26.6.2014 | 14:06
Frásögn í sjómannablaði Vesturlands I
Svanur ÍS 214 ferst út af Deild
Það var ágætis veður en þungt í sjóinn og töluverð snjókoma þegar Svanur ÍS 214 lagði upp í veiðiferð frá Súðavík 29. janúar 1969. Klukkan var níu um kvöldið og við stjórnvölinn var ungur öflugur skipstjóri, Örnólfur Grétar Hálfdánsson frá Bolungarvík. Hann var aðeins tuttugu og fjögurra ára og nýlega tekinn við sinni fyrstu skipstjórn. Spáin var frekar slæm og allra veðra von, en Svanurinn þótti traustur bátur á þeim tíma, rúmlega 100 tonna og gerður út á línu. Það voru fimm manns í áhöfn auk Grétars; Brynjólfur Bjarnason stýrimaður, Þórður Sigurðsson matsveinn, Jón Ragnarsson vélstjóri, Jóhann Alexandersson háseti og Kjartan Ragnarsson háseti. Stefnan var tekin í norður út frá Deild og byrjað að leggja upp úr miðnætti um 20 mílur frá landi.
Búið var að leggja línuna, 42 bala, um klukkan fjögur um morguninn og þá tekin baujuvakt. Það var byrjað að hvessa og orðið þungt í sjóinn og hitastigið komið niður fyrir tíu gráðu frost. Byrjað var að draga línuna um átta leytið og enn herti vindinn og fljótlega var kominn norðaustan stormur og töluverð ísing. Fullur af eldmóð stóð hinn ungi skipstjóri vaktina með stjakann til að ná þeim fiskum sem goggarinn missti af línunni og rak aftur með bátunum. Þannig gat hann staðið við brúarhurðina og snarað sér út til að ná í fiskinn sem datt af línunni. Grétar var orðin rennandi blautur enda gaf hressilega á bátinn og hann ekki klæddur í skjólfatnað.
Um tvöleytið var lokið við að draga og báturinn gerður sjóklár fyrir heimstím, skálkaðar lúgur og gengið frá öllu lauslegu. Að því loknu snaraði Grétar sér aftur í bestik, sem var aftan við brúna, til að hafa fataskipti enda orðin blautur og kaldur og þegar hér var komið var skollið á fárviðri. Þar sem hann stóð á nærfötunum einum fata, reið brot þvert yfir á bátinn framan til á bakborða, skellti honum á stjórnborðshliðina og færði hann á kaf. Grétar kastast fyrst í vegginn og endar síðan í kojunni. Sjór hafði komið inn um reykháfinn það drapst á vélinni og ljósin slokknuðu. Báturinn lá á hliðinni á bólakafi í sjó og mátti sjá grængolandi sjóinn utan við gluggana. Grétar gerði sér strax grein fyrir því að Svanurinn var að sökkva og með einhverjum hætti komst hann fram í stýrishúsið þar sem fjórir af áhöfninni voru saman komir en sem betur fer héldu allar rúður þannig að enginn sjór hafði komist þar inn. Hann skipar áhöfninni að fara upp á brúarþak og koma björgunarbátnum í sjóinn. Þegar Svanurinn kom úr kafi og réttir sig aðeins við, notuðu þeir tækifærið til að koma sér upp á brúarþak og losa um björgunarbátinn.
Grétar gerði sér nú grein fyrir að einn úr áhöfninni vantar en Kjartan var sofandi niður í káetunni undir brúnni. Enn var töluverður halli á bátnum en Grétar gat með einhverjum hætti komist niður með því að skríða með stiganum en erfitt var að athafna sig í myrkrinu. Kjartan hafði vaknað við brotið og kastast fram úr kojunni. Ný vaknaður og vissi ekkert hvað á sig stóð veðrið og vissi ekki hvað var upp né niður enda gekk hann á veggþilinu. Hann var algerlega ósjálfbjarga þegar Grétar ruddist inn í klefann hans og hjálpaði honum að komast upp í stýrishúsið. Grétar minnist þess hversu óraunverulegt og erfitt var að fóta sig í myrkri, í heimi sem var bæði á hreyfingu og upp á rönd. Honum tókst þó að koma þeim upp" í stýrishúsið þar sem hann greip með sér neyðartalstöð og rétti Jóni vélstjóra áður en þeir komu sér upp á brúarþakið. Hann hafði áður reynt að nota talstöð skipsins sem ekki virkaði vegna rafmagnsleysis.
Fljótlega voru þeir komnir til félaga sinna sem höfðu komið björgunarbátnum á flot og blásið hann upp. Ekki tókst betur til en svo að báturinn blés upp undir rekkverkinu á brúnni sem reif af þakið og gerði gat á neðra flotholtið. Grétar minnist þess ennþá að honum fannst allt í einu eins og sjórinn væri sléttur og varð varla var við að fárviðri geisaði og hitastigið var komið niður í mínus 12 gráður. Þeir komu sér um borð í það sem eftir var af björgunarbátum og en héldu ennþá stjóra við Svaninn.
Grétar gerði sér fljótlega grein fyrir að staða þeirra var vonlaus í rifnum björgunarbátnum og engin von til þess að halda lífi um borð í honum við þessar aðstæður. Hann vissi af öðrum björgunarbát í kistu fram undir hvalbak hjá skælettinu, en hann hafði nýlega komið honum þar fyrir. Þetta var lánsbátur þar sem þeirra bátur var í yfirhalningu og hafði hann þá stungið beittum hnífi með tjóðrinu, bleyttum í olíu til að verja hann ryði. Í þá daga var ekki sjálfvirkur sleppibúnaður og bátar því oft kyrfilega bundnir á sínum stað. Hann vissi að hann þyrfti að sækja bátinn ef þeir félagar ættu að eiga von á björgun úr þessum háska og hann minnist þess að áður en hann fleygði sér til sunds í ísköldum sjónum (2°C) sá hann að fyrstu tveir stafirnir í nafni Svansins á brúnni voru komnir á kaf í sjó vegna halla. Hann komst fram á hvalbakinn og án nokkurs hiks svipti hann kistulokinu af og þreifaði eftir hnífnum til að skera bátinn lausan. Honum tókst að koma bátnum upp úr kistunni og bisa honum aftur eftir skipshliðinni í átt að félögum sínum sem biðu í rifnum björgunarbátnum. Honum varð aftur litið á brúna og sá að nú var aðeins síðasti stafurinn í nafninu upp úr sjónum þannig að báturinn sökk hratt. Grétar minnist þess að hann hikaði aldrei við að sækja björgunarbátinn, hann taldi sig bera ábyrgð á áhöfninni og því enginn vafi í hans huga að honum bæri að gera þetta. Enginn tími var til hræðslu og því voru öll handtök æðrulaus og ákveðin.
Félagar hans tóku við hylkinu um borð í björgunarbátinn og slepptu tauginni sem bundu þá við Svaninn. Þegar þeir voru komnir frá hinu sökkvandi skipi blésu þeir upp björgunarbátinn og komu sér síðan um borð í hann. Það var myrkur og þreifandi bylur ásamt sjávarlöðrinu og þeir sáu augnablik grilla í Svaninn eftir að þeir slepptu sér lausum. Jóni vélstjóra hafði tekist að senda út neyðarkall en loftnetið á talstöðinni brotanaði af við hamaganginn við að komast á milli björgunarbáta þannig að þeir áttu erfitt með samskipti við hugsanleg björgunarskip. Um borð í bátunum voru m.a. þurr ullarföt sem Kvennadeild Slysavarnarfélags Súðavíkur hafði gefið í bátinn og hjálpaði það þeim mikið til að halda á sér hita. Þeir röðuðu sér vindmegin í bátinn þannig að rokið næði ekki undir hann á úfnum öldurtoppum og gæti þannig hvolft honum. Klukkan var rúmlega tvö og byrjað að bregða birtu.
Með loftnetið brotið gátu þeir látið vita af sér en heyrðu ekki í björgunarmönnum, þeir vissu þó að þeir höfðu náð neyðarkallinu og byrjað var að leita að þeim. Það veitti þeim mikla sálarró að vita af því, en þeir voru komnir um 24 mílur frá landi þegar brotið reið yfir, og ljóst að þeir myndu reka á haf út ef þeir fyndust ekki. Grétar rifjar það upp að allt hafi þetta tekið aðeins nokkrar mínútur og fram að þessum tíma hafði hann aldrei haft tíma til að verða hræddur. Menn fóru bara í þau verk sem þurfti að vinna til að komast af! Enginn tími til að velta neinu fyrir sér og markmið hins unga skipstjóra var að bjarga áhöfn sinni frá bráðri lífshættu og koma þeim öruggum heim til ástvina sinna. Við þessar aðstæður hlýða menn sínum skipstjóra og því voru öll handtök ákveðin og fumlaus.
Grétar veltir því fyrir sér hversu hratt Svanurinn sökk! Ekki hafði komið sjór í káetuna né brúnna en greinilegt var að sjór lak hratt í bátinn, enda sökk hann á nokkrum mínútum. Grétar trúir því að brotið hafi hreinlega rifið gat á skipið þannig að stór rúm, vélarrúm eða lest hafi fyllst af sjó á skömmum tíma. Hann telur að aðeins hafi liðið um tíu mínútur frá því að brotið reið yfir bátinn og hann var sokkinn í hafið.
Ullarfötin komu sér vel í kuldanum, en Grétar lét áhöfnina klæða sig í en sjálfur var hann fáklæddur og blautur. Vissan um að þeirra væri leitað var mikilvæg og þeir ríghéldu í vonina um björgun. Línubátar voru flestir á sjó þennan dag, þrátt fyrir slæma spá, þannig að töluverður floti byrjaði strax leit að þeim. Það dimmdi fljótt eftir að þeir komu um borð í björgunarbátinn og var skyggni lítið sem ekkert. Talstöðin gerði þeim kleift að fylgjast með leitinni en björgunarmenn virtust ekki heyra til þeirra, enda loftnetið brotið. Vistin var ömurleg og Grétar minnist þess hversu kalt honum var, illa klæddur og rennandi blautur. Þeim hafði tekist að blása upp botn bátsins sem einangraði þá frá ísköldum sjónum og gerði þeim mögulegt að þurrka botn hans. Grétar segir að andrúmsloftið um borð hafi verið sérstakt en þeir ræddu mikið sín á milli meðan þeir biðu björgunar. Þeir heyrðu allan tímann í leitarskipunum og gátu metið eftir styrk móttöku hvort þau voru að nálgast þá, en þeir gátu ekki látið í sér heyra. Jón, sem var nýlega kominn af björgunarnámskeiði, sá um neyðartalstöðina allan tímann.
Fljótlega var komið niðamyrkur, þreifandi bylur og kolvitlaust norðaustan fárviðri. Eftir um fimm tíma volk í bátnum sjá þeir allt í einu ljós og síðan birtist Sólrún ÍS 399 við hliðina á þeim. Grétar telur það einstakt að skipstjóra Sólrúnar skyldi takast að finna þá við þessar aðstæður, og í rauninni var þetta eins og að leita að nál í heystakk miðað við skyggni og veður. Þegar þeir fundust höfðu þeir rekið um 8-9 mílur í vestur.
Það var mögnuð stund þegar Sólrúnin birtist þeim og þá vissu þeir að þeim væri borgið. Báturinn hélt sjó í námunda við þá en áhöfnin treysti sér ekki til að taka þá um borð sökum veðurofsans og biðu eftir komu varðskipsins til að taka skipsbrotsmennina um borð til sín. Varðskipið Þór kom síðan upp að þeim á hléborða, en það var gert til að það myndi ekki velta ofaná björgunarbátinn og létu hann reka meðfram síðunni. Á síðunni var kaðalstigi og um leið og báturinn rann með síðunni greip Grétar kastlínu frá varðskipsmönnum og þeir drógu björgunarbátinn að stiganum. Grétar fór fyrstur til að prófa aðstæður og þrátt fyrir slæmt kal á höndum tókst honum að komast um borð. Allt gekk þetta vel þar til komið var að Þórði matsveini, en hann hafði farið úr axlalið í látunum við að komast í björgunarbátinn. En einhvernveginn tókst þetta allt og áður en varði voru þeir komnir í öruggt skjól um borð í Þór, þar sem þeirra beið heit sturta og þurr og hlý föt ásamt heitu kaffi.
Varðskipið skutlaði þeim til Ísafjarðar en bæði Óshlíðin og Súðavíkurhlíð voru lokaðar vegna snjókomu og veðurs. Þórður fór á sjúkrahús en Grétari var ekið heim til föðursystur sinnar upp á Sjónarhæð. Ekki var svo mikið sem litið á kalsárin, hvað þá að menn fengju áfallahjálp eftir hrikalega lífsreynslu.
Ljóst er að slík reynsla sem þessir menn gengu í gegn um þennan dag í janúarlok getur skilið eftir ör á sálinni. Einn úr áhöfninni hætti til sjós eftir slysið og annar var aldrei rólegur þegar brældi, þó sjómennska yrði hans lífsstarf. Grétari leið ekki vel á sjó fyrstu mánuðina eftir þetta sjóslys, en jafnaði sig þegar á leið. Hann gat hinsvegar ekki talað um þessa lífsreynslu sína fyrr en liðnir voru áratugir eftir slysið. Rétt er að taka því fram að Þórður matsveinn varð síðar tengdafaðir Grétars.
Lokaorð Grétars í þessu viðtali voru þau, að litið hefði verið til með þeim meðan á þessu gekk og þess vegna hafi þeir bjargast. Þegar hann var spurður hver hefði gert það var svarið stutt og laggott; Guð almáttugur"
Grétari voru veitt afreksverðlaun Sjómannadagsins í Reykjavík 1969 fyrir þetta björgunarafrek, enda talið að hugdirfska hans og snarræði hafi bjargað áhöfninni af Svani ÍS 214 frá Súðavík.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Facebook
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
- astromix
- ekg
- stefanbjarnason
- golli
- vikari
- gunnarpetur
- vestfirdir
- gudni-is
- ea
- ladyelin
- gp
- altice
- hjolaferd
- kaffi
- komediuleikhusid
- rabelai
- ziggi
- huldumenn
- helgi-sigmunds
- sigrunzanz
- hordurhalldorsson
- baldher
- hjaltisig
- lotta
- kjarri
- bjarnimax
- jovinsson
- smjattpatti
- eirmor
- vefritid
- saemi7
- siggisig
- maggij
- lehamzdr
- contact
- gauisig
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 21
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.