6.4.2009 | 10:36
Kvótakerfið
Hér verður gerð tilraun til að koma af stað upplýsandi umræðum um kvótakerfið. Í fyrsta lagi að einangra það frá örðum þáttum fiskveiðistjórnunar sem er mjög mikilvægt til að missa umræðuna ekki út um víðan völl og blanda öllu saman í óskiljanlegan graut.
Rótin að kvótakerfinu er gengdarlaust tap útgerðarinnar í lok sjöunda áratugarins og í upphafi þess áttunda. Ljóst var að flotinn var allt of stór miðað við afrakstur fiskistofna og mikilvægasta verkefni íslensk fiskiðnaðar var að draga úr sóknargetu flotans til að skapa arð af veiðunum. Það er rétt að undirstrika að markmiðið var einmitt að bæta framleiðni fiskveiða en hvorki byggðarstefna né uppbygging fiskistofna.
Í þessu sambandi verða menn að átta sig á þeirri staðreynd að með minnkun á sóknargetu er ekki eingöngu talað um skip og búnað, heldur var mikilvægt að fækka sjómönnum líka. Nota minni flota og færri sjómenn til að draga sömu verðmæti og áður að landi og þannig draga úr kostnaði við sókn með sömu heildartekjum. Í upphafi voru útgerðarmenn á móti kvótasetningu en snérust seinna á sveif með stjórnvöldum. Austfirðingar voru almennt hlynntir kvótanum en Vestfirðingar á móti. Til að auka skilvirkni og framleiðni kerfisins var farið út í að leyfa framsal eða leigu á kvóta milli fiskiskipa og taka þannig upp framseljanlegt kvótakerfi. Auðvelt er að kynna sér umræður á Alþingi um setningu kvótakerfisins til að staðfesta þessar fullyrðingar.
Fræðimenn eru flestir á því máli að framseljanlegir kvótar auki framleiðni og skapi fiskveiðiarð og hægt að benda á margar rannsóknir því til stuðnings. Mönnum hefur verið það lengi ljóst að opinn aðgangur að fiskimiðum leiðir til ofveiði og sóunar þar sem allt of stór floti er notaður og allar tekjur fara í kostnað. Þetta hefur oft verið kallað ,,raunir almenninga" og bændur sem deila beitilandi notaðir sem myndlíking fyrir því sem gerist. Þó vitað sé að ofbeit sé í dalnum þar sem fjórir bændur beita nautgripum sínum, telur hver um sig hagkvæmt að bæta nokkrum kálfum við, þó svo að það bitni á öllum þegar upp er staðið og allir tapa. Það má segja að þegar um endurnýjanlegar auðlindir er að ræða, eins og fiskistofna og beitiland, gengur algert frjálsræði ekki upp enda leiðir það til ofnýtingar.
Tekið er skýrt fram í stjórnarskrá að fiskveiðiauðlind Íslendinga sé sameign þjóðarinnar. Hinsvegar hefur sú leið verið farin að mynda eignarrétt á nýtingarréttinum, sem er mjög mikilvægt fyrir framleiðni kerfisins. Hver útgerðaraðili getur þannig selt kvóta eða leigt, ef hann telur það hagkvæmt til að stýra veiðum, meðal annars með tilliti til markaða. Nýtingarrétturinn er einmitt mikilvægur til að menn geti skipulagt sölu á afla langt fram í tímann og tryggt kaupendum örugga afhendingu árið um kring. Norsk rannsókn sem gerð var á Humber svæðinu 2005 sýndi einmitt að Íslendingar höfðu nánast yfirtekið þennan mikilvæga markað með fisk og haft Norðmenn algerlega undir í samkeppninni. Greinilega kom fram að fiskkaupendur töldu kvótakerfi Íslendinga vera mikilvægan áhrifaþátt í þessum viðskiptum en Norðmenn veiddu með dagakerfi. Þar sem íslenski útgerðarmaðurinn gat samhæft veiðar og sölu á fiski, langt fram í tímann, gat hann náð hámarks verðmætum á markaði. Kaupendur voru almennt á því máli að gæði Íslenska fisksins væri betri en þess norska. Eignaréttur á nýtingu skiptir þar sköpum en Norðmennirnir veiddu eins og þeir máttu meðan opið var fyrir veiðar og ofmettuðu markaði og síðan var engin afhending um langan tíma.
Nú eru uppi hugmyndir um að afnema kvótakerfið á Íslandi. Ríkið fari svokallaða fyrningarleið og taki 5% af kvótanum árlega í tuttugu ár. Þeir sem fyrir þessu tala telja þarna gefin ríflegan aðlögunartíma og allir geti því vel við unað. En hér er rétt að staldra við. Hvað á að taka við? Ríkið gæti leigt kvótann og hirt þannig fiskveiðiarðinn beint og deilt honum út til þjóðarinnar. Sumir hafa bent á að hægt væri að leggja niður beina skatta, þar sem tekjur ríkisins af kvótaleigu væri svo góð að hún dygði til að koma þar í staðinn. Þetta er nærri því of gott til að vera satt!
Málið er ekki svona einfalt. Stjórnmálamenn eru ekki best til þess fallnir að útdeila gæðum og hætt við að þeir noti ,,réttlæti" en ekki hagkvæmni í ákvörðunum sínum. Nú vantar kvóta á Langanesi eða Vestfjörðum og þá er leigt þangað frekar en annað, hvað sem hagkvæmni við kemur. Þó sumum finnist ,,markaðurinn" oft grimmur er hann mun réttlátari en misvitrir stjórnmálamenn sem stjórnast oft af öðru en hámarka hagnað og hagkvæmni. Stjórnmálamaðurinn getur ekki séð fyrir þarfir markað eða kaupenda á hverjum tíma þegar hann tekur sína ákvörðun um hver eigi að fá kvóta og hver ekki. Það verður alltaf þörf á að takmarka aðgang að auðlindinni og ákveða hver má veiða og hver ekki.
Hér er gert ráð fyrir að núverandi ríkisstjórn hafi þessa aðferð í huga en ekki að setja á dagakerfi, sem kosta mun fullkomna sóun í fiskveiðum. En fyrst tekur steininn úr þegar talað er um að opna kerfið og leyfa öllum að veiða eins og þeir vilja. Nóg er af fyrirmyndum af slíku kerfi og þarf ekki djúpar rannsóknir til að sjá hvert það leiðir. En til hvers á að breyta kerfi sem reynst hefur vel og virðist skila góðri arðsemi? Arði sem dreifsit með ásættanlegum hætti og skilar sjómönnum góðum kjörum og viðunandi aðbúnaði. Fyrir því þurfa að liggja sterk rök og ekki nóg að benda á umræðuna í þjóðfélaginu. Ef það er umræðan í þjóðfélaginu sem á að ráða för verður hún að vera byggð á rökum og staðreyndum en ekki tilfinningum einum saman eða lýðskrumi.
Hér með er skorað á menn að takast á með slíkum hætti. Ég vil endurtaka orð mín í upphafi um að menn tali um einn hlut í einu. Einangra umræðuna um kvótakerfið og halda aðskildu öðrum þáttum fiskveiðikerfisins, eins og ákvörðun um veiðiráðgjöf, almennum reglum um veiðar, fiskveiðieftirliti o.s.f.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
- astromix
- ekg
- stefanbjarnason
- golli
- vikari
- gunnarpetur
- vestfirdir
- gudni-is
- ea
- ladyelin
- gp
- altice
- hjolaferd
- kaffi
- komediuleikhusid
- rabelai
- ziggi
- huldumenn
- helgi-sigmunds
- sigrunzanz
- hordurhalldorsson
- baldher
- hjaltisig
- lotta
- kjarri
- bjarnimax
- jovinsson
- smjattpatti
- eirmor
- vefritid
- saemi7
- siggisig
- maggij
- lehamzdr
- contact
- gauisig
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 34
- Frá upphafi: 285834
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Dagakerfi...sem kosta mun fullkomna sóun í fiskveiðum!!!!!
Er þér sjálfrátt maður að láta þetta út úr þér? Ef dagakerfi er sóun, en þar er komið með allan fisk að landi, hvað kallast það kerfi þá sem beinlínis krefet þess að öllum fiski sé hent fyrir borð nema þeim verðmætasta. En það er aflamarkskefið í sinni réttu mynd, en þá er ég að tala um fisk af landróðrabátunum sem veiða á leigukvóta.
Færeyingar notuðu íslenska kerfið í tvö ár og nú fá þeir martröð um nætur ef þeim dettur það í hug. Þeir kalla aflamarkskerfið íslenska kerfið til að minna sig á hvaðan það kom.
Meistarapróf í alþjóðaviðskiptum segir reyndar allt sem segja þarf um þessa hugvekju.
Árni Gunnarsson, 6.4.2009 kl. 15:39
það ágætt að halda til haga kostum kvótakerfisins á þessum tímum en ef þú ætlar að koma af stað upplýsandi umræðu þarf kannski að halda ókostunum til haga líka. Þú tekur t.d. ekki beinlínis á þeirri staðreynd að þetta kerfi sem þú telur svona gott hafi sett nánast alla útgerðina á hausinn með óhóflegri lántöku og að rauntekjur þjófélagsins af fiski hafi fallið um 5,3% á árunum 1988-2007, en á sama tíma hefur raunvirði landbúnaðarútfluttnings hækkað um 6,2%.
Héðinn Björnsson, 6.4.2009 kl. 15:47
Fiskveiðistjórnunarkerfið sem kvótinn er er gott, en það er ekki sanngjarnt að auðlind sem sé í eigu þjóðarinnar sé á fárra manna höndum. Ég tel að miklu nær væri að hafa kvótann byggðatengdan en ekki að fyrirtæki geti braskað með hann fram og aftur. Þannig væri kvótanum skipt í fernt eftir landshlutum og það væri svo stjórn innan hvers landshluta sem útdeildi kvótanum á bæjarfélögin og væri þar kannski hægt að notast við fiskveiðireynslu til ákvarða hvað mikið færi til hvers.
Erla J. Steingrímsdóttir, 6.4.2009 kl. 17:42
Sæll Gunnar. Svo því sé nú haldið til haga; þá er sjávarútvegurinn í heild sinni gjaldþrota. Þá er hann einnig bæði líf og-vistfræðilega gjaldþrota eins og minnkandi fiskveiðiheimildir bera vott um um eftir 25 ára “uppbyggingu” samkvæmt kenningum Hafró og ICES. Og þá er útgerðin að sökkva í skuldasúpu eftir eftir 18 ára þrotlausa framsals-hagræðingu – og lagt landsbyggðina í rúst í leiðinni. Útgerðin stendur sem sagt traustum fótum á hafsbotni eins og Artúr Boga orðaði það fyrir stuttu.
Gunnar, það er ekki auðvelt að halda uppi vitrænni umræðu um fiskveiðikerfið á þröngu athugasemdasvæðið, það býður bara upp á slagorð – eins og ég er reyndar þegar byrjaður á.
En við skulum samt halda því til haga, að það voru engin líffræðileg rök fyrir þvi að setja kvótakerfi á 1983. Meðal þorskafli frá árinu 1950-1975 var 400 þúsund tonn. Meðal þorskafli frá 1975- 1985 var 362 þúsund tonn, eða því sem næst það sama. Þessi góða aflagengd hélt áfram allt til ársins 1990, eða allt til þess tíma að framúrkeyrsla umfram ráðgjöf Hafró var endanlega stöðvuð með endanlegu afnámi sóknardagakerfisins.
Síðan þá hefur bara sigið á ógæfuhliðina. Þá er stóri munurinn á okkar kerfi og dagakerfi Færeyinga sá; að færeyska kerfið byggir á aðlögun að náttúrulegri fiskgengd á miðunum. Færeyingar ímynda sér ekki að þeir séu að stjórna fiskstofnunum - enda er ekkert aflahámark þar. Þá líta þeir á að kvótakerfi sé hagstýringarkerfi en ekki leið til að stjórna fiskveiðum. Þá munu 80% íslensku þjóðarinnar vera óánægð með kvótakerfið, á meðan þú finnur ekki nokkurn mann í Færeyjum sem vill breyta þeirra kerfi.
Eina ástæðan fyrir því að kvótakerfinu var komið á var sú að útgerðin var komin í þrot. Hún var það eitt og sér bara vegna þess að þegar togaraflotinn var endurnýjaður á áttunda áratugnum var það allt gert með dýrum lánum. Eigið fé var ekkert. Togurum var dreift á hvert pláss annað hvort til kaupfélags útgerða eða flokksgæðinga Sjálfstæðisflokksins hringinn í kringum landið. Í flestum tilfellum var smíðaverðið hækkað upp til að brúa þau 10% sem “vinningshafar” áttu að leggja fram. Öll viðmiðunarárin, 1981-1983 var óðaverðbólga í landinu á bilinu frá 50- 150% Gengi krónunnar var einnig í frjálsu falli þessi árin sem kostaði óstjórnlega skuldaaukningu í erlendum gjaldeyri. Þá varð gríðarleg olíuhækkun á heimsmarkaði árið 1979 sem stóð næstu fimm árin. Verð á tunnu fór á einu ári úr 15 dollurum í 40. Svo ég fari nú að reka botninn í þetta, þá var tekjuskattur fyrirtækja 45% og því var hvatinn til að spara enginn. Ég man það vel að þær fáu útgerðir sem voru í “hættu” á að sýna hagnað um áramót – notuðu dagana á milli jóla og nýjárs til að eyða þeim peningum svo þær þyrftu ekki að greiða skatt sem þá var greiddur eftir á.
Ef einhver heldur eftir þennan lestur að það hafi verið af vist-eða lífræði ástæðum sem kvótakerfið var sett á - þá er ég skák og mát.
Atli Hermannsson., 6.4.2009 kl. 19:07
Það mun engu máli skipta hversu margir líffræðingar, fiskifræðingar, haffræðingar eða viðskiptafræðigersemi nota lengi reiknilíkön og aðrar viðlíka kúnstir. Það mun engum takast að reikna út fiskigegnd svo mikið sem frá einu ári til annars hvað þá lengur.
Drepa mismunandi gömul og fúin handfæri allan fisk við Ísland á nokkrum árum eða einu? Varla. En hvað olli slíkri ördeyðu við Ísland árið 1774 qð einungis nokkrir fiskar veiddust á heilu sumri á 70 lesta handfæraskútu fyrir öllu Norðurlandi? Drepur gegndarlaus ásokn togara allan fisk á þeirri slóð til framtíðar? Meiri líkur. En hvers vegna stóðu íslensku fiskistofnarnir af sér ásókn útlendra togara uppi í fjörum um áraraðir?
Ekki vantaði mannalætin í Sölva Helgason þegar hann sagðist hafa reiknað tvö börn í stelpuræfilinn, annað svart og annað hvítt. Ekki vantaði hróðugan svip á forstjóra Hafró þegar hann hét þjóðinni 500 þúsund tonna aukningu á þorski tiltekið ár.
Hvorutveggja reyndist raup og mannalæti.
Við getum byrjað endurreisn byggða við Ísland með því að auka handfæra-og línuveiðar umtalsvert. Síðan mega frystitogarar taka skerf á fjarlægum miðum til að viðhalda mörkuðum og eins til að veiða djúpsjávarfisk.
Árni Gunnarsson, 6.4.2009 kl. 21:57
En auðvitað gleymdi ég að þakka Atla Hermannssyni fyrir að lýsa hér í knöppum texta meginefni þeirra pólitísku ástæðna sem lágu að baki kvótakerfinu.
Árni Gunnarsson, 6.4.2009 kl. 22:11
Hérna hafa menn ekki alveg náð því hvað höfundar var að segja í upphafi og fara um víðan völl. ákvörðun um hversu mikið má veiða hefur ekkert með kvóta kerfið að gera Atli. Það er nánast bara ákvörðun Hafrannsóknarstofnunnar hversu mikið eigi að veiða. Það hefur bara einu sinni verið farið gegn ákvörðun Hafró. Það var núna þegar Einar Kr. jók veiðanlegan afla á Þorski um 30.000. Ráðlegging hafró væri í engu öðruvísi ef það væri sóknarmark. þá væri dögunum bara fækkað í staðin fyrir tonn.
það er nóg af fiski í sjónum. þeir sem vita eitthvað um sjávarútveg vita það. Atli þú ættir að kynna þér sjávarútveg og hvernig veiðar eru áður en þú kemur með stórkallalegar yfirlýsingar. málið er að við erum með stofnun (hafró) sem vill að ég held, helst banna alfarið fiskveiðar.
Sjávarútvegurinn á Íslandi er gjaldþrota. Já. Nær öll heimili og önnur fyrirtæki á Íslandi er einnig gjaldþrota og deila því með sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn er því í engu ólíkur öðrum þeim sem byggja þetta land og er það dæmi um lýðskrum að halda því fram að sjávarútvegur sé eitthvað verr staddur en aðrar atvinnugreinar. ef eitthvað er þá stendur hann betur. hann hefur tekjur í erlendri mynt. það hafa fæstar greinar eða íbúar þessa lands á meðan skuldirnar eru í meirihluta í erlendum gjaldeyri hjá öllum aðilum.
samþjöppun á aflaheimildum má rekja til tveggja meigin þátta. samdrátti á veiðanlegum afla. ef heildar afli minnkar, þá geta færri sótt miðin. það er mjög einfalt. hitt atriðið hefur haft meiri áhrif og þá sérstaklega á litla aðila í sjávarútvegi. það er ógnin við að kvótakerfið verði afnumið. einyrkja í útgerð kvíður alltaf fyrir kosningum. því þá koma stjórnmálamenn fram og kyrja söngin um að þeir ætli að taka allt frá honum og skilja hann eftir með skuldasúpuna svo að hann og fjölskylda hans missi nú örugglega allt og þurfi að lýsa yfir gjaldþroti. Þessir aðilar þora ekki að vera í greininni fram yfir kosningar og selja sig út. þannig fækkar þeim sem sækja sjóinn og eiga kvóta.
Lántaka í sjávarútvegi er einmitt til komin vegna þess að menn kaupa af þeim sem vilja út. Eða eiga menn að vera bundnir átthagafjötrum ef þeir vinna í fiski?
Það er hinsvegar allt önnur umræða sem Árni fer hérna með um að sjávarútvegurinn eigi að vera byggðaruppbyggingartæki eins og í noregi. en þar er reyndar olíugróðinn notaður til þess að hjálpa sjávarútvegsfyrirtækjum. enda eru tvö verð á olíu í landinu. eitt út á landi og eitt suður á höfuðborgarsvæðinu í kringum Osló.
eitt skal koma hreint fram. eftir 19 ár af lögum um framseljanlegar veiðiheimildir, þá er bara ein gerð að útgerðarmönnum eftir í greininni. hugsjónarmenn sem vilja vinna við sjávarútveg og gera það. enda þegar menn tala um útgerðarmenn á spáni á vindsængum, þá er helsti heimildarmaðurinn Gróa á leiti en heimildir eða sannanir virðast ekki vera til.
þeir sem hafa selt sig út geta hinsvegar vel verið liggjandi á sólbaði einhverstaðar. eins og t.d. alþýðuhetja Grétars Mars og Frjálslynda sem seldi sig út, flutti til Mexíkó, tapaði öllu og kom heim aftur og vildi fá aftur úthlutað svo hann gæti fengið annan skammt til að selja og eiga fyrir utanlandsferð til Mexíkó.
Stærsti kostu kvótakerfisins er sá sem Gunnar ræðir um. festa og möguleikinn á að búa til samninga um sölu á fiski mánuði og ár fram í tímann. þetta er ekki bara til þess að verðið er hærra á fisknum, heldur er vinna landverkafólks mun tryggari. Landverkafólk veit að það er í vinnu alla virka daga frá átta til fjögur. stundum er yfirvinna í boði og stundum ekki. eins og í öllum öðrum greinum. með dagakerfi yrði kannski vikur þar sem landverkafólk hefði ekkert að gera og svo aðrar þar sem það kæmist ekki heim til að elda mat handa börnum sínum fyrir önnum í vinnunni. en kannski eru þeir sem eru hlynntir dagakerfi eða frjálsri veiði alveg sama um landverkafólk. hvað veit ég?
Fannar frá Rifi, 6.4.2009 kl. 23:17
Fannar: Menn eiga að temja sér að rökræða án þess að snúa stapreyndum á haus. Þetta er ekki fyrsta skiptið sem þú snýrð mínum málflutningi upp í það að ég vilji leggja til að fiskurinn í sjónum verði einhvers konar byggðajöfnunartæki!
"Aldrei getur beljudjöfullinn séð tíkarræfilinn í friði" sagði Bjartur þegar kýrin snerist til varnar.
Bjargræðinu var rænt af fólkinu í byggðum þessa lands og framtíð þess sett á markaðstorg. Þetta vil ég láta leiðrétta og kalla það ekki ölmusu þegar ránsfeng er skilað. Þú mátt svo halda því fram að það hafi verið mikið framfaraspor þegar kommúnistar allra flokka á Alþingi tóku sameiginlega auðlind fóks og skiptu henni á milli verðugra með áætlunarbúskap í huga að fordæmi Sovétsbyltingarinnar.
Afleiðingarnar urðu ekki ósvipaðar. Þér hugnast greinilega lýsing þín af viðskiptaháttum Grétars Mars og vilt hafa hana að fyrirmynd.
Ég er andvígur áætlunarbúskap kommúnista og hann skánar ekki neitt í mínum huga þó honum sé gefið nafn markaðsfrelsis.
Og það verður nægur markaður fyrir allan þann fisk sem við getum veitt þegar efnahagur viðskiptaþjóða okkar réttir úr kútnum.
Árni Gunnarsson, 7.4.2009 kl. 00:04
við getum veitt 500 þúsund tonn í ár. við getum hinsvegar ekki selt allan þennan fisk nema fyrir lítin pening og munum ekki getað veitt eins mikið á næsta ári.
ef þú vilt auka kvóta í einhverri byggð, nú þá kaupiru hann af öðrum eins og allir aðrir gera og ferð með hann í viðkomandi byggð og gerir út.
það stoppar ekki sjómenn af Snæfellsnesi, Vestmannaeyjum eða Grindavík að það sé kvótakerfi. þeir kaupa af þeim sem hætta og gera sjálfir út.
þeir sem ofurskuldsettu sig og geta ekki rekið sig. nú þeir fara í gjaldþrot. mjög einfalt. þá verður nýliðun möguleg þar sem nýir aðilar geta keypt þenna kvóta. ef þeir eru tilbúnir að leggja á sig sömu skuldbindingu og aðrir í greininni og í raun allir aðrir sem hefja atvinnurekstur í öllum öðrum atvinnugreinum.
fyrir 120 árum var lang stærsta verstöð landsins í Dritvík á Snæfellsnesi. Ég krefst þess að kvótanum og fisknum sé skilað þanga. þarna ættu að vera skráð allavega 75% af öllum kvótalandsins. í minnsta lagi 50%. eða miðar þú við einhverja aðra dagsettningu sem er að þínu mati heilög?
Fannar frá Rifi, 7.4.2009 kl. 00:11
Erlingur, þú ert ekki nógu málefnalegur til að hægt sé að svar þér.
Árni. Það hefur margt jákvætt gerst varðandi brottkast. Ég hef verið sjómaður og var reyndar á togara fyrir kvótakerfið. Brottkastið þar var gríðarlegt og menn klæddu pokann til að ná í smáýsu sem síðan var meira og minna hent. Það hefur hinsvegar orðið hugafarsbreyting og þetta þykir ekki sjálfsagt í dag. Nú geta menn komið með hluta af afla í land og fá greitt nægilega til að gera upp við áhöfnina en landa án þess að leggja til kvóta. Hagnaðurinn af þessu fer í AVS sjóðinn og tekjur hans voru um 350 milljónir í fyrra. Notað í rannsóknir og nýsköpun í sjávarútveg.
Erla, þjóðin á auðlindina en hefur falið útgerðarmönnum nýtingarréttinn. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa fjölda veiðiskipa eins lítinn og mögulegt er til að ná í þann afla sem auðlindina gefur af sér. Þannig fækkar útgerðarmönnum og sjómönnum, allt fyrir þjóðarhag.
Atli, ég tók því sérstaklega fram að kvótakerfið er hagfræðilegt fyrirbæri og hefur ekkert með líffræði að gera. Það er einmitt mikilvægt að skera þarna á milli en kvótakerfið var, eins og þú bendir á, sett þar sem útgerðin var á hvínandi hausnum og allur afrakstur fór í kostnað. Það er mikið til í því sem þú segir um afskipti stjórnmálamanna af útgerðinni áður fyrr. Þau spor hræða þar sem útvöldum mönnum var gert það kleift að fá lán til að kaupa togara. Keyptir voru yfir 100 togarar til landsins, algerlega án þess að auðlindin gæti tekið við slíkri aukningu á sóknarþunga. Dæmalaus heimska stjórnmálamanna og ég get svo sem ekkert þrætt fyrir að þeir hafi verið sjálfstæðismenn, alla vega sumir af þeim. Það var hinsvegar Hjörleifur nokkur Guttormsson sem negldi síðasta naglann í þess líkkistu með smíð fjögurra raðsmíðaskipa, sem aldrei voru einu sinn greidd þegar þau voru seld.
Enn og aftur Árni ég er að tala um kvótakerfið en ekki lífræði eða fiskistofna. Þú verður að skilja muninn þarna á milli. Ekki sulla öllu saman og lenda svo í svo mikilli flækju að eina sem hægt er að nota eru frasar og upphrópanir.
Fannar ég vil þakka þér innleggið. Ég er reyndar ósammála þínum skoðunum um Hafró en held því utan við þessa umræðu.
Allt sem stjórnmálamenn hafa verið að tjasla við kvótakerfið hefur orðið til ills og leitt til aukins kostnaðar fyrir greinina. Línuivilnun sem verðlaunar menn fyrir að nota handafl í stað tækni er bara til skaða. Ég kom um borð í línubát með beitningavél um árið, Guðmund á Hópi, og dáðist að öllu um borð, m.a. skipstjóranum. Ég ber það saman við handbeitningu heima á Ísafriði og sé ekki glóruna í því. Byggðakvóti er önnur hryggðarmyndin þar sem sveitarfélög geta varla útdeilt þessum gæðum vegna deilna og átaka milli aðila. Það lofar aldrei góðu þegar stjórnmálamenn útdeila gæðum.
Það er lífsspursmál fyrir Íslendinga nú að verja framleiðni sjávarútvegs. Kannski ég sé svo vitlaus að vita ekkert um það, enda bendir Árni á að ég sé með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum. Við þurfum á fiskveiðiarði að halda til að greiða upp skuldir þjóðarbúsins. Við höfum ekki efni á rómantík eins og norðmenn og verðum því að láta vínflösku og kerti duga til þess
Gunnar Þórðarson, 7.4.2009 kl. 06:38
Það er hagvöxtur í gróskumiklu mannlífi. Þegar við búum til gervihagvöxt með því að setja þúsundir fólks í tilvistarkreppu með því að ræna það veginum til lífsbjargar á eigin forsendum þá leiðréttum við þá skekkju ekki með því að leggja slitlag á akvegi þessa fólks og bora jarðgöng handa því. Ég veit ekki hvort hagfræði alþjóðaviðskipta skoðar mikið þann þátt sem kallast stoðir samfélagsins. Ég veit heldur ekki hvort atvinnuástandið á sjávarbyggðunum og hrunið fasteignaverð er reiknað inn í hagvaxtartölur.
Gunnar. Þegar við rænum matnum frá fólki þá kalla ég það ekki rómantík þegar hann er færður til baka.
Ég geri lítið úr hagspeki og viðskiptavísindum lærðra manna. Allt sem þeir menn kunnu sem settu fjármálakerfi heimsins á hausinn í gær ásamt þeim líka sem skákuðu okkar ríku þjóð út í ystu myrkur ræfildóms- allt sem þeir kunnu og það eina var viðskiptahagfræði.
Máltæki segir að þú komir engum manni í skilning um það sem hagsmunir hans meina honum að skilja og þetta er rétt.
Að taka verðmæti af einum og færa þau öðrum er aðferð sem villimenn eins og öfgakömmúnistar og öfgahægrimenn nota og heimta að komast upp með. Ég er ákveðinn í að andmæla svona aðferðum handa íslensku fólki.
Íslenskir viðskiptamógúlar héldu að það væri sniðugt að byggja efstu hæðina í blokkinni fyrst og seldu svo penthouse íbúðina ríkum heimskingja áður en grunnurinn var steyptur. Þetta var ekki gáfulegt, það má bera mig fyrir því.
Fannar: Af hverju segir þú að við getum veitt 500 þúsund tonn í ár en ekki næsta ár? Þú veist bara ekkert um það og þess vegna átt þú ekki að tala svona.
Af hverju nota Færeyingar ekki okkar kerfi eftir að hafa prófað það?
Það eru margar skekkjur í hagvaxtarpólitík og þær verstu eru lífshættulegar. Bullandi hagvöxtur í Kína og á Indlandi í 30 ár með tilheyrandi "kröfum um mannsæmandi líf" mun setja auðlindabúskap og gróðurfar jarðarinnar í gjaldþrot með tilheyrandi "samdrætti!"
Árni Gunnarsson, 7.4.2009 kl. 09:11
"Atli, ég tók því sérstaklega fram að kvótakerfið er hagfræðilegt fyrirbæri og hefur ekkert með líffræði að gera."
Sæll Gunnar. Ég tók eftir þessu. Því hefði ég strax átt að láta það koma fram, til að valda ekki misskilningi hjá einhverjum, að ég væri algerlega sammála þér hvað þennan þátt kerfisins varðar... Þetta er rauði þráðurinn í innleggi mínu eins og þú hefur tekið eftir.
... bæti kannski einhverju við í kvöld. Kv. Atli
Atli Hermannsson., 7.4.2009 kl. 09:25
Árni hvernig er veiði Færeyja ár frá ári á Þorski? eitt árið veiða þeir 40.000 tonn, annað árið veiða þeir 6.000 tonn. stokkið þarna á milli er óbærilegt fyrir alla þá sem vilja selja afurðir úr landi. óvissan er bara of mikil og þar með eru langtíma sölu samningar ógerlegir og þar með fæst minna verð fyrir fiskinn. hæsta verð fæst fyrir fisk sem hægt er að tryggja sölu á og afhentingu mörg ár fram í tímann.
Fannar frá Rifi, 7.4.2009 kl. 10:53
Fannar: Þannig að með því að byggja upp þorskstofninn líkt og Hafró hefur tekist á aldarfjórðungi- úr 430 þús. tonna afla niður í 130 þús. erum við að tryggja markaði fyrir fiskinn okkar til framtíðar!
Spurning hvað við gerum ef stofninn hrynur í svona tvö eða þrjú ár eins og hann gerði á miðöldum en við þekkjum ekki á seinni áratugum.
En hvar finnur þú í mínum málflutningi samsvörun við ályktun þinni um að færa aflaheimildir til Dritvíkur? Ég þekki ekki til fólks í Dritvík sem hefur verið svipt réttinum til að bjarga sér á eigin forsendum án afskipta hagfræðinga.
Heimur einhverra virðist á stærð við hálft kálfskinn eins og gömul myndlíking segir. Og heimur einhverra virðist minnka í hlutfalli við aukinn lærdóm.
Árni Gunnarsson, 7.4.2009 kl. 13:34
Atli, þetta var fín upprifjun á staðreyndum, útgerðir stóðu ekki illa vegna aflaleysis.
En eftir nokkurn undirbúning bak við tjöldin minnkuðu þorskveiðar 2003 og þá var tækifærið notað til að stökkva á bráðina.
Fannar. - Þorskafli við Færeyjar er sveiflukenndur og hefur verið það í þau 100 ár sem skráning nær til. Hér er náttúran á ferðinni og veiðar hafa lítil áhrif á þróun stofnsins. Helst er að samdráttur í sókn við útfærslu landhelgi og brotthvarf útlendinga af miðunum hafi dýpkað niðursveiflurnar og lengt þær.
Færeyingar hefðu farið á hausinn ef þeir hefðu stjórnað sókn (eða afla í kvótakerfi) með því að draga úr veiðum þegar þorskstofninn var lítill. Ef þú vilt vita meira um fiskimál í Færeyjum og hefur tíma þá finnur þú meira hér.
Jón Kristjánsson, 7.4.2009 kl. 13:56
" Þannig að með því að byggja upp þorskstofninn líkt og Hafró hefur tekist á aldarfjórðungi- úr 430 þús. tonna afla niður í 130 þús."
þetta er ekki kvótakerfinu að kenna. þetta er Hafró. ef við værum með daga og hefðum byrjað með 100 árið 1986, þá væru þeir líklega komnir niður í 20 til 30 núna. væri það gott?
Fannar frá Rifi, 7.4.2009 kl. 14:25
Gunnar: Rótin að kvótakerfinu er eldri en þú nefnir og nær til þess gjörnings sem var settur á bændastéttina á sínum tíma, þá var ástæðan meðal annars ofbeit og kjötfjall, og leiddi til þess að besta sauðfjárræktarvæði landsins er nánast í eiði í dag, þá var settur á kvóti með svipuðu sniði og síðar var gert við sjáfarútveginn, ákveðið var að allir framleiðendur fækkuðu rollunum sínum um 10% ef ég man rétt, ekki minkaði kjötfjallið við það og 10% reglan var endurtekin þar til nánast enginn gat lifað af þessu og þá var gefið leifi til að versla með framleiðsluréttin, hljómar kunnuglega ekki satt.
Og sem hagstjórnarkerfi hefur kvótakerfi í sáfarútvegi bæði brugðist og virkað, það hefur brugðist vegna þess að hagnaðurinn fer allur í vaxtagreiðslur og til að kaupa meiri kvóta, sem reyndar hefur allan tíman sem kerfið hefur verið í notkun dregist saman, og þar afleiðandi er ekki um neinn stöðugleika að í afla að ræða, kerfið hefur virkað þar sem men hafa náð betri mörkuðum og hærra verði, sem hefur samt ekki náð að vega upp sífalt minnkandi afla.
Kvótinn hefur verið keyptur með lánsfé af stöndugri fyrirtækjum, eða þeim sem höfðu betra lánstraust, og það er sennilegast lánstraustið sem hefur einna helst skemmt fyrir kvótakerfinu, þá á ég við að menn með lánstraust en ekki endilega góða rekstrarhæfileika, hafa keypt upp kvóta heilla byggðarlaga öllum til tjóns, og búið til leiguliðakerfi sem margur kveinkar sér undan.
Magnús Jónsson, 7.4.2009 kl. 21:27
þeir sem fengu gjafakvóta eru farnir úr greininni fyrir löngu. þeir sem eftir eru, eru hugsjónarmenn sem vilja bara láta gott af sér leiða. einstaka svartur sauður leynist í öllu fé. sjávarútvegur er þar ekki undanteknin frá öllum öðrum atvinnugreinum landsins.
þeir staðir sem fóru verst út úr kvótakerfinu er þeir staðir sem fengu mestu ríkisafskiptin fyrir daga kvótakerfisins. þ.e.a.s. þeir staðir sem hjálpað var að koma sér upp miklum togara flota. þeir staðir sem hafa haft minna af togurum koma mun betur út. þar voru og eru mun fleiri og minni útgerðir. ekki einhvern einn aðili sem allt byggðarlagið hvílir á. togararnir sem stjórnmálamennirnir í vanhugsaðri góðmennsku sinni komu með, kæfðu allar minni útgerðir. það gat engin keppt við togaranna um gott vinnu afl.
þegar stjórnmálamenn fara að vasast beint í sjávarútvegi, þá fer allt til verri vegar. undan farin ár hefur það verið ógnun stjórnmálamanna sem hefur hrekið margan duglegan mannin úr greininni. ógnin um að stjórnmálamaðurinn muni þjóðnýta allt sem einyrkinn lagði á sig til að eignast.
kvótakerfið er það eina sem getur gert sjávarútvegin að raunverulegum iðnaði sem er samkeppnishæfur um starfsfólk. á öllum tímum ekki bara þegar að kreppir og fólk sem vildi ekki láta sjá vinnu við sjávarútveg er allt í einu tilbúið að vinna í því og hrekja burt þá sem fyrir voru.
Fannar frá Rifi, 7.4.2009 kl. 23:09
Sæll Gunnar. Við erum sammála um ástæður þess að kvótakerfinu var komið á. En hvernig til hefur tekist er svo annað mál. Fyrsta grein fiskveiðilaganna sem segir að vernda skuli fiskstofna, skapa atvinnu og styrkja þannig byggðirnar var blekking auðtrúa alþingismanna eins og sagan í raun sannar. Allar breytingar á fiskveiðikerfinu hafa síðan verið hugsaðar til þess eins að gera útgerðarmönnum lífið léttara – og fjölga fiskunum í hafinu sem er önnur og enn verri saga.
Ef ráðgjöfin er stuttlega skoðuð, sem ég hef alla jafnan meiri áhuga á en úthlutunin; þá hefur ofuráherslan verið lögð á það hversu margir fiskar fái notið þess að synda í sjónum - frekar en fjöldi þeirra sem að landi koma. Fyrir daga kvótakerfisins, eða frá 1977 var svokallað skrapdagakerfi sem var hugsað til þess að vernda smáþorskinn. Þá var lágmarksmöskvi í trollum stækkaður í 135mm og undirmálið fært upp í 50 cm að mig minnir. Þetta voru fyrstu mistökin - þ.e.a.s. þessi misskilda verndun sem enn sér ekki fyrir endann á. Því frá stríðslokum hafði án afláts verið sótt í smáfiskinn og ekki síst af Bretum sem allt til 1975 lágu í honum nær eingöngu. Því gerðist það á tíma skrapdaganna frá 1977 til 1983, að dögunum var sífellt fjölgað vegna óhemjumagns af smáþorski - sem útlendingar höfðu áður veitt. Því gerðist það með stækkandi togaraflota að smáfiskurinn sem áður fór út til Bretlands fór eftirleiðis út með skítabandinu eða hakkavélinni engum til gagns.
Þú segir Gunnar að nauðsynlegt hafi verið að setja stærðartakmarkanir á flotann. Það er rétt,en ekki er sama hvernig það er gert. Önnur afdrifarík mistök voru gerð með því að skipta flotanum ekki strax upp í stærðarflokka - þannig að sá stærri æti ekki þann litla. Þegar ég lagðist í rannsóknarvinnu árið 2003 og skoðaði samsetningu flotans - eftir 20 ára niðurskurð og hagræðingu í greininni. Þá kom í ljós að togaraflotinn hafði aðeins minnkað frá því að hafa verið 102 skip árið 1983 í 93. Þá hafði rúmlestum (brl) togaraflotans fjölgað um 18% þrátt fyrir að bolfiskafli hafði minnkað um 60% á tímabilinu. Þegar ég skoðaði uppsjávarflotann, einnig eftir 20 ára hagræðingu. Þá kom í ljós að þrátt fyrir að við værum að veiða svipað magn, eða rétt rúma 1 milljón tonna, hafði brúttó-rúmlestum uppsjávarflotans (brl) fjölgað úr tæpum 19 þúsund rúmlestum í um 32 þúsund rúmlestir, eða 68%. Þá hafði hestöflum aðalvéla uppsjávarflotans fjölgað úr 70 þúsund í u.þ.b. 160 þúsund, eða 130%. Ég veit Gunnar að þessar tölur eru ekki réttar miðað við daginn í dag, en ég er þó fullviss um að flotinn er enn bæði stærri og afkastameiri en hann var fyrir daga kvótakerfisins og alla hagræðinguna.
Það hefur alveg verið sama hvað andstæðingar kerfisins hafa lagt til eða bent á, að núverandi handhafar veiðiheimildanna hafa alltaf snúist öndverðir í sinni sérhagsmunagæslu. Margoft hefur verið bent á dagakerfið sem Færeyingar nota með góðum árangri, en það er eins og það sé eitthvað sem sé fyrir neðan virðingu okkar - við séum með það besta í heimi. En þegar skuldastaða útgerða, annars vegar í Freyjum og Íslandi er borin saman; þá skuldum við líklega nálægt fimmföldum árlegum útflutnings verðmætum. Í Færeyjum var hutfallið nálægt 125 síðast er ég vissi.
Hvernig fara færeyingar að?Atli Hermannsson., 8.4.2009 kl. 23:56
Sæll aftur.. og fyrirgefðu, þetta er bara svo ferlega langt hjá mér.
Færeyska dagakerfi er frábrugðið okkar kerfi í því grundvallaratriði að þeir stjórna sókn skipa á miðin. Því hafa færeyskir sjómenn hag af því að koma með allan þann fisk að landi sem í veiðarfærin kemur. Við notum hinsvegar aflamarskskerfi “kvótakerfi” og stjórnum því hvað má koma með að landi. Því kemur ekki allt í land sem í veiðarfærin kemur – heldur aðeins það sem “borgar sig” að koma með í land. Því eru okkar fiskiskip ekki bara tæki til veiða, heldur einnig “flokkunarvélar” sem hámarka verðmæti hvers þorskígildis sem í land kemur - áður en að landi er komið.
Útdeiling kvóta sem stjórntækis til að hámarka afrakstur á takmarkaðri auðlind er því fráleit aðferð, því “flokkunin” stjórnast einnig af hagsmunum fiskverkunar og vinnslu – sem eru jú á sömu hendi. Og þar sem verðmætin í okkar aflamarkskerfi eru “ígildin”, er auðvelt að sjá hvar áherslurnar liggja – því kerfið hvetur til þess að velja aðeins þann fisk sem hentar - og henda hinu.
Þess vegna hlýtur það að teljast verulega vafasamt að Hafrannsókn skuli meta stofnstærðir og ráðleggja veiðiþol stofna, byggt á upplýsingum á flokkuðum fiski. Því magn og samsetning þess sem fleygt er ásamt “kvótasvindli” gerir veiðistuðulinn ómarktækan. því stofnstærðir eru ekki fundnar með raun-talningu eins og margir kunna að halda, heldur með umdeildu togararalli, ómarktækum veiðistuðli og ágiskuðum 18% náttúrulegum dánarstuðli - Því er kvótum útdeilt til eins árs fram í tímann, á grundvelli rangra upplýsinga úr fortíðinni.
Sóknarkerfi gefur mun betri mynd af stærð fiskstofna. Því auk þess að hámarka nýtingu alls þess sem í veiðarfærin kemur, þá koma stofnbreytingar strax fram sem stuðlar að markvissari og réttlátari ákvarðanatökum.
Færeyingar úthluta veiðidögum (dagakvóti) sem geta verið mismargir eftir útgerðarflokkum. En ýmsar undanþágur eru einnig að finna í lögunum. Til dæmis er stjórnvöldum heimilt að tvöfalda fjölda sóknardaga strandveiðiskipa, kjósi eigendur þeirra að veiða með handfærum.
Til viðbótar var lögsögunni skipt í innra og ytra sóknardagasvæði. Einn sóknardagur veitir rétt til að stunda veiðar í einn sólarhring á innra sóknardagasvæði. Hverjum sóknardegi á innra svæði má skipta fyrir þrjá sóknardaga á ytra svæði. Þannig er mönnum umbunað með aukadögum fyrir það að sækja lengra og dýpra frá ströndinni.
Þá eru ákveðin svæði friðuð varanlega fyrir ágangi. Frystitogarar eru bannaðir innan landhelginnar, þorskanet eru bönnuð og dragnætur einnig bannaðar. Þeir leggja mesta áherslu á vistvænar veiðar þar sem því verður við komið, með strandveiðiflota sem samanstendur af öflugum flota línuskipa og krókabátum.
Því er samsetning færeyska fiskiskipaflotans verulega frábrugðinn okkar flota. Þeir eru t.d. með um tvo öflug línuskip á móti hverjum togara. Því má segja að á tímum kröfunnar um “vistvænt og sjálfbært” hafi Færeyingar tvö vistvæn skip á móti einu óvistvænu. Hjá okkur er hlutfallið u.þ.b. eitt vistvænt á móti fjórum óvistvænum.... er það eitthvað til að vera stoltur af?
Atli Hermannsson., 9.4.2009 kl. 00:00
Ég sagði þér að þetta væri langt.
En fátt ef nokkuð er okkur mikilvægara eins og komið er fyrir þjóðinni en að leita allra leiða til að hámarka afrakstur auðlindarinnar. Því legg ég til að úttekt yrði gerð á öllum tegundum veiðarfæra. Metin yrðu þau skamm- og langtímaumhverfisáhrif sem þau hafa á lífríkið og þeim gefið vægi í vísitölu eftir visthæfni. Þá væri metinn allur tilkostnaður og þjóðhagslegur ávinningur úr hverjum fiskstofni fyrir sig eftir tegund veiðarfæra eða “sóknarmunstri” sem notuð eru við veiðarnar.
Þá fengi t.d. eldsneytisnotkun vægi í “vísitölunni” sem stuðlaði gæti að minni innflutningi - sem er gjaldeyrissparandi. Því má geta þess að flokkur báta undir 10 tonn að stærð eyðir að jafnaði 0.15 lítra eldsneytis fyrir hvert kíló fisks sem þeir afla, línuskip 0.10 lítra, ísfisktogarar 0.43 lítra og frystiskip 0.75 lítra. Þegar skotið er á olíueyðslu skipa er einnig gott að stiðjast við stuðulinn 165 grömm af olíu á hvert hestafl, pr. klukkustund. Þannig eyðir skip með 10 þúsund hestöfl u.þ.b. 1.600 lítrum á togtímann.
Þá gæti verið tekið tillit til þess að úr hverri milljón í aflaverðmæti á frystitogara er hásetahlutur um 10 þúsund krónur, en á bátaflotanum “eftir fjölda í áhöfn” á bilinu 20 - 120 þúsund. Það er því hreint ekki sama hvernig að veiðum úr takmarkaðri auðlind er staðið - og hvar tilkostnaðurinn lendir.
Þá yrði landgrunnið, kantarnir og úthafið kortlagt með tilliti til hrygninga- og uppeldisstöðva, og hvar ástæða væri að vernda lífríkið fyrir áníðslu. Þannig er auðveldlega hægt að kortleggja veiðisvæði og finna þeim vægi í vísitölunni eftir mikilvægi. Þannig væri með skipulögðum hætti stuðlað að ábyrgri fiskveiðistjórn, þar sem allir útgerðarflokkar sætu við sama borð, þar sem raunveruleg hagkvæmni og hagræðing væri sett í öndvegi – en ekki forheimsk stærðardýrkun.
Svo að lokum Gunnar. Því er stöðugt haldið að fólki að yfir 80% af aflaheimildunum hafi skipt um hendur og núverandi handhafar hafi keypt kvótann. Því verði að bæta þeim með einhverjum hætti skerðinguna ef t.d. fyrning aflaheimilda kæmi til eins og sumir flokkar boða. Ég vil þess vegna benda á; að á löngu árabili eftir að framsalið kom til, afskrifuðu allar stærstu útgerðirnar kvótakaupin hjá sér 15% á ári. Síðast er ég vissi var sú tala að vísu komin niður í 6%. Því tel ég það í besta falli vafasama framsetningu að segja að útgerðin hafi í raun keypt eitthvað - hvað þá greitt eitthvað fyrir það.
Gott í bili. Kv. Atli
Atli Hermannsson., 9.4.2009 kl. 00:04
Takk fyrir innleggið félagar. Enn og aftur vil ég hald mig við kvótakerfið og láta líffræðina bíða. Málið er að þetta verður of flókið ef öllu er blandað saman. Kvótakerfið er hagfræðilegt dæmi til að auka framleiðni og minka kostnað við veiðar. Þar sem ég þekki til hefur orðið gríðarleg breyting hvað þetta varðar. Skipum hefur fækkað gríðarlega, sérstaklega togurum, og það á sama tíma og sótt hefur verið út fyrir landhelgina og í stofna sem aldrei voru nýttir áður. Ég er algerlega á móti því að skipta flota upp og úthluta þannig. Ef við látum markaðinn ráða mun sú aðferð verða notuð sem skilar mestum arði, með minnstum tilkoðnaði. Enn og aftur hefur kvótakerfið ekkert með veiðimagn að gera og hægt að ákveða veiðimagn með hvaða aðferð sem er. En tengingin við markaðinn er lífsspursmál. Tökum dæmi sem solla nefnir hér að framan þar sem Norðmenn eru að nota strandveiðiflota til að sækja fiskinn, einhverja fá mánuði á ári. Það gengur ekki upp gagnvart mörkuðum okkar.
Ég vil sérstaklega benda á að sóknarfæri íslensks sjávarútvegs hefur verið í sölu á ferskum fiski, þar sem erfitt er að keppa við t.d. Kínverja í frosnum hvítfiski sem hrunið hefur í verði. Til að selja ferskan fisk, sem að mestu er seldur í supermörkuðum og á veitingahús, er ekki hægt að bjóða upp á afhendingu fjóra mánuði á ári. Ástæðan fyrir sókn laxins á mörkuðum er einmitt afhendingaröryggi og á sama tíma og útgerðin (sjómenn meðtaldir) fá á milli 10 og 15% af smásöluverði í þroski, skilar laxinn um 45%. Bara út af afhendingaröryggi. Þetta er staða sem hefur verið að skapast með þorsk og ýsu og kvótakerfið er undirstaðan fyrir því. Með því að eignfæra nýtingarréttinn næst þessi nauðsynlega tenging við markaði og hámarks verði er skilað fyrir aflann.
Þú ferð mikinn Árni en það ástæðulaust að gera lítið úr þeim sem þú rökræðir við. Það má vel vera að ég sé bara með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum og viti þess vegna ekkert um þessa hluti. Það er reyndar skrýtið að sjá menn gera lítið úr menntun nú til dags. Þú kennir menntun um hrunið, aðrir kenna frjálshyggju um og enn aðrir einhverju öðru. Það sem er merkilegt við þetta allt er maðurinn er ekki fullkominn og mun aldrei koma sér upp fullkomnu kerfi. Hann mun áfram fara fram úr sér og gera sín mistök. Málið er að erfitt er að finna hárrétt jafnvægi á áhættusækni og varkárni. Við viljum dugandi menn sem tilbúnir eru að taka áhættu, en samt eiga þeir að vera skynsamir og varkárir. Þetta er svona svipað og með makann, hann/hún á að vera myndarleg, gáfuð, góðhjörtuð, dugleg, hraust skemmtileg varkár og allt það. En þetta er tálsýn þar sem enginn er fullkomin og hvað þá mannkynið í heild sinni. Ég skil ekkert í þeim sem krefjast þess að svo sé.
Gunnar Þórðarson, 9.4.2009 kl. 07:20
Varðandi afskriftir aflaheimilda Atli, þá ertu að tala um bókhaldslegt fyrirbæri og kominn langt út fyrir efnið. Allt annað er að taka 20% af kvótanum á ári frá útgerðinni. Reyndar væri þá hreinlegra að taka allt starx og vera ekki að lengja í snörunni. En í minni umræðu hef ég reynt að halda mig frá ,,réttlæti" sem er á könnu stjórnmálamanna að fást við, og tala um hagkvæmni. Það er mun auðveldara að ræða um og hægt að setja niður á Excel og reikna niðurstöðuna út. Réttlæti verður varla fundið út með þeim hætti enda sýnist einum eitt og öðrum annað.
Gunnar Þórðarson, 9.4.2009 kl. 07:24
Sæll Gunnar. Ég kann á köflum að hafa verið kominn langt útfyrir efnið samkvæmt þinni þröngu skilgreiningu. En það sem þú kallar í mínu innleggi “bókhaldslegt fyrirbæri” er kjarnann í kerfinu varðandi eignarhaldið - sem kvótaeigendur vilja samt ekkert heyra á minnst. Það er samt hin napra staðreynd að stærstu kvótaútgerðirnar hafa í raun ekki keypt eitt aukatekið kíló þó þeir stöðugt fullyrði það. Þeir afskrifuðu öll kvótakaup á löngu árabili eftir að framsalslögin komu til um 15% og komu sér þannig hjá því að greiða skatta. Það er kannski þess vegna sem þú og aðrir kvótasinnar vilja halda orðinu “réttlæti” fyrir utan umræðurnar um kvótakerfið.
Það sem hefur breyst seinni árinn í umræðunni um kvótakerfið; er að á tímum Kristjáns Ragnarssonar hjá LÍÚ var sú “praktíska” aðferð notuð að hræra öllu saman þannig að tryggt væri að almenningur botnaði hvorki upp né niður. Þetta var óbrigðult ráð og þannig stjórnaði LÍÚ óbeint umræðunni. Nú ríghalda kvótasinnar í síðasta hálmstráið fyrir óbreyttu kerfi og tönglast á orðinu “afhendingaröryggi”.
Nú síðast í Sjónvarpsfréttum í kvöld var talað við Þorstein Má sem staddur var í Söltunarfélagi Dalvíkur þar sem verið var að flaka í flug á sjálfum Skírdegi. Mái brást ekki skildum sínum og lét það koma skýrt fram að ekki hefði verið hægt að afgreiða þessa pöntun nema vegna þess að allir þættir væru sömu hendi. Ég spyr bara á móti hvort Færeyingar hafi átt í teljandi afhendingar-erfiðleikum vegna sóknardagakerfis þeirra og að eignarhald á veiðum og vinnslu er þar aðgreint. Séu menn hér heima á annað borð hræddir við sóknardagakerfi af “öryggisástæðum” er einfalt að ákveða tiltekinn fjölda í mánuði. Segjum t.d. 16 dagar í júní 22 í september o.sv.frv. byggt á veiðireynslu undangengina ára. Varðandi þorskveiðar Norðmanna á þeirra heimamiðum þá er ekki saman að jafna, vegna þess hversu stór hluti aflans er veiddur á vertíð á Lófótensvæðinu. Þetta er göngu- eða hrygningarfiskur sem gefur sig aðallega á tilteknum tíma á árinu. Það væri kannski ráð að upplýsa hann um að koma sér á togslóð og dreifa hrygningunni á allt árið sem hentaði markaðnum betur.
Það er í mínum huga nokkuð ljóst að kvótakerfið snertir fleiri þætti mannlífsins í landinu en svo að raunhæft sé að einskorða umræðuna um kosti og galla kerfisins við umdeildar úthlutunarreglur og duttlunga kúnnans. Úthlutunin, eða svokölluð aflahlutdeild, er í raun ávísun á ókeypis aðgang að hráefni í eigu þjóðarinnar. Verkun og vinnsla er svo iðnaður á meðan fiskmarkaðir og sala er hluti af þjónustu og dreifingarkerfi. Það er hið minnsta að hafa endaskipti á hlutunum þegar vörudreifing er farin að hafa meira vægi í stjórnkerfi fiskveiða en líf- og vistfræðiþátturinn – þar með talið líf og réttindi fólksins í landinu.
Atli Hermannsson., 9.4.2009 kl. 23:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.