26.4.2009 | 07:29
Viðreisn Sjálfstæðisflokksins
Nú liggja fyrir úrslit kosninga með sigri vinstri flokkana og sögulegum ósigri Sjálfstæðisflokksins. Ósigri sem hann á skilið en við tekur uppbygging flokksins, vonandi á sama grunni en með annarri forystu. Þegar hefur verið skipt út hluta af því fólki sem ber ábyrgð á óförum þjóðarinnar og flokksins, en betur má ef duga skal við endurreisn á grunni einkaframtaks og einstaklingsfrelsi.
Eftir bankahrunið í haust virtust forystumenn flokksins hugsa fyrst um sjálfan sig og stöðu sína, því næst flokkinn og flokksmenn en settu þjóðina númer þrjú. Þessu þarf að snúa við og raða upp í öfugri röð. Setja þjóðarhagsmuni númer eitt, flokkshagsmuni númer tvö en forystan er forgengileg og má skipta um þegar þörf krefur.
Margir sjálfstæðismenn gátu ekki fyrirgefið þennan hroka forystunnar og fyrir það geldur flokkurinn nú í kosningum. Krafan um að þeir beri ábyrgð sem hafa setið áralangt við völd var hávær en náði þó ekki eyrum þessa fólks. Þáttur Davíðs Oddsonar í málinu er einnig mikilvægur og gott ef öll sú niðurlæging er að baki.
Í mínum huga er afstaða flokksins til Evrópumála einnig áhrifavaldur í þessum kosningum. Skortur á stefnumótun í peningamálum þjóðarinnar og óraunhæfar tillögur, eins og einhliða upptaka evru í samstarfi við ESB með stuðningi IMF. Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar forystumanna ESB um að einhliða upptaka verði litin sem fjandsamleg aðgerð, leggur flokkurinn þetta til sem tillögu í peningamálum.
Staða þjóðarinnar hefur aldrei verið eins alvarleg frá stofnun lýðveldisins. Ekki bara að skuldir ríkisins hafi náð nýjum hæðum og tekjur þjóðarbúsins að skreppa saman á sama tíma, heldur hefur traust á efnahag Íslands erlendis, aldrei verið minna. Gjaldmiðlinum er haldið í öndunarvél með gjaldeyrishöftum en raungengi er langt um lægra en skráning hérlendis gerir ráð fyrir. 32 hagfræðingar skrifuðu grein í Morgunblaðið í janúar með rökstuðningi um hvers vegna einhliða upptaka annars gjaldmiðils er tálsýn og gengur ekki upp. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki hrakið þau rök samhliða tillögum sínum um einhliða upptöku evru.
Hinsvegar er aðildarumsókn að ESB fundið allt til foráttu, en þar yrði stefnt að upptöku evru innan EMU samstarfsins. Vitað er að þetta tekur nokkur ár en t.d. reynsla Finna og Íra sýndu fram á að aðildarumsókn ein og sér hafði mikil áhrif og vakti traust meðal erlendra lánadrottna og fjárfesta, sem er einmitt lífspursmál fyrir Íslendinga í dag. Menn hafa líka bent á að stækkunarstjóri ESB í dag kemur frá Finnlandi og Svíar munu taka við forystu sambandsins í sumar. Hvortveggja gæti orðið Íslendingum hagsælt í umsókn þeirra til ESB.
Hér er verið að leggja til varanlega lausn á löngu vandamáli þjóðarinnar, en hún hefur aldrei ráðið við peningamálin. Óðaverðbólga og okur-vextir hafa lengi staðið efnahagslegri uppbyggingu fyrir þrifum. Þessi óstjórn hefur verið okkur mjög dýr og kannski með ólíkindum hvert við höfum komist, þrátt fyrir þessa óstjórn. Menn hafa reyndar bent á að hagsveiflur séu ólíkar á Íslandi og t.d. í Þýskalandi, en það er þó viðbúið að með nánara efnahagslegu samstarfi við vinarþjóðir okkar í Evrópu aðlagist þessar sveiflur og verði meira í takt.
En fyrir liggur að semja þarf um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Landbúnaðarmálin verða auðveld þar sem að allar breytingar verða til góðs. Íslendingar eiga heimsmet með Japönum og Kóreumönnum í viðskiptahindrunum og niðurgreiðslum með landbúnaðarafurðir. ESB aðild myndi bara bæta það ástand, íslenskum neytendum til góða. Það er kominn tími til að landbúnaður lúti markaðslögmálum og hugað sé að framleiðni í greininni.
Sjávarútvegurinn er hinsvegar allt annað mál þar sem hann hefur verið vel rekin á sjálfbæran hátt og skilað góðum arði til þjóðarinnar. Það má ekki breytast með aðild að ESB og um það verður samið ef til viðræðna kemur. Það er fyrirfram vitað að ESB mun ekki breyta stofnsamþykktum sínum fyrir Íslendinga en aðrir möguleikar eru upp á teningnum sem vert er að láta á reyna. Ljóst er að við þurfum að semja um flökkustofna hvort sem við göngum í ESB eða ekki. Í dag er veitt verulega umfram ráðgjöf í sumum þeirra, sem er ekki sjálfbært og kemur í bakið á okkur seinna. Reyndar er litið á veiðar íslendinga stofnum eins og t.d. makríl sem sjóræningjaveiðar, og erfitt verður að semja um þær.
Hinsvegar er allt önnur staða með botnfiska þar sem Íslandsmið gætu verið skilgreind sem sérstakt svæði, og því ekki partur af ,,hlutfallslegum stöðugleika" ESB. Það þýðir einfaldlega að ef ákveðið er að draga úr veiði í Norðursjó hefur það engin áhrif á veitt aflamagn á Íslandsmiðum. Fyrir liggur að Íslendingar muni sjálfir fá nánast öll veiðiréttindi og hugsanlega hægt að setja girðingar til að koma í veg fyrir kvótahopp í framtíðinni, eins og Bretar gerðu. Íslendingar geta ráðið því hvaða veiðikerfi verður notað og gætu því haldið í kvótakerfið sem væri öllum fyrir bestu. Síðan munu þeir sjálfir sjá um veiðieftirlit, en það liggur fyrir í dag. Ef Íslandsmið væru skilgreind einstök líffræðilega (botnfiskar) myndu að öllum líkindum Íslenskir sérfræðingar (Hafró) gera tillögur að veiðimagni, en það yrði formlega ákveðið í Brussel. Það eitt og sér myndi koma í veg fyrir að ráðherra gæti ákveðið að auka veiði rétt fyrir kosningar í pólitískum tilgangi, ef ekki lægju fyrir vísindalegar forsendur fyrir því. Þannig gæti Brusselvaldið bætt ákvarðanatöku stjórnvalda í fiskveiðimálum.
Björn Bjarnarson hefur farið mikinn í þessari kosningabaráttu, gegn ESB umsókn. Í síðasta pistil sínum skrifar hann um blekkingarleik heilagrar Jóhönnu og kallar það blekkingarmet í íslenskri pólitík. Mér finnst blekkingarleikur Björns vera meiri ef eitthvað er. Slær um sig þjóðarrembing og höfðar til þjóðerniskenndar Íslendinga. Varar við Brusselvaldinu og talar um þessi illmenni í ESB, án þess að útskýra hvað hann á við. Enn er allt á huldu með samskipti íslenskra stjórnvalda við þessa menn í kjölfar bankahrunsins og á mikilvægum fundi um þessi mál í síðustu viku voru fundarmenn bundnir trúnaði og máttu ekki segja frá því sem rætt var um. Einn þingmaður sagði þó að fundarefnið hefði komið sér verulega á óvart og atburðarrásin verið ævintýraleg í kjölfar bankahrunsins.
Þetta er ekki innlegg í málið og eins fer Björn hiklaust með rangfærslur þegar kemur að væntanlegum samningum um fiskveiðar. Umræða um samning Möltu á ekki heima hér enda er fiskveiðimið þeirra (botnfiskur) hluti af heildarveiðisvæði ESB, sem Íslandsmið eru ekki. Ekki er verið að tala um varalegar undanþágur Íslendinga frá stofnsamþykktum ESB í væntanlegum viðræðum. ,,Hlutfallslegur stöðugleiki" er byggður á því að veiðisvæði sambandsins er ein heild, og það á við veiðisvæði Norðmanna einnig. Þannig er ákvörðun um aflamagn tekin sem ein heild og síðan er þeim heildarafla skipt niður eftir fyrirfram gefnum hlutföllum (hlutfallslegur stöðugleiki). Íslandsmið eru hinsvegar aðskilin líffræðilega með staðbundnum stofnum. Það að ,,hlutfallslegur stöðugleiki" tryggi ekki einkanýtingu þjóðarinnar á auðlindinni liggur fyrir. Bretar hafa gert sérsamninga til að koma í veg fyrir kvótahopp ekkert því til fyrirstöðu að Íslendingar geri slíkt hið sama. Björn segir að Íslendingar verði að undirgangast fiskveiðieftirlit ESB þegar fyrir liggur að hver þjóð er ábyrg fyrir sínu eftirliti. Ekkert myndi því breytast við inngöngu Íslands í ESB varðandi fiskveiðieftirlit á Íslandsmiðum.
Það sem ég hef lesið mig til um varðandi þjóðaratkvæðisgreiðslur Norðmanna sýnist mér neitun hafa verið byggð á þjóðernishyggju frekar en fiskveiðum. Lítill hluti Norðmanna hefur hagsmuni að fiskveiðum og aðrir hagsmunir því yfirgnæfandi fyrir þá. En þjóðerniskenndin er sterk og auðvelt að notfæra sér hana til að móta skoðanir almennings. Ég var hinsvegar að vona að Íslendingar hefðu lært sína lexíu eftir bankahrunið í október og hefðu áttað sig á að þeir eru ekki nein undraþjóð. Við byggðum ekki hagvöxt undanfarin ár á mannauði eða dugnaði, og alls ekki framleiðni, heldur með því að taka lán hjá Þjóðverjum og Japönum. Hafi einhverjum dottið það í hug að við gætum rekið heilbrigt efnahagslíf með 15% vöxtum, og halda gengi krónunnar uppi með jöklabréfum, eru þeir hinir sömu að vaða um í villu og svima.
Sjálfstæðisflokkurinn verður að losa sig út úr þessari kerfisvillu og verða aftur opinn frjálslyndur flokkur með náin tengsl við grasrótina. Hætti að nota blekkingar þar sem röksemdir eiga betur við. Huga að heill þjóðarinnar með grunngildum Sjálfstæðisflokksins í farkestinu, frelsi einstaklingsins, einstaklingsframtaki og stétt með stétt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:36 | Facebook
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
- astromix
- ekg
- stefanbjarnason
- golli
- vikari
- gunnarpetur
- vestfirdir
- gudni-is
- ea
- ladyelin
- gp
- altice
- hjolaferd
- kaffi
- komediuleikhusid
- rabelai
- ziggi
- huldumenn
- helgi-sigmunds
- sigrunzanz
- hordurhalldorsson
- baldher
- hjaltisig
- lotta
- kjarri
- bjarnimax
- jovinsson
- smjattpatti
- eirmor
- vefritid
- saemi7
- siggisig
- maggij
- lehamzdr
- contact
- gauisig
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 24
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 19
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Gunnar
Þetta er áhugaverð og nokkuð fræðandi grein hjá þér. Það er gaman að sjá að enn gera menn miklar kröfur til Sjálfstæðismanna um stefnu og útfærslu í hinum ýmsu málum en minna til annarra flokka. Einhvern veginn virðast vinstriflokkarnir komast upp með það að segja sem minnst frá sinni stefnu og við hægrimenn barðir í hausinn í hvert skipti sem ekki kemur frá okkur eitthvað undur og stórmerki.
Þrátt fyrir góða grein er ég ósammála þér varðandi Evrópusambandið og vægi þess í kosningunum. Ég er ekki sannfærður um það að Sjálfstæðismenn hafi kosið annað, skilað auðu eða sitið heima vegna ESB. Sjálfstæðisflokkurinn tók evrópuumræðuna fyrir landsfund nokkuð vel og mjög skýr niðurstaða landsfundarins og eindræg afstaða nánast allra landsfundarfulltrúa tel ég að endurspegli vel viðhorf flestra kjósenda flokksins til esb.
Varðandi sérstöðu Íslands þá hefur reynt á þetta hjá Írum og einnig Bretum. Írland fór fram á að fá sérstöðu sína viðurkennda á botnsjávarstofnum en var hafnað á grundvelli reglunar um fjórfrelsi. Í máli Breta snérist ágreiningurinn um reglur sem Bretar höfðu sett til að koma í veg fyrir kvótahopp. Evrópudómstólinn taldi reglurnar ganga gegn megin reglu sambandsins um fjórfrelsi. Bretar fengu þó þrátt fyrir það samþykkta vægri reglur en þær hljóða svo:
a) 50% af afla skipsins sé landað í breskri höfn, eða
b) 50% áhafnar sé búsettur í Bretlandi (ekki nauðsynlega breskir ríkisborgarar), eða
c) verulegur hluti útgjalda útgerðar skipsins sé tilkominn í Bretlandi (lágmarksviðmiðun eru útgjöld sem svari til 50% af aflaverðmæti skipsins eða 50% af launagreiðslum útgerðarinnar), eða
d) önnur atriði sem geti sýnt fram á raunveruleg efnahagsleg tengsl, t.d. með blöndu ofangreindra skilyrða. Dæmi um slíkt er að helmingur veiðiferða sé frá breskri höfn og helmingur af tíma í landi er innan Bretlands, eða 35% hafnardaga sé innan Bretlands og 40% kvóta sé landað í breskri höfn, eða 30% kvóta landað í breskri höfn og 45% útgerðarkostnaðar falli til innan Bretlands, o.fl.
Aðeins þarf að uppfylla eitt af eftirtöldum skilyrðum.
Þessar reglur hafa ekki komið í veg fyrir kvótahopp og í nýlegri skýrslu Evrópusambandsin í svo kallaðri Grænbók er bent á gagnleysi hinnar óskráðu reglu um hlutfarslegan stöðuleika og það lagt til að reglan verði lögð af.
Meiri áhyggjur hef ég þó af löggjafar og dómsvaldi við inngöngu en lítill áhugi fjölmiðlamanna og fréttaskýrenda á þeim málaflokki er mér mikil furða. Ljóst er að æðsta löggjafarvald flyst til Brussel og gerðir sambandsins verða rétthæsta réttarheimild hér á landi. Þar af leiðandi verður Evrópudómstólinn æðsti dómstóll landsins en dómstólar aðildarríkja eru bundnir túlkun hans á reglum sambandsins. Ég er þeirra skoðunar að ákvörðunartaka eigi að vera eins nálagt fólki og mögulegt er enda mikil einstaklingshyggjumaður, mér hugnast því ekki sú þróun að allt vald og allir vegir liggi til Brussel.
Varðandi gjaldeyrismál skil ég ekki þetta blæti fyrir evrunni. Það eru aðrir gjaldmiðlar í heiminum og þau ríki sem hafa tekið upp einhliða til að mynda dollara eru að sigla hvað best út úr heimskreppunni. Þá hefur ekkert verið ræddur sá möguleiki að taka upp hrávörufót eða einhvers konar fót á krónuna. Allt snýst þetta um Evruna og látið eins og heimurinn standi og falli með henni.
Ég ætla ekki að fullyrða um hvað ráði afstöðu Norðmanna en þar sem nú er í vinnslu lög hjá sambandinu um sameiginlega stjórn á nýtingu orkuauðlinda s.s. olíu, fallvötn og fleira er mögulegt að slíkt haldi Norðumönnum frá sambandinu um ókomna tíð. Þessi nýja löggjöf mun þó líklega henta Þjóðverjum vel sem vilja gjarnan losna við olíu og gasæðina frá Rússum.
Ég tek heilshugar undir með þér og vil hamra sérstaklega á því að nú eigum við að einbeita okkur að því að skapa hér sem mest verðmæti en ekki taka næstu hagsveiflu að láni.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 03:30
Takk fyrir þessar athugasemdir Vilhjálmur. Það er alveg rétt hjá þér, ég geri meir kröfu til Sjálfstæðisflokksins en annarra flokka. Samfylkingin er varla meira en flokkstuttlur en kommunum treysti ég ekki, og geri ekki kröfu til þeirra.
Varðandi ESB þá hefur verið bent á mikilvægi þess að endurreisa traust á íslensku efnahagslífi og það verið rökstutt að aðildarumsókn hefði þar veruleg áhrif.
Varðandi sérstöðu Íslands þá liggur hún í því að Íslandsmið eru líffræðilega ótengt miðum ESB, en ekkert annað ríki innan sambandsins býr við slík skilyrði.
Dómstóll ESB (ég get ekki vanist að kalla hann Evrópudómstólinn) hefur þegar æðsta vald í úrskurði um ESB samninginn. Við höfum yfirtekið 80% af löggjöf ESB og erum því þegar ofurseldir því yfirþjóðlega valdi. Aðeins landbúnaður og sjávarútvegur er undanþegin og það eitt myndi breytast við inngöngu.
Hinsvegar fengju við aðkomu að ákvarðanatöku sem við höfum ekki í dag. Rétt er að benda á ,,fiskimölsmálið" sem nærri gekk frá öllum mjöliðnaði á Íslandi. Í bók Diana Wallis, Evrópuþingmaður frá Hull, voru það breskir þingmenn sem meðal annarra komu Íslendingum til hjálpar í því máli.
Varðandi ný lög um orkumál þá er ákvæði í Lissabonsáttmálanum um að ekki meig ganga gegn megin hagsmunum aðildarríkis í reglu og lagasetningu. Engin dæmi er enda um að slíkt hafi verið reynt í ESB.
Gunnar Þórðarson, 27.4.2009 kl. 04:45
Sæll Gunnar
Ég hélt líka einu sinni að Ísland hefði tekið upp 80 prósent af löggjöf ESB en svo þurfti ég að lesa evrópurétt fyrir nokkrum árum í mínu námi og fór að efast um að þessi tala væri rétt. Hið yfirgripsmikla regluverk fannst mér bara allt of stórt til að það gæti passað að Ísland hefði tekið upp 80 prósent af löggjöf ESB. Stuttu seinna kom út þessi athugun http://www.althingi.is/altext/131/s/1373.html
En í henni kemur fram að Ísland hefur tekið upp 6,5 prósent af regluverki ESB. Við inngöngu í ESB breytist þar að auki rétthæð réttarheimilda á Íslandi. Regluverk sambandsins hefur beina réttarverkan á Íslandi og gerðir þess verða rétthærri en stjórnarskrá landsins. Völd Íslands innan ESB eru 3-4 þingmenn af nærri 800 á evrópuþinginu. Lissabonsáttmálinn gerir auk þess ráð fyrir því að draga úr valdi einstakra ríkja og færa það yfir til evrópuþingsins. Ég hef ekkert á móti þjóðum evrópu en ég treysti einfaldlega ekki þingmönnum annarra ríkja til að taka ákvarðanir um málefni Íslands sem snerta mig og mína framtíð.
Hvað varðar sérstöðuna sem þú bendir á þá njóta Írar sömu sérstöð á mörgum stofnum hjá sér en þar fyrir utan myndi reglan, líkt og Evrópudómstólinn hefur úrskurðað um, ganga gegn fjórfrelsinu sem er ein megin stoð sambandsins.
Í dag er fjöldi málaflokka undanþeginn og nær EES samningurinn einungis til innri markaðarins og regluverks í kringum hann. Þá má einnig benda á að veiði Íslendinga í flökkustofnum er um 600 þúsund tonn eða um 30 prósent af heildar veiði Íslendinga eða um 12 prósent af heildarveiði evrópusambandsins.
Ákvæð sem þú vitnar í úr Lissabonsáttmálanum hljóðar reyndar upp á hafa skuli í huga hagsmuni aðildarríkja við gerð lagasetningar . Það hefur hins vegar ekki stoppað höfunda sáttmálans í að setja inn ákvæði á borð við að sambandið geti gengið í orkuauðlindir þjóða komi upp orkuþurð hjá einhverjum ríkjum innan sambandsins. Nýlegt dæmi um þetta er áætlum ESB að ganga á varabyrgðir Hollendinga og Breta af olíu til að mæta vaxandi orkuvandamáli sambandsins. Þá þarf ekki að gera annað en að lesa nýlegt uppkast af orku og auðlindalögum sem eru í vinnslu til að sjá hversu langt sambandið ætlar sér að ganga inn á ákvörðunarferli aðildarríkja í þessum málaflokki.
Aðildarumsókn er eingin töfralausn á vandamálum Íslendinga og ein og sér byggir ekki traust alþjóðasamfélagsins á landinu. Heiðarleiki, eljusemi og dugnaður er það meðal sem þjóðin þarf að kyngja og menn verða að fara átta sig á því að hér þarf að vera verðmætasköpun til að hægt sé að auka lífsgæði. Við getum ekki fengið góðærði að láni og ætlast til þess að það vari að eilífu.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 13:23
Takk fyrir þetta Vilhjálmur. Þetta er mjög fróðleg lesning og enn og aftur áttar maður sig á hversu flókin þessi mál eru. Eins og ég hef sagt myndi ég ekki fórna fiskveiðum Íslendinga fyrir inngöngu en í barnaskap mínum trúi ég því, miðað við það sem ég hef lesið mig til um, að hægt væri að ná ásættanlegum samningum. Íslandsmið yrðu þannig, eins og áður segir, skilgreind sem sérstakt svæði.
Þetta er mjög málefnalegt og rökfast hjá þér. Einmitt það sem mér hefur alveg þurft vanta í þessa umræðu. Ég geri mér grein fyrir að ESB er ekki töfralausn en gæti hjálpað til að bæta tiltrú á íslenskt efnahagslíf, sem er okkur lífspursmál um þessar mundir.
Eitt af því sem við Íslendingar höfum framm yfir margar þjóðir ESB er sveigjanlegur vinnumarkaður sem haldið hefur atvinnuleysi í lámarki hérlendis þar til nú. Það mun ekki breytast við inngöngu enda hverri þjóð innan sambansdins í sjálfsvald sett hvernig þeim málum er hagað. Það sem allt snýst um er að auka framleiðni, bæði hjá fyrirtækjum og hinu opinbera. Þannig byggjum við upp efnahag. Ekki með því að róa með handfæri eða þenja út hið opinbera. Framleiðni er töfralausnin en þar þarf að taka tillit til vaxta kostnaðar og kostnaðar við gríðarlegar hagsveiflur hér á landi og verðbólgu. Svo ekki sé talað um ónýta krónu.
Gunnar Þórðarson, 27.4.2009 kl. 13:47
Þakka þér fyrir Gunnar
Ég ákvað að leggjast yfir þessi Evrópumál fyrir landsfundinn sem átti að halda í janúar. Það var ótrúlega margt sem kom mér á óvart þegar ég fór að lesa mig til um sambandið og satt best að segja þá verð ég harðari andstæðingur inngöngu eftir því sem ég kynni mér sambandið meira.
Hugmyndin á bakvið sambandið er góð þ.e. frjáls viðskipti, fjórfrelsið, og sameiginlegur gjaldmiðill en framkvæmdin hefur í gegnum árin ávalt verið í þá átt að samræma relguverk um of og koma ákvörðunartöku í helstu málaflokkum til Brussel. Áhugi minn á þessum málum vaknaði í raun ekki fyrr en ég las evrópurétt og uppgötvaði að lagabálkur þess var þá hátt í 130 þúsund blaðsíður og er í dag um 170 þúsund í samanborið við 2 þúsund blaðsíður íslenska lagasafnsins. Þessar tölur eru reyndar ekki mjög vísindalega enda er lagasafn evrópu ekki eiginlegt lagasafn heldur samkurl samninga, reglugerða, tilskipanna og annarra pappíra, ekki alveg í anda þess að lög eigi að vera aðgengileg og skýr öllum. Hvað sem öllu líður þá er lagasafn Evrópu mjög stórt og eflaust stærra en ég reikna með.
Ég er sammála þér með krónuna, þrátt fyrir einhverja kosti, hefur hún marga veikleika og þá aðalega og sérstaklega stærðin. Hrávörufótur t.d. í áli og fisk eða bara gullfótur myndi veita okkur gífurlega stöðugan gjaldmiðil og sá kostur hefur lítið sem ekkert verið ræddur. Einhliða upptökur á dollara eða evru eru líka ínni í myndinn en myndu kosta það að hér þyrfti að reka mjög agaða peningastefnu og eins mikið aðhald í ríkisfjármálum. Að tengja gjaldmiðilinn við annan er bara það sama og gefa út ávísun á ávísun og það er aldrei góður kostur. Upptaka gjaldmiðils í samstarfi við önnur ríki s.s. Evru eða Dollara væri auðvitað æskilegsti kosturinn en myndi samt þýða mikinn aga í rikisfjármálum.
Ég vil i lokin þakka skemmtileg og fordómalausa umræðu, það væri gaman ef stjórnmálamenn og jafnvel fjölmiðlamenn gætu gefið sér tíma og rætt þessi mál fordómalaust. Afstaða þjóðarinnar verður að vera byggð á góðum upplýsingum bæði um kostina og gallana.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 14:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.