Sátt í sjávarútvegi - grein úr Fiskifréttum

 

Á fundi með atvinnumálaráðherra á vordögum, Steingrími Sigfússyni, kom fram hversu erfitt honum reyndist að ná fram „sátt" um frumvörp um fiskveiðistjórnun í sínum hópi. Forsætisráðherra hefur síðan ítrekað lýst yfir ánægju sinni með að ríkisstjórnin hafi náð „sátt" um sjávarútveginn, sem byggi á framlögðum frumvörpum. Annað frumvarpið um auðlindagjald er nú orðið að lögum, en hitt bíður haustþingsins og snýr að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Það sem vantar inn í málflutning ríkisstjórnarinnar er að sáttin er bundin við þá sem lengst eru til vinstri í pólitík, en þeir sem trúa á einstaklingsframtak, markaðahagkerfi og hámörkun verðmætasköpunar eru ósáttir; sem er meirihluti landsmanna!

Enginn sáttarvilji

Enginn vilji hefur verið til sátta hjá þessari ríkisstjórn, þó hér sé um grundvallarmál að ræða, sem hefur veruleg áhrif á efnahagslega afkomu þjóðarinnar. Ekki var byggt á samningaleið sem lögð var til af fulltrúum allra stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila. Ekki var tekið mark á sérfræðingum og álitsgjöfum sem kallaðir voru til að meta hagræn áhrif þeirra breytinga sem felast í frumvörpunum. Ekki hefur verið hlustað á erlenda sérfræðinga né fulltrúa sveitafélaga og alls ekki hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Sem nánast allir tala gegn þeim breytingum sem ríkisstjórnin hyggst gera á fiskveiðikerfinu, bæði með óhóflegu auðlindagjaldi og öðrum breytingum sem dregur verulega úr verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Fiskveiðirentan

Það er vonandi rétt að Íslendingum hafi tekist með góðu fiskveiðistjórnunarkerfi að skapa rentu sem er umfram eðlilega arðsemi í greininni. Reyndar er það einsdæmi í heiminum og sýnir þá betur en nokkuð annað að við erum á réttri leið við stjórnun fiskveiða. Það eru því undarleg stefna að færa íslenskan sjávarútveg aftur til ríkisafskipta með ofurskattlagningu og draga úr skilvirkni og arðsemi með ráðstjórn.

Sé ofurarður í Íslenskum sjávarútvegi þarf að ræða með hvaða hætti skuli bregðast við því. Til að dreifa slíkum arði er eðlilegast að skoða kjör þeirra sem vinna við greinina. Ljóst er að sjómenn hafa það gott þar sem launin eru bundin aflahlutdeild og því hafa þeir notið góðs af góðu markaðsástandi og lágu gengi krónunnar. Hinsvegar hefur fiskvinnslufólk orðið útundan og launum haldið niðri með ódýru vinnuafli frá austur Evrópu. Laun og önnur kjör fiskvinnslufólks er ekki í neinu samræmi við það sem þekkist t.d. í áliðnaði þar sem mannauðsstjórnun er áratugum á undan. Breytt viðhorf í þróuðum tæknigreinum til mannauðsstjórnunar kemur ekki til af góðmennsku heldur borgar sig til lengri tíma litið.

Tækifæri framtíðar

Miklar framfarir gætu verið framundan í Íslenskri fiskvinnslu þar sem verkamannastörf (ófaglærðir) munu víkja fyrir tæknimenntuðu vinnuafli. Fái íslenskur sjávarútvegur svigrúm til að stunda rannsóknir og þróun og fjárfesta í tækniþekkingu og mannauð mun hann enn auka við samkeppnisforskot sitt. Hærri laun munu því ekki bara auka kostnað, og dreifa fiskveiðiarði, heldur bæta samkeppnishæfni til lengri tíma litið. Hærra menntunarstig og bætt launakjör í fiskvinnslu er það sem fiskveiðisamfélög þurfa til að blómstra í framtíðinni.

Sátt til framtíðar

Ef fiskveiðiarður verður ennþá „vandamál" þegar laun hafa verið hækkuð væri hægt að setja hluta af þeim arði í samkeppnissjóði til að styðja við nýsköpun og markaðsmál. Fiskveiðiauðlindin er þjóðareign og því skiptir það Íslendinga máli að fara eins vel með hana og mögulegt er. Draga þarf úr óhagkvæmni sem fylgir t.d strandveiðum, byggðakvótum og línuívilnun. Vilji menn nota fiskveiðiauðlindina sem tæki fyrir byggðastefnu þarf að finna aðferðir sem kosta minni sóun. Styrkja þarf fiskveiðisamfélög og tryggja verðmætasköpun í sjávarútvegi með aukinni menntun og nýsköpun. Um það ætti sáttin í samfélaginu að snúast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband