Eigið fé í sjávarútvegi - Grein í Fiskifréttum 5. des 2014

Endurgjald til eiganda fyrirtækja
Á sjávarútvegsráðstefnunni á dögunum tókust Daði Már Kristófersson og Steingrímur J. Sigfússon á um arðgreiðslur sjávarútvegfyrirtækja í tengslum við veiðigjöld. Sá síðarnefndi átti ekki orð yfir því að sum fyrirtæki greiddu hluthöfum hærri arð en veiðigjöld til ríkisins og taldi að þjóðin væri með því hlunnfarin. En er það svo og er eitthvað óeðlilegt við að greiða arð til hluthafa?
Í markaðshagkerfi þykir það eðlilegasta mál að hluthafar greiði sér arð af eign sinni. Ef það væri ekki myndu fáir fjárfesta í fyrirækjum og því erfitt um vik að fjármagna rekstur sem venjulega er fjármagnaður með hlutafé eða lánsfé, þar sem það fyrrnefnda er venjulega dýrara en það síðarnefnda. Eðlilega þar sem hluthafinn tekur meiri áhættu með því að leggja eigið hlutafé undir um að reksturinn gangi, en lánveitandi tryggir sig með veðum eða ábyrgðum. Þetta er reyndar grunnurinn að hlutafélagaforminu þar sem atvinnurekandi leggur hlutaféð undir en ber venjulega ekki ábyrgð umfram það. Enska heitið dregur einmitt dám af því eða takmörkuð ábyrgð (limited liability company) en þetta félagaform er eitt af grunnstoðum vestrænnar velmegunar.
Sjávarútvegur og markaðshagkerfi
Þar sem hlutaféð er dýrari kosturinn þarf að finna jafnvægi í því hversu mikið eigið fé fyrirtækja er, of lítið eigið fé gerir lánveitanda órólegan sem krefst þá hærri vaxta og of mikið eigið fé krefst meiri hagnaðar til að skila fjárfestum eðlilegu afgjaldi af eign sinni. Ekki er langt síðan N1 greiddi út háa arðgreiðslu til eiganda sinna, til að stilla þetta af, enda lánin ódýrari en hlutaféð. Í umræðu um arðgreiðslur í sjávarútveg þarf að líta til þess hvort greinin sem heild er að greiða óeðlilegar arðgreiðslur, en ekki tala um einstök félög í því samhengi.
En er sjávarútvegur eitthvað frábrugðinn öðrum rekstri? Á ekki að reka hann á markaðslegum forsendum? Er það þannig að veiðigjald eigi að vera það hátt að best reknu sjávarútvegsfyrirtækin geti ekki greitt hluthöfum endurgjald af eign sinni? Er líklegt að einhver vilji fjárfesta í slíkum rekstri? Miðað við umræðuna mætti skilja vilja vinstri manna til að stilla veiðigjöldin þannig að best reknu fyrirtækin skili litlum sem engum arði til eiganda sinna en verst reknu fyrirtækjunum verði tryggður rekstur. Hvernig er það hægt og hver er þá hvatinn fyrir fjárfesta að leggja fé sitt í sjávarútveg?
Markaðsbúskapur í sjávarútvegi
Stjórnmálamenn verða að svara þeirri spurningu hvort þeir vilja reka sjávarútveg á markaðslegum forsendum eða félagslegum. Það er reyndar með ólíkindum ef kratar á Íslandi tala fyrir slíkum sósíalisma og skera sig þá algerlega frá skoðanabræðrum sínum á hinum norðurlöndunum. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum og nauðsynlegt að velja hvaða leið skuli farin, á ábyrgan hátt. Sú ákvörðun verður að byggja á því að hámarka heildarhag þjóðarinnar en ekki að snúast um hugmyndafræði eða lýðskrum.
Það eru til aðrar leiðir en sósíalismi til að dreifa fiskveiðiarði, ef það er rétt að kvótakerfið virki svo vel að um mikinn umframarð sé að ræða í greininni. Núverandi launakerfi sjómanna er einmitt gott dæmi um það,enda fer góð afkoma sjávarútvegsfyrirtækja og þeirra mjög vel saman. Það er gott að sjómenn hafi góð laun, enda besta leiðin til að dreifa umframhagnaði. Annað gott ráð væri að skikka stærri sjávarútvegsfyrirtæki til að fara á markað. Þannig geta allir sem hafa borð fyrir báru keypt hlut í þeim á réttu verði. Það yrði kærkomið tækifæri fyrir lífeyrisjóði að ávaxta lífeyri okkar almennings með góðri afkomu sjávarútvegs og eðlilegum arðgreiðslum til hluthafa. Þessi fyriræki voru flest á markaði en einhverra hluta vegna drógu þau sig út. Annar kostur er við þessa leið er að fyrirtæki í kauphöll þurfa að birta opinberlega reikninga sína ársfjórðungslega sem eykur verulega gegnsæi í rekstri þeirra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ingi Brandsson

"Í markaðshagkerfi þykir það eðlilegasta mál að hluthafar greiði sér arð af eign sinni.",   það er nefnilega svo að sjávarútvegsfyrirtækin eiga EKKI kvótann.

Það er skoðun mín að vissulega eigi að greiða arð af fjérfestingu, en það ætti að greiða jafn háa leigu fyrir kvótann.

Ólafur Ingi Brandsson, 5.12.2014 kl. 02:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband