Hálfrar aldar sögur að Vestan

Fyrir um 50 árum stóðum við Dóri Ebba vinur minn og jafnaldri upp á dag, frammi fyrir því að sækja okkur kvonfang. Við höfðum augastað á ungmeyjum í Bolungarvík en þurftum bara að vinna hug þeirra og sannfæra um ágæti okkar. Ekkert fékk stöðvað okkur, snjóflóð eða aurskriður á Óshlíðinni, enda lá mikið undir hjá ástföngnum ungum mönnum. Eitt sinn ókum við á Willis jeppa sem Ebbi átti, breyttur með háu húddi, sem hannaður var fyrir eyðimerkur hernað Ísraelsmanna. Þegar ekið var inn á breiðstræti Bolungarvíkur, sem venjulega er mannlaust og lítil umferð, fannst okkur eins og við þyrftum að láta á okkur bera. Eins og ungir menn gera þegar þeir gera hosur sínar grænar fyrir ungmeyjum. Dóri setti jeppann í fyrsta gír á miðri breiðgötunni, þeirri einu á Íslandi, og við fórum upp á þak á jeppanum. Þetta er algerlega eðlileg hegðun manna í tilhugalífi, allavega haga fuglarnir sér svona. Þar sem við stóðum upp á þaki jeppans og horfðum yfir sviðið með leitandi augum að okkar heittelskuðu, kemur lögreglan aðvífandi. Einar Þorsteinsson var þar mættur, hann skipaði okkur að stíga niður og hætta þessum fíflalátum. Maðurinn hafði engan skilning á því að við vorum að hefja langtíma samband við bolvískar meyjar, enda þarf að vanda til þess sem lengi á að standa. Þetta væri nauðsynlegt ástarbrím til að ná athygli og hefði átt að vera yfir lög og reglu hafið. Einar heitinn hafði hins vegar engan skilning á þessu, sennilega verið gersneyddur rómantík. Ég er nú rólegheitar maður og yfirvegaður, eins og ég á kyn til. En Dóri er svo andskoti skapstór! Þegar löggan hafði drepið á vélinni og tekið lyklana fauk í minn mann og allt endaði þetta með slagsmálum og við tveir í dýflissunni. Þar hófust miklir samningar sem enduðu með því að okkur var sleppt með því fororði að við kæmum aldrei aftur til Bolungarvíkur. Sá samningur var marg brotinn, enda unnum við hjörtu ungmeyjanna, sem hefur borið ríkulegan ávöxt í gegnum tíðina. Dóri flutti meira að segja til Bolungarvíkur um tíma, og eftir því sem ég best veit var þeim Einari vel til vina. Við áttum eftir að fara marga svaðilförina um Óshlíðina, oft þannig að hún var nánast ófær vegna grjóthruns og einhverju sinni ætlaði Pimmi að skutla okkur ef festi Willisinn sinn ofan á snjóflóði. Ekkert fékk stoppað okkur á þá daga. Eitt sinn vorum við Daddi bróðir að aka á Dodsinum hans pabba, á eftir Willisinum hans Ebba út Óshlíðina, og Dóri undir stýri. Palli skólabróðir Dadda var með og allt í einu sjáum við Willisinn fljúga út af veginum og endasendast niður snarbratta hlíðina. Margt fór í gegnum hugann þegar ég hljóp niður brattann í átt að jeppanum. En fljólega kom ég að einum liggjandi og lifandi, sem hafði flogið út um afturgluggann. Á þessum jeppum var yfirbygging úr timbri, og neðar kom ég að þakinu þar sem hinir tveir lágu óslasaðir á því. Jeppinn lá hins vegar ónýtur ofaní fjöru og rauk úr honum. En ástir okkar í Bolungarvík entust vel og lengi og kominn heilir ættleggir út frá ævintýrinu. Í gær kvöddum við hins vegar eiginkonu Dóra, Ásgerði Kristjánsdóttur sem nú er sárlega syrgð. Glaðværasta og jákvæðasta manneskja sem ég hef kynnst um ævina, blessuð sé minning hennar. En eftir stendur vinátta okkar þriggja, mín, Dóra og Pimma. Við stofnuðum hljómsveitina, Tigers, sem enn er til. Það eina sem hefur þvælst fyrir okkur á framabrautinni er hæfileikaleysi okkar í tónlist, við getum hvorki lært á hljóðfæri né sungið. En eftirspurnin um að komast í hljómsveitin er gríðarleg. Jómbi vinur okkar hefur sótt um árlega en er ávallt hafnað.

Gunni Tóta Júl


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 285833

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband