Mikilvægi eignarréttar

Stjórn fiskveiða
Í grein sem Guðjón Arnar Kristjánsson ritar í Fiskifréttir undir heitinu „Er leitað að sátt?“ ræðir höfundur um innleiðingu kvótakerfisins og telur það hafa verið sett á vegna hruns í þorskstofninum. Þetta er mikill misskilningur en kvótakerfið var sett á 1984 til að ná efnahagslegum markmiðum, þar sem veiðiflotinn var orðin miklu öflugri en afkastageta veiðistofna gaf tilefni til. Það þurfti ekki kvótakerfi til að takmarka veiðar og byggja upp fiskistofna! En aðrar hugmyndir að stjórnun veiða s.s. sóknarmarksleiðin kölluðu á mikla sóun og var metin nánast ómöguleg til að byggja upp atvinnugrein sem skila myndi arðsemi til framtíðar. Guðjón var mikill talsmaður sóknarkerfis og ásamt mörgum bentu á þá leið sem Færeyingar ákváðu að fara við stjórnun fiskveiða. Staðan hjá frændum okkar í dag er sú að botnfiskveiðar þeirra hafa hrunið og greinin er rekin með miklu tapi, þar sem kostar fleiri krónur að sækja fiskinn en hann skilar í verðmætum. Færeyingar hafa farið ranga leið með sína fiskveiðistefnu og lítið ber á þeim núna sem um áratuga skeið börðust fyrir innleiðingu sama kerfis hér á Íslandi. Það er rétt að benda á aðra staðreyndavillu í máflutningi greinarhöfundar um að LÍÚ hafi barist fyrir kvótasetningu, en hún var mjög umdeild í þeirra röðum.
Neikvæð umræða
Umræðan um þetta mikla hagsmunamál þjóðarinnar hefur verið á neikvæðum nótum þar sem reynt hefur verið að gera íslenska útgerðamenn tortryggilega og nánast að óvinum þjóðarinnar. Þessi aðferð er svo sem vel þekkt í sögunni, en fer alveg á mis við faglega og skynsamlega umræðu. Upphrópanir og frasar eins og; „kvótagreifar“og „sægreifar“ er notað í röklausri umræðu og hagsmunasamtök þeirra kölluð „grátkór“, sem er mjög gildishlaðið orð. Þessi umræða er engum til sóma og sérstaklega ekki fólki sem á stöðu sinnar vegna að taka ábyrga afstöðu í einu mesta hagsmunamáli þjóðarinnar, t.d. þingmenn. Þrátt fyrir einstakan árangur íslensks sjávarútvegs hafa forsvarsmenn atvinnugreinarinnar þurft að sitja undir slíkri umræðu. Þegar Guðjón talar um velgegni norsks sjávarútvegs gleymist að nefna að íslenskur sjávarútvegur skilar mun hærra framlegðarhlutfalli en norskur, einmitt vegna þess að við búum við skynsamara og betra stjórnkerfi fiskveiða en þeir.
Eignarréttur og spilling
Það sem áðurnefndur greinarhöfundur virðist ekki skilja, er að einmitt vegna eignarréttar á nýtingu afla við Íslandsmið hefur þjóðin náð þessum árangri í sjávarútvegi, þar sem bein tenging veiða, vinnslu og markaðar hámarkar verðmætasköpun. Í bókinni „The Rational Optimist“eftir Matt Ridley, er rætt um mikilvægi eignarétta á afkomu þjóða. Þar kemur fram að ein ástæðan fyrir fátækt í Afríku er skortur á eignarétti og einmitt í þeim löndum innan álfunar sem búa við tryggan eignarétt ganga hlutirnir betur. Þrátt fyrir að Botswana hafi gengið í gegnum allskyns hremmingar, jafnvel á Afrískan mælikvarða, hefur ríkið búið við mesta hagvöxt í heimi þrjátíu ár eftir sjálfstæði, um 8% á ári. Einmitt vegna menningar sem byggir á eignarétti og tryggir hann. Öðru máli gegnir í Egyptalandi þar sem eignaréttur ekki virtur og tekur um 14 ár að fá lóð undir íbúðarhús. Nánast enginn bíður eftir því og íbúar landsins byggja því ólöglega. Fyrst hæð handa sjálfum sér og síðan nokkrar hæðir ofaná fyrir ættingja og vini, til að fjármagna bygginguna. Ekki er hægt að veðsetja ólöglega eign og því ekki hægt að fá lán. Til þess að þetta gangi nú upp þarf að múta embættismönnum til að fá frið, en spilling fylgir fast á eftir skorti á eignarétti. Kostnaður samfélagsins er óhóflegur vegna þessa þar sem komið er í veg fyrir eðlilega nýtingu fjármagns.
Pólitísk úthlutun gæða
Þetta væri einmitt raunveruleikinn ef Halldór Ásgrímsson hefði ekki með harðfylgi komið kvótanum á í íslenskum sjávarútveg og ríkið hefði fengið yfirráðarétt yfir nýtingu sjávarafla. Með því tryggði hann eignarétt á nýtingarétti afla og snéri þannig viðvarandi tapi útgerðar í arðsemi sem er einstök á heimsvísu. Flestar þjóðir stefna nú í þessa átt með sinn sjávarútveg.
Byggðakvótinn er einmitt gott dæmi um um skort á eignarétti þar sem pólitískir aðilar útdeila gæðum til þeirra sem eru þeim þóknanlegir. Ekki er horft til arðsemi við þá úthlutun og mörg dæmi um misbeitingu á þessu valdi, enda er hver höndin upp á móti annarri við úthlutun byggðakvóta. Á hverju ári hafa menn tekist á um þessa úthlutun í mínum heimabæ og er árið 2015 þar engin undantekning og lítil sátt um ráðslagið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér, Gunnar, fyrir afar fróðlega og vandaða vefgrein um stjórnun fiskveiða.  Þú bregður hér ljósi á sögu "kvótakerfisins", gríðarlegan árangur þess og yfirburði gagnvart annars konar veiðistjórnunarkerfum.  Það væri ekkert minna en skemmdarverk og aðför að hagsæld sjávarbyggða og landsins alls að afnema afnotarétt útgerðanna á auðlindinni, sem þjóðin á, og ríkið hefur þannig fullan rétt til að stjórna nýtingu hennar og hefur gert það með dyggilegri aðstoð Hafrannsóknarstofnunar, enda er umgengnin við auðlindina talin til fyrirmyndar á alþjóðavísu.

Bjarni Jónsson, 12.2.2015 kl. 20:50

2 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Árið 1982 þá var stærð þilskipaflotans um 120.000 tonn (leiðrétt fyrir breytingu úr brúttólestum yfir í brúttótonn)og veiddi flotinn 3,2kg á brúttótonn. Árið 2012 þá var stærð flotans 162.000 tonn og veiddi flotinn 1,3kg á brúttótonn. Ef leiðrétt er fyrir aukinni afkastagetu vegna tækniframfara og betri skipa, sem er kannski um 0,5 til 1% á ári að meðaltali, þá er raun afkastageta fiskiskipaflotans í dag um 0,9 til 1,1kg á brúttótonn. Árið 1982 þá var meðalaldur fiskiskipaflotans 17ár en var orðin 25 ár 2012. Fjöldi þilfarsskipa og togara árið árið 1982 var 841 en var komin niður í 834 árið 2012. Ef kvótakerfið var sett á 1984 til að ná efnahagslegum markmiðum með minnkun flotans og þar með draga úr afkastagetu þá hefur sú aðgerð misheppnast.

Sjávarútvegur á Íslandi er það stór og mikilvægur Íslandi að raungengi ISK hefur endurspeglað sjávarútveginn sem er eðlilegt og skapar sjávarútvegnum stöðugleika sem er undirstaða þess að hann skilar hagnaði. Færeyingar hafa hinsvegar de facto evru og endurspeglar raungengi evru ekki mikilvægi sjávarútvegs í Færeyjum og því minni líkur á að sjávarútvegur þar standi undir sér frekar en í öðrum evrulöndum enda eru aðrir og mikilvægari hagmunir þar í húfi heldur en fiskur. Að kenna fiskveiðistjórnunarkerfinu í Færeyjum um afkomubrest í sjávarútvegi í Færeyjum gengur ekki upp. Norska olíukrónan hefur ekki farið vel með Norskan sjávarútveg enda er gengi NOK ekki raungert við þarfir sjávarútvegs og hefur lítið að gera með fiskveiðistjórnun heldur er minni hagsmunum fórnað fyrir stærri (olíu).

Kvótakerfið er komið til að vera en það er langt í frá að það sé gallalaust. Sem dæmi þá hefði verið eðlilegra strax í byrjun að tryggja að hluti (10-20%) botnfiskkvótans væri tengdur byggðarlögum á þann hátt að einstaklingar og fyrirtæki (ekki bara fiskiskip) réðu yfir kvótanum en framsal og uppboð væri innan afmarkaðra atvinnusvæða eða byggðarlaga. Með því hefðu byggðarlög traustari grunn til að byggja á og frekari pólitískum afskiptum af úthlutun byggðakvóta hefði verið afstýrt að mestu strax í upphafi.

Það er de facto eilífur eignaréttur á nýtingu afla við Ísland sem hefur verið jafnvel verið veðsettur fyrir fjárfestingum í óskyldum greinum og sett þar með óþarft álag á greinina þegar illa gengur sem aftur kemur fram í raungengi krónunnar sem þarf að vera lægra til að standa undir fjárfestingaafglöpum á hverju tíma eins og hruninu 2008. Ef nýtingarétturinn er tímabundinn og afskrifast eins og annað í sjávarútvegnum þá er tryggt að þeir hæfustu á hverjum tíma bjóði í nýtingarréttin og hámarki þar með arð þjóðarinnar af auðlindinni. Samanburður við Botswana og Egyptaland við sjávarútveg á Íslandi er beinlínis út í hött. 

Það er ákveðin þversögn í því að tala annarsvegar um markaðslega aðkomu að sjávarútvegi á Íslandi þegar verð á fiski er ekki ákveðið alfarið á markaði heldur þarf sérstakt ríkisbatterí sem ákvarðar fiskverð. Hærra fiskverð við bryggju með því að allur afli taki markaðsverð skilar betri afkomu fyrir samfélagið heldur en ríkisverð sem er um 30% lægra en verð á frjálsum markaði og þar með betri lífskjörum í landinu. Eins verður erfiðara að flytja hagnaðinn aftar í virðiskeðjuna og jafnvel úr landi.

Eggert Sigurbergsson, 13.2.2015 kl. 12:19

3 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Að sjálfsögðu átti þetta að vera tonn á tonn en ekki kg á tonn! Biðst velvirðingar á þessum mistökum.

Eggert Sigurbergsson, 14.2.2015 kl. 16:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 285747

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband