Kafli 3 - Kea og Paros

Ferðin frá Corinthpiraeus.jpgos skurðinum til Piraeus, hafnarborgar Aþenu, gekk vel.  Það er ekkert grín að sigla inn í höfn eins Piraeus þar sem umferðarþungi er mikill og stór skip á fullri ferð í allar áttir.  Við þurftum að ræða við hafnaryfirvöld í talstöðinni til að fá heimild til að koma inn og leiðbeiningar hvar í höfninni við ættum að vera.  Allt gekk þetta vel og vorum við búnir að binda bátinn upp úr miðnætti.  Við Sverrir vorum að sjálfsögðu óþreyjufullir að hitta spúsur okkar sem biðu á gistihúsi í Aþenu.  Við röltum af stað út í nóttina og þvældumst um höfnina án þess að rekast á nokkra sálu né finna leigubíl.  Loksins fundum við einn og innan klukkustundar vorum við komnir í faðm okkar heittelskuðu, komumst í heitt bað og fengum ástúðlega meðhöndlun.  Stína var ánægð að hitta eiginmanninn og með henni í för var tveggja ára gömul dóttir okkar, Hafdís.  Hafdís var afskaplega fyrirferðarmikli og kraftmikil stelpuhnokki og venjulega fullt starf að passa hana of hafa ofan fyrir henni.  Hún var að sjálfsögðu ánægð að sjá skeggjaðan skipstjórann, föður sinn, eftir nokkra vikna siglingu frá Mallorka.

Daginn eftir sagði öll áhöfnin upp sem kom okkur Stínu algerlega í opna skjöldu.  Við höfðum ekki reiknað með að vera tvö með tveggja ára barn með okkur á siglingu um Eyjahafið, en við vorum svo sem vön að höndla Bonny í sameiningu.  Bæði með skipstjórnarpróf og jafnvíg í siglingafræði og að höndla bát og segl.  Við lögðum því þrjú af stað næsta morgun og lá leiðin fyrst til eyjarinnar Kea.

kea_i_eyjahafi.jpgKea er frábær staður og eins og á öðrum eyjum gríska Eyjahafsins er sjálfur bærinn upp í fjalli, nokkra kílaómetra frá höfninni.  Þetta hefur verið svona frá gamalli tíð og til að auka öryggi bæjarbúa, en betra var að verjast upp í fjöllum en niður við sjóinn.  En þokkalegur byggðakjarni er við höfnina og mikið af veitingastöðum.  Á þessum slóðum er venjan að kasta akkerinu út í góðri fjarlægð frá bryggjunni og bakka síðan upp að kantinum.  Binda hanafót upp að aftan og strekkja svo á akkeriskeðjunni þar til fjarlægð frá skut í land var rúmur metri.  Þá var settur gönguplanki í land sem tengdi skip og bryggju. 

Grísk tónlist dunaði og upplýst veitingarhúsin lágu hlið við hlið upp allan kæjann.  Við drifum okkur í land og settumst á matsöluhús sem okkur leist vel á og svo var bara að skiptast á að hafa ofan fyrir Hafdísi meðan hinn helmingurinn naut viðgerninga grískra matreiðslumanna.  Hún var á stöðugum hlaupum um hafnarsvæðið og þurfti að skoða allt og spyrja um alla hluti.

Eftir Kea var stefnan tekin á Paros.  Á þessum slóðum er viðvarandi sunnan átt, sem kölluð er Meltima vindur og því mjög skemmtilegt að sigla.  Það kom fljótlega í ljós að þrátt fyrir yfirnáttúrlegt úthald og þrek sitt þá var Hafdís mjög róleg á siglingu.  Við settum fötu fulla af sjó stjórn-gryfjuna og settum hana ofaní þar sem hún sullaði allan daginn.  Það þurfti bara að bæta við sjó reglulega og þá var mín manneskja ánægð og lét hallan í beitivindinum ekkert trufla sig.  Eftir skemmtilega siglingu komum í höfn á Paros um kvöldleytið og lögðumst að bryggju með hefðbundnum hætti. 

paros_2_807410.jpgParos er vinsæll ferðamannastaður og mikill handagangur í öskjunni með fjörugu mannlíf i á götum og torgum.  Seinnipart næsta dags fórum við í bæinn, sem var steinsnar frá höfninni, til að finna okkur veitingahús fyrir kvöldverð.  Eftir að hafa spurt til vegar og fengið upplýsingar um besta pizzu staðinn í bænum settum við stefnuna þangað.  Þegar nær dró veitingastaðnum heyrðum við kunnuglega rödd  glymja við og segja ,,What do you think of the vikings?"  Þarna var ekki bara kominn Bári Gríms heldur öll fyrrverandi áhöfn Bonnýar ásamt eiginkonu Sverris, Björk.  Sverrir og Björk höfðu rekist á Bára, Ella og Simma fyrir algera tilviljun og nú bættumst við Stína og Hafdís í hópinn.  Það voru fagnaðarfundir og ákveðið að borða saman þarna á pizzastaðnum.  Ég tók hinsvegar hátíðlegt loforð af Bárði að minnast ekki orði á víkinga meira.  Þegar leið á máltíðina sem menn skoluðu niður með grískum bjór sá ég hvar Bári greip í öxlina á einum þjóninum og dró hann varlega að sér og hvíslaði ,,What do you think of the vikings?"  Hann gat bara ekki stillt sig en þjónninn vissi ekki hvað stóð á sig veðrið og skildi ekkert hvert þessi undarlegi maður var að fara.

En allt í einu var Hafdís horfin og nú hlupum við Stína af stað að leita að henni í mannhafinu á aðal torginu á Paros.  Við bókstaflega hlupum um allt kallandi nafn hennar en árangurslaust, þar til komum upp í gamalt ræðupúlt úr steini sem var við torgið að þá sat mín manneskja þar með grískum félaga á svipuðu reki að leika sér með flöskutappa.

Seinna um kvöldið rákumst við á norðmenn, sem okkur þóttu reyndar svolítið sjálfumglaðir en þeir voru þarna á skútu, nokkuð stærri og flottari en Bonny.  Þeir höfðu ákveðið að fara daginn eftir siglandi á litla eyðiströnd norð-austur af höfninni í Paros og eyða einum degi og nótt þar við sund og sólböð og grilla síðan um kvöldið.  Þeir buðu okkur að slást í hópinn sem við þáðum og lagt var af stað í bítið daginn eftir.  Siglingin tók innan við klukkutíma og við vörpuðum akkerum í víkinni og syntum síðan í land.  Þegar þangað kom hittum við tvær írskar stúlkur á evruklæðum einum saman, en á þessari strönd var léttur klæðnaður nokkuð algengur,.  Ströndin er ekki tengd með vegi við byggð á eyjunni og eina aðgengið er af sjó, og því venjulega fámennt þarna.  Við sátum og spjölluðum við stúlkurnar sem síðan buðu okkur upp á hádegisverð sem við þáðum.  Þarna á ströndinni réði ég aðra þeirra, Pauline, í vinnu og í rækjuverksmiðjuna á Ísafirði og átti hún að mæta 10. Október kl. 8:00 sharp.  Allt gekk það eftir og á þeim degi var Pauline mætt til vinnu á Ísafirði og var hún starfandi hjá okkur Stínu næstu tvö árin.

paros.jpgEn nú bættust norðmennirnir í hópinn sem dró frekar úr ánægjunni.  Við fórum því að safna spreki á varðeld og grill kvöldsins.  Við fundum gamlan slipp sem munkar höfðu rekið fyrr á öldinni og þar var mikið magn af eikarbútum sem hentuðu vel á grillið.  Þegar logarnir hurfu og glóðin ein var eftir var kjötið sett á og nú slógum við upp heljarinnar veislu þar sem öllum hópnum var boðið.  Eftir matin var náð í gítar og spilað og sungið fram í stjörnubjarta nóttina.  Máninn merlaði í haffletinum og mótaði fyrir seglskútunum þar sem þær vögguðu letilega út á víkinni.  Fegurð kvöldsins og notalegur bríminn af áfengi hafði áhrif á þennan fámenna hóp og ástin lá í loftinu.  Einn fyrrverandi áhafnameðlimur Bonnýar hafði slegið sér upp með vinkonu Paulinar en sjálf hafði hún lent með einum norðmanninum.  Það þótti okkur illt í efni þar sem hún var bráð myndaleg og örugglega allt of góð fyrir þessa sjálfumglöðu Norðmenn.  En Hafdís var hin rólegasta og svaf svefni hinna saklausu milli pabba síns og mömmu við kulnandi varðeldinn.

Um morguninn þegar við vöknuðum var sólin komin upp og Bonny vaggaði notalega í rólegri haföldunni sem lagði inn á víkina.  Norska skútan var í 200 metra fjarlægð og fljótlega sáum við sunset.jpghreyfingu þar um borð.  Vinkona okkar var sannarlega þarna en við vorum viss um að það gæti ekki verið skemmtileg vist hjá henni.  Fljótlega var kominn galsi í mannskapinn í Bonny og við byrjuð að skutla okkur í hlýjan tæran sjóinn með busli og ærslagangi.  Allt í einu sáum við hvar Paulin stóð upp, hún var enn á evruklæðum, gekk hægum skerfum fram á stafn skúturnar og sveif síðan í mjúkum boga þar til hún klauf renni slétta hafflötin og hvarf í hafið.  Hún tók sterkleg ó ákveðin sundtök með stefnu á Bonny og var komin um borð til okkar innan stundar.  Hún fór aldrei meir um borð í Norska bátinn og taldi sig vera í mun betri félagskap með Íslendingunum.  Þetta var sko upprennandi rækjukerling.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband