Dagdraumar kommans

 

Fyrrverandi bæjarstjóri Bolungarvíkur, Grímur Atlason, fór mikinn í bloggfærslu sinni í lok síðustu viku.  Ef rétt er munað talaði hann um að frjálshyggjumenn létu fara lítið fyrir sér þessa dagana enda hefði stefna þeirra og kapítalisminn beðið skipsbrot.  Það hlakkaði í kauða enda sér hann fyrir sér útópíu sósíalismans í hillingu, taka yfir eftir sjálfseyðingu þeirra afla sem lagt hafi heims-hagkerfið í rúst.

Bloggari var að velta fyrir sér að spyrna umsvifalaust við fótum og upplýsa bæjarstjórann fyrrverandi um að engan bilbug væri að finna á stefnu og skoðunum bloggara, þrátt fyrir atburði síðasta mánaðar.  En bloggara hugnaðist ekki að ganga í þann félagskap sem lagt höfðu inn athugasemdir við umrædda grein, og var þar leiðum að líkjast.  Bæði var málflutningur höfundar ásamt þeim sem undir  tóku fullur af stóryrðum, upphrópunum og klisjum, en minna fór fyrir rökum og þekkingu.  Ef menn vilja slá um sig hugtökum er lágmark að þeir skilji fyrir hvað þau standa.  Bloggari stór efast um að þessir menn viti hvað kapítalismi stendur fyrir og hvað þá frjálshyggja.  Hvortveggja er vel skilgreint í fræðunum og hægt að gera kröfu til þeirra sem vilja gera sig gildandi með notkun þeirra að kynna sér hvað þau standa fyrir.

Atburðir síðasta mánaðar er enginn bautasteinn yfir kapítalisma eða frjálshyggju.  Hagsveiflur eru ekki bara óumflýjanlegar, heldur nauðsynlegar að áliti margra merkra hagfræðinga.  Reyndar eru hagsveiflur afleiður af kapítalsisma, einkaframtaki og frjálshyggju. En það virkar í báðar áttir, bæði upp og niðursveiflu, enda eru framfarir forsenda þessara afla.  Ef menn vilja finna hagkerfi í heiminum sem er laus við hagsveiflur kemur Norður Kórea og Kúba upp í hugann.  Þar eru engar slíkar enda er hagkerfið og íbúar þessara ríkja við hungurmörk, nánast upp til hópa.  Hvaða ríki eru þá þessi útópía sem bæjarstjórinn fyrrverandi horfir til?  Ekki er það Svíþjóð eða önnur norðurlönd, enda hafa öll þau ríki byggt um velmegun og ríkidæmi með þeirri hugmyndafræði sem um er rætt.  Skandinavía fór í gegnum alvarlega bankakreppu í byrjun tíunda áratug síðustu aldar og eru í alvarlegum vandræðum í dag.  Danir njóta björgunar Evrópusambandsins sem styður dönsku krónuna, hvað sem það kostar þessa dagana.

Það skyldi þó ekki vera Norður Kórea og Kúba sem Grímur og félagar hans horfa til?  Ef þeir vilja hafna kapítalisma, einkaframtaki og frjálshyggju er ekki um mjög mörg önnur ríki að ræða, nema helst í hinum múslímska heimi.  Þar hafa trúarkreddur komið í stað þessara uppbyggjandi hugmyndafræða.  Og þeir sem hafa lesið hagfræði síðustu alda vita að það var einmitt kapítalismi og frjálsræði sem skópu þá velmegun sem ríkt hefur meðal íbúa vesturlanda undanfarna áratugi.  Fyrir þann tíma var hefðarhyggja ráðandi í Evrópu þar sem fátæklingar lutu valdi höfðingja, sem allra náðasamlegast sáu þeim fyrir helstu lífsnauðynjum.  En þó ekki meira en svo að talið var nauðsynlegt að svelta þá til hlýðni. Áður en lýðræði með frjálsræði og almennri velmegun kom til tóku Konungar vald sitt frá guði og höfðingjarnir frá kónginum.  Hvaðan herrarnir í Norður Kóreu og Kúbu taka vald sitt er ekki gott að segja en grunnurinn er ekki langt frá því sem tíðkaðist á fimmtándu öld í Evrópu.

Á síðustu öld var gerð stærsta tilraun mannkynssögunnar þegar kommúnismi var prófaður í nokkra áratugi.  Íbúum þeirra ríkja til mikilla hörmunga, og flest þessi ríki hafa nú snúið við blaðinu og hvað skyldu ríkin eins og Kína og Víetnam nota í dag?  Það skyldi þó ekki vera hugmyndir Adam Smith um einstaklingsframtak of kapítalisma.  Þeir sleppa að vísu lýðræðinu en ágætlega gengur samt að byggja upp efnahagslega velsæld, allavega fyrir útvalin hóp manna.

Kapítalisminn er ekki fullkominn, kannski sem betur fer.  Það er með hann eins og lýðræðið að það besta við hann er hversu ófullkomið hann er.  Flestir merkustu hagfræðingar síðustu aldar höfðu mestar áhyggjur af því að kapítalisminn myndi tortíma sér, ekki af því hann væri svo ómögulegur, heldur vegna þess hversu vel hann virkaði.  Reyndar taldi John Maynard Keynes, áhrifamesti hagfræðingur síðustu aldar, að hann væri að bjarga auðhyggjunni frá tortímingu með því að benda á aukið mikilvægi ríkisumsvifa.  En sá hagfræðingur sem mest áhrif hafði á umræðu um hagsveiflur var Austurríkismaðurinn Scumpeter.  Hugmyndir hans um hagsveiflur og orsökum þeirra voru mjög ólíkar hugmyndum Keynes.  Scumpeter var hugmyndaríkur íhaldssamur hagfræðingur með rómantískar skoðanir á framtíð hagvaxtar og kapítalismans.  Hann taldi reyndar að kapítalisminn myndi líða undir lok, en ólíkt skoðunum Karl Marx sem taldi að hann myndi tortíma sér vegna galla, að það yrði vegna velgengni auðhyggju og kosta sem fjármagnshyggjan hafði og frjálshyggjan myndi líða undir lok vegna þess.  Afskipti ríkisstjórna yrðu meiri og meiri og áhrif stjórnmálamanna aukast sem myndi koma í veg fyrir að frumkvöðlar fengju þrifist til að viðhalda drifkrafti atvinnulífsins.

Það er nákvæmlega það sem bloggari óttast að muni gerast eftir þessa djúpu lægð í hagsveiflu dagsins í dag.  Að í kjölfarið muni stjórnmálamenn sannfæra almenning um nauðsyn þess að þeir axli aukna ábyrgð með meira valdi og áhrif þeirra verði meiri í framtíðinni, á kostnað hins frjálsa hagkerfis.  Þegar má sjá þetta gerast í Bretaveldi þar sem Gordon Brown hefur tekið tuga milljarða punda að láni frá olíuríkjum og Kína til að auka vægi ríkisins í hagkerfinu.  Byggja svo sem tvö flugmóðurskip og dreifa fjármunum til valdra einstaklinga í nafni uppbyggingar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum.  Það er ekki fyrsti spádómur Scumpeters sem rætist í þessari birtingarmynd hagfræði dagsins í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Seigur, Gunnar. Þú segir eins og Churchill: "We will NEVER surrender"!

Ívar Pálsson, 3.11.2008 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 285604

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband