Grein í BB 23. maí 2019

Loftslagsbreytingar af mannavöldum

Meðalhiti á jörðinni hefur hækkað um 0,85 °síðan 1880 sem vísindamenn tengja við aukningu á CO2 í andrúmsloftinu, frá 278 ppm (1750) upp í 412 ppm í dag. Það er engin spurning að hlýnun jarðar af mannavöldum er stærsta áskorun sem jarðarbúar hafa staðið frammi fyrir. Verkefnið er yfirþyrmandi og mikilvægt að þjóðir heims taki sig saman um lausn málsins og geri sér grein fyrir að um hnattrænan vanda er að ræða.

Undirritaður lítur á sig sem umhverfissinna en oftar en ekki getur hann alls ekki samsamað sér þeim sem mest hafa sig í frammi um þessi mál, og virðast oftar en ekki láta ráðast af ofstæki og pólitískum rétttrúnaði. En vilji Íslendingar hafa áhrif á heimsvísu og mark sé á þeim takandi þurfa þeir að vera til fyrirmyndar, en samstaða hér innanlands er alger forsenda þess. Notast við hlutlægt mat en enn byggja á tilfinningum einum eða láta stjórnmálaskoðun afvegaleiða umræðuna.     

Aukning á losun gróðurhúsalofttegunda skrifast að mestu leyti á bættan efnahag fjölmennra ríkja í Asíu, s.s. í Kína og Indlandi. Þar eru minni kröfur gerðar um útblástur farartækja og orkuvera en t.d. í Evrópu, en skiljanlegt að erfitt sé að sannfæra þessar þjóðir um að draga úr hagvexti til að bjarga heiminum. Aukning á lífsgæðum í þessum löndum skýrir aukningu á orkuþörf og matvælaframleiðslu, fjölgun farartækja og eyðingu skóga í heiminum. Losun gróðurhúsalofttegunda er hnattrænt vandamál og tekur ekkert tillit til landamæra.

„Umhverfissinnar“ viðast ekki sjá skóginn fyrir trjám í baráttu sinni og stað þess að skapa sátt meðal almennings um að bæta umgengni um umhverfið berjast þeir hiklaust gegn jákvæðri þróun sem dregur úr losun á gróðurhúsalofttegundum í heiminum. Tökum dæmi!

Þessi háværi fámenni hópur hefur markvisst barist gegn stóriðju á Íslandi, þó ljóst megi vera að mikilvægasta framlag Íslendinga í loftslagsmálum er einmitt stóriðja sem nýtir umhverfisvæna orku. Álver á Íslandi mengar brot á við álver í Kína sem notar brúnkol sem orkugjafa. Ef við lokuðum öllum álverum á Íslandi myndi það ekki hafa nokkur áhrif á heimsmarkaðinn, þar sem framboðið yrði aukið frá kínverskum álverum en stórauka losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig þarf að hafa í huga þegar rætt er um ál að sá málmur er, fyrir utan framleiðsluna sjálfa, mjög umhverfisvænn þar sem hann léttir farartæki og einnig er ódýrt og umhverfisvænt að endurnýta hann.

Mikið er talað um mengun af völdum kísilvera og barist gegn framleiðslu þeirra á Íslandi. Kísill er notaður við framleiðslu á sólarrafhlöðum þannig að taka þarf það inn í myndina þegar talað er um losunina við framleiðsluna, að hann er forsenda þess að nýta umhverfisvæna orku.

„Umhverfissinnar“ berjast með hnúum og hnefum gegn umhverfisvænum virkjunum á Íslandi þó einmitt það sé okkar framlag til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda á heimsvísu. Þeir berjast einnig gegn lagningu flutningslína sem veldur mikilli sóun í Íslenska raforkukerfinu. Með aukningu á bráðun jökla, vegna gróðurhúsalofttegunda, eykst afl virkjana en ekki er hægt að nýta þessa orku þar sem flutningkerfið hefur ekki undan.

„Umhverfissinnar“ berjast gegn laxeldi á Íslandi. Laxeldi er umhverfisvænasta próteinframleiðsla sem til er og samkvæmt úttekt FAIRR (https://www.fairr.org/index/) eru fjögur laxeldisfyrirtæki af fimm próteinframleiðslu með lægstu umhverfisáhættu á heimsvísu, og reyndar sex meðal þeirra öruggustu af 11 fyrirtækjunum í heiminum. Í öllum samanburði við hefðbundinn landbúnað skorar eldi mjög hátt sem umhverfisvæn framleiðsla. Hvalaafurðir skora vel sem umhverfisvænasta kjötframleiðsla sem til er, en „umhverfissinnar“ berjast gegn þeim af miklu offorsi. Þeir berjast gegn notkun áburðar sem er forsenda þess að hægt sé að fæða níu milljarða jarðarbúa. Ef öll framleiðsla yrði „vistvæn“ dygði ekki að höggva alla skóga jarðar fyrir ræktarland og sótspor stóraukast við landbúnað, þar sem framleiðni mynd dragast verulega saman. Þessi barátta gegn umhverfisvænni framleiðslu matvæla hefur verið einstaklega óvægin og tilgangurinn helgar meðalið og ekki skirrst við að halda fram staðleysum og ósannindum. Þessi barátta gegn umhverfisvernd er drifin áfram af auðmönnum sem leggja til umtalsverða fjármuni til áróðurs og afvegaleiða almenning í málinu.

Á sama tíma talar enginn um fílinn í stofunni en hefðbundinn landbúnaður (kjöt- og mjólkurframleiðsla) stendur undir 11% próteinþörf heimsins og notar til þess 83% af ræktarlandi. Enn er verið að höggva skóga í stórum stíl til að auka framleiðslu á kjöti og mjólk. Á Íslandi hafa bændur grafið skurði sen jafngilda vegalengdinni í kringum hnöttinn, til að þurrka upp mýrar. „Umhverfissinnar“ láta sig það í léttu rúmi liggja, enda telur það ekki með í „bókhaldinu“, en um er að ræða mesta skaðvaldinum hér á landi við losun gróðurhúsalofttegunda. Framleiðsla á kindakjöti losar um 40 kg af CO2 við framleiðslu á hverju kíló af kjöti. Ef Íslendingar myndu stilla framleiðslu á kindakjöti við eftirspurn á heimamarkaði væri hægt að minnka framleiðslu um 4.000 tonn af kjöti, sem minnkar losun um 160 þúsund tonn af CO2. Þá er ótalin sótsporin við að flytja kjötið, niðurgreitt af ríkinu, á fjarlæga markaði. Landbúnaður losar um 24% af öllum gróðurhúsalofttegundum í heiminum en samgöngur um 14% þannig að augljóst er hver sökudólgurinn er.

Það er einmitt í samgöngum sem Íslendingar geta verið góð fyrirmynd í umhverfismálum. Sjávarútvegur hefur staðið sig mjög vel og dregið hefur stórkostlega úr sótspori við veiðar og vinnslu. Mestu munar skipulag og stjórnun með kvótakerfi sem hefur aukið veiði miðað við sókn. Fiskveiðiflotinn er einnig mun umhverfisvænni í dag og með þróun á hönnun skipa, bættum vélbúnaði og jafnvel orkuskiptum um borð og í vinnslunni hefur Grettistaki verið lyft. Rafbílavæðing er mikið í umræðunni en ekki er allt sem sýnist í þeim efnum, en sótspor við framleiðslu á rafhlöðum er umtalsverð og dregur verulega úr jákvæðum áhrifum orkuskipta. Bílar eru einungis að losa um 4% af heildarlosun í heiminum þannig það eitt og sér leysir ekki málin.

Það er alltaf stutt í viljann til skattheimtu hjá „umhverfissinnum“ þegar kemur að baráttu við losun gróðurhúsalofttegunda. Umhverfisskattar á almenning eru um fimm milljarðar á ári og krafan um frekari skatta, sérstakleg á fyrirtæki er hávær. Ef Íslendingar skattleggja álverin frá sér með umhverfissköttum aukum við einfaldlega mengun í heiminum. Ef skattar eru ekki settir til að liðka fyrir orkuskiptum, eru þeir ekki umhverfisvænir og ganga einfaldlega út á að auka tekjur ríkissjóðs.  Kolefnisgjald á flug dregur ekki úr sótspori en eykur bara kostnað almennings. Enginn möguleiki er fyrir flugfélög að skipta yfir í umhverfisvænni orku. Varla vilja Íslendingar nota kolefnisskatt til að draga úr ferðalögum almennt séð? Við búun á stjálbýlli eyju og þurfum því meira en aðrir á flugi að halda.

Ef Íslendingar vilja hafa áhrif á heimsvísu og vera til fyrirmyndar er nær að tryggja stuðning almennings. Mikilvægt er að nota hlutlægt mat á losun gróðurhúsaloftegunda og almennt að gera sér grein fyrir því að vandamálið er hnattrænt. Umræðan þarf að byggja á hlutlægum sannleika en ekki huglægum eða pólitískum rétttrúnaði. Huglægur sannleikur dugir vel í trúarbrögðum en er ekki nothæfur í umræðu um umhverfismál og virkja almenning til að draga úr mengun og hnattrænni hlýnun.

Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Ég tel að lambakjötsframleiðsla mengi ekki svona mikið, hvað mikið co2 yrði ūr grasinu þegar það visnar og deyr að hausti, sem lambið hefði annars étið um sumarið

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 24.5.2019 kl. 15:19

2 Smámynd: Haukur Árnason

" Framleiðsla á kindakjöti losar um 40 kg af CO2 við framleiðslu á hverju kíló af kjöti"

Hef aldrei séð hærri tölu en 28 kg fyrr, hvaðan kema 40 kílóin ?

Góð grein í Bændablaðinu um þetta, þar kemur fram að þessir útreikningar séu á miklum villigötum.

Haukur Árnason, 25.5.2019 kl. 02:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband