörku brælu fyrir Ritinn og Straumnes og ég minnist þess að vera frávita að skelfingu, enda sannfærður um að dagar mínir væru taldir.  Hnútarnir í röstinni lögðu bátinn ítrekað á hliðina og tók inn fyrir lunningar nokkrum sinnum.  Þá var þessi hressi og málglaði maður spilandi kátur, segjandi sögur og gantast við samferðarfólkið áður en hann hvarf niður um lítinn hlera á brúargólfinu, niður í ærandi hávaða og olíustybbu vélarrúmsins.  Þetta var sko karl í krapinu.

Ég átti frí heima á Ísafirði um síðustu jól og leit við hjá Högna til að draga hann á jólaskemmtun Kiwanis klúbbsins Bása á Hlíf.  En hann treysti sér ekki til að kíkja niður í matsal og sá ég þá í hvað stefndi.  Tíðindi af brotthvarfi hans kom því ekki á óvart.  Fjölskyldu hans vil ég senda bestu kveðjur og innilega samúð á þessum tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband