24.8.2012 | 07:46
Gengið úr Hattveri - þriðji dagur
Undirritaður svaf eins og steinn í tjaldinu þó undirlagið væri hart. Hann óttaðist hinsvegar að eins færi fyrir honum og Don Kíkóta vini sínum að eftir góðan svefn hyrfu töfrar ímyndaraflsins og hann vaknaði til raunveruleikans þar sem fegurð Fjallabaks yrði nokkuð jarðbundnari. Eftir að Riddarinn raunamæddi náði átta tíma svefni í fyrsta sinn í langan tíma rann af honum brjálæði ímyndunar. Heimurinn breyttist í raunveruleika grámyglulegur hversdagur tók við, sem lamaði lífsþróttinn og dró hann fljótlega til dauða. Skyldi raunveruleikinn reka fýrtommu á ská í sigurverk ferðalanga eftir góðan nætursvefn þar sem allt leystist upp í draumsýn?
En skrifari var enn með hýrri há og vaknaði í mjúkri moskulegri dagsbirtunni um sex leytið. Nú er það þannig að um leið og tjaldbúðir eru settar upp bíður tilbúið regluverk fyrir íbúana. Rauð skófla var sett á torgið milli tjalda til nota fyrir þá sem þurftu að tefla við páfann. Væri skóflan ekki á sínum stað var ljóst að einhver úr hópnum væri í miðri taflmennsku. Annað var að ekki mátti láta á sér kræla fyrr en klukkan sjö á morgnana. Þannig lá undirritaður meðan dagurinn rak nóttina á undan sér og aðeins lágvær svefngalsi heyrðist í samfélaginu. Þorði ekki að æmta né skræmta þar sem eiginkonan hélt honum á mottunni.
Eins og með taflmennskuna fer svefninn ekki í manngreiningarálit þar sem allir þurfa að hlaða batteríin í meðvitaleysi næturinnar. Að Fjallabaki eru nánast engin hljóð þar sem lítið er um fugla og einu ferfætlingarnir eru kindur, sem sofa með mannfólkinu. Allt í einu byrjar allt að lifna við og fyrst heyrist pískur í tjaldi og skömmu seinna rokna hávaði þegar syngur í rennilás. Einhver er kominn á stjá og búinn að opna tjaldið og eins og fyrir töfra fer kliður um tjaldbúðirnar á árbakkanum. Á örfáum mínútum fer svefndrukkið skvaldur um byggðina og nú er óhætt að drífa sig á fætur, sækja vatn og kveikja á prímus. Nú er allt komið á fulla ferð og allar hömlur teknar af árvökulum tjaldbúum og tveimur tímum seinna eru tjöldin kvödd og lagt af stað í skoðunarferð um Fjallabak.
Hafi skrifari óttast að töfrarnir hyrfu við nætursvefninn og færi fyrir honum eins riddaranum raunarmædda þá átti þessi dagur sem hér rann sitt skaut eftir að bæta um betur, þannig að syði á súðum framandleikans. Framundan voru ótrúleg ævintýri og upplifun á fegurð og undrum sem engin gat átt á vona á. En ekkert stórkostlegt fæst án fyrirhafnar og hér þarf að vaða jökulár, klifra upp brattar skriður, feta brún á snarbröttum hryggjum og klífa niður klettagil. Allt þó hættulaust þó ekki sé það heiglum hent.
Með Hattinn í kjölfarinu lagði hópurinn af stað í ævintýraför og fljótlega þurfti að vaða jökulána í Jökulgili þar sem stefnan var tekin á Sveinsgil til uppgöngu. Eftir að gengin var hryggur upp af gilinu blasti við fagurblár barmur hliðagils þar sem víða mátti sjá fyrningar umliðins vetrar. Enn var gengið á hryggjum þar sem litadýrð líparítsfjalla blasti við hvert sem litið var. Í fjarska mátti sjá Háskerðing með toppinn hulin skýslæðu og reykinn" úr Háuhverum. Eftir þurrt sumar var undirlagið þurrt og virkaði oft ótraust á snarbröttum brúnum hryggjanna. Hópurinn fetaði sig niður hrygginn alla leið niður að áreyrum í botni Sveinsgils og síðan upp annan hrygg til að sjá yfir í Jökulgilið. Þegar ritari kom upp á brúnina var hann sem bergnuminn og mátti ekki mæla um stund. Stórkostlegasta útsýni fyrr og síða blasti við þar sem Þrengslin liðuðust upp Jökulgilið, engu öðru lík. Það var líkt og vera komin á tökustað kvikmyndar þar sem höfundar vísindaskáldsögu höfðu farið fram úr sér við hönnun á landslagi á fjarlægri stjörnu. Hér verður ekki reynt að lýsa Þrengslunum þar sem slíkt er ekki hægt í orðum. Allavega ekki í óbundnu máli.
En fleiri undur og stórmerki biðu okkar skammt undan, handan næstu hæðar. Nokkuð sem engin er viðbúin að sjá nema efast um raunveruleikaskynið og jafnvel klípa sig til að sannfærast um meðvitund. Græni hryggurinn, sem fáir vissu um þar til fyrir örfáum árum, er einstakt náttúruundur. Hann liggur eins og risastór gota, wasabi grænn og við hliðina á honum er annar minni hryggur, kanil litaður. Hvað veldur öðrum eins undrum að líparítið taki á sig slíka furðu mynd er höfundi hulið. En þeirri hugmynd skýtur upp hvort þessi undur og stórmerki væru enn til ef svæðið væri ekki svo afskekkt og fáfarið sem raunin er. Fyrir aðeins þremur árum voru það aðeins fjársmalar sem höfðu barið hann augum, en engir ferðamenn áttu leið um þetta torfæra og vandrataða svæði. Maður sá fyrir sér Hörpuna fagur græna, múruð úr græna hryggnum. Þá hefði verið hægt að sletta kanillitnum á Þjóðmenningarhúsið og þar væri komin heilög þrenning með Þjóðleikhúsinu, sem er múrað upp úr hrafntinnu úr nágreninu.
Upplifun síðustu augnablika frá Þrengslum og Græna hryggnum blinda mann með nokkrum hætti. Ekkert í veröldinni gæti jafnast á við slíkt og verður sem hjóm í samanburði. Hafi guð tekið sér viku til að skapa heiminn hlýtur hann að hafa eytt sex dögum í Fjallabak. Svei mér ef hann hefur ekki verið á léttu sýrutrippi við gjörninginn.
En þrátt fyrir sterka upplifun var enn hægt að koma manni á óvart. Við klöngruðumst niður þröngt gil sem endar við brattan bakka Sveinskvíslar, sem hér þarf að vaða. Á leiðinni niður gilið má sjá vínrauðar slettur í hrauninu, engu líkara en tröll hafi misst rauðvínskút við klungrið og eðaldrykkurinn runnið niður gilið. Við bakkann rennur áin meðfram snarbröttum hömrum sem skarta rauðum, bláum, grænum, brúnum og gráum litum. Þrátt fyrir strauminn getur göngumaður ekki annað en stoppað til að líta við og njóta útsýnisins, meðan notalegt jökulvatnið kitlar gönguþreytta fætur og skolar burtu svita dagsins.
Þrátt fyrir að hafa lokið við langa og stranga göngu létu ferðamenn sig ekki muna að skreppa upp að hattinum fyrir kvöldmatinn. Reyndar kleif einn ofurhugi úr hópnum upp á hann en hinir létu sér nægja að ganga kringum hann og dást að ægifögru útsýninu. Það er merkilegt með hattinn að hann virkar stór úr fjarlægð en verður því minni sem nær dregur, öfugt við því sem vanalega er. Þegar komið var upp að honum var þetta orðin kollhúfa.
Eftir góðan snæðing settust ferðamenn niður til að segja sögur og hafa gaman af félagsskapnum. Menn kynnast fljótt í slíkum ferðum enda trúlegt að nokkuð einsleitur hópur sækist eftir þeim áskorunum sem felast í göngu um ótroðnar slóðir fjarri öllum lífsins þægindum. En hér sigrar kvöldið daginn og svefnsöm nóttin bíður ferðalanga sem hvílast til átaka næsta dags.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Gunnar Þórðarson
Tenglar
Hallgrímur bláskór 2012
- Gengiðr úr Hornvík í Kjaransvík
- Kjaransvík - Sæból
- GEngið á Ryt og Darra
- Gengið á Straumnesfjall
- Gengið á brúnir Grænuhlíðar
Smölun í Austurdal
- Austurdalur -2010 Dagur 1 Smölun í hinum ægifargra Austurdal suður af Skagafirði
- Austurdalur - 2010 Dagur 2 Annar dagur smalamensku í Austurdal í Skagafirði
- Austurdalur -2010 Dagur 3 Lokadagur smölunar fyrir Austudalsfélagið í Skagafirði
- Föstudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Laugardagur í Austurdal 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Sunnurdagur í Austurdal - 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
- Mánudagur 2011 Smalaferð Göngumannafélags Austurdals í september 2011
Skútukaupin 1976
Við félagarir, undirritarðu, Jón Grímsson og Hjalti Þrórðarson keyptum skútu í Bretlandi og sigldum henni heim til Íslands
- Kafli 1 - Skútukaupin undirbúin
- Kafli 2 - England
- Kafli 3 - lagt í siglinguna miklu
- Kafli 4 - Captain Thordarson
- Kafli 5 - Siglt í norður
- Kafli 6 - Færeyjar - Ísland
- Kafli 7 - Siglt til Ísafjarðar
Ísrael 1974
Sagt frá ævintýri okkar Stínu, Nonna Gríms og Hjalta Bróður þegar við ókum yfir Evrópu 1974. Fórum frá Aþenu til ísrael og unnum þar á samyrkjubúi.
- Kafli 1 - Mótorhjólagengið
- Kafli 2 - Júgóslavía, Grikkland og Ísrael
- Kafli 3 - Á kibbutz undir Gólanhæðum
- Kafli 4 - Í kjölfar árásarinnar
- Kafli 6 - Maðurinn með ljáinn
- Kafli 5 - Endurfundir
- Kafli 7 - Frá rauðu ljósi í Milanó
- Kafli 8 - Fjölskyldu og varnarmál
- Kafli 9 - Vinna í Elat
- Kafli 10 - Daglegt líf á Shamir
- Kafli 11 - Til Grikklands
- Kafli 12 - Sögulok í London
Að Fjallabaki 2012
Suður um höfin 1979
Frá ferðalagi okkar Stínu á seglskútunni Bonny frá Ísafirði til Mallorca í Miðjarðarhafi
Sigling frá Mallorka til Grikklands
- Kafli 1 - lagt af stað til Ítalíu Fimm félagar sigldu Bonny frá Spánar til Grikklands
- Kafli 2 - Sikiley og Grikkland
- Kafli 3 - Kea og Paros
- Kafli 4 - Santorini
Safaríferð í Úganda
- Ferð til Murchison Falls - fyrri hluti Safaríferð inn í frumskóg Úganda
- Ferð til Murchison Falls - seinni hluti
Hálendisferð 2010
- Gengið á Fimmvörðuháls Eldstöðvar Fimmvörðuháls skoðaðar
- Skaftafell og Kristínartindar Gengið á Kristínartinda
- Gengið á Mælifell Ekið Fjallabak syðra norður fyrir Mýrdalsjökul
- Friðland að Fjallabaki Gengið um við Landmannalaugar
- Gengið á Löðmund Gengið á Löðmund við Dómadal
- Gengið á Snæfell Gengið á hæsta fjall Íslands utan jökla, Snæfell
- Gengið í Geldingarfell Ferð um Lónsörævi með frábærum hópi, sumarið 2010
- Gengið í Egilssel Gengið úr Geldingafelli í Egilssel við Lónsöræfi
- Gengið niður Lónsöræfi Þriggja daga göngu norðan og austan Vatnajökuls lokið
Sri Lanka 2007
- Sri Lanka 2006-2008 Starfað á Sri Lanka
Bloggvinir
- astromix
- ekg
- stefanbjarnason
- golli
- vikari
- gunnarpetur
- vestfirdir
- gudni-is
- ea
- ladyelin
- gp
- altice
- hjolaferd
- kaffi
- komediuleikhusid
- rabelai
- ziggi
- huldumenn
- helgi-sigmunds
- sigrunzanz
- hordurhalldorsson
- baldher
- hjaltisig
- lotta
- kjarri
- bjarnimax
- jovinsson
- smjattpatti
- eirmor
- vefritid
- saemi7
- siggisig
- maggij
- lehamzdr
- contact
- gauisig
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 22
- Frá upphafi: 285605
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Skemmtilegur lestur, Gunnar. Myndirnar líka. Takk, með kveðju frá malbikinu.
Ívar Pálsson, 27.8.2012 kl. 17:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.