Ferð um Uganda - seinni hluti

ferjan_a_nil.jpgNú var komið að Lake Kyoga og ferðinni var heitið til Masindi þar sem hægt var að fá gistingu yfir nóttina.  Við komu að gistihúsinu í niða myrkri þar sem rafmagnið hafði farið af, en þar var allt fullt.  Tvö önnur hótel voru í bænum og reyndist aðeins laust á öðru þeirra og nú hafði verðið heldur betur rokið upp.  En herbergið leit vel út með heitri sturtu og meira að segja sjónvarpi.  En það fylgdi böggul skammrifi þar sem símafélag var með kynningu á hótelinu og eftir kvöldverð byrjaði diskó með „bass and drum" tónlist.  Veggirnir gengu í bylgjum þegar hljóðbylgjurnar skullu á þeim og klukkan 10 fór ég í afgreiðsluna til að athuga með svefnfrið.  Mér var sagt að allt yrði búið klukkan 11 og því ekki annað að gera en halda vöku þangað til og horfa á sjónvarpið.  Korter yfir ellefu var mínum mann nóg boðið og benti ég starfsmanni í móttökunni að ég hefði borgað fyrir nætursvefn en ekki diskó.  Tónlistin hélt á til hálf tólf en þá tóku við mikil gleðilæti með köllum og hlátrarsköllum en mjög hljóðbært var á hótelinu.  Það varð lítið um svefn þessa nóttina.

 

 

sett_a_brusana.jpgÍ bítið daginn eftir héldum við að stað til Apac til að hitta héraðsstjórann og fiskimálastjórann.  Í fyrstu var ekið eftir mjög góðum vegi, fram hjá Murchison Falls þjóðgarðinum.  Þegar honum sleppti vorum við komnir að Níl þar sem hún rennur frá Albert vatni til Kyoga vatns og hittum við nánast beint á ferjuna.  Ferðalagið yfir fljótið tekur stutt af og vorum við komnir yfir á austurbakkann innan tuttugu mínútna.  Ég tók eftir því að fólk var að taka neysluvatn á tuttugu lítra brúsa úr ánni við ferjustæðið.  Bæði var vatnið gruggótt og lá olíubrák á yfirborðinu.  Innfæddir virtust ekki láta það á sig og var mjög fjölmennt á bakkanum af vatnsberum.  Fæstir sjóða þetta vatn enda mikið um veikindi vegna mengað drykkjarvatns.

Fljótlega eftir að komið var á austurbakkann var ekið út af þjóðveginum og inn á annan lélegri vegaslóða.  Hér tóku við skógi vaxin svæði og allt í einu ókum við fram á stórt tré sem elding hafði fellt kvöldið áður.  Tréð lokaði veginum og virtist ekki möguleiki að komast framhjá því.  Maður með öxi var að höggva greinar af því og vildi bílstjórinn bíða eftir því að hann kláraði verkið til að hægt væri að halda á.  Það kom upp í mér Fljótavíkur berserkur og ég réðist á tréð sem var reyndar alsett þyrnum.  Eftir að nokkrar greinar höfðu verið höggnar af og þær dregnar til hliðar virtist vel mögulegt að koma bílnum fram hjá.  Eitthvað var bílstjórinn að mögla en þegar ég hótað að taka við bílstjórninni gaf hann eftir og gekk vel að sneiða hjá trénu og halda ferðinni áfram.  Svona eins og sönnum Fljótvíking sæmir spurði ég um það eftir á hvort þyrnarnir væru nokkuð eitraðir, en ég var allur blóðrisa eftir átökin.  En svo reyndist ekki vera og var ég sárum gróinn degi síðar.

vatn_a_hjoli.jpgAfríski fíllinn þarf að borða í 18 tíma á dag.  Bæði er að hann er gríðar stór, getur orðið upp undir tíu tonn, og eins er fæði hans yfirleitt næringarsnautt og tormelt.  Hann hesthúsar rúmum 200 kg á hverjum degi og drekkur annað eins af vatni.  Fíllinn fær því ekki langan svefn því fyrir utan að nærast þarf að baða sig og hugsa um húðina með því að velta sér upp úr sandi og leir, meðal annars til að kæla sig og losna við sníkjudýr.  En hvað skyldu innfæddir á þessum slóðum þurfa að eyða löngum tíma í að matast, sérstaklega konurnar.  Alstaðar meðfram vegunum eru konur að bera vatn, 20 ltr brúsa á höfðinu.  Hver ferð getur tekið marga klukkutíma á hverjum degi en karlmenn nota yfirleitt reiðhjól og geta þannig flutt fjóra brúsa í einu með því að leiða hjólið.  Fyrir utan vatnið þarf að afla matar og brennis og líklegt að langur tími fari í þetta á hverjum degi.  Þá eru þvottar og annað slíkt eftir, líkt og hjá fílnum.  Líklegt má telja að allur vökutíminn fari í vinnu við að afla matar og vatns ásamt því að huga að börnum og búi, en oft eru konurnar með börnin bundin á bakinu við vatnsburðinn.

 

 

tre_798163.jpgEftir heimsókn í ráðhús Apac var ekið niður á löndunarstað við Kyoga vatn og var fiskimálastjórinn með í för ásamt aðstoðarmanni.  Löndunarstaðurinn var mjög stór og var veiðin nokkuð góð, ólíkt því sem virtist vera við Albert vatnið.  Við hittum yfirmenn löndunarsamfélagsins sem allir töluðu góða ensku og sýndu þeir okkur löndunaraðstöðuna og veiðiflotann.  Eins og við Albert vatnið eru veiðibátarnir tveggja manna árabátar en átta bátar með utanborðsvél tilheyrði svæðinu, en þeir eru notaðir til að sækja fisk frá minni löndunarstöðum, sem oft eru utan vegasambands.  Síðan var okkur boðið á skrifstofu löndunarsamfélagsins sem var í strákofa.  Þegar inn var komið reyndist þetta vera mjög þægilegt og hentugt húsnæði við þessar aðstæður.  Veggirnir sem eru úr leir ná ekki alveg upp að stráþakinu og því gott bil á milli sem hleypir andvaranum inn.  Sjálft stráþakið er góð vörn gegnheitum sólargeislunum og heimamenn sögðu það halda vel vatni þegar rignir.

 

 

 

alfred_i_bmu_office.jpgVið þurftum að skutla farþegum okkar aftur til Apac sem var rúmlega klukkutíma leið og var ákveðið að borða þar hádegisverð.  Þegar við komum að veitingastaðnum þverneitaði ég að fara inn en bauðst til að bíða í bílnum.  Þetta var ótrúleg sóðabúlla og mér var hugsað til þess hvernig eldhúsið liti út ef veitingarsalurinn var svona slæmur.  Það var því ákveðið að fara í supermarkaðinn og kaupa ávexti og vatn.  Þegar þangað kom reyndist verslunin vera hálfgerður kofi, engir ávexti en hægt að fá kók og kexkökur.  Þetta var bara ágætur hádegisverður þó efast megi um hollustuna.

En nú var mál að halda heim og var haldið sömu leið til baka, alla leið yfir á vesturbakka Nílar áður en komið væri á þjóðveginn til Kampala.  Þegar við komum að trénu góða, sex klukkutímum eftir bardagann við um morguninn, var það enn óhreyft á veginum en greinilegt að umferðin fundið sér leið fram hjá því.  Þegar á þjóðvegin kom reyndist hann vera hraðbraut en var reyndar ekki fullkláruð og stóðu framkvæmdir yfir.  Við komum til Kampala seint að kvöldi og eins og venjulega á föstudagskvöldi voru allar götur stíflaðar af umferð og tók langan tíma að komast inn í borgina og síðan heim til Bugalobi.

 

 

bmu.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband