Verðmætasköpun í sjávarútveg

Velgengni íslensks sjávarútvegs

Í umræðu um sjávarútvegsmál er mikið rætt um að auðlindin sé eign þjóðarinnar, og reyndar tekið fram í lögum um fiskveiðistjórnun. Það er gott og vel, enda um grunnatvinnugrein Íslendinga að ræða og afkoma sjávarútvegs ræður miklu um efnahag og lífskjör þjóðarinnar. Það er því miður að umræða skuli ennþá vera í þeim farvegi  sem hún hefur haldist á undanfarna áratugi, og snýst ennþá  að miklu leyti um frasa og sleggjudóma um þá aðila sem starfa í greininni. Hluti þjóðarinnar sér ofsjónum yfir velgengni sjávarútvegs sem byggir á þeirri hagræðingu sem fiskveiðistjórnun hefur skilað síðan kvótakerfið var sett á 1984. Skipulag fiskveiða hafa gert Íslendinga fremsta í heiminum á sviði sjávarútvegs, með markaðsdrifna virðiskeðju og verðmætasköpun sem engin önnur atvinnugrein á Íslandi keppir við.

Framleiðni á Nýfundnalandi

Á Nýfundnalandi búa um tvöfalt fleiri íbúar en á Íslandi, og sjávarútvegur er þeirra undirstöðu- atvinnugrein. Sjávarútvegur þar skilaði um 90 milljörðum króna í útflutningsverðmæti árið 2012 og rúmlega 20.000 manns störfuðu við veiðar og vinnslu, svipaður fjöldi í hvoru um sig. Íslendingar fluttu út sjávarafurðir fyrir um 277 milljarða króna og í greininni störfuðu samtals um 9.000 manns. Ef þetta er borið saman þyrfti rúmlega 60.000 manns á Íslandi til að vinna þessi verðmæti miðað við sömu framleiðni. Reyndar hefðu þá fleiri vinnu við sjávarútveg, en allir Íslendingar væru umtalsvert fátækari. Staðreyndin er sú að íbúar Nýfundnalands fá helminginn af öllum rekstrarkostnaði samfélagsins sendan frá alríkisstjórninni í Ottawa, en Íslendingar hafa engan slíkan bakhjarl til að byggja á!

Markaðsdrifin virðiskeðja

Eitt af því sem mestu máli skiptir, fyrir utan fiskveiðistjórnun, er öflugt markaðstarf Íslendinga, sem byggir á gæðum; þar sem varan og afhendingaröryggi eru grundvallar atriði. Að afhenda vöruna eftir þörfum neytenda skapar auðlegð íslensks sjávarútvegs. Oft er talað um að íslenskur sjávarútvegur sé markaðsdrifinn en t.d. á Nýfundnalandi væri hann þá auðlindadrifinn. Margt bendir til þess að vestfirskur sjávarútvegur sé einmitt auðlindadrifinn og virðist standa höllum fæti miðað við meðaltal á Íslandi.

Gæðavandamál á norðanverðum Vestfjörðum

Um borð í Guðmundi EinarssyniGetur verið að hluti af því vandamáli endurspeglist í því mokfiskiríi sem dagróðrabátar hafa stundað á norðanverðum Vestfjörðum í sumar. Línubátar með þrjá menn á eru að róa með 48 bala og landa upp undir 20 tonnum á dag, stundum eftir að fara þurfti tvær ferðir af miðunum með aflann. Myndir hafa gengið á netinu af mokinu þar sem þessir menn eru að landa íslausum fiski í mjölpokum, og standa uppundir klof í fiskstabbanum. Þetta er hrollvekja sem minnir á gamlar myndir af netavertíð í Eyjum þar sem fiski var ekið á tún, enda stundaðar ólympískar veiðar og keppnin um tonnin í algeymi. Fjölmiðill eins og þetta góða blað (Fiskifréttir) talar um „Glæsilegt aflamet" hjá bátum, sem eru með meiri meðaltalsafla yfir mánuðinn en báturinn getur borið. Á þessu svæði róa menn með eitt ísker, um 400 kg af ís, til að kæla niður afla allt að 22 tonnum, og sjávarhiti er um 8-10°C. Fæstir þeirra eru með blóðgunarker um borð og því eru þeir að landa illa blóðguðum og ísuðum afla, sem er síðan slægður í dauðastirðnun.

 

 

Hugarfarsbreyting nauðsynleg

Það er langt síðan hugafarsbreyting varð um borð í togurum landsins þar sem keppst var við að landa sem flestum tonnum. Togarar í dag taka hæfilega stór höl, eru með mælitæki til að fylgjast með afla í veiðarfærum, og eru með fullkominn búnað til að blóðga og snöggkæla fiskinn þar sem gengið er frá honum í ker við fyrsta flokks aðstæður. Það ætti að vera okkar átaksverkefni, eiganda auðlindarinnar, að bæta hér úr og stöðva illa meðferð á afla. Mikilvægt er að fjölmiðlar taki þátt í þeirri hugarfarsbreytingu sem þarf til að stöðva illa meðferð á auðlindinni, sameign þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Þessi grein þín snýst um grundvallaratriði og það er svo margt í henni sem er alveg nauðsinlegt að kryfja til mergjar. Ég geri það ekki ,en langar að leggja til málana.

 Ótrúlega margir eru farnir að nota einfaldar setningar í stað rökréttra umræðu. T.d. "Fiskurinn er eign þjóðarinnar"

Sem er síðan notuð til þess að herja á best rekna atvinnuveg  þjóðarinnar.

"Krónan er ónýt." Í stað þess að tala um vitlausa, kerfislega samningagerð verkalíðsfélaga og dellu í rekstri ríkissins og fjármálafyrirtækja.

Fjölmiðlar sjá til þess að  landinn er afar illa upplýstur um afrek og þróun sjávarútvegs ,veiðar, vinnslu og sölu.

Þjóð sem ber þá gæfu að hafa undirstöðuatvinnuveg sem er vel arðbær og er fyrirmynd annara veiði þjóða.

 En almenningur þjóðarinnar er uppfullur af heilagri reiði vegna" helvítis  LÍÚ".

 Reiði sem byrjaði fyrir mörgum árum þegar  "GUGGAN  stolt Vestfirðinga var yfirtekin af helvítis SAMHERJA  á  AKUREYRI"

   Akureyringar er í raun afar stoltir af Samherja sínum en þora ekki að láta vita af því vegna umræðunnar.

 Skaup Ríkisútvarpssins var t.d. notað til að lísa framkvæmdastjóra fyrirtækissin sem terrorista. Algerlega að ósekju. 

Snorri Hansson, 27.7.2013 kl. 03:38

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Mér finnst merkilegt, ef að niðurstaðan sé að gott fiskirí sé orðið að vandamáli - Annars er ágætt að minna á það í þessari umræðu að togararnir eru þeir sömu og fyrir 30 árum - þetta eru meira og minna sömu skipin.

Vandi Vestfirðinga eru auðvitað atvinnuhöftin sem kvótakerfið hefur innleitt sem birtast m.a. með þeim hætti að þorskaflinn verður minni á næsta fiskveiðiári en hann var árið 1921.

Sigurjón Þórðarson, 27.7.2013 kl. 11:32

3 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

"...Verðmætasköpun sem engin önnur atvinnugrein á Íslandi keppir við..."

Mikið rétt, sjávarútvegurinn skapar mun meiri verðmæti með meiri arðsemi rekstrar en þekkist í öðrum atvinnugreinum á landinu.

Hvað veldur, fóru allir hæfustu rekstrarmennirnir til að verða framkvæmdastjórar sjávarútvegsfyrirtækja? Trúi hver sem vill.

Ef hæfni framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækja væri ástæðan myndi að sjálfsögðu vera mikil eftirspurn eftir þeim úr öðrum atvinnugreinum en svo er ekki ekki. Menn vita að ástæðan er allt önnur.

Það sem er sérstakt við sjávarútveg er að verið er að nýta verðmæta náttúruauðlind sem meira að segja greinarhöfundur viðurkennir að sé í eigu almennings.

Sumir segja að snilldin í kvótakerfinu sé ástæðan fyrir þessari miklu hagkvæmni. Hagkvæmnin í nýtingunni er reyndar betri en hjá flestum nágrannaþjóðum vegna kvótaframsalsins sem leiðir til þess að hægt er að taka aflann með færri skipum.

Það sem eftir stendur er hins vegar er að takmarkaður hópur útgerðarmanna nýtur þeirra sérréttinda að fá að nýta þessa auðlind landsmanna gegn gjaldi sem er einungis brot af markaðsverði. Hver heilvita maður sér að þetta kerfi er augljóst brot á jafnræðisákvæðum stjórnarskrárinnar. Sérréttindi til að nýta takmarkaða auðlind er hins vegar ávísun á mikil verðmæti á silfurfati.

Í raun ríkir ágætis sátt um það hvernig reka eigi sjávarútveg á Íslandi. Um 80% þjóðarinnar vill afnema gjafakvótana og að sérréttindi verði afnumin í veiðum með greiðslu markaðsverðs fyrir veiðikvóta.

Það sem strandar hins vegar á eru harðskeyttir sérhagsmunaaðilar með heilu stjórnmálaflokkana og fjölmiðla á sínum snærum sem beita öllu því afli sem peningar geta keypt til að viðhalda núverandi spillingarkerfi.

Um mikla hagsmuni fyrir almenning er að ræða, líkleg árleg auðlindarenta af fiskveiðum við Ísland er 30-50 miljarðar króna. Um sömu hagsmuni er að ræða fyrir miklu minni hóp núverandi útgerðarmanna sem er að fá þessa auðlindarentu á silfurfati.

Því miður hafa Íslendingar ekki enn borið gæfu til að velja sér alþingismenn sem hafa hugrekki til að takast á við þessa sérhagsmunaðila.

Finnur Hrafn Jónsson, 27.7.2013 kl. 12:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband