Fyrningarleið - svar við skrifum Gísla Halldórs Halldórssonar Hermanssonar

Vegna ágætar greinar félaga míns, Gísla Halldórs um fyrningarleið aflaheimilda vill undirritaður gera eftirfarandi athugasemdir:

Í fyrsta lagi hnýt ég um þá fullyrðingu G.H. að meginþorri þjóðarinnar sé sammála mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um að kerfið sé óréttlátt, ekki síst fyrir það að fæstir hafa kynnt sér þennan úrskurð né forsendur hans.  Nefndin leggur út frá því hvernig kvótanum var úthlutað í upphafi en markaður hefur verið látinn ráða að mestu síðan, fyrir utan slæm afskipti ríkisins sem kallað hefur á alls kyns brask.  Komið hefur fram að núverandi eigendur aflaheimilda hafa keypt kvótann eftir setningu kvótalaga 1984, yfir 80%, þannig að þá væri verið að hengja bakara fyrir smið ef menn ætla að leiðrétta svokallaðan gjafakvóta.  Einnig er rétt að benda á að mannréttindanefnd S.Þ. hefur enga stjórnskipulega stöðu hér á landi og þetta meingallaða álit hennar gengur í berhögg við dóma Hæstaréttar Íslands, sem telur að grunnreglur kerfisins séu málefnalegar og standist ákvæði stjórnarskrár.  Að láta slíkt álit ráða för myndi því vega að réttarríkinu. 

Hvað Gísli Halldór á við með að helsti galli kerfisins sé að ekki sé virkur markaður með aflaheimildir er erfitt að skilja.  Það er hinsvegar hægt að taka undir að forsenda fyrir hagkvæmni kerfisins er að veiðiheimildir leiti til þeirra sem best standa sig, ekki bara við veiðar, heldur vinnslu og markaðsetningu.  Að skussunum verði úthýst og hámarks hagkvæmni verði náð í nýtingu á þessari mikilvægu auðlind Íslendinga.  Undanfarin ár hefur nálægð við fiskimið haft minna að segja, vegna þess hvað samgöngur hafa batnað og aðgangur og nálægð við markaði vegið þyngra í afkomu.  Framleiðendur hafa verið að færa sig frá einsleitri framleiðslu á frosnum hvítum fiski, í samkeppni við t.d. Kína, yfir í sölu á freskum fiski.  Slík markaðsetning byggir hinsvegar á tryggum aðgangi að hráefni árið um kring til langs tíma og því gætu dagleg eða mánaðarleg uppboð á aflaheimildum orðið henni fjötur um fót.  Hinsvegar vantar algerlega útfærslu á úthlutun aflaheimilda í umræðu fyrningasinna en á máli G.H. má skilja að uppboð eftir fyrningu, hver svo sem á að sjá um þau, verði tíð.

Markaður fyrir fisk hefur gjörbreyst undanfarin ár og sóknarfærin liggja í beinum samskiptum við smásölukeðjur og veitingastaði.  Slíkir aðilar gera miklar kröfur um ferskleika, gæði og afhendingaröryggi.  Laxeldi er gott dæmi um mikinn árangur á þessu sviði en þar hefur mönnum tekist að stytta virðiskeðjuna þannig að laxabóndi sem selur smásölukeðju í Bretlandi heldur eftir allt að 40% af smásöluverði, en sambærilegt í frystum þorski er í kringum 12% til útgerðar.  Ástæðan er fullkomin stjórnun á virðiskeðju með gæði og öryggi í afhendingu í fyrirrúmi.  Þarna liggur mesta sóknarfæri íslensks sjávarútvegs, en fyrningarleiðin gengur þvert gegn jákvæðri þróun í þessum efnum.  Útgerðarmaðurinn þarf að geta skipulagt sig langt fram í tímann, í samvinnu við markaðinn og stjórnun virðiskeðjunnar í gegnum veiðar, vinnslu og sölu.  Öll óvissa, eins og stöðug uppboð aflaheimilda, þar sem útgerðarmaður og fiskverkandi, veit ekki hvort hann fái aflaheimildir næstu daga eða vikur, útilokar slíkt markaðstarf.

Gísli Halldór talar um núverandi kerfi komi í veg fyrir nýliðun i greininni!  Ekki verður séð að það eigi við í Ísafjarðarbæ og Bolungarvík.  Nánast allir sem ráða yfir umtalsverðum aflaheimildum í dag eru nýliðar í greininni, og allir stóru aðilarnir eru horfnir; Íshúsfélag Ísfirðinga, Gunnvör, Hrönn, Norðurtanginn, Íshúsfélag Bolungarvíkur og fyrirtæki á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri.  Nýir menn eru teknir við sem sýnir mikla nýliðun í greininni.  Ef til vill er nýliðun ekki of lítil í fiskveiðum heldur frekar of mikil sem ógnar stöðugleika.

Síðan bendir G.H. á að kerfið sé gallað þar sem eigendur nýtingarréttar veiðiheimilda greiði ekki fiskveiðiarðinn beint til ríkisins!  Þetta er mikill misskilningur hjá honum og ekki gott að vita hvaðan hann hefur að slíkt sé ,,aðalsmerki góðrar fiskveiðistjórnunar"  Það sem skiptir máli er að kerfið sé hagkvæmt og hámarki framleiðni þannig að fiskveiðiarður myndist.  Þessum arði þarf síðan að dreifa réttlátt til samfélags og þjóðar.  Slíkur arður og eðlileg dreifing hans er forsenda tilvistar sjávarbyggða og skattlagning ríkisins á nýtingarréttinum er bein ógnun við afkomu þeirra.

G.H. segir að til að Vestfirðingar fái notið nálægðar sinnar við fiskimiðin, líkt og í hina góðu gömlu daga, þurfi stöðugt að bjóða upp kvótann og arðurinn af uppboðum renni til ríkisins.  Rétt er að benda á að Vestfirðingar sitja ekki við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að kvótaeign.   Kvótaeign á Vestfjörðum er langt yfir meðaltali á landinu öllu miðað við íbúafjölda, eðlilega þar sem um sjávarbyggðir er að ræða.  Ekki verður séð að breyting á því verði Vestfirðingum til góða en gæti e.t.v. hugnast þéttbýlisstöðum í kringum höfðuborgina.    

Það er með ólíkindum á slíkum ógnartímum og nú ríkir skuli stjórnvöld velja þann kost að skapa óvissu í mikilvægustu útflutningsgrein þjóðarinnar með hugmyndum um að svifta útgerðir nýtingarrétti aflaheimilda.  Ganga gegn hagsmunum sjávarþorpa og þeim mönnum sem byggt hafa upp farsælan sjávarútveg á Íslandi.  Allt í nafni sátta og samlyndis!  Er líklegt að fyrningarleiðin sætti þjóðina í þessu mikla hagsmunamáli hennar?  Miðað við viðbrögð margra sveitarstjórnarmanna og talsmanna greinarinnar, er ekki líklegt að þessi dæmalausi poppúlismi skapi sátt um sjávarútveginn.  Ef gengið er útfrá því að veiðar verði áfram takmarkaðar og stjórnvöld taki tillit til sjálfbærni veiðistofna við ákvörðun um veiðimagn, er þá líklegt að þeir sem ekki fá kvóta verði sáttir?  Ólíkt núverandi kerfi væri öllu líklegra að menn myndu fyrst fjárfesta í tækjum og tólum síðan vonast til að geta leigt kvóta af ríkinu.  Þetta myndi því kalla á óþarfa fjárfestingu og ganga þannig þvert gegn upphaflegum markmiðum kvótakerfisins, að hámarka framleiðni í greininni.  Enda myndi ríkisvaldið, sem nú myndi skammta veiðiheimildir úr hnefa, nota annað en hagkvæmni við þá úthlutun eins og dæmin sanna. 

Niðurstaðan er sú að nýliðinu er tryggð í núverandi kerfi og stöðug uppboð aflaheimilda kemur í veg fyrir frekari sókn á mörkuðum.  Bein skattlagning ríkisins er skattlagning á sjávarbyggðir og hugnast varla öðrum en stóru þéttbýlustöðunum.  Pólitísk úthlutun aflaheimilda er ekki til þess fallinn að tryggja hagkvæmni, heldur ,,réttlæti" stjórnmálamannsins.   Þá yrðu veiðiheimildir lítils sem enskis virði, eins og þær voru fyrir setningu kvótalaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Þetta er nú meira bullið Kristinn og ekki svara vert.  Enda skil ég ekki upp né niður í svona skáldlegri framsetningu.  Mín persóna skiptir þarna engu máli, frekar en þín.

Ég kalla þessa fyrningarleið ,,firringarleiðina"  Það virðist vera þannig að það er ekki nokkur leið að halda uppi skynsamlegum rökræðum við fólk eins og þig.  Þið virðist firrtir öllu viti í þessar umræðu.  Kannski ertu bara á rangri hillu og ættir að takast á við eitthvað annað.

Gunnar Þórðarson, 19.5.2009 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband