Grein í Fiskifréttum 28. ágúst 2016

Varúðarregla í sjávarútvegi

Sterkari veiðistofnar

Það er áhugavert að lesa greinar Kristjáns Þórarinssonar stofnvistfræðing SFS í Fiskifréttum. Sú jákvæða þróun sem orðið hefur á Íslenska þorskstofninum er gríðarlega mikilvæg fyrir þjóðarbúið. Að sjálfsögðu er það þó sjávarútvegurinn sem nýtur þess helst, með lægri kostnaði við veiðar, minni vinnu og meiri tekjum fyrir sjómenn. Allir græða á öflugum veiðistofnum og varúðarleiðin, eins og Kristján kallar þá stefnu sem farin var, hefur heldur betur skilað árangri. Eins og Kristján bendir á þá hefur tekist að stækka stofninn á undangegnum árum, þrátt fyrir tiltölulega lélega nýliðun í þorskstofninum.

Lækkun kostnaðar

Þegar undirritaður var togarasjómaður stóðu túrar frá 7 til 10 daga og þótti gott ef skrapað var saman 100 tonnum. Þrátt fyrir að öllum ráðum væri beitt, þ.m.t. flottrolli sem góðu heilli er nú bannað, var veiði pr. úthaldsdag hjóm hjá því sem er í dag. Flotinn var allt of stór og sjómenn almennt löptu dauðann úr skel. Í dag ganga veiðarnar út á að taka nógu lítil höl til að hámarka gæði aflans, en fiskaflinn er nægur og kostnaður við að sækja hvert kíló hefur lækkað umtalsvert. Olíueyðsla á hvert kíló hefur snarminnkað, sem bæði lækkar kostnað og minnkar sótspor við veiðar. Í dag eru togveiðar sennilega hagkvæmasti kosturinn við þorskveiðar og með nýjum skipum mun togarflotinn verða sá umhverfisvænsti á Íslandsmiðum.

Freistnivandi stjórnmálamannsins

En það er ekki sjálfgefið að slíkur árangur náist og ekki hafa allir verið sammála um vegferð varúðarleiðarinnar. Smábátasjómenn eru enn að tala um að auka afla, ekki byggt á neinum vísindum heldur brjóstviti. Sjómenn hafa ekki allir verið sammála um þessa stefnu stjórnvalda og hafa oftar en ekki talað gegn henni. Aðferðin sem byggir á að veiða 20% af veiðistofni hefur oft verið til umræðu og margur stjórnmálamaðurinn hefur talað fyrir því að hækka þetta hlutfall. Sem betur fer hafa vísindamenn okkar staðið fast í fæturna og barist fyrir varúðarleiðinni, reyndar með góðum stuðning útgerðarmanna sem virðast hafa litið til langatímahagsmuna frekar en skammtíma.

Ýsuveiðin

Eitt gleggsta dæmið um rangar ákvarðanir var þegar veidd voru um 100 þúsund tonn af ýsu, þrátt fyrir að vitað væri um lélega nýliðun stofnsins. Það kom ekki vísindamönnum á óvart að í fyrstu veiddist mest smáýsa og síðan þegar frá leið var ekkert orðið eftir annað stórýsa. Ef notuð hefði verið varúðarleið á þessu tíma og veiðin miðuð við t.d. 60 þúsund tonn og verið jöfnuð út yfir nokkur ár hefði verðmæti útflutnings hugsanlega stóraukist. Hinsvegar hafðist ekkert undan að vinna ýsuna í veiðitoppnum og verðmæti útflutnings hrundi.

Umræðuhefðin

Undirritaður sótti marga fundi þar sem vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar töluðu fyrir varúðarleiðinni og sátu undir ótrúlegum dónaskap frá fundarmönnum sem vildu bara veiða meira. Ég man sérstaklega eftir slíkum fundi á Hótel Ísafirði þar sem undirritaður tók undir sjónarmið fiskifræðinga og var úthrópaður fyrir vikið. Á útleið af fundinum fékk ég fúkyrðaflaum yfir mig og ég kallaður illum nöfnum, eins málefnalegt og það nú er.

Fiskifræði sjómannsins eru engin fræði, enda eru margar útgáfur til af henni sem litast af þrengstu hagsmunum á hverjum stað, eftir því hvort menn eru að veiða loðnu, þorsk í net, krók,eða troll. Eitt dæmið um slíka vitleysu er herför gegn dragnót, sem engin vísindaleg rök standa undir. Aðeins vegna þrýstings frá smábátasjómönnum, en vegna fjölda þeirra hafa þeir mikil áhrif á umboðsmenn sína á þingi.

Það er lífsspursmál fyrir Íslendinga að stunda ábyrgar veiðar og gera allt sem hægt er til að viðhalda sterkum fiskistofnum á Íslandsmiðum. Það er eitt af grundvallaratriðum til að halda uppi verðmætasköpun í sjávarútveg og lífskjörum í landinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þú ert með stórmeistaragráðu í bulli Gunnar minn.  Skaðinn af óþarfa stækkun þorskstofns um 100 þúsund tonn - er að auki 100 þúsund tonn af rækju og 200 þús Tn af loðnu s - samtls aflatap upp á 400 þúsund tonn.  Svo er það engum " að þakka" nema náttúrinni - að hafa komið með makrílinn - og makríllinn er stærsta skýringinn á stærri þorskstofni Það varð að koma meiri fæða - til að stofninn gæti stækkað.  En þú ert með hausinn "frosinn" í þessari dellu. Við því er ekkert að gera.

Kristinn Pétursson, 15.8.2016 kl. 14:06

2 Smámynd: Jón Kristjánsson

Það er ekki stofnstærðin sem skiptir máli heldur aflinn. Varúðarreglan, veiða 20% af stofni í stað 35-40% hér áður, þegar aflinn var 4-500 þús tonn, gerir það að verkum að aldrei verður veitt meira en nú. Eigi að auka afla með þessa reglu í gildi þyrfti stofninn að tvöfaldast í stærð, og það ber fæðuauðlindin ekki. Ástæða aukningar í stórþorski er að nú er til fæða fyrir stóran fisk, síld og makríll, en þegar þeir hverfa af miðunum á haustin leggst stórþorskurinn á eigin afkvæmi. þess vegna er nýliðun léleg (þrátt fyrir stóran hrygningarstofn og kannski vegna hans) Árangur svipaðrar varúðar í  kring um 2000 olli stofnhruni, og kvótinn fór í 140 þús tonn. Þetta er vistfræðileg og hagfræðileg della: aflatap upp á 200 þús tonn á ári. 

Jón Kristjánsson, 15.8.2016 kl. 16:43

3 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Gunnar minn a´hvaða togurum varst þú eiginlega. Ég kannast ekki við svona lélegan afla. Enda ef aflinn hefði verið svona lélegur þá sætum við ekki uppi með hlandvitlausasta kvótakerfi sem nokkrum mönnum gæti dottið í hug.

Svo talar þú um hagkvæmni veiða í troll. Ég var lengst að á togurum. En línu og netabátar eyða bara broti af þeirri olíu sem togarar gera.

Að lokum, eini fiskifræðingurinn sem talar af einhverju viti um hlutina er. Jón Kristjánsson. Ef menn hefðu rænu á að hlusta á hann, þá er ég viss um að staðan væri allt önnur í þjóðfélaginu.

En það virðist vera eins og einhver vírus á Íslandi að hlust alls ekki á þá sem hafa eitthvert vit í hausnum.

Steindór Sigurðsson, 16.8.2016 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband