Nuwara Eliya

Lestarferðin

Við félagarnir og feðgarnir Nonni og undirritaður skelltum okkur upp í fjöll um síðustu helgi.  Nánar tiltekið til Nuwara Eliya, sem oft er kallað litla England.  Bærinn er í 2000 metra hæð og því allt annað loftslag og langt fyrir ofan regnskógarbeltið, og minnir töluvert á Enskar sveitar.

Við vorum á leið í golf og ákveðið að gista á gömlum Enskum herragarði sem heitir Hill Club.  Hann er reyndar aðeins fyrir meðlimi en sem útlendingar gátum við fengið tímabundna aðild.  Við höfðum  ákveðið að fara með lest upp í fjöllin þar sem umferðin er hræðileg á Sri Lanka.  Lestaferðin átti að taka um fjóra og hálfan tíma og við bókað á fyrsta farrými í lúxusklefa.  Brottför var klukkan sex á föstudagsmorgun.

Það hafði gengið erfiðlega að fá miða á fyrsta farrými og okkur sagt að ekkert væri laust.  Tekonan okkar á skrifstofunni hvíslaði þá að mér hvort hún ætti að kippa í spotta og redda þessu fyrir okkur.  Það gekk hratt fyrir sig og upp úr hádegi á fimmtudag var búið að afhenda miðana á borðið hjá mér og kostnaðurinn var heilar sjö hundruð krónur fyrir okkur báða.  Það var síðan hringt í mig um kvöldið af manni sem sagðist myndi taka á móti okkur fyrir brottför og fylgja í klefann.

Hill ClubÞegar við komum á lestastöðina var eins og maður væri kominn á nýlendutímann og í sögu eftir Agatha Christie.  Það vantaði bara Hercule Poirot.  Lestin hefur örugglega verið smíðuð á þeim tíma sem hann var að leysa morðgátur en glæsileikinn fölnaður sökum aldurs.  Nú var bara að passa sig á að verða hvorki sá myrti eða glæpamaðurinn.  Í öllum sögum um þennan frækna leynilögreglumann fer illa fyrir báðum þessum aðilum.

Við settumst öfugt, aftast í síðasta vagninn, og lestin skrölti af stað inn í morgunsárið.  Hraðinn var mestur um 60 - 70 km og ójafnir teinarnir rugguðu lestinni til og frá.   Þetta var býsna notalegt og við horfðum á Colombo hverfa í fjarskann og framundan voru fjöllin.  Velgerðarmaður okkar hafði komið með fyrsta legginn til að tryggja að vel færi um okkur, en hann starfar fyrir járnbrautirnar.

Hafi lestin minnt á Poirot þá kom tilefnið til morðsins fljótlega.  Við byrjuðum að stoppa hvar sem hægt var, á brautarstöðum og utan þeirra.  Lengsta stoppið voru þrír tímar, óútskýrt og þegar spurt var um brottför var svarið ævinlega að lagt yrði af stað eftir fimm mínútur.  Ég var á leið í morðingjahlutverkið.

Ellefu tímum eftir brottför komum við á brautarstöðina sem næst er Nuwara Eliya.  Eftir hálftíma ferð með leigubíl vorum við komnir á áfangastaðinn, Hill Club.  Byggður 1886 og eins enskur og hugsast getur.  Við byrjuðum á að kíkja á barinn sem eingöngu er ætlaður karlmönnum.  Blandaði barinn er handan við hornið.  Myndirnar á veggjunum voru af Churchill, Elísabetu og Karli prins.  Okkur leist mjög vel á okkur en komið var undir kvöldverð og ekkert yrði af golfi þennan daginn.

Dress CodeÞað er ,,dress code" í klúbbnum og skilda að mæta í jakkafötum með bindi til kvöldverðar.  Þjónarnir með hvíta hanska og margréttuð máltíð borin fram.  Á eftir settumst við í bókaherbergið með Wiskey fyrir framan arininn, en hitastigið úti var eins og á góðum sumardegi heima í Tunguskógi.  Þegar við skriðum upp í rúmið seinna um kvöldið barst um okkur unaðstilfinning þegar við fundum fyrir hitapoka sem komið hafði verið fyrir meðan við mötuðumst, til að halda á okkur hita inn í draumalandið.

Við fórum snemma á fætur og drifum okkur í golfið.  Það er innan við fimm mínútna gangur á völlinn frá klúbbnum og kaddy captain tók á móti okkur.  Við fengum sinn hvorn kylfusveininn og síðan var byrjað að spila.  Völlurinn er stórglæsilegur og teygir sig út um bæinn og þarf að fara yfir aðalgötuna á leið um hann.  Á einum stað var boðið upp á drykki og áður en við vissum af voru átján holur búnar og okkar beið staðgóður hádegisverður á veitingarstað klúbbsins.  Síðan var bara að drífa sig annan hring og þegar honum lauk um hálf sexleytið fengum við okkur ölkrús og veltumst um af hlátri yfir golfbröndurum.  Notaleg þreytan leið úr manni í djúpum stólum á veröndinni meðan áhrifin af ölinu hríslaðist um hverja taug og við nutum félagsskapsins af hvor öðrum og horfðum yfir kvöldhúmið leggjast yfir iðagrænan golfvöllinn.

Eftir heita sturtu á Hill Club fengum við okkur Vískí og síðan drifum við okkur í jakkafötin og skelltum okkur í kvöldverðin.  Þetta var orðið betra en besta skíðaferð.

Á sunnudagsmorgun vorum við mættir klukkan hálf átta á völlinn þar sem kylfusveinarnir biðu okkar og átján holurnar spilaðar í þessu óvenju fallega umhverfi.  Veðrið eins og best gerist heima á Íslenskum sumardegi með hitastigið rétt yfir 20° C. 

Hola 18Upp úr hádeginu tókum við bíl heim í borgina en stoppuðum á leiðinni í stórri teverksmiðju til að kaupa sitt hvort kílóið af fyrsta flokks tei.  Náttúrfegurðin er mikil í Nuwara Eliya þar sem iðagrænir teakrarnir teygja sig um hóla og hæðir.  Ár og fossar flæða niður hlíðar og þverhnýptir klettar bera við himin.  Þetta var góð ferð í góðum félagsskap.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Þið gætuð bara vanist þessu, félagar! Friðsæld í fjöllunum.

Kveðja úr snjónum í Reykjavík. Ný kyngir honum niður.

Ívar Pálsson, 25.1.2008 kl. 00:19

2 Smámynd: Tryggvi Guðmundsson

Þetta hefur verið flott golfferð hjá ykkur. Þú ert greinilega kominn á golfkrókinn og átt enga undankomu úr þessu.  Erum byrjaðir á skíðum á dalnum en hér í bæ er minnsti snjór á Íslandi, Vestmannaeyjar meðtaldar. Erum fáliðaðir á dalnum, vantar ykkur gömlu félagana. Er ekki kominn tími til að drífa sig heim áður en allt verður vitlaust þarna eystra.

Tryggvi Guðmundsson, 28.1.2008 kl. 15:20

3 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Heill og sæll félagi Tryggvi.  Ég sakna ykkar þarna í snjónum á skíðum í Tungudal.  Ég kem heim um páskana og tek vonandi nokkrar syrpur með þér í púðursnjó, ef veðurguðirnir leyfa.

Ég er alveg kominn á kaf í golfið.  Nú á að endurtaka ferðina til Nuwara Eliya um komandi helgi.  Við förum þrír í þetta sinn, ég Árni vinnufélagi minn og Nonni sonur minn.

Gunnar Þórðarson, 29.1.2008 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband